Hæstiréttur íslands
Mál nr. 80/2017
Lykilorð
- Frelsissvipting
- Rán
- Eignaspjöll
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærðu krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að þeir verði sýknaðir, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefjast þeir þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína.
I
Ákærðu reisa ómerkingarkröfu sína á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður, sbr. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem fyrir hafi legið afdráttarlaus neitun ákærðu og misvísandi framburður vitna. Í ljósi þeirrar háttsemi, sem ákærðu er gefin að sök í ákæru, var engin þörf á að héraðsdómur væri skipaður sérfróðum meðdómendum, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Í 4. mgr. sömu greinar er kveðið á um heimild dómstjóra, en ekki skyldu, til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu, ef ákærði neitar sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki efni til að að fallast á kröfu ákærðu um ómerkingu héraðsdóms af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipaði dóm í málinu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008.
Í annan stað byggja ákærðu ómerkingarkröfuna á því að rökstuðningur héraðsdóms fyrir „heimfærslu háttsemi“ til 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 „sé tæpur og engum gögnum studdur.“ Af forsendum héraðsdóms fyrir sakfellingu ákærðu fyrir brot gegn 226. gr. almennra hegningarlaga verður ráðið að heildstætt mat fór fram á framburði ákærðu og vitna, svo og öðrum gögnum málsins, og að komist var að rökstuddri niðurstöðu um heimfærslu brots þeirra til áðurnefnds ákvæðis almennra hegningarlaga, sbr. f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.
Í þriðja lagi reisa ákærðu kröfu sína um ómerkingu á því að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Ekkert er fram komið í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins.
Samkvæmt öllu framansögðu verður kröfu ákærðu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hafnað.
II
Ákærða X er meðal annars gefið að sök í máli þessu að hafa 3. mars 2015 slegið með hamri í veggi í íbúð brotaþola að [...] í Reykjavík þannig að þeir skemmdust og er brotið talið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skal mál út af brotum, sem í 1. mgr. getur, aðeins höfða að sá krefjist þess, sem misgert er við. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að brotaþoli hafi krafist þess að mál yrði höfðað vegna brots gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Verður þeim þætti ákærunnar því vísað frá héraðsdómi.
Í ákæru er brotum ákærðu gegn 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga lýst svo að þeir hafi svipt brotaþola frelsi sínu í því skyni að fá hana til að skila munum, sem ákærðu „töldu að hún hefði stolið frá ákærða X.“ Í framhaldi af því er lýst ofbeldi, sem ákærðu beittu brotaþola, en síðan segir: „Í beinu framhaldi af því sem áður er lýst tóku ákærðu ófrjálsri hendi og höfðu á brott með sér af heimili A tölvu, tölvuskjá og verkfæratösku.“
Samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga skal sá sæta fangelsi eigi skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum sem með líkamlegu ofbeldi eða hótun um að beita því þegar í stað tekur af manni eða neyðir út úr manni fjármuni eða önnur verðmæti, kemur undan hlut sem verið er að stela, eða neyðir mann til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem hefur í för með sér fjárhagstjón fyrir þann mann eða aðra.
Eftir 243. gr. almennra hegningarlaga skal því aðeins refsað fyrir þau brot, sem greinir í XXVI. kafla laganna, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni. Samkvæmt lögskýringargögnum er með auðgunarásetningi átt við að ásetningur brotamanns hafi verið sá að afla sér eða öðrum fjárvinnings á þann hátt að annar maður bíði ólöglega fjártjón að sama skapi. Í verknaðarlýsingu þeirri, sem að framan er rakin, er ekki lýst auðgunarásetningi samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga, sbr. orðalagið „sem ákærðu töldu að hún hefði stolið frá ákærða X“, heldur ber lýsingin þvert á móti með sér að ákærðu hafi verið í góðri trú um að munirnir væru í eigu ákærða X. Þar sem auðgunarásetningur er skilyrði þess að brot verði fellt undir 252. gr. almennra hegningarlaga og verknaðarlýsing í ákæru samrýmist að því leyti ekki broti gegn þeirri lagagrein verður þessum þætti málsins einnig vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða X var með dómi 29. apríl 2015 gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og þá var hann með dómi 4. maí 2016 sakfelldur fyrir brot gegn sömu lagagrein, en ekki gerð sérstök refsing. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður áðurnefndur skilorðsdómur tekinn upp og málin dæmd í einu lagi eftir reglum 78. gr. laganna. Þá verður refsing ákærða X ákveðin innan takmarka þess hegningarlagaákvæðis, sem þyngsta hegningu setur, sbr. 2. mgr. 77. gr. laganna. Að þessu virtu og með vísan til 1., 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða X ákveðin fangelsi í 12 mánuði og refsing ákærða Y fangelsi í 8 mánuði. Vegna alvarleika brots ákærðu eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu þeirra.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um bætur til handa brotaþola verða staðfest.
Dæma ber ákærðu, hvorn fyrir sig, til að greiða helming málsvarnarlauna verjenda sinna í héraði, eins og þau voru þar ákveðin, og óskipt helming annars sakarkostnaðar, sem þar var ákveðinn, að öðru leyti en því að þeir verða dæmdir óskipt til að greiða þóknun réttargæslumanna, svo sem hún var ákveðin í héraði.
Ákærðu verður gert að greiða að helming málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, og óskipt helming annars áfrýjunarkostnaðar, að frátalinni þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, sem þeim ber að greiða óskipt að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar sakargiftir á hendur ákærðu, X og Y, fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hvað varðar sakargiftir á hendur ákærða, X, fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. sömu laga
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 14. til 20. mars 2015.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu A skulu vera óröskuð.
Ákærðu greiði, hvor fyrir sig, helming málsvarnarlauna verjenda sinna í héraði og óskipt helming annars sakarkostnaðar, sem þar var ákveðinn, að öðru leyti en því að þeir greiði óskipt þóknun réttargæslumanna eins og hún var ákveðin í héraðsdómi.
Ákærðu greiði, hvor fyrir sig, helming málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Kristjáns Stefánssonar og Stefáns Karls Kristjánssonar, 620.000 krónur til hvors um sig, og óskipt helming annars áfrýjunarkostnaðar, 38.890 krónur, að frátalinni þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Sigurðar Arnar Hilmarssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, sem þeir greiði óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2016
Mál þetta, sem dómtekið var 7. desember 2016, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 19. apríl 2016, á hendur: „X, kennitala [...], [...], Reykjavík og Y, kennitala [...], óstaðsettum í hús, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum;
Á hendur ákærðu báðum fyrir frelsissviptingu og rán og að auki á hendur ákærða X fyrir eignarspjöll, „með því að hafa, þriðjudaginn 3. mars 2015 að [...] í Reykjavík, ruðst inn á heimili A fyrrum sambýliskonu ákærða X, og svipt A og B, sem þar var staddur, frelsi sínu í því skyni að fá A til að skila munum sem ákærðu töldu að hún hefði stolið frá ákærða X. Ákærði X veittist að A og henti henni á sófa þannig hún lenti með hægri síðu á sófabríkinni og notaði líkamsþunga sinn til að halda henni fastri, síðan henti ákærði X henni upp í sófann og þeir ákærðu báðir bundu hana á höndum og fótum með benslaböndum. Á meðan og í kjölfarið á framangreindu, ógnaði ákærði X henni með hamri, lagðist ofan á hana í sófanum, sló hana ítrekað í síðuna og tók hana margsinnis kverkataki og þrengdi að þannig að hún náði ekki andanum og missti meðvitund í a.m.k. eitt skipti, einnig, í nokkur skipti, hélt ákærði X fyrir vit hennar þannig hún náði ekki andanum og sló með hamri í veggi í íbúðinni þannig þeir skemmdust, en á sama tíma hélt ákærði Y afsíðis, með því að ógna honum með hamri og hóta honum ofbeldi ef hann skipti sér af. Í beinu framhaldi af því sem áður er lýst tóku ákærðu ófrjálsri hendi og höfðu á brott með sér af heimili A tölvu, tölvuskjá og verkfæratösku. Er ákærðu yfirgáfu vettvang að [...]höfðu þeir svipt A og B frelsi sínu í rétt rúma klukkustund. Við árásina hlaut A maráverka, eymsli og sár á hálsi, djúp för eftir band eða hálsfesti yfir öllum afturhluta háls neðanverðum og rákir þar fram af til hliðanna og fram á háls, mar á barka, eymsli á barka og kjálka, skrapsár undir vinstra eyra og hægra megin á hálsi og mar niður að miðju hægra viðbeini, mar á herðum, á vinstri öxl, yfir miðju viðbeini vinstra megin ásamt hrufli og mar á brjóstkassa, mar og eymsli undir hægra brjósti og grunur um rifbrot, mar á mjaðmagrind, mar á vinstra læri og maráverka á kviðvegg.
Brot ákærðu X og Y teljast varða við 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot ákærða X auk þess við 1. mgr. 257. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða henni miskabætur óskipt (in solidum) að fjárhæð 3.000.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2015 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða óskipt (in solidum) kostnað vegna atvinnutjóns, sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.“
Verjendur ákærðu krefjast vægustu refsingar er lög leyfa sem eftir atvikum verði skilorðsbundin og hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa. Þá krefjast þeir þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði stórlega lækkuð.
I.
Málsatvik
Þann [...] mars 2015 kom brotaþoli á lögreglustöðina við [...] og lagði fram kæru á hendur ákærðu fyrir refsiverð brot gagnvart sér sem hafi átt sér stað [...] mars 2015 á heimili hennar að [...].
Lýsti hún atvikum svo að ákærði X, fyrrverandi unnusti hennar, hefði ráðist á sig með nánar tilgreindum hætti. Taldi hún ástæðuna vera þá að hann hafi talið hana hafa brotist inn til hans. Brotaþoli kvað ákærðu hafa hjálpast að við að binda hana á höndum og fótum. Einnig hafi ákærði X lamið með hamri í vegg í íbúðinni. Ákærðu hafi að þessu loknu haft á brott með sér ýmsa muni úr íbúðinni. Brotaþoli kvað B hafa verið staddan í íbúðinni meðan á þessu stóð. Þá hafi C og D komið áður en ákærðu fóru þaðan brott. Brotaþoli kvaðst ekki hafa leitað á slysadeild fyrr en nokkrum dögum eftir atvikið.
Í skýrslu rannsakanda frá 13. mars 2015 segir að áverkar hafi sést á brotaþola framarlega á hálsi og viðbeini en þar hafi blætt undir húð. Brotaþoli hafi ekki sýnt áverka á höndum eða fótum. Þá staðfestir rannsakandi að brotaþoli hafi hringt í hann 6. mars 2015 og leitað ráða vegna atviksins og hafi hún þá verið hvött til þess að leita á slysadeild og leggja í kjölfarið fram kæru.
Í dagbókarfærslu lögreglu vegna útkalls á heimili brotaþola þann 9. mars 2015 er getið um ónæði ákærða X á heimilinu og ofbeldi eftir að sambandi þeirra lauk. Þá vísaði brotaþoli í samtal við rannsakanda 6. mars 2015.
Þann 19. mars 2015 var tekin skýrsla af brotaþola á heimili hennar auk þess sem vettvangur var myndaður. Í íbúðinni mátti m.a. sjá ákomur á vegg yfir sófa í stofu, eins og einhverju hafi verið barið í vegginn. Í skýrslunni er haft eftir brotaþola að ákærði hafi barið í vegginn með hamri, einnig að hún hafi hlotið áverka á hálsi er ákærði X hefði þrengt að hálsi hennar en hálsmen hennar hafi orðið á milli. Þá hafi hún hlotið áverka á hné og höndum en þeir áverkar hafi verið farnir er hún leitaði á slysadeild. Í skýrslunni lætur rannsakandi þess getið að brotaþoli hafi hringt í hann, sennilega 6. mars sl., og sagt að hún hefði verið svipt frelsi sínu og beitt ofbeldi. Hafi hún verið hvött til þess að leita á slysadeild og kæra málið.
Á meðal gagna málsins er læknisvottorð E, læknis á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Þar kemur fram að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku 8. mars 2015 vegna líkamsárásar sem hún lýsti frekar en fram kom frásögn hennar um að hún hefði m.a. verið bundin á höndum og fótum. Segir í vottorðinu að brotaþoli hafi verið mjög skelkuð og sýnt mikil viðbrögð við öllum snertingum. Hún hafi verið með marga marbletti á hálsi og herðum, brjóstkassa, mjaðmagrind og vinstra læri, suma á stærð við hnefa. Mar/sár/hrufl/klórför hafi verið á hálsi vinstra megin og mar yfir miðju viðbeini með hrufli. Mikið mar hafi verið yfir vinstra herðasvæði og út á utanverða vinstri öxl. Mar og eymsli hafi verið framan á hálsi og barka og upp undir höku, eymslin hafi verið mest framan á hálsi og undir kjálkavinklum, meira vinstra megin. Áverkar hafi verið eins og eftir kyrkingartak, hengingu. Djúpt far hafi verið eftir band eða hálsfesti yfir öllum afturhluta háls neðanverðum og rákir þar fram af til hliðanna og fram á háls. Skrapsár hafi verið undir vinstra eyra (naglaför). Skrapsár, grunnt á hálsi hægra megin og mar niður að miðju viðbeini. Stór marblettur/húðblæðingar á stærð við lófa með eymslum hafi verið undir hægra brjósti og mikil rifjaeymsli við þreifingu og hreyfingu. Grunur hafi verið um rifbrot. Tveir marblettir hafi verið hvor sínum megin við mjaðmagrind hliðlægt. Margir stórir marblettir hafi verið á öllu framanverðu vinstra læri. Ljósmyndir voru teknar af áverkum.
Í gögnum málsins er að finna tímasettar ljósmyndir úr öryggismyndavélum í [...]. Þar má sjá ákærðu koma á stigagang hússins kl. 18:12 og fara upp í lyftu kl. 18:15. Þeir koma aftur niður á stigaganginn með muni, m.a. tölvuskjá, kl. 19:21 og með þeim C og D.
Ákærði X var yfirheyrður hjá lögreglu 13. mars 2015. Hann kannaðist við að hafa komið á heimili brotaþola umrætt sinn. Hann hafi tekið hluti sem hann átti en hann hafi ekki hótað brotaþola, beitt hana ofbeldi eða skemmt nokkuð. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 14. mars 2015. Einnig var með úrskurði 24. mars 2015 staðfest nálgunarbann sem honum var gert að sæta með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 20. mars 2015. Var honum með ákvörðun þeirri óheimilt að nálgast brotaþola í sex mánuði.
Ákærði Y var yfirheyrður þann 16. mars 2015. Staðfesti hann að ákærði X hefði sýnt brotaþola ógnandi hegðun og beitt hana aflsmunum, m.a. „sett hana ofan í sófann“.
II.
Verður nú gerð grein fyrir framburðum ákærðu og vitna fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.
Ákærði X kvaðst hafa farið heim til brotaþola umrætt sinn til þess að sækja eigur sínar en brotaþoli hefði brotist inn til hans og stolið frá honum nánast aleigunni. Hugmyndin hafi verið hans en meðákærði hafi komið með honum. Tilgangurinn hafi verið sá að ræða við hana og fá eigur sínar tilbaka. Kvaðst hann þekkja aðstæður að [...]. Hann hafi hringt á bjölluna niðri og verið hleypt inn en brotaþoli hafi ekki þekkt rödd hans. Fyrst hafi hann farið í geymslu brotaþola og séð þar ýmis verkfæri sem hann taldi sig eiga en að því búnu haldið upp í íbúðina. Brotaþoli hafi hleypt honum og meðákærða inn. Kannaðist ákærði þó við að hafa komið æðandi inn. Ákærða minnti að fleira fólk hefði verið á heimilinu þegar þeir komu. Brotaþoli hafi verið ósátt við að hann væri þangað kominn og kannaðist ekki við að eigur hans væru þarna. Hann hafi hins vegar séð verkfærakassa sinn. Brotaþoli hafi brugðist illa við þegar hann hafi farið að týna saman hluti og rifið þá af honum. Kvaðst hann þá hafa ýtt henni í sófann í stofunni en hvorki lagt á hana hendur né bundið hana. Hafi honum, sem væri 120 kg., verið í lófa lagið að skaða brotaþola ef hann hefði viljað. Þá hafi hann beitt röddinni valdsmannslega og notað ljót orð. Hafi hann viljað hemja hana og koma í veg fyrir að hún skipti sér af því sem hann væri að gera. Hún hafi kastað hlutum niður af svölunum og hann hafi þurft að taka hana inn og loka svaladyrunum. Hún hafi sífellt verið að standa á fætur en hann hafi viljað að hún væri kyrr þar sem hún var. Hafi hann þurft að ýta henni niður þrisvar til fjórum sinnum og síðan hafi hún verið „til friðs“ í sófanum. Áverkar sem vísað væri til í ákæru væru þó ekki eftir hann. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa fylgst með því sem meðákærði gerði en hann hafi verið að ræða við einhverja aðra auk þess sem hann hafi hjálpað honum við að tína saman verkfæri hans sem hafi legið um alla stofu. Hafi hann haft tóman bakpoka meðferðis til að setja muni í.
Ákærði kvaðst hafa komist í mikið tilfinningalegt uppnám þegar hann hafi séð að tölva sem hann átti hafi verið eyðilögð og harði diskurinn fjarlægður úr henni. Í henni hafi verið efni sem hafði persónulegt gildi fyrir hann. Við að sjá þetta hafi hann barið með hamri í vegg í íbúðinni. Vel megi vera að meðákærði hafi að endingu tekið af honum hamarinn. Hann hafi brotnað saman og grátið en B, vinur brotaþola, hafi tekið hann afsíðis og hughreyst hann.
Þá hafi F komið þegar á leið og hafi ákærði sagt honum að vera til friðs eða fara svo að hann gæti lokið því sem hann væri að gera. Einnig hafi C og kærasta hans D komið en þau hafi hjálpað honum og meðákærða við að bera eigur hans út. Hann hafi ekki þekkt þetta fólk en allir hafi verið rólegir og haft skilning á því að hann væri að sækja eigur sínar. Ákærði kvaðst hafa farið með sjónvarp, tölvuskjá, fartölvu og verkfæri heim til sín. Hann kvað brotaþola hafa verið frjálsa ferða sinna.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið undir áhrifum áfengis- og fíkniefna umrætt sinn. Ákærði kvað rangt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að hann og brotaþoli hefðu átt í ástarsambandi eða verið saman. Um misskilning hafi verið að ræða en hann hafi einungis verið með brotaþola í „vernd“.
Ákærði Y lýsti aðdraganda þess að hann fór með meðákærða á heimili brotaþola. Hann kvaðst hafa boðist til að fara með meðákærða og taldi það vera til bóta því hann þekkti brotaþola vel fyrir. Hins vegar þekkti hann meðákærða ekkert fyrir. Meðákærði hafi vænt hana um að hafa stolið hlutum frá sér og vildi fá þá tilbaka. Hafi það verið tölva, verkfæri og hugsanlega sjónvarp. Vitninu hafi ekki fundist allt með felldu. Hann hafi ekki vitað hvort meðákærði hafi átt þessa hluti en engar forsendur haft til að rengja hann. Hafi það verið tölva, hugsanlega sjónvarp og verkfæri. Ákærðu hafi farið í geymsluna og þar hafi verið verkfæri sem meðákærði kvað sig eiga. Brotaþoli hafi hleypt þeim inn í íbúðina og hafi hann haldið sig til hlés í forstofunni. Meðákærði hafi farið að „gramsa“ í tölvu og þá hafi andrúmsloftið breyst. Kvaðst vitnið ekki muna „orðaskakið“ sem átti sér stað í kjölfarið. Hann hafi heyrt hamrinum beitt og séð meðákærða lemja í vegg. Hann hafi tekið hamarinn af honum enda hafði hann talað um það við hann upphaflega að hann vildi ekki að neinn yrði fyrir skaða. Brotaþoli hafi hins vegar verið með „fullmikil mótmæli og vesen“ miðað við að meðákærði átti hlutina og reynt að hindra hann í að taka þá. Hann kvað ákærðu ekki hafa bundið brotaþola en kannaðist við að einhverjar stympingar hefðu verið á milli meðákærða og brotaþola. Meðákærði hafi e.t.v ýtt henni á sófann og hafi hann heyrt að hann vildi að hún sæti kyrr. Kvaðst ákærði þannig staðsettur að hann hafi ekki séð fullkomlega það sem fram fór. Honum hafi ekki „staðið alveg á sama“ að vera þarna, fundist það óþægilegt og því ekki lagt sig fram við að fylgjast með því sem fram fór.
B hafi verið á staðnum fyrir og afskipti hans af honum hafi verið þau að ráleggja honum að halda sig til hlés. Hafi ákærði tekið eftir því að hann var skelkaður. Aðspurður kvað hann það ekki hafa verið vegna þess að ákærði hafi verið ógnandi heldur vegna aðstæðna. Hann kunni þó að hafa verið ákveðinn við hann. Ákærði kvaðst ekki hafa hótað neinum með hamri en hann hafi tekið hamarinn af meðákærða. Geti vel verið að hann hafi haldið á hamrinum í einhvern tíma.
Ákærði kvaðst hafa hleypt C inn þegar hann kom og síðar F. Að lokum hafi ákærðu farið með eitthvert dót meðferðis, m.a. verkfæratösku. Hann kvaðst hafa verið „nokkuð heill“ þegar þetta gerðist en hann væri alkahólisti og hefði nýlega farið í meðferð.
Brotaþoli A kvað B hafa verið gestkomandi hjá sér þegar ákærðu ruddust inn á heimilið en dyrnar hafi verið læstar. Ákærði X hafi hent henni á sófann og hún lent fyrst harkalega á sófabríkinni og síðan í sófanum. Hann hafi öskrað og lamið með hamri í vegginn fyrir ofan hana. Einnig hafi hann lamið í hnéskelina á henni. Kvað hún ákærða hafa legið ofan á henni og verið að kæfa hana. Hann hafi haldið um háls hennar og einnig fyrir vitin. Hún hafi misst meðvitund eða dottið út nokkrum sinnum. Ákærðu hafi síðan fljótlega hjálpast að við að binda hana á höndum og fótum. Eftir það hafi ákærði farið um íbúðina og tekið muni, m.a. tölvu, sjónvarp og verkfæri. Brotaþoli kvaðst muna eftir því að ákærði X fór að gráta og allt hafi farið í uppnám. Meðákærði Y hafi verið sallarólegur og sat í stól í stofunni. Brotaþoli man eftir því að ákærði hafi haldið B afsíðis í sjónvarpsholinu en frá þeim stað mátti sjá inn í stofuna. Ákærði Y hafi ógnað B. B hafi beðið þá um að hætta og reynt að róa þá niður. Það hafi að lokum gengið eftir. F, sem hafi verið þarna fyrr um daginn, hafi komið í lokin og þá hafi hann losað böndin.
Brotaþoli kvað málið fyrst hafa snúist um peninga og fíkniefni sem hún átti að hafa stolið af nafngreindum manni. Brotaþoli kvað það ekki rétt sem ákærði X segði að hún hefði tekið muni frá honum. Hann hefði oft brotist inn til hennar og tekið muni. Í þetta skipti hefði ákærði m.a. tekið tölvu sem hann gaf henni, einnig verkfæri úr geymslu og úr íbúðinni. Aðspurð kannaðist brotaþoli við að hafa brotist einu sinni inn til ákærða en hún hafi ætlað að endurheimta dótið sitt, hins vegar hafi lögreglan komið á staðinn og ekkert orðið úr því. Hún kvað það rangt að ákærði hafi verið að sækja eigur sínar til hennar umrætt sinn.
Brotaþoli kvaðst hafa verið í ágætu ástandi þegar atvik þessi áttu sér stað, þótt hún hefði drukkið bjór. Eftir þetta hafi hún fengið áfall. Hún hafi ekki getað sofið ein og drukkið og neytt fíkniefna til að deyfa sig.
B lýsti því er ákærðu komu með látum inn á heimili brotaþola. Þeir hafi skipað honum inn í stofu og ákærði Y hafi staðið yfir honum með slaghamar og sagt vitninu að halda kjafti. Ákærði X hafi hent brotaþola í sófann og verið yfir henni. Man hann eftir því að hann barði upp undir hana og í bringu og taldi hana hafa legið á grúfu. Vitnið kvað brotaþola hafa verið „strappaða“ á höndum og fótum. Borin var undir vitnið lýsing hans í lögregluskýrslu á því hvernig ákærði X hefði veist að henni en samkvæmt þeirri lýsingu hafi hún legið á bakinu í sófanum, ákærði farið ofan á hana og tekið hana kverkataki. Kvað hann atvik hafa verið með þeim hætti sem hann lýsti hjá lögreglu en í dag myndi hann atvik ekki eins vel og hann gerði þá. Þá staðfesti hann jafnframt að ákærðu hefðu í sameiningu bundið brotaþola og að ákærði X hefði slegið með hamri í vegg. Aðspurður kvaðst hann hafa séð vel inn í stofuna frá þeim stað þar sem hann var og lýsti því nánar.
Vitnið kvað brotaþola hafa verið „skíthrædda“ og hafi honum fundist fyrst og fremst á henni brotið. Kvað hann ákærðu síðan hafa rótað í öllu og allt verið í rúst. Hann hafi náð að róa ákærða X með því að tala hann til. Hafi þeir farið afsíðis og hann talað við hann. Kannaðist vitnið við að ákærði hefði komist í tilfinningalegt uppnám og talað um tölvu og myndir af dóttur sinni sem hefðu glatast. Vitnið kvaðst hafa gist hjá brotaþola eftir þetta en hún hafi verið mjög hrædd og ekki þorað, af ótta við ákærðu, að hafa samband við lögreglu eða leyfa honum að tilkynna verknaðinn.
C kvaðst muna eftir því að hafa séð brotaþola í sófanum. Hún hafi verið bundin á höndum en þrír menn hafi verið í íbúðinni. Ákærðu hafi verið æstir og hann hafi reynt að róa þá niður. Hafi hann verið mjög „stressaður“. Þeir hafi tekið með sér hluti sem þeir sögðu að brotaþoli hefði stolið.
D kvað ákærðu hafa verið í íbúðinni þegar hún og C hefðu komið þangað eftir að hafa skroppið út skömmu áður. Þá minnti hana að F hafi verið þar og setið í stól. Ákærðu hafi verið að taka saman dót, m.a. sjónvarp og tölvu sem brotaþoli átti að hafa tekið hjá ákærða X. Vitnið kvað brotaþola hafa verið á sófanum og hafi hendur hennar verið bundnar með böndum. Hún hafi verið reið út í ákærðu. Kvaðst hún ekki muna í dag hvort þegar hafi verið búið að binda brotaþola þegar hún kom eða hvort það gerðist á meðan hún var í íbúðinni. Þá man hún ekki hver leysti brotaþola en hafi greint frá því hjá lögreglu. Lýsti hún því að hún og C hefðu verið hrædd og þeim hafi verið bannað að fara. Taldi hún sig ekki hafa getað gengið út á þeim tímapunkti.
F bar við minnisleysi og kvaðst hafa verið í neyslu á þeim tíma sem um ræðir. Minntist hann tilviks er hendur brotaþola voru bundnar og að hann hafi klippt böndin af henni en gat ekki lýst atvikum að öðru leyti. Þá mundi hann eftir atviki er brotaþoli henti hlutum niður af svölunum.
E, sérfræðingur á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi, staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum og fór yfir efni þess. Hann kvaðst muna vel eftir þessu atviki enda hafi ástand brotaþola og viðbrögð við allri snertingu verið með þeim hætti. Hann kvað áverka hennar geta samræmst þeirri lýsingu sem hún gaf á því ofbeldi sem hún var beitt en hann hafi ritað skýrsluna. Mundi hann eftir maráverkum á hálsi en greinilegt hafi verið að tekið hefði verið fast um háls hennar. Þá hafi hún verið mjög aum undir brjósti og var greind með rifbeinsbrot. Maráverkar hafi verið mjög dreifðir og hugsanlegt væri að sumir væru nýrri. Helst væri þá óvissa um áverka á öxl. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir áverkum sem gætu hafa komið eftir bönd á höndum og fótum.
III.
Niðurstaða
Ákærðu er gefið að sök að hafa í sameiningu brotið gegn 252. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með háttsemi sinni á heimili brotaþola þann 3. mars 2015. Bera þeir á sama veg um að þeir hafi komið á heimilið í því skyni að endurheimta hluti sem ákærði X kvað brotaþola hafa stolið frá sér einhverju áður. Óumdeilt er að ákærðu mættu á heimili brotaþola án þess að hafa boðað komu sína. Brotaþoli býr í fjölbýlishúsi og liggur ekki ljóst fyrir hver hleypti þeim inn á stigaganginn. Af útprentunum úr öryggismyndavélum fjölbýlishússins sést að ákærðu fóru fyrst inn í geymslu sem brotaþoli átti en ákærði X þekkti staðhætti. Fram kom hjá ákærða X fyrir dómi að hann hafi séð verkfæri í geymslunni og hafi því vitað að brotaþoli væri með aðra muni sem hann hugðist endurheimta. Eftir það tóku þeir lyftu upp í íbúð brotaþola.
Í verknaðarlýsingu í ákæru segir að ákærðu hafi ruðst inn á heimili brotaþola. Ákærðu og brotaþola og vitninu B ber hins vegar ekki saman um hvort þeim hafi verið hleypt inn í íbúðina en óhætt er að leggja til grundvallar framburð brotaþola og B um að þeir hafi komið með miklum látum. Samræmist það einnig framburði ákærða X en ákærðu báðum var ljóst að þeir voru ekki aufúsugestir
Óumdeilt er að ákærði X krafði brotaþola um hluti sem hann vildi fá afhenta. Brotaþoli neitaði hins vegar og reyndi að koma í veg fyrir að hann tæki saman hluti sem hann taldi sig eiga. Leiddi það til þess að ákærði X gekk harðar fram eins og hann lýsti fyrir dóminum. Hér fyrir dómi viðurkenndi ákærði X að hafa veist að brotaþola með því að ýta henni ítrekað í sófann þar til hún hafi verið „til friðs“ en þessu lýsti brotaþoli, sem og vitnið B. Þá hafi hann verið ógnandi í orðum og gjörðum og hafi lamið með hamri í vegg. Á sama veg bar ákærði Y, þ.e. að ákærði X hefði veist að brotaþola með því að ýta henni í sófann og að hann hefði tekið af honum hamarinn eftir að hann sló í vegg til að koma í veg fyrir að hann beitti honum frekar.
Af þessu má ljóst vera að í síðasta lagi á þessum tímapunkti vaknaði ásetningur ákærða X um að beita ofbeldi og hótun um ofbeldi til að endurheimta munina og naut hann aðstoðar meðákærða eins og nánar verður að vikið. Ákærðu bera hins vegar á sama veg um að brotaþoli hafi ekki verið beitt frekara ofbeldi en lýst hefur verið hér að ofan af ákærða X. Að vísu kvaðst meðákærði Y ekki hafa séð greinilega það sem fram fór vegna staðsetningar sinnar.
Brotaþoli lýsti á hinn bóginn fyrir dóminum frekara ofbeldi af hálfu ákærða X, nánar tiltekið hvernig hann hafi slegið hana í síðuna á meðan hún lá í sófanum, tekið hana kverkataki og haldið fyrir vit hennar. Þá bar hún að ákærðu hefðu á einhverjum tímapunkti bundið hana á höndum og fótum með strappböndum. Framburður hennar um þetta ofbeldi fær stoð af vitnisburði B. Að mati dómsins er framburðurinn trúverðugur. Hann er í meginatriðum á sama veg hér fyrir dómi og hjá lögreglu. Þá gaf hún trúverðugar skýringar á því hvers vegna hún hefði ekki lagt fram kæru fyrr og dró ekki dul á að hún hefði neytt fíkniefna dagana á eftir. Framburður vitnisins B er sömuleiðis trúverðugur og er ekkert fram komið sem er til þess fallið að rýra hann þrátt fyrir að tengsl hans við brotaþola séu takmörkuð.
Vitnin C, D og F báru um að brotaþoli hefði verið bundin á höndum þegar þau bar að garði. Ekkert er fram komið sem þykir draga úr trúverðugleika þeirra um þetta. C og E dvöldu um tíma á heimili brotaþola en voru samt sem áður ekki sérstaklega vinveitt henni eins og fram kom í skýrslu þeirra fyrir dóminum.
Brotaþoli leitaði á slysadeild þann 8. mars 2015 eða fimm dögum eftir að atvik áttu sér stað. Bar hún ýmsa áverka sem að mati læknisins sem skoðaði hana gátu samræmst þeirri lýsingu sem hún gaf á ofbeldi af hálfu ákærða X. Þá kvað hún ákærðu báða hafa bundið hana á höndum og fótum en engin áverkamerki var þar að finna. Fyrir dómi bar læknirinn að líklegt væri að smávægilegir yfirborðsáverkar sæjust ekki nokkrum dögum eftir árás. Þá væri erfitt að aldursgreina marbletti nákvæmlega en almennt yrðu þeir dekkri eða litaðri eftir því sem frá liði..
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið þykir framburður ákærðu um að brotaþoli hafi ekki verið beitt frekara ofbeldi en X hefur sjálfur lýst ótrúverðugur. Hann er í ósamræmi við læknisfræðileg gögn málsins og trúverðugan framburð brotaþola og vitna eins og áður er lýst. Þá er til þess að líta að óumdeilt er að ákærði X var í annarlegu ástandi og í miklum ham. Var hegðan hans með þeim hætti að meðákærða þótti ástæða til að grípa inn í eins og fram er komið.
Dómurinn telur með vísan til ofangreinds sannað, að hluta til með játningu ákærða X, að hann hafi beitt brotaþola því ofbeldi sem lýst er í ákæru að því undanskildu að ósannað er að hún hafi misst meðvitund í a.m.k. eitt skipti. Jafnframt telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi í sameiningu bundið brotaþola á höndum og fótum en það fær stoð af framburði vitna og brotaþola. Þá er sannað með játningu ákærða X að hann hafi slegið með hamri á nánar tilgreinda staði í vegg íbúðar brotaþola. Sú játning samræmist öðrum framburði eins og fram er komið.
Þá telur dómurinn sannað að afleiðingar árásarinnar hafi verið þær sem í ákæru greinir að undanskildum áverka á vinstri öxl. Aðrar afleiðingar eru í samræmi við gögn málsins og framburð þess læknis sem skoðaði brotaþola á slysadeild.
Dómurinn telur jafnframt sannað með framburði ákærðu að ákærði Y hafi staðið yfir vitninu B og gætt þess að hann hefði sig ekki í frammi á meðan ákærði X veittist að brotaþola. Staðfesti brotaþoli þetta fyrir dóminum. Þá gaf vitnið B trúverðuga lýsingu á því hvernig ákærði hefði haft í hótunum við hann og á einhverjum tímapunkti haldið á hamri og verið ógnandi. Ákærði Y dró mjög úr alvarleika hans þáttar hvað þetta varðar en viðurkenndi þó að hann hefði haldið á hamri og að hann hafi gert sér grein fyrir því að B hefði haft ástæðu til að óttast vegna þess ástands sem ákærðu höfðu skapað. Telur dómurinn sannað að aðild ákærða Y fólst í framangreindu auk þess sem hann veitti meðákærða liðsinni við að binda brotaþola.
Ákærðu sviptu brotaþola A og B bæði frelsi þann tíma sem þeir voru í íbúðinni eða í rúma klukkustund. Höfðu þau bæði fulla ástæðu til þess að líta svo á að þau myndu hljóta verra af ef þau reyndu að yfirgefa íbúðina. Ber í þessu sambandi að líta til atburðarásarinnar í heild og breytir hér engu þó að ákærði X hafi róast þegar á leið. Er ljóst að frelsissviptingin var liður í því að ná verðmætunum af brotaþola og stóð hún yfir í nokkurn tíma. Þá er til þess að líta að önnur vitni sem komu í íbúðina eftir á upplifðu ástandið yfirþyrmandi og var sagt að hafa sig hæg.
Eins og rakið hefur verið komu ákærðu báðir í þeim tilgangi að endurheimta muni sem ákærði X taldi vera sína eign og óumdeilt er að þeir höfðu á brott með sér þá muni sem tilgreindir eru í ákæru. Gekk ákærði Y út frá því að þessir hlutir væru eign meðákærða en bar þó um fyrir dómi að hann hafi ekki vitað það með vissu. Hið sama kom fram hjá vitnunum C og D sem höfðu eftir ákærðu að munirnir væru eign ákærða X. Ákærði X gerði hins vegar ekki reka að því að sýna fram á að hann væri í reynd eigandi þeirra muna sem tilgreindir eru í ákæru. Breytir hér engu þó að brotaþoli hafi gert innbrotstilraun á heimili hans á árinu 2014. Munirnir sem ákærðu tóku voru á heimili brotaþola. Eru því löglíkur fyrir því að hún hafi verið eigandi þeirra eða haft lögmætar vörslur þeirra. Ákærði X braut á bak mótspyrnu brotaþola A með ofbeldi og ógnunum. Þá kom ákærði Y í veg fyrir að B gæti veitti henni liðsinni með ógnunum og hótunum. Þessum aðferðum beittu ákærðu til þess að takast ætlunarverk sitt sem var að gera ákærða X kleift að taka fyrrgreinda muni en ágreiningslaust er að það eru þeir hlutir sem í ákæru greinir. Í þessu felst tileinkunarásetningur og ásetningur til auðgunar.
Telur dómurinn að öllu ofangreindu virtu sannað að ákærðu hafi gerst sekir um samverknað sem fólst í verkaskiptri aðild í ránsbroti og frelsissviptingu A og B. Jafnframt að ákærði X hafi gerst sekur um eignaspjöll umrætt sinn. Eru brot ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Ákvörðun refsingar
Ákærði X hlaut dóm fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga þann 29. apríl 2015. Brot hans nú voru framin áður en hann hlaut þann dóm, en þá var hann dæmdur í þriggja mánaða fangselsi, skilorðsbundið í þrjú ár. Ber því í samræmi við 78. gr. laganna að dæma honum hegningarauka sem er sú refsing sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin á sama tíma, sbr. 77. gr. laganna. Verður dómur ákærða frá 29. apríl 2015 tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Vegna alvarleika verknaðar ákærða telur dómurinn ekki fært að skilorðsbinda refsinguna.
Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að um alvarleg brot var að ræða þar sem nauðung og ofbeldi var beitt á heimili brotaþola þar sem hún mátti telja sig óhulta. Þá er litið til þess að um hátt stig ásetnings var að ræða og ákveðna stigmögnun þar til vitninu B tókst að tala ákærða til. Vísast í þessu sambandi til 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Einnig er litið til þess að um samverknað ákærðu var að ræða, sbr. 2. mgr. 70. gr. laganna.
Í málinu er upplýst að ákærði og brotaþoli voru ekki sambýlisfólk. Ber þeim raunar ekki saman um hve náin tengsl þeirra voru í reynd. Við ákvörðun refsingar verður ekki litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði.
Til frádráttar refsivist ákærða kemur gæsluvarðhald hans frá14. mars til 20. mars 2015.
Sakarferill ákærða Y hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Hann hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot og er til þess litið. Fram kom hjá ákærða fyrir dómi að hann hefði farið í meðferð og neytti ekki fíkniefna í dag. Engin vottorð því til staðfestingar voru þó lögð fram og kemur því ekki til álita að líta til þessa atriða.
Til refsiþyngingar ber að líta til þess að um alvarleg brot var að ræða, framin á heimili brotaþola. Þá verður litið til stigs ásetnings ákærða en honum var ljóst áður en hann lagði í umrædda för með meðákærða að til vandræða gæti komið. Engu að síður reyndi ákærði ekki að koma í veg fyrir það sem þar gerðist nema að litlu leyti og lét sér annað í léttu rúmi liggja. Varð aðild hans til þess að það tókst að fullfremja ránsbrotið. Þá var það ekki fyrir hans tilstilli að meðákærði róaðist að lokum. Vísast í þessu sambandi til 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.Við ákvörðun refsingar er jafnframt litið til 77. gr. laganna.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði.
Bótakrafa
Brotaþoli A hefur krafist miskabóta óskipt (in solidum) úr hendi ákærðu að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta. Brot ákærðu gegn 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga eru til þess fallin að valda brotaþola miska. Vegna þeirrar ólögmætu meingerðar á brotaþoli rétt á bótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brotaþoli virðist hafa náð sér ágætlega af líkamlegum áverkum sínum og jafnað sig andlega en fyrst á eftir var hún hrædd við ákærðu og afleiðingar legði hún fram kæru. Þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 850.000 krónur. Þá ber að dæma ákærðu til að greiða almenna vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af fjárhæðinni frá 3. mars 2015 til 15. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Krafa brotaþola er að öðru leyti ekki studd gögnum og verður þeim hluta hennar því hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar. Allt eins og í dómsorði greinir.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X , sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 14. mars til 20. mars 2015.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærðu greiði A 850.000 krónur óskipt með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. mars 2015 til 15. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun verjanda síns Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl. 898.000 krónur þar með talið fyrir störf hans á rannsóknarstigi.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar hrl. 955.000 krónur þar með talið fyrir störf hans á rannsóknarstigi.
Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola Sigurðar Arnars Hilmarssonar hdl. 320.000 svo og þóknun réttargæslumanns á rannsóknarstigi Kára Valtýssonar hdl. 143.220 krónur svo og annan sakarkostnað 128.000 krónur.