Hæstiréttur íslands
Mál nr. 839/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
|
|
Miðvikudaginn 7. janúar 2015. |
|
Nr. 839/2014.
|
Brit Insurance Ltd. Liberty Mutual Insurance Europe Ltd. QBE International Insurance Ltd. Allianz Global Corporate & Speciality AG QBE Corporate Ltd. Alterra Corporate Capital 2 Ltd. Alterra Corporate Capital 3 Ltd. Kelvin Underwriting Ltd. Nameco (No 11) Ltd. Nameco (No 231) Ltd. Novae Corporate Underwriting Ltd. SCOR Underwriting Ltd. Sorbietrees Underwriting Ltd. Brian John Tutin Bridget Anne Carey-Morgan Carol Jean Harris David John De Marle Coulthard Eileen Elsie Hunter Gary Frederick Sullivan Ian Richard Posgate Joseph Elmaleh John Leon Gilbart Julian Michael West Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea (Viðar Lúðvíksson hrl.) gegn Fjármálaeftirlitinu (enginn) |
Kærumál. Gagnaöflun.
Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var hafnað kröfu B Ltd. o.fl. um að F yrði gert að afhenda fyrir dómi skjöl, sem nánar voru tilgreind í 12 töluliðum, til afnota í máli L hf. á hendur B Ltd. o.fl. og þremur mönnum öðrum. Varðandi 1. og 2. lið var talið að skilyrði 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri ekki fullnægt þar sem B Ltd. o.fl. hefðu ekki beint áskorun að F um afhendingu þeirra. Þá var talið að B Ltd. o.fl. hefðu ekki sýnt fram á að þeim nægðu ekki það úrræði til sönnunarfærslu sem mælt væri fyrir um í 1. mgr. sömu greinar varðandi afhendingu skjala í liðum 3, 4, 6, 9, 11 og 12. Að lokum var afhendingu skjala í liðum 5, 7, 8 og 10 hafnað á þeim grundvelli að ekki hefðu verið færð að því nægileg rök að skjölin hefðu þýðingu fyrir málatilbúnað B Ltd. o.fl., sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda fyrir dómi nánar tiltekin skjöl til afnota í máli LBI hf. á hendur sóknaraðilum og þremur mönnum öðrum. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að varnaraðila verði gert að afhenda skjöl, sem nánar eru tilgreind í 12 töluliðum, en til vara að varnaraðila verði gert að leggja framangreind skjöl fyrir dómara í málinu í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2014.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 1. og 5. júní 2011. Stefnandi er LBI hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, með óþekkt heimilusfang í Kanada og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Baugatanga 7, Reykjavík. Einnig er í málinu stefnt Brit Insurance Ltd. og 24 aðilum, með lögheimili í Stóra-Bretlandi og Þýskalandi, sem seldu stefnanda, sem áður starfaði sem fjármálafyrirtæki undir heitinu Landsbanki Íslands hf., sameiginlega ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur hans og starfsmenn.
Við fyrirtöku málsins 26. nóvember 2013 lögðu stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. fram beiðni um að Fjármálaeftirlitinu yrði með úrskurði gert skylt að afhenda gögn sem nánar greindi í 12 liðum, en til vara var þess krafist að stofnunin legði gögnin fram fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Í beiðninni kom fram að stefndu Brit Insurance Ltd. hefðu óskað eftir aðgangi að gögnum hjá Fjármálaeftirlitinu í 27 liðum og hefði stofnunin þegar að verulegu leyti synjað um aðgang en enn ætti eftir að taka afstöðu til annarra. Þá var því lýst að synjunum Fjármálaeftirlitsins hefði verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með kærum 8. júlí 2013 og 11. nóvember það ár auk þess sem sjálfstætt dómsmál hefði verið höfðað til ógildingar á synjun Fjármálaeftirlitsins með stefnu þingfestri 3. október 2013. Eftir fyrirtöku málsins 24. september sl. var þess óskað af lögmanni stefndu Brit Insurance Ltd. að dómari tæki framkomna beiðni til meðferðar. Með bréfi dómara til Fjármálaeftirlitsins 25. september sl. var fyrirsvarsmanni Fjármálaeftirlitsins kynnt beiðnin og hann kvaddur til að sækja dómþing við fyrirtöku málsins með vísan til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig var stofnuninni gefinn kostur á því að setja fram skriflegar athugasemdir sínar vegna málsins. Fjármálaeftirlitið afhenti dómara skriflegar athugasemdir sínar 31. október sl. og voru þær kynntar aðilum utan réttar. Við fyrirtöku málsins 17. nóvember sl. var málsaðilum auk fulltrúum Fjármálaeftirlitsins gefinn kostur á munnlegum athugasemdum. Við þá fyrirtöku málsins var áréttað að Fjármálaeftirlitið mótmælti beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. um afhendingu gagna. Af hálfu annarra málsaðila var beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. hvorki mótmælt né undir hana tekið. Að loknum munnlegum athugasemdum lögmanna var beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. tekin til úrskurðar.
Með beiðni sinni óska stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. nánar tiltekið eftir því að Fjármálaeftirlitið verði skyldað með úrskurði til að afhenda neðangreind skjöl:
1. Afrit af öllum listum Fjármálaeftirlitsins yfir málsgögn sem varða stefnanda.
2. Afrit af öllum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins er varða stefnanda.
3. Afrit af öllum tilkynningum og kærum sem Fjármálaeftirlitið hefur sent til embættis sérstaks saksóknara varðandi stefnanda, stjórnendur hans og starfsmenn.
4. Gögn um ágreining Fjármálaeftirlitsins og stefnanda vegna athugasemda Fjármálaeftirlitsins, sbr. bréf Fjármálaeftirlitsins dags. 22. mars 2007, í tengslum við úttekt sem framkvæmd var á áhættumælingum og áhættustýringum stefnanda á árinu 2005, sbr. kafla 8.6.5.5.1.1 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
5. Athugun Fjármálaeftirlitsins á áhættumati stefnanda (mál nr. 2005040012) og gögn málsins.
6. Bréf stefnanda til Fjármálaeftirlitsins, dags. 30. apríl 2007, þar sem stefnandi mótmælti bréfi Fjármálaeftirlitsins frá 22. mars. 2007.
7. Fundargerð vegna innanhúsfundar Fjármálaeftirlitsins 29. mars 2007, þar sem sérstaklega var fjallað um skuldbindingar Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila við stefnanda.
8. Minnisblað starfsmanns Fjármálaeftirlitsins í máli nr. 2005040012, dags. í september 2007.
9. Tilkynning Fjármálaeftirlitsins til stefnanda, dags. 5. júlí 2007 um fyrirhugaða vettvangsheimsókn.
10. „Skýrsla um athugun á útlánaáhættu hjá Landsbanka Íslands hf.“ frá Fjármálaeftirlitinu, febrúar 2008.
11. Afrit af kæru Fjármálaeftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkun stjórnenda og starfsmanna stefnanda með hlutabréf í bankanum á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008.
12. Afrit af kærum og tilvísana frá Fjármálaeftirlitinu vegna lánveitinga til eftirfarandi aðila til kaupa á hlutum í stefnanda: Imon ehf., Sigurður Bollason ehf., Hunslow S.A., Burce Assets Limited og Pro-Invest Partners Corp.
Við fyrirtöku málsins var staðfest af hálfu Fjármálaeftirlitsins að þau gögn, sem téð beiðni lýtur að, séu til og í vörslu stofnunarinnar, þó þannig að ekki sé um eiginlega lista samkvæmt fyrsta tölulið að ræða heldur þurfi að kalla fram upplýsingar úr skjalaskráningarkerfi. Af þessu tilefni var fyrsti liður kröfugerðar skýrður nánar svo af lögmanni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. að átt væri við útprentun úr skrám Fjármálaeftirlitsins, svo sem málaskrá eða skjalaskráningarkerfi, um hvers kyns gögn sem lytu að stefnanda.
Aðalkröfu sína um aðgang að gögnum byggja stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. á 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Til þess að fullnægja skilyrðum þessara ákvæða telja þessir stefndu nægjanlegt að Fjármálaeftirlitinu sé annað hvort skylt að afhenda stefndu skjölin sem krafist er afhendingar án tillits til málsins eða að Fjármálaeftirlitinu sé skylt að bera vitni um skjölin í málinu. Stefndu telja bæði skilyrðin uppfyllt. Að því er varðar skyldu Fjármálaeftirlitsins til þess að afhenda skjölin án tillits til málsins er vísað til ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012, einkum 5. og 15. gr. Stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. hafna því að ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi leiði til þess að Fjármálaeftirlitinu sé skylt að synja um aðgang að gögnum á þessum grundvelli. Er annars vegar vísað til þess að almenn ákvæði um þagnarskyldu geti ekki leitt til frávika frá rétti til gagna samkvæmt lögum nr. 140/2012. Af sömu ástæðu geti ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki ekki heldur réttlætt synjun Fjármálaeftirlitsins. Þá er vísað til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 á þá leið að undantekning frá þagnarskyldu gildi um upplýsingar varðandi eftirlitsskyldan aðila sem er gjaldþrota eða sætir þvinguðum slitum. Að því er lýtur að 58. gr. laga nr. 161/2002 er einnig á því byggt að ákvæðið lúti einungis að þagnarskyldu vegna viðskipta- eða einkamálefna viðskiptavina fjármálafyrirtækis, ekki málefna fjármálafyrirtækisins sjálfs. Þá er bent á að rannsóknarnefnd Alþingis og fjölmiðlar hafi fjallað um ýmis þau gögn sem óskað sé afhendingar á. Svo sem áður greinir telja stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. einnig að Fjármálaeftirlitinu væri skylt að bera vitni um efni skjalanna. Er þessu til stuðnings vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 geti dómari undanþegið vitni frá því að upplýsa um leyndarmál varðandi viðskipti þess, uppgötvanir eða önnur slík verk ef hann telur hagsmuni vitnis af leyndinni verulega ríkari en hagsmuni aðila af vættinu. Ákvæðið eigi aðeins við um viðskipti vitnisins sjálfs en ekki viðskipti annarra. Þar af leiðandi eigi það ekki við um viðskipti stefnanda sem sé að auki gjaldþrota og hafi enga hagsmuni af leynd yfir gögnunum. Ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 geti ekki haggað þessari niðurstöðu. Varakrafa téðra stefndu byggir á 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 og er sett fram ef einhver hinna umbeðnu gagna eru talin hafa að geyma atriði sem Fjármálaeftirlitinu er óskylt eða óheimilt að bera vitni um af einhverjum ástæðum. Í beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. eru rakin nánari rök fyrir afhendinga einstakra gagna og er vikið að þeim síðar eftir því sem ástæða er til.
Af hálfu Fjármálaeftirlitsins er einkum vísað til ákvæða 13. gr. laga nr. 87/1998 viðvíkjandi þagnaskyldu starfsmanna stofnunarinnar og 58. gr. laga nr. 161/2002 viðvíkjandi bankaleynd. Fjármálaeftirlitinu sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum hjá stofnuninni sem bundin eru trúnaði samkvæmt þessum ákvæðum og jafnframt óheimilt að veita upplýsingar um efni slíkra gagna. Brjóti stjórn, forstjóri eða starfsmenn Fjármálaeftirlitsins gegn ákvæðunum geti það varðað fangelsi allt að einu ári, sbr. 136. gr. hegningarlaga. Stofnunin bendir á að ekki sé fyrir hendi heimild dómara til að aflétta aflétta trúnaði um upplýsingar er varða viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækja, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Þá telur stofnunin að undantekningarreglu 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 ekki eiga við. Í greinargerð Fjármálaeftirlitsins eru rakin sjónarmið stofnunarinnar um einstök gögn og er vikið að þeim síðar eftir því sem tilefni er til.
Niðurstaða
Í þessum þætti málsins reisa stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. kröfur um afhendingu gagna á ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 sem fjallar um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Eru kröfur þessara stefndu um afhendingu gagna úr hendi Fjármálaeftirlitsins þannig grundvallaðar á því að umbeðin gögn séu þessum stefndu nauðsynleg til þess að styðja málsástæður sínar í máli því sem stefnandi hefur höfðað gegn þeim. Leiðir af 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 að dómara ber að synja kröfum téðra stefndu um afhendingu gagna að því marki sem hann telur þau tilgangslaus til sönnunar.
Í annan stað er á það að líta að samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 verða sönnur með skjölum og öðrum sýnilegum gögnum að meginreglu færðar í einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn af þessum toga, sem þeir hafa sjálfir undir höndum, en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. sömu laga til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verður því aðeins beitt að hjá því verði ekki komist, sbr. dóm Hæstaréttar 27. janúar 2011 í máli nr. 699/2010. Verði aðili ekki við áskorun gagnaðila um framlagningu gagna getur dómurinn brugðist við neitun aðilans með því að telja hann samþykkja staðhæfingar gagnaðilans um efni þeirra, hafi það á annað borð eitthvert gildi í málinu, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Er það stefndu að færa rök fyrir því að þessi leið fullnægi ekki þörfum þeirra við sönnunarfærslu í málinu.
Að því er varðar fyrsta og annan lið í kröfugerð stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. er ekki fram komið að áskorun um afhendingu téðra gagna hafi áður verið beint að Fjármálaeftirlitinu. Er því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 til þess að verða við kröfu þessara stefndu um þessa liði en auk þess hafa þessir stefndu ekki fært að því rök með hvaða hætti þeir ættu hagsmuni af afhendingu svo víðtækra upplýsinga sem kröfuliðirnir fela í sér. Athugast í því sambandi að þessir stefndu eiga þess kost að óska eftir leiðbeiningum Fjármálaeftirlitsins í því skyni að afmarka nánar beiðni um afhendingu upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 140/2012.
Dómurinn telur ljóst að þau gögn sem vísað er til í 4., 6. og 9. lið í kröfugerð stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. hljóti einnig að vera að finna hjá stefnanda málsins. Hafa stefndu í engu rökstutt hvers vegna þeim sé ekki nægilegt að skora á stefnanda að leggja þessi gögn fram að því viðlögðu að dómurinn bregðist við hugsanlegri neitun hans með því að telja hann samþykkja staðhæfingar stefndu um efni þeirra, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Verður beiðni téðra stefndu um gögn samkvæmt þessum liðum hafnað af þessari ástæðu.
Í kröfuliðum 7 og 8 er annars vegar óskað eftir afhendingu fundargerðar vegna tiltekins innanhúsfundar Fjármálaeftirlitsins og hins vegar tiltekins minnisblaðs starfsmanns stofnunarinnar. Eins og málið liggur fyrir hafa stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. ekki leitt líkur að því að vinnugögn stofnunar, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 140/2012, geti haft þýðingu fyrir málatilbúnað þeirra. Í lið 5 er óskað eftir gögnum vegna áhættumats sem fram fór meira en þremur árum áður en vátryggingasamningur stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. og stefnanda var gerður. Hafa ekki verið færð að því nægileg rök að þessi gögn hafi þýðingu fyrir málatilbúnað þessara stefndu. Fyrir liggur að stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. hafa þegar fengið afhenta skýrslu um athugun á útlánaáhættu Landsbanka Íslands hf. frá febrúar 2008 með útstrikunum, sbr. lið 10 í kröfugerð. Hafa stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. ekki rökstutt í hvaða atriðum þeim er nauðsyn á frekari upplýsingum úr skýrslunni en þeir hafa þegar fengið í hendur. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður kröfu umræddra stefndu samkvæmt þessum liðum því hafnað.
Með þriðja lið í kröfugerð óska stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. eftir afriti af öllum tilkynningum og kærum sem Fjármálaeftirlitið hefur sent embætti sérstaks saksóknara varðandi stefnanda, stjórnendur hans og starfsmenn. Verður liðurinn ekki skilinn á aðra leið en að hann taki þá einnig til þeirra gagna sem vísað er til 11. og 12. lið kröfugerðar. Með hliðsjón af málsástæðum stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. fellst dómari á að þau gögn sem hér um ræðir kunni, a.m.k. að því marki sem þau tengjast stefnanda og háttsemi æðstu stjórnenda hans, að hafa þýðingu fyrir málatilbúnað téðra stefndu. Hins vegar verður að ætla að þessi gögn, að því leyti sem þau hafa þýðingu fyrir sakarefni málsins, sé þegar að finna í vörslum stefnanda málsins eða annarra stefndu. Hafa stefndu Brit Insurance Ltd. ofl.í engu rökstutt hvers vegna þeim sé ekki nægilegt að skora á aðra málsaðila að leggja þessi gögn fram að því viðlögðu að dómurinn bregðist við hugsanlegri neitun hans með því að telja þá samþykkja staðhæfingar stefndu um efni þeirra, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Að svo stöddu verður beiðni téðra stefndu um gögn samkvæmt þessum liðum því einnig hafnað.
Samkvæmt framangreindu verður beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. um afhendingu gagna hafnað í heild sinni.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð
Beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. um afhendingu gagna úr hendi Fjármálaeftirlitsins er hafnað.