Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hald
  • Kröfugerð


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. júlí 2009.

Nr. 363/2009.

Ríkislögreglustjóri

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Hannesi Þór Smárasyni

(Gísli Guðni Hall hrl.)

 

Kærumál. Hald. Kröfugerð.

R framkvæmdi húsleit 3. júní 2009 á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009 í húsnæði lögmannsstofunnar L og í tveimur fasteignum, annarrar í eigu H en hinnar í eigu sambýliskonu hans. Krafðist H viðurkenningar á því að húsleitirnar hefðu verið ólögmætar. Þá krafðist hann þess að R yrði gert að skila tafarlaust öllum gögnum sem hald hafði verið lagt á í áðurnefndum húsleitum, að R væri óheimilt að kynna sér þau og að R yrði gert að eyða öllum afritum af þeim sem kynnu að hafa verið vistuð á tölvum hans. H byggði ennfremur á því að hald hefði verið lagt á gögn í húsnæði L sem vörðuðu aðra viðskiptamenn stofunnar en H og fyrirtæki hans. Talið var að H gæti á grundvelli 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála borið undir dómstóla kröfu um að haldi væri aflétt. Fyrir lá að H væri grunaður um refsiverða háttsemi. Skilyrði fyrir því að leggja hald á gögn hjá H og lögmanni hans 3. júní 2009 hefðu því verið uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. H hefði ekki við meðferð málsins gert sérstakar kröfur sem beint hefði verið að tilteknum gögnum sem hald var lagt á 3. júní 2009 umfram það sem hann teldi að hefði verið heimilað með dómsúrskurðinum 2. júní 2009, heldur látið við það sitja að beina kröfum sínum að öllum hinum haldlögðu gögnum. Það væri ekki hlutverk dómstóla að laga kröfur hans að málatilbúnaði hans að þessu leyti. Þá var talið að H gæti ekki átt aðild að kröfu um skil og meðferð á gögnum sem snertu viðskipti lögmanns hans við aðra viðskiptavini en H. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila, sem lutu að lögmæti aðgerða sóknaraðila við leit í húsnæði Logos lögmannsþjónustu slf. að Efstaleiti 5, Reykjavík og fasteignunum að Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, Reykjavík, 3. júní 2009 og  haldlagningu á gögnum þar. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfur hans, sem lýst er í hinum kærða úrskurði, verði teknar til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði gerði sóknaraðili húsleit í þeim þremur fasteigum, sem getur í kröfu varnaraðila, hinn 3. júní 2009 á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leita í fasteignunum og leggja hald á gögn. Var tekið fram í úrskurðarorðum að leitin væri gerð í því skyni að „finna og haldleggja skjalleg sönnunargögn sem og rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstöðum hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og haldleggja muni sem þar kunna að finnast og tengjast ætluðum sakarefnum.“ Forsendur úrskurðarins 2. júní 2009 eru nær allar teknar orðrétt upp í hinn kærða úrskurð. Þar er að mestu leyti um að ræða endursögn á beiðni sóknaraðila sem héraðsdómur féllst á í úrskurði sínum.

Í hinum kærða úrskurði er einnig orðrétt tekið upp meginefni erindis varnaraðila 5. júní 2009 til héraðsdómsins. Koma þar fram sjónarmið hans að baki þeim kröfum sem hann gerir í þessu máli.

Í 1. lið kröfugerðar sinnar gerir varnaraðili kröfu um „að húsleitir ... 3. júní 2009 á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur ... í húsnæði Logos lögmannsþjónustu slf., að Efstaleiti 5, Reykjavík og í fasteignunum að Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11 í Reykjavík, hafi verið ólögmætar.“ Í þessu máli er ekki til endurskoðunar úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009, sem að framan var lýst, enda varð hann ekki kærður til Hæstaréttar eftir að húsleit hafði farið fram, sbr. 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Af málatilbúnaði varnaraðila í þessu máli má skilja að hann telji að við húsleitirnar hafi verið lagt hald á fleiri gögn en úrskurðurinn 2. júní 2009 heimilaði. Með hliðsjón af þessu og orðalagi 2. – 4. liðar í kröfugerð varnaraðila, þar sem kröfum er beint að meðferð þeirra gagna sem hald var lagt á 3. júní 2009, þykir mega skýra 1. kröfuliðinn svo að þar sé krafist viðurkenningar á að haldlagning sóknaraðila þennan dag hafi verið ólögmæt.

 Í kröfuliðum 2 - 4 gerir varnaraðili kröfur um að sóknaraðili skili öllum gögnum sem hald var lagt á, honum verði óheimilað að kynna sér þau og gert að eyða öllum afritum af þeim sem kunni að hafa verið vistuð á tölvum sóknaraðila. Kröfur sínar byggir varnaraðili annars vegar á því að rannsóknaraðgerðir lögreglu séu án nægilegs tilefnis. Hins vegar byggir hann á því að starfsmenn sóknaraðila hafi lagt hald á gögn „sem höfðu bersýnilega ekkert með rannsóknarefnin að gera“ og hafi þannig verið „farið út fyrir heimildir samkvæmt húsleitarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní sl.“ Þá hefur hann einnig byggt á því að hald hafi verið lagt á gögn í húsnæði Logos lögmannsþjónustu slf., sem varði aðra viðskiptamenn stofunnar en varnaraðila og fyrirtæki hans.

Telja verður að varnaraðili geti á grundvelli 3. mgr. 69. gr laga nr. 88/2008 borið undir dómstóla kröfu um að haldi sé aflétt, meðal annars á þeim grundvelli að hald hafi verið lagt á gögn umfram það sem heimilað hefur verið með dómsúrskurði. Fyrir liggur að varnaraðili er grunaður um refsiverða háttsemi, svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði, þar sem teknar eru upp forsendur úrskurðarins 2. júní 2009. Skilyrði fyrir því að leggja hald á gögn hjá varnaraðila og lögmanni hans 3. júní 2009 voru því uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 svo sem nefndur úrskurður heimilaði. Varnaraðili hefur ekki við meðferð málsins gert sérstakar kröfur sem beint er að þeim gögnum sem hald var lagt á 3. júní 2009 umfram það sem hann telur að hafi verið heimilað með dómsúrskurðinum 2. júní 2009, heldur látið við það sitja að beina kröfum sínum að öllum hinum haldlögðu gögnum. Það er ekki hlutverk dómstóla að laga kröfur hans að málatilbúnaði hans að þessu leyti. Þá getur varnaraðili ekki átt aðild að kröfu um skil og meðferð á gögnum sem snerta viðskipti lögmanns hans við aðra viðskiptavini en varnaraðila.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.

                Gísli Guðni Hall hrl. hefur krafist þess fyrir hönd Hannesar Þórs Smárasonar, kt. 251167-3389, Englandi, hér eftir nefndur sóknaraðili, að héraðsdómur úrskurði:

1. Að húsleitir varnaraðila 3. júní 2009, á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-237/2009, í húsnæði LOGOS lögmannsþjónustu slf., að Efstaleiti 5, Reykjavík og í fasteignum að Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11 í Reykjavík, hafi verið ólögmætar.

2. Að varnaraðili skuli tafarlaust skila öllum gögnum, sem hald var lagt á í áðurnefndum húsleitum.

3. Að varnaraðila sé óheimilt að kynna sér haldlögð gögn, þar með talið að opna skjöl á rafrænu (tölvutæku) formi sem hald var lagt á í áðurnefndum húsleitum.

4. Að varnaraðila verði gert skylt að eyða öllum afritum af haldlögðum gögnum, þ.m.t. rafrænum sem kunna að hafa verið vistuð á tölvum varnaraðila.

5. Að varnaraðili skuli greiða sóknaraðila hæfilega málskostnað að mati dómsins.

 

Af hálfu ríkislögreglustjóra, hér eftir nefndur varnaraðili, er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

 

I

Málavextir eru þeir að 3. júní 2009 gerði varnaraðili húsleit hjá LOGOS lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, Reykjavík og í fasteignum að Fjölnisvegi 9 og 11 í Reykjavík, á grundvelli húsleitarúrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 2. sama mánaðar.  Forsendur þessa úrskurðar eru sem hér segir:  „Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, með vísan til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra verði heimiluð húsleit: í starfsstöðvum Gunnars Sturlusonar hrl. og Vilborgar Ásgeirsdóttur, í húsnæði LOGOS lögmannsþjónustu slf., að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík svo og annars staðar að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík þar sem gögn tengd störfum framangreindra einstaklinga kunna að vera varðveitt. Þess er einnig krafist að heimiluð verði húsleit í fasteignunum Fjölnisvegi 9, 101 Reykjavík og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík, til að leita og leggja hald á gögn. Leit á framangreindum stöðum er gerð í því skyni að finna og haldleggja skjalleg sönnunargögn sem og rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstöðum hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og haldleggja muni sem þar kunna að finnast og tengjast ætluðum sakarefnum. Þess er krafist að leitarheimildin nái til læstra hirslna í umræddum fasteignum.

Í greinargerð Ríkislögreglustjóra kemur fram að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi til rannsóknar meint auðgunarbrot vegna viðskipta FL Group hf., kennitala 601273-0129 (nú Stoðum hf.) tengdum flugfélaginu Sterling Airlines A/S og meint brot gegn hlutafélagalögum nr. 2/1995. Umrædd brot séu talin hafa átt sér stað á árinu 2005.

Auk þess hafi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til frekari rannsóknar meint skattalagabrot, sem kærð hafi verið til embættisins þann 11. maí 2009 af skattrannsóknarstjóra ríkisins. Kæruna megi rekja til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á félaginu FL Group hf., kennitala 601273-0129, en Hannes Þór Smárason hafi verið stjórnarmaður og forstjóri félagsins, þá hafi Hannes Þór verið einnig stærsti eigandi FL Group hf. í gegnum Oddaflug ehf., síðar EO eignarhaldsfélag ehf. Við þá rannsókn hafi þótt ástæða til að skoða nokkur félög í eigu Hannesar Þórs og tengd honum, og líti hin framangreinda kæra að meintum skattsvikum í rekstri félaga sem annars vegar séu í eigu Hannesar Þórs og hins vegar séu tengd honum. Um sé að ræða eftirfarandi félög: FI fjárfestingar ehf. kt. 640398-2489 áður Fjárfestingarfélagið Primus ehf., Fjölnisvegur 9 ehf. kt. 590504-2890, Hlíðasmári 6 ehf. kt. 640300-2210, Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf. kt. 700902-2930 og EO eignarhaldsfélagið ehf., kt. 660104-3130 áður Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. Umrædd brot séu talin hafa átt sér stað á árunum 2006-2007.

Þyki nú rétt að víkja að framangreindum félögum og þeim brotum sem kunna að hafa verið framin í rekstri þeirra.

FL Group hf., kt. 601273-0129, nú Stoðir hf.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi af sínu frumkvæði hafið rannsókn á meintu auðgunarbroti, nánar tiltekið broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, vegna viðskipta FL Group hf., kennitala 601273-0129 (nú Stoðir hf.) tengdum flugfélaginu Sterling Airlines A/S, og meintu broti Hannesar Þórs Smárasonar gegn hlutafélagalögum nr. 2/1995. Félagið hafi á þessum tíma almenningshlutafélag verið skráð í Kauphöll Íslands.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, beinist annars vegar á kaupum hlutafélagsins FL Group á flugfélaginu Sterling Airlines A/S (skráningarnr. 18235404), Sterling Icelandic ApS og Flyselskabet A/S af Fons eignarhaldsfélagi hf. eða nánar tiltekið Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni. Kaup þessi hafi verið samþykkt af stjórn félagsins á stjórnarfundi í FL Group hf. sem haldinn hafi verið kl. 17:00 þann 21. október 2005 að Hótel Loftleiðum í Reykjavík. Stjórn félagsins veitti forstjóra félagsins Hannesi Þór Smárasyni fullt umboð til að undirrita fyrir hönd þess öll nauðsynleg skjöl í tengslum við kaupin þ.á m. kaupsamning. Undir fundargerð þessa riti Hannes Þór o.fl. auk Gunnars Sturlusonar hrl., sem ritaði fundargerðina. Þann 23. október 2005 hafi verið undirritaður kaupsamningur á Sterling Airlines A/S milli Fons eignarhaldsfélags hf. og FL Group hf. Undir hann riti Hannes Þór fyrir FL Group hf. og fyrir Fons eigarhaldsfélag hf. rita Pálmi Haraldsson og Jóhannes Kristinsson, auk þess skrifar Gunnar Sturluson hrl. kennitala 170767-4119 undir sem vottur. Hvað varði frekari tengsl Gunnars við kaup FL Group hf. á Sterling A/S og aðdraganda þess, megi sjá tölvupósta því til stuðnings. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telji að kaup þessi hafi valdið hlutafélaginu FL Group verulegu fjárhagslegu tjóni, þar sem flugfélagið kunni að hafa verið keypt á yfirverði. Af þessu sögðu telji embættið að um rökstuddan grun sé að ræða að með nefndum viðskiptum kunni að hafa verið framið brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Hins vegar beinist rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að meintu broti Hannesar Þórs Smárasonar á 104. gr. sbr. 2. tl. 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, með lánveitingu hlutafélagsins FL Group til handa Hannesi Þór eða öðrum honum tengdum að fjárhæð USD 46.500.000. Í þessu sambandi megi sjá tölvupósta frá 22. apríl 2005 og þá sérstaklega frá kl. 13:07 þar sem Hannes Þór óski eftir því sérstaklega að fá senda staðfestingu á því þegar millifærslan hefur verið framkvæmd. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telji rökstuddan grun um ólögmæta og refsiverða tilfærslu fjármuna sem kunni að vera brot á 104. gr. sbr. 2. tl. 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.

Ljóst sé samkvæmt framangreindu að rökstuddur grunur sé um auðgunarbrot og brot gegn lögum nr. 2/1995, um hlutafélög og telji efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra því nauðsynlegt að svo unnt sé að rannsaka málið á fullnægjandi hátt verði að framkvæma húsleitir að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík til að leggja hald á öll gögn og muni, þ. á m. tölvugögn, er varði rekstur félagsins.

FI fjárfestingar ehf., kt. 640398-2489, áður Fjárfestingarfélagið Primus ehf.

Þann 23. mars 1998 hafi verið móttekin tilkynning hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra um stofnun einkahlutafélags sem hét Fjárfestingarsjóðurinn ehf., með lögheimili að Flókagötu 21, 105 Reykjavík. Tilgangur félagsins hafi verið fjármálastarfsemi, lánastarfsemi, kaup og rekstur fasteigna og önnur skyld starfsemi. Gunnar Sturluson kt. 170767-4119, hafi verið stofnandi og skráður formaður stjórnar. Þá hafi hann verið skráður framkvæmdastjóri með prókúruumboð. Þann 11. september 2003 var tilkynnt um breytingu á nafni félagsins sem bar nú heitið Fjárfestingafélagið Primus ehf. Samkvæmt samþykktum félagsins mótteknum hjá fyrirtækjaskrá þann 11. september 2003, var heimilisfang félagsins að Efstaleiti 5, Reykjavík. Með tilkynningu dags. 21. september 2005 varð Hannes Þór Smárason varamaður í stjórn félagsins í stað Sigurðar Arnalds, kennitala. 120468-3169. Með tilkynningu dags. 23. júní 2008 var nafni félagsins breytt í FI fjárfestingar ehf. Með tilkynningu dags. 28. nóvember 2008, var heimilisfang félagsins flutt að Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík. Þá var einnig tilkynnt að Gunnar Sturluson hefði sagt sig úr stjórn félagsins frá og með þeim degi. Hann hefði einnig sagt af sér sem framkvæmdastjóri félagsins og afsalað sér prókúruumboði frá sama tíma. Samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2007 er hlutafé félagsins allt í eigu Hannesar Þórs.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á FL Group hf. vegna rekstrarársins 2006 hafi komið í ljós að færður hafi verið kostnaður á viðskiptamannareikning Hannesar Þórs hjá FL Group hf. sem virðist vera einkakostnaður hans. Samkvæmt bókhaldi félagsins séu færslurnar t.d. merktar sem ,,flug”, ,,privat vegna US”, en sambýliskona Hannesar heitir Unnur Sigurðardóttir, kt. 300166-3859, ,,úttektir”, ,,veiðileiðsögn”, ,,bíómiðar HS” og fleira. Þann 31. desember 2006 sé gerð bókun sem heitir ,,Endurrukkun HS” upp á samtals kr. 17.406.564, sem sé kreditfærð á viðskiptamannareikning Hannesar Þórs og debetfærð á viðskiptamannareikning FI fjárfestingar ehf., þ.e. sem skuld þess félags. Þá sé færsla í bókhaldi FL Group hf., dags. 1. febrúar 2007, þar sem framangreind fjárhæð er kreditfærð á viðskiptamannareikning FI fjárfestingar ehf., merkt ,,greiðsla frá Primus“. Grunur leiki á um að fyrrgreint fyrirtæki hafi greitt FL Group hf. persónulegan kostnað Hannesar Þórs upp á samtals kr. 17.406.564, 1. febrúar 2007. Samkvæmt skattframtali Hannesar Þórs vegna tekjuársins 2006, hafði Hannes Þór engar tekjur frá FI fjárfestingum ehf. og var því ekki launaður starfsmaður þess félags. Gunnar Sturluson var skráður framkvæmdastjóri félagsins, sbr. það sem áður hefur komið fram. Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að FI fjárfestingar ehf. greiddi kostnað sem færður er sem einkakostnaður á viðskiptamannareikning Hannesar Þórs í bókhaldi FL Group hf. Ljóst er að nauðsynlegt er að nálgast öll gögn, þ.m.t. tölvugögn, vegna reksturs FI fjárfestingar ehf.

Þá hafi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra undir höndum fylgiskjal úr bókhaldi FL Group hf. sem ber heitið ,,endurrukkun fargjalda NetJets 1/3-31/8”. Þar er Hannes Þór endurkrafinn um samtals 369.975,00 evrur, eða kr. 32.938.874,25, vegna afnota af einkaflugvél sem FL Group hf. leigði af NetJets. Þessi fjárhæð er bókuð þann 31. desember 2006 á viðskiptamannareikning FI fjárfestingar ehf., sem skuld. Þann 1. febrúar 2007 er fjárhæðin kreditfærð af viðskiptamannareikningi FI fjárfestingar ehf., merkt sem ,,Greiðsla frá Primus”. Samkvæmt framangreindu er rökstuddur grunur um að FI fjárfesting ehf. hafi verið að greiða einkakostnað Hannesar Þórs. Ljóst er að nauðsynlegt er að nálgast öll gögn vegna reksturs félagsins til að kanna nánar framangreindan grun um færslu einkanota Hannesar Þórs í bókhaldi félagsins.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á FL Group hf. hafi verið skoðaðir tölvupóstar. Samkvæmt tölvupósti dags. 19. mars 2008 frá Bernhard Bogasyni starfsmanni FL Group hf. til Hannesar Þórs og Gunnars Sturlusonar kemur fram að FI fjárfestingar ehf., sem sé í eigu Hannesar Þórs hefði fengið greiðslur frá FL Group hf. á árinu 2007 og eins og komið hefði fram í ársreikningi FL Group hf. hefði greiðslan numið 85 milljónum króna. Um væri að ræða greiðslur vegna afnota FL Group hf. af flugvél sem FI fjárfestingar ehf. hefði umráðarétt yfir. Samkvæmt rekstrarreikningi FI fjárfestingar ehf., voru engar leigutekjur hjá félaginu, árin 2006 og 2007. Eigandi flugvélarinnar sé Awair Ltd. en eigandi þess félags sé FI fjárfestingar ehf., samkvæmt sömu tölvupóstum. Þeirrar eignar sé þó ekki getið í ársreikningi FI fjárfestingar ehf. Þá telji efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að gögn á fyrrverandi starfsstöð FI fjárfestingar ehf. gætu sýnt hver raunverulegur eigandi Awair Ltd. er, en áðurnefndir tölvupóstar sýna að Gunnar Sturluson er sá aðili sem veitir FL Group hf. svör varðandi viðskipti sem snúa að Awair Ltd.

Þau ár sem til rannsóknar séu rekstrarárin 2006 og 2007. Þann tíma var félagið með skráð lögheimili að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, sem jafnframt er starfsstöð LOGOS lögmannsþjónustu slf., kt. 460100-2320. Gunnar Sturluson, hrl. sem er faglegur framkvæmdastjóri LOGOS var skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri með prókúru hjá FI fjárfestingum ehf. þau ár sem til rannsóknar eru. Þá er Vilborg Ásgeirsdóttir, kt. 270477-3219, forstöðumaður fjármálasviðs LOGOS, einnig starfsmaður FI fjárfestingar ehf. rannsóknarárin og má ætla að gögn vegna félagsins séu einnig í hennar vinnuaðstöðu. Vilborg er á launaskrá hjá FI fjárfestingum ehf. á árunum 2006 og 2007, með heildarlaun kr. 2.378.172 árið 2006 og kr. 7.200.000 árið 2007. Ekki er um aðra starfsstöð að ræða hjá FI fjárfestingum ehf. en skráð lögheimili svo vitað sé. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telur því nauðsynlegt svo unnt sé að rannsaka málið á fullnægjandi hátt verði að framkvæma húsleitir að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík til að leggja hald á öll gögn og muni, þ. á m. tölvugögn, er varða rekstur félagsins.

Fjölnisvegur 9 ehf., kt. 590504-2890

Þann 18. maí 2004 hafi verið móttekin tilkynning hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra um stofnun einkahlutafélagsins Fjölnisvegur 9 ehf., kt. 590504-2890, með lögheimili að Síðumúla 24, 108 Reykjavík. Skráður stofnandi og stjórnarmaður var Guðmundur Björn Steinþórsson, kt. 301064-3579 og varamaður í stjórn var Jón Guðmundsson, kt. 160955-5979. Samkvæmt stofnfundargerð hafi tilgangur félagsins verið að kaupa og selja fasteignir, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Tilkynntar hafi verið breytingar á samþykktum, stjórn og prókúruumboði með bréfi dags. 4. ágúst 2005, móttekin af fyrirtækjaskrá 16. ágúst 2005. Heimilisfang félagsins og varnarþing nú verið Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Gunnar Sturluson, hafi verið skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi og Hannes Þór Smárason varamaður í stjórn. Samkvæmt ársreikningum 2004, 2005 og 2006 átti FI fjárfestingar ehf. allt hlutafé í Fjölnisveg 9 ehf. Samkvæmt ársreikningi Fjölnisvegar 9 ehf. 2007 átti Hannes Þór allt hlutafé í félaginu. FI fjárfestingar ehf. selur Hannesi Þór hlutabréf í Fjölnisvegi 9 ehf. á nafnverðinu kr. 500.000. Eins og áður hefur komið fram var FI fjárfestingar ehf. alfarið í eigu Hannesar Þórs á árinu 2007.

Fjölnisvegur 9 ehf. sé stofnað í maí árið 2004. Samkvæmt skattframtali félagsins og ársreikningi rekstrarársins 2004 hafi félagið keypt fasteignir fyrir kr. 102.780.000. Eignir félagsins voru Fjölnisvegur 9, kaupverð kr. 70.000.000, Naustabryggja 18, kaupverð 15.780.000 og Naustabryggja 16, kaupverð kr. 17.000.000. Tekjur félagsins á rekstrarárinu 2004 hafi verið engar.

Samkvæmt skattframtali félagsins og ársreikningi vegna rekstrarársins 2005 hafði félagið leigutekjur samtals kr. 12.927.251. Rekstrarkostnaður hafi hinsvegar verið um kr. 1.100.000 (v. reksturs fasteignar kr. 1.056.221 og v. aðkeyptrar þjónustu kr. 61.752). Keyptar fasteignir og endurbætur á árinu hafi numið samtals kr. 202.241.848. Þær hafi verið Fjölnisvegur 9 – endurbætur, kr. 65.153.498, Naustabryggja 16 – endurbætur kr. 262.736, Fjölnisvegur 11, kaupverð 150.000.000 og Innbú – fjölnisvegur 11, kaupverð 15.000.000.

Samkvæmt skattframtali félagsins og ársreikningi vegna rekstrarársins 2006 hafði félagið leigutekjur samtals kr. 9.230.196 og söluhagnaður fasteigna nam samtals kr. 5.980.544. Rekstrarkostnaður var hinsvegar um kr. 8.000.000 (v. reksturs fasteignar kr. 5.055.781 og v. aðkeyptrar þjónustu kr. 2.953.003). Keyptar fasteignir og endurbætur á árinu námu samtals kr. 1.264.326.427. Þær voru Fjölnisvegur 9 – endurbætur 2006, kr. 176.350.543, Fjölnisvegur 9 – tölvubúnaður 2006, kr. 6.885.305 og 59 Pont Street, kr. 1.087.975.884. Þá var eignin Naustabryggja 16 seld á kr. 22.207.654 og endurbætur á eigninni fyrir kr. 350.371.

Samkvæmt skattframtali félagsins og ársreikningi vegna rekstrarársins 2007 hafði félagið leigutekjur samtals kr. 6.153.467, söluhagnaður fasteigna nam kr. 10.166.800 og aðrar tekjur námu kr. 6.685.774, samtals alls kr. 23.006.041. Rekstrarkostnaður var hinsvegar um kr. 12.600.000 (v. reksturs fasteignar 2.843.279 og v. aðkeyptrar þjónustu 9.664.221). Keyptar fasteignir og endurbætur á árinu námu samtals kr. 106.488.886. Á þessu ári eru eignir seldar, sbr. eftirfarandi töflu.

Tekjuár 2007:

 

 

 

 

 

 

Kaupár

Stofnverð

Bókf. verð

Söluverð

hagn/tap

 

 

 

 

 

 

Fjölnisvegur 9

2004

70.000.000

65.800.000

64.866.667

-933.333

Fjölnisvegur 9 - endurbætur

2005

65.153.498

62.547.358

61.678.645

-868.713

Fjölnisvegur 9 - endurbætur

2006

176.350.543

172.823.532

172.235.697

-587.835

Fjölnisvegur 9 - endurbætur

2007

106.488.886

0

105.069.034

-1.419.852

Fjölnisvegur 9 - tölvubúnaður

2006

6.885.305

5.508.244

6.082.019

573.775

 

 

424.878.232

306.679.134

409.932.062

-3.235.958

 

 

 

 

 

 

Fjölnisvegur 11

2005

150.000.000

144.000.000

142.000.000

-2.000.000

Fjölnisvegur 11 - innbú

2005

15.000.000

9.600.000

11.000.000

1.400.000

 

 

165.000.000

153.600.000

153.000.000

-600.000

 

 

 

 

 

 

Naustabryggja 18

2004

15.780.000

14.833.200

25.000.000

10.166.800

 

Eignir félagsins hafi verið meðal annars Fjölnisvegur 9 og 11 og 59 Pont Street. Svo virðist sem eignirnar hafi verið notaðar í þágu Hannesar Þórs og sambýliskonu hans. Fjölnisvegur 9 og 11 eru síðan seldar Hannesi Þór og sambýliskonu hans með tapi, þ.e. undir kostnaðarverði á árinu 2007. Samkvæmt þjóðskrá var Hannes Þór skráður til heimilis að Fjölnisvegi 11 þann 23. júní 2005. Þann 2. apríl 2007 tilkynnir Hannes Þór um flutning innanlands að Fjölnisvegi 9, en þann 1. september 2008 er tilkynntur flutningur úr landi til Bretlands. Þá er Hannes Þór búsettur að 59 Pont Street í dag.

Framangreind tafla sýni viðskipti félagsins með þrjár eignir félagsins, Fjölnisveg 9 og 11 og Naustabryggju 18. Þá sýni taflan jafnframt hvernig þær endurbætur sem félagið fór í á eignunum hafi verið metnar.

Hannes Þór sé kaupandi Fjölnisvegar 11 og sé söluverð eignarinnar kr. 142.000.000. Þá kaupi hann einnig innbú af félaginu. Íbúðarhúsnæðið sé keypt til eigin nota og sé kaupverðið í heild kr. 153.000.000. Dagsetning kaupsamnings sé 1. september 2007. Eignin sé seld Hannesi Þór með kr. 2.000.000 tapi. Unnur Sigurðardóttir, sambýliskona Hannesar Þórs er kaupandi Fjölnisvegar 9 og er söluverð eignarinnar kr. 64.866.667. Þá kaupi hún einnig þær endurbætur sem gerðar hafa verið á eigninni og tölvubúnað. Íbúðarhúsnæðið er keypt til eigin nota og er kaupverðið í heild kr. 409.932.062. Dagsetning kaupsamningsins er 1. september 2007. Eignin er seld Unni með tapi upp á kr. 933.333. Kaupandi Naustabryggju 18 er Óskar Einarsson, kt. 030964-5949.

Eins og sjá megi á framangreindri samantekt um rekstur félagsins sé félagið að fá leigutekjur upp á kr. 9.230.196 árið 2006 og kr. 6.153.467 árið 2007. Ekki liggur fyrir hver greiðir framangreindar leigutekjur, né hvaða eign þær tilheyra. Ljóst er að leigutekjur félagsins eru lágar og má því ætla að kaup félagsins á fasteignum þess hafi ekki verið gerð í ábataskyni heldur sé hugsanlega um málamyndagerning að ræða. Þá má taka fram að ekki hafa verið greidd húsnæðishlunnindi af hálfu Hannesar Þórs og Unnar vegna búsetu í fasteignum félagsins umrædd ár. Þá hefur félagið selt eiganda sínum og sambýliskonu hans Fjölnisveg 9 og 11 á árinu 2007 með tapi, kr. 2.000.000 vegna Fjölnisvegar 11 og kr. 933.333 vegna Fjölnisvegar 9. Grunur leikur á um að söluverð sé óvenjulágt miðað við stofnverð eignanna. Ljóst sé að sala félagsins á Fjölnisvegi 9 og 11 sé til tengdra aðila og eru eignirnar seldar með tapi. Þá mei sjá í framangreindri töflu að Naustabryggja sem einnig var seld á árinu 2007 er seld með 63% hagnaði. Umtalsverð hækkun hafi verið á fasteignaverði í Reykjavík á þessum árum. Ljóst er að viðskipti félagsins við eiganda þess þarfnast frekari rannsóknar.

Þau ár sem rannsóknar séu rekstrarárin 2006 og 2007. Frá 4. ágúst 2005 hafi félagið verið með heimilisfang að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík. Þá sé Gunnar Sturluson skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Fjölnisvegar 9 ehf. Ljóst sé samkvæmt framangreindu að rökstuddur grunur sé um skattsvik og telur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra því nauðsynlegt að framkvæma húsleitir að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík til að leggja hald á öll gögn og muni, þ. á m. tölvugögn, er varði rekstur félagsins.

Hlíðasmári 6 ehf. kt. 640300-2210

Þann 24. mars 2000 hafi verið móttekin tilkynning hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra um stofnun einkahlutafélagsins Hlíðasmára 6 ehf., kt. 640300-2210, lögheimili að Birkihlíð 48, 105 Reykjavík. Tilgangur félagsins var bygging fasteigna, kaup og sala eigna ásamt lánastarfsemi. Stofnandi félagsins og stjórnarformaður með prókúru var Arnar Hannes Gestsson, kt. 070154-3829. Þá var Arnar Arnarsson, kt. 100979-4549 skráður varamaður í stjórn. Hlutafé í félaginu var kr. 500.000, hver hlutur var að fjárhæð kr. 10.000, að nafnverði. Á hluthafafundi þann 29. mars 2000 voru seldir allir hlutir félagsins til annars vegar Arnars Jóhannssonar, kt. 050165-4509 og hins vegar Hannesar Þórs Smárasonar, kt. 251167-3389. Eignarhlutfall var 50% á hvorn. Hannes Þór var formaður stjórnar með prókúru og Arnar framkvæmdastjóri með prókúru. Varamaður í stjórn var Gunnar Sturluson, kt. 170767-4119. Heimilisfangi félagsins var breytt með tilkynningu dags. 10. janúar 2001, nú að Flókagötu 21, Reykjavík. Samkvæmt tilkynningu dags. 17. september 2001 tók Gunnar Sturluson við af Arnari sem framkvæmdastjóri frá og með 9. janúar 2000. Þá varð lögheimili félagsins að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík. Með tilkynningu dags. 28. nóvember 2008 var heimilisfang félagsins flutt að Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík. Þá sagði Gunnar Sturluson sig úr varastjórn félagsins og sagði af sér sem framkvæmdastjóri.

Hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra liggi fyrir sölureikningur, dags. 31. desember 2006, gefinn út af Hlíðasmára ehf. á hendur J-EINNÁTTA ehf., kt. 651105-1450, upp á kr. 5.000.000. Samkvæmt sölureikningnum er um að ræða leigu á Faxafeni 12 – árið 2006. Samkvæmt rekstrarreikningi félagsins árið 2006 voru leigutekjur þess samtals kr. 1.593.955, eða kr. 3.406.045 lægri en framangreindur sölureikningur. Félagið á fasteignir upp á samtals kr. 259.513.799 í árslok 2006. Ekki kemur fram sundurliðun á leigutekjum í ársreikningi félagsins, en félagið á fleiri eignir en Faxafen 12. Félagið var stofnað á árinu 2000 en frá stofnun þess hefur verið um tap að ræða á rekstri félagsins.

Rökstuddur grunur leikur á um að félagið hafi vanframtalið tekjur vegna rekstrarársins 2006. Þá eru leigutekjur mjög lágar. Nauðsynlegt er að afla allra gagna, þ. á m. tölvugagna, um rekstur félagsins til að kanna hvort að um frekari tekjuundandrátt hafi verið að ræða en meðfylgjandi gögn benda til.

Þau ár sem til rannsóknar séu rekstrarárin 2006 og 2007. Þann tíma hafi félagið verið með skráð lögheimili að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, sem jafnframt sé starfsstöð LOGOS lögmannsþjónustu. Gunnar Sturluson, hrl. sem sé faglegur framkvæmdastjóri LOGOS hafi verið skráður framkvæmdastjóri félagsins ásamt því að vera varamaður í stjórn þess þau ár sem til rannsóknar eru. Ljóst er samkvæmt framangreindu að rökstuddur grunur er um skattsvik og telur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra því nauðsynlegt að framkvæma húsleitir að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík til að leggja hald á öll gögn og muni, þ. á m. tölvugögn, er varða rekstur félagsins.

Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf., kt. 700902-2930 og EO eignarhaldsfélagið ehf., kt. 660104-3130, áður Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf.

Tilkynnt hafi verið um stofnun Eignarhaldsfélagsins Sveips ehf. með tilkynningu til fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra móttekin 30 september 2002. Stofnandi sé Hannes Þór Smárason og sé hann jafnframt stjórnarformaður. Lögheimili félagsins hafi verið Blikanes 9, 210 Garðabær. Tilgangur félagsins sé eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti. Með tilkynningu dags. 4. júlí 2003, móttekin 18. ágúst 2003, var tilkynnt um breytingu á stjórn félagsins, en Hannes Þór var áfram stjórnarformaður félagsins. Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf. og Fjárfestingafélagið Freyr ehf. sameinuðust undir nafni Eignarhaldsfélagsins Sveips ehf. Með tilkynningu dags. 20. október 2004, móttekin sama dag, voru kosnir í stjórn félagins, Jón Helgi Guðmundsson, Hannes Þór Smárason og Gunnar Sturluson. Þá var Brynja Halldórsdóttir ráðin framkvæmdastjóri félagsins. Á hluthafafundi þann 4. febrúar 2005 var Hannes Þór í stjórn félagsins, Gunnar Sturluson varamaður í stjórn og framkvæmdastjóri með prókúru. Samkvæmt samþykktum félagsins mótteknar 8. febrúar 2005 er lögheimili þess Efstaleiti 5, 103 Reykjavík. Með tilkynningu dags. 28. nóvember 2008, móttekin 28. nóvember 2008, var lögheimili félagsins fært að Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík og Gunnar Sturluson sagði sig úr varastjórn félagsins, einnig sagði hann af sér sem framkvæmdastjóri og afsalaði sér jafnframt prókúruumboði.

Tilkynnt hafi verið um stofnun Eignarhaldsfélagsins Oddaflug ehf. með tilkynningu til fyrirtækjaskrár móttekin þann 21. janúar 2004, lögheimili félagsins var Efstaleiti 5, 103 Reykjavík. Tilgangur félagsins var kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti og skyldur rekstur. Stofnandi var Fjárfestingarfélagið Primus ehf. Gunnar Sturluson var formaður stjórnar og Óttar Pálsson, kt. 100672-3169 varamaður í stjórn. Með tilkynningu dags. 28. janúar 2004, móttekin 2. febrúar 2004 var m.a. stjórnarmönnum fjölgað og var Jón Helgi Guðmundsson, kt. 200547-3149 kjörinn í stjórn. Á hluthafafundi þann 10. október 2004 sagði Jón Helgi Guðmundsson sig úr stjórn og var Gunnar Sturluson kosinn aðalmaður í hans stað. Með tilkynningu dags. 23. júní 2008, móttekin 24. júní 2008 var nafni félagsins breytt í EO eignarhaldsfélag ehf. Með tilkynningu dags. 28. nóvember 2008, móttekin 28. nóvember 2008 var heimilisfang félagsins flutt að Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík og Gunnar Sturluson sagði sig úr stjórn félagsins. Jafnframt sagði hann af sér sem framkvæmdastjóri félagsins og afsalaði sér prókúruumboði.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telji nauðsynlegt að afla allra gagna um viðskipti Eignarhaldsfélagsins Sveips ehf. og EO eignarhaldsfélagsins ehf. til að ná heildarmynd af starfsemi framangreindra félaga sem tengjast öll Hannesi Þór Smárasyni og Gunnari Sturlusyni og eru dótturfélög FI fjárfestingar ehf., áður Fjárfestingarfélagið Primus ehf.

Þau ár sem til rannsóknar séu rekstrarárin 2006 og 2007. Þann tíma hafi Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf. verið með skráð lögheimili að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, sem jafnframt sé starfsstöð LOGOS lögmannsþjónustu. Gunnar Sturluson, hrl. sem sé faglegur framkvæmdastjóri LOGOS hafi verið skráður framkvæmdastjóri með prókúru, ásamt því að vera varamaður í stjórn þess, þau ár sem til rannsóknar eru. Þá var Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. einnig með skráð lögheimili að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, umrædd ár, sem jafnframt er starfsstöð LOGOS lögmannsþjónustu. Gunnar Sturluson, hrl. sem er faglegur framkvæmdastjóri LOGOS var skráður formaður stjórnar og framkvæmdastjóri með prókúru, tilgreind ár. Ljóst er samkvæmt framangreindu að rökstuddur grunur er um skattsvik og telur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra því nauðsynlegt að framkvæma húsleitir að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík til að leggja hald á öll gögn og muni, þ. á m. tölvugögn, er varða rekstur félaganna.

Samkvæmt framangreindu sé starfsemi Hannesar Þórs Smárasonar og félaganna nátengd, um er að ræða margvísleg viðskipti sem kunna að vera refsiverð, og kallar það á frekari gagnaöflun og áframhaldandi rannsókn. Það liggur fyrir að flest félögin voru skráð til heimilis að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík þann tíma sem um ræðir og Gunnar Sturluson hrl. stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi flestra þeirra. Eins og að framan greinir liggur það fyrir að þann 28. nóvember 2008 voru heimilisföng nokkurra félaganna flutt að Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík. Það og að Hannes Þór var áður skráður til heimils að Fjölnisvegi 9, 101 Reykjavík sem og að Unnur Sigurðardóttir sambýliskona Hannesar Þórs er skráður eigandi að Fjölnisvegi 9, 101 Reykjavík rennir stoðum undir það að þar kunni einnig að vera að finna gögn er varða starfsemi Hannesar Þórs og framangreind félög og viðskipti tengd þeim.

Samkvæmt framansögðu taldi ríkislögreglustjóri nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins að framkvæma húsleitir að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Fjölnisvegi 9, 101 Reykjavík og Fjölnisvegi 11, 101 Reykjavík til að leita og leggja hald á gögn, þ. á m. rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstað hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og muni sem þar kann að finnast og tengjast ætluðum sakarefnum. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og gagna sem lögð voru fyrir dóminn.  Héraðsdómur féllst á kröfuna sama dag og segir í niðurstöðu hans að með vísan til ofanritaðs og framlagðra gagna verði að telja að skilyrði framangreindra lagagreina séu uppfyllt til að umbeðin húsleit nái fram að ganga. 

II

Húsleitir voru gerðar 3. júní og var lagt hald á gögn.  Sóknaraðili lagði framangreindar kröfur fyrir Héraðsdóm 5. sama mánaðar.  Í kröfugerðinni er farið allrækilega yfir málatilbúnað varnaraðila þá er hann lagði húsleitarkröfuna fyrir dóminn og koma þar fram jafnóðum athugasemdir sóknaraðila við málatilbúnað varnaraðila.  Meginefni kröfunnar verður því tekið upp hér:  „Í úrskurðinum er gerð grein fyrir kröfu, sem Einar Tryggvason saksóknarfulltrúi hafi lagt fram, um umrædda húsleit.  Þar segir að leit sé „gerð í því skyni að finna og haldleggja skjalleg sönnunargögn sem og rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstöðum hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og haldleggja muni sem þar kunna að finnast og tengjast ætluðum sakarefnum.“   Þá segir að í „ljósi þess að rannsókn málsins er á afar viðkvæmu stigi er þess krafist að hvorki hinir grunuðu né aðrir er krafan beinist að verði ekki (svo.) kvaddir á dómþing, með vísan til 1. mgr. 103. gr. i.f., sbr. 104. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.“

Í úrskurðinum segir að í greinargerð varnaraðila komi fram að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi til rannsóknar meint auðgunarbrot vegna viðskipta FL Group hf. (nú Stoða hf.) tengdum flugfélaginu Sterling Airlines A/S og meint brot gegn hlutafélagalagalögum nr. 2/1995.  Umrædd brot séu talin hafa átt sér stað á árinu 2005.  Auk þess hafi varnaraðili til frekari rannsóknar meint skattalagabrot sem lýst er svo:

„Auk þess hafi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til frekari rannsóknar meint skattalagabrot, sem kærð hafi verið til embættisins þann 11. maí 2009 af skattrannsóknarstjóra ríkisins.  Kæruna megi rekja til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á félaginu FL Group hf., kennitala 601273-0129, en Hannes Þór Smárason hafi verið stjórnarmaður og forstjóri félagsins, þá hafi Hannes Þór verið einnig stærsti eigandi FL Group hf. í gegnum Oddaflug ehf., síðar EO eignarhaldsfélag ehf.  Við þá rannsókn hafi þótt ástæða til að skoða nokkur félög í eigu Hannesar Þórs og tengd honum, og lúti hin framangreinda kæra að meintum skattsvikum í rekstri félaga sem annars vegar séu í eigu Hannesar Þórs og hins vegar séu tengd honum.  Um sé að ræða eftirfarandi félög:  FI fjárfestingar ehf., kt. 650398-2489 áður Fjárfestingarfélagið Primus ehf., Fjölnisvegur 9 ehf. kt. 590504-2890, Hlíðasmári 6 ehf. kt. 640300-2210, Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf. kt. 700902-2930 og EO eignarhaldsfélagið ehf., kt. 660104-3130 áður Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf.  Umrædd brot séu talin hafa átt sér stað á árunum 2006-2007.“  

Brotum, „sem kunna að hafa verið framin“ í rekstri félaganna, er lýst á bls. 2-12 í úrskurðinum og verður hér aðeins gerð grein fyrir nokkrum helstu athugasemdum kæranda við brotalýsingarnar.

FL Group hf., nú Stoðir hf.

Eftir að hafa lýst kaupsamningi um flugfélagið Sterling Airlines A/S segir að varnaraðili „telji að kaup þessi hafi valdið FL Group verulegu fjárhagslegu tjóni, þar sem flugfélagið kunni að hafa verið keypt á yfirverði”.  Að þessu sögðu telji embættið að um rökstuddan grun sé að ræða að með nefndum viðskiptum kunni að hafa verið framið brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.    

Í kröfu varnaraðila er látið ósagt hvert hafi verið kaupverð í viðskiptunum, hvað hafi verið rétt verð fyrst greitt hafi verið „yfirverð”, hvert hafi verið meint fjártjón hluthafa, og á hverju rökstuddur grunur um brot byggist.  Sóknaraðili bendir á að það er ekki refsivert að greiða kaupverð, sem einhver telur vera hátt.  Af atvikalýsingunni að dæma er algerlega fráleitt að draga ályktun í þá veru að brot kunni að hafa verið framið í viðskiptunum.

Hitt atriðið, sem varðar FL Group, er rannsókn varnaraðila á „meintu broti Hannesar Þórs Smárasonar á 104. gr. sbr. 2. tl. 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, með lánveitingu hlutafélagsins FL Group til handa Hannesi Þór eða öðrum honum tengdum að fjárhæð USD 46.500.000.  Í þessu sambandi megi sjá tölvupósta frá 22. apríl 2005 og þá sérstaklega frá kl. 13:07 þar sem Hannes Þór óski eftir því sérstaklega að fá senda staðfestingu á því þegar millifærslan hafi verið framkvæmd.”

Í kröfu varnaraðila er ekki tilgreint hver hafi verið móttakandi millifærslunnar sem lýst er.  Það var ekki sóknaraðili eða neinn sem honum tengist.  Sóknaraðili gengur út frá að nefndur tölvupóstur sé ekki vísbending um neitt annað.  Í tengslum við rannsókn á bókhaldi FL Group afhenti endurskoðunarfyrirtækið KPMG endurskoðunargögn fyrir félagið.  Meðal þeirra voru minnisblað Jóns S. Helgasonar endurskoðanda félagsins til stjórnar, dags. 27. febrúar 2006, með fyrirsögninni “Endurskoðun ársreiknings 2005”.  Þar fjallar endurskoðandinn ýtarlega um færsluna sem er til rannsóknar og staðfestir að hún hafi ekki verið til kæranda, heldur á milli bankareikninga FL Group.  Afrit af minnisblaðinu er meðal fylgigagna með kæru þessari.

FI fjárfestingar ehf., áður Fjárfestingarfélagið Primus.

Í þessum kafla kröfu varnaraðila er því haldið fram að rökstuddur grunur sé um að ofangreint félag hafi séð um að greiða margvíslegan persónulegan kostnað fyrir kæranda.  Ljóst er að málið hefur ekki fengið neina skoðun.

Kærandi hélt persónulegum kostnaði skýrt aðgreindum frá reksturskostnaði félaga, sem hann kom að.  Í tilvikum þar sem FI fjárfestingar ehf. greiddu FL group vegna persónulegs kostnaðar kæranda var samsvarandi fjárhæð færð debit megin (á skuldahliðina) á viðskiptareikningi sóknaraðila, en hann átti á þessum tíma inni miklu hærri fjárhæðir hjá félaginu.  Sóknaraðili hefur aldrei skuldað FI Fjárfestingum fjármuni,  eins og t.d. má sjá af ársreikningum félagsins.

Hvað varðar Awair, sem vísað er til í kröfu sóknaraðila, þá var hann spurður um eignarhald á því í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra 13. maí, þannig að svar við því lá fyrir.

Fjölnisvegur 9 ehf.

Sóknaraðili skilur lítið í umfjöllun varnaraðila um þetta félag.  Sóknaraðili fær ekki betur séð en að bókhalds- og skattaleg málefni þessa félags hafi verið í mjög góðu lagi.  Svo virðist einnig sem varnaraðili hafi haft aðgang að upplýsingum, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir fjárhæðum.  Ekki verður séð þörf fyrir húsleita vegna þessa.

Hlíðasmári 6 ehf.

Í kröfu sóknaraðila segir að hjá honum liggi fyrir sölureikningur, dags. 31. desember 2006, gefinn út af Hlíðasmára ehf. á hendur J-EINNÁTTA ehf., upp á 5.000.000, en að samkvæmt rekstrarreikningi félagsins árið 2006 hafi leigutekjur verið samtals kr. 1.593.955.  Sóknaraðili ályktar að þetta sýni tekjuundandrátt og því þurfi kanna hvort um frekari undandrátt hafi verið að ræða en þessi gögn benda til.

Fyrirtækið J-EINNÁTTA ehf. hefur verið til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins um lengri tíma og er bókhald félagsins hjá embættinu.  Það hefur greinilega verið grandskoðað, því samkvæmt upplýsingum sóknaraðila hefur fyrirsvarsmaður félagsins verið boðaður fimm sinnum til yfirheyrslu, þar sem hann hefur verið þráspurður, oftar en ekki um sömu atriðin.  Skattrannsóknarstjóri veit að leigureikningurinn að fjárhæð kr. 5.000.000, sem lýst er, var bakfærður og aldrei greiddur til Hlíðasmára 6 ehf.  Það væri því skrítið ef reikningsfjárhæð væri meðal leigutekna á því ári.  Umfjöllun um Hlíðasmára 6 ehf. er því á óþarfa misskilningi byggð og sama marki brennd og umfjöllunin um Fjölnisveg 9 ehf.

Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf., EO eignarhaldsfélagið ehf., áður Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf.

Í kröfu sóknaraðila er engum rannsóknarefnum lýst, sem varða þessi félög.  Fyrir utan almenna tilgreiningu á þeim lætur varnaraðili nægja að vísa til þess að hann „telji nauðsynlegt að afla allra gagna um viðskipti [þeirra] til að ná heildarmynd af starfsemi framangreindra félaga sem tengjast öll Hannesi Þór Smárasyni og Gunnari Sturlusyni og eru dótturfélög FI fjárfestingar ehf., áður Fjárfestingarfélagið Primus ehf.“

Um LOGOS lögmannsþjónustu slf. og Gunnar Sturluson, hrl.

LOGOS lögmannsþjónusta slf. hefur veitt fyrirtækjum, sem hér að framan hefur verið getið um, lögmannsþjónustu af margvíslegu tagi á undanförnum árum.  Um samskipti lögmannsstofunnar, fyrirtækjanna og einstakra starfsmanna og fyrirsvarsmanna, er lögmannsstofan og einstakir lögmenn, sem þar starfa, bundnir trúnaði og þagnar­skyldu, sbr. 22. gr. laga nr. 77/1998.  Trúnaðar- og þagnarskyldur lögmanna eru grund­vallarreglur sem gilda í öllum réttarríkjum.  Þær eru forsenda fyrir störfum lögmanna yfirleitt.  Er því haldið fram hér að þessar skyldur séu varðar af ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs og um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.   

Eins og áður segir var gerð húsleit hjá lögmannsstofunni, á þeim grundvelli að Gunnar Sturluson, hrl., tengdist rekstri félaganna með mismunandi hætti., auk þess sem nafn Vilborgar Ásgeirsdóttur var nefnt.

Um aðkomu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Hér að framan hefur verið vikið að því að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi sent varnaraðila kæru 9. maí 2009.  Í bréfi til skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem er dagsett í dag og er fylgiskjal nr. 2 með beiðni þessari, er gerð grein fyrir samskiptum mínum og sóknaraðila við það embætti og athugasemdir við málsmeðferðina þar.  Bréfið skoðast sem hluti þessarar greinargerðar.  Furðu vekur að rannsóknartilvikin séu ekki tilgreind betur en gert er í húsleitarkröfu varnaraðila, fyrst skattrannsóknarstjóri ríkisins hafði rannsakað málin og kært.  Mesta athygli vekur að í kröfu varnaraðila er ekki getið um þau tilvik, sem kærandi var spurður út í er hann gaf skýrslu hjá embættinu.  Sóknaraðili hefur ekki enn fengið afrit af skýrslunni sem hann gaf.  Óskað hefur verið eftir afritinu og verður það lagt fram við fyrirtöku máls þessa.   

Framkvæmd húsleitar að Fjölnisvegi.

Húsleitin að Fjölnisvegi gekk í sem stystu máli þannig fyrir sig að flokkur manna frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra mætti og bankaði upp á.  Til dyra kom Erla Halldórsdóttir, starfsmaður FI Fjárfestinga ehf. og var henni kynntur húsleitarúrskurðurinn.  Eftir stuttar umræður hringdi hún í undirritaðan sem mætti á vettvang og hófst þá húsleitin. 

Mennirnir, sem þarna voru mættir, voru ekki kynntir.  Meðal þeirra var Ómar I. Bragason, starfsmaður skattrannsóknarstjóra ríkisins sem hafði sem slíkur tekið skýrslu af sóknaraðila 13. maí sl.  Undirritaður spurði hvernig stæði á hans viðveru.  Tjáði hann mér að hann hafi verið fenginn sem aukamaður þar sem starfsmenn varnaraðila væru ekki nógu margir.  Það var þannig hrein tilviljun hvernig á veru hans stóð.  Er húsleitin var afstaðan gafst ráðrúm til að lesa húsleitarúrskurðinn, sem lá til grundvallar húsleitinni.  Þar kemur m.a. fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafði sent sitt mál til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra áður en skýrslan var tekin af sóknaraðila!  Tilviljunin var því ekki eins einskær og eins og gefið var í skyn.  Nánar um þetta vísast til bréfs sem ritað er skattrannsóknarstjóra ríkisins í dag og er fylgiskjal með kæru þessari.

Að vonum var ekki mikið um gögn á Fjölnisveginum, sem tengjast lýstum rannsóknarefnum. Þrátt fyrir það var lagt hald á ýmis gögn.  Það var ekki gerð haldlagningarskrá á vettvangi en undirritaður fékk að hripa niður á blað það helsta sem var eftirfarandi, gerur er almennur fyrirvari og áskilnaður um nánari tilgreiningu á síðari stigum:

Tölva geymd í kjallara.

Tölva Erlu Halldórsdóttur.

Mappa merkt Education-Questionaire

Mappa með heimilisbókhaldi – kredikortayfirlit, reikningar frá Securitas og slíkt.

Mappa með persónulegum gögnum – kreditkortayfirlit, símreikningar og bankareikningsyfirlit. 

Gul minnisblokk með handskrifuðum minnispunktum.

Plastmappa með ráðningarsamningum stjórnenda FL Group hf., gögn um Refresco og pappírsdrasl.

Greiningarskýrsla frá Kaupthing um Project Midnight.

Skýrsla PriceWaterHouse Coopers um Thorshammer.

Gögn um FL Group – ráðningarsamningur Þorsteinn Guðmundsson og Jón Sigurðsson.

Fiduciary agreement FL Group og Kaupthing Luxembourg.

Skýrsla Bech Bruun um Sterling.

Prospecturs f. FL Group í september 2005.

Áreiðanleikakönnun fyrir FL Group.

Gögn fyrir stjórnarfund í FL Group í nóvember 2006.

Gögn fyrir stjórnarfund í Sterling 07.09.06.

Agreement milli Primusar og Landsbanks í Luxembourg varðandi Crowded Sky.

Persónuleg bankareikningsyfirlit.

Handkrotaðir minnispunktar.

Gögn um Furniture Package v. Pont Street.

Fréttatilkynning frá FL Group.

Drög að kaupsamningi um Sterling.

Minnisblokk

Skýrsla Merrill Lynch um Project Ecko.

Minnisblokk merkt Rhodia.

Drög að skýrslu um Thorshammar

Árshlutareikningur FL Group 31. mars 2005. 

Fæst ef nokkur þessara gagna hafa með rannsóknartilvikin að gera, eins og þeim er lýst í húsleitarkröfunni.  Sem dæmi hóf Erla Halldórsdóttir störf hjá FI Fjárfestingum á árinu 2008, en rannsóknin tekur til áranna 2006 og 2007!

Húsleit fór fyrst fram í húsinu nr. 11 en síðan í húsi nr. 9.  Eftir að leit í húsi 11 var lokið og undirritaður farinn yfir í hús 9 mætti ungur dökkhærður maður.  Kvaðst hann vera lögfræðingur hjá varnaraðila, án þess að kynna sig nánar en kynnti sig ekki nánar.  Hann spígsporaði um allt húsið og hafði uppi stór orð um íburð og bruðl skjólstæðings míns.  Sigurður Smárason, bróðir sóknaraðila, var vitni að þessu.

Framkvæmd húsleitar á starfsstöð LOGOS lögmannsþjónustu slf.

Undirritaður var ekki viðstaddur þá leit en hefur fregnað af henni.  Varnaraðili mun hafa tekið tölvur lögmanna og lagt hald á mikið magn rafrænna gagna, a.m.k. öll tölvupóstsamskipti Gunnars Sturlusonar, hrl.  Af því að dæma lagði varnaraðili hald á miklu meira af gögnum heldur en nauðsynlegt var.  Fæst þeirra varða rannsóknar­tilvikin eins og þeim er lýst.

Málsástæður og lagarök.

Kröfur sóknaraðila tengjast með þeim hætti að unnt er að rökstyðja þær í einu lagi.  Verði ekki fallist á kröfurnar í heild sinni felast í þeim varakröfur sem taki til hluta gagna, sem hald var lagt á.

Skilyrði húsleitar samkvæmt 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 eru að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt geti ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verk, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.  Skilyrði um augljósa rannsóknarhagsmuni er meðalhófsregla.  Túlka ber ákvæðið þannig að ekki skuli framkvæma húsleit ef sýnt er að afla megi gagna með öðrum hætti, án þess að rannsóknarhagsmunir fari forgörðum.  Með því að dómsúrskurð þarf til húsleitar er tryggt að hlutlaus og óháður dómstóll meti hvort rannsóknaraðili hafi sýnt fram á að grunur hans sé á rökum reistur.  Hlutverk dómstólsins er að meta á gagnrýninn hátt hvort skilyrði séu uppfyllt.

Húsleitin sem er tilefni þessarar kröfu var algerlega að ófyrirsynju.  Rannsóknar­tilvikin eru skilgreind á afar ófullkominn hátt og í flestum ef ekki öllum tilvikum vissi varnaraðili eða mátti vita betur.  Vísast m.a. til þess að varnaraðili hafði aðgang að bókhaldsgögnum sem báru með sér að grunur um refsiverð brot, sem lýst er, var án tilefnis.

Í þessu sambandi er áréttað að sóknaraðili hafði gert sér sérstaka ferð til landsins til að gefa skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.  Hann vissi ekki betur en að rannsóknin þar væri í farvegi, þó ljóst hafi verið að afla þyrfti nánari upplýsinga frá félaginu sjálfu þ.e. FL Group. Núna kemur í ljós að skattrannsóknarstjóri var þá búinn að vísa málinu til varnaraðila. Hafi einhverju verið ósvarað hefði skattrannsóknarstjóra verið í lófa lagið að spyrja nánar.  Ítrekast að sóknaraðili var ekki spurður um rannsóknar­tilvikin sem getið er um í húsleitarkröfunni.  Af því má álykta að nægilegt hafi verið að spyrja sóknaraðila um rannsóknartilvikin og engin ástæða til húsleitar.  Í því sambandi skiptir einnig máli að um er að ræða rannsókn á einhverju sem átti að hafa átt sér stað fyrir mörgum árum síðan.  Hvers vegna húsleit á árinu 2009 er ekki útskýrt og virðist um hreina sýndarmennsku og veiðiferð að ræða.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið hefur sóknaraðili rökstutt að engin ástæða var til að framkvæma umrædda húsleit og að markmiðum rannsóknar hafi mátt ná með vægari úrræðum, sem ekki voru reynd.  Lagaskilyrði til húsleitar voru ekki fyrir hendi.   

Þá byggir sóknaraðili á því að lagaskilyrði til haldlagningar hafi ekki verið fyrir hendi og að farið hafi verið út fyrir heimildina í húsleitarúrskurði héraðsdóms.

Samkvæmt 68. gr. laga nr. 88/2008 skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir.  Óheimilt er að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til.  Síðarnefnda ákvæðið tekur m.a. til upplýsinga um einkahagi manns, sem m.a. lögmanni hefur verið trúað fyrir og trúnaðarskylda fylgir.  Lögmenn bera ríka trúnaðar- og þagnarskyldu, sbr. ákvæði 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  Vísast til framansagðs um lögmannsþjónustu LOGOS lögmannsþjónustu slf. fyrir fyrirtækin, sem eru til rannsóknar.

Samkvæmt húsleitarúrskurðinum, úrskurðarorði, náði húsleitarheimildin til þess að “finna og haldleggja skjalleg sönnunargögn sem og rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstöðum hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og haldleggja muni sem þar kunna að finnast og tengjast ætluðum sakarefnum”

Haldlagningin hjá lögmannsstofunni fór úr böndunum og áðurnefnd lagaákvæði voru virt að vettugi með grófum hætti.  Svona aðferðir tíðkast ekki í ríkjum sem vilja láta kenna sig við réttarríki.  Vegna samskipta sóknaraðila við lögmannsstofuna hefur hann einstaklega hagsmuni af kröfum sínum að því leyti sem þær varða húsleit og haldlagningu gagna hjá lögmannsstofunni.

Einnig er lögð áhersla á að varnaraðili fór offari í öllum sínum aðgerðum.  Fyrst um haldlagningu hjá virtri lögmannsstofu var að ræða hefði varnaraðila verið í lófa lagið að beita vægari úrræðum, t.d. að óska eftir að fá afrit af gögnum eins og bókhaldsgögnum og ígrunda vandlega hvort sérstök ástæða væri til haldlagningar hvers og eins gagns.  Ekkert lá á og engin hætta var á að gögn eins og tölvugögn gætu farið forgörðum.  Jafn víðtæk haldlagning og raun bar vitni sýnir að húsleitin var veiðiferð, tilgangurinn var ekki að afla gagna um tiltekin atvik.  Brotið var gegn meðal­hófsreglu 2. mgr. 68. gr. laganna nr. 88/2008.

Hvað haldlagningu að Fjölnisvegi varðar athugast að lagt var hald mestmegnis á persónuleg gögn og gögn sem liggja fyrir annars staðar opinberlega.  Engin ástæða var til haldlagningarinnar og heldur sóknaraðili því fram að það eigi við um öll gögnin, sýni varnaraðili ekki sérstaklega fram á annað í hverju tilviki.           

Haldlagning á tölvu Erlu Halldórsdóttur er sérstakur kapítuli, þar sem hún tengdist félögunum, sem koma við sögu í húsleitarúrskurðinum, ekki á þeim tíma sem rannsóknin tekur til. 

Til viðbótar framangreindu vísar kærandi til 104. gr. laganna nr. 88/2008.  Samkvæmt henni skal að meginreglu, þegar krafa um rannsóknaraðgerð er sett fram á grundvelli 1. mgr. 102. gr. laganna, taka beiðnina fyrir á dómþingi að viðstöddum þeim sem rannsóknaraðgerðin beinist gegn.  Frá þeirri reglu skal einungis vikið í undan­tekningar­tilvikum að uppfylltum ströngum skilyrðum.  Sóknaraðili telur að ekki hafi verið skilyrði til að beita undantekningarreglunni eins og hér stóð á.  Gögnin, sem markmið var að komast yfir, eru þess eðlis að þau hefðu ekki farið forgörðum þótt fyrirsvarsmaður lögmannsstofunnar hefði fengið að tjá sig um kröfuna.     

Til viðbótar framangreindum lagaákvæðum vísar sóknaraðili til stuðnings kröfum sínum til ákvæða 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1994 með síðari breytingum, um réttláta málsmeðferð og friðhelgi einkalífs, og ákvæða Mannréttasáttmála Evrópu um sömu efni.“

 

III

Í 74. gr. laga nr. 88/2008  um meðferð sakamála segir í 1. mgr. að heimilt sé að leita í húsum sakbornings, geymslustöðum og svo framvegis í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á munum sem hald skal leggja á.  Í 2. mgr. sömu greinar er heimild til þess meðal annars að leita í húsum og hirslum annars manns eins og þar er nánar rakið.  Síðar segir:  Einnig ef rökstuddur grunur leikur á að sakborningur haldi sig þar eða þar sé að finna muni sem hald skal leggja á.  Í 3. mgr. greinarinnar eru tilgreind skilyrði húsleitar, en þau eru að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.  Það er enn fremur skilyrði fyrir húsleit samkvæmt 2. mgr. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.    

Úrskurður Héraðsdóms sem heimilaði húsleitirnar var byggður á gögnum, sem að framan var gerð grein fyrir.  Það var mat dómsins að uppfyllt væru skilyrði 3. mgr. framangreindra laga.  Á grundvelli úrskurðarins leitaði varnaraðili hjá sóknaraðila og annars staðar eins og lýst var.  Þar eð komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að úrskurðurinn hafi uppfyllt ákvæði laganna eru engin efni til að kveða á um að húsleitirnar, sem gerðar voru á grundvelli hans, hafi verið ólögmætar.

Eins og rakið var hér að framan úr efni 74. gr. laga nr. 88/2008 er tilgangur húsleitar meðal annars að leggja hald á gögn, er tengjast kunna ætluðum brotum.  Með vísun til þess sem sagði um lögmæti húsleitanna eru því ekki efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að skila þeim gögnum sem hann lagði hald á við húsleitirnar.  Varnaraðila ber hins vegar að aflétta haldi á gögnin þegar þess er ekki lengur þörf, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008.

Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að húsleitirnar hefðu verið lögmætar og varnaraðila hefði verið heimilt að leggja hald á gögn í þeim.  Af þessu leiðir að honum er heimilt að kynna sér haldlögð gögn, þar með talið að opna skjöl á rafrænu formi.  Á sama hátt er því hafnað að varnaraðila verði gert að skylt að eyða afritum af haldlögðum gögnum, þar með töldum rafrænum, sem hann kann að hafa vistað í tölvum sínum, enda varði þau rannsókn málsins

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum sóknaraðila er hafnað.