Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                              

Fimmtudaginn 17. janúar 2013.

Nr. 32/2013.

A

(Arna Bryndís Baldvinsdóttir hdl.)

gegn

Akureyrarkaupstað, fjölskyldudeild

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. janúar 2013, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta sjálfræðissviptingu í sex mánuði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Örnu Bryndísar Baldvinsdóttur héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. janúar 2013.

Mál þetta barst dómnum 14. desember sl. og var tekið til úrskurðar 4. janúar sl.

Sóknaraðili er fjölskyldudeild Akureyrarbæjar.

Varnaraðili er A, kt. [...], [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar, eða í styttri tíma samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hrundið.

I.

Sóknaraðili lagðist inn á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri af biðlista þann 28. nóvember sl. og síðan vistaður þar nauðugur 1. desember og áfram  með samþykki innanríkisráðuneytisins sem var veitt 3. desember.  Beiðni um samþykki til nauðungarvistunar fylgdi vottorð [...] læknis, dagsett 2. desember. Segir þar að sóknaraðili sé með þekktan geðklofasjúkdóm.  Hann hafi þann 16. nóvember gert góða grein fyrir ástandi sínu í samtali við geðlækni og þá sagst vera hræddur um að missa stjórn á sjálfum sér og verða sjálfum sér eða öðrum hættulegur.  Hafi hann þá sjálfur óskað eftir innlögn til aðstoðar og meðferðar.  Haft er eftir móður hans að ástand hans hafi farið hratt versnandi undanfarnar vikur, eða frá stuttri innlögn á geðdeildina í september sl.  Hafi það lýst sér þannig að hann hafi hætt að taka lyf sín, hætt að borða nema vera skipað það, vakað um nætur, verið óvirkur og ekki farið út úr húsi í margar vikur.  Þá er rakið að hann hafi fyrst lagst inn á geðdeild LSH árið 2010 eftir sjálfsvígstilraun.  Hann hafi þá verið í geðrofsástandi, verið mjög óvirkur og nánast stjarfur og sagst heyra raddir sem m.a. hafi skipað honum að taka eigið líf.  Hann hafi fyrr það ár verið í göngudeildarmeðferð og skömmu fyrir innlögn hætt að taka lyf.  Hann hafi verið greindur með aðsóknargeðklofa og verið í meðferð á geðdeild LSH á árunum 2010 og 2011.

Varnaraðili hafi flutt norður til [...] til [...] haustið 2011 og verið vísað til [...] geðlæknis.  Hann hafi hvorki sýnt meðferðarheldni né samvinnu, heldur farið að draga úr lyfjatöku fyrir tilmæli innri radda og hætt henni alveg sl. vor.  Hafi geðrofseinkenni þá farið vaxandi.  Hann hafi heyrt meiri raddir, verið tortrygginn, forðast augnsamband og verið mjög óvirkur.  Eftir innlögn á geðdeild hafi hann verið óvirkur og ekki svarað spurningum eða sinnt tilmælum.  Hann hafi ekki viljað þiggja lyfjameðferð, en ekki sýnt merki um árásarhneigð eða skaðandi hegðun.

Læknirinn kveðst hafa rætt við varnaraðila 1. desember.  Hann hafi ekki sagt neitt. Náðst hafi stutt augnsamband við hann stöku sinnum.  Hann hafi virst með á nótunum um efni viðtalsins.  Þrívegis hafi hann svarað spurningum með því að snúa þumli upp eða niður.

Fyrir liggur vottorð [...] geðlæknis, sem mun vera ritað 13. eða 14. desember.  Kemur þar fram að meðferðarþörf sé brýn og þann 5. desember hafi varnaraðila verið gefin forðalyfssprauta með nánar greindu lyfi.  Hann hafi mótmælt lyfjagjöf og því hafi hún verið að honum nauðugum, með aðstoð lögreglu og öryggisvarða.  Hann hafi reiðst lyfjagjöfinni mjög og sýnt skapofsa og ókurteisi.  Eftir það hafi tveir öryggisverðir setið yfir honum vegna ótryggs ástands og hættu á ofbeldi.  Eftir þetta hafi hann haldið sig í rúminu en borðað mat sem fyrir hann hafi verið lagður.  Batahorfur hans ráðist af meðferðarstjórn og eina sjáanlega leiðin hafi verið að gefa honum forðasprautur með reglulegum millibilum til að fyrirbyggja og/eða stytta geðrofslotur með öllum hugsanlegum ráðum.  Sérhver slík brjóti niður geðheilsu umfram það sem geðklofasjúkdómurinn geri sjálfur.

Málið var þingfest 18. desember sl.  Þótti þá liggja fyrir að ekki hefði þýðingu að kynna varnaraðila kröfuna.  Var málinu frestað til 4. janúar með það í huga hvort honum batnaði þannig að það yrði unnt og hann yrði reiðubúinn að tjá sig um hana.  Kom hann fyrir dóminn þá.  Var þá jafnframt lagt fram vottorð [...], dagsett samdægurs.  Þar kemur fram að eftir aðra forðasprautu þann 19. desember hafi ástand varnaraðila virst þokast heldur í rétta átt og hafi öryggisgæslu verið hætt fljótlega eftir það.  Hann hafi komið meira fram og fylgst með umræðum og virkað upplitsdjarfari.  Hann hafi fylgst með sjónvarpi og flett blöðum en sem fyrr ekki tjáð sig munnlega.  Í viðtali 4. janúar hafi hann tjáð sig og sagt að lyfin færu illa í sig og sagt þau ekki lina þjáningar sínar, sem hann vildi þó ekki lýsa.  Hann hafi sagst ósáttur við geðdeildina og ekki sagst ætla að taka þátt í neinni meðferð.  Hann hafi sagst ekki treysta starfsfólki og sagst ætla að halda sig inni á herbergi og borða þar.  Hann hafi verið reiður og illa viðræðuhæfur, slitið samtalinu sjálfur og gengið til herbergis síns.

Niðurstaða læknisins er að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, aðsóknargeðklofa, og hafi einkenni farið versnandi eftir að hann hafi hætt lyfjatöku vorið 2012.  Hann sé ekki til samvinnu um meðferð, en þörf á henni sé brýn og óhjákvæmilegt að tryggja að hann fái viðeigandi og langvinna meðferð og eftirfylgd við alvarlegum sjúkdómi sínum.  Batahorfur ráðist af meðferðarstjórn og eina sjáanlega leiðin sé að gefa honum forðasprautur með reglulegum millibilum til að fyrirbyggja og/eða stytta með öllum hugsanlegum ráðum geðrofslotur.  Sérhver geðrofslota í geðklofasjúkdómi brjóti niður geðheilsu umfram það sem sjúkdómurinn geri sjálfur.  Læknirinn kveðst mæla eindregið með því að tryggð verði áframhaldandi meðferð, þar á meðal lyfjameðferð, þar sem hagsmunum sjúklings sé best borgið með þeim hætti.  Frekari dráttur á meðferð muni gera sjúkdóminn alvarlegri og langtímaafleiðingar verri.

Varnaraðili tjáði sig skýrt hér fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki álíta sig veikan og ekki þurfa lyfjagjöf.  Hann kvaðst vilja brautskrá sig af sjúkrahúsi og hætta töku lyfja.

II.

Af framangreindum læknisvottorðum verður skýrlega ráðið að varnaraðili á við alvarleg veikindi að glíma.  Þá er einnig ljóst að hann vill ekki þiggja meðferð við sjúkdómi sínum, hvorki með lyfjum eða öðru.  Sjúkdómssaga hans sýnir að sjúkdómseinkenni versnuðu er hann hætti að taka lyf vorið 2012.  Brýna nauðsyn ber til að hann njóti lyfjameðferðar, þótt það sé gegn vilja hans.  Verður því að fallast á það með sóknaraðila að óhjákvæmilegt sé að svipta hann sjálfræði, með heimild í a-lið 4. gr. laga nr. 71/1997.  Þykir rétt að sviptingin verði tímabundin í eitt ár eins og krafist er, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. laga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Örnu Bryndísar Baldvinsdóttur héraðsdómslögmanns, sem ákveðst eins og greinir í úrskurðarorði. Við þá fjárhæð leggst virðisaukaskattur eftir því sem lög mæla fyrir um.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í eitt ár frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að telja.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Örnu Bryndísar Baldvinsdóttur hdl., 80.000 krónur.