Hæstiréttur íslands
Mál nr. 562/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 20. desember 2002. |
|
Nr. 562/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hdl.)
|
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. janúar 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að ákærða, X, kt. [...], með lögheimili að [...], en dvalarstað að [...], Reykjavík, verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 31. janúar 2003 kl. 16.
Ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 2. til 13. nóvember síðastliðins á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og frá þeim degi til þessa dags með vísan til c-liðar sama lagaákvæðis. Til meðferðar er í dóminum ákæra á hendur honum vegna sjö auðgunarbrota og brots gegn fíkniefnalöggjöfinni. Við meðferð gæsluvarðhaldskröfu 13. nóvember síðastliðinn játaði ákærði fjögur auðgunarbrotanna. Ákærði er og undir rökstuddum grun um að hafa framið hin tvö. Þá var gefinn út ákæra á hendur honum í dag vegna auðgunarbrots sem hann játaði fyrir dómi 13. nóvember síðastliðinn. Aðalmeðferð hefur verið ákveðin 10. janúar næstkomandi.
Undanfarna mánuði hafa lögregla og dómstólar margoft þurft að hafa afskipti af ákærða vegna ýmissa afbrota. Ákærði hlaut dóm 22. nóvember 2001 fyrir mörg auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot, framin á árinu 2001. Var refsing ákveðin 15 mánaða fangelsi, en þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár. Brotastarfsemi í það skiptið var stöðvuð með því að ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 21. september 2001 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sat hann í gæsluvarðhaldi fram að dómsuppsögu. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 23. maí síðastliðinn á grundvelli a-liðar 103. gr. vegna ætlaðrar aðildar hans að nokkrum þjófnuðum og innbrotum. Var hann dæmdur 4. september síðastliðinn í 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár. Þrátt fyrir framangreind afskipti lögreglu og dómstóla lét ákærði sér ekki segjast og hefur nú rofið skilorð dómsins frá 4. september síðastliðnum. Ákærða var 13. nóvember síðastliðinn birtur dómur frá Noregi, sem kveðinn var upp 22. febrúar á þessu ári, þar sem hann var dæmdur í 6 mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, fyrir kynferðisbrot.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að ákærði hefur haldið áfram brotastarfsemi þrátt fyrir umrædda refsidóma. Má því ætla að hann muni halda áfram afbrotum meðan máli hans er ekki lokið. Brot ákærða varða fangelsisrefsingu ef sönnuð verða. Þykja því vera uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að fallist verði á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir ákærða. Verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 31. janúar 2003 kl. 16.