Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-91
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Heimilisfesti
- Lögheimili
- Stjórnvaldsákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 7. júlí 2023 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. júní sama ár í máli nr. 182/2022: Íslenska ríkið gegn A og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að felldir verði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá 2018 og úrskurður yfirskattanefndar frá 2019 um heimilisfesti og skattskyldu gagnaðila samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort gagnaðili hafi slitið skattalegri heimilisfesti hér á landi þegar hann tilkynnti Þjóðskrá um flutning lögheimilis síns til Bretlands eða hvort miða bæri við þann dag þegar hann tók við varanlegu húsnæði þar.
4. Með héraðsdómi voru úrskurðir bæði ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar felldir úr gildi. Landsréttur staðfesti héraðsdóm um ógildingu úrskurðar yfirskattanefndar en vísaði frá kröfu um að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi. Í dómi Landsréttar kom fram að gagnaðili hefði tilkynnt Þjóðskrá um flutning lögheimilis til Bretlands 24. maí 2012, flogið þangað sama dag og undirritað samning um afnot bráðabirgðahúsnæðis. Þá taldi rétturinn að verulegir annmarkar væru á þeirri niðurstöðu skattyfirvalda að form og efni samnings gagnaðila um bráðabirgðahúsnæði hafi verið með þeim hætti að það gæti ekki talist hafa verið lögheimili hans í skilningi 1. mgr. 1. gr. þágildandi laga nr. 21/1990 um lögheimili. Að sama skapi yrði ekki séð að sú ályktun að gagnaðili hefði haldið áfram heimili hér á landi eftir að hann tilkynnti Þjóðskrá um flutning lögheimilis síns ætti sér stoð í gögnum málsins. Yrði samkvæmt því ekki komist hjá því að álykta að ekki hefði verið lagður nægjanlega traustur grundvöllur að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði ekki flutt skattalega heimilisfesti til Bretlands fyrr en hann tók við varanlegu húsnæði þar 18. júlí 2012 í skilningi 1., sbr. 2. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt yrði að líta til þess að skattyfirvöld hefðu með öllu látið hjá líða að rökstyðja af hverju líta skyldi fram hjá staðfestingu breskra yfirvalda á skattalegri heimilisfesti gagnaðila frá 24. maí 2012.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi enda reyni þar á grunnstoð íslenska skattkerfisins um hverjir teljist heimilisfastir hér á landi og þar með skattskyldir, og hafi fordæmisgildi um skýringu á 1. gr. laga nr. 90/2003. Þá varði málið mikilvæga hagsmuni hans. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar jafnframt vera í andstöðu við fyrri fordæmi Hæstaréttar þar sem Landsréttur leggi áherslu á skráningu um heimilisfesti í stað þess að meta heildstætt hvar miðstöð persónulegra hagsmuna gagnaðila var í skilningi laganna. Leyfisbeiðandi telur að ekki fái staðist að erlend vottorð hafi þýðingu þegar komi að mati á heimilisfesti samkvæmt greininni enda skuli miða heimilisfesti við lög um lögheimili og þá mælikvarða sem þar eru tilgreindir, þar með talið hvar bækistöð manns er, heimilismunir og svefnstaður.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.