Hæstiréttur íslands

Mál nr. 617/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Fimmtudaginn 22. nóvember 2007.

Nr. 617/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. desember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Verði á hvorugt fallist krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                   Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 19. nóvember 2007.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], litháískur ríkisborgari, til heimilis að [...], Reykjavík, sæti áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 21. desember nk. kl. 16:00.

             Til vara er þess krafist að kærði verði látinn sæta farbanni á grundvelli 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

             Í greinargerð lögreglustjóra er um upphaf máls og aðdraganda þess vísað til gæsluvarðhalds­kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. nóvember sl., í máli nr. R-595/2007, og til dóms Hæstaréttar í máli nr. 592/2007.

             Fram kemur að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknar­hagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Rannsókn málsins sé nú við það að ljúka og verði málið sent aðstoðarsaksóknara á næstu dögum.

             Á meðal þeirra gagna sem aflað hafi verið í málinu sé skýrsla frá neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisafbrota. Þar komi fram að meintur brotaþoli, sem hafi verið í miklu uppnámi við komu, hafi verið með áverka á kynfærum og víða um líkamann. Talsverðir áverkar hafi verið á baki hennar sem komi heim og saman við það sem hún hafi sagt um að hún hafi verið þvinguð á bakið í mölina á meðan kærðu brutu gegn henni. Buxur hennar hafi verið rennblautar og mikill sandur í bakfestingu á brjóstahaldara.

             Teknar hafi verið skýrslur af vitnum en tvö þeirra hafi verið starfsmenn á skemmtistaðnum þar sem kærði, meðkærði og meintur brotaþoli voru stödd aðfaranótt laugardagsins 10. nóvember sl. Beri þeim saman um að mennirnir hafi verið með dónaskap og yfirgang inni á staðnum. Myndskeið úr öryggismyndavélum staðarins sýni að mennirnir hafi farið út af staðnum kl. 03:12 nokkru áður en meintur brotaþoli, sem hafi farið þaðan ein kl. 3:29.

             Teknar hafi verið aðrar framburðaskýrslur af meintum brotaþola, kærða og meðkærða.

             Samkvæmt upplýsingum frá Interpol Vilnius eigi kærði að baki sakarferil í Litháen. Hann hafi m.a. afplánað 2 ára fangelsisrefsingu fyrir þjófnað og 4 ára fangelsisrefsingu fyrir rán.

             Við yfirheyrslu 12. nóvember sl. hafi kærði fyrst sagst hafa verið einn með meintum brotaþola og átt kynmök við hana. Nánar spurður hafi hann kveðið hana hafa samþykkt að eiga kynmök við hann og meðkærða líka. Hafi hann fengið að snerta barm konunnar á skemmtistaðnum bæði innan og utan klæða. Lýsing hans á því sem eigi að hafa átt sér stað á vettvangi sé með ólíkindablæ, ekki síst um að kynmökin hafi þau þrjú átt í húsasundi, í rigningu og að hluta til á harðri möl, þar sem meintur brotaþoli hafi ítrekað dottið af vélarhlíf bifreiðar sem hún hefði komið sér fyrir á. Hann hafi borið á sama veg við yfirheyrslu 16. nóvember sl.

             Framkomin gögn þyki styrkja framburð meints brotaþola. Vettvangur hinnar meintu nauðgunar, það hvernig hún hafi verið framin af tveimur mönnum, sem hún hafi ekkert þekkt, í sameiningu með grófum og svívirðilegum hætti svo og að brotaþoli hafi hlotið talsverða áverka, þyki ótvírætt styðja framburð meints brotaþola um að allt sem þar fór fram hafi verið andstætt hennar vilja og með þeim hætti er hún hafi lýst. Þá þyki gögn málsins benda til þess að stig ásetnings kærða, til þess að brjóta gegn meintum brotaþola, hafi verið hátt. Vegna þess og þegar litið sé til sakarferils kærða í heimalandi hans þyki full ástæða til þess að óttast að hann muni brjóta af sér á ný gangi hann laus.

             Að mati lögreglustjórans hafi verið sýnt fram á, með framlögðum gögnum, að sterkur rökstuddur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr., sem varði allt að 16 ára fangelsi, og að almannhagsmunir krefjist þess að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sé þess krafist að krafa lögreglustjóra nái fram að ganga.

             Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 12. nóvember sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Rannsókn málsins er á lokastigi. Samkvæmt rannsóknargögnum er kærði undir sterkum grun um að hafa framið gróft brot, í félagi við annan mann, í húsasundi í miðbæ Reykjavíkur. Brotið gæti varðað allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Eins og hér stendur á verður fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Sandra Baldvinsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                                  Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Kærði, X, kt. [...], litháískur ríkisborgari, til heimilis að [...], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. desember nk. kl. 16:00.