Hæstiréttur íslands
Mál nr. 726/2012
Lykilorð
- Ábyrgð
- Ógilding samnings
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 726/2012.
|
Stefán R. Kjartansson (Hilmar Magnússon hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Ábyrgð. Ógilding samnings.
L hf. krafði S um greiðslu samkvæmt sjálfskuldarábyrgð sem hann hafði tekist á hendur vegna yfirdráttarheimildar K ehf. á tékkareikningi hjá L hf. Mun K ehf. hafa verið stofnað til að taka við rekstri og verkefnum Í ehf. S byggði sýknukröfu sína á því að ábyrgð hans væri ógild með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, auk brostinna forsenda og víkja bæri henni til hliðar af þeim sökum. Hélt S því fram að K ehf. hafi verið greiðsluskylt vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu annarra fyrirtækja og hafi L hf. mátt vera um það kunnugt. Þá hafi L hf. mátt vera ljóst þegar S gekkst í ábyrgðina að miðað við þær forsendur sem lagt hafi verið upp með hafi hvorki hann né hið nýja félag staðið undir þeim skuldbindingum. Í Hæstarétti var talið að S hafi ekki fært að því nein haldbær rök að víkja bæri ábyrgðaryfirlýsingu þeirri er um ræddi í þessu máli til hliðar, hvorki með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 né á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um réttaráhrif brostinna forsendna. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um greiðsluskyldu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi, sem er viðskiptafræðingur að mennt, undirritaði yfirlýsingu þá um sjálfskuldarábyrgð sem um ræðir í málinu 3. febrúar 2009. Samkvæmt því og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að áfrýjandi hafi ekki fært að því haldbær rök að víkja beri ábyrgðaryfirlýsingu þeirri er um ræðir í þessu máli til hliðar, hvorki með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, né á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um réttaráhrif brostinna forsendna. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Stefán R. Kjartansson, greiða stefnda, Landsbankanum hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 3. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af NBI hf. (nú Landsbankinn hf.), kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík, vegna útibús 0115, Álfabakka 10, Reykjavík, með stefnu, birtri 14. apríl 2011, á hendur KTF byggingavörum ehf., kt. [...], Granaskjóli 48, Reykjavík og Stefáni R Kjartanssyni, kt. [...], Granaskjóli 48, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu, KTF byggingavörur ehf. og Stefán R Kjartansson, verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.671.862, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 10.12. 2010 til greiðsludags gagnvart stefnda KTF byggingavörum ehf., en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 1.671.862 frá 10.02. 2011 til greiðsludags gagnvart stefnda Stefáni R Kjartanssyni. Einnig er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda, Stefáns R. Kjartanssonar, eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, auk þess sem hann krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnda, KTF byggingavara ehf., var ekki sótt þing.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir samkvæmt stefnu, að þann 03.02. 2009 stofnaði stefndi, KTF byggingavörur ehf., tékkareikning nr. [...] við útibú stefnanda að Álfabakka 10, Reykjavík. Þann 10.12. 2010 námu innistæðulausar færslur á reikningnum kr. 1.671.862, og var reikningnum þá lokað. Með sjálfskuldarábyrgð nr. 0115-63-151747, dags. 03.02. 2009, tókst stefndi, Stefán R Kjartansson, á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni gagnvart stefnanda fyrir allt að kr. 2.000.000 auk vaxta og kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Skuldin hefur ekki fengizt greidd.
Stefndi Stefán lýsir málavöxtum þannig, að félagið KTF byggingavörur ehf. hafi verið stofnað í janúar 2009, skömmu eftir efnahagshrunið, til að taka við rekstri og verkefnum Íslandsmálningar ehf., en staða þess félags hafi verið orðin mjög erfið vegna skulda við stefnanda, sem höfðu hækkað mikið á haustmánuðum 2008. Hafi félagið þá m.a. haft svokallað fjölmyntalán, sem hafi verið nokkurs konar yfirdráttarlán, sem tengt hafi verið gengi erlendra gjaldmiðla. Er reikningi fjölmyntalánsins var lokað, hafi skuldin staðið í 16,5 milljónum króna miðað við gengi þeirra gjaldmiðla, sem miðað hafi verið við í reikningi, og hafi skuldin þannig rúmlega tvöfaldazt á skömmum tíma.
Lager og öll viðskiptavild Íslandsmálningar ehf. hafi verið flutt í hið nýja félag með vitund og samþykki stefnanda, sem hafi haft tryggingar í lager og vörureikningum Íslandsmálningar ehf. Hafi tryggingar þessar flutzt yfir í hið nýja félag. Hafi félagið haft sömu starfsemi og forveri þess, þ.e. sölu á ýmiss konar vörum, er tengzt hafi byggingastarfsemi og tengdri starfsemi.
Stefndi hafi gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum Íslandsmálningar ehf. og hafi hann talið sig hafa samið við stefnanda um, að skuldir þess félags gengju yfir til hins nýja félags, en með áframhaldandi ábyrgð stefnda. Skyldi hinn nýi rekstur standa undir þeim skuldum, enda ekki öðrum til að dreifa, samhliða því að Íslandsmálning ehf. yrði tekin til gjaldþrotaskipta. Hafi aðilar talið, að með þessum hætti yrði hagsmuna hvors um sig eins vel gætt og kostur hafi verið, en þá hafi menn ekki séð fyrir þær miklu þrengingar, sem fram undan hafi verið, og algjört hrun á byggingamarkaði.
Þegar hafi loks átt að ganga frá skuldum Íslandsmálningar ehf., hafi stefnandi útbúið skuldabréf, að fjárhæð kr. 31.450.000, þar sem stefndi hafi verið skuldari, en ekki hið nýja félag, svo sem um hafði samizt, en þetta hafi verið í október 2009. Hafi stefnda verið talin trú um, að það skipti ekki máli um ábyrgð hans, en stefndi hafi lagt ríka áherzlu á að veðsetja ekki heimili sitt, þótt lagt hefði verið að honum að gera það.
Stefndi kveður sér ekki hafa verið gerð grein fyrir því, að skuldbinding hans með þessum hætti væri allt annars eðlis en það, sem hann hafi talið sig hafa samið um við bankann, en á þessum tíma hafi m.a. lög um ábyrgðarmenn tekið gildi, sem hafi veitt stefnda mun meiri vernd en ella. Þá hafi honum ekki verið gerð sérstaklega grein fyrir fjárhæð ábyrgðar sinnar og hafi hann treyst stefnanda í því efni, en það hafi síðar reynzt vera alrangt við nánari skoðun, auk þess sem hluti hennar hafi verið vegna yfirdráttar, sem tengdur hafi verið erlendum myntum og stefndi hafi talið ólögmætt með vísan til ákvæðis vaxtalaga um bann við þvílíkri gengistryggingu.
Forsenda bankans fyrir því að flytja ábyrgðina yfir hafi m.a. verið sú, að stefndi greiddi upp skuld félagsins Festingar ehf., sem hafi að hluta verið í hans eigu, en það félag hafi ekki verið með rekstur. Hafi yfirdráttur félagsins verið tæpar 4,6 milljónir, sem greiddar hafi verið úr rekstri meðstefnda með vilja og vitund stefnanda.
Hafi stefnda ekki verið gerð grein fyrir því, að sjálfskuldarábyrgð hans á skuld Festingar ehf. hafi verið ógild, og hafi hann ekki komizt að því fyrr en nýlega. Hafi mikil áherzla verið lögð á það af hálfu stefnanda að ganga frá þessum þætti, svo hægt væri að gera upp skuldir Íslandsmálningar ehf., eins og um hafði verið samið.
Þessar greiðslur á skuld Festingar ehf., ásamt því að efnahagskreppan hafi á fullum þunga komið niður á bygginga- og verktakastarfsemi, hafi orðið til þess, að meðstefndi hafi engan veginn getað staðið undir persónulegum skuldbindingum sínum og hafi rekstur fyrirtækisins lognast hægt og rólega út af. Sé yfirdráttur meðstefnda aðallega til kominn vegna greiðslna til stefnanda á skuldum annarra félaga, sem ekki hafi notið trygginga við eða þar sem tryggingar hafi verið ógildar, án þess að stefndi hafi verið upplýstur um það.
Í kjölfarið hafi innheimtuaðgerðir hafizt gegn stefnda og meðstefnda, og hafi stefndi án árangurs reynt að semja um skuldir sínar við stefnanda. Hafi stefnandi hafnað því að afhenda gögn og minnisblöð um það, hvernig skyldi fara með skuldir Íslandsmálningar ehf. og yfirfærslu rekstrar og tækja yfir í nýtt félag.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum, 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. og 33.gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda, Stefáns R. Kjartanssonar
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ábyrgð hans sé ógild, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 og brostinna forsendna, og beri að víkja henni til hliðar af þeim sökum.
Stefndi telji, að stefnanda hafi mátt vera fullljóst, þegar yfirdráttur á reikningi meðstefnda var veittur og stefndi gekkst í ábyrgð fyrir honum í febrúar 2009, að miðað við þær forsendur, sem lagt hafi verið upp með, hafi hið nýja félag ekki, og því síður stefndi, staðið undir þeim skuldbindingum.
Stefnandi hafi sett það sem skilyrði fyrir endurskipulagningu skulda Íslandsmálningar ehf. að skuldir Festingar ehf. yrðu gerðar upp, þrátt fyrir að stefnandi hafi vitað, að ábyrgð stefnda á þeim skuldum hafi verið ógild. Stefnandi hafi ekki upplýst um það og telji stefndi slík vinnubrögð stefnanda ámælisverð og beinlínis óheiðarleg. Stefnandi hafi einnig haft fulla vitneskju um, að greiðslurnar skyldu renna frá meðstefnda, nú með gildri ábyrgð stefnda, enda hafi það verið að undirlagi stefnanda, hvernig háttað skyldi flutningi rekstursins yfir í hið nýja félag. Hafi stefndi þar farið eftir fyrirmælum og ábendingum stefnanda.
Þá bendir stefndi á, að í kjölfar bankahrunsins í október 2008 hafi fasteignamarkaðurinn lognazt út af og algjört frost hafi orðið í sölu fasteigna. Samhliða því hafi nær öll bygginga- og verktakastarfsemi lagzt af, og verzlanir, sem byggt hafi afkomu sína á þjónustu og vörusölu í tengslum við byggingastarfsemi hafi umvörpum farið í gjaldþrot eða lent í fangi hinna nýju banka, þar með talið stefnanda, sem reki þær áfram í samkeppni við aðra, þ.á m. meðstefnda. Fljótlega hafi orðið ljóst, að meðstefndi hafi staðið þar höllum fæti og hafi hann ekki notið þeirrar velvildar, sem ýmis önnur stórfyrirtæki á byggingamarkaði njóti, og hafi svo farið, að rekstur meðstefnda hafi lagzt af.
Telji stefndi, að vegna þessara síðari atvika, sem hafi komið til, verði ábyrgð hans vikið til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í síðargreindum lögum sé sérstaklega á því byggt, að við beitingu umræddrar heimildar samningalaga verði í tilviki ábyrgðarmanns litið til þeirra aðstæðna á fjármálamarkaði, sem hafi verið undanfari laga nr. 125/2008.
Leiði fræðikenningar um brostnar forsendur til sömu niðurstöðu, en stefndi telji það mjög ósanngjarnt og óheiðarlegt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig ábyrgð stefnda, þegar horft sé til aðdraganda málsins og þeirrar vitneskju, sem stefnandi hafi haft um stöðu málsins, án þess að kynna hana stefnda. Framkoma stefnanda að þessu leyti gangi gegn öllum góðum og gegnum gildum og sé andstæð viðskiptavenjum, en gæta verði að því, að stefnandi sé sérfræðingur í fjármálum og ábyrgð hans því strangari en ella. Gera verði kröfu til þess, að stefnandi standi að málum með eðlilegum og sanngjörnum hætti.
Stefndi vísi til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um brostnar forsendur og gagnkvæma tillitssemi samningsaðila, ákvæða laga nr. 7/1936 og eml. Stefndi byggi kröfu sína um málskostnað á ákvæðum laga nr. 91/1991 og virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur í skilningi laganna.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefndi Stefán gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Jón Otti Jónsson, fyrrum starfsmaður stefnanda.
Af hálfu stefnda, KTF byggingavara ehf., hefur ekki verið sótt þing. Verður málið því dæmt á hendur þessum stefnda samkvæmt framlögðum gögnum. Með því að gögn málsins eru í samræmi við dómkröfur stefnanda verða kröfur hans teknar til greina, eins og þær eru fram settar gagnvart þessum stefnda.
Stefndi Stefán byggir sýknukröfu sína annars vegar á 36. gr. samningalaga og hins vegar á brostnum forsendum.
Hvað varðar fyrri málsástæðu stefnda byggir hann á því, að ábyrgð hans verði vikið til hliðar vegna atvika, sem síðar hafi komið til, auk þess sem litið skuli til þeirra aðstæðna á fjármálamarkaði, sem hafi verið undanfari laga nr. 125/2008.
Það liggur fyrir, að stefndi ritaði undir sjálfskuldarábyrgð þá, sem er grundvöllur málssóknar þessarar á hendur honum, hinn 3. febrúar 2009, en þá voru nokkrir mánuðir liðnir frá hinu svokallaða bankahruni, og liggur ekki annað fyrir en að stefnanda hafi á þeim tíma mátt vera kunnugt um það ástand, sem þá ríkti á íslenzkum fjármálamarkaði.
Þá virðist stefndi byggja á því, að stefndi, KTF byggingavörur ehf., hafi verið greiðsluskyldur vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu annarra fyrirtækja, sem stefnandi hafði fyrirsvar fyrir á þessum tíma, og hafi stefnanda mátt vera um það kunnugt. Enn fremur hafi stefnanda mátt vera ljóst, þegar stefndi gekkst í ábyrgð fyrir reikningi félagsins í febrúar 2009, að miðað við þær forsendur, sem lagt hafi verið upp með, hafi hvorki hið nýja félag né stefndi staðið undir þeim skuldbindingum.
Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði stefnda, en að honum hafi sjálfum mátt vera ljós fjárhagsleg staða meðstefnda, KTF byggingavara, sem og eigin staða. Verður ekki séð á hvern hátt síðar til komin atvik eigi að leiða til þess, að víkja beri sjálfskuldarábyrgð stefnda Stefáns til hliðar. Á sama hátt verður ekki séð á hvern hátt stefnandi ber ábyrgð á brostnum forsendum stefnda fyrir undirskrift sinni undir ábyrgðina, en ekki verður á það fallizt, að almenn þróun efnahagsmála verði virt sem brostin forsenda fyrir skuldbindingu stefnda Stefáns, enda þótt sú þróun hafi orðið önnur og lakari en aðilar töldu sig geta vænzt.
Stefndi Stefán ber fyrir sig, að stefnandi sé sérfræðingur í fjármálum og ábyrgð hans því strangari en ella. Þegar það er virt verður einnig að líta til þess, að stefndi Stefán var ekki viðvaningur í viðskiptaheiminum, en hann rak allnokkur fyrirtæki og hafði gert um árabil, eftir því sem málatilbúnaður hans ber með sér.
Hefur stefndi ekki fært að því rök, að víkja beri samningi aðila til hliðar, og verða kröfur stefnanda á hendur honum því teknar til greina að fullu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu in solidum til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 350.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, KTF byggingavörur ehf. og Stefán R Kjartansson, greiði in solidum stefnanda, Landsbankanum hf., kr. 1.671.862, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 10.02. 2011 til greiðsludags. Enn fremur greiði stefndi, KTF byggingavörur ehf., einn dráttarvexti af sömu fjárhæð samkvæmt sama lagaákvæði frá 10.12. 2010 til 10.02. 2011. Þá greiði stefndu in solidum stefnanda kr. 350.000 í málskostnað.