Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2004
Lykilorð
- Þjófnaður
- Rangar sakargiftir
- Umferðarlagabrot
- Ítrekun
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 7. október 2004. |
|
Nr. 33/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Finnboga Erni Halldórssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) Loga Má Hermannssyni og(Brynjar Níelsson hrl.) Birgi Brynjarssyni(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Rangar sakargiftir. Umferðarlagabrot. Ítrekun. Hegningarauki.
F, L og B voru ákærðir fyrir ýmis þjófnaðarbrot og L jafnframt fyrir rangar sakargiftir og umferðarlagabrot. L og F kröfðust sýknu af ákæruliðum um þjófnað í tveimur tilvikum og að hafa brotist inn í verslun og stolið þaðan um 1.000.000 krónum í peningum. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu vegna þessara brota og F og L gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Refsing ákærða B var ákveðin átta mánaða fangelsi. Við ákvörðun refsingar allra ákærðu var meðal annars litið til 2. mgr. 70. gr., 1. mgr. 71. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar og 22. mars 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið staðfestingar á sakfellingum samkvæmt II. og IV. kafla ákæru 25. febrúar 2003 og ákæru 20. mars 2003, en jafnframt þyngingar á refsingu allra ákærðu. Þá er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um greiðslu skaðabóta.
Ákærði Finnbogi krefst sýknu af sakargiftum á hendur sér samkvæmt IV. kafla ákæru 25. febrúar 2003 og ákæru 20. mars 2003, en að öðru leyti að refsing verði milduð. Til vara krefst hann mildunar á refsingu.
Ákærði Logi krefst aðallega sýknu af sakargiftum á hendur sér samkvæmt II. kafla ákæru 25. febrúar 2003 og ákæru 20. mars sama ár, en að öðru leyti að refsing verði milduð. Til vara krefst hann mildunar á refsingu.
Ákærði Birgir krefst þess að refsing hans verði milduð og frá henni dregin gæsluvarðhald hans 4. nóvember 2002 til 13. nóvember sama ár.
I.
Eins og nánar er lýst í héraðsdómi játaði ákærði Logi við rannsókn málsins að hann hafi stolið fartölvu þeirri, sem um getur í II. kafla ákæru 25. febrúar 2003 í versluninni Office One, Skeifunni 17 í Reykjavík 29. ágúst 2002. Kvaðst hann hafa farið inn í skrifstofu verslunarinnar og stolið fartölvunni þar sem hann vantaði peninga fyrir fíkniefnum. Á meðan hafi meðákærði í héraði Á beðið í bifreið fyrir utan verslunina. Í síðari skýrslu hjá lögreglu kvað Logi rétt eftir sér haft, en hann kvaðst hafa játað brotið vegna þvingunar lögreglumannsins, sem yfirheyrði hann. Framburður Á hjá lögreglu var í meginatriðum á sama veg. Hann sagðist hafa ekið ákærða Loga á staðinn. Hafi Logi sagt að hann þyrfti „aðeins að stökkva þangað inn. ... hann viti nefnilega um fartölvu sem hægt væri að stela.“ Á kvaðst á meðan hafa beðið í bifreiðinni baka til við verslunina. Stuttu eftir að Logi kom í bifreiðina hafi hann sýnt sér fartölvuna.
Ákærðu Logi og Á drógu báðir framburð sinn til baka í yfirheyrslu fyrir dómi og neituðu sakargiftum. Logi kvaðst minnast þess að hafa verið að skoða vörur inni í versluninni á þessum tíma, enda hafi lögregla sýnt honum myndband, þar sem hann sást. Taldi hann að á meðan hafi Á beðið fyrir utan. Hann hafi hins vegar játað verknaðinn við yfirheyrslu hjá lögreglu þar sem lögreglumaðurinn hafi hótað að fara með „fullan bíl af lögreglumönnum og leita heima á meðan þeir voru að láta reka mig út úr íbúðinni og svoleiðis.“ Á viðurkenndi að hafa verið á bifreiðinni á vettvangi og beðið eftir Loga sem hafi farið inn í verslunina, en kvaðst enga hugmynd hafa um hvers vegna Logi fór þangað inn. Kvað hann framburð sinn við rannsókn málsins vera rugl og uppspuna. Hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma og myndi ekkert eftir yfirheyrslunni. Á var fundinn sekur í héraðsdómi um hilmingu vegna þjófnaðarbrots ákærða Loga og undi hann þeim dómi.
Fram er komið að ákærði Logi játaði þjófnaðinn á fartölvunni við rannsókn málsins. Jafnframt var framburður meðákærða Á þá í fullu samræmi við játningu Loga. Viðurkenndi Á einnig að hafa ekið Loga af vettvangi með þýfið. Við meðferð málsins fyrir dómi var frásögn þeirra beggja samhljóða um að Logi hefði farið inn í umrædda verslun þennan morgun á meðan Á beið fyrir utan. Þegar allt framangreint er virt og að öðru leyti vísað til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða Loga fyrir þjófnað á fartölvunni, sem lýst er nánar í II. kafla ákæru 25. febrúar 2003.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða Finnboga af þeirri háttsemi sem hann er sakaður um í IV. kafla ákæru 25. febrúar 2003. Á sama veg er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella ákærðu Loga og Finnboga vegna sakargifta á hendur þeim samkvæmt ákæru 20. mars 2003.
II.
Við ákvörðun refsingar ákærðu Finnboga og Loga verður vísað til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður höfð hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. sömu laga að því er varðar refsingu þeirra vegna brota, sem um getur í I. kafla ákæru 25. febrúar 2003 og 20. mars sama ár, vegna brots ákærða Loga í III. kafla fyrrgreindrar ákæru svo og vegna brots ákærðu Finnboga og Birgis í IV. kafla hennar. Með dómi 4. maí 2001 var ákærði Finnbogi dæmdur í fangelsi í 15 mánuði fyrir þjófnað, skjalafals og nytjastuld. Með þeim brotum, sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann því ítrekað gerst sekur um þjófnað, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann dæmdur 6. nóvember 2003 í fangelsi í 14 mánuði fyrir þjófnað. Brot hans sem hér er fjallað um eru framin áður en sá dómur var upp kveðinn. Verður því einnig við ákvörðun refsingar hans tekið tillit til 78. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af framansögðu og vísan til forsendna héraðsdóms um ákvörðun refsingar ákærðu Finnboga og Loga verður hún staðfest.
Ákærði Birgir var dæmdur 27. september 2002 í fangelsi í sex mánuði fyrir þjófnað. Með brotinu sem hann er sakfelldur fyrir í þessu máli hefur hann því ítrekað gerst sekur um þjófnað, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Hann var einnig dæmdur 3. janúar 2003 í fangelsi í tvö ár fyrir kynferðisbrot og þjófnað. Er brot hans sem hér er fjallað um framið áður en sá dómur var kveðinn upp og ber því að ákvarða honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður einnig sem fyrr segir höfð hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. sömu laga. Á hinn bóginn verður það metið ákærða til refsilækkunar að hann hefur við rannsókn málsins og fyrir dómi játað brot sitt undanbragðalaust. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Frá henni skal draga gæsluvarðhald hans frá 4. nóvember 2002 til 13. nóvember sama ár að báðum dögum meðtöldum.
Ekki er ágreiningur um fjárhæð skaðabótakröfu Tíu ellefu/Hraðkaupa á hendur ákærðu Finnboga og Loga eða um vexti og upphafstíma þeirra. Verður ákvæði héraðsdóms um bótakröfuna staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað að því er varðar ákærðu Finnboga, Loga og Birgi verða staðfest.
Ákærðu Finnbogi og Logi verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins sem þá varðar, þar með talin málvarnarlaun skipaðra verjanda sinna eins og nánar greinir í dómsorði.
Áfrýjunarkostnaður málsins sem varðar ákærða Birgi, þar með talin málvarnarlaun skipaðs verjanda hans, greiðist að jöfnu úr ríkissjóði og af honum, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu Finnboga Arnar Halldórssonar og Loga Más Hermannssonar.
Ákærði Birgir Brynjarsson sæti fangelsi í átta mánuði. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald hans frá 4. nóvember 2002 til 13. nóvember sama ár að báðum dögum meðtöldum.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærðu Finnbogi og Logi greiði allan áfrýjunarkostnað sem þá varðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda Finnboga, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur og skipaðs verjanda Loga, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Áfrýjunarkostnaður málsins sem varðar ákærða Birgi, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, greiðist að jöfnu úr ríkissjóði og af honum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2003.
Ár 2003, þriðjudaginn 11. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 527/2003: Ákæruvaldið (Dagmar Arnardóttir) gegn Á (Sigmundur Hannesson hrl.), Finnboga Erni Halldórssyni, Loga Má Hermannssyni og Birgi Brynjarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.), sem tekið var til dóms hinn 21. október sl. að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með þremur ákæruskjölum Lögreglustjórans í Reykjavík.
Í fyrsta lagi með ákæru dagsettri 25. febrúar sl. á hendur ákærða, Á [...], Finnboga Erni Halldórssyni, kt. [...], Torfufelli 50, Reykjavík, Loga Má Hermannssyni, kt. [...], Gljúfraseli 7, Reykjavík, og Birgi Brynjarssyni, kt. [...], Þverbrekku 2, Kópavogi, “fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2002 í Reykjavík, nema annað sé tekið fram:
I.
Ákærðu Loga Má og Finnboga Erni fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa í félagi aðfaranótt fimmtudagsins 1. ágúst í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í húsnæði söluturnsins Videómarkaðurinn, Bæjarlind 14-16, Kópavogi, með því að brjóta upp útihurð, en komið var að ákærðu á vettvangi. M. 37-2002-4033
Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Ákærða Loga Má fyrir þjófnað og ákærða Á fyrir hylmingu fimmtudaginn 29. ágúst, ákærða Loga Má með því að hafa stolið fartölvu, að verðmæti kr. 200.000, í versluninni Office One, Skeifunni 17, og ákærða Á fyrir hylmingu með því að hafa ekið meðákærða frá vettvangi með fartölvuna þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að meðákærði hafði stolið tölvunni í versluninni.
M. 10-2002-27188
Brot ákærða Loga Más telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga og brot ákærða Á við 254. gr. sömu laga.
III.
Ákærðu Á og Loga Má fyrir þjófnað með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 29. ágúst í félagi við tilgreindan mann brotist inn í fyrirtækið Tölvulistinn, Nóatúni 17, með því að spenna upp útihurð, og stolið fjórum Dell fartölvum, samtals að verðmæti kr. 762.600. M. 10-2002-27104
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Ákærðu Finnboga Erni og Birgi fyrir þjófnað með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 2. nóvember í félagi brotist inn í fyrirtækið Tölvumiðlun, Engjateigi 3, með því að brjóta gler í glugga, og stolið í 2 ferðum samtals 4 handtölvum, fartölvu, 4 tölvuskjám, 8 tölvum ásamt tölvuskjám, ýmsum tölvu- og hugbúnaði, samtals að verðmæti kr. 6.454.839. M. 10-2002-34116
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
V.
Ákærða Á:
1. Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. ágúst brotist inn í dvalarheimili aldraðra að Hraunbæ 105, með því að spenna upp glugga, og stolið kr. 100.000 í reiðufé og enn fremur 4 borðtölvum ásamt skjám og lyklaborðum, samtals að verðmæti kr. 361.095. M. 10-2002-26477
2. Nytjastuld, með því að hafa notað bifreiðina YH-065 í heimildarleysi, frá fimmtudeginum 29. ágúst er ákærði tók hana frá Bílabúð Benna við Bíldshöfða í Reykjavík og allt til kl. 02:11 aðfaranótt miðvikudagsins 4. september, þegar lögregla handtók ákærða við veitingastaðinn Kaffi Strætó í Mjódd. M. 10-2002-27776
3. Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 4. september í auðgunarskyni brotist inn í Kaffi Strætó í Mjódd, með því að spenna upp hurð, en komið var að ákærða á vettvangi. M. 10-2002-27776
4. Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 3. september brotist inn í fyrirtækið INFÓ Skiltagerð, Suðurhrauni 12c í Hafnarfirði, með því að spenna upp útihurð, og stolið peningaskáp, ferðatölvu, 7 tölvum og 3 tölvuskjám, samtals að verðmæti kr. 1.600.000. M. 36-2002-3871
5. Nytjastuld, með því að hafa föstudaginn 29. nóvember tekið bifreiðina RR-926 í heimildarleysi frá bifreiðastæði við Nýbýlaveg 2-8 í Kópavogi, og ekið henni um götur á höfuðborgarsvæðinu uns bifreiðin fannst mánudaginn 2. desember við Asparfell í Reykjavík. M. 37-2002-6163
6. Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 1. desember ekið bifreiðinni RR-926 á bifreiðina AO-628, sem staðsett var á bifreiðastæði við Þórufell 14 og síðan ekið af vettvangi án þess að tilkynna lögreglu eða öðrum um áreksturinn.
M. 10-2002-36569
Teljast brotin í liðum 1, 2 og 4 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. laganna að því er varðar lið 3, brotin í liðum 2 og 5 teljast varða við 1. mgr. 259. gr. sömu laga og brotið í lið 6 telst varða við 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”
Í öðru lagi er málið höfðað gegn ákærða Loga Má með ákæru dagsettri 6. “fyrir eftirgreind umferðar- og hegningarlagabrot:
l. Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa þriðjudaginn 26. febrúar 2002, ekið bifreiðinni NB-438, sviptur ökurétti, með 112 km hraða á klukkustund austur Reykjanesbraut, á vegarkafla við Rauðhellu, þar sem leyfður hámarkshraði var 70 km á klukkustund.
2. Fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa á sama tíma og greinir í lið 1, þegar lögregla spurði ákærða að nafni, gefið upp nafn Sigurðar Júlíussonar, kennitala 220881-3269, og þannig komið því til leiðar að Sigurður var sakaður um brotið með bréfi lögreglustjórans í Kópavogi, dagsettu 5. mars 2002, þar sem honum var boðið að gangast undir lögreglustjórasátt vegna brotsins.
Teljast brot samkvæmt lið 1 varða við 1. sbr. 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en brot samkvæmt lið 2 við l. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Í þriðja lagi er málið höfðað gegn ákærðu Loga Má og Finnboga Erni með ákæru dagsettri 20. mars sl. “fyrir þjófnað með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 13. maí 2002 í félagi brotist inn í verslunina 10-1 l, Fjarðargötu 13-15 í Hafnarfirði, með því að spenna upp hurð, og stolið kr. l.174.512 í reiðufé.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Í málinu krefst Tíu ellefu / Hraðkaup, kt. 450199-3629, þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.203.972, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 13. maí 2002 til greiðsludags.”
Lögreglustjórinn í Reykjavík felldi niður mál vegna þessarar síðustu sakar og tilkynnti ákærðu og öðrum sem grunaðir voru um þá ákvörðun með bréfi 3. janúar sl. Lögmaður verslunarinnar, Gunnar Þór Þórarinsson hdl., kærði þá ákvörðun til Ríkissaksóknara með bréfi 27. janúar og er skráð að embættið hafi tekið á móti kærunni 30. sama mánaðar. Með bréfi 27. janúar 2003 tilkynnti Ríkissaksóknari kærandanum, Lögreglustjóranum í Reykjavík, og ákærðu það að ákvörðun lögreglustjórans væri felld úr gildi og fyrir hann væri lagt að halda áfram málsmeðferðinni. Þessa ákvörðun tók Ríkissaksóknari innan þess frests sem áskilinn er í 114. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991. Af hálfu ákærðu hefur ekki komið fram krafa um að þessari ákæru verði vísað frá dómi en þessu er hreyft hér vegna þess að verjandi ákærðu Finnboga Arnar, Loga Más og Birgis vék að því í málflutningi að rétt kynni að vera að vísa frá ákærunni þar sem ákvörðunin væri ekki tekin innan frestsins.
Málavextir
Hér verður gerð grein fyrir þeim atriðum í ákærunum sem ekki hafa verið skýlaust játuð og ályktunum dómsins um þau.
Ákæra 25. febrúar 2003:
I. kafli; ákærðu, Logi Már og Finnbogi Örn.
Fyrir liggur að rétt eftir miðnætti, aðfaranótt fimmtudagsins 1. ágúst var tilkynnt um það frá söluturninum Vídeómarkaðnum að búið væri að líma yfir hreyfiskynjara í versluninni og grunur væri um yfirvofandi innbrot. Yrði staðin vakt við verslunina. Ekki löngu síðar var tilkynnt um það til lögreglunnar að tveir menn væru að brjótast inn í verslunina og þegar lögreglan kom á vettvang voru starfsmenn þar með mennina í haldi. Voru það ákærðu, Logi Már og Finnbogi Örn. Þar mátti sjá ummerki um það að útidyr höfðu verið spenntar upp og reynt hafði verið að brjóta upp innri dyr að Vídeómarkaðnum. Þar fundust einnig kúbein og klaufjárn, tveir litlir bakpokar og farsími. Ákærðu viðurkenndu báðir í skýrslutöku hjá lögreglu þennan dag að þeir hefðu brotist inn í Vídeómarkaðinn en ytri dyrnar hefðu verið ólæstar og því ekki þurft að brjóta þær upp. Þeir sögðu báðir að þriðji maðurinn, sem þeir ekki nafngreindu, hefði límt yfir hreyfiskynjarann.
Ákærði, Logi Már, segist fyrir dómi hafa farið inn í söluturninn Videómarkaðinn ásamt meðákærða, Finnboga. Kveður hann ytri dyrnar hafa verið opnar og þeir hafi því ekki brotist inn eins og í ákærunni segir. Þeir hafi verið með kúbein með sér til þess að brjótast inn en áður en til þess kom hafi menn komið að þeim búnir kylfum og þeir verið handteknir.
Ákærði, Finnbogi Örn, kveðst fyrir dómi hafa komið með Loga Má á staðinn. Hann kveðst hafa verið í mikilli óreglu á þessum tíma og ekki muna fyrir víst hvað þeir ætluðu sér að gera. Hann neitar því ekki að þeir geti hafa ætlað að brjótast inn með kúbeininu sem þeir höfðu meðferðis en til þess hafi ekki komið. Hann vísar til skýrslu sem hann gaf hjá lögreglunni 1. ágúst 2002 þar sem hann játar þetta. Segir hann að skýrsla þessi hljóti að vera rétt.
C, eigandi verslunarinnar, hefur skýrt frá því fyrir dómi að þau hafi orðið vör við það að búið var að líma fyrir hreyfiskynjara í versluninni og búist við því að aftur yrði brotist inn eins og fyrr um vorið. Hafi verið látið vita af þessu hjá lögreglu. Eftir lokun hafi þeir farið, fylgst með búðinni yfir götuna og séð mennina koma að og fara inn. Hafi þeir komið að mönnunum þar sem annar þeirra var að reyna við glugga að Videómarkaðnum og hinn að fást við poka sem hann var með. Þegar þeir komu að þeim hafi annar maðurinn hörfað undan en hinn verið með læti. Þeir hafi hringt í lögregluna sem hafi komið og tekið við stjórninni. Þeir hafi séð mennina fyrst brjótast inn um útidyrnar með kúbeini.
Niðurstaða.
Ákærðu hafa viðurkennt að þeir hafi ætlað að brjótast inn í verslunina til þess að stela verðmætum þegar þeir voru handteknir þar. C verslunareigandi segist hafa horft á mennina brjóta upp ytri dyrnar með kúbeini og gögn málsins bera með sér að merki um það hafi sést á dyraumbúnaðinum. Er óhætt að slá því föstu að þeir hafi brotist inn um þær einnig þegar þeir reyndu að brjótast inn í fyrirtækið til þess að stela. Hafa þeir gerst sekir um brot gegn 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
II. kafli; ákærðu, Logi Már og Á.
Fimmtudaginn 29. ágúst var hringt til lögreglu úr versluninni Ámunni í Skeifunni og tilkynnt að tveir menn sem taldir voru hafa stolið fartölvu úr versluninni “Office 1 superstore” fyrr um daginn væru í búðinni og starfsmenn þar fylgdust með þeim. Var mönnum þessum veitt eftirför yfir í verslunina B.T. í Skeifunni og voru þeir handteknir þar eftir ábendingu sem ákærðu, Logi Már og Á, þegar þeir voru að koma út úr versluninni. Ákærði, Logi Már, var yfirheyrður hjá lögreglu morguninn eftir og neitaði hann þá að hafa stolið tölvunni. Næst var ákærði yfirheyrður um þetta 13. september en þá var hann að afplána fangelsisdóm. Hann játaði þá að hafa verið þar að verki og að hafa komið að búðinni ásamt Á. Tilgangurinn hafi verið að stela þar einhverju sem væri auðseljanlegt til þess að geta keypt fíkniefni. Hefði hann farið inn en meðákærði beðið í bílnum fyrir utan. Hann hefði séð nýlega fartölvu í skrifstofu og tekið hana og stungið inn á sig. Hann hefði svo farið út og í bílinn hjá Á og þeir ekið á brott. Kvaðst hann hafa selt tölvuna manni sem hann þyrði ekki að segja til. Á var yfirheyrður hjá lögreglu 16. september og sagði þá að þeir Logi Már hefðu verið að aka í bíl í Skeifunni með pilti að nafni B. Hefði Logi Már þá sagt að hann vissi um fartölvu sem hægt væri að stela og látið aka með sig að “Office 1 superstore”. Þar hefði hann farið inn og sagðist Á hafa sagt að hann myndi aka bakvið verslunina og bíða hans þar. Eftir nokkra bið við verslunina hafi hann séð að Logi Már var kominn út og hafi hann komið til hans í bílinn. Hefði Logi Már sýnt þeim B fartölvu sem hann hefði sagst hafa stolið í búðinni.
Ákærði, Logi Már, hefur dregið játningu sína til baka fyrir dómi. Hefur hann sagst hafa verið staddur í versluninni á þeim tíma sem um ræðir til þess að skoða ýmsar vörur. Hann kveðst hafa verið einn á ferð en meðákærði Á muni hafa beðið fyrir utan. Þeir hafi svo farið saman á brott í bíl. Hann kveðst hafa játað þetta brot hjá lögreglunni vegna þvingunar lögreglumannsins sem skýrsluna tók. Sé skýrsla þessi rétt eftir honum höfð. Hafi lögreglumaðurinn hótað því að fara með lið heim til ákærða að gera þar húsleit og sagst mundu sjá til þess að hann missti húsnæðið.
Ákærði, Á, hefur neitað sök fyrir dómi. Hann kannast við að hafa beðið í bíl fyrir utan verslunina. Hann kveðst hafa verið þarna á ferð með Loga Má og e.t.v. fleirum. Kveðst hann ekki vita til hvers Logi Már fór inn í verslunina. Segir hann framburð sinn hjá lögreglu vera “rugl” enda hafi hann verið í svo mikilli óreglu að hann muni ekki eftir að hafa gefið skýrsluna. Hann segist þó muna það að “það var engin fartalva í gangi.” Þegar lögregluskýrslan, sem ákærði gaf í málinu, er borin undir hann segist hann muna að Logi Már fór inn í verslunina en annað sem haft er eftir honum í skýrslunni kannast hann ekki við.
Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, hefur komið fyrir dóm en hann tók skýrslur af ákærða, Loga Má. Hafi ákærði verið í betra ásigkomulagi í seinna sinnið en í það fyrra. Hann kveður skýrslurnar vera rétt hafðar eftir ákærða og kveðst ekki hafa beitt neinum þvingunum eða hótunum til þess að fá fram játningu. Allt sem í skýrslunum sé sé frá ákærða komið. Þá segir vitnið um skýrsluna, sem hann tók af ákærða Á að engum þvingunum hafi heldur verið beitt við hann. Ekki viti hann betur en að skýrsla hans sé rétt eftir honum höfð.
Niðurstaða.
Fyrir liggur að ákærðu játuðu báðir brot þetta hjá lögreglu og hafa þeir ekki gefið trúverðuga skýringu á því að þeir drógu framburð sinn til baka. Verður að telja sannað að þeir hafi gerst sekir um þjófnað og brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, Logi Már sem aðalmaður og Á sem hlutdeildarmaður, sbr. 22. gr. sömu laga.
IV. kafli; ákærðu, Finnbogi Örn og Birgir.
Sunnudaginn 3. nóvember var starfsmaður fyrirtækisins Tölvumiðlunar við Engjateig staddur í húsnæði fyrirtækisins og varð þá var við grunsamlegan mann í kjallara hússins. Hafði hann þegar samband við lögregluna. Maðurinn varð var við starfsmanninn og hraðaði sér út í bíl sem annar maður ók og höfðu þeir sig á brott hið snarasta. Starfsmaðurinn sá númer bílsins og lét lögregluna vita um það. Lögreglumenn hófu þegar að leita að bílnum og nokkru síðar sást til tveggja manna bera muni úr þessum bíl í vörugám í Jökulgrunni hjá Hrafnistu. Nokkru seinna var ákærði, Finnbogi Örn, handtekinn þar sem hann lá undir sendibíl á bílastæði norðan við elliheimilið Skjól við Sæbraut. Rétt þar hjá fannst flík með skilríkjum ákærða, Birgis, og var hann sjálfur handtekinn skömmu seinna á Laugarásvegi skammt frá Langholtsvegi. Í vörugáminum fundust tölvuhlutir vafðir inn í bláan bol og voru þessir munir raktir til innbrotsins í Tölvumiðlun. Ákærðu voru báðir í talsverðri vímu þegar þeir voru handteknir. Megnið af þýfinu úr Tölvumiðlun fannst í risíbúð á H þar sem vinur ákærða, Finnboga Arnar, bjó, D.
Ákærði, Finnbogi Örn, var yfirheyrður daginn eftir og neitaði hann allri sök í málinu. Var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þegar hann var yfirheyrður 7. nóvember, að viðstöddum verjanda, játaði hann að hafa brotist inn í fyrirtækið. Hann kvað þá Birgi hafa ákveðið að brjótast inn í Tölvumiðlun og stela þar tölvubúnaði til þess að geta svo greitt fíkniefnaskuldir sínar. Birgir hafi ekið þeim að húsinu við Engjateig á laugardagskvöldið þar sem hann braut gluggarúðu við dyr með steini og teygði sig í hurðarlás. Eftir að þeir voru komnir inn hafi þeir snarað út í bílinn margs kyns tölvubúnaði sem þar var inni. Þeir hafi svo hraðað sér á brott eftir örstutta, á að giska tveggja mínútna, viðdvöl þarna. Hefðu þeir ekið á H þar sem bjó kunningi ákærða, D, og ákærði var auk þess skráður til heimilis. D hefði verið heima þegar þeir komu með fenginn og þeir borið hann inn í risíbúð D. Þeir hefðu svo farið aftur að fyrirtækinu Tölvumiðlun og sótt meira af tölvuhlutum og farið einnig með þá á H. D hefði þá ekki verið við og þeir þurft að bíða eftir honum en þegar hann kom, hefðu þeir borið góssið upp í íbúðina. Daginn eftir, sunnudag, hefðu þeir farið í þriðja sinn að Tölvumiðlun og þá hafi verið með þeim vinur ákærða sem hann vildi ekki nafngreina. Hefði Birgir ekið sem fyrr. Þegar þangað kom hefðu Birgir og vinur ákærða farið að rífast og það orðið til þess að vinurinn fór, að því er ákærða minnti. Þeir hefðu náð sér í innkaupavagna frá versluninni Blómavali og farið með þá að Tölvumiðlun. Birgir hefði sótt bílinn og bakkaði honum að portinu við húsið. Hafi bíllinn verið kominn að dyrunum þegar maðurinn kom að ákærða í kjallaranum. Kvaðst hann hafa hlaupið út í bílinn og þeir ekið á brott. Hann kvaðst halda að þeir hefðu ekki stolið neinu í þessari þriðju ferð og það sem þeir settu í gáminn við Jökulgrunn hafi verið leifar af þýfinu úr fyrri ferðunum.
Ákærði, Birgir, gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum, 12. nóvember í fyrra. Þá sagði hann Finnboga Örn hafa verið staddan hjá sér laugardagskvöldið og hefði Finnbogi fengið lánaðan bíl ákærða í smástund fyrir 50.000 krónur. Hefði orðið úr að ákærði fór úr bílnum við Laugardalslaugina en Finnbogi hefði sagt að hann þyrfti að ná í nokkra hluti og ekið áfram á honum. Ekki sagði ákærði það hafa flökrað að sér að Finnbogi væri með misjafnt í huga og hann því beðið rólegur á meðan Finnbogi Örn var í burtu. Hafi þetta verið milli klukkan hálf tíu og tíu. Eftir um 10 mínútur hefði hann komið til baka og þá með eitthvað dót í bílnum sem ákærði veitti ekki sérstaka athygli. Þegar þeir komu að H hefði hann orðið þess áskynja að dótið var tölvuhlutir. Kvaðst ákærði hafa hjálpað Finnboga að bera einn tölvuskjá upp í íbúðina. Að þessu loknu hefði Finnbogi Örn viljað fara aðra ferð og í þetta sinn hefði hann viljað fá lánaða skóna af ákærða þar sem skór Finnboga Arnar væru svo auðþekkjanlegir hjá lögreglunni. Kvaðst hann því hafa lánað Finnboga Erni skóna og því beðið á sokkaleistunum við Laugardalslaugina. Hefði þá runnið upp fyrir honum að Finnbogi Örn stæði í einhverju misjöfnu. Eftir um 20 mínútur hefði Finnbogi Örn komið akandi á bílnum sem nú hefði verið fullur af tölvubúnaði. Sagðist ákærði hafa gert sér grein fyrir því hvað væri á seyði en ekki skipt sér frekar af því. Klukkan hefði þegar hér var komið sögu verið um hálfellefu. Þeir hefðu ekið aftur að H þar sem Finnbogi Örn hefði skilað ákærða skónum og farið í “töflur” sem ákærði átti í bílnum. D hefði þá ekki verið heima og þeir þurft að bíða eftir honum fyrir utan. Á meðan hefði hann farið að sjoppu þarna í hverfinu en þegar hann kom aftur hefði Finnbogi Örn verið farinn og hafði skilið bílinn eftir læstan. Um síðir hefðu þeir hist við bílinn aftur, um klukkan hálf eitt. Finnbogi Örn hefði þá verið orðinn ruglaður af lyfjaáti. Vegna þess hefði hann tekið að sér að bera tölvubúnaðinn upp í íbúðina á H ásamt D sem þá var kominn. Finnbogi Örn hefði svo farið á brott með stúlku en ákærði kvaðst hafa hitt hann aftur seinna um nóttina í samkvæmi upp í Breiðholti. Daginn eftir hefðu þeir Finnbogi Örn farið niður á H að skoða góssið. Eftir dvöl þar hefðu þeir ekið að Blómavali í Sigtúni og Finnbogi Örn þá sagt að hann vildi athuga hvort ekki væri meira að hafa í Tölvumiðlun og sagt við ákærða að hann skyldi koma að sækja sig eftir smástund. Í för með þeim hefði verið piltur að nafni J og eftir að Finnbogi Örn fór að athuga um frekari þjófnað hefði hann ekið með J upp á Suðurlandsbraut og þar hefði J farið úr bílnum. Hann hefði svo ekið að fyrirtækinu og bakkað niður að dyrum, eftir lýsingu sem Finnbogi hafði gefið honum. Hefði hann séð að rúða við hurðina var brotin og að þarna voru tvær innkaupakerrur. Skyndilega hefði Finnbogi Örn komið hlaupandi með poka í hendi og á eftir honum hrópandi maður. Kvaðst hann hafa ekið á brott í flýti með Finnboga Erni og þeir endað í Jökulgrunni þar sem þeir hefðu yfirgefið bílinn. Þeir hefðu tekið eitthvert tölvudót sem var í bílnum og fleira og vafið inn í mussu og falið. Hann hefði séð lögreglumann á hlaupum á eftir Finnboga og sjálfur hefði hann verið handtekinn á Laugarásvegi.
Fyrir dómi hefur ákærði, Finnbogi Örn, neitað því að hafa brotist inn í fyritækið Tölvumiðlun. Hefur hann sagt að dyrnar hafi verið opnar og hann viðurkennir að hafa farið þarna inn til þess að stela. Meðan hann hafi verið þarna inni hafi maður komið að honum og hann hlaupið út áður en hann náði að stela nokkru. Ákærði neitar því að hafa búið á H en hann kveðst hafa skráð lögheimili sitt þar. Hann kveður meðákærða, Birgi, hafa borið þangað þýfið sem þar hafi fundist. Játningu sína í lögregluskýrslu 7. nóvember 2002 skýrir ákærði þannig að hann hafi játað brot sitt til þess að losna úr gæsluvarðhaldi og lögreglumennirnir ekki viljað taka gilda neitun hans. Hann segist hafa vitað að aðrir voru að brjótast þarna inn. Hann segist ekki muna eftir þessu kvöldi, enda hafi hann verið í mikilli óreglu á þessum tíma.
Fyrir dómi hefur ákærði, Birgir, játað sök. Hefur hann sagt að hann hafi farið inn í Tölvumiðlun og tekið þar tölvur og tölvuskjái. Hann hafi átt leið fram hjá og séð mannaferð og að búið var að brjótast inn. Hann hafi þá farið og sótt bíl og farið inn og stolið verðmætunum. Aðrir hafi ekki verið með honum í þessum þjófnaði. Hann kveðst svo hafa reynt að fá Finnboga Örn til þess að stela meiru með sér og þeir farið þarna inn en svo farið út án þess að stela nokkru. Hann segir að þetta sé þó nokkuð í þoku fyrir honum, enda hefði hann notað deyfilyf á þessum tíma. Hann segist hafa sagt við Finnboga Örn að hann þyrfti að koma dóti í geymslu, án þess að segja honum að þetta væri þýfi. Finnbogi Örn hafi sagst geta hjálpað honum og vísað á kunningja sinn á H og farið með honum til kunningjans, sem hafi hjálpað að koma dótinu fyrir. Daginn eftir hafi hann farið aftur á H og muni Finnbogi Örn hafa verið í förinni, enda verið um að ræða kunningja hans. Að því loknu hafi hann ekið fram hjá Tölvumiðlun með Finnboga Erni til þess að sýna honum staðinn. Þá hafi hann séð að opið var inn og búið var að brjóta rúðu. Finnbogi Örn hafi farið inn. Þá hafi komið “kall” sem öskraði og Finnbogi Örn þá komið hlaupandi í bílinn aftur og þeir hraðað sér á brott. Ekki sé að marka skýrslurnar þrjár sem hann hafi gefið í málinu, enda hafi hann verið í lyfjavímu á þessum tíma stanslaust á þriðja mánuð.
Vitnið, K, hefur skýrt frá því fyrir dóminum að hann hafi komið að manni, sem hann ekki kannaðist við, að gramsa í dóti í kjallaranum. Kveðst hann hafa dregið sig í hlé og hringt í lögregluna. Hann hafi svo heyrt að bíll ók að kjallaradyrunum og svo að maður leit inn í geymsluna þar sem vitnið var. Kveðst vitnið hafa ráðist að manninum með naglbít að vopni en innbrotsmenn þá flúið í bílinn og ekið á brott. Hann kveðst ekki hafa séð hvort þeir höfðu nokkuð með sér á brott. Hann kveðst hafa reynt að brjóta rúðu í bílnum með naglbítnum til þess að merkja hann en ekki tekist. Hann hafi náð að leggja bílnúmerið á minnið og hringdi til lögreglunnar aftur til þess að gefa það upp. Innbrotsmenn hefðu verið búnir að brjóta rúðu í glugga við bakdyr og getað opnað innan frá. Mikið hafi horfið af dýrum og sérhæfðum búnaði, um 6 ½ milljón króna virði. Megnið af þessu hafi þó skilað sér aftur og tjónið því numið 1,7 milljónum króna. Vitnið segist ekki hafa séð annað en að innbrotsmennirnir væru ungir að aldri, enda hafi lýsing ekki verið góð þarna. Eftir á að hyggja virðist hafa verið búið að brjótast inn áður og mennirnir verið komnir í annað sinn þegar vitnið kom að þeim.
Þórður Geir Þorsteinsson rannsóknarlögreglumaður, hefur skýrt frá því fyrir dóminum að hann hafi farið á vettvang og haft með rannsóknina að gera. Ákærði, Birgir, hafi verið yfirheyrður nokkrum sinnum um þetta sakarefni hjá lögreglu og hafi framburður hans verið á reiki. Við handtöku hafi hann verið í mjög annarlegu ástandi og ekki hægt að yfirheyra hann en í fangavistinni hafi runnið af honum.
Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður hefur skýrt frá því fyrir dóminum að hann hafi yfirheyrt ákærða, Finnboga Örn og vitni. Hann hafi tekið þátt í húsleitinni á H. Hann segist ekki vita betur en að ákærði hafi verið allsgáður þegar hann gaf skýrslurnar hjá lögreglu og frásögn hans hafi verið sjálfstæð og ítarleg og frá honum komin. Ákærði hafi ekki verið beittur neinum þvingunum þegar hann var yfirheyrður og lögmaður hans hafi verið viðstaddur tvær síðustu skýrslurnar.
E, sem var í tygjum við húsráðanda á H, D, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að kvöld eitt hafi hún verið þar í heimsókn. Var þá hringt í D og virtist hann ekki vera ánægður eftir það símtal. Þau hafi svo farið út en þegar þau komu aftur, um ellefu eða tólfleytið, hafi verið kominn bíll að húsinu og tveir strákar úr þeim bíl hafi borið inn ýmislegt góss, tölvur og fleira. Ekki viti hún hvað þeir heiti. Annar þeirra hafi verið stór og þrekinn, stutthærður og vel til hafður en hinn minni og smágerðari og segist hún hafa komist að því seinna að sá piltur var “skráður fyrir íbúðinni”. Hafi sá stóri komið fyrst og D ekki þekkt hann og spurt hvar Finnbogi væri. Stuttu seinna hafi hinn pilturinn, Finnbogi, komið. Seinna hafi strákarnir komið aftur og D látið á sér heyra að hann vildi ekki hafa þetta dót í íbúðinni. Hafi þá Finnbogi sagst vera skráður fyrir íbúðinni og að þetta væri í lagi.
Niðurstaða.
Ákærði, Finnbogi Örn, játaði í greinargóðum framburði hjá lögreglu að hafa farið þrisvar sinnum í Tölvumiðlun ásamt meðákærða, Birgi, og stolið þar tölvubúnaði. Hann hefur nú tekið aftur þá játningu að öðru leyti en því að hann hafi farið þangað og rekist á manninn, eins og áður greinir. Skýring hans á þessum breytta framburði getur ekki talist trúverðug og ber að hafna henni. Ákærði, Birgir, hefur aftur á móti játað fyrir dómi að hafa farið einu sinni inn í fyrirtækið og stolið tölvubúnaði og þá verið einn síns liðs. Hann hafi svo farið aftur og þá dregið Finnboga Örn með sér og hafi maðurinn þá komið að þeim, eins og fyrr er rakið. Áður hafði ákærði, Birgir, neitað sök að mestu hjá lögreglunni og var framburður hans í þeim skýrslum með mestu ólíkindum. Ekki þykir varhugavert að leggja játningu Finnboga Arnar hjá lögreglunni til grundvallar í málinu og að nokkru leyti játningu Birgis hér fyrir dómi og telja sannað að þeir hafi brotist inn í fyrirtækið Tölvumiðlun og stolið þar þeim búnaði sem greinir í ákærunni og flutt þaðan í tveimur ferðum. Hafa þeir gerst brotlegir við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæra 20. mars 2003:
Ákærðu, Finnbogi Örn og Logi Már.
Aðfaranótt mánudagsins 13. maí 2002, um klukkan 2.48 fór þjófavarnakerfi í gang í versluninni 10-11 í Fjarðargötu í Hafnarfirði. Þegar að var komið hafði verið brotist inn og var dyrum að lagernum haldið opnum með kúbeini. Þá sást að dyrum að skrifstofu verslunarstjórans hafði verið sparkað upp. Greinilegt skófar var á hurðinni eftir því sem segir í frumskýrslu lögreglunnar en í annarri lögregluskýrslu segir að óljósu skófari hafi verið lyft af hurðinni. Peningaskápur þar inni stóð opinn og lykill í skránni. Samkvæmt upplýsingum verslunarstjórans áttu aðeins fimm starfsmenn verslunarinnar að vita hvar hann var geymdur en þó lék grunur á að fleiri vissu um felustaðinn. Í eftirlitsmyndavél verslunarinnar var hægt að sjá tvo menn koma inn í verslunina og ganga hiklaust að lyklinum og opna skápinn með honum og taka úr honum innihaldið og setja í poka og hraða sér því næst á brott. Menn þessir eru dökkklæddir með hettur og virðist annar þeirra vera í hvít- eða ljósskræpóttum íþróttaskóm. Þá sást að þeir voru báðir með hanska. Samkvæmt uppgjörsgögnum verslunarinnar var saknað 1.174.512 króna eftir innbrotið og auk þess eins 100 dollara seðils, en ekki er ákært fyrir hann. Upplýsingar bárust um það frá starfsmönnum verslunarinnar að einn starfsmannanna og vaktstjóri, F, gerði stundum upp sölu dagsins að viðstöddum félögum sínum og hann vissi hvar lykillinn var geymdur.
Þriðjudagsmorguninn 14. maí 2002 hringdi til lögreglunnar I [...] og tilkynnti um það að peninga úr innbroti þessu gæti verið að finna í herbergi sonar hennar þar. Fóru lögreglumenn á staðinn og var vísað inn í herbergi sonarins, G [...], sem var sofandi í rúmi sínu. Undir dýnu í rúminu fannst seðlabúnt, um 170.000 krónur og í skáp í herberginu fundust 139.000 krónur.
Fyrir liggur að ákærði, Finnbogi Örn, keypti vélhjól af tegundinni Honda mánudaginn 13. maí og var hald lagt á það vegna málsins.
Vegna skýrslu G, sbr. hér á eftir, leituðu lögreglumenn að sönnunargögnum í grennd við verslunina og fundust íþróttaskór í gjótu eða holrými undir steinvegg við barnaleikvöll, sem er á milli Austurgötu og Hverfisgötu, miðvikudaginn 15. maí. Myndir af þessum skóm fylgja málinu. Ekki er að sjá af málinu að samanburður þeirra við skófarið á hurðinni hafi leitt neitt það í ljós sem þýðingu hafi fyrir málið. Þegar myndirnar af skónum eru hins vegar bornar saman við skó annars innbrotsmannanna sem sjást á eftirlitsmyndunum sést að þar getur verið um sams konar skó að ræða.
Meðal gagna málsins eru myndir úr eftirlitsmyndavél í versluninni 10-11 sem sýna að ákærðu og G komu í verslunina föstudaginn 10. maí 2002 klukkan 13.28.03 og fara aftur út kl. 13.28.50.
Þá eru einnig myndir úr vélinni sem teknar voru daginn eftir og sýna Finnboga Örn og G koma í verslunina kl. 15.57 og koma þangað aftur kl. 16.06.
Við athugun hjá símafyrirtækjum kom það m. a. í ljós að hringt var þrisvar mánudagsmorguninn 13. maí úr símanúmeri, sem ákærði, Finnbogi Örn, hefur kannast við að eiga, í símanúmer I, sem G hafði einnig afnot af, kl. 06.50.54, kl. 08:08.19 og kl. 08.08.39.
Loks er þess að geta að samkvæmt bankareikningsyfirlitum sem aflað var vegna málsins voru teknar 67 þúsund krónur út af reikningi ákærða, Loga Más, í Íslandsbanka 3. maí 2002 og 26. apríl 2002 voru teknar 51 þúsund krónur út af reikningi Finnboga Arnar í Landsbankanum og rúmar 67 þúsund krónur út af reikningi hans í Búnaðarbankanum 2. maí 2002. Ljóst er af þessum reikningsyfirlitum og öðrum sem liggja fyrir, að ákærðu höfðu lítil fjárráð á þessum tíma.
G skýrði frá því í yfirheyrslum hjá lögreglu og í dómi 15. og 16. maí að kunningjar hans tveir, ákærðu, Finnbogi Örn og Logi Már, hefðu komið með peningana til hans á mánudagsmorguninn og fengið að geyma þá í herbergi hans. Skýrslur þessar eru allítarlegar og greinargóðar og voru gefnar að viðstöddum verjanda hans. Hann sagðist hafa verið í slagtogi með þeim tveimur um þessa helgi og verið á ferð með þeim í bíl þeirra. Hann hefði setið aftur í og heyrt á þeim að eitthvað stæði til. Hefðu þeir farið tvisvar í verslunina 10-11 í Hafnarfirði þessa helgi að finna félaga ákærðu, F, sem vann í versluninni. Þeir hefðu þó ekki hitt á hann þar. Þá sagðist hann hafa farið með ákærðu í könnunarferð um nágrenni verslunarinnar um þessa helgi og hefðu ákærðu talað um að hægt væri að fela sig í trjárunna í garði einum þegar um hægðist. Þá hefðu þeir verið að velta fyrir sér hvar hægt væri að fela þýfi og fatnað og orðið sammála um að þýfi mætti fela í sprungu í vegg við barnaleikvöll og fatnaði mætti koma fyrir í sorptunnum. Sagði G að hann hefði verið farið að gruna að til stæði að brjótast inn í verslun 10-11 í Hafnarfirði, en þó hefði hann einskis spurt. Það hefði svo verið um áttaleytið á mánudagsmorguninn að Finnbogi Örn hefði hringt á undan þeim Loga og þegar þeir komu hefðu þeir verið með peninga í plastpoka sem þeir hefðu sagt að væru ellefu hundruð þúsund krónur. Hefðu þeir ekki sagt hvaðan þeir væru en þeir hefðu sett peningana upp á fataskáp í herbergi hans. Síðar um morguninn, um tíuleytið, hefðu þeir komið aftur að sækja sér af peningunum. Kvaðst G hafa farið með þeim að versla, m.a. hefði verið keypt leikjatölva og eins hefðu þeir farið í verslunina Vélhjól þar sem Finnbogi Örn hefði keypt sé vélhjól fyrir 450 þúsund krónur. Þá sagði G að Logi hefði borgað skuldir sínar, 450 þúsund krónur, með sínum hluta fjárins, eftir því sem hann hefði sjálfur sagt sér. Logi hefði svo komið tvisvar aftur á mánudeginum til þess að ná í meiri peninga. Þá sagði G að hann hefði heyrt á þeim tveimur að þeir vissu hvar lykillinn að peningaskápnum væri geymdur og heyrt þá segja að F hefði ekki sagt þeim þetta ef hann væri því mótfallinn að þeir færu inn í verslunina. Þó hefði verið á Loga að skilja að F hefði reynt að fá þá ofan af því að fara inn í verslunina.
Ákærðu voru handteknir í leiguherbergi Loga Más í Funahöfða 17a um tvöleytið þriðjudaginn 14. maí. Var gerð leit í herberginu og fundust 70 þúsund krónur í fimm þúsund króna seðlum í náttborðsskúffu og í vasa hans 30 þúsund krónur, einnig í fimm þúsund króna seðlum.
Ákærði, Logi Már, var yfirheyrður hjá lögreglu síðdegis þennan þriðjudag að viðstöddum verjanda og í dómi daginn eftir. Hann neitaði þá sök. Hann kvaðst ekki hafa hitt F sem vann í 10-11 þessa helgi og væri langt síðan þeir hefðu sést. Hann kvaðst hafa tekið 70 þúsund krónur út af bankareikningi sínum til þess að borga húsaleigu og hefðu það verið peningarnir sem lögreglan fann hjá honum. Þá hefði hann unnið 50 þúsund krónur í “Gullnámunni” daginn áður. Hann gaf upp reikningsnúmer í Búnaðarbankanum sem hann sagðist hafa tekið út af. Þá nefndi hann einnig reikning í Íslandsbanka sem hann hefði tekið út af. Ákærði var svo yfirheyrður næst 22. maí að viðstöddum verjanda. Hann sagðist þá hafa tekið 25 þúsund krónur út af reikningnum í Búnaðarbankanum um viku fyrir atburðinn og 67 þúsund krónur út af reikningi sínum í Íslandsbanka, einni eða tveimur vikum fyrir atburðinn. Hann sagðist aðspurður ekki muna hvort hann hefði komið í verslunina 10-11 laugardaginn 11. maí en neitaði því ekki. Um 100 dollaraseðilinn væri það að segja að hann hefði fengið hann upp í skuld hjá kunningja sínum, Gulla, nokkrum dögum áður en hann var handtekinn. Ákærða voru sýndir íþróttaskórnir sem fundust í veggsprungunni og kvaðst hann ekki eiga þá. Hann kvaðst þekkja F sem vann í versluninni en sagðist aldrei hafa verið viðstaddur þegar F hefði verið að gera upp kassann í búðinni. Hann kvað Finnboga hafa keypt sér vélhjól í verslun mánudaginn 11. maí en hann hefði ekki verið með honum þá heldur farið heim til sín á meðan.
Ákærði, Finnbogi Örn, var yfirheyrður hjá lögreglu þennan þriðjudag að viðstöddum verjanda sínum og daginn eftir fyrir dómi, einnig að viðstöddum verjanda sínum. Neitaði hann sök. Hann kvaðst ekki hafa farið með þeim Loga og G í verslunarleiðangur að eyða peningum. Hann kannaðist við að hafa hringt í G á mánudagsmorgninum sem um ræðir í málinu, milli klukkan 8 og 9. Ekki myndi hann út af hverju, kannski til þess að mæla sér mót við hann. Hann kvaðst vera maður árrisull. Þá kvaðst hann eiginlega vera daglegur gestur hjá honum. Hann var aftur yfirheyrður að viðstöddum verjanda sínum miðvikudaginn 22. maí og hélt við neitun sína. Hann kvaðst einu sinni hafa komið að hitta F í versluninni 10-11 en hann hefði ekki komið í þá verslun laugardaginn 11. maí. Ákærði kannaðist við að hafa keypt mótórhjól mánudaginn 13. maí og kvaðst hafa greitt fyrir það 400 þúsund krónur. Þessa peninga hefði hann fengið frá kunningja sínum J fyrir mótorhjól sem hann seldi honum, einnig fyrir 400 þúsund. Hluta af þessari greiðslu hefði J fært honum á Kvíabryggju þar sem hann var í afplánun og afganginn hafi hann fengið greiddan. Hann kvað þá Loga og Ghafa verið með sér þegar hann keypti hjólið. Hafi hann greitt fyrir hjólið með reiðufé, eitt þúsund og fimm þúsund króna seðlum. Þá kvaðst hann ekki eiga íþróttaskóna sem fundust í veggnum.
I, móðir G, skýrði frá því í lögregluskýrslu að sonur hennar hefði virst vera mjög uppspenntur eftir að félagar hans, ákærðu, losnuðu úr fangelsi, fór að reykja meira, hætti að sækja AA-fundi og vanrækja aðra vini sína. Ákærðu hefðu einnig farið að venja komur sínar mjög heim til þeirra og oft hringt þangað. Hefði hana grunað að eitthvað misjafnt væri á seyði og tveim dögum áður en hún hafði samband við lögregluna hefði hún heyrt skrjáf eins og úr stífu plasti koma úr herbergi G. Hefðu ákærðu þá verið í heimsókn. Um tveimur klukkustundum eftir að þeir voru farnir og komið var fram á miðjan dag hefði hún farið inn og leitað í herberginu og fundið peningana í herbergi G. Seinna um daginn hefðu strákarnir komið aftur og lokuðu að sér inni í herberginu. Þegar hún heyrði í fréttum um þjófnað þar sem miklum peningum hafði verið stolið hefði hún ákveðið að gefa sig fram.
J gaf skýrslu hjá lögreglu 22. maí 2002. Hann kvað þá Loga Má þekkjast mjög vel og hafa m.a. leigt saman íbúð. Hann kvaðst ekki hafa séð neina breytingu á fjárhag ákærða eftir helgina 10.-12. maí. Ekki vissi hann hvort ákærði væri skuldugur. J kvaðst einnig vera kunnugur Finnboga Erni þótt hann þekkti hann minna en Loga. Hefðu þeir kynnst fyrir um tveimur árum. Hann kannaðist við að hafa heimsótt Finnboga Örn á Kvíabryggju tvisvar sinnum, í desember 2001 og svo aftur í mars 2002. Hefði tilefnið verið að heilsa upp á hann en annað ekki. Hann kannaðist við að hafa keypt mótorhjól af Finnboga Erni fyrir 400 þúsund og hefði hann fengið hjólið þegar ákærði fór inn í fangelsi í september 2001. Hefði hann fyrst borgað Finnboga Erni 300 þúsund í reiðufé áður en hann fór í fangelsi í september 2001 en afganginn um tveimur dögum eftir að ákærði losnaði, einnig í reiðufé. Hann kvaðst halda að ákærði hefði keypt sér mótorhjól eftir að hann fékk lokagreiðsluna. Þá var þetta bókað um yfirheyrsluna:
“Hafi Finnbogi keypt hjól af gerðinni Honda CR 500. [J] segir að þegar Logi og Finnbogi voru teknir þann 14. maí 2002 hafi hann verið á hjólinu. Segir [J] að Finnbogi hafi gefið sér leyfi fyrir því að nota hjólið. Segist [J] hafa geymt hjólið rétt við Torfufell þar sem Finnbogi býr en nú sé það týnt og hafi hann haldið að lögreglan hafi tekið það.
[J] vill nú breyta fyrri framburði sínum. Segir [J] að hann hafi selt BMW bifreið sem hann átti. Hafi hann selt bílinn í febrúar 2002 á kr.500.000 og hafi hann beðið afa sinn að geyma hluta af þeirri fjárhæð en sumt hafi hann geymt heima hjá sér.
[J] vill nú enn breyta framburði sínum og segir að afi hans hafi ekki geymt neina peninga fyrir hann heldur hafi hann geymt þá alla sjálfur og sérstaklega hafi hann geymt kr.200.000 sem hann hafi ætlað að borga Huskvarna-bifhjólið með sem hann keypti af Finnboga þegar Finnbogi fór í fangelsi í fyrra. Hafi hann afhent Finnboga kr.400.000 um það bil tveimur dögum eftir að Finnbogi kom frá Kvíabryggjufangelsinu. Hafi hann borgað honum þetta allt í seðlum.
Þá vill [J] taka það nú fram að Honda-bifhjólið sem að Finnbogi hafi keypt sér sé ekki við Torfufell heldur sé það geymt hjá afa hans,[K]. Huskvarna-hjólið sem [J] keypti af Finnboga sé þar einnig í geymslu. [J] segir að hann hafi farið með hjólið til afa síns sama dag og Finnbogi var handtekinn eða þann 14 maí 2002.
[J] er nú spurður af hverju hann sagði við lögreglu að afi hans hafi geymt peninga fyrir hann. Segir hann að hann viti ekki af hverju hann sagði þetta en hins vegar hafi afi hans geymt peninga fyrir hann eftir að hann hafi selt bíl og því hafi hann sennilega sagt þetta einnig um BMW bifreiðina.”
......................
J hefur nú lesið skýrsluna og segir framburð sinn ekki réttan eins og þar kemur fram. Hann segir að nú vilji hann segja hlutina eins og þeir raunverulega eru. Hafi hann viljað hjálpa Finnboga með því að segja hlutina eins og að ofan greinir en nú sé hann tilbúinn að segja hlutina eins og þeir raunverulega eru. Sé hann ekki tilbúinn að lenda í vandræðum vegna annarra þó svo að um vini sé að ræða og vilji hann því koma hreint fram. J segir að hann hann hafi látið Finnboga hafa um það bil 150.000 til 200.000 krónur í peningum áður en Finnbogi fór í fangelsi í september 2001, vegna kaupa á Huskvarna-bifhjóli. Peningamál þeirra hafi verið mjög á reiki þegar hann keypti Huskvarna-bifhjólið og geti hann ekki munað nákvæmlega hve mikið hann hafi látið Finnboga hafa. Síðan hafi hann látið móður Finnboga hafa 35.000 kr. og hafi það verið nú í febrúar eða mars. Eftir stendur að hann skuldi Finnboga enn kr.180.000. Hafi hann hringt í Finnboga á meðan Finnbogi var á Kvíabryggju og hafi þeim þá komið saman um að eftirstöðvar af viðskiptum þeirra væru 180.000. kr. J segir að hann hafi ekki enn greitt Finnboga neitt af þessum 180.000 kr. sem hann skuldi honum sem eftirstöðvar af Huskvarna bifhjólinu. J er nú spurður um það sem hann sagði að hann vildi hjálpa Finnboga og hvað hann hafi meint með því. Segir hann að þegar Finnbogi og Logi voru handteknir af lögreglunni hafi hann eins og áður greinir verið í sama herbergi, en lögreglumennirnir hafi kynnt sig sem lögreglumenn frá Hafnarfirði. Daginn eftir hafi þeir Logi og Finnbogi ekki verið komnir heim og hafi hann lesið í textavarpinu að tveir menn hefðu verið handteknir grunaðir um innbrot í verslunina 10-11 í Hafnarfirði. Hafi hann þá lagt saman tvo og tvo. Hins vegar segir J aðspurður að þeir hafi ekki rætt á nokkurn hátt við hann um að þeir hafi brotist inn í verslunina 10-11. Segir hann að það sé aldrei gert ef menn brjótist inn og steli að þeir ræði það við aðra þó svo að um vini sé að ræða.
Ákærði, Logi Már, hefur sagt fyrir dómi að hann þekki F og vita til þess að hann hafi unnið í versluninni. Hann muni ekki eftir því að hafa farið að hitta F þar en hann hafi oft komið í verslunina, enda átt heima í Hafnarfirði. Hann muni hafa komið í verslunina þessa helgi sem um ræðir og þá sjálfsagt til þess að versla. Gæti hann hafa komið þar tvisvar þessa helgi með Finnboga Erni. Ákærði kannast við að hafa komið heim til G í [...]. Ákærði neitar því að hafa komið heim til G snemma mánudagsmorguninn sem um ræðir, 13. maí 2002. Hann kveðst muna að þeir Finnbogi Örn hafi farið í bíó og síðan farið að rúnta, suður í Hafnarfjörð. Hann kveðst hafa fengið peningana sem fundust við húsleitina hjá einhverjum félögum sínum og einhverjum reikningum. Þetta geti ekki talist vera mikið fé og leigusalinn hafi einmitt komið til þess að innheimta þessar 70.000 krónur þegar húsleitin stóð yfir. Ákærði, Finnbogi Örn, hefur frá upphafi neitað sök. Fyrir dómi hefur hann sagst þekkja F og verið geti að hann hafi heimsótt F meðan hann vann í versluninni. Hann neitar því að hafa komið í verslunina þá helgi sem um ræðir. Þegar honum eru sýndar myndir sem teknar voru af honum í versluninni föstudaginn 10. maí segist hann ekki geta neitað því að hafa verið þar á ferð. Hann segir að hann geti misminnt um þetta, enda sé langt um liðið. G muni hann ekki eftir að hafa heimsótt mánudagsmorguninn sem um ræðir en þegar undir hann er borin skýrsla hans 22. maí hjá lögregunni kannast hann við að hafa komið til G með Loga Má um ellefuleytið. Þeir hafi hins vegar ekki verið með peninga meðferðis. Hann neitar því ekki að hafa hringt þrisvar til G þennan morgun, fyrst kl. 6.50, og kveðst sjálfsagt hafa hringt í G til þess að athuga hvort ekki væri “í lagi með hann”. Ákærði kveðst halda að um vorið 2002 hafi hann ekki unnið neitt um eins árs bil og ekki haft aðrar tekjur en það sem hann fékk fyrir vinnu sína í fangelsinu á Kvíabryggju. Ákærði kannast við að hafa keypt sér vélhjól mánudaginn 13. maí en hann kveðst hafa keypt hjólið fyrir andvirði annars hjóls sem hann hafði selt félaga sínum, J. Hafi J greitt fyrir hjólið með afborgunum meðan ákærði sat inni og hafi verið búinn að greiða megnið af verðinu þegar ákærði kom úr fangelsi.
Kristján Ólafur Guðnason, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að vísbendingar hafi verið um það á vettvangi að kunnugur maður ætti hlut að innbrotinu, vegna þess að lykill hafði verið tekinn úr geymslustað til þess að opna peningaskápinn. Kona hafi svo hringt í lögregluna á þriðjudeginum og tilkynnt að peningar sem hún taldi að væru illa fengnir væru geymdir í herbergi sonar hennar. Þegar þangað kom hafi fundist peningabúnt undir dýnu og í skáp í herbergi piltsins. Hafi móðir piltsins vísað á piltana, ákærðu, Loga Már og Finnboga Örn, sem hefðu komið með peningana. Í leiguherbergi ákærða, Loga Más, hafi einnig fundist peningar, 30 þúsund á honum sjálfum og 70 þúsund í hirslu, þar á meðal 100 dollara seðill, en slíkur seðill var talinn hafa verið meðal peninganna sem stolið var úr versluninni. Yfirheyrslur yfir piltunum hafi leitt í ljós að þeir höfðu keypt fatnað, mótorhjól og leikjatölvu. G hafi vísað lögreglu á felustaði í nágrenni við verslunina sem hann sagði þá þrjá hafa verið búna að sjá út. Í gjótu, sem G vísaði á, hafi þeir fundið skópar sem líktist mjög skóm annars mannsins á myndbandinu úr versluninni.
J, kunningi ákærða, Finnboga Arnar, hefur skýrt frá því fyrir dómi að hann hafi keypt vélhjól af ákærða fyrir um tveimur árum fyrir 400 þúsund krónur. Hafi hann greitt um 200 þúsund áður en ákærði fór í fangelsi. Meðan hann var í fangelsi hafi Logi Már tekið við greiðslum fyrir Finnboga, um 100 þúsund krónur. Logi Már hafi líklega verið að fara í heimsókn til Finnboga Arnar. Þá hafi móðir Finnboga Arnar tekið við 35 þúsund krónum fyrir hann. Segist vitnið hafa sagt frá þessu þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu en þeir virðist ekki hafa skrifað þetta hjá sér, þótt hann hafi tekið þetta skýrt fram. Lögreglumaðurinn hafi skrifað framburð hans fyrst á blað. Annars segir vitnið að hann hafi auk þessa skuldað Finnboga Erni peninga vegna húsaleigu, en þeir leigðu saman íbúð í Seljahverfi. Þessi fjármál þeirra hafi annars verið í einhverri óreiðu. Aðspurður segir hann það vera fært í stílinn, af þeim sem skráði framburð hans hjá lögreglu 22. maí 2002, að hann hafi viljað breyta framburði sínum eftir að hafa ranglega borið Finnboga Erni í vil um hvað hann hefði greitt honum fyrir hjólið. Hið rétta sé að þegar hann hafði glöggvað sig betur á viðskiptunum við Finnboga Örn hafi hann breytt framburði sínum.
G hefur komið fyrir dóm og sagt að hann muni óljóst eftir því að Finnbogi Örn hafi hringt eitt sinn og legið mikið á að hitta vitnið. Þeir Logi Már hafi svo komið og sýnt peninga sem þeir voru með. Hann kveðst einskis hafa spurt enda staðið á sama hvaðan peningarnir voru og vitað að ekki átti við að spyrja. Kveðst hann hafa fallist á að geyma peningana fyrir þá. Hann segir ekki hve mikið þetta hafi verið en hann kveðst hafa greint eins rétt frá og hann hafi getað í lögregluskýrslunni. Hann segist hafa farið með þeim Finnboga Erni og Loga Má í verslun 10-11 að heimsækja F, ef til vill tvisvar. Hugsanlega hafi F ekki verið viðlátinn í fyrra skiptið og þeir því farið aftur. Undir hann er borin skýrsla þar sem hann skýrir frá því að hafa gengið um nágrenni verslunarinnar með þeim hinum. Telur hann að þetta sé einhver “spuni” sem hann hafi látið í skýrsluna til þess að sleppa úr haldi lögreglunnar. Segist hann hafa legið undir miklum þrýstingi frá lögreglumönnunum við yfirheyrsluna og úrskurður um gæsluvarðhald vofað yfir honum. Hann segir það efalaust vera rétt haft eftir honum að hann hafi verið farið að gruna það þegar þeir fóru í 10-11 að heimsækja F, að þeir ætluðu sér að brjótast þar inn. Hann segist ekki vita hvort þessi skýrsla hans sé rétt. Hann segist hafa farið með þeim Finnboga Erni og Loga í bíó sunnudagskvöldið 12. maí og svo farið heim að sofa. Það hafi svo verið morguninn eftir að Finnbogi Örn hringdi og sagði að hann yrði að sýna honum svolítið og hvort hann mætti ekki koma. Þeir hafi svo komið og sýnt honum peningana og beðið um að hann geymdi þá. Hann kveðst ekki vita hvað þetta hafi verið mikið en hann rámi í að þeir hafi sagt að þetta væri 1,1 milljón. Daginn eftir hafi þeir þrír farið að versla og meðal annars komið í vélhjólabúðina og þá fleiri piltar verið með þeim. Finnbogi Örn hafi farið út með vélhjól sem hann muni hafa keypt. Logi Már hafi komið tvisvar eða þrisvar að ná í peninga til hans og Finnbogi Örn einu sinni eða tvisvar.
I, móðir G, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að asi og læti hafi verið í strákunum, syni hennar og kunningjum hans, þeim Finnboga Erni og Loga Má, sem hún þekkir og eru tíðir gestir hjá þeim. Hún segist því hafa leitað í herberginu og fundið peninga undir dýnu og í skáp. Hún hafi hringt í lögregluna og sagt frá þessu og hana grunað að þessir peningar væru úr “þessu ráni”. Hafi þetta verið nokkrir “þúsundkallar”.
Niðurstaða
Hér að framan hefur verið rakin greinargóð skýrsla G hjá lögreglu um athafnir hans og ákærðu dagana 10. til 12. maí. Hefur skýrsla þessi mikla þýðingu í málinu. Þegar hann kom fyrir dóm í málinu reyndi hann nokkuð að draga úr því sem hann hafði sagt í þessari yfirheyrslu en dómurinn telur að óhætt sé að líta fram hjá þeirri viðleitni hans, enda var framganga hans í þá veru ótrúverðug. Hefur móðir G, sem telja verður mjög trúverðugt vitni, gefið þýðingarmikla skýrslu í málinu. Þar er greinargóð lýsing á hegðun og athöfnum piltanna á þessum tíma, eins og rakið er. Þá fann hún peninga sem faldir voru í herbergi sonarins og gerði lögreglu viðvart og fann lögreglan peningana þar. Fyrir liggur að hringt var úr síma ákærða, Finnboga Arnar, í síma þeirra mæðginanna snemma mánudagsmorguninn 13. maí og hefur ákærði kannast við að hafa hringt. Skýring hans á þessum hringingum er ekki sannfærandi. Fyrir liggur að ákærði, Finnbogi Örn, keypti vélhjól fyrir 450 þúsund krónur og staðgreiddi það með reiðufé mánudaginn 13. maí. Hann hefur sagst hafa greitt fyrir það með fé sem hann fékk fyrir vélhjól sem hann seldi J, eins og rakið hefur verið. Hefur J borið með honum um þetta en frásögn hans um þetta hefur verið bæði óstöðug og ótrúverðug. Skýring hans á misræmi milli lögregluskýrslunnar og framburðarins fyrir dómi getur heldur ekki talist trúverðug. Er óhætt að hafna þessari sögu þeirra ákærða. Þá liggur fyrir að ákærði hafði litlar tekjur á þessum tíma. Ákærði, Logi Már, var einnig tekjulítill á þessum tíma og skýring hans á peningunum sem fundust hjá honum við leit getur ekki talist trúleg. Það er því óhætt að slá því föstu að ákærðu hafi skyndilega komist yfir mikið reiðufé þessa helgi og að þeir hafi komið með það á heimili mæðginanna þennan morgun en farið fljótlega aftur með megnið af því út af heimilinu.
Eins og fyrr segir hefur G gefið greinargóða lýsingu af athöfnum sínum og ákærðu, fyrir og um þessa helgi, þar á meðal komum þeirra í verslunina 10-11. Myndir úr eftirlitskerfi verslunarinnar styðja þessa frásögn og ákærðu, sem eins og G áttu báðir heima í Reykjavík, hafa að sínu leyti kannast við að hafa komið þar, eins og rakið er. Þess er að geta að Finnbogi Örn kvaðst vera nærri daglegur gestur í versluninni þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu. Fyrir dómi neitaði hann því hins vegar í fyrstu að hafa komið þar þessa helgi, en viðurkenndi það þó þegar honum voru sýndar myndirnar. Eins og fram er komið vísaði G á holu undir steinvegg, sem hann sagði ákærðu hafa athugað og talað um að væri ákjósanlegur felustaður. Í þessari holu fundust skræpóttir íþróttaskór. Við samanburð á myndum af skónum og skóm á fótum annars innbrotsmannanna á eftirlitsmyndunum sést að þar getur verið um sams konar skó að ræða. Þá liggur fyrir að auk íslenskra peninga var einnig stolið 100-dollara seðli úr versluninni 10-11. Slíkur seðill fannst hjá ákærða, Loga Má. Loks er þess að geta fjárhæðin sem stolið var getur komið heim og saman við það sem vitað er um auraráð ákærðu eftir helgina, sé við það miðað að þeir hafi skipt fengnum nokkurn veginn jafnt með sér.
Þegar allt þetta er metið þykir ekki vera varhugavert að telja sannað að ákærðu hafi brotist inn í verslunina 10-11 aðfaranótt mánudagsins 13. maí og stolið 1.174.512 krónum. Hafa þeir með því orðið sekir við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Aðrar sakir í málinu hafa ákærðu skýlaust játað og teljast þeir hafa orðið brotlegir við þau lagaákvæði sem réttilega eru tilfærð við þær í ákærunum.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður.
Ákærði, Á, er ungur að aldri, fæddur 1982. Hann hefur að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til 1999 er hann fékk ákærufrestun fyrir nytjastuld. Hann hefur verið sektaður fimm sinnum, mest fyrir umferðarlagabrot. Þá hefur hann alls verið dæmdur fimm sinnum fyrir hegningarlagabrot. Hann var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfelld auðgunarbrot og nytjastuld í Héraðsdómi Reykjavíkur, hinn 24. apríl 2002. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar sem staðfesti dóminn 24. október 2002. Að auki var hann sakfelldur fyrir fjársvik í mars á þessu ári en ekki gerð sérstök refsing. Líta verður á brot ákærða nú sem ítrekun við héraðsdóminn 24. apríl 2002. Er ekki hægt að líta svo á að áfrýjun geti upphafið eða haft áhrif á ítrekunaráhrif dóms og tekur 78. gr. hegningarlaganna því ekki til refsingar ákærða nú. Ákærði er nú sakfelldur fyrir samtals átta hegningarlagabrot, þar af eitt stórfellt þjófnaðarbrot. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni ber að draga 5 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Finnbogi Örn, er fæddur 1980. Sakaferill hans nær aftur til ársins 1997 er hann fékk tvisvar skilorðsbundna ákærufrestun fyrir þjófnað, húsbrot og eignaspjöll. Eftir það hefur hann verið dæmdur sex sinnum, aðallega fyrir hegningarlagabrot. Síðast var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir þjófnaðarbrot 13. júní í sumar en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar, sem staðfest hefur dóminn. Hann er nú sakfelldur fyrir þrjú þjófnaðarbrot, þar af tvö stórfelld. Refsingu hans ber að ákveða sem hegningarauka og telst hún hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni ber að draga 8 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Logi Már, er ungur að aldri, fæddur 1982. Hann hefur sakaferil sem nær aftur til ársins 1997, er hann fékk skilorðsbundna ákærufrestun fyrir þjófnað og nytjastuld. Eftir það hefur hann fengið átta refsidóma, ýmist fyrir hegningar- eða umferðarlagabrot. Þá hefur hann margsinnis verið sektaður, mest fyrir umferðarlagabrot. Síðast var hann dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi í febrúar á þessu ári fyrir umferðarlagabrot og brot gegn 148. gr. hegningaralaganna. Var þá dæmdur upp þriggja mánaða skilorðshluti dóms frá því í nóvember næstliðnum fyrir sams konar brot. Dæma ber upp skilorðsdóminn og gera ákærða refsingu í einu lagi. Verður hún að mestu leyti hegningarauki við tvo síðustu dómana. Ákærði er nú sakfelldur fyrir sex brot, þar af er eitt stórfellt og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni ber að draga 8 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Birgir, er fæddur 1977. Hann hefur frá árinu 2001 til þessa hlotið fjóra refsidóma fyrir hegningarlagabrot. Síðast var honum refsað fyrir hegningarlagabrot í janúar á þessu ári og dæmdur í 2 ára fangelsi. Refsing ákærða er hegningarauki við þann dóm en ákærði er nú sakfelldur fyrir stórfellt þjófnaðabrot. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Að kröfu verslunarinnar 10-11/Hraðkaupa ber að dæma ákærðu, Finnboga Örn og Loga Má, til þess að greiða 1.203.972 krónur í skaðabætur vegna tjóns sem hlaust af brotinu ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 13. maí 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags. Þá ber að dæma þá til þess að greiða versluninni 75.000 kr. í bætur fyrir kostnað við það að halda fram kröfunni og dæmist sú fjárhæð án vaxta og virðisaukaskatts.
Dæma ber ákærða, Á, til þess að greiða verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 130.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærðu, Finnboga Örn, Loga Má og Birgi, til þess að greiða óskipt verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt.
Mál þetta gefur tilefni til þess að víkja enn einu sinni að því vinnulagi lögreglu að gera almennt ekki hljóðupptökur af lögregluyfirheyrslum yfir grunuðum og vitnum. Enda þótt ekki sé beinlínis mælt fyrir um þær í IX. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 verður að skilja 1. mgr. 72. gr. laganna þannig að þar sé heimilað að láta hljóð- eða myndbandsupptökur koma í stað ritaðra lögregluskýrslna. Ákvæðið er þannig lágmarksákvæði og eru slíkar upptökur fráleitt óheimilar samhliða því að rannsóknari ritar skýrslu um yfirheyrslu, sbr. það sem segir hér á eftir. Nægir í þessu sambandi að minna á það að hljóðupptökur af þinghöldum hófust hér á landi, án þess að bein lagaheimild væri fyrir þeim. Sönnuðu hljóðupptökurnar fljótlega gildi sitt svo að aðferðin var tekin upp í lög.
Í mars 1994 var á vegum nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT) gefin út í Strassborg skýrsla til ríkisstjórnar Íslands um heimsókn nefndarinnar til Íslands í júlí 1993. Í skýrslunni eru margvíslegar athugasemdir og ábendingar um það sem nefndin áleit að betur mætti fara um réttarstöðu sakborninga, aðbúnað fanga og fleira. Í 40. lið skýrslunnar var sett fram það álit nefndarinnar að það sé “mikilvægt öryggisatriði fyrir þá sem handteknir hafa verið, að yfirheyrslur yfir þeim séu hljóðritaðar, og það sé einnig til hagræðis fyrir lögreglu.“ Lagði nefndin það til við íslensk stjórnvöld að gera hljóðritun á lögregluyfirheyrslum að fastri starfsreglu. Sú tilhögun sem upp væri tekin ætti að fela í sér allar viðeigandi öryggisráðstafanir (svo sem að notuð séu tvö segulbönd og annað þeirra sé innsiglað í viðurvist hins handtekna en hitt haft sem vinnueintak). Hinn 27. júní 1997 setti dómsmálaráðherra, með heimild í 19., 32., 69. og 101. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu nr. 395, 1997. Má ætla að með 18. gr. reglugerðarinnar hafi að nokkru leyti átt að koma til móts við tilmælin í skýrslu pyndinganefndar Evrópuráðsins, en þar segir m. a. að taka megi yfirheyrslu sakbornings eða vitnis upp á hljóðband en að jafnaði skuli skrá skýrslu um yfirheyrsluna á venjulegan hátt. Lögregla varðveiti hljóðbandið uns máli sé endanlega lokið en endurrit þess, sé það gert, verði hluti af gögnum þess.
Ekki þarf að hafa mörg orð um það hvernig staða ákæruvaldsins styrkist í einstökum málum ef játning sökunauts liggur fyrir í hljóðupptöku. Þá þarf ekki að fjölyrða um það hversu hagsmunir sakbornings eru betur tryggðir -beri hann það fyrir sig að á hann hafi verið hallað í yfirheyrslunni eða að skýrsla rannsóknarans um hana sé ekki rétt - hlýða má á upptöku af henni í dómi. Þá er óþarft að minna á allan þann tíma og óþarfa fyrirhöfn sem nú fer í það -í hverju málinu á fætur öðru- að prófa fyrir dómi hvernig orð hafa fallið í lögregluyfirheyrslu, hvort sem í hlut eiga sakborningar eða vitni. Er vafalaust að það myndi spara tíma og auka á skilvirkni réttarvörslukerfisins ef hljóðupptökur af lögregluyfirheyrslum yrðu almennar. Loks er það alkunna að tækin sem notuð eru við hljóð- og myndupptökur eru tiltölulega ódýr og þægileg í notkun.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Á, sæti fangelsi 18 mánuði. Frá refsingunni dregst 5 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Finnbogi Örn Halldórsson, sæti fangelsi 18 mánuði. Frá refsingunni dregst 8 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Logi Már Hermannsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni dregst 8 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Birgir Brynjarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærðu, Finnbogi Örn og Logi Már, greiði 10-11/Hraðkaupum 1.203.972 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 13. maí 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags. Þá greiði þeir versluninni 75.000 kr. í bætur fyrir kostnað við það að halda fram kröfunni og dæmist sú fjárhæð án vaxta og virðisaukaskatts.
Ákærði, Á, greiði verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 130.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærðu, Finnbogi Örn, Logi Már og Birgir, greiði óskipt verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl. 200.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Pétur Guðgeirsson