Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á því stæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. febrúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2017 klukkan 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Verði  honum hins vegar gert að sæta gæsluvarðhaldi er þess krafist að takmörkunum samkvæmt c., d. og e. lið 99. gr. laga nr. 88/2008 verði aflétt.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar og vísan til 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærða, X, fæddum [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2017, kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra. Hann krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að kröfunni verði markaður skemmri tími. Til þrautavara krefst kærði þess að gæsluvarðhaldsvist verði ákveðin án takmarkana.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er til þess vísað að lögregla hafi til rannsóknar hvarf A sem síðast hafi sést í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 14. janúar sl. Þá hafi A sést í eftirlitsmyndavél á [...], rétt fyrir kl. 05:30, þar sem hún hafi gengið upp [...] á móts við hús númer [...]. A hafi eftir það ekki sést í eftirlitsmyndavélum á svæðinu. Ekkert hafi spurst til hennar síðan. Lögregla hafi aflað símagagna úr farsíma A og þar sjáist hvar síminn tengist símsendum frá Laugavegi í Reykjavík þar til það slokkni á símanum við [...], um kl. 05:50. Lögregla telji með tilliti til þess hversu hratt síminn hafi farið yfir að A hafi verið í bifreið á þessum tíma. Engin hreyfing hafi verið á greiðslukortum hennar eða samskiptamiðlum eftir það samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögregla hafi síðastliðna daga aflað myndskeiða úr öryggismyndavélum víðs vegar um miðbæ Reykjavíkur í þeim tilgangi að afla upplýsinga um ferðir A umrædda nótt. Athygli lögreglu hafi vakið að á svipuðum tíma og öryggismyndavélar misstu sjónar á Ahafi [...] verið ekið í mynd. Lögregla ætli að þá hafi verið í bifreiðinni a.m.k. þrjár manneskjur.

Við rannsókn og eftirgrennslan eftir A hafi sl. mánudag fundist skór sem staðfest hafi verið að séu skór þeir sem A var í umrædda nótt. Skórnir hafi fundist nærri [...]. Í ljósi þess fundar og gagna sem legið hafi fyrir um að slökkt hafi verið á síma A í [...] hafi lögregla ákveðið að afla og skoða myndskeið úr öryggismyndavélum á hafnarsvæðinu í [...]. Á myndskeiði sjáist að aðfaranótt laugardagsins 14. janúar sl., rétt eftir að á síma A slokknaði, var [...] ekið að [...] togara, B, sem þar lá við bryggju. Út úr bifreiðinni stigu tveir aðilar, fullorðnir karlmenn. Þeir aðhöfðust eitthvað í kringum bifreiðina og gruni lögreglu að eitthvað eða einhver hafi verið í aftursæti bifreiðarinnar miðað við háttalag mannanna. Annar aðilinn fari síðan um borð í togarann en hinn aki bifreiðinni burt. Lögregla hafi borið kennsl á þessa tvo aðila sem kærða og Y, en báðir séu þeir skipverjar á B. Ökumaðurinn, Y, aki þá bifreiðinni á annan stað á hafnarsvæðinu þar sem hann stígi út úr bifreiðinni og fari inn í farþegasætið aftur í. Hann sé inni í bifreiðinni í um 50 mínútur og aki síðan í burtu. Í myndskeiði úr öryggismyndavélum sjáist móða á rúðum bifreiðarinnar. Rúmum fjórum klukkutímum síðar hafi bifreiðinni verið ekið aftur að hafnarsvæðinu og henni lagt við skipið. Út úr bifreiðinni hafi kærði síðan stigið. Við skoðun á myndskeiðum úr öryggismyndavélum megi enn fremur sjá kærða þrífa bifreiðina að innan, mest aftursætið hægra megin í bifreiðinni.

Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að bifreiðin var leigð út föstudaginn 13. janúar sl. Skráður leigutaki var Y. Lögregla hafi lagt hald á bifreiðina og hafi hún verið rannsökuð. Tæknideild lögreglu í samstarfi við vísindastofnanir vinni að ítarlegri rannsókn alls þess sem aflað hafi verið úr bifreiðinni. Það sé bráðabirgðaniðurstaða sérfræðinga lögreglu að sýnin, eðli þeirra og umfang, bendi til þess að í bifreiðinni hafi manneskju verið ráðinn bani.

Skipinu B hafi verið siglt frá landi að kvöldi 14. janúar sl. Skipinu hafi verið snúið við að morgni 18. janúar sl. Sama dag hafi sérsveitarmönnum frá ríkislögreglustjóra verið flogið á B er skipið kom inn í íslenska lögsögu. Þar hafi kærði og Y verið handteknir um kl. 14:00. Skipið hafi síðan komið að landi við Hafnarfjarðarhöfn um kl. 23 í gærkvöldi.

Kærði hafi við yfirheyrslu hjá lögreglu skýrt svo frá að hann tengdist ekki með nokkrum hætti hvarfi A. Kærði hafi borið að hann hefði verið ölvaður umrædda nótt. Hann hefði verið með Y í bifreiðinni umrætt sinn í miðbæ Reykjavíkur á þeim tíma sem sjá megi á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél [...] aka um Laugaveg. Það hefði verið um það leyti sem síðast hafi sést til A. Líklega hefðu þeir Y tekið tvær stúlkur upp í bifreiðina en þó geti alveg eins hafa verið um eina stúlku að ræða. Kærði beri við minnisleysi sökum ölvunar og sé framburður hans reikull. Hann segist hafa verið sofandi í bifreiðinni á leið frá Reykjavík. Kærði telji að það hafi stúlkan eða stúlkurnar einnig verið, a.m.k. þegar hann fór út úr bifreiðinni við skipshlið. Kærði beri að öðru leyti fyrir sig minnisleysi. Þegar kærði hefði yfirgefið bifreiðina hefði hann spurt Y þess hvað yrði um hina farþegana. Y hefði svarað því til að hann sæi um það. Ástæðu þess að A var, eða í það minnsta virðist vera, farþegi í þessari ökuferð segir lögreglustjóri er mjög óljósa í frásögn kærða. Sama gegni um öll samskipti hans við stúlkuna.

Lögreglustjóri segir framburð kærða vera mjög reikulan og mótsagnakenndan. Það sé mat lögreglu að framburður kærða sé í grundvallaratriðum ótrúverðugur. Kærði hafi verið með Y þegar samskiptin við A hófust með því að hún kom inn í bifreið þeirra. Hvernig það atvikaðist liggi ekki fyrir með skýrum hætti. Þá virðist vera vafalaust að slökkt hafi verið á síma A meðan hún, Y og kærði voru saman, líklega í bifreiðinni.

Lögreglustjóri kveður kærða samkvæmt framansögðu vera undir rökstuddum grun um að eiga aðild að hvarfi A aðfaranótt laugardagsins 14. janúar sl. Rannsókn málsins sé í fullum gangi en verið sé að afla gagna og fara yfir þau gögn sem þegar hafi verið haldlögð. Þá vinni lögregla að því að taka skýrslur af vitnum og meintum samverkamanni kærða. Ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meintan samverkamann eða haft áhrif á framburð vitna. Sæti kærði ekki gæsluvarðhaldi, í einangrun, geti hann mögulega komið undan sönnunargögnum sem lögregla hafi ekki lagt hald á nú þegar. Þannig þyki brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins.

Að mati lögreglustjóra sé lagaskilyrðum rannsóknargæslu fullnægt í málinu. Kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og til að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

II

Samkvæmt framansögðu hefur kærði kannast við að hafa verið í bifreið með A síðla nætur 14. janúar sl. Þá virðist liggja fyrir að slökkt hafi verið handvirkt á farsíma A á meðan kærði var í bifreiðinni með henni og Y.  Að þessu gættu og með vísan til alls framangreinds og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

Rannsókn málsins er umfangsmikil og leggur lögregla allt kapp á að finna A sem saknað hefur verið síðan aðfaranótt 14. janúar sl. Ætla verður lögreglu talsvert ráðrúm til þess að rannsaka meint brot kærða og grunaðs samverkamanns hans. Telja verður að gangi kærði laus megi ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Rannsókn lögreglu hefur staðið yfir síðan aðfaranótt 15. janúar sl. en kærði var ekki handtekinn fyrr en í gær. Átti lögregla þess fyrst kost að taka af honum skýrslu sl. nótt. Lögreglustjóri krefst þess í málinu að kærða verði gert að sæta gæsluvarðahaldi og einangrun í gæsluvarðhaldinu í fjórar vikur. Gæsluvarðhald er sú þvingunarráðstöfun sem að öðru jöfnu gengur lengst í þá átt að skerða réttindi manna. Þeirri ráðstöfun eru því settar þröngar skorður í lögum, sbr. meðal annars ákvæði 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944. Þá er brýnt með vísan til meðalhófsreglunnar að gæsluvarðhaldsvist standi eins stutt og kostur er. Að þessu og öðru framangreindu virtu þykir hæfilegt nú að gera kærða að sæta gæsluvarðhaldi, og einangrun í gæsluvarðhaldinu, í tvær vikur. Með því móti þykir vera gætt að fullu þeirra rannsóknarhagsmuna sem lögreglustjóri hefur sýnt fram á í málinu, enda á lögreglustjóri þess kost að þeim tíma liðnum að setja fram kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald teljist lagaskilyrði þá enn uppfyllt fyrir þeirri ráðstöfun.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærða, X, fæddum [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. febrúar 2017 kl. 16:00.