Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Brottvísun af heimili
- Ómerking
|
|
Þriðjudaginn 7. júlí 2015. |
|
Nr. 445/2015. |
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Agnes Björk Blöndal fulltrúi) gegn X (Berglind Jónasardóttir hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann. Brottvísun af heimili. Ómerking.
L bar ákvörðun sína um X yrði gert skylt að sæta brottvísun af heimili sínu og nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili undir héraðsdóm til staðfestingar. Í hinum kærða úrskurði var ekki leyst úr þeim hluta kröfugerðar L sem laut að brottvísun X af heimili sínu og var úrskurðinn því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 29. júní 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. júní 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 19. sama mánaðar um að varnaraðila yrði gert að sæta í fimm mánuði nánar tilgreindu nálgunarbanni gagnvart A. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að brottvísun af heimili og nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði ákvörðun sín 19. júní um að varnaraðila verði gert að sæta brottvísun af heimili sínu í fjórar vikur og nálgunarbanni í fimm mánuði. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Um skilyrði til þess að beita nálgunarbanni og brottvísun af heimili fer samkvæmt því sem segir í 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011. Í 2. mgr. 5. gr. laganna segir að heimilt sé að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. júní 2015 í máli nr. 412/2015. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga tekur lögreglustjóri ákvörðun um að beita þessum úrræðum og skal þeim markaður ákveðinn tími, nálgunarbanni ekki lengur en eitt ár í senn en brottvísun ekki lengur en fjórar vikur í senn, ella komi til ný ákvörðun, sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar. Í IV. kafla laga nr. 85/2011 er kveðið á um að lögreglustjóri skuli bera ákvörðun um beitingu úrræðanna undir héraðsdóm til staðfestingar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna, og um málsmeðferð fyrir héraðsdómi gilda ákvæði XV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011.
Með ákvörðun sóknaraðila 19. júní 2015 á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011 var varnaraðila gert að sæta brottvísun af heimili sínu í fjórar vikur og nálgunarbanni í fimm mánuði. Sóknaraðili bar 22. sama mánaðar ákvörðun sína undir héraðsdóm til staðfestingar. Af forsendum hins kærða úrskurðar og úrskurðarorði verður ráðið að ekki var tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar sóknaraðila er lýtur að brottvísun varnaraðila af heimili sínu. Verður því að ómerkja úrskurðinn og vísa málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur samkvæmt 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. júní 2015.
Mál þetta, barst dómnum 22. júní sl. og var tekið til úrskurðar 24. júní sl.
Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, krefst þess að staðfest verði ákvörðun hans frá 19. júní sl. um að vísa varnaraðila, X, kt. [...], af lögheimili sínu að [...], [...], í fjórar vikur eða allt til fimmtudagsins 16. júlí sama ár, kl. 16:00, og banna honum í fimm mánuði eða allt til fimmtudagsins 19. nóvember 2015 kl. 16:00, að koma á eða í námunda við heimili brotaþola, A, kt. [...]. Er tekið fram að bannið afmarkist af 50 m radíus umhverfis framangreint heimili mælt frá miðju hússins. Jafnframt er tekið fram að varnaraðila sé bannað að setja sig í samband við brotaþola, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar, að hafa samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.
Varnaraðili, X, andmælti fyrir dómi, þann 24. júní sl., framangreindum kröfum lögreglustjóra og krafðist þess að þeim yrði hafnað.
Við nefnda fyrirtöku var Berglind Jónasardóttir hdl. skipuð verjandi varnaraðila og Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. skipuð réttargæslumaður brotaþola, en lögmennirnir höfðu áður verið tilnefndir til starfans af lögreglustjóra.
Lögmennirnir krefjast þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa sinna við alla meðferð málsins.
I.
Í greinargerð sóknaraðila, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, segir að tilkynning hafi borist lögreglu að kveldi 17. júní sl. um ætlað heimilisofbeldi að [...] á [...], sem er lögheimili varnaraðila og brotaþola. Greint er frá því að er lögregla kom á vettvang hafi brotaþoli verið þar utandyra í talsverðu uppnámi, en að varnaraðili hafi verið innan dyra og segir í skýrslunni að hann hafi greinilega verið undir sýnilegum áhrifum áfengis og/eða lyfja. Tekið er fram að varnaraðili hafi lokað útidyrahurðinni við komu lögreglu. Strax lá fyrir að tvö ung börn aðila, sem eru 4 og 5 ára, voru fjarverandi.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir brotaþola, A, að hún hafi í greint sinn komið að heimilinu til að sækja föt fyrir nefnd börn, en að tveimur vikum fyrr hefði hún farið með þau til Reykjavíkur. Haft er eftir brotaþola að er hún hafi komið úr nefndri suðurferð hefði hún haft spurnir af því að varnaraðili hefðist við á lögheimili sínu og heimili hennar og barnanna, að [...] og væri þar ölvaður. Af ótta við varnaraðila hefði hún ekki viljað fara með börnin á heimilið og því farið með þau á heimili foreldra sinna og komið þeim þar fyrir. Haft er eftir brotaþola að hún hafi hringt í varnaraðila og tilkynnt honum að hún myndi koma og sækja fötin, en af ótta við varnaraðila hefði hún leitað aðstoðar mágs síns og hafi ætlast til að hann yrði á vettvangi þegar hún kæmi að heimilinu. Vegna misskilnings hefði sú ráðgerð brugðist og þau farist á mis. Haft er eftir brotaþola að þegar hún hafi komið að [...] hafi varnaraðili verið henni reiður og þá fyrir að senda menn á vettvang. Hún hafi farið inn í anddyri íbúðarinnar og séð bjór á borðum og því ætlað að brotaþoli væri ölvaður. Hún hafi byrjað að týna fötin til og farið tvær ferðir með yfirhafnir út í bifreið. Haft er eftir brotaþola að hún hafi ekki treyst sér til að lýsa atburðarrásinni eftir þetta að öðru leyti en því að varnaraðili hefði reiðst og að þau hefðu í framhaldi af því farið að rífast, en síðan hefði komið til handalögmála þeirra í millum. Haft er eftir brotaþola að varnaraðili hefði opnað útihurðina og í framhaldi af því hent henni út, en um leið sparkað aftan í hægra læri hennar. Hún hafi ekki kennt meins þá en við skýrslutöku hjá lögreglu síðar, þ.e. fimmtudaginn 18. júní kl. 14:13, hefði hún lýst eymslum vegna þessa verknaðar varnaraðila.
Við hina formlegu skýrslutöku lögreglu skýrði brotaþoli frá því að hún hefði verið í skráðri sambúð með varnaraðila um árabil. Sambúðinni hefði í raun lokið í október 2013, en formlega í aprílmánuði 2015. Hefði þá forræði og umgengnisréttur verið ákveðinn með dómi með tveimur ungum börnum þeirra. Brotaþoli bar að þrátt fyrir þessi málalok væru aðstæður enn þær að hún og varnaraðili, ásamt börnunum væru enn öll skráð með lögheimili að [...] og að þau væru enn sameigendur að húseigninni.
Samkvæmt gögnum gerðu varnaraðili og brotaþoli með sér fjárskiptasamning eftir lok ofangreinds dómsmáls um forsjá og umgengni. Verður ráðið af gögnum að varnaraðili hafi eftir að hin eiginlegu samvistarslit voru um garð gengin búið og starfað á [...] frá því í september 2014 og fram í apríl á þessu ári, en að hann hafi þá sagt upp starfi sínu og flutt á ný í íbúðina að [...] á [...].
Við fyrrnefnda skýrslu hjá lögreglu greindi brotaþoli frá því að meðan á sambúð hennar og varnaraðili stóð hefði hann átt það til að beita hana ofbeldi, en að það hafi einkum gerst er hann hafi verið ölvaður. Hafi nokkur tilvik af þessu tagi verið tilkynnt til lögreglu og hún m.a. sumarið 2013 þurft að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna ofbeldis hans. Þá skýrði brotaþoli frá því að í lok maí á þessu ári hefði varnaraðili ýtt henni út af heimili hennar að [...] með valdi með sama hætti og gerst hafði þann 17. júní sl., en að þá hefðu börn þeirra verið viðstödd. Brotaþoli staðhæfði jafnframt að varnaraðili hefði beitt hana andlegu ofbeldi og m.a. haft í hótunum um að hann myndi bana hundi þeirra, en þar fyrir utan hefði hann ítrekað hringt á vinnustað hennar og haft í frammi ósæmandi ummæli um hana við yfirmenn hennar.
Samkvæmt rannsóknargögnum í því máli sem hér er til umfjöllunar, mál lögreglu nr. 316-2015-[...], var varnaraðili handtekinn í greindri íbúð þann 18. júní sl., kl. 19:05, en í framhaldi af því var hann yfirheyrður um kæruefnið. Við skýrslugjöfina bar varnaraðili að hann hefði gert formlegan samning um sameiginlegt forræði með tveimur börnum hans og brotaþola, en einnig um reglulega umgengni hans við börnin. Hann sagði að kveðið hefði verið á um að börnin skyldu eiga lögheimili í [...], líkt og hann, en að jafnframt hefði verið afráðið að hann myndi flytja úr eigninni. Hann kvaðst hafa flust frá [...] haustið 2014, en nýverið flutt aftur á hið fyrra lögheimili, [...], enda hefði hann ekki haft önnur ráð og vísaði m.a. til þess að enn væri uppi ágreiningur um eignaskipti. Hann sagði að brotaþoli hefði ekki verið ásátt við þessar ráðstafanir hans. Varnaraðili kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þann 16. júní sl., en staðhæfði að svo hefði ekki verið að kveldið þess 17., enda hefði hann þá aðeins neytt þriggja áfengra bjóra og því ekki verið drukkinn. Varnaraðili bar að hann hefði verið reiður brotaþola vegna ágreinings þeirra um umgengni hans við börnin og almennt vegna framkomu hennar. Hann kannaðist við að hafa ýtt brotaþola út úr íbúðinni, en neitaði því að hafa sparkað á eftir henni, líkt og hún héldi fram.
Varnaraðili greindi frá því að meðan sambúð hans og brotaþola varði hefði komið til átaka þeirra í millum, en staðhæfði að þar hefði hún einnig átt sök. Að því er varðaði atvik í lok maí sl. vísaði varnaraðili til þess að hann myndi ekki hvort hann hefði ýtt brotaþola út úr íbúðinni, en sagði að það hefði þá verið í tengslum við umgengni hans við börnin.
Auk þeirra lögregluskýrslna sem hér að ofan hefur verið vikið að liggur fyrir í málinu framburðarskýrsla af nafngreindu vitni, sem er nágranni varnaraðila og brotaþola. Vitnið greindi frá því að þann 17. júní sl., hefði það heyrt brotaþola kalla í þrí- eða fjórgang grátklökkum rómi „hættu þessu, hættu þessu“ en í framhaldi af séð að varnaraðili ýtti brotaþola út um útidyrnar að [...], nokkuð þétt þannig að hún hefði „hrökklast út“, en þó án þess að falla. Í framhaldi af þessu kvaðst vitnið hafa séð að varnaraðili skellt útihurðinni aftur. Vitnið kvaðst ekki hafa séð högg eða spörk í greint sinn, en aftur á móti heyrt frásögn brotaþola um atvik máls og þá tekið eftir að hún var grátandi, í miklu uppnámi og greinlega hrædd.
Við fyrrnefnda skýrslu hjá lögreglu þann 18. júní sl. bar brotaþoli fram kröfu um að varnaraðila yrði vísað af heimili hennar að [...], en einnig krafðist hún nálgunarbanns og vísaði til þess að hún sæi enga leið aðra til að hnýta upp þá lausu enda sem orsakast hefðu af skilnaði þeirra. Fól hún lögreglu ákvörðunartöku.
II.
Fyrrnefnd ákvörðun lögreglustjóra er byggð á 7. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, en þar um er sérstaklega vísað til 3. mgr. 3. gr. laganna.
Lögreglustjóri segir í greinargerð að ákvörðun hans sé byggð á þeim gögnum sem lögregla hafi aflað í umræddu máli nr. 316-2015-[...], en að rannsókninni sé ekki lokið. Vísað er til þess að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn brotaþola og að brot hans geti varðað við 217. gr. og ákvæði XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en að ennfremur sé hætta á að varnaraðili muni raska friði brotaþola. Þá segir í greinargerðinni að það sé mat lögreglustjóra að friðhelgi brotaþola verði ekki tryggt með öðrum og vægari hætti, en með brottvísun og nálgunarbanni varnaraðila, en staðhæft er að varnaraðila hafi tvisvar áður verið gert að sæta brottvísun og nálgunarbanni.
Lögreglustjóri segir að í ljósi ofangreinds, framlagðra gagna og margítrekaðra ofbeldisbrota varnaraðila gegn brotaþola síðustu tíu árin, hafi ákvörðun verið tekin um að vísa honum af heimili brotaþola að [...] í fjórar vikur frá birtingu ákvörðunarinnar, sbr. a og b lið 1. mgr. 5. gr., sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 83, 2011 til fimmtudagsins 16. júlí 2015. Þá hafi ennfremur verið ákveðið með vísan til a-liðar og b-liðar 4. gr. laga nr. 85, 2011 að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni í fimm mánuði, til fimmtudagsins 19. nóvember 2015. Lögreglustjóri vísar til þess að verndarhagsmunir nefndra lagaákvæða standi til þess að tryggja beri brotaþola og börnum hennar þann rétt til að geti hafst við á heimili sínu og að þar eigi þau að geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðila. Þá sé það mat lögreglustjóra, sbr., til 1. mgr. 6. gr. nefndra laga, að ekki sé unnt að vernda friðhelgi brotaþola með öðrum og vægari hætti en með brottvísun varnaraðila af greindu heimili og nálgunarbanni gagnvart brotaþola.
Lýst ákvörðun lögreglustjóra var tekin 19. júní sl., en hún var birt varnaraðila sama dag, kl. 14:30.
Auk ofangreindra gagna er varðar fyrrnefnt mál, nr. 316-2015-[...], er af hálfu lögreglustjóra vísað til rannsóknargagna lögreglu um önnur ætluð brot varnaraðila á liðnum árum gagnvart brotaþola. Er þannig vísað til tveggja skráðra mála frá árinu 2005, en þar er um að ræða tilkynningar til lögreglu um um ofbeldi og læti milli varnaraðila og brotaþola og aðgerða lögreglu því tengdu. Hið sama gildir um fimm mál, sem upp komu á árunum 2013-2015, en þar um er vísað til bókana lögreglu frá 8. júní 2013, 14. janúar, 12. maí, 5. júlí og 9. júní 2014. Er sérstaklega vísað til málsins frá 8. júní 2013, sbr. mál lögreglu nr. 24-2013-[...], þar sem varnaraðili hafi í tilefni af heimilisofbeldi verið gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni og að hann hafi í kjölfar málareksturs, sem af því hlaust, þann 16. janúar 2014, verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og hótanir gagnvart brotaþola og það þrátt fyrir að brotaþoli hefði við málsmeðferð fyrir dómi gefið mjög breyttan framburð.
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Hann byggir einkum á því að samkvæmt áðurgreindum lagaákvæðum séu ekki skilyrði fyrir hendi til að verða við greindum kröfum sóknaraðila, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, og því beri að hafna þeim.
III.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja slíka háttsemi.
Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili fluttist af sameiginlegu heimili hans og brotaþola, [...] á [...] haustið 2014 í kjölfar sambúðarslita þeirra. Hefur brotaþoli eftir slitin haldið heimili fyrir sig og ung börn aðila í íbúðinni. Af gögnum verður ráðið að varnaraðili hafi hafst við á heimilinu frá því í apríl sl. eftir að hann sagði upp starfi sínu á [...], og að það hafi hann gert í óþökk brotaþola.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að varnaraðili hafi með ofbeldi veist að brotaþola að kveldi 17. júní með því að ýta henni út af greindu heimili og að brot hans geti varðað við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en einnig 233. gr. sömu laga.
Samkvæmt framlögðum gögnum hefur lögregla á liðnum árum ítrekað haft afskipti af heimili brotaþola og varnaraðila vegna ofbeldismála, en fyrir liggur að þau slitu formlega samvist sinni nokkru eftir að varnaraðili hafði verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárásir og hótanir gagnvart brotaþola í janúar 2014. Af sama tilefni hafði varnaraðila áður verið gert að sæta brottvísun af heimilinu og nálgunarbanni.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun skal nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Við mat á því er heimilt samkvæmt 2. mgr. 6. gr. að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni gerast brotlegur á þann hátt sem lýst er í 4. gr.
Þegar gögn málsins eru verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola ofbeldi og að hann hafi jafnframt með háttsemi sinni að kveldi 17. júní sl. raskað heimilisfriði hennar Er til þess að líta að umrætt heimili er jafnframt heimili ungra barna þeirra, en þau eru aðeins 4 og 5 ára, enda þótt þau hafi verið í umsjá móðurforeldra sinna er atvik gerðust.
Að framagreindu virtu er fallist á með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85, 2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni á þann veg sem greinir í dómsorði. Eftir 2. mgr. 5. gr. nefndra laga er heimilt að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það er nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola. Samkvæmt því verður nálgunarbanni markaður sami tími og brottvísun af heimili. Þá er til þess að líta að nálgunarbanninu er einungis beint að brotaþola og takmarkar það því ekki möguleika varnaraðila á að hitta börn sín, en í því viðfangi er til þess að líta að í V. kafla laga nr. 85, 2011 er kveðið á um upplýsingaskyldu til félagsþjónustu og barnaverndarnefnda sveitarfélaga, sem þá geta liðsinnt varnaraðila við að rækja skyldur sínar við að hitta börnin líkt og hann hefur hefur að mati dómsins einlæglega borið um.
Þóknun verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, að meðtöldum virðisaukaskatti, sem ákveðst eins og í úrskurðarorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88, 2008 og 1. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85, 2011.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni samkvæmt a og b liðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að [...] á [...], í fimm mánuði. Þannig er lagt bann við því að hann komi á eða í námunda við nefnt heimili brotaþola, A, á svæði sem afmarkast við 50 m radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili setji sig í samband við brotaþola, nálgist hana á almannafæri, vinnustað hennar eða hafi samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Berglindar Jónasardóttur hdl. 238.000 og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 99.200 krónur greiðist úr ríkissjóði.