Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Vitni
  • Dómkvaðning matsmanns


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. janúar 2002.

Nr. 31/2002.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

 

Kærumál. Gagnaöflun. Vitni. Dómkvaðning matsmanns.

X var ákærður fyrir að hafa sem flugstjóri flugvélar flutt tólf farþega í tiltekinni ferð en vélin var aðeins búin sætum og öryggisbeltum fyrir tíu farþega. X krafðist þess aðallega að sér yrði heimilað að leggja fram álitsgerð kunnáttumanns, þar sem svarað yrði fjórum nánar tilgreindum spurningum um atriði, sem varðað gátu mat á trúverðugleika frásagnar vitna í skýrslum þeirra fyrir lögreglu, að undangengnu því að hann ætti viðtöl við einhver þessara vitna eða þau öll, svo og að honum yrði leyft að leiða þennan kunnáttumann fyrir dóm til skýrslugjafar. Til vara krafðist X þess að dómkvaddur yrði maður til að svara þeim spurningum, sem áður er getið. Í dómi Hæstaréttar segir að í báðum tilvikum sé X í reynd að leitast við að fá lagt fram fyrir dómi sérfræðiálit um trúverðugleika vitnisburðar, sem hafi ekki enn verið gefinn fyrir dómi og sé því alls óséð hvers efnis verði, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með vísan til þessa og forsendna úrskurðar héraðsdóms að öðru leyti var kröfum X hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2002, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að leggja fram sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar og leiða hann fyrir dóm sem vitni. Jafnframt var hafnað kröfu varnaraðila um að dómkvaddur yrði maður til að svara þeim spurningum, sem varnaraðili hafði áður lagt fyrir dr. Jón Friðrik. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að sér verði heimilað að leggja fram í málinu fyrrnefnda skýrslu, svo og að leiða dr. Jón Friðrik fyrir dóm sem vitni, en til vara að dómkvaddur verði maður til að svara þeim spurningum, sem áður er getið. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði óskar varnaraðili aðallega eftir því að sér verði heimilað að leggja fram álitsgerð kunnáttumanns, þar sem svarað yrði fjórum nánar tilgreindum spurningum um atriði, sem varðað geta mat á trúverðugleika frásagnar vitna í skýrslum þeirra fyrir lögreglu, að undangengnu því að hann ætti viðtöl við einhver þessara vitna eða þau öll, svo og að honum verði leyft að leiða þennan kunnáttumann fyrir dóm til skýrslugjafar. Til vara leitar varnaraðili eftir samsvarandi álitsgerð, en þá úr hendi manns, sem yrði dómkvaddur til að láta hana í té. Líta verður svo á að í báðum tilvikum sé varnaraðili í reynd að leitast við að fá lagt fram fyrir dómi sérfræðiálit um trúverðugleika vitnisburðar, sem hefur ekki enn verið gefinn fyrir dómi og er því alls óséð hvers efnis verði, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2002.

Mál þetta var höfðað 3. október 2001 með birtingu ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 28. ágúst 2001, á hendur X fyrir brot gegn löggjöf um loftferðir.   Er ákærða gefið að sök að hafa sem flugstjóri flugvélarinnar [...] flutt tólf farþega í tiltekinni ferð en vélin er aðeins búin sætum og öryggisbeltum og skráð fyrir tíu farþega. 

Málið var þingfest 10. október sl. og er dómur í málinu fjölskipaður.

Í þinghaldi 17. desember sl. óskaði verjandi ákærða eftir að leggja fram sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, dagsetta 17. desember 2001, þar sem fram kom mat hans á trúverðugleika vitnisburða þeirra farþega hjá lögreglu, sem borið höfðu vitni í málinu, á grundvelli fjögurra spurninga verjandans. 

Í fyrsta lagi hvort „vitni þau er gefið hafa vitnaskýrslur fyrir lögreglu við rannsókn málsins hafi haft getu til að greina í slíkum smáatriðum frá atvikum ofangreinds máls sem raun ber vitni, svo löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað.”

Í öðru lagi „með tilliti til þeirra atvika sem vitni í málinu lýsa og með tilliti til fréttaflutnings og þjóðfélagslegrar umfjöllunar um málið, að slík umfjöllun sé líkleg til að hafa áhrif á vitnisburði þá sem liggja frammi í málinu og þá vitnisburði sem síðar eiga eftir að koma fram.”

Í þriðja lagi „hvort telja verði að meira ósamræmis gæti í vitnisburði milli ákveðinna hópa vitna í málinu, sem virðast þekkjast innbyrðis, en innan viðkomandi hópa” og ef um ósamræmi er að ræða „að lýsa hvert slíkt ósamræmi er og hverjar ástæður gætu legið að baki.”

Í fjórða lagi „að lýsa því hvort misræmi er…um atvik málsins milli einstaka vitna“ og ef svo sé hvort „slíkt misræmi sé í einhverjum eða öllum tilvikum eðlilegt… Eða hvort slíkt misræmi sé með þeim hætti að ólíklegt megi teljast… að vitnin hafi í raun öll upplifað atvik málsins.”  Þá var gerð krafa um að dr. Jón Friðrik kæmi fyrir dóminn sem vitni. 

   Í málinu var kveðinn upp úrskurður 19. desember sl. þar sem m.a. framlagningu skýrslu sálfræðingsins var hafnað svo og að hann kæmi fyrir dóminn sem vitni í því sambandi. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 9. janúar sl.

   Í þinghaldi 15. janúar sl. óskaði verjandi ákærða þess að hann fengi að afla og leggja fram í málinu álit dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar á fyrrgreindum atriðum en nú á grundvelli viðtals sálfræðingsins við „lykilvitni“ málsins.  Þá var gerð sú krafa að hann kæmi fyrir dóminn sem vitni.

Af hálfu ákæruvaldsins er lýst andstöðu við að sálfræðingurinn eigi viðtöl við vitni fyrir aðalmeðferð og þess krafist að ákvörðun dómara liggi fyrir hvort slík sálfræðiskýrsla verði lögð fram í málinu.

   Var sú ákvörðun dómara bókuð að í samræmi við úrskurð réttarins frá 19. desember sl. verði slíkri framlagningu sérfræðiskýrslu hafnað og þar af leiðandi að dr. Jón Friðrik komi fyrir dóminn sem vitni.

   Verjandi ákærða óskaði þess þá að dómari dómkveddi kunnáttumann til að framkvæma matsgerð á grundvelli þeirra fjögurra spurninga sem hann beindi til dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar og fram koma í úrskurði 19. desember sl. Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að dómkvaðningu þessari yrði hafnað.

   Verjandi ákærða krafðist þá rökstudds úrskurðar um þá ákvörðun dómara að synja um framlagningu fyrirhugaðrar sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks svo og á því ágreiningsefni hvort dómari skuli dómkveðja kunnáttumann til að framkvæma matsgerðina.

Niðurstaða

   Svo sem rakið hefur verið hafnaði dómari með ákvörðun kröfu verjanda um að afla og leggja fram í málinu sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar um trúverðugleika „lykilvitna” málsins eftir viðtal við þau, og að sálfræðingurinn kæmi fyrir dóminn sem vitni vegna þeirrar nýju skýrslu.  Rétt þykir að fjalla nánar um ákvörðun dómara í úrskurði þessum vegna samhengis við kröfu verjanda um dómkvaðningu matsmanns til að framkvæma mat á grundvelli sömu spurninga og sálfræðiskýrslan frá 17. desember byggir á.  Í úrskurði dómsins frá 19. desember sl. í máli þessu var úr þeirri kröfu verjanda ákærða skorið hvort dr. Jón Friðrik kæmi fyrir dóminn sem vitni í tengslum við sálfræðiskýrslu hans frá 17. desember sl.  Krafa verjanda nú lýtur að því að fá að leiða sama vitnið vegna nýrrar sálfræðiskýrslu sem verjandinn hyggst afla á hjá sálfræðingnum á grundvelli viðtals hans við hluta vitna í málinu.

Ráða má af ákvæðum VIII. kafla laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 36/1999, að aðilum opinbers máls sé almennt heimilt að leggja fram mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn til að færa sönnur á málsatvik svo og að leiða vitni í sama tilgangi.  Dómara er þó rétt að meina ákæranda eða ákærða að leggja fram gögn í máli, eða leiða vitni, ef sú sönnunarfærsla er sýnilega þarflaus til upplýsingar málsins, sbr. 4. mgr. 128. gr. sömu laga. Samkvæmt 46. gr. laganna metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi sönnunargögn hafi, sem fram hafa verið færð í málinu.  Þá er það meginregla við meðferð opinbers máls að sönnunarfærsla skuli vera milliliðalaus, það er að dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga.  Hluti af sönnunarmati dómara liggur í mati á sannleiksgildi framburða þeirra er koma fyrir dóminn og bera um atvik máls. 

Þau atriði, sem verjandi óskar annars vegar að leggja í mat dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar og hins vegar að fá dómkvaddan matsmann til að meta, eru öll almenn atriði er lúta að trúverðugleika vitna í málinu.  Það er hlutverk dómsins, sem er fjölskipaður, að leggja mat á þau atriði málsins, enda er hann fyllilega til þess bær.  Það að leggja slíkt mat í hendur sérfræðings áður en til aðalmeðferðar kemur verður að teljast í andstöðu við þær meginreglur opinbers réttarfars sem raktar er hér að framan.  Þykir sýnt að þar sem á slíkum gögnum yrði ekki byggt í dómi séu þau sýnilega þarflaus.  Ber því, sbr. 128. gr. laga nr. 19/1991, að hafna kröfum verjanda.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hafnað er kröfu verjanda ákærða um að leggja fram sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar byggða á viðtölum við vitni málsins og að sálfræðingurinn komi fyrir dóminn af því tilefni.

Hafnað er beiðni verjanda um dómkvaðningu matsmanns.