Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Óðalsréttur
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 15. febrúar 2000. |
|
Nr. 18/2000. |
Sigrún Jónsdóttir (Othar Örn Petersen hrl.) gegn Hákoni BjarnasyniBirnu Jónasdóttur Jóni B. Jónassyni Árna Múla Jónassyni Ingunni Önnu Jónasdóttur Ragnheiði Jónasdóttur (Karl Axelsson hrl.) Sigríði J. Valdimarsdóttur (Ásgeir Jónsson hdl.) Halldóri Bjarnasyni Flosa Ólafssyni og Ólafi Flosasyni (Jakob R. Möller hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Óðalsréttur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
J seldi G, syni sínum, jörð. Í afsalinu var tekið fram að jörðin væri óðalsjörð og að gamalt íbúðarhús væri undanskilið í kaupunum. Við andlát G varð eiginkona hans eigandi jarðarinnar samkvæmt skiptayfirlýsingu. Seldi hún hluta jarðarinnar að undanskildu húsinu. S, dóttir J taldi til eignar yfir gamla íbúðarhúsinu. Í dómsmáli sem hún höfðaði krafðist hún bæði viðurkenningar á eignarrétti sínum að því og ógildingar á kaupsamningum sem gerðir höfðu verið um jörðina. Var ógildingarkrafan byggð á því að jörðin hefði verið gerð að óðalsjörð og hefði því borið að bjóða systkinum G að taka við henni áður en hún var seld. Héraðsdómur vísaði ógildingarkröfunum frá dómi á þeim forsendum að ekki lægi fyrir að S ætlaði að nýta sér rétt sinn til jarðarinnar ef fallist yrði á kröfur hennar. Hæstiréttur felldi frávísunarúrskurðinn úr gildi. Var niðurstaðan rökstudd með því að það væri á færi S að tryggja að hugsanlegur réttur til ættaróðals færi ekki forgörðum. Hefði hún lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þessar kröfur sínar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. janúar 2000. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 16. desember 1999, þar sem vísað var frá dómi kröfum sóknaraðila um að ógilt verði annars vegar sala varnaraðilans Sigríðar J. Valdimarsdóttur á hluta jarðarinnar Breiðabólsstaðar í Borgarfjarðarsveit til Jónasar Árnasonar og varnaraðilanna Hákonar Bjarnasonar og Birnu Jónasdóttur með afsali 6. mars 1997 og hins vegar sala þeirra tveggja síðastnefndu og dánarbús Jónasar Árnasonar á sama hluta jarðarinnar til varnaraðilanna Halldórs Bjarnasonar, Flosa Ólafssonar og Ólafs Flosasonar með kaupsamningi 30. október 1998. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.
I.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði fékk Ingólfur Guðmundsson afsal 12. maí 1909 frá íslenska ríkinu fyrir jörðinni Breiðabólsstað. Sonur hans, Jón Ingólfsson, eignaðist jörðina úr hendi hans. Mun Jón hafa átt þrjú börn, Gunnar, Unni og Sigrúnu, sem er sóknaraðili málsins. Hinn 13. janúar 1971 gerðu þeir Jón og Gunnar kaupsamning um jörðina, sem jafnframt var afsal fyrir henni til Gunnars. Undanskilið í kaupunum var „gamla íbúðarhúsið“ á jörðinni, sem svo var nefnt í samningnum. Þá sagði þar ennfremur: „Jörðin er óðalsjörð.“ Gunnar Jónsson lést 9. apríl 1990 og var eftirlifandi eiginkona hans, varnaraðilinn Sigríður J. Valdimarsdóttir, einkaerfingi eftir hann. Varð hún eigandi jarðarinnar samkvæmt skiptayfirlýsingu 7. maí 1990.
Varnaraðilinn Sigríður gerði kaupsamning 18. mars 1996 við varnaraðilana Hákon og Birnu ásamt Jónasi Árnasyni um hluta jarðarinnar Breiðabólsstaðar. Var hið selda afmarkað þannig að um væri að ræða þann hluta jarðarinnar, sem væri ofan þjóðvegar, með mannvirkjum að frátöldu sumarhúsi. Þá fylgdi í kaupunum réttur til nánar tiltekinna nota af heitu vatni úr borholu í landi jarðarinnar handan þjóðvegar. Gaf varnaraðilinn Sigríður út afsal til kaupendanna fyrir eignarhlutanum 6. mars 1997. Fyrir liggur í málinu að Jónas Árnason lést 5. apríl 1998, en erfingjar hans, varnaraðilarnir Birna, Jón, Árni Múli, Ingunn Anna og Ragnheiður, fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúi hans 28. september sama árs. Stóðu þau í nafni dánarbúsins, Birna jafnframt í eigin nafni og varnaraðilinn Hákon að kaupsamningi 30. október 1998, þar sem sami eignarhluti var seldur varnaraðilunum Halldóri, Flosa og Ólafi. Var meðal annars tekið fram í þeim kaupsamningi að ágreiningur væri um lóðarréttindi sumarhúss á jörðinni, en kaupendur tækju að sér „lausn þess máls.“ Síðastnefndu varnaraðilarnir fengu afsal fyrir eignarhlutanum 13. janúar 1999.
Sóknaraðili höfðaði málið með stefnu 19. apríl 1999, þar sem þess var krafist að ógilt yrði sala varnaraðilans Sigríðar á fyrrnefndum eignarhluta í jörðinni með afsalinu 6. mars 1997 til Jónasar Árnasonar og varnaraðilanna Hákonar og Birnu, að ógilt yrði sala dánarbús Jónasar og síðastnefndra varnaraðila á eignarhlutanum með kaupsamningnum 30. október 1998 til varnaraðilanna Halldórs, Flosa og Ólafs, að viðurkenndur yrði eignarréttur sóknaraðila að íbúðarhúsi á hinu selda landi ásamt lóð, aðallega 6.544 m2 að stærð en til vara 1.536 m2 með nánar tilteknum mörkum, og að viðurkenndur yrði eignarréttur sóknaraðila að þriðjungi heitavatnslagna í landi jarðarinnar og réttur hennar til endurgjaldslausra nota af heitu og köldu vatni úr landinu. Ekki er deilt um að íbúðarhús, sem sóknaraðili telur til eignarréttar yfir samkvæmt framansögðu, sé það sama og nefnt var „gamla íbúðarhúsið“ í kaupsamningi og afsali 13. janúar 1971 og síðan sumarhús í kaupsamningunum frá 18. mars 1996 og 30. október 1998. Fyrir héraðsdómi krafðist varnaraðilinn Sigríður þess að vísað yrði frá dómi þremur fyrstnefndu kröfum sóknaraðila, sem getið er hér að framan. Varnaraðilarnir Hákon, Birna, Jón, Árni Múli, Ingunn Anna og Ragnheiður kröfðust frávísunar á tveimur fyrstnefndu kröfunum. Varnaraðilarnir Halldór, Flosi og Ólafur kröfðust þess að vísað yrði frá kröfu um ógildingu á sölu eignarhlutans til sín með kaupsamningnum frá 30. október 1998. Með hinum kærða úrskurði var tveimur fyrstnefndu kröfum sóknaraðila vísað frá dómi, en hafnað kröfu varnaraðilans Sigríðar um frávísun þriðju kröfunnar. Er úrskurðurinn hér aðeins til endurskoðunar að því er varðar þær kröfur, sem vísað var frá dómi með honum.
II.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar, sem var vísað frá dómi með hinum kærða úrskurði, á því að með áður tilvitnaðri yfirlýsingu í kaupsamningi og afsali frá 13. janúar 1971 hafi jörðin Breiðabólsstaður orðið ættaróðal. Varnaraðilanum Sigríði hafi því borið að bjóða eftirlifandi systkinum eiginmanns síns að taka við óðalinu með þeim skilmálum, sem er getið í 51. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sbr. 11. gr. laga nr. 90/1984, áður en því yrði ráðstafað til annarra. Þar sem varnaraðilinn hafi vanrækt þetta séu skilyrði til að ógilda sölu hennar á jörðinni, svo og ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á grunni þeirrar sölu.
Efnislega verður afstaða ekki tekin til umræddra krafna sóknaraðila nema með því að leyst verði úr hvort Breiðabólsstaður hafi verið gerður að ættaróðali, svo sem hún heldur fram. Sóknaraðila var því engin þörf á að gera sérstaka dómkröfu um að viðurkennt yrði að jörðin væri óðalsjörð. Úrlausn um slíka dómkröfu myndi heldur ekki ein og sér fela í sér niðurstöðu um gildi eigendaskipta, sem hafa orðið að hluta jarðarinnar. Eru því engin efni til að finna að kröfum sóknaraðila af ástæðum, sem að þessu snúa, eins og varnaraðilar hafa gert.
Hafi Breiðabólsstaður orðið óðalsjörð með áðurnefndri ráðstöfun, sem sóknaraðili vísar til, væru ráð yfir henni háð margvíslegum frávikum frá almennum reglum, sem um ræðir í VII. kafla jarðalaga með áorðnum breytingum, þar á meðal höft um ókomna tíð á því hverjir gætu orðið eigendur að henni, sbr. 63. gr. laganna. Þótt sóknaraðili myndi ef á reyndi afsala sér rétti samkvæmt síðastnefndu ákvæði til að taka við óðalinu, fengi það ekki breytt því að öðrum skyldmennum látins eiginmanns varnaraðilans Sigríðar, sem getið er í c. lið þess, væri geymdur sá réttur. Yrði ekki unnt að bjóða þann rétt og virða ef ráðstöfun þessa varnaraðila á jörðinni yrði látin standa óhögguð. Sem einn rétthafa samkvæmt umræddum c. lið 63. gr. jarðalaga er á færi sóknaraðila að höfða mál til að tryggja að réttur til ættaróðals fari ekki forgörðum, hafi jörðin löglega verið gerð að ættaróðali. Hefur hún lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfur sínar þótt hún láti í engu uppi hvort hún myndi krefjast þess að taka við óðalinu þegar lögákveðin skilyrði kynnu að verða til eigendaskipta að því. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur sóknaraðila til efnismeðferðar.
Aðilarnir skulu hver bera sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka kröfur sóknaraðila til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 16. desember 1999.
Stefnandi máls þessa er Sigrún Jónsdóttir, kt. 310823-4309, Krummahólum 17 Reykjavík. Þessum mönnum er stefnt: Hákoni Bjarnasyni, kt. 200360-2069 og Birnu Jónasdóttur, kt. 180356-0029, báðum til heimilis á Geldingalæk, Hellu; Jóni B. Jónassyni, kt. 081045-4459, Sæbraut 18 Seltjarnarnesi; Árni Múli Jónasson, kt. 140559-7769, Hjarðarhaga 36 Reykjavík; Ingunni Önnu Jónasdóttur, kt. 300848-4009, Brekkubraut 10 Akranesi; Ragnheiði Jónasdóttur, kt. 080250-4449, Kópareykjum Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit; Sigríði Valdimarsdóttur, kt. 140230-2199, Gnoðarvogi 24 Reykjavík; Halldóri Bjarnasyni, kt. 151140-4839, Leirutanga 33 Mosfellsbæ; Flosa Ólafssyni, kt. 271029-2179, Bergi Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit, og Ólafi Flossyni, kt. 131056-3549, Breiðabólsstað, Reykholtsdal, Borgarfjarðarsveit.
Mál þetta var þingfest 4. maí 1999. Greinargerðir stefndu voru lagðar fram 7. september sl. og málinu þá frestað til 5. október. Þá var ákveðinn málflutningur um frávísunarkröfur sem komnar voru fram af hálfu stefndu. Fór hann fram föstudaginn 3. desember sl. Var málið þá tekið til úrskurðar.
Dómkröfur stefnanda eru þessar í heild:
a) Að ógilt verði sala stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur með afsali, dagsettu 6. mars 1997, til stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.
b) Að ógilt verði sala stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar með kaupsamningi, dags. 30. október 1998, til stefndu Flosa Ólafssonar, Halldórs Bjarnasonar og Ólafs Flosasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.
c) Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að íbúðarhúsi og 6.544 m2 lóð umhverfis það á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, sem auðkennd er á meðfylgjandi uppdrætti, þannig hnitmerkt: Frá punkti nr. 36 (x-hnit 656657.035, y-hnit 467365.083) að punkti nr. 37 (x-hnit 656552.974, y-hnit 467355.405), frá þeim punkti að punkti nr. 38 (x-hnit 656558.773, y-hnit 467293.054) og frá þeim punkti að punkti nr. 39 (x-hnit 656662.834, y-hnit 467302.732), auk umferðarréttar að greindri fasteign, nánar tiltekið um malarveg, sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og útihúsum.
Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að íbúðarhúsi og 1.536 m2 lóð umhverfis það á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, sem auðkennd er á meðfylgjandi uppdrætti, þannig hnitmerkt: Frá punkti nr. 32 (x-hnit 656649.464, y-hnit 467358.666) að punkti nr. 33 (x-hnit 656601.623, y-hnit 467354.758), frá þeim punkti að punkti nr. 34 (x-hnit 656604.229, y-hnit 467322.864), og frá þeim punkti að punkti nr. 35 (x-hnit 656652.069, y-hnit 467326.773), auk umferðarréttar að greindri fasteign, nánar tiltekið um malarveg, sem liggur frá þjóðvegi að gamla íbúðarhúsinu og útihúsum.
d) Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að 1/3 hluta í heitavatnslögnum á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu.
e) Þá krefst stefnandi að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til endurgjaldslausrar notkunar á heitu og köldu vatni jarðarinnar.
f) Að stefndu verði í öllum tilvikum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins og við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Frávísunarkröfur stefndu eru sem hér greinir:
Stefnda Sigríður Valdimarsdóttir krefst þess að vísað verði frá dómi kröfum stefnanda samkvæmt kröfuliðum a og b í stefnu, sbr. hér að framan, og kröfu um viðurkenningu á eignarrétti að “gamla íbúðarhúsinu” að Breiðabólsstað samkv. kröfulið c í stefnu. Stefnda Sigríður krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda í þessum þætti máls og að við málskostnaðarákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Stefndu Hákon Bjarnason, Birna Jónasdóttir, Jón B. Jónasson, Árni Múli Jónasson, Ingunn Anna Jónasdóttir og Ragnheiður Jónasdóttir krefjast þess að kröfum stefnanda skv. kröfuliðum a og b í stefnu verði vísað frá dómi. Þau krefjast þess að stefnandi verði dæmd til að greiða þeim málskostnað að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndu Halldór Bjarnason, Flosi Ólafsson og Ólafur Flosason, krefjast þess að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda skv. kröfulið b í stefnu. Þeir krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda og að við málskostnaðarákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Hér er ekki ástæða til að rekja aðrar kröfur en frávísunarkröfurnar.
Stefnandi krefst þess í þessum þætti máls að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og málið tekið til efnislegrar meðferðar. Hann krefst málskostnaðar úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Málavextir eru í stuttu máli þessir:
Björn Jónsson ráðherra afsalaði jörðinni Breiðabólsstað, Reykholtsdalshreppi Borgarfjarðarsýslu, fyrir hönd landsjóðs til Ingólfs Guðmundssonar, ábúanda jarðarinnar, með afsali dags. 12. maí 1909. Einkabarn Ingólfs og konu hans, Jón, varð síðar eigandi jarðarinnar. Jón eignaðist þrjú börn, Unni, stefnanda Sigrúnu og Gunnar. Gunnar tók við búskap á jörðinni af foreldrum sínum. Árið 1955 byggði Gunnar nýtt íbúðarhús á jörðinni. Stefnda Sigríður telur að hún hafi flust að Breiðabólsstað í maí 1964 sem ráðskona Gunnars. Þau gengu í hjónaband 30. desember 1965. Með kaupsamningi og afsali 13. janúar 1971 seldi Jón Ingólfsson syni sínum Gunnari jörðina Breiðabólsstað með öllum gögnum hennar og gæðum. Undanskilið sölunni var þó “gamla íbúðarhúsið”. Gunnar lést 9. apríl 1990. Þau Gunnar og stefnda, Sigríður voru barnlaus, og var hún einkaerfingi hans. Með kaupsamningi dags. 18. mars 1996, seldi stefnda Sigríður, stefndu Hákoni, Birnu og Jónasi Árnasyni, föður Birnu, þann hluta jarðarinnar Breiðabólsstaðar sem liggur ofan þjóðvegar. Jónas er látinn. Í kaupsamningum segir að kaupendum sé kunnugt um “sumarhús sem stendur á jörðinni”. Með kaupsamningi dags. 30. október 1998 seldu stefndu Hákon og Birna og dánarbú Jónasar Árnasonar stefndu Halldóri, Flosa og Ólafi jörðina, þ.e. þann hluta sem seljendur keyptu 29. janúar 1996.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Í greinargerð stefndu Halldórs, Flosa og Ólafs, er höfð uppi sú málsástæða fyrir því að vísa beri frá b-lið í kröfugerð stefnanda, að kröfuliður þessi sé þeim annmarka háður, að hann skapaði stefnanda ekki neinn rétt, jafnvel þótt á hann yrði fallist. Stefnandi hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um þetta atriði, og beri að vísa kröfuliðnum frá dómi samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Önnur stefndu taka undir þessa málsástæðu og þessi lagarök og gera að sínum í greinargerðum sínum, hvað varðar kröfuliði a og b.
Um kröfu stefndu Sigríðar um að vísað verði frá dómi stefnukröfu í c-lið, um að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda að íbúðarhúsi, segir í greinargerð stefndu: “Stefnda [Sigríður] hefur ávallt litið svo á að stefnandi væri eigandi “gamla íbúðarhússins”, án þess að hafa fyrir því áreiðanlegar skjalfestar heimildir. Yfirfærsla eignarréttar á “gamla íbúðarhúsinu” til stefnanda er mál sem snertir annars vegar dánarbú Jóns Ingólfssonar, sem er þinglesinn eigandi, og hins vegar stefndu. Kröfum um viðurkenningu á eignarrétti á “gamla íbúðarhúsinu” er ranglega beint að stefndu og ber að vísa frá dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnda, Sigríður J. Valdimarsdóttir, getur ekki ein ráðstafað réttindum dánarbús Jóns Ingólfssonar, en hefur ekki og mun ekki standa í vegi fyrir eignarréttartilkalli stefnanda á “gamla íbúðarhúsinu”.” Í greinargerð stefndu Halldórs, Flosa og Ólafs, segir að þeir leiði hjá sér deilu um eignarrétt að gamla íbúðarhúsinu. Þeir telji ekki til eignarréttar að þessu húsi, og sé kröfunni ranglega beint að þeim. Telja þeir að af þeim sökum eigi að sýkna þá af þessari kröfu. Undir þessa málsástæðu og kröfu taka stefndu Hákon og Jónasarbörn og gera að sínum.
Niðurstöður.
Sem fyrr segir keypti Gunnar Jónsson jörðina Breiðabólsstað af föður sínum með kaupsamningi og afsali 13. janúar 1971. Í afsalinu segir: “Jörðin er óðalsjörð”. Í stefnu segir að stefnandi “byggir [a-lið og b-lið kröfugerðar] á því að í umræddu afsali felist yfirlýsing um að jörðin sé ættaróðal og með undirritun sinni á afsalið hafi Gunnar undirgengist og samþykkt að lúta þeim reglum sem um ættaróðul gilda. Þar með hafi jörðin Breiðabólsstaður verið bundin þeim kvöðum og sérákvæðum laga sem um slíkar jarðir giltu og gilda enn að meginstefnu til.” Í framhaldi af þessu heldur stefnandi því fram að stefndu Sigríði hafi borið að leita til systkina Gunnars áður en hún ráðstafaði jörðinni og bjóða þeim jörðina með þeim skilmálum sem lagareglur um ættaróðul kváðu á um.
Ef fallist yrði á þá málsástæðu stefnanda sem hér var tilgreind og þar með á kröfuliði a og b, skapaði það henni ákveðinn rétt að lögum. Hún er með öðrum orðum að leita eftir úrlausn dómsins á því hvort hún á tiltekinn rétt að lögum, án þess að séð verði hvort eða hvernig hún ætlar að nýta sér þann rétt. Hér er því að mati dómara um svokallaða lögspurningu að ræða, en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er dóminum óheimilt að leysa úr slíku álitaefni. Ber því að verða við kröfum stefndu um að kröfuliðum a og b í kröfugerð stefnanda verði vísað frá dómi.
Stefnandi telur til eignarréttar yfir “gamla íbúðarhúsinu” á Breiðabólsstað. Hana skortir skilríki fyrir þessum eignarrétti. Í stefnu kemur fram að stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á eignarréttinum á því að faðir hennar, Jón Ingólfsson, hafi gefið henni húsið, en ekki hafi verið gengið frá skriflegum gerningi um gjöfina. Stefnda Sigríður ber ekki brigður á eignarrétt stefnanda, en telur kröfunni ranglega að sér beint, þar sem hún sé ekki ein bær um að ráðstafa sakarefninu, heldur verði dánarbú Jóns Ingólfssonar að koma þar til.
Í málinu hefur verið lagt fram bréf sýslumannsins í Borgarnesi til lögmanns stefnanda, dags. 24. september 1999. Þar kemur fram, að við athugun á dánarbúi Jóns Ingólfssonar (d. 2. febrúar 1982) hafi komið í ljós erfðafjárskýrsla, dags. 13. maí 1984, þar sem dánarbúið er lýst eignalaust.
Tveir erfingjar Jóns Ingólfssonar eru á lífi, dætur hans, stefnandi þessa máls og Unnur Jónsdóttir. Lögð hefur verið fram í málinu yfirlýsing Unnar, dags. 1. desember 1999, vottuð tveimur vottum, svohljóðandi: “Ég undirrituð, Unnur Jónsdóttir, kt. 140620-4169, Deildartungu, vil árétta að ég samþykki að systir mín, Sigrún Jónsdóttir, eigi gamla íbúðarhúsið ásamt lóð á jörðinni Breiðabólsstað og hafði ég lýst því yfir við hana að hún gæti farið ein í mál til viðurkenningar á því, sbr. yfirlýsingu mína frá 3. maí 1998. Í þessari yfirlýsingu minni fólst því jafnframt að ég væri samþykk dómkröfum Sigrúnar, sem koma fram í stefnu hennar dags. 19. apríl 1999 og þingfestri í Héraðsdómi 4. maí 1999.”
Að fram kominn framanritaðri yfirlýsingu Unnar Jónsdóttur, telur dómari að ekki geti valdið frávísun kröfu stefnanda um eignarrétt að gamla íbúðarhúsinu, að ekki er fleiri aðiljum stefnt í málinu en gert hefur verið. Verður kröfunni ekki vísað frá dómi skv. 1. eða 2. mgr. 18. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Ekki er fram komið að efni séu til að vísa frá dómi öðrum kröfum stefnanda í máli þessu en þeim sem hér hefur verið fjallað um.
Dómari telur rétt að ákvörðun um málskostnað bíði endanlegrar úrlausnar í máli þessu fyrir héraðsdóminum.
Athuga ber að jörðin Breiðabólsstaður er í Reykholtsdal í Borgarfjarðarsveit, en það er nafn sveitarfélagsins sem til varð við sameiningu Andakílshrepps, Lundareykjadalshrepps, Reykholtsdalshrepps og Hálsahrepps vorið 1998.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi kröfu stefnanda skv. a-lið í kröfugerð hennar um, að ógilt verði sala stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur með afsali, dagsettu 6. mars 1997, til stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi (nú í Borgarfjarðarsveit), þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.
Vísað er frá dómi kröfu stefnanda skv. b-lið í kröfugerð hennar um, að ógilt verði sala stefndu Hákonar Bjarnasonar, Birnu Jónasdóttur og Jónasar Árnasonar með kaupsamningi, dags. 30. október 1998, til stefndu Flosa Ólafssonar, Halldórs Bjarnasonar og Ólafs Flosasonar, á jörðinni Breiðabólsstað í Reykholtsdalshreppi (nú í Borgarfjarðarsveit), Borgarfjarðarsýslu, þ.e. þeim hluta jarðarinnar sem er ofan þjóðvegar, ásamt mannvirkjum og öllu sem fylgir og fylgja ber.
Hafnað er kröfu stefndu Sigríðar Valdimarsdóttur um að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda um viðurkenningu á eignarrétti að “gamla íbúðarhúsinu” að Breiðabólsstað samkv. kröfulið c í stefnu.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegrar úrlausnar í máli þessu fyrir héraðsdóminum.