Hæstiréttur íslands
Mál nr. 850/2014
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Ítrekun
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 22. október 2015. |
|
Nr. 850/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Svani Birki Tryggvasyni (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Ítrekun. Hegningarauki.
S var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, fíkniefnalagabrot, þjófnaðarbrot, fjársvik, tilraun til fjársvika og umferðarlagabrot. Játaði S sök nema varðandi tvo ákæruliði þar sem honum voru gefin að sök brot gegn valdstjórninni, annars vegar með því að hafa sparkað í brjóstkassa lögreglumanns og andlit annars er hann veitti mótspyrnu við handtöku og hins vegar með því að hafa hótað lögreglumanni líkamsmeiðingum. Talið var að S hlyti að hafa verið ljóst að slys gæti hlotist af spörkum hans við handtökuna og væri því skilyrði um ásetning fullnægt. Þá var jafnframt talið sannað með vísan til framburðar vitna að S hefði hótað lögreglumanninum. Við ákvörðun refsingar var S gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga en refsing hans einnig ákveðin samkvæmt 77. gr. laganna. Þá hafði S áður hlotið dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og hafði sá dómur ítrekunaráhrif, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Var refsing S ákveðin 14 mánaða fangelsi auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæruliðum 1 og 3 í ákæru ríkissaksóknara 25. mars 2014 og að refsing hans verði að öðru leyti milduð og bundin skilorði.
I
Mál þetta hefur ákæruvaldið höfðað samkvæmt þremur ákærum, 25. mars 2014, 27. maí sama ár og 16. september sama ár. Ákærði játaði sök nema varðandi ákæruliði 1 og 3 samkvæmt fyrstnefndu ákærunni, sem varða brot gegn valdstjórninni, annars vegar 17. ágúst 2013, og hins vegar 5. október sama ár.
Samkvæmt framburði lögreglumanna þeirra fyrir dómi, er voru á vettvangi 17. ágúst 2013 sönnuðu þeir á sér deili er þeir höfðu afskipti af ákærða. Ákærði veitti mikið viðnám. Spurður um hvort hann hefði sparkað frá sér kvaðst hann bara hafa verið að ,,reyna að ýta frá“ svo hann gæti staðið upp. Vitnið A bar fyrir dómi að mikil átök hefðu orðið er lögreglan hefði verið að reyna að ná tökum á ákærða, en hann hefði verið ,,sparkandi út um allt“. Þá staðfesti hún að hafa gefið þá lýsingu hjá lögreglu að ákærði hefði náð að sparka fast í brjóstkassa lögreglumannsins B. Enn fremur bar vitnið K fyrir dómi að ákærði hefði sparkað ,,beint í brjóstkassann“ á B. Vitnin J og fyrrgreind K, báru bæði fyrir dómi að ákærði hefði einnig sparkað aftur fyrir sig í lögreglumanninn C. Hlaut ákærða að vera ljóst að slys gat hlotist af spörkum hans við handtökuna. Er skilyrði um ásetning samkvæmt framangreindu fullnægt.
Liður 3 í ákæru ríkissaksóknara lýtur að hótunum í garð lögreglumannsins D 5. október 2013. Ákærði bar fyrir dómi, spurður um hvort hann hefði verið með ,,einhver leiðindi og kjaft“ við lögregluna umrætt sinn, að hann hefði aðeins æst sig. Hann teldi ekki að orðaskiptin hafi verið á ,,góðum nótum“ en kvaðst ekki muna eftir að hafa viðhaft þau ummæli við lögreglumanninn sem ákært er fyrir.
Síðastgreint vitni, lögreglumaðurinn D, kvaðst hafa tekið hótanir ákærða alvarlega. Hann hafi ekki hafa verið viss um hvort ákærði hefði verið með sprautu, þar sem ekki hefði verið leitað á honum við handtöku. Vitnið L greindi svo frá fyrir dómi að hún myndi ekki nákvæmlega hvað ákærði hefði sagt, en henni hafi þó ekki staðið á sama, þar sem hótun hefði verið um ,,einhverja sprautunál“. Þá staðfesti hún skýrslu sem hún ritaði um atvikið, en þar voru ummæli ákærða tilgreind.
Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða vegna þeirrar háttsemi er greinir í ákæruliðum 1 og 3.
II
Sakaferill ákærða er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Brot þau sem hann hefur verið sakfelldur fyrir eru öll framin áður en dómur 16. maí 2014 var upp kveðinn, að undanskildu því broti sem ákærði var sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru 16. september 2014. Verður ákærða dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga en refsing einnig ákveðin samkvæmt 77. gr. laganna.
Ákærði hlaut dóm 29. nóvember 2012, meðal annars fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur sá dómur ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu, sbr. 3. mgr. 106. gr. laganna. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði dæmdur til 14 mánaða fangelsisrefsingar og eru ekki efni til þyngingar þeirrar refsingar. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Svanur Birkir Tryggvason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 392.487 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2014.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 27. október síðastliðinn, var höfðað með þremur ákærum á hendur Svani Birki Tryggvasyni, kennitala [...], Laugavegi 5, Reykjavík. Fyrsta ákæran er gefin út af ríkissaksóknara 25. mars síðastliðinn. Í henni er ákærði ákærður „fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2013:
1. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 17. ágúst, er ákærði var handtekinn í Austurstræti, rekið olnboga sinn í andlitið á lögreglumanninum A og skömmu síðar sparkað í brjóstkassann á lögreglumanninum B. Eftir flutning að lögreglustöðinni við Hverfisgötu, síðar sömu nótt, sparkað í andlitið á lögreglumanninum C. Allt þetta með þeim afleiðingum að A hlaut tognun og ofreynslu á kjálka, B hlaut yfirborðsáverka á hægri framhandlegg og C hlaut roða yfir vinstra kinnbeini.
2. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa, við upphaf atvika þeirra sem lýst er í ákærulið 1, í Austurstræti í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,98 g af amfetamíni sem lögregla fann í vörslum ákærða og lagði hald á.
3. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 5. október, eftir handtöku, í lögreglubifreið á leið frá [...] að lögreglustöðinni við Hverfisgötu, hótað lögreglumanninum D, líkamsmeiðingum, en ákærði sagði við lögreglumanninn: „ég sting þig með fokking sprautunál“ og í kjölfarið sagt við sama lögreglumann: „á ég að stinga þig“.
4. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa, skömmu eftir atvik þau sem lýst er í ákærulið 3, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, haft í vörslum sínum 0,44 g af amfetamíni, sem lögregla fann við öryggisleit á ákærða.
Teljast brot í ákæruliðum 1 og 3 varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot í ákæruliðum 2 og 4 varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er krafist upptöku á samtals 1,42 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Önnur ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 27. maí 2014. Samkvæmt henni er ákærði ákærður „fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:
I
Þjófnað, með því að hafa:
1. Föstudaginn 27. september 2013, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið veski sem innihélt þrjú greiðslukort og 50.000 kr. og 800 USD í seðlum.
2. Laugardaginn 28. september 2013, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið þremur glösum af herrailm, samtals að verðmæti kr. 20.897.
Í málinu gerir E, f.h. [...], kt. [...], kröfu um að ákærða verði gert að greiða skaðabætur, samtals að fjárhæð kr. 10.298,- auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. gr. laganna frá 28.09.2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er kynnt fyrir ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags.
3. Laugardaginn 28. september 2013, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið einni flösku af Svörtum Soprano, að verðmæti kr. 2.962.
Í málinu gerir F, [...], fyrir hönd [...], kt. [...], [...], Reykjavík, kröfu um skaðabætur á grunni sakarreglunnar að fjárhæð kr. 2.962,- sem svarar til útsöluverðs hins selda á tjónsdegi samkvæmt verðskrá [...], auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 28. september 2013 til 2. febrúar 2014. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Jafnframt er krafist lögmannskostnaðar að fjárhæð kr. 22.000,- auk vsk., auk viðbótarkostnaðar, komi til aukinnar vinnu undir rekstri málsins.
4. Þriðjudaginn 29. október 2013, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið kjötvörum og snyrtivöru, samtals að fjárhæð kr. 8.052.
5. Mánudaginn 30. desember 2013, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið sólgleraugum að verðmæti kr. 33.500, og í kjölfarið stolið 16 símahulstrum í eigu fyrirtækisins [...] úr vöruflutningabifreið sem stóð kyrrstæð á [...] í Reykjavík, samtals að verðmæti kr. 42.142.
6. Að kvöldi mánudagsins 20. janúar 2014, brotist inn í bifreiðina [...], sem stóð á bifreiðastæði við Hamraborg í Kópavogi, og stolið þaðan bakpoka, snjóbrettaskóm og skrúfjárni, að óþekktu verðmæti.
7. Miðvikudaginn 29. janúar 2014, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið kjötvörum og fæðubótarefnum, samtals að fjárhæð kr. 46.969.
8. Miðvikudaginn 29. janúar 2014, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið herrailmi að verðmæti kr. 10.578.
Í málinu gerir G, kt. [...], f.h. [...] kt. [...], [...] í [...], kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 10.578,- auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða hinn 29.01.2014 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
9. Fimmtudaginn 27. febrúar 2014, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið þremur flíkum, samtals að verðmæti kr. 30.970.
10. Fimmtudaginn 17. apríl 2014, við [...] í Kópavogi, brotist inn í bifreiðina [...], með því að brjóta rúðu á bifreiðinni og stolið þaðan tösku með sjúkraskýrslum.
11. Aðfaranótt fimmtudagsins 17. apríl 2014, á [...], [...] í Hafnarfirði, stolið greiðslukorti H, kt. [...].
12. Föstudaginn 18. apríl 2014, brotist inn í fyrirtækið [...], [...] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga og stolið þaðan fartölvu af gerðinni Toshiba og hleðslutæki.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Fjársvik, með því að hafa, fimmtudaginn 17. apríl 2014, í alls 13 skipti, svikið út vörur hjá eftirgreindum fyrirtækjum, samtals að verðmæti kr. 161.201,- með því að framvísa í blekkingarskyni og án heimildar greiðslukorti H, sem ákærði hafði komist yfir með þjófnaði sbr. 11. töluliður í I kafla ákæru, og látið þannig skuldfæra andvirði varanna á greiðslukortareikning hennar eins og hér greinir:
|
Tilvik |
Vettvangur |
Heimildarnr. |
Fjárhæð |
|
|
1. |
[...] |
857480 |
kr. 122.020,- |
122 |
|
2. |
[...], Reykjavík.
|
657106 |
kr. 1.290,- |
1.290,- |
|
3. |
[...], Reykjavík.
|
645187 |
kr. 6.310,- |
|
|
4. |
[...], Reykjavík. |
542520 |
kr. 1.025,- |
1.025,- |
|
5. |
[...], Reykjavík. |
542242 |
kr. 1.025,- |
|
|
6. |
[...], Reykjavík. |
541465 |
kr. 1.025,- |
|
|
7. |
[...], Reykjavík. |
537087 |
kr. 4.437,- |
|
|
8. |
[...], Reykjavík. |
503310 |
kr. 7.600,- |
|
|
9. |
[...], Hafnarfirði. |
351207 |
kr. 2.800,- |
|
|
10. |
[...], Hafnarfirði. |
346552 |
kr. 6.000,-
|
|
|
11. |
[...], Hafnarfirði |
340218 |
kr. 6.400,- |
|
|
13. |
[...] |
258317 |
kr. 1.269,- |
|
|
|
|
Samtals |
kr. 161.201,- |
5.706,- |
Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III
Tilraun til fjársvika, með því að hafa aðfaranótt 17. apríl 2014 reynt að svíkja út flugmiða hjá miðasölu [...], samtals að verðmæti kr. 231.680,- með því að framvísa í blekkingarskyni og án heimildar greiðslukorti H, sem ákærði hafði komist yfir með þjófnaði sbr. 11. töluliður í I kafla ákæru, og þannig reynt að skuldfæra andvirði flugmiðanna á greiðslukortareikning hennar.
Telst þetta varða við 248., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV
Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 7. júlí 2013 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 650 ng/ml, MDMA 505 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 3,3 ng/ml) austur Mýrargötu og síðan áfram austur Geirsgötu, uns aksturinn var stöðvaður á bifreiðastæði við Kolaportið.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“
Þriðja ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 16. september síðastliðinn. Í henni er ákærði ákærður „fyrir þjófnað með því að hafa miðvikudaginn 28. maí 2014 í söluturninum [...], [...] í Kópavogi, stolið söfnunarbauk ABC barnahjálpar af afgreiðsluborði verslunarinnar sem innihélt peninga að óþekktu verðmæti.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákærum lögreglustjóra og eins hefur hann játað sök í ákæruliðum 2 og 4 í ákæru ríkissaksóknara. Ákærði krefst vægustu refsingar vegna þessara ákæruefna. Að öðru leyti krefst hann sýknu. Þess er krafist að bótakröfunum verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði svo og annar sakarkostnaður.
II
Málavextir varðandi þá ákæruliði þar sem ákærði neitar sök verða nú reifaðir en að öðru leyti er vísað til ákæru, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.
Aðfaranótt 17. ágúst 2013 voru fjórir óeinkennisklæddir lögreglumenn við eftirlit í Austurstræti. Þeir komu auga á ákærða fyrir utan skemmtistaðinn [...] og töldu hann bera merki þess að vera undir áhrifum fíkniefna. Hugðust þeir hafa tal af honum en um leið og hann varð þeirra var fór hann með hönd sína í vasa og dró eitthvað upp úr honum. Samkvæmt lögregluskýrslu var ákærða tjáð að lögreglumenn væru á ferð og honum jafnframt sýnd skilríki því til staðfestingar. Þessu næst tóku lögreglumenn á ákærða og kom þá til stimpinga milli hans og þeirra. Í þeim átökum fengu lögreglumenn áverka eins og getið er um í ákæru. Þeir leituðu á slysadeild og eru vottorð um meiðsli þeirra meðal gagna málsins.
Eftir að átökum í Austurstræti lauk var ákærði fluttur á lögreglustöð. Samkvæmt lögregluskýrslu lét hann ófriðlega og barðist um. Segir í skýrslunni að hann hafi sparkað í allar átti og hafi eitt sparkið lent í andliti lögreglumanns. Fékk hann af þessu áverka eins og í ákæru greinir. Leitaði lögreglumaðurinn til slysadeildar og hefur læknir þar vottað áverkann.
Að kvöldið 5. október 2013 var ákærði handtekinn við skemmtistað í Hafnarfirði. Tveir lögreglumenn komu á vettvang til að flytja hann á lögreglustöð. Samkvæmt skýrslum þeirra viðhafði hann ummælin, sem í ákæru greinir, í lögreglubifreiðinni þegar verið var að flytja hann.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu og neitaði sök. Hann kannaðist þó við að hafa lent í átökum við lögreglumenn í Austurstræti. Varðandi hótanirnar kvaðst hann hafa orðið reiður og þá sagt eitthvað, enda verið ósáttur við handtökuna og viljað fá skýringar á henni.
III
Við aðalmeðferð ítrekaði ákærði að hann játaði sök eins og að framan var rakið en neitaði sök í ákæruliðum 1 og 3 í ákæru ríkissaksóknara. Þá hafnaði ákærði bótakröfunum og benti á að ekki hefði verið sótt þing af hálfu bótakrefjenda.
Ákærði kvaðst hafa verið í Austurstræti aðfaranótt 17. ágúst og verið á leið inn á skemmtistað. Hann kvaðst hafa verið nýbúinn að fá sér í nefið og hefði verið að setja pokann í vasann er fólk hefði stokkið á hann. Honum hefði ekki verið kynnt það strax að um lögreglumenn væri að ræða, en fólkið hefði verið óeinkennisklætt. Þeir hafi fyrst sýnt sér skilríki þegar til átaka var komið. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa rekið olnboga í andlit lögreglumannsins. Þá neitaði ákærði að hafa sparkað í brjóstkassa lögreglumanns eða síðar í andlit lögreglumanns. Ákærði kvaðst hvorki hafa sparkað né barið frá sér en hann hafi reynt að koma í veg fyrir að hann yrði handjárnaður. Við það hafi hann ýtt frá sér með löppunum eins og hann orðaði það. Hann kvaðst fyrst hafa legið á bakinu en síðan verið færður yfir á magann. Ákærði ítrekaði að hann hefði verið að verja sig og í fyrstu hefði hann ekki vitað að um lögreglumenn hefði verið að ræða. Þeir hafi fyrst sýnt sér skilríki er þeir höfðu komið honum í götuna. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum kókaíns þessa nótt og verið búinn að vera það í þrjá daga.
Ákærði neitaði að hafa viðhaft ummæli þau við lögreglumann sem í 3. lið ákæru ríkissaksóknara greinir. Hann kannaðist við að hafa verið handtekinn og ekki verið sáttur við það. Reyndar kvaðst hann muna lítið eftir þessu kvöldi, en hann fullyrti að hann hefði ekki hótað lögreglumönnum. Hann kvaðst frekar hafa verið með „kjaft“ við þá.
I lögreglumaður kvaðst hafa verið í Austurstræti 17. ágúst ásamt þremur öðrum lögreglumönnum. Þau hafi verið óeinkennisklædd við eftirlit í miðbænum. Þau hafi komið auga á ákærða og grunað hann um fíkniefnalagabrot. Lögreglumennirnir hafi gengið að honum og kvaðst hún hafa séð ákærða fara í vasa sinn og draga eitthvað upp. Hún kvaðst hafa fylgst með honum til að gæta að hvort hann kastaði einhverju í burtu. Þegar lögreglumenn komu að ákærða hefðu þeir kynnt sig og sýnt honum skilríki. Hún kvaðst strax hafa tekið um hönd ákærða til að gæta þess að hann kastaði engu í burt. Ákærði hefði kreppt hnefann mjög fast og hefði hún átt í vandræðum með að losa hann. Í framhaldinu hefði komið til átaka við ákærða sem hefðu endað með því að hann var lagður í götuna og síðan færður í lögreglubifreið. I kvað hönd ákærða hafa farið í lögreglumann í átökunum, en ekki kvaðst hún hafa séð það.
A lögreglumaður kvaðst hafa verið í miðbænum ásamt þremur öðrum lögreglumönnum. Þau hefðu séð ákærða og ákveðið að hafa afskipti af honum. Hann hefði stungið hendi í vasa um leið og þau gerðu vart við sig og kynntu sig sem lögreglumenn. Við það hefði verið gripið í hendur hans, enda hefðu þau talið hann vera með fíkniefni. Hún kvað lögreglumann hafa staðið við hverja hlið ákærða og hefði hún staðið fyrir aftan hann. Ákærði hefði farið að berjast um og í átökunum hefði honum tekist að rykkja annarri hendi sinni lausri og slá sig í nefið með olnboganum. A kvað ákærða ekki hafa getað séð sig en hún hafi haldið í hann. Í framhaldinu hefðu orðið mikil átök við ákærða, bæði við að koma honum í götuna og síðan inn í lögreglubifreið. Hún kvaðst ekki hafa séð hvort eitthvað hefði komið fyrir lögreglumanninn B. Skýrsla A var borin undir hana og kannaðist hún við að hafa séð ákærða sparka í brjóstkassa B eins og segir í skýrslunni.
B lögreglumaður kvaðst hafa verið kvaddur á vettvang til að aðstoða við handtöku á ákærða nefnda nótt. Hann kvað ákærða hafa verið mjög æstan og tekið á móti lögreglumönnum við handtökuna og flutning á lögreglustöð. Hann hefði verið að slá og sparka í allar áttir. Í þessum látum hefði ákærði sparkað í brjóstkassann á sér og hefði það verið þegar ákærði var að brjótast um til að komast undan handtöku. Þegar þetta gerðist hefði ákærði legið í götunni á bakinu í handjárnum og verið brjótast um.
J lögreglumaður var einn af fjórum óeinkennisklæddum lögreglumönnum í miðbænum þessa nótt. Hann kvað þá hafa séð ákærða undir áhrifum fíkniefna og ætlað að hafa afskipti af honum. Kvaðst J hafa komið fyrstur að ákærða og sýnt honum lögregluskilríki og um leið hefði ákærði stungið hendi í vasann. Lögreglumennirnir hefðu beðið hann að taka höndina úr vasanum og þegar hann gerði það ekki þá tóku þeir hvor í sína hönd hans. Við þetta hefði ákærði farið að streitast á móti, hann hefði kippt að sér höndunum og reynt að losna. Eftir smátíma hefði þó tekist að hemja ákærða, en þegar hann hefði verið leiddur að lögreglubifreið hefði hann farið að sparka frá sér. Ákærði hafi verið fluttur að lögreglustöð og þar kvaðst J hafa séð hann sparka frá sér og hefði sparkið annaðhvort lent í andliti eða brjóstkassa C lögreglumanns. J kvaðst ekki hafa séð ákærða ráðast að öðrum lögreglumönnum.
K lögreglumaður var í Austurstræti þessa nótt óeinkennisklædd, ásamt fleiri lögreglumönnum. Hún kvað þau hafa séð ákærða fyrir utan [...] og haft afskipti af honum vegna gruns um að hann væri með fíkniefni. Ákærða hefðu verið sýnd skilríki og jafnframt tilkynnt að lögreglumenn væru þarna á ferð. Þau hefðu lent í átökum við ákærða og lagt hann í götuna. Fleiri lögreglumenn hefðu komið til aðstoðar og þar á meðal B. K kvaðst hafa séð ákærða sparka í brjóstkassa hans. Þegar það gerðist hefði ákærði legið á maganum. Hún kvað ákærða hafa verið eins og orm og sparkað aftur fyrir sig. Þegar hér var komið sögu hafi ákærða hlotið að vera ljóst að lögreglumenn hafi verið að handtaka hann. Þá kvaðst K hafa séð ákærða sparka í andlit lögreglumannsins C við lögreglustöðina. Þetta hafi gerst þegar verið var að færa ákærða úr lögreglubifreið og inn á stöðina. Hann hafi legið á maganum meðan beðið var aðstoðar við að færa hann inn og þá hafi hann sparkað. K kvaðst ekki hafa séð ákærða veita lögreglumönnum frekari áverka.
C lögreglumaður kvaðst hafa verið við fangamóttöku á lögreglustöðinni þessa nótt. Hann kvaðst hafa farið út til að aðstoða við að færa ákærða úr lögreglubifreið og inn á stöðina. Ákærði hafi spriklað um og sparkað öðrum fæti í auga sér. Þegar þetta gerðist hefði ákærði snúið baki við sér og kvaðst C efast um að ákærði hefði verið að reyna að sparka í sig. Hann kvað fimm eða sex lögreglumenn hafa haldið á ákærða upp í fangaklefa. C kvað ákærða hafa verið með hendur fyrir aftan bak þegar hann hefði sparkað í sig. Ákærði hefði verið á maganum og verið var að færa hann úr bifreiðinni og niður á jörðina þegar hann hefði sparkað.
D lögreglumaður kvað ákærða hafa verið handtekinn við skemmtistað í Hafnarfirði. Hann hafi, ásamt öðrum lögreglumanni, farið á vettvang til að flytja ákærða í fangageymslu. Fljótlega eftir að í bifreiðina var komið hefði ákærði farið að æsast og hefði það endað með því að ákærði hefði skallað tvisvar í rúðu bifreiðarinnar. D kvaðst því hafa fært höfuð ákærða niður og haldið því þannig föstu þar til komið var á lögreglustöð. Meðan á akstri stóð hefði ákærði hótað sér eins og í ákæru greinir.
L lögreglumaður var með D og ók hún lögreglubifreiðinni. Þau hefðu flutt ákærða á lögreglustöð. Ákærði hefði verið mjög æstur og skallað í rúðu bifreiðarinnar. Á leiðinni hefði ákærði hótað þeim báðum en ekki kvaðst hún muna nákvæmlega í hverju hótanirnar hefðu verið fólgnar. Síðar hefðu hótanirnar eingöngu beinst að D. Hún staðfesti að hafa ritað skýrslu þar sem hótanirnar komi fram.
M lögreglumaður var við skemmtistaðinn þar sem ákærði var handtekinn í Hafnarfirði. Hann kvað ákærða hafa verið eftirlýstan og þess vegna hefði hann verið handtekinn. Ákærði hefði verið byrjaður að hóta lögreglumönnum áður en hann var færður í lögreglubifreiðina.
Læknir, sem ritaði vottorðin um meiðsli lögreglumannanna, staðfesti þau. Hann taldi áverkana geta samrýmst því að lögreglumennirnir hefðu fengið þá eins lýst er í ákæru og á þann hátt er þar greinir, nema hvað áverkavottorð B lýsir áverka á hægri handlegg.
IV
Ákærði verður sakfelldur fyrir þau brot sem hann hefur játað að hafa framið, enda styðst játning hans við sakargögn. Þessi brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunum.
Ákærði neitaði sök í 1. lið ákæru ríkissaksóknara en kannaðist við að til átaka hefði komið milli hans og lögreglumanna nefnda nótt eins og rakið var. Honum er í fyrsta lagi gefið að sök að hafa rekið olnboga sinn í andlit lögreglumanns. Samkvæmt framburði lögreglumannsins á þetta að hafa gerst í upphafi handtöku ákærða. Hún kvaðst hafa staðið fyrir aftan hann og haldið í hann og hefði ákærði ekki getað séð sig. Aðrir lögreglumenn sáu ekki hvað gerðist. Gegn neitun ákærða og með hliðsjón af framburði lögreglumannsins er óvarlegt að telja sannað að ákærða hafi mátt vera ljóst að hann hafi verið að ráðast að lögreglumanni er hann rak olnbogann aftur fyrir sig og verður hann því sýknaður af þessu atriði ákærunnar. Í kaflanum hér að framan var það rakið að þrír lögreglumenn bera að ákærði hefði sparkað í lögreglumann í Austurstræti. Þegar það gerðist hlaut ákærða að vera orðið það ljóst að lögreglumenn voru að handtaka hann og með því að sparka frá sér hlaut honum einnig að vera ljóst að lögreglumaður gæti orðið fyrir sparki. Ákærði verður því sakfelldur fyrir þetta atriði ákærunnar. Þá bera þrír lögreglumenn að ákærði hafi sparkað í lögreglumann við lögreglustöðina og er það því sannað gegn neitun hans, enda hlaut ákærða að vera ljóst að um lögreglumann var að ræða. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði neitar einnig sök í 3. lið ákæru ríkissaksóknara en hefur kannast við að hafa verið með „kjaft“ við lögreglumenn. Lögreglumaðurinn, sem hótunin beindist að, hefur borið fyrir dómi að ákærði hafi viðhaft þau ummæli sem í ákæru greinir og hefðu þau beinst að sér. Annar lögreglumaður hefur staðfest skýrslu sína, en þar eru ummælin tilgreind. Fyrir dómi kvaðst hún þó ekki muna þau nákvæmlega. Samkvæmt þessu er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hótaði lögreglumanninum eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Á árinu 2009 var ákærði dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af voru 6 mánuðir skilorðsbundnir, fyrir auðgunar- og umferðarlagabrot. Hann var dæmdur í 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi 2011 fyrir nytjastuld og réttindaleysi við akstur og sama ár í 9 mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot. Á árinu 2012 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, auðgunarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt og hefur ekki öðlast hann síðan. Ákærði var dæmdur í 5 mánaða fangelsi 6. mars 2014 fyrir að aka sviptur ökurétti og að aka undir áhrifum fíkniefna. Hann var dæmdur 24. mars sama ár í 45 daga fangelsi fyrir minni háttar líkamsárás, þjófnað og vopnalagabrot. Loks var hann sakfelldur 16. maí síðastliðinn fyrir þjófnað og nytjastuld en ekki gerð refsing. Refsing ákærða nú verður hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga og verður hún ákveðin samkvæmt 77. gr. sömu laga. Með hliðsjón af sakferli ákærða er refsing hans hæfilega ákveðin 14 mánaða fangelsi. Þá verður ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð.
Upptæk eru gerð fíkniefni eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði hefur hafnað bótakröfunum. Þing var ekki sótt af hálfu bótakrefjanda, hvorki við þingfestingu málsins né síðar, og ekki sótti sækjandinn þing. Það hefði því átt að fella kröfurnar niður, sbr. 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008, en með því það var ekki gert verður að vísa þeim frá dómi. Það athugast þó að dómara málsins láðist að boða kröfuhafa til þingfestingar og honum láðist einnig að láta þess getið við sækjandinn þannig að hann hefði getað bætt úr með því að sækja þing fyrir hönd bótakrefjenda.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Svanur Birkir Tryggvason, sæti fangelsi í 14 mánuði.
Bótakröfum er vísað frá dómi.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Upptæk eru gerð 1,42 g af amfetamíni.
Ákærði greiði 175.246 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl., 376.500 krónur.