Hæstiréttur íslands

Mál nr. 774/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Sigurður Freyr Sigurðsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. janúar 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í skýrslu réttarmeinafræðings um áverka á brotaþola kom fram að þeir væru sambærilegir við beitingu kyrkingartaks með miklu afli, sem mögulega leiddi til meðvitundarleysis. Þá sagði þar að þar sem kyrking með höndum væri margbrotin í eðli sínu yrði að flokka aflmikla kyrkingu með höndum, eins og í þessu tilviki, sem að minnsta kosti mögulega lífshættulega. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að fullnægt sé skilyrðum til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þann tíma sem krafist er vegna brots gegn gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Verður úrskurðurinn því staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                               

                                                                 

 

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 3. janúar nk. kl. 16:00

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði, X, liggi nú undir sterkum grun um að hafa veist að A snemma morguns þann 3. desemer sl. á dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík og tekið hana kyrkingartaki og þrengt þannig að öndunarvegi hennar með þeim afleiðingum að hún hafi misst meðvitund og hlotið punktablæðingar í hægra auga, eyrum og á efri og neðri vör, auk áverka á tönnum, en í áverkavottorði réttarmeinafræðings segi orðrétt: „Margar punktablæðingar voru […] Slíkir áverkar verða jafnan við þrýstingsáverka með miklu afli í nokkurn tíma, sem mögulega veldur meðvitundarleysi hjá þolanda.”

Lögregla hafi komið á vettvang laust eftir kl. 05:00 þann 3. desember sl. og  brotaþoli tekið þar á móti þeim. Hafi hún verið í miklu uppnámi og tjáði lögreglu að kærði hafi kyrkt hana þar til hún hafi misst meðvitund. Kærði hafi svo gefið sig fram á vettvangi og í kjölfarið verið handtekinn.

Tekin hafi verið skýrsla af brotaþola í tvígang, á slysadeild og hjá lögreglu, og hafi hún þar lýst atburðum með sama hætti, þ.e. að kærði hafi haldið henni í kyrkingartaki þar til hún hafi misst meðvitund. Hafi hún kveðið kærða hafa sagst ætla að drepa hana í sama mund og hann hafi tekið hana hálstaki.

Kærði hafi neitað sök, en telja verði að gögn málsins renni skýrum stoðum undir framburð brotaþola. Einkum ofangreint áverkavottorð en einnig framburðir annarra vitna í málinu er hafi komið að brotaþola á vettvangi.

Að mati lögreglu sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað allt að ævilöngu fangelsi.  Sé rannsókn málsins langt á veg komin. Telji lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leikur á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök. Þyki brot kærða vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar.

Þá hafi lögregla rökstuddan grun um að kærði sé ekki sá sem hann hafi kvaðst vera, en lögregla hafi undir höndum tvö vegabréf í eigu kærða. Á öðru þeirra komi fram að hann heiti [...], ríkisborgari [...], fæddur árið [...]. Sé talið að það sé ófalsað, en lögreglu gruni að kærði sé í raun ríkisborgari [...]. Á hinu segir að kærði heiti [...] og sé frá [...], fæddur [...]. Lögregla hafi fengið staðfest að það sé falsað. Kærði sé með dvalarleyfi hér á landi sem ríkisborgari [...], með nafnið [...]. Sé nú til skoðunar hjá Útlendingastofnun að afturkalla dvalarleyfi kærða. (Mál lögreglu nr. 007-2017-[...] og [...])

Með hliðsjón af því að kærði sé nú undir sterkum grun um tilraun til manndráps séu einnig talin skilyrði uppfyllt til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli þess að hann hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum, sbr. b. lið 1. mgr. 115. gr. útlendingalaga.

Loks sé talið að skilyrði d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt, þ.e. gæsla sé talin nauðsynleg til að verja brotaþola fyrir frekari árásum sakbornings, en til viðbótar við ofangreint mál sé hann einnig undir grun um að hafa oftar en einu sinni veist að brotaþola með ofbeldi á tímabilinu frá 17. janúar sl. til 14. nóvember sl. Brotaþoli dvelji nú í kvennaathvarfinu af ótta við kærða. (Mál lögreglu nr. 007-2017-[...])

Sakarefni málsins sé talið varða við 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en til vara d-lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga og a. og b. lið 1. mgr. 115. gr. útlendingalaga nr. 80/2016, gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Niðurstaða dómara:

Með dómi Hæstaréttar Íslands 5. desember 2017 var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 15. desember nk. hafnað. Krafa sóknaraðila var reist á a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og a. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Í dómi Hæstaréttar er fallist á með héraðsdómi að varnaraðili væri undir rökstuddum grun um brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þannig að fullnægt væri fyrra skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að hann sæti í gæsluvarðhaldi. Á hinn bóginn væri til þess að líta að tekin hefði verið skýrsla af brotaþola og allsendis óljóst af kröfugerð sóknaraðila hvaða vitnaskýrslur ætti eftir að taka þannig að varnaraðili gæti torveldað rannsókn málsins gengi hann laus. Þá var kröfu sóknaraðila samkvæmt a. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 einnig hafnað, þar sem sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á með nokkrum gögnum að varnaraðili væri undir rökstuddum grun um að hafa gefið rangar upplýsingar um hver hann væri, þannig að fullnægt væri skilyrði laganna til að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Í kröfu sóknaraðila sem hér er til meðferðar krefst sóknaraðili þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en til vara á grundvelli d. liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga og a. og b. liðum 1. mgr. 115. gr. útlendingalaga nr. 80/2016.

Í kröfugerð sóknaraðila er m.a. vísað til áðurgreinds áverkavottorðs réttarmeinafræðings, dags. 4. desember sl. Í því kemur m.a. fram að á varnaraðila hafi verið merki um marga höggáverka á ýmsum hlutum líkamans. Á hlið hálsins, einkum hægra megin hafi greinst rauðar litabreytingar á hörundi, sem „má túlka sem kyrkingarummerki, sem líklegast samsvara stöðu upphandleggs og framhandleggs við kyrkingartak.“

Einnig vísar sóknaraðili til framburða tveggja vitna sem gáfu skýrslu hjá lögreglu 6. og 7. desember sl. Í vitnaskýrslu 6. desember sl., kom m.a. fram að vitnið hafi heyrt svofelld öskur: „get ekki andað, get ekki andað“ og „hann var að reyna að drepa mig – hann var að kyrkja mig“. Í vitnaskýrslu, dags. 7. desember sl., kveðst vitni hafa séð stúlku sem eigi erfitt með að ná andanum. Veita vitni þessi vissa stoð fyrir framburði brotaþola.

Þá hefur sóknaraðili ennfremur lagt fram læknisvottorð sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild LSH, dags. 7. desember 2017, sem skoðaði brotaþola við komu á bráðamótttöku að morgni, 3. desember sl. Í vottorðinu segir m.a. að ekki sé að finna áverkamerki á höfði, augu séu eðlileg að sjá án merkja um blæðingu í hvítu. Einnig segir þar svo: „Skoðun á háls, ekki að sjá bólgu, mar eða klórför. Ekki þreifieymsli yfir hryggjartindum né eymsli við skoðun á hálsi að öðru leyti.“

Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, er heimilt að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, þótt skilyrði a-d- liðar 1. mgr. lagagreinarinnar séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Þegar litið er til rannsóknargagna málsins og þess sem rakið er í greinargerð sóknaraðila verður á það fallist að varnaraðili sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps, sbr. 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn 211. gr. almennra hegingarlaga getur varðað fangelsi ekki skemur en í fimm ár eða ævilangt. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er því fyrir hendi. Brot það sem varnaraðili er grunaður um er ennfremur þess eðlis að ætla verður að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fallist á aðalkröfu sóknaraðila. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði,  X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, til miðvikudagsins 3. janúar nk. kl. 16:00