Hæstiréttur íslands
Mál nr. 713/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Gjöf
- Riftun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. ágúst 2015. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. september 2015 og áfrýjaði hún öðru sinni 20. október sama ár. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að fjárkrafa hans verði lækkuð. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins gerði Sláturhús Hellu hf. fjárnám 4. apríl 2011 hjá eiginmanni áfrýjanda, Hauki Hjaltasyni, fyrir skuld að höfuðstól 7.685.116 krónur, sem var sögð nema samtals 10.247.483 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Fjárnám var meðal annars gert í eignarhlut Hauks í fasteign að Efri-Reykjum í Bláskógabyggð, auðkenndri sem lóð 1 með tilteknu fastanúmeri, en þetta mun vera sumarhús, sem Haukur og áfrýjandi áttu að helmingi hvort. Haukur gerði 3. apríl 2012 samkomulag við þennan kröfuhafa um uppgjör skuldar sinnar. Í samkomulaginu var tekið fram að Haukur hafi tvívegis greitt inn á skuldina, annars vegar 1.000.000 krónur 29. ágúst 2011 og hins vegar 1.500.000 krónur 9. mars 2012. Við undirritun þess myndi hann gera hana upp með því að inna af hendi 5.250.000 krónur ásamt því að lýsa yfir að hann gerði ekki tilkall til tveggja tilgreindra tækja, sem kröfuhafinn hafi haft til afnota en Haukur talið tilheyra sér. Eins og málið liggur fyrir virðist óumdeilt að skuldin hafi verið greidd á þennan hátt. Í framhaldi af þessu gaf Haukur út afsal til áfrýjanda 23. apríl 2012 fyrir helmingshlut sínum í fasteigninni án þess að kaupsamningur hafi áður verið gerður um hann. Í afsalinu sagði ekkert um kaupverð eða greiðslu þess, en það var afhent til þinglýsingar 18. maí 2012 og innfært í fasteignabók 21. sama mánaðar. Samkvæmt kröfu Landsbankans hf. var bú Hauks tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 4. apríl 2013, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 23. sama mánaðar í máli nr. 256/2013, en frestdagur við skiptin mun vera 18. október 2012. Stefndi höfðaði mál þetta 6. desember 2013. Í endanlegri kröfugerð hans fyrir héraðsdómi var þess krafist að framangreindri ráðstöfun Hauks til áfrýjanda yrði rift og henni gert að greiða stefnda 14.035.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. maí 2012 til 9. janúar 2014, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar. Kröfuna um riftun reisti stefndi aðallega á 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara 141. gr. sömu laga.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi byggir áfrýjandi aðalkröfu sína um sýknu á því að áðurgreint afsal Hauks fyrir helmingi fasteignarinnar hafi ekki falið í sér gjöf, heldur hafi orðið að samkomulagi milli þeirra að áfrýjandi lánaði Hauki fé til að gera upp skuld hans við Sláturhús Hellu hf. og komast þannig hjá nauðungarsölu eignarinnar, en að uppgjöri loknu fengi áfrýjandi afsal fyrir helmingshlut Hauks í henni. Í þessu skyni hafi áfrýjandi millifært af eigin bankareikningi inn á reikning Hauks 3.200.000 krónur 27. júlí 2011, 1.000.000 krónur 29. ágúst sama ár og 1.000.000 krónur 1. febrúar 2012, en að auki hafi hún tekið 2.600.000 krónur í peningum af reikningi sínum 14. september 2011 og afhent þá Hauki. Um þessar röksemdir áfrýjanda er þess að gæta að í framlagðri kvittun fyrir fyrstu millifærslunni var tekið fram í reit fyrir skýringu að um væri að ræða „lán 20. sept. 2011“ og í kvittun fyrir þeirri næstu að hún væri „lán“, en engin skýring var tilgreind í kvittun fyrir þeirri þriðju. Þá liggur fyrir kvittun fyrir útborgun á 2.600.000 krónum af reikningi áfrýjanda 14. september 2011, en kvittunin ber ekki annað með sér en að féð hafi verið greitt út með peningum og kemur þar ekkert fram um hvað hafi síðan verið gert við þá. Samkvæmt þessu má sjá að Haukur virðist hafa innt af hendi greiðslu að fjárhæð 1.000.000 krónur inn á skuld sína við Sláturhús Hellu hf. 29. ágúst 2011, en þann dag millifærði áfrýjandi sömu fjárhæð á bankareikning hans með framangreindri skýringu. Að þessu frátöldu tengdust millifærslur frá áfrýjanda til Hauks eða úttekt hennar á fyrrnefndri fjárhæð í peningum á engan hátt greiðslum hans á skuldinni, hvorki að því er varðar dagsetningar né fjárhæðir, en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að háar fjárhæðir hafi að öðru leyti farið um bankareikninga Hauks á þessu tímabili. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að líta verði svo á að afsal Hauks til áfrýjanda fyrir helmingshlut í fasteigninni hafi falið í sér gjafagerning í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og telst gjöfin hafa verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sbr. 140. gr. sömu laga. Er því fullnægt skilyrðum þessara lagaákvæða til að rifta þeirri ráðstöfun. Ekki eru efni til annars en að líta svo á að áfrýjanda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og verður því samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 orðið við kröfu stefnda um að áfrýjanda verði gert að greiða af þessu tilefni tjónsbætur.
Stefndi hefur miðað fjárkröfu sína á hendur áfrýjanda við fasteignamatsverð eignarinnar að Efri-Reykjum eftir framlögðu skattframtali hennar og Hauks 2013, en samkvæmt því var fasteignamatsverð eignarinnar allrar 28.070.000 krónur í árslok 2012. Því til samræmis krefst stefndi þess að áfrýjanda verði gert að greiða helming þeirrar fjárhæðar eða 14.035.000 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal fasteignamatsverð eignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, enda taki hún gildi á tímabilinu 31. desember til loka febrúarmánaðar. Að þessu virtu verður að líta svo á að fasteignamatsverðið, sem stefndi byggir kröfu sína á, hafi tekið mið af ætluðu gangverði eignarinnar að Efri-Reykjum í febrúar 2012. Áfrýjandi hefur ekki hnekkt því með matsgerð dómkvadds manns að þetta matsverð sé tækur mælikvarði á gangverði eignarinnar á þeim tíma, sem Haukur afsalaði helmingi hennar til áfrýjanda, en í því sambandi getur gegn andmælum stefnda engu breytt verðmat fasteignasala á markaðsverði eignarinnar á fyrsta fjórðungi ársins 2011, sem áfrýjandi lagði fram í héraði, þó svo að hlutaðeigandi fasteignasali hafi komið fyrir dóm eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms og staðfest verðmat sitt.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi meðal annars borið fyrir sig að hvað sem öðru líði eigi að lækka fjárhæð kröfu stefnda sökum skuldajafnaðar á kröfu hennar á hendur honum að fjárhæð 7.800.000 krónur vegna áðurnefndra fjögurra greiðslna til Hauks á árunum 2011 og 2012. Þessa málsástæðu hafði áfrýjandi ekki uppi í héraði og verður henni ekki komið að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu getur þessi málsástæða engu breytt við úrlausn málsins.
Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Rift er gjafagerningi, sem fólst í afsali Hauks Hjaltasonar 23. apríl 2012 til áfrýjanda, Þórdísar Jónsdóttur, fyrir helmingi fasteignarinnar Efri-Reykja, lóð 1, í Bláskógabyggð.
Áfrýjandi greiði stefnda, þrotabúi Hauks Hjaltasonar, 14.035.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. maí 2012 til 9. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2015.
Mál þetta, sem var höfðað 6. desember 2013 og þingfest 9. janúar 2014, var dómtekið 6. maí sl. Stefnandi er þrotabú Hauks Hjaltasonar, kt. [...], Stigahlíð 60, Reykjavík. Stefnda er Þórdís Jónsdóttir, kt. [...], Stigahlíð 60, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi
Að rift verði með dómi ráðstöfun þrotamanns, Hauks Hjaltasonar, til handa stefndu að andvirði 14.035.000 krónur, sem fram fór þann 18. maí 2012 með framsali og afhendingu þrotamanns til stefndu á 50% eignarhlut í fasteigninni að Efri-Reykjum, lóð 1, Bláskógabyggð, fastanúmer 220-5379. Stefnda greiði stefnanda 14.035.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingar frá 18. maí 2012 til 9. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig greiðslu málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu að mati dómsins og að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefndu eru eftirfarandi
Að stefnda verði sýknuð af kröfu stefnanda í málinu. Til vara, ef fallist verður á riftun og fjárkrafa stefnanda kemur til álita, krefst stefnda þess að fjárkrafan verði lækkuð verulega. Stefnda krefst þess einnig að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda verði fallist á sýknukröfu. Til vara krefst stefnda þess að málskostnaður verði felldur niður.
Í þinghaldi 27. október sl. féll stefnandi frá stefnukröfu sem laut að ráðstöfun þrotamannsins Hauks Hjaltasonar á eignarhlut sínum í fasteigninni að Stigahlíð 60, Reykjavík, til stefndu.
I Atvik og ágreiningsefni
Bú Hauks Hjaltasonar, hér eftir nefndur þrotamaður, var tekið til gjaldþrotaskipta 4. apríl 2013 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli kröfu Landsbankans hf. um gjaldþrotaskipti sem barst dóminum 18. október 2012. Óumdeilt er að sá dagur telst frestdagur. Árangurslaus löggeymsla hafði verið gerð í búi Hauks Hjaltasonar 12. október 2012. Auglýsing um innköllun til kröfuhafa var birt í Lögbirtingablaðinu, fyrra sinn þann 11. apríl 2013 og lauk kröfulýsingarfresti 11. júní sama ár. Skiptafundur til umfjöllunnar um lýstar kröfur við skiptin var haldinn 20. júní s.á. Heildarfjárhæð lýstra krafna nam rúmlega 400 milljónum kr.
Í stefnu er því lýst að við könnun skiptastjóra á ráðstöfunum þrotamanns, hafi komið í ljós að þrotamaður hafi ráðstafað til stefndu, eiginkonur sinnar, eign án þess að fyrir hafi komið nokkurt gagngjald. Í máli þessu er deilt um lögmæti framsals þrotamanns til stefndu á helmingseignarhlut í sumarbústað þeirra hjóna að Efri Reykjum í Bláskógabyggð, fastanúmer 220-5379. Nánar tiltekið liggur fyrir afsal dagsett 23. apríl 2012 þar sem þrotamaður afsalar til stefndu 50% eignarhlut sínum í fasteigninni til fullrar eignar og umráða. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 18. maí sama ár. Samkvæmt skráningu eignarinnar í fasteignaskrá er um að ræða 100 m² sumarbústað ásamt 39,6 m² baðhúsi.
Stefnandi telur að um hafi verið að ræða augljósan gjafagerning til nákomins aðila sem hafi verið kröfuhafa til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt. Því beri að rifta ráðstöfuninni og gera stefndu að greiða tjónsbætur í samræmi við stefnukröfur í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Stefnda mótmælir þessu. Hún kveðst hafa keypt eignarhlutann og greitt fyrir hann með því að gera upp kröfu sem Sláturhúsið á Hellu hf. hafi átt á þrotamann/stefnanda. Þann 4. apríl 2011 hafi Sláturhúsið gert fjárnám í sumarbústaðnum vegna kröfunnar. Eins og fram kemur í endurriti úr gerðarbók nam höfuðstólsfjárhæð fjárhæð kröfunnar 7.685.116 krónum. Í kjölfarið hafi þrotamaður leitað til stefndu með það fyrir augum að hún keypti af honum eignarhlutann í sumarhúsinu til að hann gæti með því móti greitt upp skuldbindingu sína gagnvart Sláturhúsinu. Stefnda kveðst hafa keypt eignarhlutann og greitt fyrir hann 7.800.000 krónur sem hún hafi lagt inn á reikning stefnanda á tímabilinu 27. júlí 2011 til 1. febrúar 2012. Umdeild ráðstöfun þrotamanns á eignarhlutanum í sumarbústað þeirra hjóna til stefndu hafi því ekki falið í sér gjafagerning og sé ekki riftanleg ráðstöfun í skilningi 131. gr. laga nr. 21/2991. Þá sé hún heldur ekki ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. sömu laga.
II Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir á því að ekkert gagngjald hafi verið innt af hendi fyrir hinn framselda eignarhlut. Enginn kaupsamningur hafi verið gerður milli aðila og ekkert kaupverð tilgreint í afsalinu frá 23. apríl 2012. Samkvæmt veðbókarvottorði fasteignarinnar hafi hvorki verið áhvílandi veðskuldir né aðrar tryggingar. Stefnda hafi verið eiginkona þrotamanns og því nákomin honum sbr. 1. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991. Því hafi augljóslega verið um að ræða gjöf þrotamanns til nákomins aðila.
Samkvæmt skattframtali þrotamanns og stefndu 2013 fyrir árið 2012 hafi fasteignamat eignarinnar verið 28.070.000 krónur en engar veðskuldir eða aðrar tryggingar verið áhvílandi. Helmingshlutur þrotamanns hafi því a.m.k. verið að verðmæti 14.035.000 krónur.
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Reglan sé hlutlæg og því megi huglæg afstaða þeirra sem staðið hafi að ráðstöfuninni einu gilda. Regla 3. mgr. 131. gr. sem undanskilur tækifærisgjafir og því um líkt, geti ekki átt við um þá gjöf sem hér sé til skoðunar enda um að ræða veruleg verðmæti sem ekki hafi verið í neinum takti við fjárhag þrotamanns á þeim tíma er gjöfin hafi verið afhent. Jafnframt sé til þess að líta að þrotamaður og stefnda voru nákomnir aðilar. Stefnandi byggir á því að umræddu framsali þrotamanns á 50% eignarhlut sínum í fasteigninni að Efri-Reykjum, skuli rift á grundvelli 3. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 en hann telur þó reglu 141. gr. sömu laga einnig eiga við um framsalið og er krafa hans um riftun einnig reist á þeirri reglu. Því til stuðnings vísar stefnandi til fyrri umfjöllunar „að breyttu breytanda“.
Þá telur stefnandi að samkvæmt 140. gr. laga nr. 21/1991 beri að miða við að framsalið hafi átt sér stað 18. maí 2012 þótt afsalið hafi verið dagsett fyrr, en reglan kveði á um að tímamark ráðstafana skuli miðast við þinglýsingu eða aðrar tryggingarráðstafanir
Fjárkrafa stefnanda er á því byggð að stefndu beri að greiða honum tjónsbætur vegna hinnar riftanlegu ráðstöfunar á sumarhúsinu sem nemi verðmæti hinnar framseldu eignar. Stefnandi vísar um það til lokamálsliðar 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir fjártjóni sem nemi andvirði ráðstöfunarinnar. Hefði hún ekki átt sér stað hefðu fjármunirnir sem var ráðstafað nýst stefnanda til úthlutunar upp í lýstar kröfur í þrotabú þrotamanns. Jafnframt vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins.
Það sé engum vafa undirorpið að stefndu hafi verið fullkunnugt um riftanleika þeirrar ráðstöfunar á bústaðnum að Efri-Reykjum og því beri að dæma hana til greiðslu tjónsbóta, sbr. lokamálslið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 91/1991.
Verði ekki fallist á að stefndu hafi verið kunnugt um riftanleika framsals sumarbústaðarins að Efri-Reykjum vísar stefnandi til fyrsta málsliðar 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sem leiði til sömu fjárkröfu vegna þeirrar ráðstöfunar. Stefnandi byggir á því að sú ráðstöfun hafi komið stefndu að sömu notum og svarar til andvirðis hennar, enda um að tefla fasteign sem hafið viðhaldið verðgildi sínu og gott betur. Stefnda beri sönnunarbyrðina fyrir því að ráðstafanirnar hafi komið henni að minni notum eða leitt til minna tjóns.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að tjón stefnanda vegna ráðstöfunar fasteignarinnar að Efri-Reykjum sé 14.035.000 krónur, sbr. skattframtal aðila árið 2013. Samkvæmt 2. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 ber að greiða þrotabúi þann hagnað sem fæst eftir að riftunarmál er höfðað.
Stefnandi krefst skaðabótavaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá framsali hvorrar eignar en þá áttu hin bótaskyldu atvik sér stað í skilningi ákvæðisins. Þá krefst hann einnig dráttarvaxta af fjárhæðum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. enn fremur 9. gr. laganna.
Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 32. gr. laganna.
Krafa stefndu um sýknu byggist á því að umdeild eignarréttaryfirfærsla frá þrotamanni til stefndu, þ.e. lögskipti þeirra með 50% eignarhlut í sumarhúsinu að Efri-Reykjum, hafi ekki falið í sér gjafagerning. Stefnda segir að forsögu ráðstöfunarinnar megi rekja til þess að Dreifing ehf. gaf þann 6. júní 2008 út skuldabréf til Skúlagötu 30 ehf. að fjárhæð 8.000.000 króna og hafi stefnandi (þrotamaður) gengist í sjálfsskuldaábyrgð á réttum efndum skuldabréfsins. Bréfið hafi síðan verið framselt þann 10. október 2008 til Sláturhússins Hellu ehf. Dreifing ehf. hafi ekki staðið í skilum með afborganir sem hafi leitt til fjárnáms Sláturhússins Hellu í eignarhluta stefnanda í sumarhúsi þeirra. Þrotamaður hafi leitað til stefndu um að hún keypti af honum eignarhlutinn í sumarhúsinu til að hann gæti greitt upp kröfu sína við Sláturhúsið.
Stefnda kveðst hafa samþykkt að greiða skuldina við Sláturhúsið á Hellu gegn því að stefnandi afsalaði eignarhlut sínum í sumarhúsinu til hennar. Stefnda kveðst, eins og áður sagði, hafa greitt stefnda 7.800.000 krónur inn á reikning stefnanda á tímabilinu 27. júlí 2011 til 1. febrúar 2012. Þessar greiðslur séu í samræmi við skriflegt samkomulag sem gert hafi verið við Sláturhúsið á Hellu um lúkningu skuldarinnar. Af því megi ráða að skuldin hafi verið gerð upp annars vegar með greiðslum frá stefnanda, vegna framangreindra lána frá stefndu, og hins vegar með því að stefnandi hafi framselt rétt sinn vegna tiltekinna tækja til sláturhússins, samtals að verðmæti 4.000.000 króna. Í kjölfar samkomulagsins hafi stefnandi afsalað, líkt og um hafi verið samið, 50% eignarhlut sínum í umræddu sumarhúsi með afsali dagsettu 23. apríl 2012.
Af framagreindu megi ráða að stefnandi hafi aldrei fengið neitt fé að gjöf frá stefndu. Gjafatilgangur sé því augljóslega ekki fyrir hendi og riftun því ekki reist á 131. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem andvirði hafi komið fyrir hina ætluðu gjöf sé ekki um að ræða riftanlega ráðstöfun í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Um hafi verið að ræða yfirfærslu á verðmætum sem byggðust á viðskiptalegum forsendum og gjafatilangur því ekki til staðar. Litið hafi verið svo á að gjafahugtak 131. gr. laga nr. 21/1991 hafi að geyma þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldarans, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Ekkert af þessum skilyrðum sé fyrir hendi.
Stefnda mótmælir einnig þeirri málsástæðu stefnanda að framsal á umræddum eignarhluta sé einnig riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Þessi málsástæða sé ekki studd öðrum rökum en þeim að vísað er til „fyrri umfjöllunar að breyttu breytanda“ eins og segi í stefnu. Með vísan til þess sem að framan er rakið hafnar stefnda því að viðskiptin með 50% eignarhluta í sumarhúsinu hafi falið í sér ótilhlýðilega ráðstöfun í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Hvergi í stefnu séu lögð fram nein rök fyrir málsástæðu þessari og engin framlögð sönnunargögn sanni hana. Stefnda telur að þessi þáttur málsins sé með öllu ósannaður og í raun vanreifaður af hálfu stefnanda. Engin skilyrði séu til þess að rifta umræddum viðskiptum á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.
Ef fallist veður á að rifta megi umdeildum viðskiptum krefst stefnda þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefnandi hafi ekkert lagt fram í málinu um raunverulegt virði eignarhluta sumarhússins. Sönnunarbyrði um umfang ætlaðs tjóns hvíli á stefnanda og ekki stoði fyrir stefnanda að vísa eingöngu til fasteignamats.
Stefnda mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda, þar á meðal upphafstíma.
Varðandi málskostnað krefst stefnda málskostnaðar bæði í því tilviki ef stefndi verður sýknaður og eins ef krafan verður tekin til greina að takmörkuðu leyti.
III Forsendur og niðurstöður
Ágreiningur aðila snýst um það hvort skilyrði séu til riftunar á framsali þrotamanns/Hauks Hjaltasonar á eignarhlut sínum í fasteigninni að Efri-Reykjum, til eiginkonu sinnar, stefndu, sbr. afsal dagsett 23. apríl 2012 og mótteknu til þinglýsingar 18. maí. Kaupsamningur var var ekki gerður um eignarhlutann í sumarhúsinu og kaupverð er heldur ekki tilgreint í afsalinu. Eins og rakið hefur verið heldur stefnda því fram að hún hafi samþykkt að greiða skuld Hauks við Sláturhúsið á Hellu ehf. gegn því að hann afsalaði eignarhlut sínum í sumarhúsinu til hennar. Þetta hafi þau sammælst um eftir að fjárnám var gert í eignarhluta stefnanda í sumarhúsinu þann 4. apríl 2011 að kröfu Sláturhússins, samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi sem Haukur hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Í greinargerð stefndu er því haldið fram að stefnda hafi samtals greitt 7,8 milljónir inn á reikning stefnanda á tímabilinu 27. júlí 2011 til 1. febrúar 2012 í samræmi við skriflegt samkomulag sem Haukur gerði við Sláturhúsið á Hellu ehf.
Í samkomulaginu, sem er dagsett 3. apríl 2012, segir að Haukur Hjaltason hafi greitt inn á skuldabréfið 1.000.000 króna þann 29. ágúst 2011 og 1.500.000 krónur þann 9. mars 2012. Enn fremur að með aðilum takist nú samkomulag til lúkningar kröfu Sláturhússins vegna skuldabréfsins, annars vegar að Haukur greiði 5.250.000 krónur með eingreiðslu við undirritun samkomulagsins gegn afhendingu frumrits skuldabréfsins og hins vegar með því að hann muni ekki gera tilkall til tveggja tækja sem Sláturhúsið hafi haft til afnota og hann hafi talið eign sína. Nánar tiltekið reykofn og „frystitunnel“ samtals að verðmæti 4.000.000 króna.
Stefnda hefur lagt fram fjórar kvittanir því til sönnunar að hún hafi greitt Hauki á tímabilinu 27. júlí 2011 til 1. febrúar 2012 í samræmi við samkomulagið sem gert var við Sláturhúsið á Hellu ehf. og þannig greitt Hauki fyrir eignarhluta hans í sumarbústaðnum. Fyrir vikið sé ljóst að andvirði hafi komið fyrir hina ætluðu gjöf og því ekki gjafatilgangur fyrir hendi.
Samkvæmt fyrstu kvittuninni, sem er afrit kvittunar úr heimabanka, voru þann 27. júlí 2011 millifærðar 3.200.000 krónur af reikningi stefndu inn á reikning Hauks. Samkvæmt millifærslukvittun dagsettri 29. ágúst 2011 greiddi stefnda inn á reikning Hauks 1.000.000 króna og aftur 1.000.000 króna þann 1. febrúar 2012. Þá hefur stefnda einnig lagt fram viðskiptakvittun frá banka um úttekt peninga af reikningi hennar að fjárhæð 2.600.000 krónur þann 14. september 2011.
Stefnda og Haukur Hjaltason gáfu skýrslu fyrir dóminum. Bæði stefnda og Haukur voru spurð hvers þau hefðu ekki gert kaupsamning um eignarhlutann í bústaðnum. Stefnda kvaðst enga leiðsögn hafa fengið og hún hefði ekki talið að þess þyrfti. Haukur kvaðst heldur ekki hafa talið að gera þyrfti kaupsamning milli aðila sem treystu hvor öðrum. Sú spurning að gera kaupsamning hefði aldrei komið upp.
Stefnda bar fyrir dóminum að fjárnámið í bústað þeirra hjóna hefði verið ástæða þess að hún hefði greitt Hauki 7.800.000 krónur á tímabilinu ágúst 2011 til febrúar 2012. Þau hjónin hefðu ekki viljað að bústaðurinn færi á uppboð. Þau hefðu reynt að selja bústaðinn en árið 2011 hefði verið mjög erfiður tími til að selja sumarbústaði. Skilyrði fyrir því að hún leysti bústaðinn til sín hefði verið að Haukur skrifaði og lofaði því að hún ætti bústaðinn þar með en hann hefði ekki séð fram á að hann gæti greitt skuldina á bústaðnum. Haukur bar á sama veg fyrir dóminum, þ.e. að þau hjónin hefðu gert samkomulag eftir að fjárnámið hefði verið gert í bústaðnum um að stefnda greiddi þess fjárhæð og hann myndi afsala eignarhlut sínum í bústaðnum á móti. Hann hefði á endanum greitt að fullu kröfu Sláturhússins Hellu hf. og fengið til þess aðstoð Þórdísar og fjölskyldu til að greiða það sem upp á hefði vantað.
Stefnda var spurð hvort hún hefði talið að verðmæti helmingshlutans í bústaðnum hefði verið u.þ.b. jafnmikið og fjárhæðin sem hún kveðst hafa greitt honum, þ.e. 7.800.000 krónur. Stefnda sagði að þetta hefði ekki verið skoðað. Reynt hefði verið að selja bústaðinn og það hefði náttúrulega ekki verið þetta verð á honum sem þau hefðu óskað eftir, heldur miklu lægra. Stefnda kvaðst þannig ekki vita hvort þessi upphæð stæðist endilega. Þetta hefði bara verið það sem hvíldi á bústaðnum og það hefði þurft að greiða það hvort sem það var minna eða meira en Haukur hefði átt í bústaðnum. Verðið hefði átt að vera tvær til þrjár milljónir króna því að bústaðurinn hefði ekki verið söluhæfur á þessum tíma. Það hefði þurft að borga það sem hefði verið áhvílandi á bústaðnum hvort sem hann hefði verið fimm milljóna króna virði eða ekki.
Stefnda kvaðst ekkert hafa verið inni í samningum Hauks við Sláturhúsið Hellu hf. þegar hún var spurð hvers vegna hún hefði greitt 7.800.000 krónur þegar greiðslan sem Haukur innti af hendi við Sláturhúsið samkvæmt samkomulaginu frá 3. apríl 2012 hefði verið 5.250.000 krónur. Haukur var spurður hvert hann og stefnda hefðu talið vera verðmæti bústaðarins. Hakur sagði að þau hefðu verið að horfa á bústaði í kring sem hefðu verið boðnir til sölu á 10 til 15 milljónir króna og þau hefði metið sinn bústað á 16 til 20 milljónir króna. Hann hefði talið verðmæti síns eignarhluta endurspegla þá fjárhæð sem stefnda hefði greitt honum, þ.e. 7.800.000 krónur, enda enga aðra peninga að fá. Haukur var spurður hvers vegna gert hefði verið samkomulag um 7.800.000 króna greiðslu þegar skuldin sem fjárnám hefði verið gert fyrir hefði numið um 10.000.000 króna. Haukur sagði að hann héldi að það hefði verið búið að greiða eitthvað inn á þetta. Hann sagði að greiðslan upp á 5.200.000 krónur samkvæmt samkomulagi hans við Hellu hf. hefði aðeins verið lokagreiðsla til Hellu. Haukur kvaðst ekki hafa gert samkomulag við stefndu um að greiða 7.800.000 krónur nákvæmlega, heldur aðeins að greiða þá fjármuni sem vantað hefði upp á til þess að ljúka þessu máli. Haukur bar fyrir dóminum að bústaðurinn hefði aldrei verið settur opinberlega í sölu en þau hefðu leitað eftir því við nokkra fasteignasala hvort möguleiki væri á að selja hann. Þau hefðu talið að bústaðurinn væri orðinn meira virði en það sem þau gætu fengið fyrir hann. Þess vegna hefði ekki orðið af sölunni. Verðmat hefði ekki farið fram en fasteignasalarnir hefðu sagt að lítill grundvöllur væri fyrir því að geta selt bústaðinn á þessum tíma. Þau hefðu viljað fá gott verð en það hefði ekki verið hægt.
Stefnda var spurð hvers vegna hún hefði ekki greitt 7.800.000 krónur með einni greiðslu. Stefnda sagði kannski hægt að skýra það. Sennilega hefði hún fengið fjárhæðina lánaða og fengið hana svona þannig að þessu hefði verið skipt niður. Hún myndi þetta ekki nógu vel. Stefnda gat ekki svarað því hvers vegna millifærslan frá 27. júlí 12011 þar sem 3.200.000 krónur hefðu verið millifærðar hefði ekki verið auðkennd, þ.e. vísað til samkomulagsins eða með öðrum hætti auðkennt að millifærslan væri vegna bústaðarins. Stefnda kvaðst heldur ekki muna hvers vegna þetta hefði verið þessi fjárhæð. Haukur bar einnig að hann myndi ekki hvað hefði ráðið fjárhæð þessarar millifærslu. Hann kvaðst geta ímyndað sér að þetta hefði verið innborgun sem hefði verið sátt um við kröfuhafa.
Stefnda var einnig spurð hvers vegna ekki hefði verið gerð millifærsla um 1.000.000 króna sem hún tók út af reikningi sínum 14. september 2011 og hún heldur fram að hún hafi greitt þrotamanni í reiðufé. Stefnandi sagði að annaðhvort hefðu orðið mistök hjá henni í bankanum eða að hún hefði ekki komið greiðslunni í gegn öðruvísi. Hún kvaðst ekki muna þetta nógu vel. Vera kynni að reikningur Hauks hefði verið lokaður á þessu tímabili. Haukur var einnig spurður hvort hann vissi hvers vegna stefnda hefði í einu tilviki tekið út peninga í reiðufé í stað þess að millifæra inn á reikning hans. Haukur kvaðst ekki muna það en bankareikningum hans hefði verið lokað á tímabili.
Stefnda var einnig spurð um millifærslu að fjárhæð 1.000.000 króna af reikningi Hauks á hennar reikningi 9. september 2011 samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti Hauks. Stefnda kvaðst ekki muna eftir millifærslunni eða hvers vegna hún hefði farið fram. Stefnda sagði að þau hefðu náttúrlega verið að greiða inn á þeirra reikninga fram og til baka í gegnum 40 ár þannig að þessi 1.000.000 króna segði henni nákvæmlega ekki neitt. Haukur var spurður um sömu millifærslu og kvaðst ekki muna hvers vegna hún hefði farið fram en þau rækju auðvitað heimili saman.
Í afsalinu um framsal eignarhluta Hauks í bústaðnum til stefndu er ekki tilgreint kaupverð. Í samræmi við greinargerð stefndu hafa stefnda og Haukur borið fyrir dóminum að hún hafi greitt 7.800.000 krónur fyrir eignarhlutann. Fyrir liggja þrjár millifærslukvittanir á tímabilinu 27. júlí 2011 til 1. febrúar 2012 sem bera það með sér að millifærðar voru samtals 5.200.000 krónur af reikningi stefndu á reikning Hauks. Þessari kvittanir bera ekki með sér nokkrar skýringar á þessum greiðslum. Þá sannar framangreind viðskiptakvittun frá banka um úttekt 2.600.000 króna í reiðufé af reikningi stefndu, þann 14. september 2011, ekki að stefnda hafi innt þá fjárhæð af hendi til Hauks. Þegar einnig er horft til þess að millifærð var 1.000.000 króna af reikningi Hauks til stefndu 9. september 2011, sem hvorki stefnda né Haukur gátu gefið skýringar á fyrir dóminum, þykir ekki sýnt fram á að stefnda hafi greitt Hauki samtals 7.800.000 krónur og heldur ekki að þær 5.200.000 krónur, sem þó sannanlega voru færðar af reikningi hennar á reikning Hauks, hafi verið inntar af hendi sem endurgjald fyrir hlut hans í sumarbústað þeirra hjóna. Verður því að líta svo á að stefnda hafi fengið helmingshluta hans í sumarbústaðnum að Efri-Reykjum að gjöf.
Óumdeilt er að frestdagur við gjaldþrotaskipti á búi Hauks sé 18. október 2012 þegar krafa um gjaldþrotaskipti á búi þrotamanns barst Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. 2. mgr. laga nr. 91/1991. Með vísan til 140. gr. laga nr. 21/1991 ber að miða við að Haukur hafi afhent stefndu eignarhlutann 18. maí 2012 þegar afsalið, sem þau undirrituðu 23. apríl 2012, var móttekið til þinglýsingar. Afhending eignarhlutans í bústaðnum til stefndu frá Hauki átti sér því stað innan sex mánaða fyrir frestdag, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Skilyrðum 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um riftun ráðstöfunarinnar í samræmi við dómkröfu stefnanda er því fullnægt.
Í samræmi við þessa niðurstöðu verður einnig fallist á það með stefnanda að stefndu beri að endurgreiða stefnanda tjónsbætur samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Krafa stefnanda um að stefnda greiði honum 14.035.000 krónur með vöxtum er byggð á skattframtali stefnanda og stefndu 2013 fyrir árið 2012, þar sem fram kemur að fasteignamat fasteignarinnar að Efri-Reykjum nemi 28.070.000 krónum. Af hálfu stefndu er þess krafist að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á raunverulegt virði eignarhlutans í bústaðnum.
Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins og framburði stefndu og Hauks fyrir dóminum að ekki fór fram verðmat á bústaðnum í tengslum við afsal Hauks á eignarhluta sínum í honum til stefndu. Eins og áður var rakið bar Haukur fyrir dóminum að hann hefði ekki gert samkomulag við stefndu um að greiða 7.800.000 krónur nákvæmlega, heldur aðeins að greiða þá fjármuni sem vantað hefði upp á til þess að ljúka málinu. Undir rekstri málsins lagði stefnda fram undirritað mat Jóns Guðmundssonar löggilts fasteignasala á söluverði sumarbústaðarins, dagsett 2. október 2014. Þar kemur fram að fasteignasalinn hafi sama dag metið eignina til söluverðs að beiðni stefndu. Forsendur verðmatsins miðist við markaðsverð hinnar metnu eignar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011. Á þessum tíma hafi ekki verið mikil eftirspurn eftir sumarbústöðum og hafði ekki verið um þó nokkurn tíma. Umbeðið mat taki mið af markaðsaðstæðum og þeim greiðsluskilmálum sem hafi tíðkast á þessum tíma á almennum fasteignamarkaði við sölu á sambærilegu (sic) á sama markaðssvæði. Matið byggist á opinberum tölulegum upplýsingum um hið metna á umræddum tíma sem hafi verið fasteignamat að fjárhæð 23.750.000 krónur. Niðurstaða fasteignasalans er að áætlað söluverð bústaðarins ásamt lóðarréttindum á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011 sé á bilinu 19.500.000 til 21.500.000 krónur. Jón Guðmundsson fasteignasali kom ekki fyrir dóminn og þykir skriflegt verðmat hans ekki hnekkja opinberu fasteignamati bústaðarinar frá þessum tíma, sbr. skattframtals stefndu og Hauks, enda hvílir sönnunarbyrðin um þetta á stefndu. Verður því að leggja fasteignamatið til grundvallar í samræmi við kröfu stefnanda.
Loks mótmælir stefnda upphafstíma dráttarvaxtakröfu án þess að tilgreina á hvaða málsástæðum og lagagrundvelli þau mótmæli eru reist og verður því kröfu hennar hafnað. Með vísan til framanritaðs er fallist á kröfur stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.
Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um meðferð einkamála, ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.0000 krónur.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Rift er ráðstöfun þrotamanns, Hauks Hjaltasonar, til handa stefndu, Þórdísi Jónsdóttur, að andvirði 14.035.000 krónur, sem fram fór þann 18. maí 2012 með framsali og afhendingu þrotamanns til stefndu á 50% eignarhlut í fasteigninni að Efri-Reykjum, lóð 1, Bláskógabyggð, fastanúmer 220-5379.
Stefnda greiði stefnanda, Þrotabúi Hauks Hjaltasonar, 14.035.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingar frá 18. maí 2012 til 9. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 800.000 krónur i málskostnað.