Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2012


Lykilorð

  • Skuldamál


                                     

Fimmtudaginn 20. september 2012.

Nr. 48/2012.

Margrét Rósa Pétursdóttir

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

Skuldamál.

A hf. höfðaði mál gegn M til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. M kannaðist við að hafa stofnað umræddan reikning en taldi sig ekki standa í neinni skuld við A hf. Hæstiréttur taldi M ekki hafa leitt að því rök að fjármunum hafi verið ráðstafað af reikningnum án hennar heimildar og stæði hún því í skuld við A hf. sem yfirdrættinum næmi. Gilti einu þó M kannaðist ekki við að hafa óskað eftir heimild til yfirdráttar. Var M því dæmd til greiðslu umræddrar skuldar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2012. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Árið 1979 stofnaði áfrýjandi tékkareikning nr. 500 í útibúi Samvinnubankans á Akranesi. Það útibú mun síðar hafa sameinast Búnaðarbanka Íslands og hjá bankanum var reikningurinn nr. 0330-26-500. Hinn 13. ágúst 2007 gaf áfrýjandi út tryggingarbréf til bankans, sem þá hét Kaupþing banki hf., að fjárhæð 14.000.000 krónur, en með því var veittur veðréttur í fasteigninni Garðastræti 34 í Reykjavík til tryggingar á öllum skuldum hennar við bankann. Sama dag og tryggingarbréfið var gefið út veitti áfrýjandi eiginmanni sínum, Hilmari Friðriki Foss, umboð til að skoða hreyfingar og til að millifæra af reikningnum í netbanka. 

Hinn 23. ágúst 2007 var stofnaður annar reikningur nr. 0330-26-800500 í nafni áfrýjanda í útibúi bankans á Akranesi og var yfirdráttarheimild á þeim reikningi 6.000.000 krónur. Sama dag var öll sú fjárhæð millifærð yfir á fyrrgreindan reikning áfrýjanda nr. 0330-26-500. Eftir þá ráðstöfun nam innstæða á þeim reikningi 1.158.848 krónur.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. október 2008 var eignum og skuldum Kaupþings banka hf. ráðstafað til stefnda sem þá hét Nýi Kaupþing banki hf. Við þá ráðstöfun færðust fyrrgreindir bankareikningar í útibúinu á Akranesi til stefnda.

Samkvæmt yfirliti yfir reikning áfrýjanda nr. 0330-26-500 hefur reikningurinn verið yfirdreginn allt frá 27. júní 2008. Hinn 20. maí 2009 var áfrýjanda send tilkynning um vanskil vegna yfirdráttar á reikningnum en skuldin nam þá 1.150.655 krónum. Í kjölfarið gaf áfrýjandi og eiginmaður hennar út tryggingarbréf 29. sama mánaðar til stefnda að fjárhæð 6.000.000 krónur með veðrétti í fyrrgreindri fasteign til tryggingar á öllum skuldum hjónanna við bankann. Þann dag höfðu 1.168.586 krónur verið yfirdregnar á reikningi nr. 0330-26-500 og 22.599.930 krónur á reikningi nr. 0330-26-800500. Mál þetta höfðaði stefndi til heimtu á skuld vegna yfirdráttar á fyrrnefnda reikningnum og miðar höfuðstól kröfunnar við stöðu reikningsins 26. febrúar 2010. Samhliða þessu máli höfðaði stefndi annað mál á hendur áfrýjanda til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á síðarnefnda reikningnum og er það mál nr. 36/2012 hér við réttinn.

II

Áfrýjandi kannast við að hafa upphaflega stofnað reikning nr. 0330-26-500 í útibúi Samvinnubankans á Akranesi. Áfrýjandi, sem ekki hefur leitt að því rök að fjármunum hafi verið ráðstafað af reikningnum án hennar heimildar, stendur því í skuld við stefnda sem nemur yfirdrættinum. Gildir þá einu þótt hún hafi ekki kannast við að hafa óskað eftir heimild til yfirdráttar á reikningnum. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms og tekin til greina krafa stefnda að fjárhæð 1.314.027 krónur miðað við stöðu reikningsins 26. febrúar 2010.

Í málinu liggur ekki fyrir að stefndi hafi sannanlega krafið áfrýjanda um greiðslu skuldarinnar fyrr en með birtingu stefnu 11. maí 2010. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verða dráttavextir af kröfunni reiknaðir frá þeim degi.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Margrét Rósa Pétursdóttir, greiði stefnda, Arion banka hf., 1.314.027 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. maí 2010 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. nóvember sl., er höfðað af Arion banka hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 11. maí 2010 á hendur Margréti Rósu Pétursdóttur, kt. 120658-3529, Garðastræti 34, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.314.027 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefndu er þess krafist, að stefnda verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur verði stórlega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu auk virðisaukaskatts.

Í upphaflegum dómkröfum stefndu var þess aðallega krafist, að málinu yrði vísað frá dómi. Var frávísunarkröfu stefndu í málinu hafnað með úrskurði 20. janúar 2011.

I

Stefnandi kveður kröfu sína byggða á yfirdráttarheimild á veltureikningi. Hinn 19. júní 1979 hafi stefnandi samþykkt umsókn stefndu um stofnun veltureiknings nr. 0330-26-500 með heimild til yfirdráttar í útibúi stefnanda. Þegar heimild til yfirdráttar hafi runnið út 26. febrúar 2010, hafi vanskilaskuldin staðið í 1.314.027 krónum samkvæmt reikningaskrá. Hafi skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. 

Með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun 9. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, og víkja stjórn bankans og skipa skilanefnd yfir hann. Þá hafi ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Arion banka hf. verið ákveðin með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. október 2008.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafan er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu sína um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reisir stefnandi á lögum nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.

II

Sýknukröfu sína styður stefnda þeim rökum, að hún kannist ekki við að hafa óskað eftir yfirdráttarheimild hjá stefnanda. Tekur krafa stefndu um sýknu því mið af þeirri staðhæfingu stefndu, að hún skuldi stefnanda ekkert.

Þá mótmælir stefnda öllum kröfum stefnanda um dráttarvexti fyrr en frá og með dómsuppsögu. Krafa stefndu um málskostnað er reist á ákvæðum laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988, en stefnda kveðst ekki hafa á hendi virðisaukaskattskylda starfsemi og henni beri því nauðsyn til að heimta virðisaukaskatt úr hendi stefnanda.

III

Stefnda sótti um stofnun tékkareiknings til persónulegra nota hjá útibúi Samvinnubankans á Akranesi 19. júlí 1979 samkvæmt gögnum málsins og var reikningurinn nr. 500 hjá útibúinu. Samkvæmt reikningsyfirlitum frá Kaupþingi banka hf., sem lögð eru fram í málinu og koma heim og saman við heimildaryfirlit frá stefnanda, má ráða, að yfirdráttarheimild á reikningnum, sem stefnt er vegna, hefur ítrekað verið framlengd eða hækkuð. Þá kemur fram að staða á reikningnum hjá stefnanda hafi verið yfirdregin um 1.314.027 krónur, þegar síðasta hreyfing var færð á reikninginn 26. febrúar 2010. Er reikningurinn skráður á nafn stefndu. Stefnda kannast hins vegar ekki við að hafa stofnað veltureikning eða stofnað til yfirdráttar á greindan reikning hjá stefnanda svo hún muni eftir.

Stefnandi hefur lagt fram gögn um stofnun ávísanareiknings á afgreiðslustað Samvinnubankans frá 1979, en kveður útibúið síðar hafa runnið saman við aðra banka, síðar Kaupþing banka hf., nú Arion banka hf. Hefur stefnda hvorki hrakið þessar staðhæfingar stefnanda né lagt fram gögn, sem styðja annað, eða kallað til vitni, sem upplýst gætu málavexti frekar. Þá liggur fyrir í málinu umboð, undirritað af stefndu, frá 13. ágúst 2007, þar sem Hilmari F. Foss er veitt umboð til aðgerða í netbanka á reikningnum, sem hefur sama númer hlaupareiknings og stefnda stofnaði á sínum tíma. Verður því ekki annað lagt til grundvallar en að um sama reikning sé að ræða, enda þótt reikningurinn hafi kallast tékka- eða ávísanareikningur, þegar til hans var stofnað, sérkjarareikningur á reikningsyfirlitum og veltureikningur í stefnu.

Í gögnum málsins er fjölmörgum reikningsyfirlitum til að dreifa, þar sem upp er gefin staða reikningsins á hverjum tíma, allt frá 29. desember 2006 til 31. desember 2009. Má þar ráða, að allan þann tíma var reikningurinn yfirdreginn og með neikvæða stöðu. Eru reikningsyfirlitin öll stíluð á stefndu og umboðsmann hennar, en póstáritun er á ákveðið pósthólf í Reykjavík. Heldur stefnda því fram, að sér hafi ekki borist yfirlitin. Þá er að finna tilkynningar stefnanda til stefndu um vanskil vegna yfirdráttar, sem sendar voru á lögheimili hennar, sem stefnda kannast ekki við og telur, að hafi slík bréf borist sér á heimili sitt, þá hafi þau farið til lögmanns síns. Ber stefnda áhættuna af því að kynna sér ekki innihald bréfanna, sem henni bárust á lögheimili sitt. Þá hefur ekki verið upplýst af hálfu stefndu, hvers vegna henni hafi ekki borist áðurgreind yfirlit yfir stöðu á reikningnum, sem send voru í tilgreint pósthólf, en á þeim segir, að athugasemdir skuli gerðar innan 20 daga frá viðtöku þeirra, annars teljist reikningarnir réttur.

Á áðurgreindu umboði stefndu til Hilmars F. Foss um aðgerðir á reikningnum í netbanka frá 13. ágúst 2007 ritar stefnda undir, að hún beri fulla ábyrgð á öllum aðgerðum, þ.á.m. öllum fjárhagslegum færslum, sem framkvæmdar séu í netbankanum með notandanafni hennar og lykilorði.

Stefnda kveðst ekki muna eftir að hafa óskað eftir yfirdrætti á umræddan reikning. Engu að síður veitir hún umboð á reikninginn í netbanka á árinu 2007, þegar staða á reikningnum var þegar neikvæð. Stefnda hefur engar skýringar gefið á því, hvernig eignastaða á reikningnum hennar gat orðið neikvæð hjá bankanum eða yfirdráttarheimildir voru auknar og framlengdar fram til þess, að hún veitti öðrum umboð til aðgerða á reikningnum, eða eftir það. Gögn málsins bera með sér, að reikningurinn hafi verið yfirdreginn allt frá árinu 2003 og hefur stefndu ekki tekist að bera brigður á gögn stefnanda í málinu eða leggja fram gögn af sinni hálfu, sem sýna fram á annað. Verður því ekki fallist á, að stefnda skuldi stefnanda ekkert, enda ber hún ábyrgð á þeim skuldum, sem stofnað er til á reikningi hennar með lögmætum hætti, en því hefur ekki verið hreyft í málinu, að færslur á reikningi stefndu hafi komið til með ólögmætum hætti eða án samþykkis hennar.

Samkvæmt framangreindu verður stefnda talin skulda stefnanda umkrafða fjárhæð í málinu og dæmd til greiðslu hennar.

Af hálfu stefndu er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 26. febrúar 2010, en þá var síðasta skráða hreyfing á reikningnum. Reikningurinn er í vanskilum frá 30. júní 2009 að telja samkvæmt sama yfirliti, en stefndu hafði þegar verið send tilkynning um vanskil 20. maí sama ár. Hefur stefnda ekki gert nægilega grein fyrir því, að hvaða leyti dráttarvaxtakröfunni er mótmælt eða hvers vegna miða skuli við síðari dagsetningu en 26. febrúar 2010. Verður því fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda eins og henni er lýst í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda málskostnað. Samhliða máli þessu er rekið málið E-4170/2010 milli sömu aðila. Málskostnaður er því ákvarðaður með hliðsjón af 4. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og þykir hæfilega ákveðinn 130.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þorsteinn Ingi Valdimarsson, hdl., en af hálfu stefndu flutti málið Kristján Stefánsson, hrl.

Dóm þennan kveður upp Hrannar Már S. Hafberg, settur héraðsdómari.

D Ó M S o r ð :

Stefnda, Margrét Rósa Pétursdóttir, greiði stefnanda, Arion banka hf., 1.314.027 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2010 til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 130.000 krónur í málskostnað.