Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-265
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fasteign
- Ábyrgðartrygging
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 14. desember 2018 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. nóvember sama ár í málinu nr. 228/2018: Vörður tryggingar hf. gegn A og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vörður tryggingar hf. telur að skilyrðum framangreinds lagaákvæðis sé ekki fullnægt í málinu en tekur að öðru leyti ekki afstöðu til beiðninnar.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu Varðar trygginga hf. úr ábyrgðartryggingu húseiganda í tengslum við fasteignina að Hátúni 2 í Reykjavík vegna líkamstjóns sem leyfisbeiðandi kveðst hafa orðið fyrir þegar hún féll í tröppum í húsnæðinu. Héraðsdómur Reykjavíkur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina á þann hátt að viðurkennd var bótaábyrgð Varðar trygginga hf. á helmingi tjóns leyfisbeiðanda sem rakið yrði til slyssins. Landsréttur taldi á hinn bóginn að slysið hafi stafað af óhappatilviki sem húseigandi bæri ekki ábyrgð á. Vísaði rétturinn einnig til þess að tröppurnar og búnaður þeirra hefðu fullnægt fyrirmælum byggingarsamþykktar fyrir Reykjavík nr. 195/1945 sem gilt hafi á þeim tíma sem húsið var reist. Sýknaði Landsréttur Vörð tryggingar hf. af kröfu leyfisbeiðanda.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Vísar hún í þeim efnum til þess að umræddar tröppur hafi ekki fullnægt kröfum sem gerðar séu í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998, um að handrið skuli vera beggja vegna í stiga sem sé meira en 0,9 metrar að breidd en einungis hafi verið handrið á vegg vinstra megin við tröppurnar. Hafi vanbúnaður á tröppunum að þessu leyti valdið því að slysið hafi orðið.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.