Hæstiréttur íslands

Mál nr. 635/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008.

Nr. 635/2008.

Ákæruvaldið

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi „meðan áfrýjunarfrestur varir, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. desember nk. kl. 24.00.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar kemur fram að krafa sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald hafi verið borin munnlega upp á dómþingi í héraði. Ekki hafi komið fram af hálfu sóknaraðila önnur rök fyrir henni en þau, að vísað hafi verið til 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Þá hafi ekki legið fyrir endurrit héraðsdóms heldur einungis endurrit úr þingbók með dómsorði. Af þeim sökum hafi varnaraðili þurft að taka sér frest til ákvörðunar um áfrýjun. Samkvæmt þessu hafi sóknaraðili ekki rökstutt kröfu sína nægilega með vísan til viðeigandi ákvæða laga og verði þess vegna að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Heimilt er að setja fram kröfu um gæsluvarðhald munnlega á dómþingi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Í bókun um kröfuna í þinghaldinu kemur ekki fram á hvaða grundvelli hún er reist að öðru leyti en því að vísað er til 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Munnlegur málflutningur um kröfuna fór fram í héraði og verður að ætla að vörn hafi ekki verið áfátt. Þá er þess getið í upphafi hins kærða úrskurðar á hvaða grunni krafan er reist. Verður ekki fallist á með varnaraðila að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi af þessum sökum.

Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur er að líða vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1342/2008, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 18. desember 2008 klukkan 24.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 20. nóvember 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan á fresti  skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála stendur, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. desember nk. kl. 24.00. Kröfunni til stuðnings er vísað til c liðar 103. gr. sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og fyrirliggjandi dóms.

Dómfellda var í dag með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1342/2008 uppkveðnum í dag dæmd 18 mánaða fangelsi fyrir fjölda auðgunarbrota og brota á umferðarlögum sem framin voru á tímabilinu frá janúar sl. til ágústmánaðar þessa árs.  Frá refsingunni dregst 84 daga gæsluvarðhald.

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli.  Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðar að gæsluvarðhald skuldi haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laganna stendur.  Dómfellda hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. ágúst sl. vegna gruns um afbrot sem hún hefur nú verið sakfelld fyrir.

Með vísan til c liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 og 106. gr. sömu laga verður krafan tekin til greina eins og hún er sett fram í þinghaldinu og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                                     Úrskurðarorð:

Dómfellda, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunar­frestur varir, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. desember nk. kl. 24.00.