Hæstiréttur íslands

Mál nr. 490/2002


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Játningarmál


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. mars 2003.

Nr. 490/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Agnari Jónssyni

(Othar Örn Petersen hrl.)

 

Ómerking. Heimvísun. Játningarmál.

Héraðsdómari ákvað að fara með opinbert mál á hendur A samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms þar sem A var dæmdur í 10 mánaða fangelsi, en fullnustu 7 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í þrjú ár, með vísan til þess að ekki hafi verið fullnægt því skilyrði fyrir meðferð málsins að A hafi játað skýlaust alla þá háttsemi, sem honum var gefin að sök.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans, en staðfestingar á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um greiðslu skaðabóta.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að refsing sín verði milduð og skilorðsbundin og skaðabótakröfu vísað frá héraðsdómi.

Í málinu er ákærða gefið sök að hafa í starfi sínu sem hafnarvörður Búðahrepps á um það bil fimm ára tímabili dregið sér og nýtt í eigin þágu 4.693.018 krónur með því að innleysa 32 nánar tilgreinda tékka samtals að ofangreindri fjárhæð. Þegar ákærði var inntur eftir afstöðu sinni til ákærunnar í þinghaldi 19. júlí 2002 var eftirfarandi fært til bókar: „Ákærði játar sök en gerir þá athugasemd að þar sem að ákærunni er rætt um tékka að fjárhæð kr. 877.089 sem innleystur var 6. apríl 1999 að þá hafi í raun verið 717.089 skilað inn til Búðahrepps.“ Voru jafnframt bókuð mótmæli ákærða við fram kominni skaðabótakröfu hreppsins þar sem ekki hafi verið sýnt fram á hver sé „raunveruleg tjónsfjárhæð“. Ákvað héraðsdómari síðan með samþykki beggja aðila að fara með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var sækjanda málsins og verjanda ákærða að því búnu gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 10 mánuði, en fullnustu 7 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var ákærða gert að greiða hreppnum 4.175.929 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.

Á meðal gagna málsins er bréf verjanda ákærða til sýslumanns á Eskifirði 19. júlí 2002 þar sem bornar eru brigður á skaðabótakröfu Búðahrepps með vísan til þess að ákærði hafi endurgreitt hluta þeirrar fjárhæðar sem hann dró sér. Máli sínu til stuðnings vísaði verjandinn til bréfs Sigurðar H. Pálssonar endurskoðanda til Búðahrepps 13. september 2001. Í síðastnefndu bréfi kemur fram að ákærði hafi ýmist lagt andvirði þeirra tékka, sem um ræðir í málinu, inn á tékkareikning sinn eða leyst þá út í reiðufé. Hafi viðskiptabankar látið þetta viðgangast þrátt fyrir að tékkarnir hafi oftast verið gefnar út á hafnarsjóð en ekki handhafa. Næst þegar tékkarnir hafi borist hafi ákærði lagt þá inn á reikning sveitarsjóðs og tjáð gjaldkera að um væri að ræða greiðslu á reikningum sem viðskiptamenn hafnarinnar höfðu þá í raun greitt með fyrri tékkum. Þannig hafi ákærði getað velt á undan sér sífellt hærri fjárhæð með því að draga sér aðeins hluta tékkanna sem bárust. Eru aðilar ekki á eitt sáttir um hvað felist í þessum hluta bréfsins.

Að virtum fram komnum mótmælum ákærða á dómþingi 19. júlí 2002 svo og framangreindum athugasemdum verjanda hans er ljóst að hér var ekki fullnægt því skilyrði fyrir meðferð máls eftir 125. gr. laga nr. 19/1991, að ákærði hafi játað skýlaust alla þá háttsemi, sem honum var gefin að sök. Verður ekki komist hjá því að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður allur kostnaður af því í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda á báðum dómstigum, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Othars Arnar Petersen hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.  

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 26. ágúst 2002.

                Málið, sem þingfest var 5. febrúar 2002 og dómtekið 19. júlí 2002, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 14. janúar 2002 gegn Agnari Jónssyni, kt. 170639-4649, Borgarstíg 1, Fáskrúðsfirði „fyrir fjárdrátt í opinberu starfi með því að hafa á tímabilinu frá maí 1995 til júlí 2000, þá starfandi sem hafnarvörður hjá Búðahreppi, dregið sér og nýtt í eigin þágu samtals kr. 4.693.018 af fé hafnarsjóðs, sem sundurliðast þannig:

Tékki að fjárhæð 66.195 kr. innleystur 16. júní 1995

Tékki að fjárhæð 44.511 kr. innleystur 21. mars 1996

Tékki að fjárhæð 37.390 kr. innleystur 24. apríl  1996

Tékki að fjárhæð 149.941 kr. innleystur 3. júlí  1996

Tékki að fjárhæð 107.856 kr. innleystur 8. október 1996

Tékki að fjárhæð 35.604 kr. innleystur 13. mars 1997

Tékki að fjárhæð 157.677 kr. innleystur 20. apríl 1998

Tékki að fjárhæð 201.780 kr. innleystur 5. maí 1998

Tékki að fjárhæð 98.606 kr. innleystur 28. maí 1998

Tékki að fjárhæð 419.036 kr. innleystur 22. júní 1998

Tékki að fjárhæð 88.632 kr. innleystur 7. ágúst 1998

Tékki að fjárhæð 69.084 kr. innleystur 16. september 1998

Tékki að fjárhæð 333.676 kr. innleystur 27. október 1998

Tékki að fjárhæð 66.208 kr. innleystur 22. desember 1998

Tékki að fjárhæð 9.682 kr. innleystur 22. desember 1998

Tékki að fjárhæð 73.205 kr. innleystur 22. desember 1998

Tékki að fjárhæð 243.320 kr. innleystur 5. febrúar 1999

Tékki að fjárhæð 877.089 kr. innleystur 6. apríl 1999

Tékki að fjárhæð 139.331 kr. innleystur 23. apríl 1999

Tékki að fjárhæð 33.671 kr. innleystur 11. júní 1999

Tékki að fjárhæð 82.062 kr. innleystur 11. júní 1999

Tékki að fjárhæð 342.000 kr. innleystur 7. júlí 1999

Tékki að fjárhæð 91.999 kr. innleystur 28. júlí 1999

Tékki að fjárhæð 11.300 kr. innleystur 28. júlí 1999

Tékki að fjárhæð 31.591 kr. innleystur 2. september 1999

Tékki að fjárhæð 204.382 kr. innleystur 29. september 1999

Tékki að fjárhæð 79.712 kr. innleystur 6. janúar 2000

Tékki að fjárhæð 218.959 kr. innleystur 3. febrúar 2000

Tékki að fjárhæð 76.663 kr. innleystur 7. apríl 1999

Tékki að fjárhæð 39.964 kr. innleystur 28. apríl 2000

Tékki að fjárhæð 103.282 kr. innleystur 13. júní 2000

Tékki að fjárhæð 158.610 kr. innleystur 26. júlí 2000

 

Telst þetta varða við 247. gr., sbr. 138. gr almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu Búðahrepps vegna hafnarsjóðs Fáskrúðsfjarðar, kt. 490169-2619, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 3.975.929 að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 og þóknunar vegna lögmannsþjónustu.”

                Með játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, telst sannað, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök og réttilega er heimfærð til lagaákvæða í ákæru.

                Samkvæmt sakavottorði dags. 23. janúar 2002, hefur ákærða ekki verið refsað fyrir brot, sem ítrekunarverkun hafa í þessum máli. 

Hæfileg refsing ákærða Agnars Jónssonar ákveðst 10 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Af hálfu Búðahrepps vegna hafnarsjóðs Fáskrúðsfjarðar, er í ákæru krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 3.975.929 að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 og þóknunar vegna lögmannsþjónustu.

                Kröfufjárhæðin er samtala þeirra tékka, sem ákærði er sakfelldur fyrir að hafa dregið sér sem er kr. 4.693.018 að frádreginni greiðslu, sem ákærði mun hafa greitt inn á reikning bótakrefjanda þann 6. apríl 1999, kr. 717.089, eða kr. 3.975.929.

                Ekki hefur verið sýnt fram á, að ákærði hafi endurgreitt að öðru leyti það fé, sem hann hefur dregið sér og verður bótakrafan tekin til greina að fullu. Með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða kr. 200.000 vegna lögmannsaðstoðar. Verður ákærði þannig dæmdur til að greiða Búðahreppi kr. 4.175.929 með dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, af kr. 3.975.929 frá 21. febrúar 2002.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi og málflutningsþóknun skipaðs verjanda hans fyrir dómi, Othars Arnar Pedersen, hrl., 120.000 krónur.

                Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist framyfir lögskilinn tíma vegna embættisanna dómarans.              

Dómsorð:

Ákærði, Agnar Jónsson, sæti 10 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði greiði Búðahreppi kr. 4.175.929 með dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, af kr. 3.975.929 frá 21. febrúar 2002.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi og málflutningsþóknun skipaðs verjanda hans fyrir dómi, Othars Arnar Pedersen, hrl., 120.000 krónur.