Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Aðild


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. ágúst 2005:

Nr. 320/2005.

SP fjármögnun hf. og

(Ólafur Garðarsson hrl.)

tollstjórinn í Reykjavík

(Guðrún Hólmsteinsdóttir hdl.)

gegn

Steindóri Einarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Aðild.

Úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns, um að hafna kröfu S um riftun eða verulegan afslátt af söluverði bifreiðar sem hann hafði keypt við nauðungarsölu, var ómerktur frá þingfestingu málsins þar sem aðild að málinu var ekki í samræmi við 3. mgr. 46. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 13. júlí 2005 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. mars 2005 um að hafna riftun á kaupum bifreiðarinnar ZV-787 við nauðungarsölu 29. janúar 2005. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind ákvörðun sýslumanns verði látin standa óhögguð. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði keypti varnaraðili bifreiðina ZV-787 við nauðungarsölu 29. janúar 2005. Áhvílandi veðskuldir á bifreiðinni voru meðal annars við sóknaraðila. Með bréfi varnaraðila 22. febrúar 2005 til sýslumannsins í Reykjavík krafðist hann riftunar eða verulegs afsláttar af söluverði bifreiðarinnar sökum galla, en greiðsla söluverðsins hafði ekki farið fram. Þessar kröfur varnaraðila tók sýslumaður fyrir 3. mars 2005 að viðstöddum varnaraðila og fulltrúum sóknaraðila. Þar sem ágreiningur var með aðilum um kröfu varnaraðila tók sýslumaður ákvörðun og hafnaði kröfunni. Lýsti varnaraðili því yfir að hann myndi bera þá ákvörðun undir héraðsdóm. Nýtur hann heimildar til þess í 2. mgr. 48. gr. laga nr. 90/1991. Gekk hinn kærði úrskurður af því tilefni. Í úrskurðinum var varnaraðili tilgreindur sem sóknaraðili málsins en sóknaraðilar ásamt fleirum sem lýst höfðu kröfu í uppboðsandvirði bifreiðarinnar sem og sýslumaðurinn í Reykjavík tilgreindir sem varnaraðilar.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 90/1991 skal sýslumaður koma fram í embættisnafni sem aðili máls við rekstur dómsmáls til heimtu afsláttar af söluverði eða riftunar kaupa við nauðungarsölu í stað þeirra, sem kunna að eiga tilkall til hlutdeildar í söluverði, enda hafi útborgun þess ekki verið lokið. Er því ætlast til þess að sýslumaður verði einn aðili í stað þeirra sem geta átt tilkall til greiðslu af söluverðinu. Samkvæmt þessu bar héraðsdómara að haga aðild að máli þessu þannig að sýslumaðurinn í Reykjavík væri einn aðili til varnar í stað sóknaraðila og annarra þeirra sem átt gátu tilkall til greiðslu af söluverði bifreiðarinnar. Skiptir í þessu sambandi ekki máli að sýslumaður lét málið ekki til sín taka við þingfestingu þess fyrir héraðsdómi. Af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar frá og með þingfestingu þess 22. apríl 2005.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og öll meðferð málsins frá og með 22. apríl 2005. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005.

Sóknaraðili málsins er Steindór Einarsson, kt. 040764-3489, Reykjavík, en varnar­aðilar eru Tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, SP fjár­mögnun hf., kt. 620295-2219, Sigtúni 42, Reykjavík, Olíufélagið ehf., kt.  541201-3940, Suðurlandsbraut 18, Vaka ehf., kt. 670269-5589, Eldshöfða 6, Reykjavík, Orku­veita Reykjavíkur sf., kt. 551298-3029, Bæjarhálsi 1, (eftirleiðis Orkuveitan) og Bíla­stæða­sjóður, kt. 501170-0119, Perla ehf., kt. 430373-0129 og Sýslumaðurinn í Reykjavík, Skógarhlið 6, allir í Reykjavík.

Málið barst héraðsdómi hinn 18. mars sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 16. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 13. júní sl. að afloknum munnlegum mál­flutningi.

Við þingfestingu málsins hinn 22. apríl sl. var mætt af hálfu Tollstjórans í Reykjavík, SP fjármögnunar hf., Bílastæðasjóðs og Orkuveitunnar sf. Lögmaður Bíla­stæða­sjóðs lýsti því yfir, að eftirleiðis yrði ekki mætt í málinu af hálfu umbjóðanda hans. Lögmaður Orkuveitunnar sf. skilaði greinargerð í þinghaldi í málinu 3. júní sl. og lýsti jafnframt yfir því, að ekki yrði mætt frekar í málinu af hálfu umbjóðanda hans. Þeir varnaraðilar, sem látið hafa málið til sín taka eru Tollstjórinn í Reykjavík, SP fjármögnun hf. og Orkuveitan sf. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka, en fyrirsvarsmenn þeirra voru boðaðir til fyrsta þinghalds í málinu og þeim gefinn kostur á að gæta réttar síns.

Dómkröfur:

Sóknaraðili krefst þess aðallega, að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 3. mars 2005 verði hrundið og að rift verði sölu bifreiðarinnar ZV- 787, sem er af gerðinni Jeep Cherokee Laredo 3,1 td. en bifreiðin var seld á uppboði þann 29. janúar 2005.

Til vara krefst sóknaraðili þess, að veittur verði 1.150.000 kr. afsláttur af sölu­verði bifreiðarinnar ZV-787.

Til þrautavara krefst sóknaraðili þess, að veittur verði afsláttur af söluverði bif­reiðar­innar ZV 787, að mati réttarins.

Varnaraðilinn Orkuveitan krefst sýknu af kröfu sóknaraðila og málskostnaðar úr hans hendi en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðilinn, Tollstjórinn í Reykjavík, krefst þess, að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. mars 2005 verði staðfest og að hafnað verði riftunarkröfu og afslátt­ar­kröfum sóknaraðila vegna nauðungarsölu bifreiðarinnar ZV-787 þann 29. janúar 2005. Krafa SP fjármögnunar hf. er efnislega samhljóða kröfu tollstjórans. Báðir þessir varnar­aðilar krefjast málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins, en SP fjár­mögnun krefst þess einnig að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til lög­mælts virðisaukaskatts.

Málavextir.

Bifreiðin ZV-787 var seld á nauðungauppboði 29. janúar sl. til lúkningar áhvíl­andi skuldum Perlu ehf. við varnaraðila.  Sóknaraðili bauð 1.950.000 krónur í bif­reiðina og var boði hans tekið.  

Skuldir Perlu ehf. við varnaraðila voru ýmist áhvílandi á bifreiðinni sem lögveð, samn­ingsveð eða aðfararveð. Krafa SP fjármögnunar hf. styðst við skuldabréf áhvíl­andi á 1. veðrétti bifreiðarinnar og nam skuldin, samkvæmt kröfulýsingu, dags. 28. janúar sl., 2.962.337 kr. Skuld við tollstjóra er vegna þungaskatts sem nýtur lög­veðs­réttar og nemur 266.881 kr. samkvæmt kröfulýsingu, dags. 28. janúar sl. og lög­veðs­krafa Bílastæðasjóðs er að fjárhæð 19.061 kr. Ekkert fæst greitt upp í kröfur annarra varn­araðila af uppboðsverði bifreiðarinnar og hafa þeir því ekki séð ástæðu til að taka til varna gagnvart kröfu sóknaraðila, að Orkuveitunni hf. undanskilinni, sem skilaði grein­argerð en lét þar við sitja. Tollstjóri lýsti einnig öðrum kröfum í uppboðsandvirði bif­reiðarinnar, sem ekki munu fást greiddar af uppboðsandvirði hennar.

Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo, að bifreiðin hafi litið illa út og borið merki um slæma meðferð. Framrúða hafi verið brotin og hjólbarðar ónýtir. Hún hafi einnig verið dælduð vinstra megin að aftan. Engir lyklar hafi fylgt bifreiðinni, en hún hafi fundist utan vegar í Mosfellsbæ og verið færð á uppboðsstað af Vöku ehf. að beiðni kröfuhafa Perlu ehf. Engar upplýsingar hafi legið fyrir um ástand hennar. Uppboðið hafi farið fram á laugardegi, en þriðjudaginn 1. febrúar hafi bifreiðin verið flutt frá Vöku og á bif­reiðaverkstæði Ræsis hf. við Skúlagötu. Ræsir hf. hafi umboð fyrir Chrysler, en félag, sem framleiði Jeep Cherokee jeppa, sé dótturfélag Chrysler. Þar hafi átt að yfir­fara bifreiðina og kóða lykla að henni. Gert hafi verið ráð fyrir því að sóknaraðili fengi bif­reiðina úr viðgerð daginn eftir, eða 2. febrúar. Sóknaraðili segist oft hafa hringt í verkstæðið næstu vikuna til að reka á eftir viðgerð hennar og ávallt fengið þau svör, að veikindi stæðu í vegi fyrir því, að viðgerð yrði sinnt.  Sóknaraðili kveðst hafa sótt bifreið­ina til Ræsis hf. 9. febrúar, þar sem viðgerð hennar hafði þá enn ekki hafist, og farið með hana á bifreiðaverkstæðið Bíljöfur, Bifreiðaverkstæði Jöfurs ehf.Þar hafi bifreiðin verið tekin beint upp á lyftu og þá komið í ljós, að stimpill hafði rifið sig út úr vélinni og brotið blokk hennar (vélarhús). Vélin hafi reynst ónýt. Fyrir liggi að út­vega þurfi aðra vél í bifreiðina, sem ekki kosti undir 1.150.000 krónum.  Um sé að ræða díeselvél, sem sé óvenjulegt í bifreið þessarar gerðar og séu þessar vélar mjög fágætar.

Sóknaraðili leitaði til SP fjármögnunar hf. um úrlausn sinna mála með bréfi, dags. 14. febrúar, og fór þess þar á leit, að félagið samþykkti að bifreiðin yrði boðin upp að nýju í ljósi aðstæðna en til vara að komið yrði verulega til móts við hann og félagið lækkaði kröfu sína. Fyrirsvarsmaður SP fjármögnunar hf. svaraði samdægurs erindi sóknar­aðila og hafnaði beiðni sóknaraðila á þeirri forsendu að alltaf er leiðinlegt að tapa peningum. Það finnst okkur líka.  Sóknaraðili sneri sér því til þess fulltrúa sýslu­mannsins í Reykjavík, sem annast nauðungarsölu lausafjár, með bréfi, dags. 22. febrúar og fór þess þar m.a. á leit að ekki yrði gert upp við kröfuhafa  fyrr en réttur minn hefur verið fullreyndur, eins og þar segir. Málið var borið upp hjá Sýslu­mann­inum í Reykjavík og leitt til lykta þar hinn 3. mars sl. með ákvörðun fulltrúa sýslu­manns þess efnis að hafnað var beiðni sóknaraðila um að bifreiðin ZV-787 yrði boðin upp að nýju, eða afsláttur veittur af söluverði hennar. Byggt var á þeirri forsendu, að sú regla gilti um nauðungarsölu, að söluhlutir væru seldir í því ástandi, sem þeir væru þegar hamar félli, eins og fram kæmi í 3. gr. söluskilmála sbr. auglýsingu nr. 42/1992, en þessi regla gengi framar 19. gr. laga um lausafjárkaup nr. 59/2000 (eftirleiðis lfkl.).

Málsástæður og lagarök.

Sóknaraðili bendir á,  að umrædd bilun í vél bifreiðarinnar, sé svo sjaldgæf og óvenju­leg og viðgerð svo kostnaðarsöm, að ekki sé hægt að gera þá kröfu til hans að hann hafi mátt sjá hana fyrir eða gera ráð fyrir henni. Aldur bifreiðarinnar hafi ekki gefið tilefni til að búast við svo alvarlegri bilun og einnig njóti vélar frá Daimler –Chrysler sérstaks trausts fyrir styrk og endingu.

Sóknaraðili vísar í fyrsta lagi til 1. mgr. 19. gr. lfkl., sem fjalli um sölu á uppboði, þegar hlutur sé seldur í „því ástandi sem hann er“.  Í c. lið segi, að hlutur teljist gallaður, ef ástand hans sé til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti.  Í 39. gr. sömu laga sé kaupanda veitt heimild til að rifta kaupum, ef meta megi galla til verulegra vanefnda. Í greinargerð með frum­varpi til lausafjárkaupalaga segi m.a. svo í umfjöllun um c. lið 1. mgr. 19. gr. Samkvæmt c –lið er seljandinn ávallt ábyrgur ef í ljós kemur að söluhlutur er að veru­legu leyti í miklu verra ástandi en kaupandinn hafði ástæðu til að ætla. Við mat í þeim efnum verður m.a. að styðjast við kaupverðið, en einnig atvik að öðru leyti. Ekki er það skilyrði þess að ákvæðið eigi við að um óheiðarleika af hálfu seljanda sé að ræða en ósamræmið milli raunverulegs ástands söluhlutar og þess sem kaupandi  mátti ætla verður að vera ótvírætt. Segja má með öðrum orðum að seljandi geti ekki með því að gera almennan fyrirvara firrt sig ábyrgð þegar söluhlutur fullnægir ekki tilteknum lág­marksskilyrðum.   Sóknaraðili kveðst hafa þekkt vel til efnis 3. gr. söluskilmála sýslu­manns samkvæmt auglýsingu nr. 42/1992, en ákvæðið sé samhljóða 1. tl. 65. gr. nauð­ungarsölulaga nr. 90/1991 (eftirleiðis nsl.). Hann hafi einmitt miðað boð sitt í bifreiðina við það ástand hennar, sem sýnilegt hafi verið og gera hafi mátt ráð fyrir.

Sóknaraðili telur, að gagnályktun af 8. gr. söluskilmálanna leiði til þeirrar niður­stöðu, að unnt sé að krefjast riftunar, sé það gert, áður en uppboðsandvirði sé ráð­stafað, en í ákvæðinu sé tekið fram, að eftir það, geti kaupandi ekki haft uppi kröfu um riftun, skaðabætur eða afslátt. Sama skilning beri að leggja í 7. tl. 65. gr. nsl.  Þá sé gert ráð fyrir því í 48. gr. nsl. að rifta megi kaupum á nauðungaruppboði sé krafa um það sett fram, áður en uppboðsandvirði hefur verið ráðstafað.

Sóknaraðili byggir á því, að umrædd bifreið hafi verið svo gölluð og gallinn leyndur og ófyrirsjáanlegur, að skilyrði þess að rifta megi kaupunum séu fyrir hendi, sé sá kostur á annað borð fyrir hendi.  Hann bendir á, að kostnaður við viðgerð vélarinnar sé 59% af uppboðsandvirði bifreiðarinnar. Fyrir liggi að viðmiðunarverð Bíl­greinasambandsins á sambærilegum bílum sýni að tilboð hans í bifreiðina hafi verið eðlilegt miðað við sýnilegt og fyrirsjáanlegt ástand hennar og jafnvel í hærri kantinum.

Til stuðnings varakröfu og þrautavarakröfu vísar sóknaraðili til 8. gr. aug­lýsingar um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum nr. 42/1992 og til 65. gr. og 48. gr. nsl.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Fjallað verður samtímis um málsástæður og lagarök varnaraðilanna, tollstjóra og SP fjármögnunar hf., en það dregið fram, sem kann að varða sérstaklega hvorn þeirra fyrir sig.  Einnig verður fjallað um sjónarmið varnaraðilans, Orkuveitunnar sf., þar sem ástæða þykir.

Varnaraðilar mótmæla eindregið túlkun sóknaraðila á tilgreindum ákvæðum aug­lýsingar söluskilmála lausafjáruppboða nr. 42/1992, laga um lausafjárkaup og nauð­ung­arsölulaga. Ljóst sé, að kaup á nauðungaruppboði séu ávallt áhættusöm. Umrædd bifreið hafi borið merki mikillar vanhirðu og hafi sýnilega orðið fyrir tjóni. Sókn­ar­aðili hafi engu að síður keypt hana á uppboði og verði að bera hallann af þeirri ákvörðun sinni. Skýra verði þröngt þau lagaákvæði, sem lúti að riftun kaupa á nauð­ung­aruppboði, til afsláttar eða skaðabóta vegna slíkra kaupa. Ekki verði byggt á 39. gr. lfkl. þar sem bifreiðin hafi ekki verið haldin galla, sem metinn verði til vanefndar. Þá séu engin skilyrði þess að beita  1. mgr. 19. gr. sömu laga, þar sem efni laga­ákvæðisins fari í bága við ákvæði nauðungarsölulaga. Síðarnefndu lögin séu sérlög og gangi því framar lögum um lausafjárkaup, sem séu almenns eðlis. Auk þess séu lausa­fjár­kaupalögin frávíkjanleg. Tilkynnt hafi verið við upphaf nauðungar­uppboðsins, að skil­málar auglýsingar nr. 42/1992 skyldu gilda við framkvæmd þess, m.a. um ástand sölu­hluta og því hafi sóknaraðili getað gengið að því vísu hvaða reglur giltu.

Ljóst sé einnig, að sérstök sjónarmið gildi um sölu eigna á nauðungaruppboði. Sala þeirra eigi sér venjulega stað gegn vilja og án atbeina eigenda og því liggi upp­lýsingar um ástand þeirra sjaldnast fyrir. Bjóðendum gefist takmarkaður tími og að­staða til skoðunar. Því hljóti að gilda allt önnur sjónarmið um nauðungarsölu en um sölu á almennum markaði og rík nauðsyn þess að setja skilmála, sem þrengi verulega heimildir kaupenda til að bera fyrir sig galla, þegar um uppboðskaup er að ræða.  Blasað hafi við, að ástand umræddrar bifreiðar hafi verið slæmt og í engu samræmi við aldur hennar. Því hafi varnaraðilar ekki talið það áhættunnar virði, að verja rétt sinn með boði í bifreiðina. Full ástæða hafi verið fyrir sóknaraðila að sýna ítrustu að­gæslu sé litið til ástands bílsins, sem öllum hafi verið sýnilegt. Varnaraðilar telja, að skýra verði 48. gr. nsl. þannig, að vanefndaúrræðum ákvæðisins verði ekki beitt, þegar um það sé að ræða að ástand hlutar sé ekki í samræmi við væntingar kaupanda og eign sé seld með þeim skilmála, að engin ábyrgð sé tekin á ástandi hennar, líkt og um sé að ræða í þessu máli. M.a. af þessari ástæðu sé uppboðsverð hluta mun lægra en mark­aðs­verð þeirra. Einnig megi ráða af orðalagi 48. gr. nsl. að það veiti uppboðskaupanda ekki heimild til að rifta kaupum, heldur aðeins til greiðslu skaðabóta eða afsláttar. Í því sambandi mótmæla varnaraðilar því sérstaklega að fyrir liggi lögfull sönnun um tjón sóknaraðila. Þeir benda á, að gögn þau, sem sóknaraðili hafi einhliða aflað til sönnunar tjóni sínu, staðfesti það eitt, að hinn 9. febrúar, 11. dögum eftir sölu bif­reið­ar­innar, hafi starfsmenn Bíljöfurs talið vél bifreiðarinnar ónýta og að verð á „skiptivél“ sé áætlað 1.150.000 kr. Ekki liggi fyrir mat óháðs, sérfróðs matsmanns um til­vist, orsakir og umfang hins meinta galla eða álit slíks manns á því, hvort vélar­bilunin hafi verið fyrir hendi á uppboðsdegi, 29. janúar. Varnaraðilar hafna alfarið kröfu sóknaraðila um afslátt og vísa til 2. mgr. 37. gr. lfkl. til styrktar þeirri afstöðu, en þar segi berum orðum, að kaupandi notaðs hlutar á uppboði geti ekki krafist afsláttar.

Varnaraðilarnir, tollstjóri og SP fjármögnun hf., vísa til áðurnefndra ákvæða nauð­ungasölulaga, til ákvæða auglýsingar nr. 43/1992 og til ákvæða lausafjár­kaupa­laga til stuðnings kröfum sínum og málsástæðum. Málskostnaðarkröfu sína byggja þeir á ákvæðum 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 (eml.) og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991.

Orkuveitan byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að ljóst hafi verið, að félagið hafi enga hagsmuni af málalokum, þar sem fjárnám það, sem aðild þess byggðist á, hafi verið það aftarlega í veðröð hinnar seldu bifreiðar, að augljóst hafi verið, að ekkert fengist greitt upp í kröfuna af uppboðsandvirði hennar. Því hafi verið með öllu óþarft að draga félagið inn í þennan málarekstur, sem valdið hafi því fjár­útlátum. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna Orkuveituna sf. vegna aðildarskorts.

Í öðru lagi byggir Orkuveitan á ákvæði 3. mgr. 46. gr. nsl.  Þar segi, að sýslu­maður skuli koma fram í umboði þeirra, sem kunna að eiga tilkall til hlutdeildar í sölu­verði.  Um sé að ræða lögbundna aðild sýslumanns í stað allra varnaraðila málsins. Sýslu­maður hafi ekki komið að málinu hér fyrir dómi og því beri að sýkna alla varnar­aðila á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. eml.

Orkuveitan byggir málskostnaðarkröfu sína á því, að henni hafi að ósekju verið gert að taka til varna gagnvart kröfu sóknaraðila og hafi haft af því kostnað, sem rétt sé og sanngjarnt að sóknaraðili bæti félaginu.

Loks krefst Orkuveitan þess, að henni verði ekki gert að greiða sóknaraðila máls­kostnað, jafnvel þótt svo fari að dómurinn hafni sýknukröfu félagsins.

Niðurstaða.

Fyrst verður tekin afstaða til sýknukröfu Orkuveitunnar á grundvelli aðildar­skorts samkvæmt 3. mgr. 46. gr. nsl.

Þegar málið barst dóminum var Sýslumanninum í Reykjavík tilkynnt um það, eins og öllum öðrum, sem komu þar við sögu, og honum gefinn kostur á að mæta, þegar málið var fyrst tekið fyrir hér í dómi.  Sýslumaður kaus þann kostinn að mæta ekki. Aftur á móti var mætt af hálfu þeirra aðila, sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta og kröfum sóknaraðila mótmælt og tekið til varna gagnvart kröfum hans. 

Dómurinn lítur svo á, að einhliða ákvörðun sýslumanns um að mæta ekki í mál­inu, eigi fráleitt að verða þess valdandi, að sóknaraðili sé sviptur þeim grundvallarrétti að fá dómsúrlausn um ágreining málsaðila.  Með sama hætti verður ekki talið, að úti­vist sýslumanns leiði til þess, að varnaraðilar komi ekki að vörnum gagnvart kröfu sókn­araðila. Aðild sýslumanns verður að skoða í því ljósi, að um hagkvæmisreglu sé að ræða, þar sem sýslumanni er falið það hlutverk að gæta hagsmuna varnaraðila að upp­boðsmáli. Augljóst er að sýslumaður hefur engra hagsmuna að gæta í málum af þessu tagi og því óþarft að hann láti þau til sín taka, kjósi varnaraðilar sjálfir að ganga eigin erinda.

Kröfu Orkuveitunnar um sýknu varnaraðila á grundvelli aðildarskorts samkvæmt 3. mgr. 46. gr. nsl. er því hafnað.  Á hinn bóginn gefa uppboðsgögn það ljóslega til kynna, að veðstaða Orkuveitunnar í umræddri bifreið er með þeim hætti, að fullljóst var frá upphafi, að hún hafði engra hagsmuna að gæta og var því í sjálfsvald sett, hvort hún tæki til tilgangslausra varna eða léti það ógert.

Orkuveitan verður því sjálf að bera þann kostnað, sem hún hefur haft af þeirri ákvörðun að fá lögmann til að grípa til varna gagnvart kröfu sóknaraðila.

Verður því næst tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um riftun kaupa hans á bif­reið­inni ZV-787 á nauðungaruppboði 29. janúar sl. og ákvörðunar sýslumanns frá 3. mars sl. um að hafna þeirri kröfu sóknaraðila.

Í fyrrnefndri 3. mgr. 46. gr. nsl. er að finna heimild uppboðskaupanda til að höfða dóms­mál til að rifta kaupum, sem komist hafa á við nauðungarsölu, eða til heimtu skaða­bóta eða afsláttar vegna slíkra kaupa. Það eitt skilyrði er sett, að útborgun sölu­verðs sé ólokið. Sami skilningur kemur fram í 1. mgr. 48. gr. nsl. Ljóst er því, að upp­boðs­kaupandi á þess kost að rifta kaupum, sem átt hafa sér stað við nauðungarsölu.

Varnaraðilar byggja á því, að ákvæði auglýsingar nr. 42/1992 um upp­boðs­skilmála fyrir uppboðsölu lausafjármuna, sem sett sé með stoð í 65. gr. nsl., takmarki þau vanefndaúrræði, sem uppboðskaupandi kunni almennt að hafa, samkvæmt öðrum ákvæðum nauðungarsölulaga eða öðrum lagaheimildum, s.s. lögum um lausafjárkaup. Í 1. tl. 1. mgr. 65. gr. segi að setja skuli það skilyrði í skilmála fyrir uppboðssölu á lausafé, að munir séu seldir í því ástandi, sem þeir eru þegar hamar fellur. Þetta skil­yrði hafi verið tekið upp í 3. gr. auglýsingarinnar.  Hafi þetta legið fyrir við upphaf nauð­ungarsölumeðferðarinnar og sóknaraðili viðurkenni að hafa verið fullkunnugt um skil­yrðið og verði hann því að sæta því að vandefndaúrræði nauð­ungarsölulaga eða lag­anna um lausafjárkaup eigi ekki við í hans tilviki.

Dómurinn lítur svo á, að orðalag 3. mgr. 46. gr. nsl. og 1. mgr. 48. gr. sömu laga virðist eindregið benda til þess, að tilgangur löggjafans hafi verið sá, að veita upp­boðs­kaupendum rétt til að beita riftun eða öðrum vanefndaúrræðum við uppboðssölu við sérstakar aðstæður. Í þessu ljósi verður að líta þær takmarkanir, sem 65. gr. nsl. hefur að geyma, m.a. þau fyrirmæli, að setja skuli það skilyrði í almenna upp­boðs­skilmála, að ástand muna við hamarshögg skuli ávallt gilda. Annar skilningur fæli í sér ósamræmanlega þversögn.

Í 19. gr. lfkl. sem ber yfirskriftina: Hlutur seldur „í því ástandi sem hann er“. Sala á uppboði. segir svo í c – lið 1. mgr. að hlutur teljist gallaður þótt seldur sé í því ástandi, sem hann er þegar: ástand söluhlutar er til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti. Í 2. mgr. 19. gr. segir að ákvæði 1. mgr. gildi um notaða hluti, sem seldir séu á uppboði.  Í greinargerð með frum­varpi til lausafjárkaupalaga segir m.a. svo um 2. mgr. 19. gr.  Í 2. mgr. er fjallað um sölu notaðra hluta á uppboði og er ákvæðið svipaðs efnis og 48. gr. gildandi laga. Ákvæðið gengur þó lengra en gildandi réttur gerir þar sem því er slegið föstu að reglur 1. mgr. gildi á sama hátt við sölu á uppboði eftir því sem við getur átt. Ákvæðið á bæði við um sölu á frjálsu uppboði og nauðungarsölu, en þó ganga ákvæði laga um nauð­ungarsölu framar þar sem í millum skilur.  Bæði í lögum um nauðungarsölu og í lausa­fjárkaupalögum er gengið út frá því, að unnt sé að beita riftun og öðrum van­efnda­úrræðum. Í nauðungasölulögum er enga leiðbeiningu að finna, hvenær það sé heimilt.  Í 19. gr. lfkl. er að finna leiðsögn um það, hvernig rétt sé að túlka saman þau lagaákvæði, sem að framan er lýst, svo að skynsamlegur rökréttur skilningur fáist, án þess að setja í uppnám og raska þeirri framkvæmd, sem tíðkast hefur við nauð­ung­ar­sölu lausafjár.  Í c -lið ákvæðisins er áherslan lögð á, að ástand söluhlutar hafi verið til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla. Verður að telja þá viðmiðun rétta og skyn­samlega. Við mat á því verður að líta til almennra viðhorfa og reynslu, en ekki til aðstæðna kaupanda eða einstaklingsbundins mats hans.

Fyrir liggur, að vél bifreiðarinnar ZV-787 er ónýt, þ.e. að ekki svarar kostnaði að gera við hana. Samkvæmt gögnum málsins, sem varnaraðilar hafa reyndar mótmælt sem ófullnægjandi, kostar a.m.k. 1.150.000 krónur að lagfæra vélina.  Umrædd bifreið er 2001 árgerð. Framleiðandi hennar, Daimler- Chrysler, er heimsþekkt fyrirtæki. Ekki liggur fyrir í málinu, hver sé eðlileg ending véla af þeirri gerð, sem hér er um að tefla, en dóminum þykir óhætt að fullyrða, að óhætt sé að treysta og gera ráð fyrir, að vél þessarar gerðar og vélar almennt endist mun lengur en þann tíma, sem umrædd vél virðist hafa dugað. Ástand bifreiðarinnar var því mun verra en sóknaraðili hafði nokkra ástæðu til að ætla.  Hann átti þess heldur ekki kost að reyna að gangsetja hana á uppboðsstað, þar sem kveikjulykil hennar vantaði og þurfti að láta smíða hann og kóða. Vélargallinn var aðeins sýnilegur við nákvæma skoðun fagmanna og þurfti að lyfta bifreiðinni til að sjá, hvað úrskeiðið hafði gengið. Ástand bifreiðarinnar var því slíkt að draga má í efa að hún fullnægi almennri og lögbundinni skilgreiningu á bifreið, sbr. þá skilgreiningu í 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að bifreið sé vélknúið ökutæki.

Boð sóknaraðila í bifreiðina hlaut að miðast við það almenna viðhorf, að ástand vélar hennar væri ekki verra en annarra sambærilegra að aldri og tegund, enda lá ekkert annað fyrir. Ástand hennar var því til muna verra en sóknaraðili hafði ástæðu til að ætla. Þykir lagaskilyrðum því fullnægt að því er varðar aðalkröfu sóknaraðila og er hún því staðfest. Þessi niðurstaða er í samræmi við þau meginsjónarmið, sem liggja til grundvallar 36 gr. samningalaga nr. 7/1936 í núverandi mynd hennar.

Varnaraðilarnir, Tollstjórinn í Reykjavík og SP fjármögnun hf., dæmast til að greiða sóknaraðila málskostnað. Varnaraðilar skulu greiða sóknaraðila óskipt máls­kostnað sem ákveðst 240.000 krónur að teknu tilliti til lögmælts virðisaukaskatts á tildæma lögmannsþóknun.

Við ákvörðun málskostnaðar þykir rétt að líta til afstöðu varnaraðila til erindis sókn­araðila, áður en til málssóknar dró.

Sönnunarfærsla og skjalagerð sóknaraðila er ekki yfir gagnrýni hafin að mati dóms­ins, án þess þó að rétt þyki að láta þann annmarka valda honum réttarspjöllum, eins og hér stendur á.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hrundið er ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 3. mars 2005 um að hafna því að rift verði sölu bifreiðarinnar ZV- 787 af gerðinni Jeep Cherokee Laredo 3,1 td. sem seld var á uppboði þann 29. janúar 2005.

Varnaraðilarnir, Tollstjórinn í Reykjavík og SP fjármögnun hf., greiði sóknar­aðila, Steindóri Einarssyni, óskipt 240.000 krónur í málskostnað.

Varnaraðilinn, Orkuveita Reykjavíkur sf., er sýknaður af kröfum sóknaraðila og er málskostnaður felldur niður þeirra í milli.