Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. maí 2013. |
|
Nr. 22/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Ástríður Gísladóttir hrl.) (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa leitað á A, sem var 19 ára að aldri, þar sem hann lá við hlið X í tvíbreiðu rúmi, strokið bak hans og kynfæri innanklæða og kysst hann á munninn. Var háttsemi X talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing X var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldi X almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Þá var X gert að greiða A 300.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af einkaréttarkröfu, til vara að henni verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Í ákæru er ákærði borinn sökum um að hafa aðfaranótt eða snemma morguns 12. júní 2011 í nánar tilteknu húsi í [...] strokið bak og kynfæri brotaþola, fyrrnefnds A, innanklæða og kysst hann á munninn þar sem þeir lágu í tvíbreiðu rúmi. Þessi háttsemi er í ákæru talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi ætluðu ákærði, sem þá var 43 ára að aldri, og brotaþoli, sem var 19 ára, að gista umrædda nótt hjá vini þess fyrrnefnda, en þeir höfðu verið við áfengisneyslu ásamt öðrum fram eftir nóttu. Af gögnum málsins verður ekki skýrlega ráðið hvenær nætur eða morguns þau atvik eigi að hafa gerst, sem um ræðir í ákæru. Brotaþoli kveðst í framhaldi af þessum atvikum hafa farið á salerni og síðan út á svalir á dvalarstaðnum, þar sem hann hafi neytt meira áfengis. Þegar hann hafi aftur komið inn í húsið hafi hann séð lykla að bifreið ákærða, tekið hana í heimildarleysi og ekið burt frá [...]. Eftir að hafa ekið þaðan fáeina kílómetra í vestur eftir þjóðvegi nr. 1 missti brotaþoli stjórn á bifreiðinni, sem valt og hafnaði utan vegar, en vitni, sem kom að vettvangi í beinu framhaldi af þessu slysi, tilkynnti lögreglu um það kl. 8.33 þennan morgun. Lögregla kom á staðinn tæplega 40 mínútum síðar og færði brotaþola fyrst í stað á heilsugæslustöð. Í sýni, sem þar var tekið af blóði hans, reyndust vera 1,76 af vínanda, en fyrir liggur að með dómi Héraðsdóms [...] var honum gerð fésekt og hann dæmdur til tímabundinnar sviptingar ökuréttar fyrir framangreinda háttsemi, sem þótti varða við 1. mgr. 259. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga ásamt 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi bar fyrrnefnt vitni, sem kom að vettvangi slyssins, að brotaþoli, sem hafi verið í uppnámi, hafi sagt sér meðan þau biðu þar eftir lögreglu að hann hafi tekið bifreiðina í leyfisleysi í framhaldi af því að ákærði hafi leitað á sig kynferðislega, þar sem þeir hafi legið saman uppi í rúmi. Tveir lögreglumenn, sem komu síðan á vettvang, báru jafnframt fyrir dómi að brotaþoli hafi greint þeim frá því sama. Ranglega er á hinn bóginn hermt í niðurstöðum héraðsdóms að fyrstnefnda vitnið hafi borið að það teldi uppnám brotaþola hafa tengst háttsemi ákærða fremur en umferðarslysinu, en vitnið kvaðst ekki geta gert slíkan greinarmun.
Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu á grundvelli gagna málsins, meðal annars eftir að hafa hlýtt á skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi, að sakargiftir í ákæru væru sannaðar. Framangreint ranghermi um framburð vitnis getur ekki fengið því breytt að þessi niðurstaða verður staðfest með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti.
Að teknu tilliti til refsimarka 199. gr. almennra hegningarlaga, þeirrar háttsemi, sem ákærði er hér sakfelldur fyrir, og þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo að kunnugt sé er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Sú refsing verður að öllu leyti bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Í framlögðu vottorði sálfræðings, sem brotaþoli leitaði þrívegis til á tímabilinu 22. júní til 14. júlí 2011, kemur meðal annars fram að lagt hafi verið í hvert skipti tiltekið próf fyrir brotaþola til að meta einkenni þunglyndis, kvíða og streitu. Við fyrstu komu brotaþola hafi þetta próf gefið til kynna alvarlegt þunglyndi, miðlungs mikinn kvíða og streitu innan eðlilegra marka, við aðra komu hans hafi allir þessir þættir talist innan eðlilegra marka, en við þá þriðju hafi kvíði farið fram úr þeim mörkum og talist miðlungs mikill. Þessi einkenni mætti rekja til brots ákærða gagnvart brotaþola. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst sálfræðingurinn telja bata brotaþola hafa orðið góðan, en hann hafi ráðlagt brotaþola að leita aftur til sín ef líðan þess síðarnefnda versnaði og hafi ekki orðið af því. Þótt önnur sérfræðileg gögn liggi ekki fyrir um afleiðingar af broti ákærða verður fallist á með brotaþola að hann eigi rétt til miskabóta úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Í greinargerð, sem brotaþoli beindi samkvæmt heimild í 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til lögreglu um einkaréttarkröfu á hendur ákærða, var á því byggt að brotaþoli ætti rétt til miskabóta vegna kynferðisbrots ákærða á hendur sér og væri krafan reist á tveimur málsástæðum. Lytu þær annars vegar að alvarleika brotsins og sakarstigi ákærða og hins vegar að „huglægri upplifun brotaþola“, sem hafi litið á ákærða sem trúnaðarvin og treyst honum sem kennara, yfirmanni og vini. Brotaþoli getur ekki í þessu ljósi krafist þess, svo sem gert var fyrir Hæstarétti, að fjárhæð miskabóta verði ákveðin með tilliti til nánar tilgreindra atriða, sem varði „framgöngu verjanda“ ákærða undir rekstri þessa máls og brotaþoli telur hafa valdið sér aukinni félagslegri röskun. Að virtu þessu og atvikum málsins að öðru leyti eru bætur handa brotaþola hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að fyrir Hæstarétti hefur verjandi ákærða lagt fram tvær álitsgerðir frá 29. apríl 2013, annars vegar frá sálfræðingi og hins vegar frá sérfræðingi í geðlækningum. Samkvæmt fyrrnefndu álitsgerðinni óskaði verjandinn eftir mati á vottorði sálfræðingsins, sem brotaþoli leitaði til og getið var um hér að framan, á grundvelli efnis þess, framburðar sálfræðingsins við aðalmeðferð málsins og hins áfrýjaða dóms. Í síðarnefndu álitsgerðinni kemur fram að verjandinn hafi óskað eftir að hlutaðeigandi sérfræðingur í geðlækningum myndi „fara yfir málsgögnin“ í þessu máli og „meta þau.“ Með þessu hefur verjandinn látið óviðkomandi mönnum í té gögn í málinu, sem rekið hefur verið á báðum dómstigum fyrir luktum dyrum, en þau hafa meðal annars að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar um brotaþola. Til að réttlæta þessar gerðir, sem eru andstæðar 1. málslið 2. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008, er verjandanum haldlaust að vísa til þagnarskyldu fyrrnefndra álitsgjafa samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2011 til 2. desember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 865.814 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ástríðar Gísladóttur hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 14. nóvember sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru 31. ágúst 2012 á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot með því að hafa, aðfaranótt eða snemma að morgni sunnudagsins 12. júní 2011, að [...], leitað á A, kennitala [...], þar sem hann lá við hlið ákærða í tvíbreiðu rúmi, strokið bak hans og kynfæri innanklæða og kysst hann á munninn.
Er háttsemin talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu er höfð uppi skaðabótakrafa af hálfu brotaþola á hendur ákærða um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum 1.200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað til þess dags er mánuður er liðinn frá því að ákæra var birt sakborningi en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á [...] frá sunnudeginum 12. júní 2011 var þann dag kl. 8.33 tilkynnt um bílveltu við [...] nokkru sunnan við afleggjara að [...]. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ekki hafi verið um tilkynnt slys að ræða og að vitni að atburðinum myndi bíða á vettvangi þar til lögregla kæmi. Fram kemur að lögregla hafi verið mætt á vettvang kl. 9.11. Á staðnum hafi verið ungur maður, A, sem hafi greint frá því að hann hafi verið ökumaður og verið einn í bifreiðinni [...]. Er A brotaþoli í máli því sem hér er til meðferðar. Hafi áfengisþef lagt frá vitum ökumanns og hafi hann gengist undir öndunarpróf. Hafi niðurstaða mælinga sýnt 1.85 o/oo áfengis. Hafi brotaþoli greint frá því að hann hafi ekið í geðshræringu frá [...] en hann hafi verið gestkomandi vestast í þorpinu hjá B. Hafi brotaþoli gefið í skyn að vinnuveitandi hans, sem hafi verið eigandi bifreiðarinnar, hafi leitað á hann kynferðislega þá skömmu áður á heimilinu þar sem þeir hafi verið gestkomandi. Nafngreindi brotaþoli vinnuveitandann sem X, ákærða í máli þessu. Hafi hann ákveðið að taka kveikjuláslykla bifreiðarinnar og fara á brott áleiðis til Reykjavíkur. Væri hann ekki búinn að gera upp hug sinn hvort hann myndi leggja fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðislegrar áreitni en ákærði hafi káfað á honum. Í skýrslunni er tekið fram að brotaþoli hafi verið mjög niðurbrotinn vegna þessa. Þá er tekið fram í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi haft símasamband kl. 13.12. Hafi komið fram að ákærði ætlaði sjálfur að hafa samband við brotaþola um málið. Hann ætlaði ekki að kæra atvikið að sinni og bjóst hann ekki við að svo yrði. Síðar sama dag kl. 10.25 er tekin skýrsla af brotaþola hjá lögreglu vegna málsins. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi verið gestkomandi og við vinnu í [...]. Hafi hann gist hjá B sem ræki fyrirtæki til [...]. Vinnuveitandi brotaþola, ákærði, væri eigandi bifreiðarinnar [...]. Hafi brotaþoli greint frá því að hann hafi byrjað að drekka áfengi um kl. 23.30 og hafi hann verið við drykkju á heimili B. Einnig hafi hann drukkið áfengi á bar ekki langt frá. Hafi brotaþoli drukkið fjóra hálfs lítra bjóra og tvö sterk áfengisskot. Síðar hafi hann farið aftur á heimili B og lagst til hvíldar. Hafi hann ekki vitað hvað klukkan hafi verið þá. Hafi hann verið með svefnpoka og lagst inn í herbergi með ákærða. Hafi hann verið hálf vakandi og meðvitaður um hvað hafi verið í gangi. Hafi hann talað við ákærða og lent í djúpum samræðum við hann og snertingum án vilja brotaþola. Hafi brotaþoli farið á salernið og síðan út á svalir í ,,klessu“. Þegar hann hafi komið til baka í stofuna hafi hann séð bíllykla ákærða á stofuborði og skó ákærða. Hafi hann tekið bílinn og brunað hratt í burtu og ekið út frá [...]. Skömmu síðar hafi hann misst stjórn á bifreiðinni. Væri brotaþoli ekki búinn að gera upp hug sinn hvort hann myndi kæra ákærða fyrir kynferðislega áreitni, en ákærði hafi káfað á honum.
Samkvæmt niðurstöðu úr áfengismælingu mældist 1.98 o/oo af áfengi í þvagi brotaþola eftir aksturinn og 1.55 o/oo áfengis í blóði. Fram kemur að þvagsýni hafi verið tekið kl. 12.10 en blóðsýni kl. 10.52. Í tilefni að beiðni verjanda ákærða fór ríkissaksóknari þess á leit við Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði að greina sýni sem tekin voru til rannsóknar úr brotaþola, en óskað var mats á etanólstyrk í blóði um kl. 4.15 og kl. 8.33 þann dag sem brotaþoli ók bifreið. Í áliti rannsóknarstofunnar frá 5. nóvember 2012 kemur fram að rannsókn sýni að etanólstyrkur hafi náð hámarki í blóði hlutaðeigandi og verið farinn að falla um kl. 9.47. Það styðji niðurstaða úr seinna blóðsýni. Ekki sé hægt að meta saman niðurstöðu úr blóði og þvagi, þar sem of langur tími hafi liðið á milli töku sýnanna. Ekki sé hægt að reikna með nákvæmni etanólstyrk í blóði ökumanns um 5 klukkustundum fyrr. Ef gengið sé út frá því að drykkju hafi að mestu verið lokið kl. 3.00, nema hálfur bjór kl. 4.15 til 4.30, sé nær víst að etanólstyrkur í blóðinu hafi verið a.m.k. 2 o/oo.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá fimmtudeginum 4. júlí 2011 mætti brotaþoli á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til þess að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn brotaþola þann 12. júní 2011. Brotaþoli gerði við þetta tilefni grein fyrir atvikum málsins umrætt sinn.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 10. október og 2. nóvember 2011. Þá gaf hann skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Ákærði kvað frænda sinn, B, hafi hringt í sig föstudaginn 10. júní 2011 vegna atriða tengdum húsi á trukk sem hafi verið notað við [...]. Hafi rafkerfi verið bilað og B beðið ákærða um aðstoð. Hafi ákærði svarað því til að ekki væri það auðvelt þar sem ákærði hafi verið að vinna ásamt brotaþola. Hafi B ítrekað þessa ósk sína. Á þessum tíma hafi mikið átakamál verið í gangi fyrir austan tengd [...]. Hafi B farið fyrir hópi aðgerðarsinna sem hafi fjarlægt lokanir á friðlandinu. Nokkur læti hafi skapast vegna þessa. Þessi atriði hafi borið á góma í símtali þeirra á föstudeginum. Á laugardeginum hafi ákærði sagt brotaþola frá því sem hafi verið að gerast fyrir austan og nokkur spenna orðið vegna þessa. Á laugardeginum hafi B hringt og sagt að hiti væri kominn í málið fyrir austan og hvort ákærði gæti ekki komið á laugardeginum. Hafi ákærði sagt að hann væri að vinna í [...] með mönnum sem hefðu áhuga á þessu máli og brotaþoli verið þar á meðal. Hafi B litist mjög vel á að þeir kæmu allir austur. Hafi þeir verið við sína vinnu fram eftir laugardeginum. Að vinnudegi loknum hafi þeir farið heim til brotaþola, sem tekið hafi saman svefnpoka sinn og fleira. Hafi brotaþoli óskað eftir því að leynd hvíldi yfir þessu gagnvart foreldrum sínum. Hafi ákærði rætt við foreldra brotaþola á meðan brotaþoli hafi tekið dót sitt saman. Í framhaldi hafi þeir farið heim til ákærða þar sem þeir hafi snætt kvöldmat. Í framhaldi hafi þeir búið sig til ferðar austur. Eiginkona ákærða hafi verið óhress með ferðalagið. Þeir hafi ekið austur og hitt fyrir B. Hafi hann sagt að ekki væri þörf á neinum aðgerðum það kvöldið. Hafi hann boðið þeim bjór að drekka á heimili sínu. Síðar um kvöldið hafi þeir farið á bar skammt frá heimili B. Á staðnum hafi þeir verið í um eina klukkustundu og mikið af fólki verið þar. Staðnum hafi verið lokað kl. 1.00 um nóttina og fólk farið heim til B í framhaldi. Þar hafi staðið gleðskapur fram yfir klukkan 3.00 um nóttina. Um klukkan 4.00 hafi síðustu gestir farið og húsráðandi sagt að hann ætlaði að fara að sofa. Ákærði, brotaþoli og C, sem verið hafi með þeim í för, hafi þá sótt svefnpoka sína út í bifreiðina. Húsráðandi hafi boðið góða nótt. Þeir þrír hafi farið út á svalir við íbúðina þar sem þeir hafi spjallað saman stutta stund. Hafi þeir um leið lokið við að drekka þá bjóra sem þeir hafi verið með í hendi. Eftir það hafi þeir farið inn á nýjan leik og sólin verið að koma upp á þeim tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa áttað sig á tímasetningum á þessum tíma. Eftir að málið kom upp og hann farið yfir tímasetningar og tengi hann veruna úti á svölum við sólarupprásina. Hafi hann síðar séð á almanaki hvenær sólarupprásin hafi verið á þessum tíma fyrir austan og hafi hún verið um kl. 4.00 um morguninn. Af þessum ástæðum hafi framburður hans hjá lögreglu verið ónákvæmur. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 10. október 2011 var skýrsla ákærða um þetta atriði á þann veg að gleðskapur hafi verið á heimili B til um kl. 5.00 um morguninn. Gestir hafi farið um það leyti og þeir þá ákveðið að fara að sofa. Ákærði bar að þeir hafi verið inni í stofu og C sest í sófastól. Ákærði hafi farið inn í gestaherbergi, sem þeir hafi átt að nota, en þar hafi verið tvíbreytt rúm. Ákærði kvaðst hafa sett svefnpoka sinn inn í þetta herbergi. Úti á svölum hafi ákærði og brotaþoli átt saman klámfengið tal tengt tiltekinni stelpu. Um hafi verið að ræða ,,fyllerísraus“. Er ákærði hafi verið lagstur til hvílu í rúminu hafi brotaþoli komið inn í herbergið með svefnpoka sinn og lagst við hlið ákærða í rúmið. Hafi ákærði ekki átt frumkvæði að því að brotaþoli kæmi inn í herbergið til að sofa. Báðir hafi þeir verið klæddir á þeim tíma. Aftur hafi farið af stað umræðan um stelpuna og hafi hún þróast á þá leið að báðir ættu þeir að vera með henni. Í herberginu hafi ákærði spurt hvort þeir ættu báðir að vera með henni. Hafi brotaþoli svarað því til að hann væri til í það, gæfist færi á því. Í framhaldi af þessu hafi ákærði spurt brotaþola hvernig honum gengi varðandi fíkniefni, en hann hafi vitað að brotaþoli hafi áður verið í neyslu efna. Hafi brotaþoli sagt að þetta væri ekkert mál. Á meðan hann væri með ákærða þyrfti hann ekki að nota nein lyf. Hann hafi verið í erfiðu sambandi við stúlku og þá þurft að nota efni. Hafi sú stúlka verið með sjálfsvígshugsanir. Hafi ákærði spurt hvort brotaþoli hafi verið með stelpum eftir það og brotaþoli sagt að hann treysti stelpum ekki eftir þetta. Hafi hann sagt að hann væri í vafa um kynímynd sína og að hann hneigðist ef til vill til karlmanna. Hafi ákærði fundið á brotaþola að tekið hafi á hann að segja frá þessu. Hafi ákærði þá klappað á bak brotaþola af umhyggjusemi. Hafi hann sagt brotaþola að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur því fólk fengi oft efasemdir. Hafi brotaþoli þá spurt ákærða hvort hann væri samkynhneigður. Hafi ákærði sagt að á því hafi hann ekki haft áhuga. Af hálfu brotaþola hafi umræðan í framhaldi beinst að eiginkonu ákærða, sem hafi verið ósátt við ferðina austur. Hafi brotaþoli spurt hvernig eiginkonu ákærða liði með að þeir væru að ræða þessi mál. Í framhaldi af þessu hafi þeir farið að sofa og ákærði sofnað þar sem hann hafi verið talsvert þreyttur. Hafi hann ekki orðið var við neitt og ekki orðið var við er brotaþoli hafi farið á brott. Hafi ákærða fundist umræðan um stúlkuna óþægileg og hafi hún verið ósiðleg. Ákærði kvaðst hafa verið vakinn næsta morgun um kl. 10.30 og brotaþoli þá verið farinn. Komið hafi þá í ljós að brotaþoli hafi tekið bifreið ákærða og velt henni. Ákærði kvaðst hafa fengið áfall. Ákærði kvaðst hafa skilið skó sína eftir við rúm sitt er hann hafi farið að sofa. Þeir hafi verið horfnir um morguninn. Ákærði kvaðst hafa sofið nær hurðinni í herberginu um nóttina. Skór brotaþola hafi verið á þeim stað er skór ákærða hafi verið. Ákærði hafi einnig tekið eftir um morguninn að lyklar að bifreið ákærða og pípa ákærða hafi verið horfin, sem og húfa er hann hafi átt. Síðar þennan dag er ákærði hafi komist í bifreið sína hafi hann séð að farsími ákærða hafi einnig verið í bifreiðinni. Væri ákærði ekki viss um hvort hann hafi skilið símann eftir í bifreiðinni. Einnig hafi hafnarboltakylfa fundist í bifreiðinni en hana hafi B átt. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður þessa nótt. Hann hafi hins vegar verið meðvitaður um umhverfi sitt og hafi hann vel getað haldið uppi samræðum. Þá hafi hann ekki verið reikull í spori og væri minni hans frá atburðum næturinnar mjög gott. Myndi hann minnstu smáatriði. Hafi hann sennilega drukkið 5 til 6 bjóra um nóttina, auk þess sem hann hafi drukkið 2 staup af sterku áfengi á barnum um nóttina. Ákærði sagði sig og brotaþola ekki hafa verið neitt sérstaklega nána á þessum tíma. Hafi brotaþoli verið fremur dulur. Utan vinnu hafi þeir átt einhver samskipti, en þau hafi verið fag- eða vinnutengd. Hafi ákærði aðstoðað brotaþola við lokaverkefni sitt í iðnnámi og brotaþoli fengið aðstoð við verkið á heimili ákærða. Ákærði kvað brotaþola hafa tekið að sér einhver verkefni tengd [...]. Hafi ákærði útvegað brotaþola einhver verkfæri. Hafi þetta verið í upphafi samstarfs þeirra. Einnig hafi brotaþoli fengið að láni hjá ákærða [...], en á þeim tíma hafi brotaþoli verið að útbúa [...] heima hjá brotaþola. Þeim hlutum er ákærði hafi lánað brotaþola hafi verið skilað eftir atvikið. Hafi þeir að hluta til verið skildir eftir við heimili ákærða. [...]
Ákærði kvaðst í fyrstu ekki hafa haft hugmynd um að brotaþoli hafi borið á hann sakir um kynferðisbrot. Hafi ákærði rætt við fósturföður ákærða sem hafi brugðist illa við. Hafi fósturfaðirinn skammað ákærða og sagt að hann bæri ábyrgð á því slysi sem brotaþoli hafi lent í. Hafi ákærða brugðið við þetta. Hafi fósturfaðirinn sagt að þetta væri allt vegna þeirrar kynlífsreynslu er brotaþoli hafi lent í á [..]. Þá hafi ákærða farið að gruna að samtal það sem þeir hafi átt um nóttina hafi átt þátt í því að brotaþoli hafi tekið bifreið ákærða. Hafi ákærði sagt við fósturföðurinn að ekkert hafi gerst. Hafi fósturfaðirinn sagt að samskiptum ákærða og brotaþola væri lokið. Ekki hafi borist í tal við fósturföðurinn að kærur yrðu ekki lagðar fram. Fyrr þennan sama dag hafi móðir brotaþola hringt í ákærða og sagt að sonur hennar hafi tekið bifreið ákærða og velt henni. Hafi hún spurt ákærða hvort brotaþoli hafi komist í einhver efni um nóttina. Hafi ákærði sagt að svo væri ekki. Hafi hún sagt að brotaþoli hafi sagt við sig að hann hafi orðið fyrir upplifun. Hafi hún spurt ákærða hvort kæra yrði lögð fram vegna bifreiðarinnar og ákærði þá sagt að kæra væri honum ekki efst í huga. Ákærði kvað kæruna hafa haft mikil áhrif á sig og fjölskyldu sína. Eftir atburðinn hafi hann ekki lengur getað starfað hjá [...]. Samt sem áður hafi honum ekki beinlínis verið sagt upp störfum en honum verið gert ljóst að hann nyti ekki trausts lengur. Þá hafi ákærði verið virkur í félagsstarfi á vegum [...] og verið bakhjarl fyrir ýmis [...]. Eftir atvikið hafi hann fengið bréf frá [...] þar sem honum hafi verið vikið úr henni. Þannig hafi verið klippt á allt hjá ákærða og öll félagsleg tengsl hans. Hafi hann upplifað gríðarlegt áfall. Hafi hann þurft að leita til fagaðila vegna andlegs ástands síns. Hjá lögreglu greindi ákærði ekki frá því að tilgangur með ferðinni austur hafi að einhverju leyti verið að taka þátt í aðgerðum í [...]. Fyrir dómi bar ákærði að honum hafi ekki fundist rétt að greina frá því máli hjá lögreglu þar sem það hafi á sínum tíma verið kært til lögreglu. Hafi meðal annars verið um að ræða þjófnað á [...].
Brotaþoli gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 4. júlí og 14. október 2011. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Einnig gaf brotaþoli skýrslu vegna ölvunarakstursins 12. júlí 2011, bæði hjá lögreglu sem og fyrir dómi við aðalmeðferð þessa máls. Brotaþoli hefur greint frá því að hann hafi verið í [...]skólanum er ákærði hafi átt leið hjá. Hafi ákærði spurt hvort brotaþola vantaði vinnu og boðið brotaþola að [...]. Hafi brotaþoli þegið það. Þar hafi ákærði stungið upp á því að fá brotaþola á samning og brotaþoli þegið það. Hafi brotaþoli því verið á starfssamningi hjá ákærða tengt námi í [...] í [...]skólanum frá því í byrjun október 2010. Hafi ákærði verið að vinna í ,,[...]bransanum“. Hafi brotaþoli og ákærði verið búnir að vera að vinna í kringum [...]. Einnig hafi ákærði útvegað brotaþola vinnu hjá [...], en sú vinna hafi átt að vera sumarvinna. Sú vinna hafi einkum snúist um að hjálpa ákærða við það sem ákærði hafi verið að gera. Þar hafi brotaþoli byrjað að vinna 26. maí 2011. [...] hafi greitt laun brotaþola.
Ákærði, brotaþoli og C, vinur ákærða, hafi farið saman í vinnuferð að [...] laugardaginn 11. júní 2011. Hafi ákærði boðið brotaþola að koma með í þessa ferð. Ætlunin hafi verið að gera við einhverjar [...] sem frændi ákærða, B hafi átt. Þá hafi einhverjir hlutir verið að gerast tengdir [...] og hafi einnig verið ætlunin að skoða hvað þar væri í gangi. Aðspurður af verjanda kvað brotaþoli geta staðist að hann hafi sett færslu inn á fésbók sína um að hann væri á leið [...]. Er þeir hafi komið að [...] hafi þeir farið heim til B. Hafi B boðið upp á bjór að drekka. Kvaðst brotaþoli telja að hann hafi fengið einhverja bjóra að drekka hjá B og staup af sterku áfengi. Hafi hann sennilega byrjað að drekka um kl. 11.00 um kvöldið. Síðar um kvöldið hafi verið farið á bar við hliðina á heimili B. Þar hafi brotaþoli einnig drukkið bjóra og staup af sterku áfengi. Hafi hann þessa nótt sennilega í heildina drukkið 6 bjóra og 2 staup af sterku áfengi. Þegar staðnum hafi lokað hafi B boðið fólki heim til sín þar sem haldið hafi verið samkvæmi. Þegar því hafi lokið hafi allir farið að sofa. Hafi brotaþoli ekki verið það mikið undir áhrifum áfengis á þessum tíma. Hafi hann verið með fulla rænu. Íbúðin hafi verið lítil og verið eitt stórt rými fyrir ofan[...]. Í rýminu hafi verið tvö herbergi og salerni. Einnig hafi verið stórt herbergi sem hafi verið notað sem stofa. Loks hafi verið þar eldhús. Hægt hafi verið að ganga út á [...]. B hafi sofið í öðru herberginu. C hafi verið sofnaður í sófa í stofunni áður en brotaþoli hafi gengið til náða. Það geti hafa verið um kl. 5.00 um morguninn.
Ákærði hafi kallað á brotaþola og spurt hann að því hvort brotaþoli vildi ekki sofa inni í herbergi hjá ákærða. Hafi brotaþoli tekið vel í það og farið inn í herbergi til ákærða. Í herberginu hafi verið tvíbreytt rúm. Hafi brotaþoli legið í rúminu lengra frá inngangi inn í herbergið. Ákærði og brotaþoli hafi verið í fötum og verið með svefnpoka sem ábreiðu. Inni í herberginu hafi ákærði hafið óviðeigandi tal um að það væri ,,geðveikt að þrísoma einhverja gellu“ úr samkvæminu. Hafi brotaþoli eytt umræðunni í fyrstu. Ákærði hafi haldið áfram talinu og ákærði fært talið að fyrrum kannabisneyslu brotaþola. Brotaþoli kvaðst hafa reykt kannabis um tíma fram til þess tíma er hann hafi komist á samning hjá ákærða, en þá hafi hann hætt allri neyslu. Þá kvað brotaþoli það geta staðist er ákærði héldi fram að einhver mál tengd fyrrum kærustu brotaþola hafi borist í tal um nóttina. Aldrei hafi brotaþoli þó sagt, svo sem ákærði héldi fram, að brotaþoli efaðist um kynhneigð sína. Einnig hafi ákærði farið að segja að honum þætti vænt um brotaþola. Brotaþoli kvaðst hafa snúið sér undan og látist sofa. Brotaþoli hafi verið klæddur í buxur og bol. Hafi ákærði strokið brotaþola um bakið innanklæða. Hafi brotaþola fundist það kynferðislegt. Hafi ákærði hvíslað nafn brotaþola og brotaþoli ekki svarað. Brotaþoli hafi snúið með bakið að ákærða og legið á vinstri hlið. Hafi ákærði teygt sig yfir brotaþola, farið undir klæðnað brotaþola og komið við getnaðarlim brotaþola innanklæða. Í framhaldi hafi ákærði kysst brotaþola á munninn. Hafi brotaþoli þá sest upp í rúminu og spurt ákærða hvað væri í gangi. Hvort þetta væri eitthvað út af konu ákærða, en eitthvert vandamál eða ósætti hafi verið á milli ákærða og eiginkonu hans er þeir hafi farið frá Reykjavík þennan dag. Hafi ákærði neitað því og haldið áfram að strjúka brotaþola um bakið. Einnig hafi hann sagt að honum þætti ,,ógeðslega“ vænt um brotaþola. Hafi brotaþoli sagt að hann þyrfti að fara á snyrtinguna og farið út úr herberginu. Ákærði hafi þá verið vakandi. Hafi brotaþoli staðið upp og gengið hringinn í kringum rúmið og farið út um dyr herbergisins. Hafi hann gripið bjór og farið út á svalir íbúðarinnar og hugsað um þessa hluti. Þar hafi brotaþoli sennilega verið í um 30 mínútur og drukkið hálfan bjórinn. Hafi hann verið mikilli geðshræringu og grátið. Hafi brotaþoli séð lykla að bifreið ákærða á stofuborði. Hafi hann tekið þá og skó ákærða innan úr herbergi og farið út í bifreið ákærða. Skór ákærða hafi verið við dyr herbergisins en skór brotaþola verið hinu megin við rúmið og brotaþoli ekki viljað fara þangað til að ná í þá. Einnig hafi hann tekið með sér úr íbúðinni hafnaboltakylfu sér til varnar gagnvart einhverju sem hafi getað gerst í framhaldi, svo sem ef einhver ætlaði að stöðva hann. Brotaþoli hafi ekki tekið pípu ákærða, en hún hafi verið í bifreið ákærða. C og B hafi á þessum tíma verið sofandi. Brotaþola hafi fundist hann ekki geta verið lengur á staðnum. Á þessari stundu hafi brotaþola fundist aðstaða sín erfið. Hann hafi verið úti á landi og ákærði trúnaðarvinur brotaþola. Hafi brotaþoli verið mjög vonsvikinn og ringlaður vegna atviksins. Hafi brotaþoli engan þekkt á staðnum og ekki vitað af lögreglustöð á staðnum. Þá hafi B og C verið vinir ákærða og brotaþoli átt erfitt með að leita til þeirra. Brotaþola hafi ekki fundist hann mjög drukkinn en verið í miklum hugaræsingi vegna atburðarins í herberginu. Hafi brotaþoli ekið af staðnum. Hafi hann ætlað að aka út úr bænum og stöðva þar til að hugsa hvað hann ætlaði að gera. Hafi hann ekki ætlað að aka alla leið til Reykjavíkur. Hafi hann ekki verið búinn að aka lengi er hann hafi velt bifreiðinni. Í beinu framhaldi hafi komið að bifreiðinni kona að nafni D og hafi brotaþoli sagt henni frá öllu því sem gerst hafi og að hann hafi verið að flýja frá kynferðisbroti. Hafi D hringt á lögreglu. Um hálfri klukkustundu síðar hafi lögregla komið á staðinn. Í framhaldi hafi verið tekið blóðsýni úr brotaþola á heilsugæslustöð og lögregluskýrsla af ákærða á lögreglustöð. Eftir það hafi verið tekið annað blóðsýni úr ákærða og farið með hann á lögreglustöðina á [...]. Á leiðinni á [...] hafi C hringt í brotaþola og spurt hvar hann væri. Hafi brotaþoli tjáð honum að hann væri á leið á [...] í lögreglubifreið og að brotaþoli hafi velt bifreið ákærða. Hafi þeir slitið samtalinu stuttu síðar. Í framhaldi hafi ákærði hringt í brotaþola og verið frekar ,,pirraður“ og sagt að þeir hafi verið á fylleríi og að engin ástæða hafi verið til að taka bifreiðina. Hafi brotaþoli spurt ákærða hvort hann myndi eitthvað eftir því sem gerst hafi og ákærði neitað því. Hafi brotaþoli þá sagt honum að brotaþoli hafi ekki verið sofandi og hafi ákærði þá þagnað. Samtalinu hafi lokið og ákærði hringt stuttu síðar og þá verið blíðari og sagt að þeir þyrftu bara að halda áfram. Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglumönnunum frá atvikinu og þeir spurt hann hvort hann ætlaði að leggja fram kæru. Hafi brotaþoli svarað því til að hann vissi ekki hvað hann ætlaði að gera. Fósturfaðir brotaþola hafi sótt hann á [...]. Brotaþoli kvaðst hafa verið undir áhrifum þessa nótt en ekki þannig að hann hafi ekki verið með fullri rænu.
Brotaþoli kvaðst hafa átt mjög erfitt með þessa hluti alla saman. Hann hafi orðið mjög þungur eftir þetta og vonsvikinn. Hafi ákærði hjálpað brotaþola með allt. Hafi hann aðstoðað brotaþola með að [...] verkefnið í skólanum til sveinsprófs og útvegað honum vinnu hjá [...]. Hafi hann komið brotaþola í þennan svonefnda ,,[...]bransa“ sem brotaþoli hafi haft mikinn áhuga á. Hafi brotaþoli greint yfirmönnum sínum hjá [...]. frá atvikinu og brotaþoli fengið leyfi úr vinnu vegna þessa. Einnig hafi [...] útvegað brotaþola sálfræðiaðstoð. Hafi brotaþoli ekki getað hugsað sér að fara aftur til vinnu í [...]. Vinna við [...] tengt [...] hafi verið draumur brotaþola. Eftir atvikið hafi hann misst allan áhuga á því og verið mjög þunglyndur á eftir. Hafi hann meðal annars leitað til Stígamóta vegna atviksins. Að því er varðar tímasetningar kvaðst brotaþoli telja að um klukkustund eða tvær hafi liðið frá því samkvæminu hafi lokið þar til hann hafi velt bifreiðinni.
B kvaðst búa að [...] og hafi ákærði, brotaþoli og C komið austur til hans laugardaginn 11. júní 2011. Tilgangur með ferðinni hafi verið að yfirfara [...] í húsi sem B hafi verið með á bifreið. Hafi ákærði þekkt [...] hússins vel. Á þessum tíma hafi verið í gangi mál tengt [...]. Eftir að hafa drukkið heima hjá B hafi þeir allir farið á bar sem hafi verið staðsettur í nágrenninu. Er þeim stað hafi verið lokað hafi allir farið aftur heim til B. Barnum hafi verið lokað kl. 1.00 eftir miðnætti. B kvaðst hafa farið að sofa sennilega um kl. 3.00 um nóttina. Ætlunin hafi verið að vinna næsta dag og hann talið rétt að fara ekki of seint að sofa. Er hann hafi farið að sofa hafi allt verið í stakasta lagi. Ákærði, brotaþoli og C hafi þá verið vakandi. Ákærði og brotaþoli hafi verið ölvaðir þessa nótt, þó svo að það hafi ekki verið áberandi. Hafi þeir verið góðglaðir. Hafi allt verið í góðu á milli þeirra. Hafi þeir átt að sofa þannig að einn svæfi í aukaherbergi í íbúðinni og tveir í stofu. Hafi þeim verið í sjálfsvald sett hvernig þeir höguðu sínum málum. Næsta dag hafi B orðið var við að brotaþoli hafi yfirgefið staðinn. Hafi kylfa er B átti fundist í bifreið ákærða næsta dag.
C kvaðst vera frændi ákærða. C, ákærði og brotaþoli hafi farið austur laugardaginn 11. júní 2011. Hafi ákærði sagt að hann ætlaði að lagfæra bifreið fyrir B. Þá hafi eitthvað mál verið í gangi fyrir austan tengt [...]. Fyrir austan hafi þeir, ásamt B, farið á bar og hafi þeim stað verið lokað kl. 1.00 um nóttina. Eftir það hafi verið gleðskapur heima hjá B og hafi þeim gleðskap lokið um kl. 4.00 til 5.00 um morguninn. Kvaðst C hafa verið útivið um morguninn og þá hafi verið birting. Ásamt C hafi verið þar úti ákærði og brotaþoli. Hafi þeir verið að ræða saman og ákærði og brotaþoli verið að ræða um stelpur og fleira. Ekki hafi C blandað sér í þær umræður og verið að klifra um á pallinum á meðan. Eftir það hafi þeir farið aftur inn og sest í sófa í stofunni. Þar hafi þeir spjallað saman og síðan farið að sofa. Hafi það verið innan við hálfri klukkustundu eftir að þeir komu inn af svölunum. Allir hafi þeir verið ölvaðir, þó svo þeir hafi ekki verið ofurölvi. Kvaðst C fljótlega hafa sofnað og brotaþoli þá enn verið í sófa í stofunni. Hafi C reiknað með að brotaþoli myndi sofa í stofunni eins og C. Kvaðst C ekki hafa orðið var við neitt eftir það. Er hann hafi vaknað næsta dag hafi hann áttað sig á því að brotaþoli var farinn á brott og að bifreið ákærða var sömuleiðis horfin. Hafi C hringt í brotaþola og spurt hann hvar hann væri. Hafi brotaþoli sagt að hann hafi velt bifreið ákærða og að hann væri í lögreglubifreið á leið á [...]. Hafi C og ákærði fengið að vita hvar bifreið ákærða væri niður komin.
C kvaðst hafa verið á göngu að morgni sunnudagsins 12. júní 2011 er hún hafi gengið fram á umferðaróhapp. Hafi hún séð bifreið velt. Á meðan hún hafi hraðað sér í átt að bifreiðinni hafi hún hringt á lögreglu til að láta vita um óhappið. Í þann mund er hún hafi komið að bifreiðinni hafi ferðamenn verið komnir þar að. Brotaþoli hafi verið nýskriðinn út úr bifreiðinni. Hafi ekki liðið meira en 2 til 3 mínútur frá veltunni þar til D hafi komið að bifreiðinni. Ferðamennirnir hafi farið á brott en D verið áfram hjá brotaþola. Hafi hún rætt við brotaþola. Hafi hún séð að hann var ekki slasaður en sennilega verið undir áhrifum áfengis. Hafi hún merkt það af því að hún hafi fundið áfengislykt stafa af honum. Eins hafi brotaþoli sagt að hann hafi verið að drekka. Hafi þau rætt saman og hún sagt honum að hún myndi bíða hjá honum uns lögreglan kæmi. Mjög fljótlega hafi brotaþoli sagt frá því að hann hafi verið í húsi á [...] ásamt ákærða. Einhverjir fleiri hafi verið á staðnum. Hafi ákærði leitað á hann kynferðislega. Hafi brotaþoli ekki lýst því atviki nánar. Er tekin var símaskýrsla af D 10. október 2011 lýsti hún því einnig að brotaþoli hafi sagt að hann og ákærði hafi farið upp í rúm saman og ákærði leitað á brotaþola. Brotaþola hafi fundist þetta ,,ógeðslegt“ og hafi sér verið mikið brugðið. Hann hafi orðið ofsahræddur og tekið lyklana að bílnum og keyrt í burtu. Fyrir dómi greindi D frá því að brotaþoli hafi sagt að hann hefði orðið að komast burt úr því húsi er hann hafi verið í. Hafi hann sennilega nefnt að ákærði ætti bifreiðina er hann hafi verið á. Ekki hafi brotaþoli viljað að hringt væri í fjölskyldu sína og hún látin vita um atvikið. Þá hafi hann sagt að hann vildi ekkert gera í málinu þar sem hann hafi metið ákærða mikils og ætti mikið undir honum. Hafi ákærði reynst sér mjög vel. Hafi brotaþoli átt nokkuð erfitt með að ræða þessa hluti og verið í nokkru áfalli. Ekki væri D viss um hvort hafi haft meiri áhrif á líðan brotaþola, atburðurinn á [...] eða bílveltan. Hafi D ekki merkt neitt ,,rugl“ í frásögn brotaþola og hafi frásögn hans ekki borið merki þess að brotaþoli væri undir áhrifum áfengis. Hafi henni fundist brotaþoli koma hreint fram, auk þess sem allt látbragð hans hafi verið með þeim hætti. Hafi D tjáð brotaþola að hún myndi segja lögreglu frá þessu samtali þeirra um þetta atriði en það hafi hún talið rétt að gera. Hún hafi hins vegar skýrt tekið það fram að framhald málsins væri undir brotaþola sjálfum komið. Um klukkustundu eftir óhappið hafi lögregla komið á vettvang. Brotaþoli hafi verið rólegur og yfirvegaður allan tímann, miðað við aðstæður allar. Hann hafi þó eitthvað titrað eftir bílveltuna. Pípa hafi legið í vegkanti eftir veltuna. Myndi D eftir því að brotaþoli hafi sagt að hann langaði til að reykja hana. Það hafi hann þó ekki gert. Í símaskýrslunni 10. október 2011 lýsti D því að henni hafi fundist brotaþoli trúverðugur í frásögn sinni.
E lögregluvarðstjóri kvaðst hafa sinnt útkalli vegna bílveltunnar. Hafi lögreglumenn farið frá [...] að [...]. Í tilkynningu hafi komið fram að ökumaður væri ekki slasaður og því hafi ekki verið ekið með aðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar kveikt. Á vettvangi hafi verið ungur drengur og kona hjá honum. Drengurinn hafi verið í uppnámi og komið fram að hann hafi tekið þá bifreið er hann hafi velt í leyfisleysi í aðstæðum er hann hafi verið í. Hafi drengurinn sagt að leitað hafi verið á hann og hann þurft að flýja þær aðstæður. Ölvunarakstursmál þessa unga manns hafi farið sína venjulegu leið og verið tekin varðstjóraskýrsla af drengnum á lögreglustöð á [...]. Í þá skýrslu hafi verið sett lýsing á þessu atviki. Þvagsýni hafi verið tekið úr drengnum á [...]. Hafi E haft nokkrar áhyggjur af drengnum og hafi hann virst miður sín. Hafi frásögn drengsins af kynferðisbrotinu komið að fyrra bragði frá drengnum. Hafi E skráð þá lýsingu niður í varðstjóraskýrslu vegna málsins. Fram hafi komið að drengurinn væri ekki ákveðinn í því að kæra þar sem um hafi verið að ræða vinnuveitanda hans. Hafi E skilist af frásögn drengsins að hann hafi farið af vettvangi kynferðisbrotsins í framhaldi af þeim verknaði. Framburður drengsins hafi verið skýr og hafi hann séð eftir því að hafa skemmt bifreið vinnuveitanda síns. Hafi hann verið í nokkru uppnámi og það sennilega stafað bæði af bílveltunni og þeim atburði er drengurinn hafi lýst. Á vettvangi hafi drengurinn verið á milli þess að vera ölvaður og áberandi ölvaður. Hafi hann ekki virst mjög ölvaður, þó svo blástur hafi gefið til kynna töluvert ölvunarástand.
F héraðslögreglumaður kvaðst hafa sinnt útkallinu að [...] að morgni sunnudagsins. Drengurinn sem ekið hafi bifreiðinni undir áhrifum áfengis hafi verið ölvaður og í uppnámi. Hafi verið farið með hann til töku blóðsýnis vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Á lögreglustöð hafi drengurinn sagt að vinnuveitandi hans hafi leitað á drenginn. Hafi hann ekki lýst nánar í hverju það brot hafi verið fólgið. Hafi hann talað um kynferðislega áreitni. Drengurinn hafi verið rólegur og yfirvegaður á vettvangi þrátt fyrir bílveltuna. Hafi framburður hans verið skýr, þó svo hann hafi verið sýnilega ölvaður. Hafi E bent drengnum á að hann yrði sjálfur að leita réttar síns vegna kynferðisbrotsins.
G, fósturfaðir brotaþola, kvað brotaþola hafa hringt í sig að morgni sunnudagsins 12. júní 2011 og sagt að hann væri á leið á [...]. Hafi hann sagt að hann væri í andlega slæmu ástandi og að hann hafi velt bifreið. Hafi hann beðið G um að koma austur til að ná í sig. Hafi G samstundis lagt af stað austur. Er G hafi hitt brotaþola fyrir austan hafi drengurinn verið rólegur en þungur. Hafi hann spurt drenginn hvað hafi komið fyrir og drengurinn verið seinn til svara. Hafi hann síðan sagt frá því að hann hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða með því að ákærði hafi leitað á hann kynferðislega. Að hann hafi í framhaldi tekið bifreið ákærða og velt henni. Hafi komið fram að brotaþoli og ákærði hafi rætt saman í síma og að ákærði myndi ekki leggja fram kæru á hendur brotaþola fyrir töku bifreiðarinnar. Við þessa frásögn hafi drengurinn brostið í grát. Hafi hann verið örvinglaður og grátið um stund. Hafi hann sofnaði í bifreiðinni og sofið þar til þeir hafi komið til Reykjavíkur. Þar hafi drengurinn farið beint að sofa. Næstu daga hafi brotaþoli lýst atburðinum frekar, þó svo G hafi aldrei fengið frá brotaþola nákvæma lýsingu á því broti er átt hafi sér stað. Ákærði hafi hringt á heimili G síðar þennan dag og hafi hann viljað ræða við brotaþola. Hafi G ekki viljað leyfa það en hann hafi viljað að brotaþoli ætti frumkvæði að samskiptum við ákærða. Hafi G sagt ákærða í símtalinu að brotaþola liði illa andlega. Hafi ákærði sagt að ekkert kynferðislegt hafi gerst á milli ákærða og brotaþola. Hafi G sagt að brotaþoli segði annað. Í framhaldi hafi þeir slitið samtalinu. G kvað líðan brotaþola hafa verið slæma eftir þetta. Hafi hann horfið inn í sig og orðið dapur. Hafi hann verið lengi að jafna sig. Hafi hann orðið örvæntingarfullur og ekki vitað hvernig hann ætti að bregðast við málinu. Þá hafi hann ekki þekkt brotaþoli af ósannsögli.
H, móðir brotaþola, kvað brotaþola hafa farið austur að [...] laugardaginn 11. júní 2011. Næsta dag hafi hann hringt og beðið G um að sækja sig en hann væri á leið á [...] í lögreglubifreið. Hafi hún heyrt G spyrja brotaþola hvort ekki væri allt í lagi. Hafi brotaþoli sagt að hann væri í lagi líkamlega. G hafi farið austur og náð í brotaþola. Ákærði hafi hringt á heimilið síðar þennan dag og sagt að vinnuferðin austur hafi ekki tekist vel og endað í gleðskap. Hafi brotaþoli tekið bifreið ákærða og velt henni. Hafi H þá ekki vitað hvað hafi átt sér stað og spurt ákærða hvað hafi komið fyrir. Hafi ákærði sagt að verið gæti að brotaþola hafi fundist að sér þrengt. Hafi H fundist þetta undarlegt og spurt ákærða hvort eitthvað annað en áfengi hafi verið haft um hönd. Hafi ákærði neitað því. Hafi ákærði sagt að hann kenndi sér um hvernig farið hafi og að hann myndi ekki leggja fram kæru vegna bifreiðarinnar. Það hafi hann endurtekið og sagt að eiginkona ákærða væri ósátt við að þeir hafi farið austur. Brotaþoli hafi verið miður sín er hún hafi hitt hann. Hafi hann nánast ekkert getað sagt og farið að sofa. Hafi G gert H grein fyrir samtali þeirra í bifreiðinni á leið í bæinn. Þar hafi komið fram að ákærði hafi leitað kynferðislega á brotaþola, sem flúið hafi af vettvangi. H hafi rætt við son sinn síðar um atburðinn og hann lítið vilja ræða hann. Hafi hún sagt honum það sem G hafi sagt henni og að hann mætti ekki sjálfum sér um kenna hvernig farið hafi. Næstu daga hafi frásögn brotaþola komið smátt og smátt. Þar hafi komið fram að ákærði hafi stungið upp á að þeir myndu sofa saman í herbergi. Þar hafi ákærði talað um erfitt hjónaband og hann rætt dónalega við brotaþola. Hafi ákærði sett hendur inn á brotaþola og kysst hann. Brotþoli hafi orðið hræddur og flúið af vettvangi. Brotaþoli hafi orðið mjög þungur eftir þetta atvik. Hafi [...] útvegað brotaþola sálfræðiaðstoð sem hann hafi þegið. Hafi brotþoli gefið upp draum sem hann hafi átt um að verða [...]. Hafi hann lokað sig meira og meira af og ekki viljað ræða um þetta. Viti hún til þess að honum líði illa vegna atviksins. Hafi atvikið haft áhrif á sjálfstraust brotaþola. Vissi hún til þess að brotaþoli hafi bundið miklar vonir við samstarfið við ákærða og hún heyrt ákærða hæla brotaþola. Hafi atvikið því verið mikið áfall fyrir brotaþola. Brotaþoli hefði upplifað svik. Bílveltan og skemmdir á bifreiðinni hafi einnig haft áhrif á brotaþola. Skortur á sjálfstrausti væri þó meira tengt broti ákærða. Hafi ákærði gefið brotaþola verkfæri á meðan þeir hafi starfað saman, auk þess að lána honum eitthvað. Þau hafi tekið þessa hluti saman eftir atvikið og skilað því til ákærða.
I, eiginkona ákærða, kvaðst hafa verð mjög ósátt við för ákærða og brotaþola austur. Hafi hún haft vitneskju um að B hafi beðið ákærða um að koma austur vegna [...] í bíl og í tengslum við aðgerðir tengdar [...]. Hafi hún verið ósátt við að ákærði tæki þátt í þeim aðgerðum, auk þess sem hún hafi verið ósátt við að ákærði tæki brotaþola með sér. Hafi hún ekki viljað að þeir hefðu of mikil samskipti. Samskipti þeirra hafi verið talsverð vegna náms brotaþola. Hún hefði viljað hafa sem minnst samskipti við hann þar sem hún hafi frá upphafi kunnað illa við hann. Hafi hún illa getað staðsett af hverju það hafi verið, en hún hafi síðar tengt það við fíkniefnaneyslu brotaþola. Bifreið sú er ákærði hafi farið á austur hafi eyðilagst af völdum brotaþola. Málið hafi allt haft gríðarlega mikil áhrif á ákærða. Hafi ákærði orðið kvíðinn og dregið úr öllum samskiptum við vini og kunningja. Þá hafi hann hrökklast úr vinnu er hann hafi verið í. Afleiðingin hafi orðið sú að hann treysti illa fólki.
Kristín Magnúsdóttir deildarstjóri á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti matsgerð frá 5. nóvember 2012 og gerði grein fyrir atriðum tengdum henni. Niðurstöður væru þær að brotaþoli hafi verið búinn að neyta töluverðs áfengis. Skimað hafi verið fyrir fíkniefnum en engin fundist. Almennt væri því þannig háttað að einstaklingar sem mældust með 3 o/oo af áfengi í blóði væru mikið ölvaðir og nærri áfengiseitrun. Útreikningar í matsgerð væru almennir og þar sem tími í útreikningi væri talsverður væri ekki unnt að fullyrða um niðurstöður.
Eggert Birgisson sálfræðingur staðfesti sálfræðivottorð frá 12. nóvember 2012 varðandi brotaþola. Starfsmannastjóri [...] hafi haft samband við Eggert og beðið hann um að ræða við brotaþola eftir atvik í vinnuferð. Bar hann að brotaþoli hafi komið þrisvar sinnum í viðtal. Hafi hann lýst umræddri ferð austur og atvikum tengdum henni. Hafi Eggert ekki farið yfir umrætt atvik sem tengdist ætluðu kynferðisbroti sérstaklega, þó svo brotaþoli hafi lýst háttseminni í almennum orðum. Hafi Eggert lagt fyrir brotaþola spurningalista, svo sem tíðkað væri í tilvikum sem þessum. Samkvæmt niðurstöðum hafi brotaþoli mælst með alvarlegt þunglyndi. Kvíði hafi verið til staðar en streita hafi verið eðlileg. Hafi brotaþoli sagt að hann hafi ekki glímt við þunglyndi áður. Hafi Eggert ráðlagt brotaþola að leita til Stígamóta vegna atviksins. Líðan brotaþola hafi breyst á milli viðtala. Kvaðst Eggert hafa tengt vanlíðan brotaþola við það kynferðisbrot er hann hafi sig talið verða fyrir. Í viðtölum hafi komið fram að brotaþoli hafi drukkið þessa nótt og tekið bifreið ákærða í óleyfi. Hafi hann útskýrt það þannig að hann hafi gert það vegna þess að hann hafi verið í uppnámi. Hafi honum þótt miður að valda tjóninu. Hafi Eggert ekki tengt líðan brotaþola við töku bifreiðarinnar eða veltuna. Ekki hafi komið fram í viðtölum að brotaþoli hafi á einhverjum tíma notað fíkniefni. Væri þekkt að langvarandi neysla kannabis gæti haft áhrif á líðan viðkomandi. Í tilviki brotaþola hafi komið hápunktur á vanlíðaninni, sem síðar hafi fjarað út. Það geri það að verkum að Eggert tengi vanlíðanina við atvikið á [...]. Fremur lágt hlutfall fólks fái áfallastreyturöskun í kjölfar áfalls, slyss eða náttúruhamfara. Hafi Eggert ekki séð ástæðu til að draga í efa frásögn brotaþola af atvikum.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt eða snemma að morgni sunnudagsins 12. júní 2011, að [...], leitað á brotaþola þar sem hann lá við hlið ákærða í tvíbreiðu rúmi, strokið bak hans og kynfæri innanklæða og að hafa kysst hann á munninn. Er háttsemin samkvæmt ákæru talin varða við 199. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hann og brotaþoli hafi lagst til hvílu í tvíbreiðu rúmi umrætt sinn. Ákærði hafi lagst í rúmið á undan brotaþola og viðurkennir hann ekki að hafa boðið honum að koma að leggjast hjá sér. Þá hefur hann viðurkennt að hafa viðhaft ósiðlegt tal við brotaþola í rúminu og að hann hafi hughreyst brotaþola með því að klappa honum á bakið. Engin kynferðisleg áreitni hafi átt sér stað af hálfu ákærða gagnvart brotaþola.
Brotaþoli hefur lýst atburðum þessarar helgi í nokkur skipti. Tengist það því að hann var ákærður fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis og gaf skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi vegna þess. Þá gaf hann í tvígang skýrslu hjá lögreglu vegna rannsóknar á kæru um kynferðisbrot, auk þess að gefa skýrslu hér fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Verjandi ákærða hefur dregið saman yfirlit um framburði brotaþola í þessi skipti í þeim tilgangi að sýna fram á, svo sem ákærði heldur fram, að framburður brotaþola hafi verið misvísandi í tengslum við atburði, sem dragi mjög úr trúverðugleika framburðar hans. Dómurinn hefur farið í gegnum þau atriði sem verjandi ákærða hefur bent á. Að mati dómsins hefur framburður brotaþola um meginatriði málsins verið stöðugur og brotaþoli trúverðugur um þau atriði sem hann hefur borið um. Að því verður að gæta að brotaþoli hefur margsinnis lýst þessum atburðum og jafnan verið spurður nánar út í einstök atriði tengd þeim. Af þeim ástæðum getur frásögn aldrei orðið nákvæmlega eins í hvert skipti.
Ákærði hefur lýst þessum atvikum í þrjú skipti. Vekur athygli að ákærði bar hjá lögreglu 10. október 2011 að samkvæminu að [...] hafi lokið um kl. 5.00 um morguninn. Hefur hann fyrir dómi lýst því að hann hafi ekkert fylgst með tímanum en tengi nú atburði við sólarupprás þennan morgun. Af því ráði hann að samkvæminu hafi lokið og ákærði gengið til náða um kl. 4.00 um nóttina. Þessi staðhæfing ákærða fær ekki stoð í gögnum málsins og veður að telja hana ósennilega þegar litið er til þess að ekkert annað er fram komið en að brotaþoli hafi tekið bifreið ákærða í heimildarleysi fljótlega eftir að hann kom inn af svölunum eftir að hafa dvalið þar um stund. Hafði hann þá skömmu áður yfirgefið herbergi ákærða. Er hér um síðbúna skýringu hjá ákærða að ræða.
Við mat á niðurstöðu er til þess að líta brotaþoli var að mati dómsins einkar trúverðugur í frásögn sinni af atburðum fyrir dóminum. Dró hann enga dul á þá staðreynd að hann hafi drukkið áfengi um nóttina og verið töluvert undir áhrifum áfengis. Þrátt fyrir það var frásögn hans samfelld. Þá er til þess að líta að brotaþoli var í töluverðu uppnámi er hann yfirgaf [...] að morgni 12. júní. Fær það stuðning í vætti D er afskipti hafði af brotaþola skömmu síðar og þess sem hún bar um það atriði. Fær það jafnframt stuðning í því að brotaþoli yfirgaf [...] um nóttina án þess að láta þá vita er þar gistu, tók bifreið ákærða ófrjálsri hendi og ók henni undir áhrifum áfengis. Þá er einnig til þess að líta að brotaþoli greindi D og lögreglumönnum sem komu á vettvang frá því að ákærði hefði brotið á honum kynferðislega og var frásögnin á nákvæmlega sama veg. Var það í beinu framhaldi af för brotaþola af [...] þar sem brotaþoli kvað brot ákærða hafa átt sér stað. Báru D og lögreglumenn að brotaþoli hafi verið í uppnámi og tengdi D það fremur við brot ákærða heldur en bílveltuna. Í framburði D og lögreglumanna kom jafnframt fram að brotaþoli hafi verið greinargóður í frásögn sinni af atburðinum og skýr. Þá styður vottorð sálfræðings, sem annaðist brotaþola eftir atvikið, það að brotaþoli hafi verið áreittur kynferðislega. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi greinst með þunglyndi og kvíða eftir atvikið. Er það í samræmi við frásögn móður og fósturföður brotaþola af líðan hans eftir atvikið. Í vætti Eggerts Birgissonar sálfræðings kom fram að hann tengdi þunglyndi brotaþola við hið kynferðislega áreiti fremur en bílveltuna eða fíkniefnaneyslu. Þegar þessi atriði eru virt telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau brot er í ákæru greinir. Með því að hafa strokið bak brotaþola, kynfæri innanklæða og að hafa kysst hann hefur ákærði gerst sekur um kynferðisbrot svo sem í ákæru greinir. Er háttsemi ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í [...]. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu, svo kunnugt sé. Með hliðsjón af aldri og stöðu ákærða gagnvart brotaþola og broti hans er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þykir unnt að skilorðsbinda refsinguna svo sem í dómsorði greinir.
Brotaþoli hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta. Í skaðabótakröfu kemur fram að um sé að ræða kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Er vísað til þess að brotið hafi haft mikil áhrif á brotaþola. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola. Með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni hefur hann valdið brotaþola tjóni. Á hann rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða. Fyrir dóminum liggur sálfræðivottorð sem styður þá staðhæfingu brotaþola að hann hafi orðið fyrir miskatjóni og lýsir það nánar umfangi þess. Með hliðsjón af háttsemi ákærða og afleiðingum hennar þykja miskabæturnar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað, málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns svo sem í dómsorði greinir. Hefur við ákvörðun sakarkostnaðar verið tekið tillit til sakarkostnaðar samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, aksturskostnaðar vitna og kostnaðar við vottorð sálfræðings. Þá hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknun réttargæslumanns.
Símon Sigvaldason, Áslaug Björgvinsdóttir og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar kváðu upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A skaðbætur að fjárhæð 600.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2011 til 2. desember 2011 en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 866.311 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ástríðar Gísladóttur hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Hildar Björnsdóttur héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur.