Hæstiréttur íslands

Mál nr. 54/2009


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Klám
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Upptaka


Fimmtudaginn 17

Fimmtudaginn 17. desember 2009. 

Nr. 54/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Klám. Börn. Skaðabætur. Upptaka.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa látið A, sem þá var 14 ára gömul, hafa við sig munnmök og hafa síðan við hana endaþarmsmök uns X varð sáðlát. Var brot hans talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  X og A höfðu átt í MSN-tölvusamskiptum fyrir atvikið og var talið að endurrit þeirra samskipta sýndu að X hefði haft einbeittan ásetning til að eiga kynferðisleg samskipti við A þótt honum væri ljóst að hún væri einungis 14 ára gömul. Sum ummæli A í þessum samskiptum voru auk þess með þeim hætti að X hlyti einnig að hafa vera ljóst að andlegu atgervi hennar kynni að vera áfátt, en samkvæmt læknisvottorðum býr hún við væga þroskahömlun. X var 22 ára þegar atvikið varð. Talið var að með háttsemi sinni hefði hann brotið gróflega gegn A og ætti sér engar málsbætur. Þá var hann einnig talinn hafa gerst sekur um að hafa haft barnaklám í vörslum sínum og var brotið talið varða við 210. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu virtu þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A 600.000 krónur í miskabætur og sæta upptöku á hörðum diski með barnaklámefni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2009 og krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd og ákærði dæmdur til að sæta upptöku á turntölvu.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt 1. lið ákæru, en að refsing vegna 2. liðar hennar verði eins væg og lög leyfa. Þá verði refsing bundin skilorði. Hann krefst einnig að skaðabótakröfu A verði vísað frá dómi, en hann að öðrum kosti sýknaður eða krafan lækkuð. Þá krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á turntölvu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota til refsiákvæða.

Svo sem rakið er í héraðsdómi áttu ákærði og brotaþoli í MSN-tölvusamskiptum fyrir atvikið 5. janúar 2008, sem um ræðir í 1. lið ákæru. Endurrit þeirra sýna að ákærði hafði einbeittan ásetning til að eiga kynferðisleg samskipti við brotaþola þótt honum væri ljóst að hún væri einungis 14 ára gömul. Sum ummæli brotaþola í þessum samskiptum voru auk þess með þeim hætti að ákærða hlaut einnig að vera ljóst að andlegu atgervi hennar kynni að vera áfátt, en samkvæmt læknisvottorðum býr hún við væga þroskahömlun. Ákærði var 22 ára þegar atvikið varð og með háttsemi sinni braut hann gróflega gegn brotaþola og á sér engar málsbætur. Þá hefur hann einnig gerst sekur um þá háttsemi, sem hann er borinn sökum um í 2. lið ákæru, að hafa haft barnaklám í vörslum sínum. Hann hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Að öllu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Ekki eru efni til að binda refsinguna skilorði að neinu leyti.

Brot, sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt 2. lið ákæru, tekur til einnar hreyfimyndar og einnar ljósmyndar. Að því virtu þykir rétt að taka kröfu ákæruvalds um upptöku til greina með þeim hætti að upptöku sæti harður diskur með barnaklámefni í ómerktri turntölvu ákærða, en að öðru leyti verður kröfunni hafnað.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur verður staðfest með vísan til forsendna hans, svo og ákvæði hans um sakarkostnað.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði skal sæta upptöku á hörðum diski í ómerktri turntölvu með barnaklámefni.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 469.712 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur og þóknun réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Herdísar Hallmarsdóttur og Þórdísar Bjarnadóttur, 62.250 krónur til hvorrar.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2008.

                Málið er höfðað með ákæru útgefinni 10. október 2008 á hendur:

                ,,X, kennitala [...],

                [...], Reykjavík,

fyrir kynferðisbrot eins og hér greinir:

1.             Með því að hafa, eftir hádegi laugardaginn 5. janúar 2008 í svefnherbergi á heimili sínu, látið A, sem þá var fjórtán ára gömul, hafa við sig munnmök og hafa síðan við hana endaþarmsmök uns ákærða varð sáðlát.

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.             Með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í 1. ákærulið, tekið tvær ljósmyndir af A þegar hún var að hafa munnmök við ákærða, en myndir þessar fundust á Compact Flash minniskorti í myndavél ákærða, og fyrir að hafa haft í vörslu sinni á hörðum diski í ómerktri turntölvu sem lögregla haldlagði 5. janúar, eina hreyfimynd og eina ljósmynd sem sýna önnur börn en A á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Telst þetta varða við 209. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á framangreindri turntölvu og minniskorti.

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2008 til 30. júlí 2008 en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Verjandi ákærða krefst sýknu og að skaðabótakröfu A verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af bótakröfu. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Þess er krafist að upptökukröfum ákæruvaldsins verði hafnað. Þess er krafist að skaðabótakrafa A verði lækkuð. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 5. janúar 2008, var lögreglan kvödd að [...] sama dag vegna gruns um að kynferðisbrot hefði verið framið gegn A, íbúa á sama stað, en þarna er vistheimili á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra fyrir börn. Starfsmenn greindu frá því að A hefði fengið leyfi til að fara út í sjoppu um kl. 12.30 og fengið til þess 20 mínútur en komið til baka um kl. 15.00. Í skýrslunni er rakin frásögn starfsmanna og grunsemdir um að A hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Grunur beindist að ákærða og var farið á heimili hans og hann handtekinn um kl. 16.40 sama dag vegna grunsemda um kynferðisbrot gegn A. Í lögregluskýrslunni er lýst frásögn ákærða af kynmökum þeirra A og að ákærði hefði talið að hún væri 15 ára gömul. A var flutt til skoðunar á neyðarmóttöku en ekki reyndist unnt að skoða hana þar sem að hún reyndist ófús til samvinnu.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 5. janúar sl. Þar lýsti hann samskiptum þeirra A á MSN spjallrás á netinu. Þau hefðu sammælst um að ákærði sækti hana þennan dag, en A hefði átt hugmyndina. Hann kvaðst hafa sótt hana klukkan 13.20 og þau ekið heim til ákærða þar sem þau höfðu kynmök á þann hátt sem lýst er í ákærunni. Aðspurður um það hvort A hefði greint honum frá aldri sínum sagði ákærði að hún hefði einhvern tímann gert það, hann hefði haldið að hún væri 15 ára. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki merkt að A væri andlega vanheil.

Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu eins og ástæða þykir og vitnisburður.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitar sök. Hann kvað lýsingu málavaxta í þessum ákærulið rétta, en

neitun sín byggist á því að hann hefði talið A 15 ára gamla er þetta átti sér stað og kynferðismökin verið að vilja beggja. Ákærði kvaðst upphaflega hafa komist í samband við A gegnum einkamál.is þar hefði hann fengið MSN-netfang A og eftir það ræddi hann við hana tvisvar til þrisvar sinnum á MSN- spjallrásinni. Síðan liðu um tveir mánuðir þar til þau höfðu aftur samband gegnum MSN og taldi hann það hafa verið í byrjun desember 2007. Þá hefði A viljað að þau hittust. Hann hefði síðan fengið SMS-skilaboð sem urðu til þess að hann sótti A hinn 5. janúar 2008  og fóru þau heim til ákærða eftir það. Ákærði lýsti samskiptum þeirra þar, en þau enduðu  með því að þau höfðu mök eins og lýst er í þessum ákærulið. Milli klukkan 15 og 16 sama dag kvaðst ákærði hafa ekið A aftur heim til sín. Hann kvaðst hafa talið A 15 ára gamla. Hann nefndi að krafist væri 18 ára aldurs til að fá skráningu á vefnum einkamál.is. Ákærði kvaðst ekki hafa tengt aldur A við skráningarheiti hennar á MSN en það sé [...]. Hann kvaðst hafa rætt aldur A í samskiptum þeirra á MSN-spjallrásinni. Ákærði taldi allan tímann sem hann hafði samband við hana að hún byggi í foreldrahúsum en hann hefði komist að því eftir handtöku að svo var ekki.

                Á nokkrum stöðum í MSN-samskiptum ákærða og A koma fram upplýsingar um aldur hennar. Í skýrslutöku hjá lögreglunni 30. júní 2008, var ákærði spurður um MSN-samskiptin við A sem áttu sér stað 4. janúar 2008. Þar kom ýmislegt fram sem bendir til þess að ákærði hefði vitað um aldur A er mökin áttu sér stað 5. janúar sl. Er sumt af þessu var borið undir ákærða kvað hann samskiptin ekki gefa til kynna að hann hefði vitað aldurinn. Síðar í lögregluskýrslunni er hann spurður um MSN-samskiptin 4. janúar 2008, þar sem A lýsir því að hana langi til að verða ólétt. Ákærði svaraði því með því að segja að hún væri bara 14 ára. Aðspurður um þetta við framangreinda skýrslutöku hjá lögreglu kvað ákærði þetta samskipti þeirra A og hann hafi vitað ,,að hún væri bara 14 ára.“ Aðspurður um þetta fyrir dómi kvaðst ákærði fyrir mistök hafa slegið inn tölustafinn 4 í staðinn fyrir 5 á lyklaborði tölvu sinnar er hann skrifaði þetta. Fyrir dóminum var ákærði spurður um það hvað gæfi honum ástæðu til að ætla að A hefði verið 15 ára þrátt fyrir þau gögn sem rakin hafa verið. Kvað hann þær upplýsingar hafa komið fram í MSN-spjalli þeirra, en gögnin um þetta séu glötuð að mestu leyti.            

                Tekin var skýrsla af A fyrir dómi 18. janúar sl. Hún lýsti samskiptum þeirra ákærða á MSN-spjallrás á netinu þar sem þau kynntust. Hún kvað ákærða hafa spurt hvort hún vildi ekki hitta hann, hann væri einn heima. Fram kom hjá henni að ákveðið hefði verið fyrirfram á MSN-spjallrásinni að þau stunduðu kynlíf á heimili ákærða þennan dag. Þetta var daginn sem ákærði sótti hana við leikskóla við [...]. Eftir að þau komu til ákærða hefðu þau kysst og horft á sjónvarp og verið í tölvunni að hennar sögn. Í þessari atburðarás hefði ákærði beðið hana um að  loka augunum sem hún gerði. Ákærði hefði sagt að hann væri með gjöf til hennar. Er hún opnaði augun hefði hann verið nakinn. Hann hefði beðið hana um að afklæðast sem að hún kvaðst hafa gert, enda ekki þorað öðru að sögn. Eftir þetta fóru þau upp í rúm þar sem þau höfðu endaþarmsmök eins og lýst er í ákærunni auk þess sem hún hafði munnmök við ákærða, allt eins og lýst er í ákærulið 1. Hún lýsti því að hún hefði verið hrædd og hana hefði langað til að hlaupa í burtu en hún hefði verið stjörf og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Henni hefði liðið illa. Þetta hefði endað þannig að ákærði hefði sagt að hann þyrfti að fara, foreldrar hans væru væntanlegir. Eftir það hefði hann ekið henni til baka þangað sem hann sótti hana áður. A kvaðst lítið hafa sagt ákærða af sjálfri sér fyrir atburðinn sem lýst er að ofan. Hún hefði þó fljótlega eftir að þau kynntust sagt honum nafn og aldur. Hún hefði greint ákærða rétt frá aldri sínum. Þá benti hún á netfang sitt [...] sem gæfi aldurinn til kynna.

                Vitnið B, starfsmaður Svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra í Reykjavík, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við A og lýsti eiginleikum í hennar fari. B kvaðst ekki hafa verið við störf er atburðurinn sem hér um ræðir átti sér stað. Hún kvaðst hafa hitt A þennan dag eftir að reynt var að fá hana til að gangast undir læknisskoðun. A hefði verið miður sín og henni hefði liðið illa en hún hefði tekið nærri sér það sem gerðist. B lýsti þessu nánar og að A hefði skrifað í dagbók sína frásögn af því sem gerðist. Þetta skjal er meðal gagna málsins og þar kemur frásögn A efnislega á sama veg og er hún gaf skýrslu fyrir dómi.

Vitnið C var starfsmaður Svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra í Reykjavík á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann lýsti dvöl A þar þessum tíma og ástæðu dvalarinnar. Hann kvað A hafa fengið að fara út í sjoppu 5. janúar sl. en hún hefði ekki skilað sér til baka í tæka tíð. Hann lýstir viðbrögðum vegna þessa. A hefði síðan komið til baka um tveim klukkustundum síðar og þá verið niðurbrotin og grátandi.  Hún hefði haldið inn í herbergið sitt þar sem hún grét og sagði frá því að maðurinn sem hún hefði samskipti við hefði verið vondur við sig, en komið hefði fram hjá henni að samskiptin voru kynferðisleg. Hann lýsti komu lögreglu og því sem gerðist í framhaldinu.

Meðal gagna málsins er greinargerð Gunnsteins Gunnarssonar barna- og unglingageðlæknis vegna A. Greinargerðin er dagsett 20. nóvember 2008. Tilefni greinargerðarinnar er að lýsa afleiðingum háttsemi ákærða á A. Í greinargerðinni er lýst vægri þroskaheftingu A og erfiðleikum sem hún á við að stríða. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir ,,Ég get ekki af geðlæknisfræðilegum ástæðum fullyrt að hún hafi beðið andlegt heilsutjón af áðurnefndu kynferðisbroti gagnvart henni.“ Gunnsteinn gaf skýrslu fyrir dóminum, skýrði og staðfesti greinargerð sína.

Vitnið Benedikt Lund rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dóminum skýrslu sem rituð er 6. janúar 2008, eftir samtal sem hann átti við A á slysadeild. Hann lýsti því hversu erfitt hafi verið að ræða við hana og hún hefði verið ófáanleg til að undirgangast læknisskoðun þrátt fyrir ítarlegar tilraunir starfsfólks sjúkrahússins.

                Niðurstaða ákæruliðar 1.

                Ákærði neitar sök á þeim forsendum að hann hafi talið A 15 ára gamla er kynferðismökin sem í þessum ákærulið greinir áttu sér stað með vilja beggja. Eins og rakið var lýsti ákærði því hjá lögreglu að honum hefði verið ljós aldur A á þessum tíma og að hún hefði verið 14 ára. A greindi frá því að hún hefði sagt ákærða rétt til um aldur sinn. Gögn málsins sem sýna tölvusamskipti ákærða og A gefa til kynna að ákærði vissi aldur A. Þá er skýring ákærða að breyttum framburði ótrúverðug en hann greindi svo frá að um innsláttarvillu hefði verið að ræða er hann skrifaði 14 ára aldur A eins og lýst var að framan. Að öllu þessu og öðrum gögnum málsins virtum er sannað með vitnisburði A og með framburði ákærða hjá lögreglu og með þeim gögnum sem voru rakin um tölvusamskipti þeirra, en gegn neitun ákærða fyrir dómi, að hann hafi vitað um aldur A á þeim tíma sem í ákæru greinir. Þá er sannað með játningu ákærða sem fær stoð af öðrum gögnum málsins að hann hafði kynferðismök við A eins og lýst er í ákærunni. Með þessu hefur ákærði gerst brotlegur við lagaákvæðið sem í ákærunni greinir.

                Ákæruliður 2.

Ákærði neitar sök. Hann kvað lýsingu í þessum ákærulið rétta, en hann kvaðst neita vörslum þar sem hann taldi sig hafa eytt myndefninu sem ákært er fyrir.

Ákærði kvaðst hafa tekið 2 ljósmyndir af A er hún hafði við hann munnmök. A hefði samþykkt myndatökuna, en ákærði hefði eytt myndunum jafnharðan.

Myndirnar sem voru í turntölvu ákærða kvað hann hafa komið í tölvuna með öðrum skrám sem hann hlóð niður af netinu, en ákærði hefði ekki vitað af þessum myndum með öðru efni sem hann hlóð niður. Ákærði kvaðst hafa eytt þessum myndum í tölvunni en lögreglan hefði kallað myndirnar fram undir rannsókn málsins.

A lýsti því fyrir dóminum 18. janúar sl. að ákærði hefði tekið af sér eina eða tvær ljósmyndir meðan hún hafði við hann munnmök. Aðspurð hvort hún hefði heimilað myndatökuna, kvaðst hún ekki hafa viljað þetta en ekki þorað öðru.

                Vitnið Steinarr Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi staðfesti að búið var að eyða ljósmyndunum af A sem í þessum ákærulið greinir úr myndavélinni.

Steinarr Kristján skýrði að hreyfimyndin sem í þessum ákærulið greinir hefði komið í tölvu ákærða 10. júlí 2007, og síðast verið opnuð í tölvunni hinn 4. janúar 2008. Við rannsókn á tölvunni hefði komið í ljós að myndskeiðinu hefði ekki verið eytt. Ljósmyndin sem hér um ræðir hefði fundist í tölvupósti í tölvu ákærða. Steinarr ritaði skýrslu um þetta þar sem kemur fram að ljósmyndin hefði verið send úr tölvu ákærða 19. maí 2007. Fram kemur í gögnum málins að ljósmyndinni sem hér um ræðir sem vistuð var í póstskrá tölvunnar hefði ekki verið eytt. Steinarr kvað ekki útilokað að hreyfimyndin sem hér um ræðir og ljósmyndin sem fundust í turntölvu ákærða við það að ákærði hlóð niður öðru efni af netinu og að þessar myndir hefðu þannig komið með öðru efni án atbeina ákærða.

Niðurstaða ákæruliðar 2.

Ákærða er gefið að sök að hafa tekið tvær ljósmyndir af A eins og lýst er í ákærunni og er sú háttsemi talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði eyddi ljósmyndunum jafnharðan eins og lýst var og vitnið Steinarr Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi staðfesti að myndunum hefði verið eytt.  Það er mat dómsins að þessi háttsemi ákærða sé ekki brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og er ákærði sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar.

Ákærða er gefið að sök að hafa haft klámfengið efni í tölvu sinni eins og lýst  er í ákærunni. Sannað er með vitnisburði Steinars Kristjáns Ómarssonar að efnið sem hér um ræðir var aðgengilegt í tölvu ákærða og var síðast opnað 4. janúar 2008. Myndefnið sem hér um ræðir er klámfengið á þann hátt sem lýst er í ákærunni. Með þessu, en gegn neitun ákærða, eru sannaðar vörslur ákærða á þessu myndefni og varða vörslurnar við 210. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu hluta refsivistarinnar eins og greinir í dómsorði.

Með vísan til niðurstöðu ákæruliðar 2 er hafnað upptökukröfu á minniskorti.

Með vísan til 1. tl.1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga skal ákærði sæta upptöku á turntölvu sem lýst er í ákærulið 2.

A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki liggur fyrir með vissu hvaða áhrif háttsemi ákærða hafði á A. Hins vegar er háttsemi ákærða gegnvart henni til þess fallin að hafa skaðleg áhrif. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 600.000 krónur auk vaxta eins og krafist er og lýst er í dómsorði. Auk þessa greiði ákærði Herdísi Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanni, skipuðum réttargæslumanni A 149.400 krónur í réttargæsluþóknun að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni 435.750 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknunin er fyrir vinnu verjandans undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.

Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12  mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsivistarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði sæti upptöku á turntölvu sem lýst er í ákærulið 2.

Ákærði greiði A, kt. [...], 600.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2008 til 30. júlí 2008 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Herdísi Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanni, skipuðum réttargæslumanni A 149.400 krónur í réttargæsluþóknun.

Ákærði greiði Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni 435.750 krónur í málsvarnarlaun.