Hæstiréttur íslands
Mál nr. 677/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 11. janúar 2012. |
|
Nr. 677/2011. |
B (Hjálmar Blöndal hdl.) gegn A (Jóhanna Sigurjónsdóttir hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem synjað var
kröfu B um að A yrði svipt fjárræði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga
nr. 71/1997.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði svipt fjárræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðili verði svipt fjárræði ótímabundið. Þá er þess krafist að skipuðum talsmanni sóknaraðila „verði dæmd þóknun í héraði og fyrir Hæstarétti, auk þess sem allur annar kærumálskostnaður verði greiddur af ríkissjóði.“
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins
kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og skipaðs verjanda varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hjálmars
Blöndal héraðsdómslögmanns, og skipaðs verjanda varnaraðila, Jóhönnu
Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500
krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011.
Með beiðni, sem dagsett
er 28. október sl. og þingfest hinn 7. fyrra mánaðar hefur [B], Reykjavík, farið þess á leit að móðir
hennar, [A], Reykjavík, verði svipt fjárræði, þar sem hún sé ófær um að ráða fé
sínu vegna heilabilunar af alzheimer-gerð. Þá sé grunur um það að sonur varnaraðila og
barnabarn hans hafi misfarið með fé varnaraðila en þeir hafi dvalið langdvölum
í íbúð varnaraðila [...]. Um aðild
sóknaraðila vísast til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Kröfunni er mótmælt.
Meðal gagna málsins er
staðfest vottorð Björns Einarssonar öldrunarlæknis þar sem fram kemur að
varnaraðili sé haldinn vægum alzheimer-sjúkdómi. Á yfirlitsprófi yfir vitræna getu í febrúar
2008 hafi hún fengið 23 stig af 30 og á sams konar prófi 30. september sl. hafi
niðurstaðan verið 23/30. Varnaraðili sé
nokkuð skynsöm í samræðum, standi fast á sínu og færi rök fyrir máli sínu. Hún eigi til að kaupa inn það sem hún eigi
fyrir en hún sé annars skynsöm og með ágæta dómgreind. Sé hún að mestu sjálfbjarga, klæði sig sjálf
og sé almennt lífsglöð. Hún sé innrituð
í dagvistun [...] og sé dvöl hennar þar tíðindalaus og beri merki um
stöðuglyndi. Hún sé hvorki dómgreindarskert né innsæislaus
að því marki að það mæli með sviptingu fjárræðis. Eins og títt sé um fólk á hennar aldri sé hún
hrekklaus og því væri hægt að misnota hana fjárhagslega. Meðal gagna málsins er yfirlit yfir
kortafærslur og reikningsyfirlit. Ekki
er þar að sjá neinar færslur sem veki grunsemdir um það að misfarið hafi verið
með fé varnaraðila. Sonur varnaraðila
hefur komið fyrir dóm svo og dóttursonur hans og þeir spurðir út í tiltekna
ráðstöfun. Telur dómurinn að skýringar þeirra
séu fullnægjandi.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr.
lögræðislaga er heimilt að svipta mann lögræði „ef þörf krefur“. Fjárræðissvipting felur í sér afdrifaríka
skerðingu á grundvallarrétti og sjálfsvirðingu manns. Lítur dómurinn svo á að ekki hafi verið sýnt
fram á þörf á því að svipta varnaraðila, [A], fjárræði og ber að synja kröfu
sóknaraðila um það.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr.
lögræðislaga ber að greiða málskostnað, þar með talda þóknun til skipaðra
talsmanna aðilanna, Hjálmars Blöndal hdl. og Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl.,
150.000 krónur til hvors um sig.
Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson
héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu [B] um
það að [A] verði svipt fjárræði.
Málskostnaður, þar með
talin þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, Hjálmars Blöndal hdl. og Jóhönnu
Sigurjónsdóttur hdl., 150.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr
ríkissjóði.