Hæstiréttur íslands
Mál nr. 720/2014
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 7. maí 2015. |
|
Nr. 720/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Svavari Kristinssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur sviptur ökurétti.
S var sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum nr. 50/1987 með því að hafa tvisvar sinnum ekið bifreið án ökuréttinda og í annað skiptið undir áhrifum áfengis. Að virtum sakaferli S og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hans ákveðin 10 mánaða fangelsi. Þá var ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 2014 í samræmi við yfirlýsingu varnaraðila um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Að virtum sakaferli ákærða, sem rakinn er í hinum áfrýjaða dómi, og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Svavar Kristinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 259.907 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. október 2014.
Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 25. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Selfossi þann 29. ágúst sl., á hendur Svavari Kristinssyni, kt. [...], til heimilis að [...],[...],
„fyrir umferðarlagabrot
I.
með því að hafa um hádegisbil laugardaginn 10. maí 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti ævilangt suður Breiðumörk við Skólamörk í Hveragerði.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
II.
með því að hafa síðdegis miðvikudaginn 21. maí 2014 ekið bifreiðinni [...] vestur Þelamörk við Kjarrheiði í Hveragerði, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,78) og sviptur ökurétti ævilangt.
Teljast brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði mætti við þingfestingu málsins og lýsti yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.
Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og ákærða sjálfum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Kom þá fram í máli ákærða að hann væri sjúklingur. Eftir dómtöku málsins afhenti ákærði dóminum vottorð um heilsufar sitt. Þess skal getið að ákæranda var kunnugt um afhendingu gagnanna og gerði ekki athugasemdir við hana.
Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði og öðrum gögnum hefur ákærði sjö sinnum áður sætt refsingu, í öll skiptin vegna umferðarlagabrota. Þar af hefur ákærði fimm sinnum áður sætt refsingu vegna ölvunaraksturs og sex sinnum vegna aksturs sviptur ökurétti. Fyrst þann 20. maí 2003 samkvæmt lögreglustjórasátt, þar sem ákærða var gerð sekt meðal annars vegna ölvunaraksturs auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þann 13. október 2003 var ákærða á ný gerð sekt, þá vegna ölvunarakstur og aksturs sviptur ökurétti, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þann 7. mars 2006 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Þann 14. febrúar 2007 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga vegna aksturs sviptur ökurétti. Þann 26. apríl 2007 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í þrjá mánuði vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti og ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð. Var þar um að ræða hegningarauka við áðurgreindan dóm frá 14. febrúar sama ár. Þann 10. febrúar 2011 var ákærða gert að sæta fangelsi í tvo mánuði vegna aksturs sviptur ökurétti. Loks var ákærði þann 28. febrúar 2012 dæmdur til að sæta fangelsi í 3 mánuði vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði er nú fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti í sjötta sinn. Þá er ákærði nú og fundinn sekur um ölvunarakstur og er það brot hans ítrekað í fimmta sinn.
Refsing ákærða er að virtum hegningaraukasjónarmiðum hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 28.210 kr.
Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Svavar Kristinsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 28.210 krónur.