Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
|
Nr. 317/2007. |
Mánudaginn 10. september 2007. |
|
|
Jón Ó. Ragnarsson(Axel Kristjánsson hrl.) gegn Hótel Valhöll ehf. (Agnar Gústafsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 24. janúar 2007 um að synja nauðungarsölu á 77,78% hlutafjáreign J í Hótel Valhöll ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2007, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 24. janúar 2007 um að synja nauðungarsölu á 77,78% hlutafjáreign sóknaraðila í Hótel Valhöll ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Beiðni varnaraðila um fjárnám hjá sóknaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 14. september 2006. Lögmaður sóknaraðila mætti þá fyrir hans hönd. Af endurriti gerðarinnar verður ráðið að lögmaðurinn hafi ekki nýtt sér heimild samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að benda á eignir til fjárnáms. Fjárnám var gert í 77,78% hlutafjár í Hótel Valhöll ehf. eftir ábendingu varnaraðila. Af hálfu sóknaraðila var tekið fram að hann hefði afsalað til annarra hluta af þessari hlutafjáreign sinni, en nánar var ekki frá þessu greint.
Endurrit fjárnámsgerðarinnar sem lá til grundvallar beiðni varnaraðila um nauðungarsölu á hlutabréfunum bar með sér þau atriði sem að framan greinir. Svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði lagði sóknaraðili við fyrirtöku á nauðungarsölubeiðni varnaraðila hjá sýslumanni 11. janúar 2007 fram ljósrit gjafabréfs dagsett 15. maí 2006, þar sem sóknaraðili og eiginkona hans eru sögð afhenda tveimur nafngreindum börnum sínum 30,056% hvoru af hlutafjáreign sinni í fyrrnefndu einkahlutafélagi. Með þessu voru ekki leiddar fullnægjandi sönnur að því að sóknaraðili hafi ekki verið eigandi umræddra hlutabréfa er fjárnámið var gert, enda lágu engar upplýsingar fyrir um að aðilaskipti að bréfunum hafi farið fram með þeim hætti sem lög og samþykktir félagsins áskilja. Sýslumanni var því ekki rétt að hafna kröfu um nauðungarsölu á þeim grunni. Verður ákvörðun hans 24. janúar 2007 því felld úr gildi. Þar sem fram eru komnar upplýsingar um að umrædd hlutabréf kunni að hafa verið framseld nafngreindum einstaklingum er sýslumanni rétt við framhaldsmeðferð málsins að gæta að því hvort efni séu til að tilkynna þeim um nauðungarsöluna og gefa þeim þannig kost á að láta hana til sín taka. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Sóknaraðili, Jón Ó. Ragnarsson, greiði varnaraðila, Hótel Valhöll ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 29. maí 2007.
Málið barst dóminum 30. janúar sl. og var þingfest 16. febrúar sl. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 14. maí sl.
Sóknaraðili er Hótel Valhöll ehf., Þingvöllum, 801 Selfoss.
Varnaraðili er Jón Ó. Ragnarsson, Seljugerði 12, 108 Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 24. janúar 2007 um að synja um uppboð á hlutabréfum Jóns Ó. Ragnarssonar í Hótel Valhöll, 77,78% af heildahlutafé félagsins, verði felld úr gildi og að uppboðið fari fram til lúkningar skuld gerðarþola við gerðarbeiðanda. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og ákvörðun sýslumanns staðfest. Til vara er þess krafist að nauðungarsala taki aðeins til þess hluta af hlutafé í Hótel Valhöll ehf., sem sé eign varnaraðila, en það séu 17,666%. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Málavextir
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-7312/2004, sem kveðinn var upp þann 6. júní 2006, var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 10.591.472 kr. ásamt dráttarvöxtum.
Þar sem varnaraðili greiddi ekki skuldina óskaði sóknaraðili fjárnáms hjá varnaraðila sem fram fór hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík þann 14. september 2006. Í endurriti úr gerðarbók sýslumanns kemur fram að lögmaður varnaraðila hafi bent á 77,78% hlutafjáreign varnaraðila í Hótel Valhöll og krafist fjárnáms í henni fyrir kröfu að heildarfjárhæð 136.410.360 krónur. Þá segir jafnframt í endurritinu „fyrirsvarsmaður gerðarþola bendir á að eftir að framangreint mál var höfðað fyrir framangreindum héraðsdómi þá hafi gerðarþoli afsalað hluti úr hlutafjáreign sinni og nemi því hlutafjáreign gerðarþola einungis 16,667% af heildarhlutafé Hótel Valhallar ehf. Aðspurður þá getur fyrirsvarsmaður gerðarþola ekki lagt fram nein gögn varðandi afsal þessara hlutabréfa.“ Fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi mótmælt að afsal hlutabréfanna hefði átt sér stað og tók sýslumaður þau til greina og gerði fjárnám að kröfu hans í 77,78% hlutafjár í Hótel Valhöll ehf. Bókað er að tekið sé fram að fyrirsvarsmanni varnaraðila hafi verið leiðbeint um þýðingu fjárnámsins og kynnt efni bókunarinnar án þess að athugasemdir hafi komið fram.
Með bréfi 17. nóvember 2006 krafðist sóknaraðili uppboðs á hlutafénu. Mótmælti varnaraðili fyrirhuguðu uppboði með greinargerð, dagsettri 17. janúar 2007.
Við fyrirtöku hjá sýslumanni hinn 11. janúar 2007 lagði varnaraðili fram ljósrit gjafabréfs, sem dagsett er 15. maí 2006, undirritað af varnaraðila og eiginkonu hans, Hrafnhildi Valdimarsdóttur, sem gefa börnum sínum tveimur, Valdimar Jónssyni og Júlíönu Sigurbjörgu Jónsdóttur hvoru um sig 30,056% af hlutafé sínu í Hótel Valhöll ehf. Undirskriftirnar eru óvottfestar.
Þann 24. janúar 2006 tók skrifstofustjóri hjá sýslumanninum í Reykjavík þá ákvörðun að synja kröfu sóknaraðila um nauðungarsölu á hlutabréfunum. Í ákvörðuninni segir, „Þrátt fyrir að gerðarþoli hafi ekki nýtt sér heimild til að bera úrlausn sýslumanns undir héraðsdóm þykir varhugavert með hliðsjón af staðhæfingum lögmanns gerðarþola við framangreinda fjárnámsfyrirtöku og framlagningu á ljósriti gjafaafsals að taka til greina kröfu lögmanns gerðarbeiðanda þegar réttmætur vafi leikur á hvert meint nauðungarsöluandlag er. Kröfu um nauðungarsölu á hlutabréfum Jóns Ó. Ragnarssonar í Hótel Valhöll ehf., 77,78% af heildarhlutafé félagsins er synjað með vísan til framanritaðs.“
Með bréfi lögmanns sóknaraðila var þess farið á leit, með vísan til 73. gr. laga nr. 90/1991, að Héraðsdómur Reykjavíkur tæki málið til úrlausnar.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að gjafabréf varnaraðila og eiginkonu hans til barna sinna sé málamyndagerningur sem gerður hafi verið til þess að koma undan eignum. Því sé mótmælt, að gerningur þessi hafi verið undirritaður 15. maí 2006, sem sé sami dagur og aðalmeðferð hafi farið fram í héraðsdómsmálinu. Þá þurfi vart að benda á, að lögmaður varnaraðila gat ekki lagt fram umrætt gjafabréf þegar fjárnámið var gert 14. september 2006.
Hvað varði þá staðhæfingu varnaraðila, að réttur varnaraðila til þess að benda á eignir hafi ekki verið virtur bendir sóknaraðili á að 14. september 2006, þegar fjárnámið var gert, sé bókað að fyrirsvarsmanni varnaraðila, þ.e. lögmanni hans, hafi verið leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu varnaraðila. Hafi lögmaðurinn ekkert haft við kröfu sóknaraðila að athuga en varð þó ekki við áskorun um að greiða hana. Hann hafi aldrei minnst á það að hann vildi benda á aðrar eignir til fjárnáms.
Varnaraðili hafi ekki nýtt sér heimildir í aðfararlögum til að bera ákvörðun sýslumannsins um fjárnám í hlutabréfunum 14. september 2006 undir Héraðsdóm Reykjavíkur, sbr. ákvæði 14. og 15. kafla laga nr. 90/1989. Fjárnámið standi því óhaggað.
Vísað er til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 14. og 15. kafla laganna, 85. og 92. gr. Þá er vísað til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sérstaklega 73. gr. laganna. Um málskostnað vísast til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði, XVI. kafla, sbr. 75. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til greinargerðar sem lögmaður hans lagði fram við fyrirtöku uppboðsmálsins hjá sýslumanni 17. janúar sl. Þar komi fram, að fjárnám, sem krafa um nauðungarsölu byggði á, hafi verið haldin vissum annmörkum. Þrátt fyrir mótmæli lögmanns varnaraðila og ábendingu um, hver væri raunveruleg hlutafjáreign varnaraðila, hafi verið gert fjárnám í 77,78% af heildarhlutafé í Hótel Valhöll ehf., samkvæmt kröfu sóknaraðila og byggt á þeirri forsendu að ekki lægju önnur gögn fyrir um skiptingu hlutafjárins en fram kom í fjárnáminu. Þá leggi varnaraðili áherslu á, að fjárnámið hafi verið gert samkvæmt ábendingu í fjárnámsbeiðni sóknaraðila en réttur varnaraðila til að benda á eignir til fjárnáms skv. 39. gr. laga um aðför nr. 90/1989 hafi ekki verið virtur. Þess vegna haldi varnaraðili því fram, að fjárnámið sé haldið þeim annmörkum, að hafna beri nauðungarsölu á grundvelli hennar.
Framkvæmd fjárnámsins sé ámælisverð að því leyti, að varnaraðila hafi ekki verið gefinn kostur á að afla þeirra gagna, sem andmæli hans byggðust á og sem nú hafi verið lögð fram.
Eins og fram komi í greinargerð varnaraðila, sem lögð var fram við fyrirtöku uppboðsmálsins hjá sýslumanni 17. janúar sl. stangist tilkynningar sýslumannsembættisins um nauðungarsölu í málinu hver á aðra og gangi svo langt, að sama dag og varnaraðila hafi verið veittur frestur til að skila greinargerð í málinu hafi honum verið send tilkynning um að nauðungarsala færi fram 3. febrúar nk. Samkvæmt því hafi greinargerð varnaraðila enga þýðingu um framgang málsins.
Varnaraðili byggir varakröfu sína á því að nú hafi verið lagt fram skjal sem sanni að þann 15. maí sl. hafi hann og eiginkona hans afhent tveimur börnum sínum samtals 60,112% af hlutafé Hótels Valhallar hf.
Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð hafi verið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. febrúar sl., sé byggt á því að ofangreint „framsal“ hlutafjárins hafi ekki verið borið undir aðra hluthafa. Ekki sé um framsal að ræða heldur gjafabréf en samkvæmt samþykktum félagsins sé nóg að afla samþykkis stjórnar félagsins, sbr. 4. mgr. 7. gr. samþykkta fyrir Hótel Valhöll ehf. og það samþykki liggi fyrir. Því sé mótmælt að gjafabréfið sé málamyndagerningur sem gerður hafi verið til að skjóta undan eignum. Gjafabréfið sé fullkomlega löglegur gerningur, sem ekki hafi verið reynt að ógilda enda engin ástæða til. Þá liggi ekkert fyrir um það að varnaraðili hafi ekki getað bent á aðrar eignir til fjárnáms en varnaraðili fullyrðir að hann hefði getað bent á eignir, sem séu margfalt verðmætari en hlutafjáreign hans í Hótel Valhöll, sem sé mjög lítils virði ef ekki verðlaus.
Vegna gjafabréfsins sé ljóst, að framhald uppboðsmálsins verði ekki leitt til lykta án þess að hinum nýju eigendum verði tilkynnt um nauðungarsölukröfuna og þeim gefinn kostur á að halda uppi vörnum í málinu.
Varnaraðili vísar til laga nr. 90/1989 um aðför, sérstaklega 39. gr. og til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði.
III.
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um þá ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 24. janúar 2007, að synja uppboð á 77,78% hlutabréfa varnaraðila í Hótel Valhöll ehf. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og að uppboðið fari fram á grundvelli fjárnáms frá 14. september 2006. Við gerðina var af hálfu lögmanns varnaraðila bent á að hann og kona hans hefðu gert gjafagerning við börn sín og ætti varnaraðili því aðeins 16,667% hlutafjárins. Gjafagerningur þessi var ekki lagður fram til stuðnings þessari fullyrðingu. Þá var af hálfu hans ekki bent á aðrar eignir sem andlag fjárnámsins í stað hlutabréfanna, en í greinargerð er því haldið fram að verðmætari eignir hafi verið til staðar. Lauk gerðinni með því að fjárnám var gert í 77,78% hlutabréfa varnaraðila í Hótel Valhöll ehf. Ágreiningi um gerðina var ekki vísað til héraðsdóms, sbr. 14. eða 15. kafla laga nr. 19/1989 um aðför. Beiðni um nauðungarsölu var lögð fram hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 17. janúar 2007.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann eigi 17,666% hlutafjár í Hótel Valhöll. Börn hans tvö Valdimar og Júlíana eigi 30.056% hvort um sig og Þór Ragnarsson og Ragnar Björvinsson 11,111% hvor um sig.
Þeirri málsástæðu varnaraðila er hafnað að draga megi gildi fjárnámsins í efa, þar sem skort hafi leiðbeiningar, enda ber bókun sýslumanns annað með sér auk þess sem því er haldið fram af löglærðum manni.
Engu verður slegið föstu um gildi gjafagerningsins en þó verður við mat á því, hvort styðjast megi við fjárnámið sem uppboðsheimild, að líta til tengsla varnaraðila við gjafagerningshafana og þess hvenær hann var gerður. Auk þess eru ekki vottar að undirskriftum og réttri dagsetningu á gjafabréfinu. Að mati dómsins getur varnaraðili ekki nú hrundið grundvelli fyrirhugaðrar nauðungarsölu með framvísun gjafagerningsins.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 24. janúar 2007 um að synja um uppboð á hlutabréfum varnaraðila í Hótel Valhöll, 77,78% af heildahlutafé félagsins, felld úr gildi. Skal uppboð fara fram á hlutafjáreign varnaraðila.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðila, 150.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 24. janúar sl., um að synja um uppboð á 77,78% hlutafjáreign varnaraðila, Jóns E. Ragnarssonar, í Hótel Valhöll ehf., er felld úr gildi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, 150.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.