Hæstiréttur íslands

Mál nr. 483/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 16. ágúst 2011.

Nr. 483/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 22. september 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var ákæra ríkissaksóknara 3. ágúst 2011 á hendur varnaraðila þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. sama mánaðar. Mun hafa verið ákveðið að aðalmeðferð í málinu verði 29. og 30 ágúst. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2011.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X [...] sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 22. september 2011, kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara 3. ágúst sl. hafi saka­mál verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur X.  Ákærða sé gefið að sök að hafa, í félagi við annan mann, framið sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu og tilraun til ráns að kvöldi þriðjudagsins 10. maí og miðvikudaginn 11. maí, með því að hafa reynt að neyða út úr [...] fé með því að hóta að beita hann og nána vandamenn hans ofbeldi, svipta hann frelsi sínu og beita hann líkamlegu ofbeldi ef hann útvegaði þeim ekki 10.000.000 krónur í reiðufé, ferðatölvu, tvo flatskjái, tvö mótorhjól og bifreið. Við þetta hafi [...] hlotið nefbrot, bólgur, mar og áverka víðsvegar á andliti, höfði og líkama, yfirborðsáverka á hlutum höfuðs, mar í andliti, yfirborðsáverka á bakvegg brjóstkassa, marga yfirborðsáverka á kvið, mjóbaki og mjaðmagrind, mar á hægri öxl og upphandlegg, yfirborðsáverka á framarmi, mar á framan- og aftanverðu vinstra læri, yfirborðsáverka á öðrum hlutum háls og hnakka, tognun og ofreynslu á hálshrygg brjósthrygg og lendhrygg.  Teljist háttsemi X varða við 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé honum einnig gefið að sök vörslur á fíkniefnum. Ákærði hafi neitað sök við yfirheyrslur hjá lögreglu. Ákæran hafi verið þingfest í dag hjá Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara. Rannsóknargögn málsins, sem hafi legið til grundvallar málshöfðun og lögð hafi verið fram, hafi borist ríkissaksóknara frá lögreglu 29. júlí sl. Sönnunarfærsla ákæruvalds fyrir dómi muni taka mið af framlögðum rannsóknargögnum.

Ákæruvaldið telji að fyrir liggi rökstuddur grunur um að ákærði hafi framið þau brot sem honum sé gefið að sök í ákæru ríkissaksóknara 3. ágúst sl. Vegna alvarleika sakarefnis þyki nauðsynlegt vegna almannahagsmuna, að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 12. maí sl., í upphafi vegna rannsóknarhagsmuna samkvæmt a- lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en síðar á grundvelli almannahagsmuna samkvæmt 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 449/2011.

Sakarefnið sé talið varða við 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lög nr. 64/1974 um ávana- og fíkniefni. Krafa um gæsluvarðhald sé byggð á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2009. 

Ákærða er gefið að sök að hafa í félagi við annan mann svipt brotaþola frelsi og haldið honum nauðugum og beitt hann misþyrmingum á meðan á frelsis­sviptingunni stóð. Því er lýst í ákæru að hann hafi með þessu og hinni hættulegu líkamsárás brotið gegn 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur 10 ára fangelsi. Ákæra var þingfest fyrr í dag og fer aðalmeðferð fram í lok mánaðarins. Með vísan til þess sem fyrir liggur í málinu og fram kemur í gögnum þess leikur sterkur grunur á því að ákærði hafi framið þessi brot. Hin meintu brot eru enn fremur þess eðlis að varðhald telst nauðsynlegt með tilliti til almanna­hagsmuna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykir fært eins og á stendur að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

X, [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 22. september 2011, kl. 16:00.