Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2002
Lykilorð
- Vinnuslys
- Sjómaður
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Sakarskipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2003. |
|
Nr. 467/2002. |
Sólrún ehf. (Karl Axelsson hrl.) gegn Birni Rúnari Agnarssyni (Jónas Haraldsson hrl.) og gagnsök |
Vinnuslys. Sjómenn. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.
B, sem var háseti um borð í skipi S ehf., slasaðist þegar skipverjar unnu að löndun úr skipinu með því að hífa fiskkör úr lestinni. Í Hæstarétti var tekið fram að ekki væri annað komið fram en á hafi skort um greinilegar fyrirskipanir um hvernig staðið skyldi að lönduninni, sem var sérlega aðkallandi þar sem skipverjar voru ekki vanir skipinu. Var því fallist á það með héraðsdómi að orsök slyssins mætti rekja til þess að ekki var staðið að hífingunni með markvissum hætti. Þá þótti sú háttsemi B að taka sér stöðu á bak við stæðuna meðan híft var í hana ekki hafa þjónað nokkrum tilgangi við verkið og hefði honum, sem var þrautvanur sjómannsstörfum, átt að vera ljós hættan sem hann var í. Var því fallist á það með héraðsdómi að B skyldi bera helming sakar en S ehf. sjálft hinn hlutann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. október 2002. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnáfrýjanda og sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 2. desember 2002. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 14.194.056 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 8. janúar 1999 til 5. mars 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Skipverjar unnu að löndun úr skipi aðaláfrýjanda, m/s Sólrúnu EA-351 að kvöldi 8. janúar 1999. Voru þeir að hífa fiskkör úr lest skipsins þegar gagnáfrýjandi, sem var háseti um borð, slasaðist. Er ekki deilt um hvernig slysið bar að höndum heldur hver beri ábyrgð á því. Gagnáfrýjandi og annar háseti unnu í lest skipsins, háseti var við lúguopið og sagði yfirvélstjóranum til um hífingar, stýrimaður tók á móti körunum í landi, en skipstjórinn var staddur í brú skipsins. Stýrimaðurinn bar að ákveðin vinnuregla hafi verið viðhöfð í lestinni við löndun og taldi sig hafa miðlað henni til hásetanna. Sagði hann að þegar körin undir lúgunni hefðu verið tekin, ætti næst að taka körin til hliðar við lúguna og skapa þannig rými, sem mennirnir geti verið í meðan verið væri að hífa eða draga körin að aftan eða framan úr lestinni. Þetta sé gert til þess að koma í veg fyrir að mennirnir yrðu fyrir körunum. Enginn hásetanna kannaðist við það að þeim hefði verið kynnt þessi vinnutilhögun. Skipverjar höfðu nýlega tekið við þessu skipi og kemur fram í héraðsdómi að kranamaður gat sjálfur séð niður í lestina á fyrra skipinu og þurfti ekki að styðjast við bendingar lúgumanns. Er ekki annað fram komið en á hafi skort um greinilegar fyrirskipanir um hvernig staðið skyldi að lönduninni, sem sérlega var aðkallandi þar sem þeir voru ekki vanir skipinu. Yfirvélstjórinn bar að lúgumaðurinn hefði gefið sér of seint merki um að stöðva hífingu og merkjagjöfin hefði ekki verið nægilega greinileg. Ber að fallast á það með héraðsdómi, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum ásamt embættisdómara, að orsök slyssins megi rekja til þess að ekki var staðið að hífingunni með markvissum hætti. Einnig ber að fallast á það með héraðsdómi að sú háttsemi gagnáfrýjanda að taka sér stöðu á bak við stæðuna meðan híft var í hana hafi ekki þjónað nokkrum tilgangi við verkið og hafi honum, sem var þrautvanur sjómannsstörfum, átt að vera ljós sú hætta, sem hann var í, hryndi stæðan, svo sem hún gerði.
Af framangreindum ástæðum þykir bera að fallast á það með héraðsdómi að aðaláfrýjandi skuli bera helming sakar en gagnáfrýjandi sjálfur hinn hlutann.
Aðaláfrýjandi sættir sig við tölulega útfærslu kröfu gagnáfrýjanda að öðru leyti en því að hann telur að lækka beri tímabundið atvinnutjón um greiðslur, sem gagnáfrýjandi hafi þegið á því tímabili og vísar í greinargerð sína í héraði þessu til styrktar. Þar er þó ekki nægjanlega rökstutt um hvaða greiðslur er að ræða. Ber með vísun til raka héraðsdóms að staðfesta dóminn um tölulega útfærslu. Vaxtaákvörðun héraðsdóms og málskostnaðarákvörðun er staðfest.
Aðaláfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti í ríkissjóð, svo sem nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Sólrún ehf, greiði í ríkissjóð 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, Björns Rúnars Agnarssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. september 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. f.m., hefur Jónas Haraldsson hrl. höfðað með stefnu þingfestri 6. september 2001 f.h. Björns Rúnars Agnarssonar, kt. 300168-5159, Garðarsbraut 83, Húsavík, á hendur Sólrúnu ehf., kt. 420471-0849, Sjávargötu 2, Árskógssandi, Dalvíkurbyggð, og til réttargæslu Verði vátryggingafélagi, kt. 690269-6359, Skipagötu 9, Akureyri.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, Sólrún ehf., verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 17.499.883 auk 2% ársvaxta skv. 16. gr. laga nr. 50, 1993 frá 8. janúar 1999 til 5. mars 2001, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá þ.d. til 1. júlí 2001, en dráttarvaxta frá þ.d. skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 til greiðsludags, ásamt málskostnaði skv. framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti kr. 3.436.278 eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn í málinu þann 31. maí 2001.
Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.
Stefndi, Sólrún ehf., krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda, ennfremur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda skv. málskostnaðar-reikningi, samtals kr. 2.003.134 eða að mati dómsins.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar kröfur en tekið undir kröfur stefnda.
Málsatvik eru þau, að laust fyrir kl. 22 föstudaginn 8. janúar 1999 slasaðist stefnandi þegar hann vann að löndun úr skipi stefnda, m/s Sólrúnu EA-351, sem lá við hafnarbakkann á Árskógssandi, en hann var háseti þar um borð. Var hann að vinna í lest skipsins ásamt Adolf Braga Hermannssyni háseta og höfðu þeir þann starfa að krækja í fiskiker, sem hífð voru upp úr lestinni. Við lúguopið var síðan Pétur Hjörleifur Tryggvason háseti og sagði kranamanninum Jóni Grétarssyni yfirvélstjóra til um hífingar. Á bryggjunni var síðan Jón Ingi Sigurðsson stýrimaður til að taka á móti kerjunum. Skipstjórinn Ólafur Sigurðsson var staddur í brú skipsins. Lögregla og sjúkraflutningamenn komu á staðinn.
Þann 11. febrúar s.á. var tekin lögregluskýrsla af stefnanda. Hann kvaðst hafa unnið að löndun í lest ásamt Adolf Braga Hermannssyni. Hafi verið búið að hífa tíu til tólf kör upp úr lest og hafi þeir verið að taka kör úr „steis“ (gangi eftir miðri lest) að aftan, en körin hafi verið 600 lítra með rúmum 600 kílóum af fiski og verið í þriggja hæða stæðum. Þannig hafi verið staðið að hífingum að tveimur krókum hafi verið húkkað í neðsta karið í stæðunni framanvert og síðan híft nokkuð í stæðuna þannig að stæðan var dregin framundir lestarlúguna til að hífa hana áfram upp úr lestinni. Hafi karastæðan verið komin framundir lúguna og hafi hann þá kallað á lúgumanninn til að stoppa hífinguna, en það hafi ekki verið gert. Hann kvaðst hafa staðið aftan við körin og hafi ekki haft neina undankomuleið og ljóst að hann yrði undir körunum ef ekki yrði hætt að hífa og þau myndu hvolfast yfir hann aftur í rýmið. Hafi hann og Adolf Bragi, sem var fyrir framan körin, öskrað á lúgu- og spilmann að hætta að hífa, án árangurs og hafi hann híft þar til körin hvolfdust aftur í rýmið og efsta karið hafi lent á honum þar sem hann hafi verið búinn að forða sér að afturþili lestarinnar og þar upp á dálitla upphækkun eða pall, sem var á gólfi lestarinnar. Hafi hann fengið karið á sig frá mjöðm og niður og hafi orðið undir efsta karinu og síðan hafi karið runnið niður á fótlegg hans og hafi hann þá fallið við eða látið sig falla undan þunga karsins niður á hnén á lestargólfið, en fæturnir hafi samt verið skorðaðir á upphækkuninni. Einnig hafi neðri tvö körin pressað mjög á hann þannig að hann hafi verið alveg klemmdur undir þeim og fundið til mikils sársauka í fótunum. Hafi körin síðan verið hífð ofan af honum og hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.
Aðspurður um hugsanlega orsök slyssins kvaðst hann telja að boðskipti á milli lúgumanns og spilmanns hafi eitthvað ekki verið á hreinu og því hafi farið sem fór. Þetta var fyrsta sjóferð stefnanda á skipinu sem fór í róður þann 4. janúar 1999.
Fyrir dómi bar stefnandi að Adolf Bragi hefði stjórnað verki í lestinni og hafi Adolf Bragi sagt honum að fara afturfyrir stæðuna. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hættunni fyrir aftan stæðuna og kannaðist ekki við að yfirmenn hafi gefið fyrirmæli um hvernig ætti að standa að löndun og vissi ekki til að neinar vinnureglur hafi gilt um hvernig ætti að standa að lönduninni. Ekki sagði hann að karastæðan hefði rekist á misfellu í lestargólfin sem hafi valdið því að hún féll. Þetta var í fyrsta skipti sem hann vann að löndun úr skipinu og sagði að alltaf væri farið á bak við körin á þeim skipum sem hann hafði verið á. Hafi hann stutt við stæðuna þegar híft var.
Þann 25. apríl 1999 var gerð lögregluskýrsla samkvæmt símtali þann dag við vitnið Adolf Braga Hermannsson fæddan 1978. Hafi hann unnið í lestinni með stefnanda og búið hafi verið að hífa þau kör sem voru beint undan lestarlúgunni og þurft að krækja í karastæður sem voru þar fyrir aftan. Hefðu þeir krækt á tveimur stöðum í neðsta karið og síðan hafi hann spurt stefnanda hvort hann vildi vera aftan við karastæðuna, bæði til að ýta á eftir henni og til stuðnings. Er eftir honum haft að hann hafi vitað að þetta væri varasamt að standa þarna aftan við og hafi stefnandi einnig vitað það, en þetta yrði samt að gera og væri alltaf gert til að koma stæðunni undir lúguopið. Hafi hann sagt Pétri lúgumanni þegar hífa átti og hafi hann híft rólega. Þegar hann hafi kallað stopp þegar stæðan hafi verið komin svo til undir lúguna hafi Pétur ekki heyrt það. Þá hafi hann öskrað en á sama tíma hafi verið búið að hífa stæðuna of mikið þannig að hún féll aftur í lestina og neðsta karið hafi skotist undan og fram.
Fyrir dómi bar Adolf Bragi að hann hafi verið á skipinu 5-6 mánuði er slysið varð og hafi hann stjórnað verki í lestinni. Hann kvaðst hafa sagt stefnanda að fara aftur fyrir stæðuna og ýta á eftir henni. Þetta verklag hafi tíðkast við löndun a.m.k. hafi þetta oft verið gert. Ekki kannaðist hann við að yfirmenn hafi gefið fyrirmæli um hvernig ætti að standa að verki við löndun né hafi vinnureglur gilt um það. Karastæðan hafi ekki rekist á misfellu í gólfinu heldur hrunið vegna hífingarinnar. Hann sagði að stefnandi hafi fyrst beðið sig að fara á bak við stæðuna en hann hafi sagt honum að gera það og til smá orðaskipta hafi komið á milli þeirra, en engin deila. Hafi stefnandi skriðið yfir körin til þess að komast aftur fyrir þau. Hafi stefnandi ýtt efsta karinu til þess að búa til góðan stuðning á móti þegar híft var. Hann kvaðst sjálfur oft hafa staðið þannig að verki. Hann staðfesti yfirlýsingu sína undirritaða 5. apríl 2001 sem er í meginatriðum efnislega í samræmi við það sem áður hefur verið rakið.
Lögregluskýrsla var tekin af vitninu Jónasi Inga Sigurðssyni stýrimanni, fæddum 1963, þann 27. október 1999. Hann kvaðst hafa verið á bryggjunni við að taka á móti körunum. Hann sagði að ákveðin vinnuregla sé viðhöfð í lest við löndun og eigi að standa þannig að verki að menn hafi alltaf pláss til hliðar þegar verið sé að hífa körin upp. Þegar búið sé að taka körin sem undir lúgunni séu þá eigi að taka körin til hliðar undir lúgunni til að skapa rými sem menn geti verið í meðan verið er að hífa eða draga til körin, aftan eða frama til úr lestinni. Eftir slysið hafi Adolf Bragi sagt honum að stefnandi hafi beðið hann að fara aftur fyrir stæðuna, sem hann hafi neitað og stefnandi þá sjálfur farið aftur fyrir til að ýta á eða halda við stæðuna meðan híft var. Bak við stæðuna séu menn í mikilli hættu þar sem engin undankomuleið sé ef eitthvað fari úrskeiðis og að standa þannig að verki sé óvenjulegt og ekki í samræmi við fyrirmæli hans um löndun.
Fyrir dómi bar hann á sama veg, Adolf Bragi hafi ekki haft verkstjórn á hendi og standa hefði átt að verki eins og eigi að gera. Stefnandi hafi verið upplýstur um hvernig standa ætti að verki.
Ólafur Sigurðsson skipstjóri, fæddur 1961, gaf skýrslu hjá lögreglu 26. október 1999. Hann sagði að um bein fyrirmæli við hverja löndun væri ekki að ræða heldur reynt að skapa ákveðnar vinnureglur. Hann kvaðst gefa stýrimanni fyrirmæli um löndun sem hann svo sjái um að framkvæma. Í lestinni séu körin að mestu frammi í skipinu, en tvær raðir af körum aftan við lúguopið. Hann kvaðst vita að sú vinnuregla sé viðhöfð í lestinni að fyrst sé híft karið undir lúgunni og síðan það næsta til hliðar. Næst sé svo tekið karið sem er aftan við lúguopið og meðan það sé dregið undir lúguna þá eigi menn að standa til hliðar. Eftir slysið hafi hann fengið að vita að stefnandi hafi skriðið yfir og aftur fyrir karastæðuna til að ýta á eftir henni þegar híft var í. Þetta eigi ekki að gera.
Fyrir dómi bar hann á sama veg. Hann kvaðst hafa verið í brúnni við skýrslugerð er slysið varð. Adolf Bragi hafi ekki haft verkstjórn á hendi en stýrimaður sjái um verkstjórn á dekki. Þetta hafi verið fyrsti túrinn á þessu skipi en áður hafi verið farinn einn prufutúr. Á þessu skipi hafi þurft lúgumann þar sem ekki hafi verið sjónlína frá spili niður í lest. Stefnanda hafi ekkert verið leiðbeint sérstaklega, menn skipti með sér verkum þannig að menn séu færir í öll verk. Hann kvaðst ekkert hafa fylgst með lönduninni, þar hafi stýrimaður stjórnað.
Þann 26. maí 1999 var tekin lögregluskýrsla af vitninu Pétri Hjörleifi Tryggvasyni háseta, fæddum 1976. Hann kvaðst hafa staðið við lúguna og sagt kranamanni til um hífingar. Eftir að búið var að húkka í karastæðuna sem var fyrir aftan lestaropið hafi stefnandi farið aftur fyrir stæðuna til að ýta á eftir henni. Þegar híft var í stæðuna hafi neðsta karið lent á misfellu í pöllunum og stæðan hrunið aftur í lestina og ofan á stefnanda. Um leið og hann sá hvað var að gerast hafi hann bent kranamanni að hætta að hífa, sem hann hafi gert strax, en þá hafi stæðan verið hrunin á stefnanda. Hann sagði að það hafi aldrei verið nefnt við þá að það væri hættulegt að standa bak við körin á meðan verið væri að hífa þau innundir lestarlúguna, en þetta hafi aldrei verið gert áður, þ.e. að maður færi á bak við körin á meðan verið væri að hífa í þau.
Fyrir dómi bar vitnið mjög á sama veg. Hann hefði gefið hefðbundið stoppmerki með því að rétta hendina upp. Álpallar hafi verið misháir í lestinni. Þegar híft sé með tveimur krókum í stæðuna þá lyftist hún aðeins.
Þann 11. maí 1999 var tekin lögregluskýrsla af Jóni Grétarssyni yfirvélstjóra, fæddum 1959. Hann kvaðst hafa tekið við stjórnun spilkranans af vélaverði, en hann hafi aldrei áður híft úr þessari lest og því verið óvanur. Hann kvaðst hafa vitað að til stóð að draga fram karastæðu í lestinni og hafi hann farið eftir merkjum sem lúgumaðurinn Pétur gaf honum. Fyrst hafi Pétur gefið honum merki um að hífa til að draga körin fram, síðan hafi hann gefið merki um að hætta hífingu og hafi hann þá haldið að körin væru komin undir lúguna. Næsta merki sem Pétur hafi gefið var að hífa upp og hafi hann gert það. Síðan hafi hann gefið honum merki um að hætta og kveðst hann hafa stoppað spilið strax og haldið að karið hefði rekist í lúgukarminn, en þá heyrt mikinn hávaða frá lestinni og öskur í mönnum. Hann sagði að merki þau sem Pétur gaf hafi verið mjög ógreinileg þar sem hann hafi snúið á hlið og verið með hendina niðri. Munur á milli þess hvort átti að hífa eða slaka hafi verið mjög lítill. Hann sagði að enginn ætti að vera aftan við stæðurnar á meðan verið væri að draga þær til, enda þjónaði það engum tilgangi vegna þunga kerjanna, sem enginn maður réði við.
Fyrir dómi bar vitnið mjög á sama veg. Hann sagði merkin frá lúgumanni hafa verið ógreinileg. Hafi hann verið að reyna að gefa bendingar með puttum, vettlingaklæddur. Hafi hann gefið merki um að hífa og hafi hann stöðvar spil strax og bending kom um það.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi telur að slysið verði einungis rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda, þ.e.a.s. lúgumannsins og spilmannsins, svo og Adolfs Braga Hermannssonar háseta. Stefnandi hafi verið í sinni fyrstu veiðiferð á skipinu og hafi aldrei áður unnið þar að löndun og hafi hann farið að fyrirmælum Adolfs Braga sem stjórnaði verki í lest. Hafi hann ekki fengið nein sérstök fyrirmæli eða leiðbeiningar frá skipstjórnarmönnum um hvernig staðið skyldi að verki. Í því sambandi vísar hann til þess að Rannsóknanefnd sjóslysa hafi staðið að útgáfu leiðbeininga um staðlaðar bendingar við hífingar. Samkvæmt 8. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 beri skipstjóra skylda til að sjá til þess að nýliðum um borð sé leiðbeint um þau störf sem þeir eiga að vinna og skv. 56. gr. sömu laga þá séu þeir skyldir sem stjórni verkum að gæta þess að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum. Þá hafi verið sérstök ástæða til að leiðbeina stefnanda og vara við mögulegum aðsteðjandi hættum þar sem hann sé mjög heyrnarskertur, þó svo að því sé ekki haldið fram að slysið verði að nokkru leyti rakið til heyrnarskerðingarinnar. Þá séu það ólíkindi ef nýliði um borð, eins og stefnandi var, hafi verið að skipa vönum manni eins og Adolf Braga fyrir verkum. Slysið hefði aldrei orðið ef farið hefði verið að fyrirmælum þeirra sem í lestinni unnu og orsök slyssins eingöngu rakin til þess að lúgumaðurinn bregst af einhverjum ástæðum og lætur ekki stöðva spilið fyrr en um seinan. Ósannað sé að stæðan hafi fallið vegna þess að hún hafi rekist á misfellu í lestargólfi. Telur stefnandi, með vísan til XIII. kafla siglingalaga nr. 34, 1985, að þá hefði borið skylda til að halda sjópróf, sem ekki hafi verið gert, og beri því stefndi hallann af sönnunarskorti. Einnig séu lögregluskýrslur teknar á löngu tímabili eftir slysið.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að um nokkra sök sé að ræða. Byggir hann á því að slysið teljist óhappatilviljun, sem engum verði kennt um. Eina ástæðan fyrir slysinu hafi verið sú ákvörðun stefnanda að smeygja sér bak við körin meðan verið var að draga þau fram, en atvik að öðru leyti ekki verið með öðrum hætti en venjulegt megi teljast. Á þessu háttalagi sínu beri stefnandi einn ábyrgð og því sé um óhappatilviljun að ræða. Telji dómurinn hins vegar slysið að einhverju leyti verða rakið til sakar starfsmanna stefnda er á því byggt að athafnir stefnanda séu þess eðlis að fella beri niður bótaábyrgð, ef ekki í heild þá a.m.k. að stærstum hluta vegna eigin sakar hans. Þá er því mótmælt að það hafi nokkra þýðingu að stefnandi hafi ekki áður tekið þátt í að landa úr skipinu, enda haft mikla reynslu af sjómannsstörfum á öðrum bátum og skipum sem hann hafði starfað á. Þá er því mótmælt að Adolf Bragi hafi haft nokkuð boðvald yfir stefnanda og hvað þá að stefnandi hafi farið eftir fyrirmælum hans. Hér verði að leggja til grundvallar að stefnandi hafi sjálfur afráðið að fara á bak við stæðuna, eftir atvikum að afloknu einhvers konar samráði við Adolf Braga. Hvort heldur sem er þá beri stefndi enga ábyrgð á þessari ákvörðun stefnanda. Þá er því mótmælt að stefnandi hafi ekki fengið fullnægjandi fyrirmæli um verklag. Þvert á móti verði að ganga út frá því að hann hafi fengið allar þær leiðbeiningar sem gera megi kröfu til með hliðsjón af reynslu hans. Því er mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum 8. og 57. gr. sjómannalaga nr. 85, 1985 svo og sem algjörlega þýðingarlausu tilvist staðlaðra bendinga fyrir úrlausn þessa máls. Staðreyndin sé sú að það skipti engu máli hvaða bendingar er notast við. Þegar fiskikör eru hífð fram eftir lest sé ákveðin hætta á því að hífingunni ljúki ekki fyrr en um seinan og stæðan hrynji af þeim sökum. Skipti þá bendingar engu máli. Notast hafi verið við þau merki sem almennt gengur og gerist um borð í skipum við þessar aðstæður og í því felist ekkert saknæmt. Því er mótmælt að ástæða hafi verið til að láta fara fram sjópróf, enda ekki lagaskilyrði til þess þar sem skipið hafi verið statt í höfn, sbr. 1. tl. 219. gr. laga nr. 34, 1985. Öll málsatvik liggi í aðalatriðum ljós fyrir skv. lögreglurannsókn. Ef til álita komi einhver bótaábyrgð stefnda þá byggir stefndi á því að slysið verði alfarið rakið til eigin óaðgæslu stefnanda. Honum hafi mátt vera kunnugt um hættuna samfara því að fara aftur fyrir stæðuna. Hafi það engum tilgangi þjónað við verkið og í ósamræmi við þau vinnubrögð sem tíðkuðust um borð. Stefnandi sé reyndur sjómaður og á því byggt að hann hafi verið þess umkominn að haga vinnubrögðum í samræmi við aðstæður. Það hafi hann ekki gert og þar með firrt sig bótarétti.
Í málinu liggur fyrir örorkumat dr. med. Atla Þórs Ólasonar, dags. 5. febrúar 2001. Er sjúkdómsgreining stefnanda vegna slyssins eftirfarandi: „Liðhlaup á hægri stórutá, tognun á mjóbaki, sköddun á lærvöðvum beggja megin, tognun og ertingarástand í hægra hné og andleg óþægindi og martraðir.“ Í samantekt og áliti læknisins kemur fram að stefnandi hefur skerta heyrn frá fæðingu. Noti hann heyrnartæki og var vegna þess metinn til 50% og 65% varanlegrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hann hafði hins vegar góðar tekjur við sjómannsstörf og fékk litlar eða óverulegar greiðslur frá Tryggingarstofnun. Fram kemur að hann hafi farið snemma til sjós og var fyrst háseti og síðar kokkur á ýmsum bátum og hann hafi haft í hyggju að halda áfram sjómennsku ef hann hefði ekki lent í slysinu. Í niðurstöðu læknisins þá er tímabundið atvinnutjón stefnanda samkvæmt 2. gr. laga nr. 50, 1993 frá 08.01.1999 í 12 mánuði 100%. Þjáningarbætur samkvæmt 3. gr., rúmliggjandi 09.01.1999 til 12.01.1999, 14.06.1999 til 15.07.1999, 06.09.1999 til 29.10.1999, batnandi án þess að vera rúmliggjandi 12 mánuðir.
Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. 25%.
Varanlega örorka samkvæmt 5. gr. 40%.
Hefðbundin varanleg læknisleg örorka 25%.
Stefnandi sundurliðar fjárkröfur sínar þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón er þannig reiknað, tekjur samkvæmt skattframtali árið 1998, tekjuskattsstofn kr. 2.958.732. Frá þessum tekjum dregur stefnandi þær tekjur sem stefnandi hafði samkvæmt skattframtali slysaárið 1999 kr. 1.293.496, að frádregnum kr. 356.575, sem voru greiðslur úr styrktar- og sjúkrasjóðum verkalýðsfélaga. Samtals eru því launatekjur til frádráttar kr. 936.921.
Krafa stefnanda um tímabundna örorku í 12 mánuði samkvæmt örorkumati er því kr. 2.958.732-936.921 eða kr. 2.021.811.
2. Þjáningabætur: Rúmliggjandi í 90 daga (4+32+54) x kr. 1.300 - 3.996/3.282 = 1.217 = 1.582 eða samtals kr. 142.000. Ekki rúmliggjandi 12 mánuði, 360 dagar x 852 = 307.000.
3. Varanlegur miski 4.000.000 - 25% = 1.000.000 x 1,217 = 1.217.000.
4. Varanleg örorka tekjur ársins 1998 kr. 2.958.732 + 6% lífeyrissjóðsframlag atvinnurekanda kr. 177.524 = 3.136.256, bætt með launavísitölum, sbr. 7. gr. skaðabótalaga, 3.996/3.627 = 1.101 = kr. 3.453.018x10x40% = kr. 13.812.072, eða samtals kr. 17.499.983 sem er höfuðstóll kröfunnar vegna ábyrgðartryggingar skipsins.
Dráttarvaxtakrafan er miðuð við mánuð eftir dagsetningu örorkumats.
Stefndi telur að miða beri tímabundið atvinnutjón stefnanda við staðgengilslaun eins og hann hefði fengið hjá stefnda kr. 1.695.203, sbr. dskj. nr 17. Þá séu þjáningabætur ofreiknaðar um 90 daga, því að samkvæmt örorkumatinu sé veikindatímabil stefnanda 12 mánuðir alls, en ekki 12 mánuðir og 90 dagar, en af þeim sé hann 90 daga rúmliggjandi og ekki rúmliggjandi í 270 daga, beri að miða útreikninga við það. Þá hafi stefnandi ekki dregið frá kröfu sinni bætur úr slysatryggingu sjómanna er greiddar voru honum þann 03.09.2001 kr. 1.614.414, sem koma eigi til frádráttar samkvæmt 2. ml. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50, 1993. Þá bendir stefndi á að verði sök skipt þá eigi að draga slysatryggingargreiðsluna frá eftir sakarskiptinguna.
Stefnandi kveðst hafa lækkað kröfu sína um innborgunina frá 3. september 2001, svo og komi þjáningabótatímabilið fram í örorkumatinu.
Stefndi bendir á það að á bls. 8 í matsgerðinni komi fram að stefnandi teljist hafa verið óvinnufær í 12 mánuði og heildarþjáningartími er miðaður við það tímabil.
Álit dómsins:
Fyrir liggur að stefnandi hefur langa reynslu af sjómannsstörfum. Sú háttsemi stefnanda að taka sér stöðu á bak við stæðuna meðan híft var í hana þjónaði bersýnilega engum tilgangi við það verk sem hann og Adolf Bragi unnu og hvort hann tók sér stöðu þarna að skipun Adolfs Braga eða ekki skiptir ekki máli, þar sem stefnanda mátti vera ljóst að Adolf Bragi hafði ekkert boðvald yfir honum. Mátti honum vera ljós sú hætta sem hann var í ef stæðan hryndi. Ósannað er að nokkur hindrum hafi verið á lestargólfinu sem olli því að körin ultu eins og lúgumaðurinn, Pétur Hjörleifur Tryggvason ber. Verður því að teljast sannað að körin hafi oltið vegna þess að Pétur hafi gefið merki um að stöðva hífingu of seint, eða merkjagjöf hans hefur ekki verið nægjanlega greinileg eins og spilmaðurinn, Jón Grétarsson yfirvélstjóri, ber.
Með vísan til 171. og 172. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 fellst því dómurinn á að leggja bótaábyrgð á stefnda vegna þessa, en vegna háttsemi stefnanda telur dómurinn rétt að hann beri tjón sitt að hálfu eða 50%. Dómurinn tekur til greina kröfu stefnanda um tímabundið atvinnutjón kr. 2.021.811 og þjáningabætur rúmliggjandi 90 daga kr. 142.000, ekki rúmliggjandi í 270 daga x 852 = kr. 230.000, varanlegur miski kr. 1.217.000 og varanleg örorka kr. 13.812.072, eða samtals kr. 17.422.883 og 50% af því kr. 8.711.442. Frá dregst greiðsla til stefnanda úr slysatryggingu sjómanna er greidd var af réttargæslustefnda 3. september 2001 kr. 1.614.414, sem stefnandi hefur ekki dregið frá í kröfugerð sinni.
Samkvæmt þessu ber stefnda að greiða stefnanda kr. 7.097.028 ásamt 2% vöxtum frá 8. janúar 1999 til 5. mars 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, til greiðsludags.
Þá ber stefnda að greiða málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn í einu lagi kr. 600.000, auk virðisaukaskatts, en lögmaður stefnanda hefur ekki lagt fram reikninga yfir útlagðan kostnað sinn af málinu.
Málskostnaður stefnanda samtals kr. 600.000, auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. Stefndi greiði sömu fjárhæð í málskostnað til ríkissjóðs.
Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum skipstjórunum, Gunnari Arasyni og Ólafi Inga Hermannssyni.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Sólrún ehf., greiði stefnanda, Birni Rúnari Agnarssyni, kr. 7.097.028, ásamt 2% ársvöxtum frá 8. janúar 1999 til 5. mars 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, til greiðsludags.
Málskostnaður lögmanns stefnanda, Jónasar Haraldssonar hrl., kr. 600.000 auk virðisaukaskatts greiðist úr ríkissjóði.
Stefndi, Sólrún ehf., greiði sömu fjárhæð í málskostnað til ríkissjóðs.