Hæstiréttur íslands
Mál nr. 568/2013
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gjöf
|
|
Fimmtudaginn 23. janúar 2014. |
|
Nr. 568/2013. |
Bókaútgáfan Salka ehf. (Skúli Bjarnason hrl.) gegn þrotabúi Jafets Ólafssonar (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf.
Í desember 2010 afsalaði J bifreið til B ehf., en bú J var í júlí 2011 tekið til gjaldþrotaskipta. Þrotabú J höfðaði mál á hendur B ehf. til riftunar á afsalinu og hafði þrotabúið samhliða uppi fjárkröfu á hendur félaginu á grundvelli riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skilyrði riftunar samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 194. gr. sömu laga voru talin uppfyllt og var krafa um riftun því tekin til greina. Þá var fjárkrafan á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laganna einnig tekin til greina, enda lá fyrir matsgerð dómkvadds manns um verðmæti bifreiðarinnar er henni var afsalað til B ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 2013. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins afsalaði þrotamaður bifreiðinni IV-732 til áfrýjanda 15. desember 2010. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þar með talið um upphafstíma dráttarvaxta, en stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Bókaútgáfan Salka ehf., greiði stefnda, þrotabúi Jafets Ólafssonar, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. júní sl., er höfðað af þrotabúi Jafets Ólafssonar, Aðalstræti 6, Reykjavík, á hendur Bókaútgáfunni Sölku ehf., Skipholti 50c, Reykjavík, með stefnu birtri í ágúst 2012.
Stefnandi krefst þess að rift verði þeim gjafagerningi Jafets Ólafssonar að afsala 15. desember 2010 til stefnda, Bókaútgáfunnar Sölku ehf., bifreiðinni IV-732, sem er af gerðinni Skoda Octavia, árgerð 2003. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 15. desember 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2011 var bú Jafets Ólafssonar tekið til gjaldþrotaskipta. Þorsteinn Einarsson hæstaréttarlögmaður var skipaður skiptastjóri búsins. Frestdagur við skiptin er 22. mars 2011, en þá mun héraðsdómi hafa borist krafa Landsbankans hf. um gjaldþrotaskiptin. Innköllun var birt í Lögbirtingablaði 13. júlí 2011 og kröfulýsingarfresti lauk 13. september sama ár. Eiginkona þrotamanns, Hildur Hermóðsdóttir, er einn af eigendum stefnda og stjórnarformaður félagsins.
Samkvæmt gögnum málsins afsalaði þrotamaður bifreiðinni IV-732 til stefnda 15. desember 2010. Samkvæmt óundirrituðum kaupsamningi og afsali dagsettu 13. apríl 2010, sem liggur fyrir í málinu, seldi þrotamaður bifreiðina VA-687 af gerðinni Toyota Previa 2400 VVTI Tómasi Grétari Gunnarssyni og var hluti kaupverðsins, 900.000 krónur, greitt með bifreiðinni IV-732 en kaupandi staðgreiddi 1.150.000 krónur. Í stefnu kemur fram að þrotamaður hafi sagt í skýrslutöku hjá skiptastjóra að hann hafi selt stefnda bifreiðina IV-732 fyrir 700.000 krónur og hafi kaupverðið verið greitt með reiðufé.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að afsal bifreiðarinnar til stefnda hafi verið gjafagerningur. Að beiðni stefnanda var Guðlaugur B. Ásgeirsson dómkvaddur sem matsmaður til að meta verðmæti bifreiðarinnar þann dag er henni var afsalað til stefnda. Matsgerð hans er dagsett 8. ágúst 2012 og varð niðurstaða hans sú að verðmæti bifreiðarinnar 15. desember 2010 hafi verið 1.000.000 króna.
Stefndi lýsir því í greinargerð sinni að þrotamaður hafi tekið að sér að selja bifreiðina VA-687, sem hafi verið í eigu stefnda þar sem bifreiðin þótti of stór, dýr og óhagkvæm fyrir bókaforlagið. Þegar tilboð barst í bifreiðina hafi verið ákveðið, m.a. af skattalegum ástæðum, að setja bifreiðina yfir á þrotamann og hafi það verið gert 7. apríl 2010. Bifreiðinni hafi svo verið afsalað til kaupanda 13. apríl 2010. Bifreiðin IV-732, sem hluti kaupverðsins var greiddur með, hafi strax verið afhent stefnda til fullra umráða.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi bendir á að við skýrslutöku yfir þrotamanni hafi hann upplýst að bifreiðin IV-732 hafi verið seld fyrir 700.000 krónur og að kaupverð hafi verið greitt með reiðufé. Engin gögn styðji þessa fullyrðingu þrotamanns og hafi hvorki þrotamaður né stefndi lagt fram gögn þessu til stuðnings. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að þrotamaður hafi gefið stefnda fyrrgreinda bifreið og að sú gjöf hafi verið afhent 15. desember 2010. Stefnandi leggi áherslu á að stefndi sé í dag og hafi í desember 2010 verið nátengdur þrotamanni, í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Eigendur hlutafjár í stefnda hafi verið Veigur ehf., sem hafi verið eigandi 90% hlutafjár og eiginkona þrotamanns, Hildur Hermóðsdóttir, sem hafi verið eigandi 10% hlutafjár. Samkvæmt ársreikningi Veigs ehf. hafi félagið á þessum tíma verið alfarið í eigu eiginkonu þrotamanns og barna.
Stefnandi byggir á því að þrotamaður hafi gefið stefnda bifreiðina IV-732 og krefst stefnandi þess að þeirri ráðstöfun verði rift með vísan til 1. mgr. 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Sú krafa byggi á því að sú ráðstöfun þrotamanns að afsala til stefnda fyrrgreindri bifreið hafi verið gjafagerningur í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Eins og fyrr greinir var frestdagur við skipti þrotabúsins 22. mars 2011 og hafi gjöfin því verið afhent þegar um þrír mánuðir voru til frestdags. Ráðstöfunin sé því riftanleg með vísan til 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, en ákvæðið kveður á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Óumdeilt sé að afsal bifreiðarinnar fór fram á þeim tíma og séu því skilyrði fyrir riftun gjörningsins, enda hafi stefndi ekkert greitt fyrir bifreiðina.
Þá byggir stefnandi enn fremur á því að framangreind ráðstöfun sé riftanleg á grundvelli hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni, vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Á því sé byggt að stefndi, eigendur stefnda og forsvarsmenn stefnda, sem hafi verið og séu nákomin þrotamanni, hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns eða að ógjaldfærni leiddi af ráðstöfun hlutafjárins. Þá hafi stefnda augljóslega verið ljóst að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg eða mátt a.m.k. vita að svo hafi verið. Stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með þátttöku í gjörningnum, ekki síst í ljósi þess hve nátengdur stefndi sé þrotamanni og því fullkunnugt um stöðu hans á þeim tíma er bifreiðinni var afsalað. Af þeim sökum beri m.a. að fallast á kröfur stefnanda í málinu. Stefnandi telur öll skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 vera til staðar og því séu skilyrði til að rifta afsali bifreiðarinnar á þeim grunni einnig.
Stefnandi vísar til matsgerðar Guðlaugs B. Ásgeirssonar dagsettrar 8. ágúst 2012. Niðurstaða hans var sú að verðmæti bifreiðarinnar, miðað við 15. desember 2010, hafi verið 1.000.000 króna. Einnig vísar stefnandi til þess að skiptastjóri hafi tilkynnt lögmanni stefnda um niðurstöðu matsmanns með bréfi dagsettu 10. ágúst sl., lýst yfir riftun gjafagerningsins og krafið stefnda um greiðslu matsfjárhæðar auk dráttarvaxta og kostnaðar. Stefnda hafi verið gefin frestur til 17. ágúst 2012 til að verða við kröfu stefnanda. Skemmst sé frá að segja að stefndi hefur ekki orðið við kröfu stefnanda og sé málshöfðun því óhjákvæmileg.
Stefnandi byggir fjárkröfu sína á hendur stefnda á fyrrgreindri matsgerð dómkvadds matsmanns um verðmæti bifreiðinnar þann dag er henni var afsalað til stefnda. Fjárkrafan byggi á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 þar sem krafa um riftun sé reist á 131. gr. þeirra laga. Þá styðst fjárkrafa á hendur stefnda við 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem krafa um riftun sé reist á 141. gr. þeirra laga. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi haft hag af hinni umdeildu ráðstöfun, sem nemi í heild sinni raunvirði bifreiðarinnar, 1.000.000 króna. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna ráðstöfunarinnar, þar sem samsvarandi eign sé ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Einnig telji stefnandi ljóst að stefndi hafi vegna tengsla við þrotamann verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og beri því að greiða búinu skaðabætur, vegna þess tjóns sem það hafi orðið fyrir.
Krafa stefnanda um dráttarvexti miðast við að bifreiðinni hafi verið afsalað 15. desember 2010 og að frá þeim degi beri stefndu að greiða dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001.
Stefnandi telur einsýnt að þrotamaður hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem bifreiðinni var afsalað og leggur jafnframt áherslu á að 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 feli í sér hlutlæga riftunarreglu og breytir því engu um riftanleika ráðstöfunarinnar, þótt stefnda færði sönnur fyrir því að þrotamaður hafi verið gjaldfær á þeim tíma er bifreiðinni var afsalað.
Krafa stefnanda byggir á ákvæðum laga nr. 21/1991, einkum 3. gr., 131. gr., 141. gr., 142. gr., og 194. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar. Krafa um dráttarvexti byggir á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá byggir krafa um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Hvað varðar varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. sömu laga og um málshöfðunarfrest til 1. mgr. 148. gr., sbr. 2. mgr. 194. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur fráleitt að um einhverja gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið að ræða og enn síður raunar ótilhlýðilega ráðstöfun í skilningi 141. gr. sömu laga. Því séu riftunarskilyrði ekki fyrir hendi og enn síður bóta- eða endurgreiðsluskilyrði 142. gr. laganna þar sem hvorki hafi verið um að ræða auðgun né hagsbætur af neinu tagi fyrir stefnda heldur í rauninni hið öndverða. Sönnunarbyrði fyrir bæði riftunar- og bótaskilyrðum hvíli alfarið á stefnanda eins og mál þetta sé vaxið. Fjárkrafan eigi sér enga stoð og verði því alfarið að hafna henni sem og kröfu um riftun. Öllum endurgreiðslu- og/eða skaðabótakröfum sé mótmælt enda séu þær órökstuddar, tilhæfulausar miðað við það sem raunverulega hafi gerst og skorti lagaheimild.
Stefndi segist harma ef framburður þrotamanns við skýrslutöku hjá skiptastjóra hefur ekki verið í fullkomnu samræmi við það sem í rauninni hafi gerst þegar málið er skoðað ofan í kjölinn en telur þó að virða megi honum til vorkunnar að hafa ekki á reiðum höndum svör við öllum spurningum með tilliti til umfangs viðskipta hans á umræddu tímabili.
Loks telur stefndi að taka beri tillit til þess við málskostnaðarákvörðun, tapi hann málinu, að dómkvaðning matsmanns hafi verið óþörf og í raun óábyrg miðað við hagsmuni málsins. Komast hefði mátt hjá þeim kostnaði með því að leita samninga við stefnda um verðmæti, en hægt sé að fletta slíku upp með ekki minni nákvæmni en tiltæk sé matsmanni. Ekki hafi verið hlustað á neinar slíkar málaleitanir. Nú liggi auk þess fyrir endanlegt söluverð bifreiðarinnar, uppítökuverð til ótengds aðila, og hafi það verið 900.000 krónur. Rétt sé raunar að miða við enn lægri tölu, komi til þess, þar sem það sé viðtekin venja í bílaviðskiptum að meta uppítökuverð nokkuð hærra en raunverulegt staðgreiðsluverð. Matinu sé einnig mótmælt að öðru leyti.
Um lagarök vísar stefndi m.a. til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 með síðari breytingum, einkum 131. og 142. gr., og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum III. og IV. kafla laganna. Þá er vísað til meginreglna fjármuna- og kröfuréttar. Loks er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafan um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laganna.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfur sínar um riftun á afsali bifreiðarinnar IV-732 til stefnda á 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Riftunarreglur 1. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er hlutlægar þannig að fallast ber á riftun sé hlutbundnum skilyrðum, sem þar er getið um, fullnægt. Eiginkona þrotamanns var í desember 2010 eigandi 10% af hlutafé í stefnda en Veigur ehf., sem þá var í eigu eiginkonu þrotamanns og barna, var eigandi 90% af hlutafénu. Telst stefndi því vera nákomin þrotamanni, sbr. 4. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991. Frestdagur við skiptin er 22. mars 2011, en bifreiðinni var afsalað til stefnda 15. desember 2010. Í málinu liggur fyrir útprentun úr ökutækjaskrá vegna bifreiðarinnar og kemur þar fram að þrotamaður afsalaði bifreiðinni til stefndu 15. desember 2012 eftir að hafa sjálfur verið skráður eigandi hennar frá 13. apríl 2010. Skráning í ökutækjaskrá er nauðsynleg tryggingarráðstöfun til að koma í veg fyrir að betri réttur fáist með fullnustugerð, sbr. 47. og 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og dóm Hæstaréttar 28. janúar 1985 í máli nr. 13/1984. Samkvæmt því ber að miða við að afhending bifreiðarinnar hafi átt sér stað 15. desember 2010, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991. Var það innan þess frests til riftunar sem tilgreindur er í 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Ekki er á því byggt af hálfu stefnda að hann hafi greitt þrotamanni fyrir bifreiðina heldur að þrotamaður hafi tekið að sér að selja bifreiðina VA-687 og hafi bifreiðin IV-732 strax verið afhent stefndu til fullra nota eftir að hún hafði verið tekin upp í söluverð bifreiðarinnar VA-687. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að greiðsla hafi komið fyrir bifreiðina eða fullnægjandi grein gerð fyrir þeim viðskiptum sem stefndi byggir á að farið hafi fram á milli félagsins og þrotamanns. Ljóst er að gerningurinn leiddi til skerðingar á eignum skuldara, til auðgunar móttakanda auk þess sem ætla verður m.v. aðstæður að tilgangur skuldara með ráðstöfuninni hafi verið að gefa. Eftir framangreindu er það niðurstaða dómsins að um gjöf hafi verið að ræða í merkingu 131. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er það ekki skilyrði riftunar að sýnt sé fram á að þrotamaður hafi verið ógjaldfær er gjöf var innt af hendi. Þar sem skilyrðum riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er fullnægt verður fallist á kröfu stefnanda og afsali bifreiðarinnar rift.
Fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda er reist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi byggir á því að bifreiðin sé enn í notkun á vegum félagsins og er því við það miðað að bifreiðin hafi komið stefnda að fullum notum. Stefnandi byggir fjárhæð kröfunnar á matsgerð dómkvadds matsmanns sem taldi að verðmæti bifreiðarinnar, þegar henni var afsalað til stefnda, hafi verið 1.000.000 króna. Mati þessu hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnda. Er því krafa stefnanda tekin til greina ásamt dráttarvöxtum frá 10. september 2012, en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar.
Ekki eru efni til að taka til greina kröfu stefnda um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að dómkvaðning matsmanns hafi eins og á stóð verið óþörf og óábyrg miðað við hagsmuni málsins.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og matskostnaðar.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Rift er afsali Jafets Ólafssonar 15. desember 2010 til stefnda, Bókaútgáfunnar Sölku ehf., á bifreið með skráningarnúmerið IV-732.
Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Jafets Ólafssonar, 1.000.000 króna, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. september 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.