Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2008


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Iðgjöld
  • Sjómaður
  • Kjarasamningur


                                                        

Fimmtudaginn 5. mars 2009.

Nr. 359/2008.

Gildi lífeyrissjóður

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Hamravik ehf.

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

 

Lífeyrissjóður. Iðgjöld. Sjómenn. Kjarasamningur.

G krafðist greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda vegna sjö skipverja sem voru lögskráðir á fiskiskipið K frá júlí og fram í desember 2006. H hafði tekið að sér útgerð skipsins með samningi við E, eiganda þess, 11. júlí 2006 og skuldbundið sig samkvæmt samningnum til að greiða þann launakostnað sem fylgdi útgerð skipsins. H hafði skilað til G skilagreinum vegna sumra skipverja fyrir júlí til og með október 2006, en ekki vegna nóvember og desember. G kvað skilagreinar H ekki gefa rétta mynd af fjárhæð iðgjalda sem honum hefði borið að standa skil á. Iðgjaldagreiðslur hefðu hvorki miðast við laun sem borið hefði að greiða samkvæmt kjarasamningum né hefði verið greitt fyrir allan þann tíma sem átt hefði að greiða fyrir. H hefði aðeins að litlu leyti staðið skil á greiðslum iðgjalda og væri mismunurinn höfuðstóll stefnufjárhæðar. Grundvallaðist áætlun G á útreikningum Verðalagsstofu skiptaverðs um hvað skipverjar hefðu átt að fá greitt í laun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um lágmarkskjör. Hæstiréttur taldi að skilagreinar H hefðu verið markleysa þar sem þær hefðu ekki miðast við lögbundin lágmarkslaun. Þegar af þeirri ástæðu hefði G borið að áætla iðgjöld H og innheimta þau í samræmi við samþykktir sínar. Þá yrði hvorki séð að H hefði byggt á því við meðferð málsins í héraði að H hefði ekki haft heimild til að fá þær upplýsingar frá verðlagsstofu, sem hann grundvallaði áætlun sína á, né að á H hefðu verið brotnar málsmeðferðarreglur við þá útreikninga. Hefði H raunar ekki haldið því fram að útreikningarnir hefðu verið rangir um verðmæti afla og ekki andmælt þeim tölulega. Var því við þá miðað. Loks taldi Hæstiréttur að þar sem ekki hefðu verið lögð fram gögn um að einn skipverja hefði starfað sem verktaki og annar sem sjálfboðaliði kæmi það ekki til álita í málinu. Var H dæmdur til að greiða G höfuðstól dómkröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.389.364 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 179.081 krónu frá 10. ágúst 2006 til 10. september sama ár, af 631.998 krónum frá þeim degi til 10. október sama ár, af 990.348 krónum frá þeim degi til 10. nóvember sama ár, af 1.188.365 krónum frá þeim degi til 10. desember sama ár, af 1.349.860 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2007, en af 1.389.364 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu, staðfestingar á ákvörðun héraðsdóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst stefndi lækkunar á kröfu áfrýjanda og niðurfellingar málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Með samningi stefnda við Ebbu ehf. tók hann að sér 11. júlí 2006 útgerð fiskiskipsins Kristbjargar HU 82, en fyrrgreinda fyrirtækið mun vera eigandi skipsins. Í samningnum segir að stefndi skuli sjá um „á sinn kostnað allan starfsmannatengdan kostnað vegna áhafnar á skipinu á hverjum tíma, þar með talin laun og launatengd gjöld“. Eins og nánar greinir í héraðsdómi krefst áfrýjandi þess að stefndi inni af hendi lífeyrisiðgjöld vegna sjö skipverja sem lögskráðir voru á skipið frá júlí og fram í desember 2006. Stefndi skilaði til áfrýjanda skilagreinum vegna sumra skipverja og þá vegna hluta þessa tíma, eða fyrir júlí til og með október 2006, en ekki vegna nóvember og desember. Áfrýjandi kveður skilagreinar stefnda ekki gefa rétta mynd af fjárhæð iðgjalda sem honum hafi borið að standa skil á. Iðgjaldagreiðslur hafi hvorki miðast við laun sem borið hafi að greiða samkvæmt kjarasamningnum né hafi verið greitt fyrir allan þann tíma sem átt hafi að greiða fyrir. Hafi stefndi aðeins að litlu leyti staðið skil á greiðslum iðgjalda, eða á 625.748 krónum í stað 2.015.112 króna. Mismunurinn sé höfuðstóll stefnufjárhæðar. Vísar áfrýjandi um stefnufjárhæð til áætlunar sinnar sem grundvallist á útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs um hvað skipverjar hefðu átt að fá greitt í laun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um lágmarkskjör, en fengu ekki samkvæmt gögnum málsins um lögskráningu, landanir skipsins og fiskverð. Stefndi kveðst hins vegar hafa greitt iðgjöld í samræmi við skilagreinar en þær hafi verið í samræmi við greidd laun þeirra skipverja sem þau þáðu. Þá hafi hann greitt 636.102 krónur í iðgjaldagreiðslur vegna umþrættra tímabila en ekki 625.748 krónur eins og áfrýjandi haldi fram.

II

Málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í héraðsdómi. Áfrýjandi vísar einkum til ákvæða laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveði á um skyldu sína til innheimtu lífeyrisiðgjalda eftir mati fáist ekki fullnægjandi upplýsingar um fjárhæð iðgjalda. Stefndi hefur fært fram fjölmargar málsástæður til stuðnings kröfum sínum. Hann kveðst þó aðallega reisa þær á því að lífeyrissjóður geti ekki átt sjálfstæða kröfu á atvinnurekanda, óháð kröfu launþega, þar sem krafa launþegans hljóti ávallt að mynda iðgjaldsstofn þann sem sé forsenda iðgjalds og samræmist grunnhugsun að baki lögum nr. 129/1997. Um þetta vísar stefndi einkum til 3. gr. laganna. Umræddir launþegar hafi haft þau laun sem sjá megi af skilagreinum og einn þeirra hafi ekki þegið laun fyrir störf sín. Þá hafi annar unnið á skipinu sem verktaki.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 skal iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Á þeim tíma sem um ræðir í þessu máli sagði í ákvæðinu að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skyldi vera hið minnsta 10% af iðgjaldsstofni. Í 3. gr. laganna segir að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt 2. gr. skuli reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru samkvæmt 1. mgr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá. Þá segir í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningur tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir. Þá leiðir hin sama niðurstaða af gagnályktun frá 4. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þar sem segir að samtök sjómanna og útgerðarmanna geti samið um betri réttindi sjómönnum til handa en leiðir af ákvæðum þeirra laga. Samkvæmt framangreindu ber að telja að með orðunum heildarfjárhæð greiddra launa í 3. gr. laga 129/1997 sé átt við að stofn til útreiknings lífeyrisiðgjalda sé að minnsta kosti sú heildarfjárhæð launa er samið sé um að greiða skuli samkvæmt kjarasamningum þeim er gilda um starfskjör viðkomandi manna. Eins og áður greinir skuldbatt stefndi sig með samningi við Ebbu ehf. til að greiða þann launakostnað sem fylgdi útgerð skipsins. Á þeim tíma sem hér um ræðir giltu um lífeyrisiðgjöld og önnur kjör sjómanna framlagðir kjarasamningar Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Samkvæmt framansögðu er stefnda skylt að standa skil á lífeyrisiðgjöldum miðað við þau lámarkslaun sem um er samið í þeim kjarasamningum. 

Stefndi hefur ekki mótmælt fullyrðingum áfrýjanda um að iðgjaldsskylda vegna skipverja hans skuli, eins og nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi, ýmist miðuð við 10% lágmarksiðgjald af iðgjaldsstofni eða 11%, sbr. kjarasamninga og samþykktir áfrýjanda, verði á annað borð fallist á iðgjaldsskyldu vegna skipverja. Hins vegar kveður hann greiðslu iðgjalds úr hendi atvinnurekanda fyrst njóta lögverndar er fram komi skilagrein sem tilgreini iðgjaldsstofn eða farið hafi fram áætlun áfrýjanda, hafi engin skilagrein borist, sbr. grein 9.9 í samþykktum áfrýjanda. Slíkri áætlun sé hins vegar ekki fyrir að fara og gæti ekki heldur átt við, enda hafi áfrýjanda borist skilagreinar frá stefnda.  Telji áfrýjandi að stefndi hafi ekki uppfyllt skyldu sína þá sé það ríkisskattstjóra en ekki áfrýjanda að leggja á iðgjald, sbr. 6. gr. laga nr. 129/1997 og athugasemdir með frumvarpi við þá grein, þar sem segir: „Komi í ljós að skyldutrygging hafi ekki verið uppfyllt ber að gefa viðkomandi kost á því að uppfylla iðgjaldaskylduna innan tilskilins frests en sinni hann ekki þeirri skyldu getur ríkisskattstjóri lagt á hann iðgjald og sent það innheimtumanni ríkissjóðs eða öðrum til innheimtu.“

Í 6. gr. laga nr. 129/1997 er að finna ákvæði um eftirlitskyldu ríkiskattstjóra með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Er lífeyrissjóðum gert skylt að tekjuári liðnu að gera ríkisskattstjóra grein fyrir því iðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda sem greitt hefur verið til þeirra fyrir hvern rétthafa á því ári. Þá skal ríkisskattstjóri að tekjuári liðnu senda hverjum og einum lífeyrissjóði yfirlit vegna hvers manns sem er aðili að sjóðnum eftir þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið samkvæmt þessari grein. Um nánari útfærslu á eftirliti ríkisskattstjóra með lífeyrissjóðum og atvinnurekendum gildir reglugerð nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða með síðari breytingum. Þær athugasemdir er fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 129/1997, og stefndi vísar til, lýsa því að upphaflega var gert ráð fyrir mun ríkara hlutverki ríkisskattstjóra við innheimtu lífeyrisiðgjalda en síðar var ákveðið við meðferð frumvarpsins á Alþingi. Um það segir í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að lagðar séu til breytingar á 6. gr. frumvarpsins í þá veru að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með því að skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði sinnt og að lífeyrissjóðir og launagreiðendur sendi honum upplýsingar um iðgjaldaskil. Einnig verði við það miðað að lífeyrissjóðirnir sjálfir sjái um innheimtuna, en í þeim tilvikum sem ekki liggi fyrir upplýsingar um aðild verði Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda falið að innheimta iðgjaldið. Í þessu felist sú breyting að horfið sé frá því að fela ríkisskattstjóra að leggja á menn iðgjald. Iðgjaldagreiðslur þær sem stefndi innti af hendi vegna sjómanna á skipinu runnu til áfrýjanda en í reglugerð nr. 391/1998 segir að um aðild að lífeyrissjóði fari eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Samkvæmt öllu framansögðu er ekki fallist á með stefnda að ríkisskattstjóra sé ætlað að leysa áfrýjanda undan þeirri skyldu að innheimta vangoldin iðgjöld vegna sjóðfélaga sinna. Verður ekki fallist á með stefnda að sýkna beri hann vegna þess að áfrýjandi sé ekki réttur aðili máls.

III

Stefndi gerir einnig þær athugasemdir við útreikning áfrýjanda á iðgjöldum að óumdeilt sé að fjárhæð þeirra samkvæmt skilagreinum fyrir júlí til og með október hafi verið 625.748 krónur og hafi hann greitt 10.357 krónum meira en sem nemur þeirri fjárhæð. Því sé engri skuld til að dreifa vegna þeirra iðgjaldatímabila. Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt grein 9.9 í samþykktum áfrýjanda sé áfrýjanda heimilt „að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil.“ Hins vegar hafi stefndi afhent skilagreinar fyrir júlí til og með október 2006 og verði því ekki áætlað vegna þeirra tímabila. Í máli þessu njóti heldur ekki við slíkra áætlana áfrýjanda heldur einungis útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs en áfrýjandi geti ekki gegn eigin samþykktum byggt kröfu sína á slíkum útreikningum. Eftir að áfrýjandi hafi fengið í hendur yfirlýsingar þriggja skipverja 12. febrúar 2008 um að þeir teldu sig ekki eiga ógreidd laun hjá stefnda, hafi ekki mátt miða iðgjaldagreiðslur við áætlun gerða eftir það tímamark, samkvæmt grein 9.4 í samþykktum áfrýjanda og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997. Þá geti útreikningar verðlagsstofu ekki orðið sjálfstæður grunnur að kröfu áfrýjanda, enda gildi um hana lög nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Ákvæði laganna um málsmeðferð og aðild að einstökum málum fyrir verðlagsstofu séu skýr. Sú ályktun verði meðal annars dregin af  5. gr., 6. gr. og 7. gr. að áfrýjanda sé ekki unnt að fá álit verðlagsstofu í einstökum tilvikum. Þeir sem eigi aðild að málum fyrir verðlagsstofu séu tæmandi taldir í 6. gr. laganna, en það séu útgerð og áhöfn viðkomandi skips. Áfrýjandi geti ekki aflað slíkra útreikninga án umboðs áhafnar skips. Jafnvel þótt unnt sé að byggja á útreikningum verðlagsstofu þá hafi hún ekki gætt réttra aðferða við gerð þeirra.  Þannig hafi hún ekki gefið stefnda kost á að tjá sig um álitaefnið eða koma að gögnum og með því brotið gegn grunnreglum stjórnsýsluréttarins eins og þær birtist í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 skal lífeyrisiðgjald greitt reglulega í hverjum mánuði, sbr. 2. og 4. mgr. sömu greinar. Iðgjaldagreiðslutímabil skal eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar. Samkvæmt 2. mgr. skal eindagi vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Að öðru leyti fari um iðgjaldagreiðslur samkvæmt þeim reglum sem settar eru í samþykktir viðkomandi lífeyrissjóðs. Í 3. mgr. segir að launagreiðanda sé skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að launagreiðendur skuli tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóðum ef þeim beri ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum. Skilagreinar stefnda voru markleysa þar sem þær miðuðust ekki við lögbundin lágmarkslaun. Þegar af þeirri ástæðu bar áfrýjanda að áætla iðgjöld stefnda og innheimta þau í samræmi við greinar 9.4 og 9.9 í samþykktum sínum. Sem grundvöll áætlunar sinnar notaði hann útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs. Hvorki verður séð að stefndi hafi byggt á því við meðferð málsins í héraði að áfrýjandi hafi ekki haft heimild til að fá þær upplýsingar frá verðlagsstofu, sem hann grundvallar áætlun sína á, né að á stefnda hafi verið brotnar málsmeðferðarreglur við þá útreikninga. Hefur stefndi raunar ekki haldið því fram að útreikningarnir hafi verið rangir um verðmæti afla og ekki andmælt þeim tölulega. Verður því við þá miðað og jafnframt talið af gögnum málsins að áfrýjandi hafi tekið réttilega tillit til innborgana stefnda.

Loks byggir stefndi á því að einn skipverja á umræddu fiskiskipi hafi starfað þar sem verktaki og annar sem sjálfboðaliði. Ekki hafa verið lögð fram gögn þessu til stuðnings og koma þessar varnir stefnda þegar af þeirri ástæðu ekki til álita í málinu.

Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda höfuðstól dómkröfu hans.

Ekki verður séð að stefndi hafi fyrr en í greinargerð til Hæstaréttar gert athugasemdir við upphafstíma dráttarvaxta og eru þau andmæli hans of seint fram borin. Þegar af þeirri ástæðu verður tekin til greina krafa áfrýjanda um dráttarvexti eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Hamravik ehf., greiði áfrýjanda, Gildi lífeyrissjóði, 1.389.364 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 179.081 krónu frá 10. ágúst 2006 til 10. september sama ár, af 631.998 krónum frá þeim degi til 10. október sama ár, af 990.348 krónum frá þeim degi til 10. nóvember sama ár, af 1.188.365 krónum frá þeim degi til 10. desember sama ár, af 1.349.860 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2007, en af 1.389.364 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. apríl 2008.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 13. mars sl. er höfðað 5. desember 2007 af Gildi - lífeyrissjóði, Sætúni 1, Reykjavík á hendur Hamravik ehf., Suðurbraut 3, Hofsósi.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.389.364 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 179.081 krónu frá 10. ágúst 2006 til 10. september 2006, en af 631.998 krónum frá þeim degi til 10. október 2006, af 990.348 krónum frá þeim degi til 10. nóvember 2006 en af 1.349.860 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2007 en af 1.389.364 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara að hann verði sýknaður að svo stöddu en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Málavextir

Stefnandi hefur gert út fiskibátinn Kristbjörgu HU-82 samkvæmt samningi við Ebbu ehf. sem er eigandi bátsins. Tímabil það sem hér skiptir máli er 1. júlí til 10. desember 2006 en fyrir þann tíma krefst stefnandi iðgjalda af starfsmönnum stefnda. Báturinn var gerður út frá Sauðárkróki og þar var afla hans landað. Í málinu er gerð krafa um greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda til stefnda vegna skipverja sem voru lögskráðir á Kristbjörgu HU á nefndu tímabili. Á þessum tíma voru samtals sjö skipverjar á bátnum, forsvarsmaður stefnda, Þiðrik Hrannar Unason, Uni Þórir Pétursson, Þorgrímur Ómar Unason, Pétur Arnar Unason, Reginn Fannar Unason og tveir erlendir menn. Þrátt fyrir að engin gögn hafi verið lögð fram í málinu um tengsl nefndra einstaklinga má ganga út frá því að stefnanda sé kunnugt um að Uni Þórir Pétursson er faðir forsvarsmanns stefnda, Þiðriks Hrannars, og hinna þriggja líka.

III

Málsástæður og lagarök

Stefnandi kveðst starfa á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefnandi vísar til 1. ml. 2. mgr. 2. gr. laganna en þar komi fram að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fari eftir þeim kjarasamningi sem ákvarði lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Stefnandi heldur því fram að í þeim kjarasamningum sem ákvarði lágmarkskjör hjá skipverjum á fiskiskipum sé kveðið á um greiðslur í lífeyrissjóð. Í grein 1.26 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) og Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og sömu grein í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og LÍÚ, sem báðir eru frá 30. október 2004, komi fram að greiða skuli lífeyrissjóðsiðgjald til Lífeyrissjóðs sjómanna (nú stefnandi) af launum allra þeirra sem ráðnir eru á íslensk fiskiskip. Með hliðsjón af þessu kveðst stefnandi vera innheimtuaðili iðgjalda skipverja stefnda.

Stefnandi bendir máli sínu til stuðnings á grein 1.43 í kjarasamningi FFSÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) fyrir hönd LÍÚ og grein 1.24 í kjarasamningi SSÍ og SA fyrir hönd LÍÚ. Þar komi fram að iðgjaldagreiðslu skipverja í lífeyrissjóð frá 1. janúar 2005 skuli nema 11% af heildarlaunum, af þeirri prósentutölu skuli hlutur skipverjans vera 4%. Í grein 1.46 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands (VFSÍ) og SA fyrir hönd LÍÚ komi fram að iðgjaldagreiðslur skipverja í lífeyrissjóð skuli nema 10% af heildarlaunum en af þeirri prósentutölu skuli hlutur skipverja vera 4%.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi aðeins að litlu leyti staðið skil á lög- og kjarasamningsbundnum greiðslum iðgjalda til stefnanda vegna þeirra skipverja sem störfuðu á Kristbjörgu HU-82 á tímabilinu júlí til og með desember 2006. Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi borið að greiða 2.015.111 krónur fyrir framangreint tímabil en hann hafi einungis greitt 625.748 krónur og því séu ógreiddar 1.389.364 krónur. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða ógreidd lífeyrissjóðsiðgjöld til stefnanda fyrir nefnt tímabil, bæði hluta atvinnurekanda og hluta launþega. Stefndi kveðst miða útreikning iðgjalda við gildandi kjarasamninga sjómanna og útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs á aflahlut skipsins á því tímabili sem um ræðir. Stefnandi vísar í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 130/2001 en í þeim dómi hafi verið lagt til grundvallar að útreikningar Verðlagsstofu skiptaverðs skuli teljast réttir nema sýnt sé fram á annað með óyggjandi hætti. Þá kveðst hann miða við lögskráningu skipverjanna í skiprúm samkvæmt lögskráningarvottorði Siglingastofnunar ríkisins.

Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig:

                                                Júlí 2006

                Uni Þórir Pétursson, skipstjóri 14. til 31. júlí

Aflahlutur                                         

kr.

347.478

Aukahlutur skipstjóra

kr.

347.478

Fast kaup (3.350 *18/30)

kr.

2.010

Starfsaldursálag  (4.236*18/30

kr.

2.542

Fatapeningar (3.148 *18/30)

kr.

1.889

Fæði (752*18)

kr.

13.536

Orlof 10,17% á kr. 714.933

kr.

  72.709

Samtals

kr.

787.642

 

 

 

Iðgjald 11% af  kr. 787.642

kr.

86.641

 

                Þorgrímur Ómar Unason, yfirstýrimaður 14. til 31. júlí

Aflahlutur                                         

kr.

347.478

Aukahlutur yfirstýrimanns 0,5      

kr.

173.739

Fast kaup (3.350 *18/30)

kr.

2.010

Starfsaldursálag  (4.236*18/30

kr.

2.542

Fatapeningar (3.148 *18/30)

kr.

1.889

Fæði (752*18)

kr.

13.536

Orlof 10,17% á kr. 541.194

kr.

  55.039

Samtals                                             

kr.

596.233

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 596.233

kr.

65.586

 

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirvélstjóri 14. til 31. júlí

Aflahlutur                                         

kr.

347.478

Aukahlutur yfirvélstjóra 0,5

kr.

173.739

Fast kaup (3.350 *18/30)

kr.

2.010

Starfsaldursálag  (4.236*18/30

kr.

2.542

Fatapeningar (3.148 *18/30)          

kr.

1.889

Fæði (752*18)

kr.

13.536

Orlof 10,17% á kr. 541.194              

kr.

55.039

Samtals

kr.

596.233

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 596.233

kr.

59.623

 

Aleksejs Melniks, netamaður 14. til 31. júlí

Aflahlutur                                         

kr.

347.478

Aukahlutur netamanns 0,25

kr.

86.935

Starfsaldursálag  (3.530*18/30

kr.

2.118

Fatapeningar (3.769 *18/30)

kr.

2.261

Fæði (752*18)

kr.

13.536

Orlof 10,17% á kr. 452.328

kr.

  46.002

Samtals                                             

kr.

498.330

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 498.330              

kr.

54.816

 

Juris Zablokis, bátsmaður 14. til 31. júlí

Aflahlutur                                         

kr.

347.478

Aukahlutur bátsmanns 0,25

kr.

86.935

Starfsaldursálag  (3.530*18/30

kr.

2.118

Fatapeningar (3.769 *18/30)          

kr.

2.261

Fæði (752*18)

kr.

13.536

Orlof 10,17% á kr. 452.328

kr.

   46.002

Samtals

kr.

498.330

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 498.330

kr.

54.816

Samtals vegna júlí 2006

kr.

321.482

  

Ágúst 2006

                Uni Þórir Pétursson, skipstjóri

Aflahlutur

kr.

698.604

Aukahlutur skipstjóra

kr.

698.604

Fast kaup

kr.

3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 1.430.502

kr.

145.482

Samtals

kr.

1.575.984

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 1.575.984

 

173.358 krónur

 

                                                Þorgrímur Ómar Unason

Aflahlutur

kr.

698.604

Aukahlutur yfirstýrimanns 0,5      

kr.

   349.302

Fast kaup

kr.

3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

       3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 1.081.200

kr.

109.958

Samtals

kr.

1.191.158

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 1.191.158

kr.

131.027

 

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirvélstjóri

Aflahlutur

kr.

698.604

Aukahlutur yfirvélstjóra 0,5

kr.

349.302

Fast kaup

kr.

3.350

Starfsaldursálag

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 1.081.200

kr.

109.958

Samtals                                             

kr.

1.191.158

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 1.191.158

kr.

119.116

 

Aleksejs Melniks, netamaður

Aflahlutur

kr.

698.604

Aukahlutur netamanns 0,25          

kr.

174.651

Starfsaldursálag

kr.

3.530

Fatapeningar

kr.

3.769

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 903.114              

kr.

91.847

Samtals

kr.

994.961

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 994.961              

kr.

109.446

 

Juris Zablokis, bátsmaður

Aflahlutur                                         

kr.

698.604

Aukahlutur netamanns 0,25

kr.

174.651

Starfsaldursálag 

kr.

3.530

Fatapeningar

kr.

3.769

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 903.114

kr.

91.847

Samtals

kr.

994.961

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 994.961

kr.

109.446

Samtals vegna ágúst 2006

kr.

642.393

 

September 2006

                Uni Þórir Pétursson, skipstjóri

Aflahlutur

kr.

560.314

Aukahlutur skipstjóra

kr.

560.314

Fast kaup                                          

kr.

3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 1.153.922           

kr.

   117.354

Samtals

kr.

1.271.276

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 1.271.276

kr.

139.840

 

                                Þorgrímur Ómar Unason

Aflahlutur

kr.

560.314

Aukahlutur yfirstýrimanns 0,5

kr.

280.157

Fast kaup                                          

kr.

  3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 873.765

kr.

88.862

Samtals

kr.

962.627

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 962.627              

kr.

105.889

 

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirvélstjóri

Aflahlutur                                         

kr.

560.314

Aukahlutur yfirvélstjóra 0,5

kr.

280.157

Fast kaup

kr.

3.350

Starfsaldursálag                              

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 873.756

kr.

88.862

Samtals

kr.

962.627

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 962.627              

kr.

96.262

 

Aleksejs Melniks, netamaður

Aflahlutur

kr.

560.314

Aukahlutur netamanns 0,25

kr.

140.079

Starfsaldursálag 

kr.

3.530

Fatapeningar

kr.

3.769

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 730.252

kr.

74.267

Samtals

kr.

804.519

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 804.519

kr.

88.497

 

Juris Zablokis, bátsmaður

Aflahlutur

kr.

560.314

Aukahlutur bátsmanns 0,25

kr.

140.079

Starfsaldursálag 

kr.

3.530

Fatapeningar

kr.

3.769

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 730.252              

kr.

74.267

Samtals

kr.

804.519

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 804.519

kr.

88.497

Samtals vegna september 2006.

kr.

518.985

 

Október 2006

                Uni Þórir Pétursson, skipstjóri

Aflahlutur                                         

kr.

349.942

Aukahlutur skipstjóra

kr.

349.942

Fast kaup

kr.

3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 733.178

kr.

74.564

Samtals                                             

kr.

807.742

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 807.742              

kr.

88.851

                                                 

                Þorgrímur Ómar Unason, yfirstýrimaður

Aflahlutur                                         

kr.

   349.942

Aukahlutur yfirstýrimanns 0,5

kr.

174.971

Fast kaup

kr

3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 558.207

kr.

56.770

Samtals                                             

kr.

614.977

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 614.977

kr.

67.497

                                                   

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirvélstjóri

Aflahlutur

kr.

349.942

Aukahlutur yfirvélstjóra 0,5

kr.

174.971

Fast kaup

kr.

3.350

Starfsaldursálag 

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 558.207              

kr.

56.770

Samtals

kr.

614.977

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 614.977

kr.

61.497

                               

Aleksejs Melniks, netamaður

Aflahlutur                                         

kr.

349.942

Aukahlutur netamanns 0,25          

kr.

87.486

Starfsaldursálag

kr.

3.530

Fatapeningar

kr.

3.769

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 467.287

kr.

47.523

Samtals

kr.

514.810

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 514.810              

kr.

56.629

 

Juris Zablokis, bátsmaður

Aflahlutur

kr.

349.942

Aukahlutur bátsmanns 0,25

kr.

87.486

Starfsaldursálag

kr.

3.530

Fatapeningar

kr.

3.769

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 467.287

kr.

47.523

Samtals

kr.

   514.810

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 514.810

kr.

56.629

Samtals vegna október 2006.

kr.

331.253

 

Nóvember 2006

                Uni Þórir Pétursson, skipstjóri

Aflahlutur                                         

kr.

173.541

Aukahlutur skipstjóra

kr.

173.541

Fast kaup                                          

kr.

       3.350

Starfsaldursálag                              

kr.

4.236

Fatapeningar

kr.

3.148

Fæði (752*30)

kr.

22.560

Orlof 10,17% á kr. 380.376              

kr.

38.684

Samtals                                             

kr.

807.742

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 419.060

kr.

46.096

                                                                                                                               

                Þorgrímur Ómar Unason, yfirstýrimaður 1. til 7. nóv.

Aflahlutur                                         

kr.

78.385

Aukahlutur yfirstýrimanns 0,5      

kr.

39.193

Fast kaup                                          

kr.

728

Starfsaldursálag 

kr.

988

Fatapeningar

kr.

735

Fæði (752*7)

kr.

5.264

Orlof 10,17% á kr. 125.347

kr.

12.748

Samtals                                             

kr.

138.095

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 138.095

kr.

15.190

 

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirvélstjóri 1. til 7. nóv.

Aflahlutur                                         

kr.

78.385

Aukahlutur yfirvélstjóra 0,5          

kr.

39.193

Fast kaup                                          

kr.

728

Starfsaldursálag 

kr.

988

Fatapeningar

kr.

735

Fæði (752*7)

kr.

5.264

Orlof 10,17% á kr. 125.347

kr.

12.748

Samtals

kr.

138.095

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 138.095              

kr.

13.809

 

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirstýrimaður 8. til 30. nóv.

Aflahlutur                                         

kr.

95.156

Aukahlutur yfirstýrimanns 0,5      

kr.

47.578

Fast kaup

kr.

2.568

Starfsaldursálag 

kr.

3.106

Fatapeningar

kr.

2.308

Fæði (752*22)

kr.

16.544

Orlof 10,17% á kr. 167.260

kr.

184.270

Samtals

kr.

138.095

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 184.270              

kr.

20.269

                                               

Aleksejs Melniks, netamaður, 1.til 7. nóv.

Aflahlutur

kr.

78.385

Aukahlutur netamanns 0,25

kr.

     19.596

Starfsaldursálag 

kr.

823

Fatapeningar

kr.

879

Fæði (752*7)

kr.

5.264

Orlof 10,17% á kr. 104.947

kr.

10.673

Samtals

kr.

115.620

                                                           

 

 

Iðgjald 11% af kr. 115.620

kr.

12.718

 

Juris Zablokis, bátsmaður, 1. til 7. nóv.

Aflahlutur                                         

kr.

78.385

Aukahlutur bátsmanns 0,25

kr.

19.596

Starfsaldursálag

kr.

823

Fatapeningar

kr.

879

Fæði (752*7)

kr.

5.264

Orlof 10,17% á kr. 104.947

kr.

10.673

Samtals

kr.

115.620

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 115.620

kr.

12.718

 

Reginn Fannar Unason, matsveinn 8. til 30. nóv.

Kauptrygging (191.486*22/30)

kr.

   140.423

Starfsaldursálag 

kr.

2.588

Fatapeningar

kr.

2.764

Fæði (752*22)

kr.

16.544

Orlof 10,17% á kr. 162.319

kr.

16.508

Samtals

kr.

   178.827

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 178.827              

kr.

19.671

 

                Pétur Arnar Unason, yfirvélstjóri 8. til 30. nóv.

Kauptrygging (226.785*22/30)

kr.

166.309

Fast kaup                                          

kr.

2.568

Starfsaldursálag 

kr.

3.106

Fatapeningar

kr.

2.308

Fæði (752*22)

kr.

16.544

Orlof 10,17% á kr. 190.835

kr.

19.408

Samtals

kr.

210.243

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 210.243              

kr.

21.024

Samtals vegna nóvember 2006.   

kr.

   161.495

 

Desember 2006

                Uni Þórir Pétursson, skipstjóri, 1. til 10. des.

Kauptrygging (226.785*10/30)

kr.

     75.595

Fast kaup                                          

kr.

1.116

Starfsaldursálag 

kr.

1.412

Fatapeningar

kr.

1.094

Fæði (752*10)

kr.

7.520

Orlof 10,17% á kr. 86.692

kr.

       8.817

Samtals

kr.

95.509

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 95.509                

kr.

10.506

 

                Þiðrik Hrannar Unason, yfirstýrimaður 1. til 10. des.

Kauptrygging (226.785*10/30)

kr.

     75.595

Fast kaup                                          

kr.

       1.116

Starfsaldursálag

kr.

1.412

Fatapeningar

kr.

1.049

Fæði (752*10)

kr.

7.520

Orlof 10,17% á kr. 86.692

kr.

8.817

Samtals

kr.

95.509

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 95.509

kr.

10.506

                               

Reginn Fannar Unason, matsveinn 1. til 10. des.

Kauptrygging (191.486*10/30)

kr.

63.829

Starfsaldursálag 

kr.

1.117

Fatapeningar

kr.

1.256

Fæði (752*10)

kr.

       7.520

Orlof 10,17% á kr. 73.781

kr.

7.503

Samtals

kr.

     81.284

 

 

 

Iðgjald 11% af kr. 81.284

kr.

8.941

 

                Pétur Arnar Unason, yfirvélstjóri 1. til 10. des.

Kauptrygging (226.785*10/30)

kr.

75.595

Fast kaup

kr.

1.116

Starfsaldursálag 

kr.

1.412

Fatapeningar

kr.

1.049

Fæði (752*10)

kr.

7.520

Orlof 10,17% á kr. 86.692

kr.

8.817

Samtals

kr.

     95.509

 

 

 

Iðgjald 10% af kr. 95.509                

kr.

       9.551

Samtals vegna desember 2006.

kr.

39.504

Samtals júlí til desember 2006   

kr.

2.015.112

 

Stefnandi segir gjalddaga iðgjalda vera 10. dag næsta mánaðar. Gjalddagi greiðslna fyrir júlí 2006 sé því 10. ágúst það ár og svo framvegis. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 2. gr. laga 129/1997. Þá vísar hann til greinar 1.43 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ, greinar 1.46 í kjarasamningi VFSÍ og LÍÚ og greinar 1.24 í kjarasamningi SSÍ og LÍÚ. Þá bendir hann á almennar reglur körfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og almennra reglna vinnuréttar um greiðslu verklauna. Einnig vísar hann til 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Hvað dráttarvexti varðar vísar stefnandi til III. kafla laga nr. 38/2001 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1999. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála og loks er krafa um virðisaukaskatt á málskostnað reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Stefndi mótmælir því að útreikningar Verðlagsstofu skiptaverðs geti verið grundvöllur útreikninga lífeyrissjóðsiðgjalda. Stefndi telur að stefnandi geti ekki talist aðili að máli þessu þar sem honum tilheyri hvorki þau réttindi sem stefnt er fyrir né hafi sjóðurinn lagaheimild til innheimtu lífeyrissjóðsiðgjalda sem ekki eru reiknuð af greiddum launum sem sannanlega hafi verið innheimt af launagreiðanda. Stefndi heldur því fram að heimild stefnanda til innheimtu takmarkist við að innheimta iðgjöld samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta séu iðgjöld sem sannanlegt er að launagreiðandi hafi innheimt en ekki staðið skil á til viðkomandi lífeyrissjóðs. Í þessu sambandi bendir stefndi á að iðgjald beri að reikna af heildarfjárhæð greiddra launa samkvæmt 1. mgr. 3. gr. nefndra laga nr. 129/1997 en þessi regla sé ítrekuð í ákvæði nr. 9.2 í samþykktum stefnanda.

Stefndi bendir á að í ákvæði 9.8 í samþykktum stefnanda komi fram að iðgjöld skuli innheimt samkvæmt innsendum skilagreinum eða innsendum launaseðlum eins og segi í ákvæði 9.9. Þessi ákvæði reikni bæði með að sönnun fyrir því að lífeyrissjóðsiðgjöld hafi verið dregin af launamanni þurfi að liggja fyrir til þess að heimilt sé að innheimta iðgjöld af greiddum launum eins og áðurnefnd 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 mæli fyrir um. Í máli þessu liggi fyrir að útreikningar stefnanda byggist hvorki á innsendum skilagreinum né launaseðlum. Í nefndu ákvæði 9.9 í samþykktum stefnanda sé gert ráð fyrir að heimilt sé að innheimta iðgjöld samkvæmt áætlun, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað skilagreinum til sjóðsins. Hér hátti hins vegar svo til að ekki sé um það deilt að stefndi hafi sent stefnanda skilagreinar fyrir öll þau tímabil sem um ræðir og að hann hafi greitt til stefnanda í samræmi við skilagreinarnar. Af þessum sökum telur stefndi að samþykktir stefnanda sjálfs standi því í vegi að innheimt séu iðgjöld vegna áætlunar á því tímabili sem hér eigi við.

Stefndi heldur því jafnframt fram að ekki verði séð að sú regla sem stefnandi notar til að áætla iðgjöld standist þá meginreglu sem tilgreind er í 6. gr. laga nr. 129/1997. Þar komi skýrt fram að eftirlit með greiðslum til lífeyrissjóða sé í höndum Ríkisskattstjóra. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 129/1997 sé skýrt tekið fram varðandi 6. gr. frumvarpsins að gert sé ráð fyrir að eftirlit fari fram í lok tekjuárs, með samanburði á greiðslum sem borist hafa til lífeyrissjóðs og því sem launamaður og launagreiðandi tiltaka að greitt hafi verið til lífeyrissjóðs. Sérstaklega sé tekið fram að lífeyrissjóðum sé aðeins ætlað að hafa eftirlit með iðgjöldum samkvæmt 2. mgr. 13. gr. Það séu iðgjöld sem sannanlega hafi verið innheimt af launagreiðanda. Áætlun geti ekki talist nægjanleg sönnun og engin lagaheimild sé til slíkrar áætlunar. Þetta bendi til þess að stefnanda sé aðeins heimilt að innheimta lífeyrissjóðsiðgjöld sem fjárhæð af launum sem sannanlega hafa verið greidd og haldið eftir af launagreiðanda. Stefndi heldur því fram að útreikningar stefnanda á kröfum sínum í máli þessu byggist sannanlega ekki á raunverulegum launum. Stefndi hafi því ekki haldið eftir lífeyrissjóðsgreiðslum að neinu marki og skilagreinum fyrir tímabilið hafi verið skilað. Krafa stefnanda sé því í raun reist á því sem hann telur, með hliðsjón af útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs, að launþegar stefnda hefðu átt að fá greitt en ekki hvað þeir fengu greitt í raun.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki forræði yfir því hvort launþegar stefnda hefðu átt að fá hærri laun. Laun séu í eðli sínu kröfuréttindi sem tilheyri launamanni og iðgjöld til lífeyrissjóðs séu hluti af heildarlaunum hvers launþega. Það sé launþeginn sem geri ráðningarsamning við launagreiðanda og ef launamaður telur að samningur brjóti gegn rétti hans samkvæmt kjarasamningi hafi hann einn heimild til að sækja þann rétt sem hann telur sig eiga og þau réttindi sem kjarasamningurinn mælir fyrir um. Stefndi telur að stefnandi geti ekki átt aðild að máli þessu þar sem lagastoð skorti fyrir þeim útreikningum sem kröfur hans eru reistar á. Stefnandi hafi heldur ekki forræði yfir þeim launaréttindum sem hann byggir málatilbúnað sinn á. Sú staðreynd að stefnanda sé getið í kjarasamningi sem þess lífeyrissjóðs sem greiða skuli til leiði ekki til þess að stefnandi sé aðili að kjarasamningnum.

Stefndi bendir á að enginn launamanna hafi gert kröfu um frekari laun frá stefnda en stefndi mótmælir því að stefnandi geti byggt kröfur sínar á öðru en greiddum launum samkvæmt ráðningarsamningi milli launamanna og stefnda. Stefndi heldur því fram að tveir þeirra sem stefnandi krefst að greidd séu iðgjöld af hafi ekki verið á launaskrá. Uni Þórir Pétursson hafi unnið kauplaust en Þorgrímur Ómar Unason hafi unnið sem verktaki hjá stefnda.

Stefndi byggir varakröfu sína um sýknu að svo stöddu á því sem að framan er rakið um að heimildir stefnanda til að innheimta iðgjöld takmarkist við þær heimildir sem tilgreindar eru í 3. gr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 sem ítrekaðar séu í samþykktum stefnda. Heimild stefnanda til innheimtu, ef hún er þá til staðar, verði ekki til fyrr en í fyrsta lagi þegar krafa launamanns um frekari launagreiðslur hefur verið viðurkennd. Þá fyrst geti stefnandi byggt útreikning sinn á launum sem launagreiðandi þurfi sannanlega að greiða, að uppfylltum nánari skilyrðum laga nr. 129/1997.

                arðandi þrautavarakröfu sína vísar stefndi til þess að krafa stefnanda sé rangt reiknuð en ekki hafi verið tekið tillit til greiðslu sem innt var af hendi hinn 20. desember 2006 að fjárhæð 20.335 krónur.

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, einkum 2., 3., 6. og 13 gr. laganna. Þá vísar hann til 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglna samninga- og kröfuréttarins. Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er reist á XXI. kafla nefndra laga um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu er ekki um það deilt að stefnandi er sá lífeyrissjóður sem stefnda bar að greiða iðgjöld til. Stefnandi miðar útreikninga sína við þá fjárhæð sem hann telur að starfsmenn stefnda hefðu átt að hafa í laun en stefndi miðar iðgjaldagreiðslur sínar við þau laun sem hann kveðst hafa greitt starfsmönnum sínum. Sem grunn að kröfu sinni notar stefnandi útreikninga Verðslagsstofu skiptaverðs og heldur því fram að stefnda hafi verið óheimilt að greiða starfsmönnum sínum lægri laun en þeir útreikningar gefa tilefni til. Stefndi hefur ekki haldið því fram að útreikningar Verðlagsstofu skiptaverðs séu rangir. Þó bar forsvarsmaður stefnda fyrir dóminum að hann hefði ekki kynnt sér útreikningana. Stefndi fellst hins vegar ekki á að stefnandi geti notað útreikningana til að ákvarða fjárhæð iðgjalda. Snýst deila aðila þannig um það hvort stefnanda sé rétt og skylt að innheimta iðgjaldagreiðslur sem taki mið af þeim launum sem hann heldur fram að stefndi hefði átt að greiða eða hvort iðgjöldin skuli taka mið af þeim launum sem í raun voru greidd.

Stefnandi notar við útreikninga á iðgjaldi niðurstöðu Verðlagsstofu skiptaverðs á aflahlut skipverja á því tímabili sem um ræðir. Vísar stefnandi máli sínu til stuðning til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 130/2001. Fallast verður á með stefnanda að við ákvörðun á aflahlut sé rétt að nota útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs, enda hafi ekki verið sýnt fram á að þeir séu rangir. Í nefndum dómi er því slegið föstu að skipverjum skuli hverju sinni tryggt hæsta gangverð fyrir afla bátsins. Hér háttar hins vegar svo til að skipverjar eru ekki að krefja stefnanda um hlut í samræmi við útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs heldur er stefnandi að krefjast iðgjalda sem hann miðar við útreiknaðan aflahlut.

Í málinu voru lagðar fram samhljóða yfirlýsingar Una Þóris Péturssonar, Regins Fannars Unasonar og Péturs Arnars Unasonar þar sem fram kom að þeir töldu sig ekki eiga nein ógreidd laun hjá stefnda vegna þess tímabils sem hér um ræðir. Þá kemur og fram í yfirlýsingunum að þeir muni ekki gera kröfu um frekari launagreiðslur. Yfirlýsingar þessar eru allar vottaðar og ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að þær séu rangar. Stefndi hefur greitt til stefnanda iðgjöld sem taka mið af þeim launum sem þessum aðilum voru greidd. Raunar hefur stefndi haldið því fram að Uni Þórir Pétursson hafi unnið launalaust. Þiðrik Hrannar Unason, forsvarsmaður stefnda, lýsti því yfir fyrir dóminum að hann ætti ekki ógreidd laun hjá félaginu fyrir þetta tímabil. Af hálfu stefnda hefur því síðan verið haldið fram að Þorgrímur Ómar Unason hafi starfað sem verktaki hjá honum og því beri honum ekki að skila greiðslum til stefnanda vegna hans. Áður hefur verið rakið hver tengsl þessara manna eru við forsvarsmann stefnda. Liggur því fyrir að allir þessir skipverjar telja stefnda að fullu hafa staðið skil á launum til þeirra.

Í 3. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er iðgjaldsstofn skilgreindur. Þar kemur fram að iðgjald skuli reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Eins og áður hefur komið fram krefur stefnandi stefnda um iðgjöld sem hann reiknar út frá launum sem hann segir að starfsmenn stefnda hefðu átt að fá greidd. Ef krafa stefnanda yrði tekin til greina leiddi sú niðurstaða til þess að faðir forsvarsmanns stefnda gat ekki aðstoðað hann með sjálfboðavinnu. Slík niðurstaða er ótæk og hið sama á við um forsvarsmann stefnda. Ætla verður að mönnum sé heimilt að koma ættingjum sínum til aðstoðar án þess að skylt sé að greiða til lífeyrissjóðs iðgjald sem tekur mið af hæstu launum sem hægt var að krefja fyrir vinnuna. Þá verður ekki annað ráðið en að aðferð sú sem stefnandi notar við útreikning sinn sé í andstöðu við ákvæði nefndrar 3. gr. þess efnis að iðgjöld taki mið af greiddum launum og endurgjaldi.

Eftir standa þá eingöngu tveir skipverjar, þeir Aleksejs Melniks og Jurijs Zablokis. Nefndur Jurijs rekur nú fyrir dóminum mál þar sem hann krefur stefnda um vangreidd laun fyrir tímabil það sem hér um ræðir. Stefndi hefur ákveðið að taka til varna í málinu og liggur þannig fyrir að launakrafa Jurijs á hendur stefnda er umdeild. Krafa stefnanda á hendur stefnda um greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda fer síðan eftir því hver verður niðurstaðan í nefndu máli sem Jurijs hefur höfðað á hendur stefnda og verður stefnda þá skylt að greiða iðgjöld til stefnanda í samræmi við niðurstöðu málsins. Verður því að svo stöddu að sýkna stefnda af kröfum varðandi nefndan Jurijs. Engin göng hafa verið lögð fram í málinu varðandi afstöðu Aleksejs Melniks til málsins og þá hefur hann ekki, svo vitað sé, höfðað mál á hendur stefnda til greiðslu frekari launa. Ekki er loku fyrir það skotið að hann muni síðar leita réttar síns og verður stefndi því einnig sýknaður að svo stöddu af kröfum stefnanda um greiðslu iðgjalda hvað hann varðar.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið horft til þess tíma sem fór í ferðalög lögmanns stefnda við rekstur málsins fyrir dóminum.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Ásgeir Helgi Jóhannsson héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi vegna þessa.

Dómsorð

Stefndi, Hamravik ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Gildi - lífeyrissjóður, um greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda fyrir tímabilið júlí til desember 2006 vegna Þiðriks Hrannars Unasonar, Una Þóris Péturssonar, Þorgríms Ómars Unasonar, Péturs Arnars Unasonar og Regins Fannars Unasonar.

Stefndi er sýkn að svo stöddu að kröfum stefnanda um greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda  fyrir sama tímabil vegna Jurijs Zablokis og Aleksejs Melnikis.

Stefnandi greiði stefnda 400.00 krónur í málskostnað