Hæstiréttur íslands

Mál nr. 559/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 30. september 2010.

Nr. 559/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Bragi Björnsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 26. október 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

     Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, f. [...], frá Póllandi, verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudags 26. október 2010 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan hafi til rannsóknar meint stórfellt brot kærða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Kærði hafi verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar aðfaranótt laugardags 28. ágúst 2010 vegna rökstudds gruns um að hann stæði að innflutningi á umtalsverðu magni af ávana- og fíkniefnum, en kærði hafi verið handtekinn við komu til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn. Kærði hafi verið með í fórum sínum flösku sem við rannsókn hafi reynst innihalda 1,05 lítra af vökva sem samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 3. september 2010, innihaldi amfetamín, að mestu á formi amfetamínbasa, að styrkleika 47%. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 23. september 2010, væri hægt að búa til allt að 8120 grömm af amfetamíni að styrkleika 5,8%, úr þeim vökva sem kærði hafi flutt til landsins.  Rannsókn þessa máls sé að ljúka. Verið sé að ganga frá rannsóknargögnum málsins og verði þau send embætti ríkissaksóknara í þessari viku.

Kærði sé útlendingur sem ekki sé vitað til að hafi tengsl við landið og megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér undan saksókn verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Það magn fíkniefna sem hafi fundist í fórum kærða þyki benda til að um stórfellt brot sé að ræða sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri grein varði fangelsi allt að 12 árum.

Lögreglustjóri telur nauðsynlegt í þágu almannahagsmuna og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að kærða verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Lögreglustjóri gerir því þá kröfu, með vísan til ofanritaðs, að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudags 26. október 2010  kl. 16.00.

Krafan er sett fram með vísan til b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa flutt inn 1,05 lítra af vökva sem samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði inniheldur amfetamín, að mestu á formi amfetamínbasa, að styrkleika 47% og  væri hægt að búa til úr vökvanum allt að 8120 grömm af amfetamíni að styrkleika 5,8%. Rannsókn málsins er á lokastigi. Kærði er útlendingur og er ekki vitað til þess að hann hafi einhver tengsl við Ísland. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, verður fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudags 26. október 2010 kl. 16.00.