Hæstiréttur íslands
Mál nr. 534/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 30. september 2011 |
|
Nr. 534/2011. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson, fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 19. október 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, og að ætlað brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2011.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og til vara 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, [...], með dvalarstað að [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 19. október 2011 kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð með kröfunni kemur fram að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þann 23. ágúst 2011, um að A hafi verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin í ferðatösku sinni. Við skoðun á ferðatöskunni hafi komið í ljós að taskan vó u.þ.b. 20 kg. tóm. Við skoðun tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á töskunni hafi komið í ljós umtalsvert magn af meintum fíkniefnum sem höfðu verið falin í töskunni. Samtals sé um að ræða 30.225 stykki af meintum Ecstasy töflum auk 4.707,43 gr. af efnum sem talin séu vera notuð til að drýgja fíkniefni, svokölluð íblöndunarefni. Er vísað nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Lögregla hafi rökstuddan grun um að kærði hafi verið í sambandi við A þegar hann var erlendis. Þá hafi lögregla einnig upplýsingar um að kærði hafi í nokkur skipti lagt peninga inn á reikninga A þegar hann var erlendis. Þá hafi fundist kreditkort í eigu kærða í fórum A þegar hann var stöðvaður við komu sína til landsins.
Þann 7. september 2011, hafi lögregla framkvæmt húsleit að dvalarstað kærða. Við þá húsleit fundust 2 gr. af meintu amfetamíni auk 1 stk. Ecstasy töflu sem talin er vera sömu gerðar og þær töflur sem fundust í fórum A við komu hans til landsins. Þá hafi fundist einnig önnur gögn sem tengjast framangreindum innflutningi á heimili kærða. Í kjölfar húsleitarinnar hafi kærði verið handtekinn af lögreglu.
Kærði hafi verið yfirheyrður einu sinni frá því að hann var handtekinn. Kærði hafi verið yfirheyrður þrisvar sinnum frá því að hann var handtekinn, nú síðast þann 26. september 2011. Við fyrri tvær yfirheyrslur yfir kærða hafi kærði neitað allri aðild að innflutningum á hinum framangreindu fíkniefnum. Við yfirheyrsluna þann 20. og 26. september hafi kærði sýnt lögreglu hins vegar samstarfsvilja og hefur að nokkru leyti upplýst lögreglu um sinn þátt í málinu auk þess sem hann hafi veitt lögreglu frekari upplýsingar um þátt A í málinu. Kærði hafi m.a. viðurkennt að hafa staðið að skipulagningu á annarri ferð, sem fara átti fyrr í sumar þar sem afhenda hafi átti A fíkniefni til að flytja til landsins. Af þeirri ferð hafi hins vegar ekkert orðið þar sem ekki hafi tekist að afhenda A fíkniefni í þeirri ferð. Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Rannsókn þessa máls sé í fullum gangi. Meðal þess sem verið er að rannsaka er aðdragandi ferðar A til landsins og tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Lögregla telur að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði sé einn af þeim aðilum sem hafi fengið A til að flytja framangreind fíkniefni til landsins. Þá telji lögregla sig einnig hafa vísbendingar um að kærði hafi marg sinnis verið í sambandi við A þegar hann var erlendis og í nokkur skipti hafi hann lagt peninga inn á reikninga í eigu A. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafa fundist í fórum A, þyki eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telur lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hann, af hendi samverkamanna kærða, gangi kærði laus, á meðan rannsókn málsins er enn í fullum gangi hjá lögreglu. Þá þurfi lögregla einnig ráðrúm til að rannsaka nánar og staðfesta þær upplýsingar sem kærði hafi greint lögreglu frá við síðustu yfirheyrslu. Af þeim sökum telji lögregla brýnt að kærða verð gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Þá segir enn fremur að kærði þykir vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa komið að skipulagningu og framkvæmd stórfellds fíkniefnalagabrots. Sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig einnig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði hafi játað, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 164/2010, 136/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000, 471/1999, 323/2011 og 422/2011 þar sem sakborningum hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hefur fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og er talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008, almannahagsmunda, 2. mgr. 95. gr. sömu laga, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 19. október 2011 kl. 16.00.
Ljóst er að um mikið magn fíkniefna er að ræða í máli þessu eða 30.225 stykki af Ectasy töflum auk 4.707 g af svokölluðum íblöndunarefnum. Fyrir liggur játning kærða að málinu og hlutdeild hans. Kærði lagði til peninga og millifærði á burðardýr auk þess að vera tengiliður og koma upplýsingum áleiðis til burðardýrsins. Sá aðili, A situr nú í gæsluvarðhaldi en er laus úr einangrun. Samkvæmt sækjanda eru enn að koma fram ný nöfn og gögn sem tengjast málinu og því séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. fyrir hendi. Telji dómurinn að svo sé ekki þá séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. fyrir hendi þar sem um gríðarmikið magn fíkniefna sé að ræða og almannahagsmunir liggi við.
Fyrir liggur að kærði hefur játað aðild sína að málinu. Þá liggur einnig fyrir að A, sem flutti efnin til landsins sæti enn gæsluvarðhaldi en gæslan sé án takmarkana. Ekki er krafist einangrunar yfir kærða. Því liggur fyrir að báðir kærðu geta rætt saman um málið og einnig verið í samskiptum við þá sem eru fyrir utan fangelsismúrana. Því telur dómurinn að ekki séu slíkir rannsóknarhagsmunir fyrir hendi að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lögum nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, sem varðað getur fangelsi. Hlutdeild kærða að brotinu, sem hann hefur játað aðild sína að, snýr að innflutningi á miklu magni fíkniefna, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Telur dómurinn að með vísan til alvarleika brotsins og rannsóknargagna þykja skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu. Verður því fallist á varakröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um gæsluvarðhald yfir kærða. Verður krafan tekin til greina eins og segir í úrskurðarorði.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 19. október nk. kl. 16.00.