Hæstiréttur íslands
Mál nr. 376/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Umgengni
|
|
Fimmtudaginn 17. júlí 2008. |
|
Nr. 376/2008. |
K(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) gegn M (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að ekki væru efni til að verða við kröfu hvors málsaðila um sig um forsjá sona þeirra til bráðabirgða. Jafnframt var staðfest að umgengni M við drengina skuli vera aðra hvora viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns. Hins vegar var talið að M hefði í verki fallist á tillögu K um umgengni á sumarleyfistíma og var sá hluti kröfu hennar tekinn til greina. Þá var fallist á kröfu K um að ekki væru efni til að ákveða varnaraðila sérstaka umgengni við drengina tvívegis, eina viku í senn, á tímabilinu 1. nóvember 2008 2009.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2008, þar sem leyst var úr kröfum aðilanna um forsjá tveggja sona þeirra til bráðabirgða og umgengni við þá. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá beggja drengjanna til bráðabirgða og að umgengni varnaraðila við þá verði aðra hvora viku frá kl. 16 á föstudegi til mánudagsmorguns. Þá krefst hún þess að drengirnir dveljist hjá varnaraðila þrívegis í eina viku í senn á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst 2008, en innan þess falli tveggja vikna sumarumgengni eða önnur umgengni sem þegar hefur farið fram við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar. Þá krefst hún þess að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði héraðsdóms um að drengirnir skuli tvisvar dveljast eina viku í senn hjá varnaraðila á tímabilinu frá 1. nóvember 2008 til 1. maí 2009. Til vara krefst sóknaraðili þess að lögheimili drengjanna verði ákveðið hjá henni. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
I.
Krafa varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er einkum reist á því að málatilbúnaður og kæra sóknaraðila sé ekki í samræmi við XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt fallist sé á með varnaraðila að ónákvæmni gæti í kærunni, er hún ekki þess háttar að leitt geti til frávísunar málsins. Verður aðalkröfu varnaraðila samkvæmt því hafnað.
II.
Fallist verður á þá niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að ekki séu efni til að verða við kröfu hvors málsaðila um sig að honum verði veitt forsjá sona þeirra til bráðabirgða. Jafnframt verður staðfest það ákvæði í úrskurði héraðsdóms að umgengni varnaraðila við drengina skuli vera aðra hvora viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns.
Sóknaraðili leitaði eftir samkomulagi við varnaraðila í maí 2008 um það hvernig sérstakri umgengni hins síðarnefnda við drengina yrði hagað á sumarleyfistíma 2008. Lagði hún til að tímalengd yrði ákveðin samtals þrjár vikur, sem skipt yrði í þrennt, viku í senn. Hefur hún skýrt tillöguna meðal annars með því að vegna viðkvæms heilsufars drengjanna teldi hún ekki rétt að þeir yrðu í lengri tíma samfellt úr hennar umsjá. Lagði hún til að drengirnir yrðu hjá varnaraðila 23. til 30. maí, 21. til 28. júní og 19. til 26. júlí, en óskaði að öðrum kosti eftir tillögu varnaraðila um önnur tímabil. Ekki bárust aðrar tillögur frá varnaraðila og dvöldust drengirnir hjá honum tvö fyrrnefndu tímabilin. Verður að líta svo á að varnaraðili hafi í verki fallist á tillögu sóknaraðila að þessu leyti og verður sá hluti kröfu hennar tekinn til greina. Jafnframt verður fallist á kröfu hennar um að ekki séu efni til að ákveða varnaraðila sérstaka umgengi hans við drengina tvívegis, eina viku í senn, á tímabilinu 1. nóvember 2008 til 1. maí 2009.
Sóknaraðili krefst þess til vara að lögheimili drengjanna skuli vera hjá henni. Þessi krafa var ekki höfð uppi í héraði og kemur því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um bráðabirgðaforsjá A og B og um umgengni varnaraðila, M, við drengina aðra hvora viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns. Drengirnir skulu dveljast í sumarleyfi hjá varnaraðila á tímabilinu frá 19. júlí 2008 til 26. sama mánaðar.
Fellt er úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um að drengirnir dveljist tvisvar hjá varnaraðila eina viku í senn á tímabilinu 1. nóvember 2008 til 1. maí 2009.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2008.
Mál þetta var höfðað 28. apríl 2008 um forsjá tveggja barna aðila, A, fæddur [...] 2005, og B, fæddur [...] 2006. Í þinghaldi 23. maí 2008 var lögð fram krafa um bráðabirgðaforsjá barnanna og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Sóknaraðili er K, með lögheimili að [...], en dvalarstað að [...]. Varnaraðili er M, [...]. Varnaraðili skilaði greinargerð í bráðabirgðaforsjárþættinum 29. maí sl. Málið var munnlega flutt 13. júní sl. og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að hún fái til bráðabirgða forsjá drengjanna þar til niðurstaða fæst í forsjármáli aðila.
Þá er þess krafist að úrskurðað verði að regluleg umgengni varnaraðila við drengina verði aðra hverja viku frá föstudagssíðdegi klukkan 16 til mánudagsmorguns.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila, um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármálið er til meðferðar fyrir dómi, verði hafnað. Til vara er þess krafist að varnaraðila verði til bráðabirgða falin forsjá drengjanna og sóknaraðila gert að greiða meðlag með þeim frá uppkvaðningu úrskurðar um bráðabirgðaforsjá.
Verði hvorki fallist á aðal- eða varakröfu varnaraðila er gerð krafa um það að inntak umgengnisréttar hans við drengina verði nánar ákvarðað í samræmi við tillögur hans.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Aðilar kynntust í ársbyrjun 2005 og varð sóknaraðili fljótlega ófrísk. Um haustið hófu þau sambúð og þeim fæddist svo sonur, A, í [...] 2005. Upp úr sambúð aðila slitnaði um tíma á árinu 2006 og var sóknaraðili þá ófrísk að nýju. Aðilar hófu aftur sambúð í júlí en skráðu sambúðina hins vegar fyrst 23. október. Yngri sonur aðila, B, fæddist í [...] það ár. Á árinu 2007 slitnaði aftur upp úr sambúð aðila en þau tóku saman aftur. Í október það ár slitnaði svo endanlega upp úr sambúð þeirra.
Í málinu liggur fyrir að aðilar leituðu til Hafliða Kristinssonar, fjölskyldu- og hjónaráðgjafa, um nokkurra mánaða skeið frá 5. júní 2007. Í bréfi ráðgjafans, dags. 5. maí 2008, segir að ástæða viðtalanna hafi verið togstreita aðila á milli og erfið samskipti. Þau hefðu helst deilt um hlutverkaskipan og þá um þátttöku varnaraðila í heimilishaldi, ekki síst vegna mikillar vinnu beggja og kvöldvinnu sóknaraðila tengda tónlistarstarfi. Þau hefðu eignast tvö börn með árs millibili og það gert álagið mikið þann tíma sem þau hefðu verið saman. Þau hefðu átt erfitt með úrvinnslu í ýmsum viðkvæmum málum og varnaraðili flutt út í nokkur skipti. Þrátt fyrir tilraunir til að leysa ágreiningsmálin með skiptingu verkefna og samkomulagi um aukna þátttöku varnaraðila í kringum tónlistaræfingar, hefðu þau skilið nokkrum mánuðum eftir að viðtöl hófust.
Þá liggur fyrir að 21. október 2007 fór lögregla að heimili aðila vegna tilkynningar um heimilisófrið. Í dagbók lögreglu segir að rifrildi hafi verið milli aðila og sóknaraðili verið á leið út þegar lögregla kom á vettvang. Sóknaraðili hafi sagt varnaraðila ölvaðan og vitlausan. Lögreglan hefði kíkt inn og rætt við aðila. Úr hafi orðið að sóknaraðili ætlaði að leita sér gistingar um nóttina en varnaraðili lagst til svefns. Athugað hafi verið með börnin á heimilinu og þau verið sofandi. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 22. apríl 2008, leitaði sóknaraðili á heilsugæsluna í [...] 29. október 2007. Í vottorðinu er rakin frásögn sóknaraðila um það hvernig varnaraðili hefði ráðist á hana vikuna áður. Hún greindi frá því að um hálfri klukkustund eftir árásina hefði einhver íbúi í húsinu hringt á lögreglu sem kom á vettvang. Þá segir í vottorðinu að sóknaraðili hafi verið aum yfir kjálkunum báðum megin og vægt aum í hægri öxl, en hreyfingar verið eðlilegar og sársaukalausar. Marblettir hefðu verið eins og eftir fingraför um vinstri upphandlegg. Eymsli hafi verið yfir hægri úlnlið og sex marblettir á fótleggjum.
Samkvæmt gögnum málsins hafði sóknaraðili samband við félagsmálayfirvöld hinn 14. apríl 2008 vegna þess að hún hefði áhyggjur af velferð yngri drengsins sem var þá hjá varnaraðila. Í dagnótu félagsmálayfirvalda segir að sóknaraðili hefði greint frá því að drengurinn hefði ekki farið á leikskólann því hann væri veikur. Sóknaraðili hefði áhyggjur af veikindum barnsins og hún viljað fá að hitta barnið til að sjá ástand þess, en varnaraðili hafi ekki vilja að hún kæmi á heimilið. Hann hafi sagt að drengurinn væri með hita sem færi lækkandi. Sóknaraðili hefði áhyggjur af barninu í umsjá varnaraðila þegar barnið sé veikt. Drengurinn sé með rör í eyrum sem losni oft og þá komi upp sýkingar. Þá þurfi að hafa hraðar hendur og koma drengnum undir læknishendur því hann þurfi oft að fá sýklalyf í æð. Sóknaraðili hafi sagt að hún gjörþekki veikindi barnsins, en varnaraðili sé sljór gagnvart þeim og sé hún hrædd um að hann útvegi barninu ekki nauðsynlega læknishjálp. Hún sé það foreldri sem hafi oftast verið með barnið veikt og farið með það til læknis og þess vegna vilji hún sjá ástand barnsins og meta það.
Í kjölfar tilkynningar sóknaraðila hringdi starfsmaður félagsmálayfirvalda í varnaraðila sem sagði að hitinn væri að minnka hjá drengnum. Í dagnótu vegna símtalsins segir að starfsmaðurinn hefði lagt mikla áherslu á það við varnaraðila að hann færi og léti líta á drenginn hjá lækni og hann gæti farið strax á læknavaktina. Varnaraðili hefði sagt að hugsanlega mundi hann gera það, ef ekki þá alla vega strax að morgni 15. apríl.
Varnaraðili fór morguninn eftir, þriðjudaginn 15. apríl, með drenginn til læknis á heilsugæslu [...] þar sem sagt var að hann væri með vírus og því ekkert í raun að gera. Um kvöldið fór sóknaraðili með drenginn heim til sín. Í annarri dagnótu félagsmálayfirvalda segir að sóknaraðili hafi upplýst að hún hefði farið þá um kvöldið með drenginn á læknavaktina. Þar sem óvissa hefði ríkt um það hvort hann væri með vírus eða ekki hefði drengurinn ekki verið settur á lyf. Daginn eftir hefði sóknaraðili farið með drenginn á bráðavaktina. Reyndist drengurinn þá með samfallinn efri hluta lunga, hægra megin og súrefnismettun því ekki næg. Dvaldi drengurinn í nokkra daga á spítala.
Eins og fram hefur komið höfðaði sóknaraðili mál þetta um forsjá drengjanna og gerir hún kröfu um að henni verði falin forsjá þeirra. Sóknaraðili telur enn fremur nauðsynlegt að krefjast forsjár drengjanna til bráðabirgða þar til niðurstaða fæst í forsjármáli aðila.
Aðilar komu fyrir dóm 13. júní sl., er málið var tekið til úrskurðar, og gáfu skýrslu. Verður framburður þeirra rakinn síðar eftir því sem ástæða er til.
II.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um forsjá til bráðabirgða á því að það sé drengjunum fyrir bestu að lúta forsjá hennar og að hún sé hæfari til að fara með forsjá þeirra. Telur sóknaraðili að ákvörðun um forsjá drengjanna til bráðabirgða hjá henni feli í sér algjöran stöðugleika fyrir drengina þar sem þeir hafi búið hjá sóknaraðila, þrátt fyrir að lögheimili beggja málsaðila sé á sama stað, þ.e. núverandi heimili varnaraðila. Ástæða þess sé sú að varnaraðili hafi ekki heimilað sóknaraðila að flytja lögheimili drengjanna þrátt fyrir þá staðreynd að bæði varnaraðili og drengirnir búi í íbúð í [...].
Sóknaraðili kveður að drengirnir séu tilfinningalega miklu tengdari henni. Hún hafi nánast alfarið sinnt þörfum þeirra frá fæðingu og verið fús til að setja þarfir drengjanna í forgang í sínu lífi. Varnaraðili hafi hins vegar verið alls ófáanlegur til að gera tilhliðranir á lífi sínu með tilkomu drengjanna og ekki sýnt neinn áhuga á að forgangsraða með þarfir þeirra að leiðarljósi. Sóknaraðili byggir á því að verulegur munur sé á umönnunar- og tilfinningatengslum drengjanna við málsaðila, sóknaraðila verulega í vil. Drengirnir hafi ríka þörf fyrir nærveru hennar, en til hennar sæki þeir öryggi og vellíðan. Sóknaraðili kveðst greina óöryggi hjá drengjunum þegar þeir hafi verið með varnaraðila, enda hafi varnaraðili ekki virst hafa mikinn áhuga á að annast um drengina meðan aðilar bjuggu saman og engin breyting hafi orðið á því.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um bráðabirgðaforsjá drengjanna á því að hún sé hæfari en varnaraðili til að fara með forsjá þeirra. Fyrst eftir samvistarslitin hafi umgengnin verið frá föstudagssíðdegi til sunnudagssíðdegis, en upp á síðkastið hafi umgengnin verið til mánudagsmorguns, þannig að varnaraðili geti sótt og skilað drengjunum í leikskóla og samskipti málsaðila þurfi að vera sem minnst. Sóknaraðili leggur áherslu á að framangreind umgengni verði úrskurðuð í þessum þætti málsins, til þess að ákveðinn rammi verði í kringum drengina meðan forsjármálið er rekið fyrir dómstólum. Framangreind umgengni sé tilkomin að frumkvæði sóknaraðila, þar sem varnaraðili hafi eftir samvistaslitin ekki sýnt mikinn áhuga eða vilja til að vera með drengjunum. Þrátt fyrir þá staðreynd hafi varnaraðili ekki viljað semja um framangreint umgengnisfyrirkomulag og farið fram á mun rýmri umgengni en verið hafi. Sóknaraðili telur framangreinda reglu henta drengjunum sæmilega en mikilvægt sé að umgengni verði ekki meiri en raunin sé nú. Drengirnir sýni því miður ýmis vanlíðunareinkenni er þeir komi úr umgengni frá varnaraðila, m.a. hafi eldri drengurinn martraðir fyrst á eftir og sé yfirleitt úttaugaður og æstur þá mánudaga sem hann komi til baka frá varnaraðila. Báðir drengirnir séu með fæðuofnæmi og þurfi því að gæta að því sem þeir setji ofan í sig, en ljóst sé af líðan og hægðum drengjanna á mánudögum að varnaraðili gæti ekki að því, þrátt fyrir að sóknaraðili hafi margsinnis ítrekað óskir um það. Fylgi því ýmis vanlíðan fyrir drengina. Þá gleymi varnaraðili ítrekað að gefa drengjunum nauðsynleg lyf meðan þeir dvelji hjá honum, t.d. púst vegna astma og pensilín, vegna ýmissa sýkinga.
Sóknaraðili byggir á því að forsjáin verði ákveðin hjá henni til bráðabirgða þar sem í slíkri skipan felist engin röskun fyrir drengina. Með slíkri skipan verði staðfest sú umgjörð sem hafi verið um drengina frá fæðingu þeirra og alfarið frá samvistaslitum aðila í október 2007. Sóknaraðili hafi mun betri innsýn í þarfir og líðan drengjanna, því hún þekki þá mun betur en varnaraðili. Hún þekki sjúkrasögu drengjanna til hlítar og sjái greinilega þegar eitthvað sé að. Báðir drengirnir hafi mjög oft verið veikir frá fæðingu og sóknaraðili ein farið með drengina til læknis og haldið utan um sjúkrasögu þeirra. Báðir drengirnir hafi verið með miklar eyrnabólgur og astma og yngri drengurinn verið nær samfellt á sýklalyfjum um 5 mánaða skeið. Yngri drengurinn sé með umönnunarkort og lyfjaskírteini frá Tryggingastofnun, svo mikil hafi veikindi hans verið.
Sóknaraðili telur varnaraðila ekki næman á þarfir drengjanna og ekki taka tillit til þeirra þarfa. Mikilvægt sé að tryggja stöðugleika og öryggi drengjanna sem fyrst svo uppákomur eins og sú sem hafi átt sér stað í apríl sl. í tengslum við veikindi yngri drengsins. Sóknaraðili telur niðurstöðu um forsjá ekki þola bið þar til næsta vetur, en ljóst sé að málaferli um forsjá muni ekki leysast fyrir þann tíma. Því sé nauðsynlegt að krefjast úrskurðar um forsjá og umgengni til bráðabirgða.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem og VI. kafla laganna. Um varnarþing er vísað til 37. gr. sömu laga og um sönnunargögn er vísað til 42. gr. laganna.
Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 60/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Sóknaraðili máls þessa sé ekki virðisaukaskattsskyld og sé henni því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.
III.
Varnaraðili byggir kröfu sína, um að hafnað verði kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi, á því að æskilegt sé að forsjá haldist sameiginleg á meðan máli er ráðið til lykta. Mikilvægt sé að drengirnir haldi sem bestum tengslum við báða foreldra sína á meðan forsjármál er til meðferðar, enda geti meðferð slíks máls tekið langan tíma. Það sé því ekki drengjunum fyrir bestu að fallist sé á kröfu um bráðabirgðaforsjá sóknaraðila.
Varnaraðili telur brýnt að drengirnir geti haldið tengslum við báða foreldra á meðan á meðferð máls stendur, ekki síst vegna þess að tengsl drengjanna og foreldranna sé mikilvægur þáttur við mat á því hvað sé þeim fyrir bestu við ákvörðun forsjár.
Varnaraðili kveður að hann sé ábyrgðarfullur og beri velferð drengjanna fyrir brjósti. Hann telur að velferð þeirra sé best borgið með reglulegri umgengni við báða foreldra og hann muni ekki standa í vegi fyrir umgengni sóknaraðila við drengina. Varnaraðili telur sig vera í góðu tilfinningalegu jafnvægi og að slíkt sé mikilvæg undirstaða í uppeldi drengjanna. Hann kveðst leggja áherslu á stöðugleika í lífi drengjanna og að sem minnst rót verði gert á högum þeirra. Leikskóli yngri drengsins sé í fimm mínútna fjarlægð frá heimili varnaraðila og foreldrar hans búi í um tíu mínútna fjarlægð frá honum. Í kringum varnaraðila sé stórt net af ástríku fólki sem sé boðið og búið til að hjálpa þegar þess þurfi. Varnaraðili segir að hann leggi áherslu á að skapa drengjunum ástríkt og jákvætt umhverfi og að erfiðleikum og sársauka drengjanna vegna forsjárdeilunnar sé því haldið í lágmarki.
Varnaraðili vísar til þess að hann eigi son af fyrra sambandi sem hann hafi afar góð og náin tengsl við. Í samskiptum hans og barnsmóður hans hafi hagsmunir barnsins verið hafðir að leiðarljósi og fá vandamál komið upp varðandi umgengni. Varnaraðili kveðst óttast að hagsmunum drengjanna verði ekki best borgið með því að sóknaraðili fái forsjá þeirra til bráðabirgða. Afar góð tengsl séu milli drengjanna tveggja og eldri bróður þeirra og varnaraðili segist óttast að sóknaraðili muni takmarka umgengni við bróðurinn, sem og foreldra varnaraðila. Varnaraðili telur að líta verði til þess að drengirnir séu ungir og á mikilvægu þroskaskeiði.
Varnaraðili kveðst vera vanur umgengni við börn og þekki þeirra þarfir og sinni þeim vel. Drengjunum líði afar vel á heimili hans og kalli eldri drengurinn það heimili sitt.
Varnaraðili segir að í ljósi aldurs drengjanna sé nauðsynlegt að foreldrarnir hafi nægan tíma til að sinna þeim og að börnin gangi fyrir vinnu foreldranna. Hann reki eigið fyrirtæki og hafi því mikið svigrúm varðandi vinnutíma. Bæði sé auðvelt fyrir hann að hliðra til vinnutíma, sem og að taka sér frí.
Hafni dómurinn kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár krefst varnaraðili þess að dómurinn ákveði að börnin búi hjá foreldrum sínum á víxl þar til niðurstaða sé fengin í forsjármálinu. Varnaraðili kveðst ætla að stuðla að því að samvistir við drengina fari fram eins og best verði á kosið. Hann muni stuðla að heilbrigðum og eðlilegum samskiptum og samveru við sóknaraðila og fjölskyldu hennar vegna þess að hann telur nauðsynlegt fyrir drengina að vera í góðum tengslum við alla sína fjölskyldu. Varnaraðili óttist að verði úrskurðað sóknaraðila í hag, muni sóknaraðili skerða samvistir drengjanna við sig, enda sé tekið fram í kröfu sóknaraðila, um ákvörðun forsjár til bráðabirgða, að mikilvægt sé að umgengni verði ekki rýmri en hún sé. Varnaraðili telur hæpið að slík afstaða þjóni hagsmunum barnanna, enda sé börnum fyrir bestu að hafa eðlileg tengsl við báða foreldra sína.
Verði varnaraðila til bráðabirgða falin forsjá sonanna er farið fram á að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar drengjanna við sóknaraðila, sbr. 4. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003. Fer varnaraðili fram á að umgengni drengjanna og sóknaraðila verði sem hér segir:
- Drengirnir dvelji hjá móður aðra hverja helgi frá miðvikudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Móðir sæki þá í leikskólann og skili þeim þangað aftur að morgni mánudags. Þá verði drengirnir til skiptis hjá móður frá fimmtudagssíðdegi til föstudagsmorguns, þá viku sem reglulegar samvistir séu ekki.
- Um jól og áramót dvelji drengirnir til skiptis hjá foreldrunum, um jólin 2008 hjá föður, frá hádegi á Þorláksmessu til hádegis á jóladag, og til skiptis um hver áramót, frá hádegi 30. desember til kl. 17:00 á nýársdag, fyrst hjá móður áramótin 2008/2009.
- Um páska dvelji drengirnir til skiptis hjá foreldrum frá skírdegi til annars í páskum, í fyrsta skipti hjá föður 2008.
- Á sumrin dvelji drengirnir hjá móður í fjórar vikur á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst og skulu þeir samvistardagar nánar ákveðnir fyrir 1. maí ár hvert, og eina viku að vetri (vetrarfrí) á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí.
Verði niðurstaða málsins sú að fallist verði á kröfu sóknaraðila, um að hún fari með bráðabirgðaforsjá, krefst varnaraðili þess að inntak umgengnisréttar hans við drengina verði sem hér segir:
- Drengirnir dvelji hjá föður aðra hverja helgi frá miðvikudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Faðir sæki þá í leikskólann og skili þeim þangað aftur að morgni mánudags. Þá verði drengirnir til skiptis hjá föður frá fimmtudagssíðdegi til föstudagsmorguns, þá viku sem reglulegar samvistir eru ekki.
- Um jól og áramót dvelji drengirnir til skiptis hjá foreldrunum, um jólin 2008 hjá föður frá hádegi á Þorláksmessu til hádegis á jóladag, og til skiptis um hver áramót, frá hádegi 30. desember til kl. 17:00 á nýársdag, fyrst hjá móður áramótin 2008/2009.
- Um páska dvelji drengirnir til skiptis hjá foreldrum frá skírdegi til annars í páskum, í fyrsta skipti hjá föður 2008.
- Á sumrin dvelji drengirnir hjá föður í 4 vikur á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst og skulu þeir samvistardagar nánar ákveðnir fyrir 1. maí ár hvert, og eina viku að vetri (vetrarfrí) á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí.
Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða barnalaga nr. 76/2003, sérstaklega 2. mgr. 35. gr., og um málsmeðferð til VI. kafla laganna og ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eftir því sem við eigi.
Vegna málskostnaðarkröfu er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 129. gr. sömu laga.
IV.
Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að sameiginlegri forsjá aðila með sonum þeirra verði slitið og henni einni falin forsjá barnanna til bráðabirgða.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða hvernig fara skuli um forsjá barns, eftir því sem barninu er fyrir bestu. Jafnframt getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Grundvallarsjónarmið við slíka ákvörðun er ávallt hvað barni sé fyrir bestu. Í 2. mgr. 35. gr. barnalaga segir að hafni dómari kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár, meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi, geti hann kveðið á um lögheimili barns, umgengni og meðlag til bráðabirgða. Dómari getur enn fremur ákveðið að barn skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl, enda þyki slíkt fyrirkomulag samræmast hagsmunum barns. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnalögum segir að almennt megi líta svo á að æskilegt teljist að forsjá haldist sameiginleg meðan máli er ráðið til lykta. Samkvæmt forsögu ákvæðisins, sbr. sambærilegt ákvæði í 36. gr. eldri barnalaga nr. 20/1992 og greinargerð með því, á ákvörðun um forsjá til bráðabirgða við þegar brýna nauðsyn ber til að skipa málum með þeim hætti.
Meginmálsástæður þær sem sóknaraðili byggir hér kröfur sínar á, um að hún sé hæfari til að fara með forsjá drengjanna, þeir séu tilfinningalega tengdari henni, og að með því yrði engin röskun fyrir þá, eiga fyrst og fremst við um skipan forsjár til frambúðar. Frekari gagnaöflun á eftir að fara fram í forsjármáli aðila og verður á þessu stigi ekkert fullyrt um forsjárhæfni aðila.
Fyrir dómi sagði sóknaraðili að varnaraðili hefði beitt hana ofríki og endurteknu ofbeldi og hótunum. Þessu mótmælir varnaraðili en viðurkennir að undir lok sambúðartíma þeirra hafi komið upp ágreiningur sem hafi endað í handalögmálum þeirra. Þetta hafi verið í eina skiptið í stormasömu sambandi þeirra þar sem hendur hafi verið látnar skipta. Hann harmi þetta atvik mjög og hafi beðið sóknaraðila afsökunar á hlut sínum í þeim, en tekur fram að sóknaraðili hafi verið margsaga um atburð þennan og horft fram hjá hlutdeild sinni í honum og áverkum sem hún hafi veitt honum. Ávirðingar sóknaraðila í garð varnaraðila eru því ósannaðar að öðru leyti en því sem varnaraðili hefur viðurkennt að til átaka hafi komið í eitt sinn. Fyrir dómi viðurkenndi sóknaraðili að hafa, eftir að aðilar höfðu slitið samvistum, eitt sinn í símtali við varnaraðila, í miklum hugaræsingi, hótað að taka líf sitt og drengjanna. Þótt bæði þessi atvik verði að teljast alvarleg er að mati dómara ekki ástæða til að ætla að börnunum sé hætta búin hjá hvorum aðila um sig þannig að brýn nauðsyn sé til að skipa forsjá barnanna hjá öðru þeirra.
Þá telur dómari að atvik í apríl sl., vegna veikinda yngri drengsins, geti ekki leitt til þess að fallist verði á kröfur sóknaraðila. Í þessu sambandi verður að líta til þess að varnaraðili fór með drenginn til læknis að morgni 15. apríl sem mat ástand hans og var ekkert því til fyrirstöðu að drengurinn færi heim að svo búnu. Þá kemur fram í gögnum málsins að sóknaraðili tók við drengnum og fór með hann þá um kvöldið til læknis, sem gaf ekki tilefni til sérstakra aðgerða. Fór drengurinn heim með sóknaraðila. Það var svo daginn eftir sem drengurinn reyndist vera með samfallið lunga að hluta. Að þessu virtu verður ekki fallist á að varnaraðili hafi vanrækt umönnun barnsins og það gefi tilefni til að skipa sóknaraðila forsjá drengjanna til bráðabirgða. Fram kom fyrir dómi að varnaraðili hefði leitað upplýsinga hjá lækni um astma, sem yngri drengurinn er með, og hvernig meðhöndla skuli sjúkdóminn.
Þótt góð samskipti og samstaða foreldra um hagsmuni barna sinna séu nauðsynleg svo sameiginleg forsjá geti gengið telur dómari það ekki þjóna best hagsmunum drengjanna að fella niður sameiginlega forsjá og skapa þannig öðrum aðilanum betri stöðu en hinum í forsjárdeilu þeirra. Fyrir dómi sagði sóknaraðili að drengirnir væru alltaf glaðir og í meira jafnvægi en áður eftir umgengni hjá varnaraðila. Er ekki óeðlilegt að drengirnir hafi þurft tíma til að aðlagast breyttum högum eftir samvistarslit aðila. Að öllu virtu verður kröfum aðila hvors um sig, um forsjá drengjanna til bráðabirgða, hafnað. Skulu aðilar því fara áfram sameiginlega með forsjá þeirra.
Ágreiningur er með aðilum um það hvernig umgengni skuli háttað meðan forsjármálið er til meðferðar fyrir dómi. Drengirnir hafa búið hjá sóknaraðila og umgengni við varnaraðila verið aðra hverja viku frá síðdegi föstudags til mánudagsmorguns. Krefst sóknaraðili þess að umgengni verði úrskurðuð með þeim hætti. Varnaraðili krefst þess hins vegar að börnin búi hjá aðilum á víxl þar til niðurstaða fæst um forsjá til frambúðar. Dómari telur nauðsynlegt að tryggja drengjunum og varnaraðila nokkuð rúma umgengni, án þess þó að raska högum drengjanna of mikið, svo þeir haldi góðum tengslum við báða foreldra sína meðan forsjármálið er til meðferðar. Með hliðsjón af því hvernig búsetu drengjanna og högum þeirra hefur verið háttað þykir ekki unnt að fallast hér á með varnaraðila að þeir dvelji hjá aðilum á víxl.
Drengirnir skulu njóta umgengni við varnaraðila, þar til leyst hefur verið úr um forsjá þeirra til frambúðar, aðra hverja viku frá eftirmiðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns. Drengirnir skulu dvelja í þrjár vikur í sumarleyfi með varnaraðila. Varnaraðili skal tilkynna sóknaraðila eigi síðar en 1. júlí nk. á hvaða tímabili sumarsins hann hyggst taka sumarleyfi með drengjunum. Þá skulu drengirnir dvelja tvisvar hjá varnaraðila, eina viku í senn, á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí. Varnaraðili skal tilkynna sóknaraðila fyrir 1. október hvenær hann hyggst taka vetrarleyfi með drengjunum.
Ákvörðun málskostnaðar verður látin bíða efnisdóms í málinu.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð.
Kröfum aðila, hvors um sig, um að fá forsjá drengjanna, A og B, til bráðabirgða er hafnað.
Umgengni varnaraðila við drengina skal vera aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns.
Drengirnir skulu dvelja í þrjár vikur í sumarleyfi með varnaraðila. Varnaraðili skal tilkynna sóknaraðila eigi síðar en 1. júlí nk. á hvaða tímabili sumarsins hann hyggst taka sumarleyfi með drengjunum.
Þá skulu drengirnir dvelja tvisvar hjá varnaraðila, eina viku í senn, á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí. Varnaraðili skal tilkynna sóknaraðila fyrir 1. október hvenær hann hyggst taka vetrarleyfi með drengjunum.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.