Hæstiréttur íslands

Mál nr. 249/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ábyrgðartrygging
  • Aðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. september 2004.

Nr. 249/2004.

Styrktarsjóður Háskóla Íslands

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Kærumál. Ábyrgðartrygging. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S krafði S hf. um greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu fyrirtækis sem tekið hafði verið til skipta samkvæmt reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Með vísan til þess að ekkert lá fyrir um að skaðabótaskyldan hefði verið staðreynd, þótt fjárhæð kröfu S hefði verið viðurkennd af skiptastjóra á öðrum grundvelli, og að S hf. þyrfti ekki að vera bundið af þeirri ákvörðun skiptastjóra þar sem hann hefði hafnað bótaskyldu, voru skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga ekki talin vera fyrir hendi. Þá var ekki það samband með vátryggingartaka og S hf. að félagið hefði fyrirsvar fyrir þann fyrrnefnda. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var kröfum S vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 17. maí 2004 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og Sigrúnu Eysteinsdóttur, en með honum var vísað frá dómi kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur hans gegn varnaraðila til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2004.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 22. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 12. september sl.

Stefnandi er Styrktarsjóður Háskóla Íslands hf. Suðurgötu, Reykjavík.

Stefndu eru Sigrún Eysteinsdóttir, Lómasölum 21, Kópavogi og og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

- aðallega að stefndu, Sigrún Eysteinsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf.,  verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 4.178.000 krónur, auk vaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 15. nóvember 2001 til 14. febrúar 2002, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

- til vara er gerð krafa um að viðurkennt verði með dómi að Burnham International á Íslandi hf, hafi borið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda að fjárhæð 4.178.000 krónur, sem varð þegar Burnham International á Íslandi hf. varði fjármunum stefnanda án hans heimildar til kaupa á víxli, útgefnum 15. ágúst 2001, með gjalddaga 15. nóvember 2001, samþykktum og gefnum út af Burnham International á Íslandi.

Jafnfram er gerð krafa um að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf, krefst þess aðallega að kröfum stefnanda á hendur félaginu verði vísað frá dómi og því verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

Fyrsta varakrafa stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf, er að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og að því verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

Önnur varakrafa stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., er að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og greiðsla úr vátryggingu sæti takmörkun samkvæmt vátryggingarskilmálum félagsins þannig að heildargreiðslur til allra kröfuhafa samkvæmt vátryggingunni geti aldrei orðið hærri en 50 milljónir króna að meðtöldum kostnaði umfram 1.5 milljón króna. Er þess krafist að málskostnaður verði í þessu tilviki felldur niður.

Þriðja varakrafa stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., er að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og greiðsla úr vátryggingu sæti takmörkun samkvæmt vátryggingarskilmálum félagsins þannig að heildargreiðslur til allra kröfuhafa samkvæmt vátryggingunni geti aldrei orðið hærri en 100 milljónir króna. Er þess krafist að málskostnaður verði í þessu tilviki felldur niður.

Stefnda, Sigrún Eysteinsdóttir, krefst aðallega sýknu á aðalkröfu stefnanda og kröfu um málskostnað og að henni verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins.

Til vara er þess krafist af hálfu stefndu, Sigrúnar Eysteinsdóttur, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

Krafa Sjóvár-Almennra trygginga hf. um að kröfum á hendur því félagi verði vísað frá dómi er til úrlausnar hér.

Þann 27. nóvember 2001 var verðbréfafyrirtækið Burnham International á Íslandi hf. (hér eftir Burnham), svipt starfsleyfi samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfafyrirtæki. Bar þá að slíta félaginu og taka það til opinberra skipta. Skiptastjóri var skipaður Sigurmar K. Albertsson, hrl., og var ákveðið að farið yrði með skiptin sem félagið væri gjaldþrota, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 13/1996.

Með samningi, dags. 31. mars 1995, veitti stefnandi Burnham (sem þá hét Handsal hf) umboð til að kaupa verðbréf fyrir fjármuni, sem verðbréfafyrirtækið fékk til fjárvörslu fyrir stefnanda. Í D-1ið samkomulagsins eru talin upp þau verðbréf, sem Burnham var heimilt að fjárfesta í samkvæmt samningnum, sbr. einnig 2. gr. almennra skilmála félagsins, sem tekið er fram að teljist vera hluti of samningi aðila. Samkvæmt D-1ið samkomulagsins mátti varnaraðili kaupa eftirtalin verðbréf:

Ríkistryggð skuldabréf/víxla,  húsbréf, bankatryggð skuldabréf/víxla, skuldabréf sveitarfélaga/víxla, skuldabréf/víxla með ábyrgð sveitarfélags, fasteignatryggð skuldabréf.

Bótakröfu stefnanda sé að rekja til kaupa Burnham á víxli, svonefndum "Burnhamvíxli" að fjárhæð kr. 4.178.000. Víxillinn var gefinn út af Burnham 15. ágúst 2001 en með gjalddaga 15. október 2001. Kaupverð víxilsins mun hafa verið kr. 3.991.840, mismunur hafi verið reiknaðir forvextir. Greiðandi, samþykkjandi og útgefandi víxilsins var Burnham. Engir aðrir ábyrgðaraðilar voru á víxlinum og greiðsla var ekki heldur tryggð með öðrum hætti. Burnham keypti víxilinn fyrir reikning stefnanda en af sjálfum sér. Burnham hafi tekið víxilfjárhæðina að láni af stefnanda, af fjármununum sem félagið hafði í vörslu á svonefndri fjárvörslubók, og notaði í eigin þágu, án samþykkis stefnanda. Með þessum viðskiptum hafi verið brotið gegn ofangreindu samkomulagi.

Í gögnum málsins kemur fram að átt höfðu sér stað víxilkaup aðila með sömu aðferð allt frá 30. nóvember 2000. Fyrri víxlar voru "uppgerðir" er framangreindur víxill á var keyptur. Þessar ráðstafanir megi ráða of fjárvörsluyfirlitum, sem liggi frammi, þó þau séu ekki greinargóð.

Er hin umdeildu víxilviðskipti fóru fram var stefnda Sigrún framkvæmdastjóri Burnham. Hún hafi tekið ákvörðun um viðskiptin og annast þau. Hún hafi tekið sæti í stjórn Burnham á aðalfundi 11. apríl 2001. Hin umdeildu víxilkaup hafi farið fram mjög skömmu áður en að Burnham missti starfsleyfið samkvæmt framansögðu. Samkvæmt kröfuskrá búsins, námu lýstar kröfur í búið tæpum milljarði króna. Samkvæmt skýrslu skiptastjóra um ástæður skipta, dags. 22. mars 2002, hafi verið ljóst að viðvarandi taprekstur hafi verið hjá félaginu og rekstur síðustu mánuðina m.a fjármagnaður með sölu eigna og verulegri skuldasöfnun. Í IV. kafla skýrslunnar um eignastöðu kemur fram að skoðun á eignum félagsins samkvæmt bókum þess haft leitt í ljós að þær hafi nánast verið einskis virði og dygðu ekki til greiðslu forgangskrafna. Af þessu sé ljóst að það hafi ekkert verið eitt og algerlega ófyrirséð atvik sem leiddi til fjárþrots Burnham, heldur beri skýrsla skiptastjórans með sér að fjárhagur þess haft verið á brauðfótum lengi og eignir ofmetnar svo um munaði.

Stefnandi lýsti kröfu í bú Burnham með kröfulýsingu 14. janúar 2002og lýsti samhliða bótakröfu á hendur félaginu og stjórnendum þess. Ennfremur var lýst bótakröfu á hendur Sjóvá-almennum tryggingum hf á grundvelli ábyrgðartryggingar, sem Burnham og stjórnendur þess höfðu hjá vátryggingarfélaginu.

Upphaflega hafnaði skiptastjóri alfarið kröfum stefnanda. Að loknum nokkrum fundum til að jafna ágreining um kröfurnar ákvað skiptastjóri að samþykkja kröfu stefnanda sem víxilkröfu en að höfðu samráði við Sjóvá-almennar tryggingar hf. hafnaði harm á hinn bóginn kröfunni um að Burnham haft bakað sér bótaábyrgð vegna viðskiptanna, sem lágu að baki víxilkröfunni. Í framhaldi var með vísan til 120., sbr. 171. gr. laga nr. 21/991 krafist úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ágreining um skaðabótaskylduna, sbr. bréf skiptastjóra til dómsins, dags. 27. ágúst 2002.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 27. febrúar 2003 var viðurkennd skaðabótakrafa stefnanda á hendur þrotabúi Burnham. Þrotabúið kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar, 10. apríl 2003, var málinu vísað frá héraðsdómi. Var það rökstutt þannig að bú Burnham hefði þegar viðurkennt kröfu stefnanda sem almenna kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi teldist ekki hafa "lögvarða hagsmuni" of úrlausn málsins, sem í raun snerist um það hvort viðurkenna ætti kröfu hans á grundvelli einnar málsástæðu fremur en annarrar, sbr. meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fyrir liggi að krafa stefnanda á grundvelli víxilsins fáist ekki greidd að neinu leyti af þrotabúi Burnham, sbr, skýrslu skiptastjóra. Stefnandi hafi því orðið fyrir fjártjóni af völdum Burnham, sem nemi víxilfjárhæðinni. Stefnandi telur að stefnda Sigrún og Burnham haft borið skaðabótaábyrgð á tjóninu samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins

Er hin umdeildu víxilkaup fóru fram hafi Burnham haft í gildi tryggingar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf, annars vegar starfsábyrgðartryggingu verðbréfafyrirtækisins, og hins vegar ábyrgðartryggingu vegna skaðaverka stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækisins. Félagið hafi ekki orðið við kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta og sé stefnanda því nauðsyn á að höfða má1 þetta til heimtu kröfu sinnar.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir á því að stefnandi máls geti ekki beint kröfum sínum beint að honum samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um vátryggingarsamninga, sbr. og 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu sé fyrst unnt að höfða má1 beint á hendur vátryggingarfélagi þegar „staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið, og upphæð bótanna ákveðin." Eins og gögn málsins beri með sér hafi þessu skilyrði ekki verið fullnægt og sé því engin lagaheimild til þess að höfða má1 þetta beint á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Beri því að vísa kröfu stefnanda á hendur félaginu frá dómi, en öðrum kröfum í stefnu sé ekki beint að stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Verði ekki fallist á frávísun máls vegna 26. gr. laga nr. 91/1991 sé í öllu falli ljóst að sýkna beri stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir jafnframt á því að kröfugerðin á hendur félaginu sé vanreifuð í stefnu þar sem það hafi farist fyrir að gera grein fyrir því á hvaða grundvelli stefnandi krefjist greiðslu beint frá félaginu. Eins og fyrr segi hafi félagið verið með tvenns konar tryggingar í gildi, annars vegar vátryggingu fyrir stjórnendur og hins vegar hefðbundna starfsábyrgðartryggingu fyrir alla starfsmenn. Í stefnu sé enginn greinarmunur gerður á þessum tveimur tryggingum og því óljóst á grundvelli hvorrar tryggingarinnar stefnandi byggi sína kröfugerð, en skilmálar trygginganna séu ekki eins. Einnig skorti uppá að stefnandi geri grein fyrir því á grundvelli hvaða ákvæða í tryggingarskilmálunum kröfugerð hans sé reist. Krefst stefndi frávísunar máls vegna þessarar vanreifunar með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra framsetningu kröfugerðar og málsástæðna í stefnu. Önnur varakrafa stefnda taki mið af því að stefnandi byggi kröfugerð sína á starfsábyrgðartryggingunni. Þriðja varakrafa taki hins vegar mið af því að hún sé reist á „stjórnendatryggingunni". Mismunandi takmörkunarreglur séu í tryggingarskilmálum, sem taka þurfi mið af ef til þess komi að það reyni á beina ábyrgð stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., gagnvart stefnanda.

Í þessum þætti málsins er þess krafist af stefnanda að kröfu um frávísun verði hafnað og  að honum verði úrskurðaður málskostnaður í þessum þætti málsins.

Stefnandi eigi þess ekki kost að höfða mál á hendur Burnham International á Íslandi hf. sem geti leitt til þess að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sleppi undan því að greiða bætur úr ábyrgðartryggingu þeirri er Burnaham International á Íslandi hf keypti hjá honum. Sé það óviðunandi niðurstaða að reglur réttarfarslaga leiði til þess að stefnandi geti ekki fengið úrlausn um efni kröfu sinnar. Það hljóti að vera hlutverk dómstóla að leysa úr álitaefni eins og hér sé á ferðinni og beri að hafna kröfu stefnda um frávísun krafna á hendur honum.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem tekur til ábyrgðartrygginga, öðlast sá, sem tjón bíður, rétt vátryggðs á hendur vátryggingarfélagi, þegar staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið og upphæð bótanna hefur verið ákveðin. 

Stefnandi beinir aðalkröfu sinni að stefndu Sigrúnu Eysteinsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Burnham International á Íslandi hf. og stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. in solidum. Enda þótt fyrir liggi að fjárhæð kröfu stefnanda hafi verið viðurkennd af skiptastjóra Burnham International á Íslandi liggur ekki fyrir að skaðabótaskylda samkvæmt ábyrgðartryggingu þeirri er keypt var hjá hinu stefnda tryggingarfélagi hafi verið staðreynd. Er og þess að gæta að stefndi, Sjóvá-almennar tryggingar hf., þarf ekki að vera bundinn af framangreindri ákvörðun vátryggingartaka um fjárhæð kröfu stefnanda enda bótaskyldu hafnað af skiptastjóra. Skortir því á að skilyrði framangreinds lagaákvæðis séu fyrir hendi og verður því þessari kröfu stefnanda á hendur stefnda vísað frá dómi.

Þá er ekki það samband með tryggingartaka og stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að tryggingarfélagið hafi fyrirsvar fyrir þann fyrrnefnda og stefnandi getur ekki að óbreyttum lögum beint kröfum að stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. einum með það að markmiði að fá dóm um skaðabótaskyldu Burnham International á Íslandi hf. Verður þannig að fallast á það með þessum stefnda að skilyrði til málsóknar þessarar séu ekki fyrir hendi.

Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður kröfum stefnanda á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vísað frá dómi. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Kröfum stefnanda, Styrktarsjóðs Háskóla Íslands hf., á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.