Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2016. Hann krefst þess að viðurkennt verði að við endurútreikninga á lánssamningum annars vegar 31. ágúst 2004 að fjárhæð 1.335.000.000 krónur og hins vegar 26. ágúst 2005 að fjárhæð 500.000.000 krónur sé stefnda óheimilt að krefja hann um frekari greiðslur en þegar hafi verið inntar af hendi vegna gjalddaga fyrrnefnda samningsins frá 20. desember 2004 til 20. september 2011 og þess síðarnefnda frá 20. febrúar 2006 til 22. ágúst 2011. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi lýtur sakarefni málsins að því hvort stefnda hafi við endurútreikning á fyrrgreindum lánssamningum, sem báðir voru bundnir ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að reikna vexti fyrir liðna tíð eftir 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með aðilum er ekki ágreiningur um fjárhæð viðbótarkröfunnar, en hún nemur 898.569.856 krónum vegna samningsins 31. ágúst 2004 og 310.742.010 krónum vegna samningsins 26. ágúst 2005 eða samtals 1.209.311.866 krónum. Að þessu virtu verður fallist á það með héraðsdómi að viðbótarkrafan hafi verið umtalsverð hvort sem litið er til höfuðstóls lánssamninganna, vaxtagreiðslna eða aðeins þeirra fjárhæða sem hér er um að tefla.
Endurútreikningar á umræddum lánssamningum miðuðust við 22. ágúst og 20. september 2011. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi námu rekstrartekjur áfrýjanda það ár um 8.400.000.000 krónum og eignir í árslok um 22.800.000.000 krónum. Jafnframt kemur fram í ársreikningi áfrýjanda 2011 að hagnaður af rekstrinum hafi verið um 1.377.000.000 krónur og eigið fé í árslok um 4.755.000.000 krónur. Samkvæmt þessu er áfrýjandi stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða en þessi efnahagur hefur áhrif við mat á röskun hans og óhagræði af því að þurfa að standa skil á viðbótarkröfunni. Að þessu gættu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu að ekki séu efni til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa, sem fengið hefur minna greitt en honum bar, til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þorbjörn hf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Karls Axelssonar hæstaréttardómara
Það hefur margsinnis verið áréttað í dómum Hæstaréttar í málum vegna endurútreiknings lána, sem bundin hafa verið ólögmætri gengistryggingu, að í gildi sé sú meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu. Sú regla er þó með undantekningum en þá aðeins á grundvelli sérstakra aðstæðna. Slíkar aðstæður hafa verið taldar fyrir hendi þegar skuldari hefur með réttu getað miðað við að lögskiptunum sé endanlega lokið og hann síðan í góðri trú hagað ráðstöfunum sínum í samræmi við það. Til sérstakrar skoðunar kemur þá eðli skuldarsambandsins, aðstaða bæði kröfuhafa og skuldara og hvorum þeirra stóð nær að ganga úr skugga um að efndir væru fullnægjandi. Enn fremur verður viðbótarkröfu frekar hafnað ef kröfuhafi hefur sýnt af sér tómlæti við að hafa uppi kröfu um leiðréttingu. Til grundvallar þessu fráviki frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu eru sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en viðbótarkrafa getur haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, einkum þegar viðvarandi skuldarsamband til lengri tíma er tekið upp hvað fortíðina varðar og skuldara þá gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum, þvert á væntingar skuldara um hið gagnstæða miðað við það sem aðilar hafa fram að því lagt til grundvallar í lögskiptum sínum. Við þessar aðstæður mæla rök með því að víkja frá meginreglunni.
Þegar áfrýjandi innti af hendi greiðslur til stefnda af þeim tveimur lánssamningum sem málið tekur til er ljóst að báðir aðilar gengu út frá því við hverja greiðslu að útreikningar kröfuhafans á fjárhæð afborgunar og vaxta tæki mið af því að gengistrygging lánanna væri gild. Var áfrýjandi því í góðri trú um að greiðslur hans á umsömdum vöxtum fælu í sér fullar efndir. Þá var komin festa á framkvæmd lánssamninganna, en áfrýjandi greiddi mánaðarlegar afborganir samkvæmt þeim frá árunum 2004 og 2006.
Á það er fallist sem fram kemur í atkvæði meirihlutans sem og hinum áfrýjaða dómi að stefndi er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða þegar litið er til eigna og rekstrartekna á árinu 2011. Stærð lánþega á mælikvarða íslensks atvinnulífs getur þó aldrei ein og sér ráðið úrslitum um úrlausn sakarefnisins heldur verður jafnframt að meta ætlaða röskun á grundvelli sambærilegra viðmiða og viðhöfð voru við úrlausn Hæstaréttar í eldri dómum sem varða sama álitaefni, sbr. einkum dóma réttarins 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012, 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013, 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013, 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014 og loks dómum frá 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015. Í síðastnefndu dómunum er áréttuð sú afstaða að stærri fyrirtæki séu ekki með öllu svipt möguleikanum til að bera fyrir sig regluna um áhrif fullnaðarkvittana en um þau gildi strangari mælikvarði við mat á aðstöðumun en þegar einstaklingar og smærri fyrirtæki eiga í hlut og séu þá aðeins skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til fullra efnda að beiting reglunnar leiði til svo verulegrar röskunar á hagsmunum skuldara að jafnvægi í skuldarsambandinu verði raskað þannig að ekki verði við unað.
Til þess er svo jafnframt að líta að lánveitandinn, Landsbanki Íslands hf., sem stefndi leiðir rétt sinn frá, var stórt fjármálafyrirtæki á alþjóðlegum markaði, sem bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin gengistryggð lán, sem reyndust ólögmæt. Þótt áfrýjandi hafi verið stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða liggur ekkert fyrir um að hann hafi búið yfir sérþekkingu á fjármálastarfsemi og peningamálum á fjölþjóðlegum vettvangi. Verður starfsemi áfrýjanda, sem felst í megin atriðum í útgerð og fiskvinnslu, ekki jafnað til starfsemi lánveitanda og stefnda og þeirrar þekkingar sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu ein yfir.
Tekið er undir það með meirihlutanum að viðbótarkrafa stefnda vegna lánssamninganna, sem nemur 1.209.311.866 krónum, sé umtalsverð og er þá sama til hvaða lykiltalna í rekstri áfrýjanda er litið, þar með talið hlutfalls af upphaflegum höfuðstól lánanna, greiddra vaxta, rekstrartekjum áfrýjanda á árinu 2011 og fjármagnsgjöldum þess árs. Í öllum tilvikum er um að ræða hærra hlutfall en fæst séð að um hafi verið að ræða í framangreindum dómum Hæstaréttar og í sumum tilvikum verulega hærra. Það er rétt sem fram kemur í atkvæði meirihlutans að samkvæmt ársreikningi áfrýjanda 2011 nam hagnaður af rekstrinum um 1.377.000.000 krónur og eigið fé þá í árslok um 4.755.000.000 krónum. Til þess ber þá hins vegar að líta að enginn arður var greiddur vegna ársins 2011 og vegna lágs eiginfjárhlutfalls þurfti á sama ári að afla frekara hlutafjár, að andvirði um 520.000.000 króna, til þess að stefndi næði þeim 20% takmörkum eigin fjár sem munu hafa verið skilyrði fjármálafyrirtækja til lánafyrirgreiðslu honum til handa.
Við mat á því hvort vikið verður frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu verður, svo sem fram hefur komið, að leggja heildarmat á lögskiptin og aðstæður allar. Þótt vægi mismunandi atriða sé ekki það sama ræður venjulega ekkert eitt þeirra úrslitum en við það mat er nauðsynlegt að líta til þeirra viðmiða sem Hæstiréttur hefur sett í eldri og tilvitnuðum dómum og að sama skapi er ekki tækt að móta ný lykilviðmið í hverju nýju máli, sem þess utan skapa hættu á of atviksbundnum niðurstöðum hverju sinni á kostnað nauðsynlegrar samfellu í réttarframkvæmd.
Að öllu framangreindu virtu má ljóst vera að viðbótarkrafa sem nemur rúmlega 1.200.000.000 krónum leiði til svo verulegrar röskunar á hagsmunum áfrýjanda að jafnvægi í skuldarsambandinu raskast þannig að ekki verður við unað. Tel ég því standa stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun sem deilt er um í málinu og leiðir af því að lánin voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Getur stefndi því ekki krafið áfrýjanda um þá viðbótargreiðslu. Þá fá ákvæði laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, ekki haggað þessari niðurstöðu, enda er ekki með almennum lögum unnt með svo íþyngjandi hætti að hrófla afturvirkt við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað. Færi það í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og til dæmis fyrrnefnds dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011.
Að þessu gættu tel ég rétt að fallast á kröfu áfrýjanda. Að fenginni þeirri niðurstöðu er einnig rétt að fella á stefnda málskostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2016
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 15. september 2014 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 8. desember sl. Stefnandi er Þorbjörn hf., Hafnargötu 12, Grindavík. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnandi gerir í fyrsta lagi þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að við endurútreikning lánssamnings nr. 0106-36-1726, útgefnum 31. ágúst 2004, upphaflega að fjárhæð 1.335 milljónir króna, 20. september 2011 hafi stefnda verið óheimilt að krefja stefnanda um frekari greiðslur vaxta en þegar höfðu verið inntar af hendi vegna gjalddaga frá og með 20. desember 2004 til og með 20. september 2011. Í annan stað er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að við endurútreikning lánssamnings nr. 0106-36-3490, útgefnum 26. ágúst 2005 upphaflega að fjárhæð 500 milljónir króna, 23. nóvember 2011, hafi stefnda verið óheimilt að krefja stefnanda um frekari greiðslur vaxta en þegar höfðu verið inntar af hendi vegna gjalddaga frá og með 20. febrúar 2006 til og með 22. ágúst 2011. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en dómur var kveðinn upp.
Helstu ágreiningsefni og yfirlit um málsatvik.
Meginágreiningur aðila snýr að því hvort við endurútreikning tveggja gengistryggðra lána, sem stefnandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. á árunum 2004 og 2005 og nánar er gerð grein fyrir síðar, hafi borið að taka tilliti til fullnaðarkvittana vegna þeirra samningsvaxta sem stefnandi hafði þá greitt. Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus og er ekki um það deilt að umrætt lán hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum. Þá liggur fyrir að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum lánveitanda af Landsbanka Íslands hf. vegna umrædds láns, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, og er því réttilega stefnt til varnar.
Landsbanki Íslands hf. var um árabil viðskiptabanki stefnanda sem fæst við útgerð og fiskverkun. Stefnandi tók á árunum 2004 og 2005 tvö lán hjá bankanum sem hér segir:
1. Samningur dagsettur 31. ágúst 2004 (nr. 1726) um fjölmyntalán til 20 ára að jafnvirði 1.335 milljónir króna í íslenskum krónum (11,4%), bandaríkjadölum (31,8%), svissneskum frönkum (22,7%) og evrum (34,1%). Lán samkvæmt samningnum átti að endurgreiðast á 20 árum, með 80 afborgunum á þriggja mánaða fresti. Vextir voru svonefndir LIBOR vextir ásamt 1,30% álagi og skyldu þeir greiðast mánaðarlega eftirá á umsömdum gjalddögum. Stefndi greiddi skilvíslega afborganir af láninu frá 20. desember 2004 til og með 20. september 2011 þegar stefndi endurreiknaði lánið.
2. Samningur dagsettur 26. ágúst 2005 (nr. 3490) um fjölmyntalán að jafnvirði 500 milljónir króna í svissneskum frönkum. Lán samkvæmt samningnum átti að endurgreiðast á fimm árum, með einni afborgun í lok lánstímans, eða 20. ágúst 2010. Vextir voru svonefndir LIBOR vextir ásamt 1,25% álagi sem skyldu greiðast á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 20. febrúar 2006. Með viðauka við samninginn 3. september 2010 var láninu myntbreytt í evrur og endurgreiðsluskilmálum breytt á þann veg að eftirstöðvar skyldi endurgreiða að fullu með einni greiðslu í lok lánstímans en vexti skyldi greiða á þriggja mánaða fresti. Stefndi greiddi skilvíslega afborganir af láninu þar til lánið var greitt upp með töku annars láns á gjalddaga þess 20. ágúst 2012.
Eftir að dómar féllu í Hæstarétti um ólögmæti gengistryggingar á lánum á árinu 2010 leitaði fjármálastjóri stefnanda eftir því við stefnda hvernig staðið yrði að mati á því hvort lánssamningarnir framangreindir lánssamningar væru ólögmætir og þá endurútreiknaðir. Var honum tjáð að stefndi myndi yfirfara alla lánssamninga með tilliti til þess hvort þeir hefðu að geyma ákvæði um ólögmæta gengistryggingu, en fyrirséð væri að sú vinna tæki nokkurn tíma. Stefnandi fékk senda tilkynningu um endurútreikning lánanna með bréfum 22. september og 23. nóvember 2011. Í bréfunum kemur fram að það væri mat stefnda að samningarnir kvæðu á um ólögmæta gengistryggingu og því hefði bankinn endurreiknað skuld stefnda í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 eins og þeim hafði verið breytt í desember 2010. Endurútreikningur lánanna hafði í báðum tilvikum í för með sér lækkun á höfuðstól lánanna.
Í stefnu er greint frá því að dómar Hæstaréttar á árinu 2012, um þýðingu fullnaðarkvittana við endurútreikning á gengistryggðum lánum, hafi orðið til þess að aðilar hófu að nýju samskipti um endurútreikning lána stefnanda. Með tilkynningu 23. maí 2013, sem send var til fyrirtækja sem voru lántakar gengistryggðra lána, áréttaði stefndi þá afstöðu sína að sýna þyrfti biðlund þar til réttarstaðan skýrðist frekar með dómum Hæstaréttar. Í framhaldi af dómi Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 sendi stefnandi stefnda bréf 5. júní 2013 og óskaði eftir því að endurútreikningur hans yrði leiðréttur. Munu fulltrúar málsaðila hafa fundað í framhaldi af bréfinu um erindi stefnanda. Stefnandi ítrekaði kröfur sínar um leiðréttingu með bréfi 11. desember 2013 og lét fylgja með útreikning endurskoðunarstofu til skýringar krafna sinna. Með bréfi 31. janúar 2014 hafnaði stefndi kröfum stefnanda, meðal annars með vísan til dóms Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Helstu málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að fullnægt sé þeim skilyrðum, sem mótuð hafi verið í dómaframkvæmd, til þess að hann geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum. Í þessu sambandi vísar hann til þess að stefndi hafi lofað honum að hann fengi leiðréttingu á endurreiknuðum lánum ef dómafordæmi Hæstaréttar styddu slíka niðurstöðu. Afstaða stefnda hafi hins vegar ekki legið endanlega fyrir fyrr en 31. janúar 2014.
Stefnandi telur að öll skilyrði séu uppfyllt svo að fullnaðarkvittanirnar hafi þau áhrif að stefndi hafi glatað frekari kröfu um greiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Í fyrsta lagi telur stefnandi óumdeilanlegt að hann hafi verið í góðri trú um að greiðslur hans fælu í sér fullar efndir, þ.e. hann hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðslur hans hafi verið ófullnægjandi þegar þær voru inntar af hendi. Í öðru lagi hafi verið komin festa á framkvæmd lánssamninganna enda hafi stefnandi greitt umsamdar afborganir og vexti að fullu allan lánstímann. Í þriðja lagi telur stefnandi að umfang hugsanlegrar viðbótarkröfu stefnda vegna vaxta sé verulegt hvort sem miðað sé við höfuðstól lánanna eða hlutfall af greiddum vöxtum. Viðbótarkrafa stefnda vegna láns nr. 1726 nemi samtals 898.569.856 krónum miðað við dagsetningu endurútreiknings 20. september 2011, en upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi verið 1.335.000.000 krónur. Viðbótarkrafa stefnda vegna láns nr. 3490 nemi samtals 310.742.010 krónum miðað við dagsetningu endurútreiknings 22. ágúst 2011, en upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi verið 500.000.000 krónur. Í fjórða lagi telur stefnandi að það hafi staðið stefnda sem fjármálastofnun nær að gæta þess að lán aðila væri ekki í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001. Í fimmta lagi telur stefnandi að aðstöðumunur hafi verið með samningsaðilum þar sem stefndi var fjármálafyrirtæki sem starfaði á lánamarkaði og bauð viðskiptavinum sínum ýmis kjör, þar með talin lán með gengistryggingu sem reyndust ólögmæt. Stefnandi sé fjölskyldufyrirtæki sem hafi þekkingu á útgerð og vinnslu sjávarafurða, en hafi hins vegar enga sérþekkingu á lánamálum og tilhögun fjármögnunar. Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að hann falli ekki í flokk með stórum fyrirtækjum. Stefnandi sé þannig lítið félag samanborið við það félag sem var aðili að því máli sem lauk með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 12. desember 2013. Vísar stefnandi til þess að viðbótarkrafa stefnda sé veruleg, eða samtals um 1,2 milljarður króna, bæði í fjárhæð og þegar litið sé til veltu stefnanda. Í ljósi alls framangreinds telur stefnandi að greiðsla viðbótarkröfu myndi hafa mikið óhagræði í för með sér fyrir stefnanda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á endurgreiðslu á grundvelli reglna um endurheimt ofgreidds fjár, enda lagaskilyrði fyrir slíkum endurheimturétti ekki til staðar. Endurútreikningur hafi í reynd falið í sér að stefndi endurgreiddi stefnanda það sem talið var nema inneign stefnanda vegna ólögmætrar gengisbindingar, í formi lækkunar lánsskuldbindinganna, en stefndi hafi dregið þá endurgreiðslu frá kröfu sinni um viðbótarvexti af lánunum. Vísað er til þess að stefnandi hafi ekki haft uppi mótmæli eða fyrirvara við þetta tækifæri. Með vísan til þessa og að teknu tilliti til þess að lánsskuldbindingarnar áttu að sönnu að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, verði ekki séð að grunnskilyrði endurheimturéttar, þ.á m. um ofgreiðslu skuldbindingar, séu uppfyllt. Þannig sé meðal annars ljóst að stefndi hafi engan veginn „auðgast“ á kostnað stefnanda við endurútreikningana. Þvert á móti verði að líta svo á að endurheimtukrafan, sem miðast við að reiknaðir væru lágir erlendir vextir af íslenskri óverðtryggðri lánsfjárhæð, teljist frekar fela í sér auðgun stefnanda, á kostnað stefnda.
Komi til álita að stefnandi geti byggt kröfu á reglum um fullnaðarkvittanir vísar stefndi til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrðum þar að lútandi sé fullnægt, en stefnandi beri sönnunarbyrðina að þessu leyti. Stefndi leggur áherslu á að stefnandi sé stórt útgerðarfyrirtæki, einn stærsti handhafi fiskveiðiheimilda í landinu, sem hafi tekjur að verulegu leyti í erlendum myntum. Þá hafi höfuðstóll lána stefnanda lækkað verulega við endurútreikning stefnda. Á árinu 2011 hafi rekstrartekjur félagsins þannig numið 53,2 milljónum evra og eignir verið alls um 144,6 milljónir evra. Þá telur stefndi að einnig beri að taka tillit til annarra félaga sem heyri til sömu samstæðu og stefnandi við mat á fjárhagslegum styrk hans. Hafi á engan hátt verið sýnt fram á eða sannað að fjárhæðir viðbótarkrafna vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi valdið stefnanda sérstakri röskun.
Stefndi bendir einnig á að um sé að ræða tiltölulega gömul lán. Skilmálar lána stefnanda hafi ekki falið í sér mikla greiðslubyrði fyrir stefnanda meginþorra lánstímans og hafi stefnandi á umsömdum lánstíma fyrst og fremst greitt vexti. Því hafi ekki verið komin sérstök festa á greiðslu lánanna. Ef litið sé til raunvirðis lánanna (miðað við vísitölu neysluverðs) á endurútreikningsdegi þá verði heldur ekki séð að viðbótarkröfur stefnanda hafi getað talist vera íþyngjandi. Að því er varðar útreikning á viðbótarkröfu telur stefnandi að framreikna beri höfuðstól lánanna þegar hlutfall viðbótarkröfu sé metið. Að öllu virtu geti viðbótarkröfur um vexti ekki talist verulegar.
Þá er á því byggt að stefnandi hafi verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamninganna og hafi hann jafnframt haft brýnt tilefni til að leita sér nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina. Ekki verði heldur talið að stefnandi hafi getað verið í góðri trú um, er hann greiddi afborganir og/eða vexti, að vextir væru endanlega greiddir þó að sá þáttur skuldarinnar, þ.e. lánsmyntin, sem ótvírætt var forsenda vaxtanna, ætti eftir að sæta endurskoðun. Stefnanda hafi þannig, með tilliti til stærðar og umfangs, og sérfræðiþekkingar á gjaldeyrisviðskiptum, vart getað dulist samhengi milli mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar, en slíkt hljóti, eins og annað, að skipta máli við heildarmat á þýðingu fullnaðarkvittana. Að lokum er til þess vísað að stefndi hafi haft uppi viðbótarkröfur sínar um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 án ástæðulausra tafa.
Niðurstaða
Dómurinn telur fram komið að hlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna afturvirks útreiknings vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi í sjálfu sér verið umtalsvert hvort sem litið er til höfuðstóls fyrrgreindra lána, heildarvaxtagreiðslna eða einungis þeirra fjárhæða sem hér var um að ræða. Þá verður ekki á það fallist að sú staðreynd að vaxtagreiðslur höfðu átt sér stað um nokkuð langt skeið mæli gegn því að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum.
Í málinu er hins vegar til þess að líta að árið 2011, þegar endurútreikningur lánanna fór fram, námu rekstrartekjur stefnanda um 8,4 milljarði króna og eignir 22,8 milljörðum króna. Er af þessu, svo og öðrum gögnum málsins, ljóst að stefnandi er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Einnig verður að leggja til grundvallar að stefnandi, sem framleiðir neysluvöru til sölu á erlendum mörkuðum og færir reikninga sína í erlendum gjaldmiðli, hafi í krafti fjárhagslegs styrkleika síns verið í aðstöðu til að leggja mat á kosti og galla þess að taka lán sem fylgdi gengi erlendra gjaldmiðla eða þá afla sér sjálfstæðrar ráðgjafar um það efni. Umfram annað verður þó að horfa til þess að endurútreikningur stefnda leiddi ekki til þess að stefnandi væri skyndilega krafinn um auknar greiðslur heldur var þvert á móti um það að ræða að umsaminn höfuðstóll lána væri verulega færður niður á grundvelli endurútreiknings stefnda. Er og ekki komið fram í málinu að greiðslubyrði stefnanda hafi aukist í framhaldi af þessum endurútreikningi.
Þeir samningar sem um ræðir í máli þessu nema verulegum fjárhæðum og hlutu því, eðli málsins samkvæmt, að einhverju leyti að vera sniðnir að þörfum stefnanda. Verður þessum samningum ekki jafnað til þeirra stöðluðu samninga um bílalán sem um var deilt í því máli sem lyktaði með dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014. Getur það því ekki haft þýðingu um niðurstöðu málsins þótt fyrir liggi að stefndi hafi ákveðið að fallast á fullnaðarkvittanir vegna slíkra samninga
Að virtum framangreindum atriðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að áskilnaður stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 hafi valdið honum svo verulegri og óvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nær að bera áhættuna af þeim vaxtamun sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að víkja frá téðum fyrirmælum laga nr. 38/2001 viðvíkjandi endurútreikningi gengistryggðra lána með vísan til fyrrgreindra ákvæða 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og áðurlýstrar reglu fjármunaréttar um fullnaðarkvittanir. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.
Með hliðsjón af vafaatriðum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti máli Andri Árnason hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Þorbjörns hf.
Málskostnaður fellur niður.