Hæstiréttur íslands

Mál nr. 299/2014


Lykilorð

  • Ærumeiðingar


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 299/2014.

 

Reynir Traustason og

Jón Trausti Reynisson

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Hans Aðalsteini Helgasyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

Ærumeiðingar.

H höfðaði mál á hendur R og J vegna umfjöllunar um hann í DV þar sem fjallað var um liðsmenn félaga sem lögregla hefði sett á lista yfir samtök sem stundi skipulagða glæpastarfsemi og birtar upplýsingar um mánaðarlegar tekjur nafngreindra einstaklinga miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra. H taldi mega skilja orð greinarinnar þannig að hann tengdist skipulagðri glæpastarfsemi og krafðist þess að nánar tilgreind ummæli hennar yrðu ómerkt og J og R dæmdir til refsingar vegna þeirra. Þá krafðist hann miskabóta úr hendi J og R og þess að forsendur og dómsorð yrðu birt í DV að viðlögðum dagsektum. Í dómi héraðsdóms var talið að hluta ummælanna mætti skilja þannig að H væri tengdur samtökum sem orðuð væru við skipulagða glæpastarfsemi. Engin haldbær gögn lægju fyrir um að H hefði verið meðlimur í slíkum samtökum og því hefðu ummælin falið í sér ærumeiðandi aðdróttun, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Voru ummælin því ómerkt og J og R dæmdir til greiðslu sektar vegna þeirra. Hæstiréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að ummælin hefðu verið réttlætanleg í ljósi atvika. Var í því sambandi m.a. vísað til þess að H hefði hlotið dóm í fjársvikamáli þar sem í hlut áttu einstaklingar tengdir vélhjólaklúbbnum Fáfni og að umræddur klúbbur tengdist samtökunum Hells Angels sem legðu stund á skipulagða glæpastarfsemi. Því hefði ekki verið rangt með farið í greininni þegar sagt hefði verið að H væri meðal manna sem opinberlega hefðu verið kenndir við samtök sem tengdust skipulagðri glæpastarfsemi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. maí 2014. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málið á rætur að rekja til þess að grein var birt í helgarblaði DV 3. til 7. ágúst 2012 og var höfundur hennar ekki nafngreindur, en stefndi kveður áfrýjendur hafa verið ritstjóra blaðsins á þeim tíma og beri þeir því ábyrgð á greininni. Fyrirsögn hennar var „Láglaunamenn í undirheimum“ og undirfyrirsögn „Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há“. Stefndi telur þessi orð í fyrirsögnum fela í sér meiðyrði í sinn garð og snúa dómkröfur hans meðal annars að þeim en því sama gegni um tiltekin önnur ummæli sem birtust í greininni. Að því leyti sem umrædd grein gæti varðað stefnda hljóðaði meginmál hennar á eftirfarandi hátt og eru hér auðkennd með hallandi letri þau ummæli í henni sem dómkröfur hans taka til: „Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra. DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna. Í ljós kom að aðeins einn einstaklingur af sautján sem flett var upp er með launatekjur sem nema meira en 400 þúsund krónum á mánuði … Hans Aðalsteinn Helgason var tekjuhæstur af fimmmenningunum sem ákærðir eru fyrir að svíkja milljónir út úr Íbúðalánasjóði. Laun Hans voru 276.656 krónur á mánuði í fyrra samkvæmt skattstjóra ... Fjársvikamál fimmmenninganna er talið hafa verið síðasta prófraun Fáfnis til að fá inngöngu í samtökin Vítisengla. Málarekstri er ekki lokið en málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness … Tölurnar byggja á útreikningum út frá útsvarsstofni einstaklinganna miðað við upplýsingar sem fram koma í álagningarskrá ríkisskattstjóra. Fjármagnstekjur og verktakatekjur koma ekki fram í þessum upplýsingum og eru því tölurnar sem hér koma fram ekki endilega tæmandi. Við gerð listans var farið yfir þau nöfn sem komið hafa fram opinberlega og tengjast einhverjum af þeim hópum sem lögreglan fjallaði um í skýrslu sem gerð var um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. öðru leyti var engin sérstök regla á því hverjir fóru á listann og hverjir ekki. Ekki er hægt að fullyrða að allir þeir sem eru á listanum hafi gerst brotlegir við lög þó að þeir tengist umræddum hópum.“ Neðan við meginmál greinarinnar var listi með nöfnum sautján manna undir fyrirsögninni „Laun í undirheimum“ og skýringunni „þúsundir króna á mánuði“. Í næst efstu línu listans sagði: „Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277“. Dómkröfur stefnda í málinu taka jafnframt til fyrirsagnarinnar sem áður var greind og tilvitnaðra orða um hann á fyrrgreindum lista.

Sýknukrafa áfrýjenda er meðal annars reist á því að flest hinna tilgreindu ummæla í greininni séu almenns eðlis, að þau beinist ekki sérstaklega að stefnda og séu því hvorki ólögmæt né ærumeiðandi í hans garð, auk þess sem þau ummæli sem beinist gagngert að stefnda séu bæði sönn og rétt og því með öllu réttlætanleg.

II

Samkvæmt gögnum málsins birtist 2. febrúar 2002 á vefmiðlinum mbl.is frétt þess efnis að nítján meðlimir samtaka danskra Vítisengla hefðu komið til landsins en ellefu þeirra ekki lengra en í Leifsstöð þar sem þeim hefði verið neitað um leyfi til að fara inn í landið. Í sömu frétt var haft eftir ríkislögreglustjóra að lögregla liti svo á að Vítisenglar væru skipulagður glæpahópur. Lögreglu hefði skömmu áður borist upplýsingar um það frá dönsku lögreglunni að Vítisenglar hygðust ná fótfestu hér á landi í gegnum vélhjólaklúbbinn Fáfni. Vítisenglar hefðu áður heimsótt félaga í Fáfni sem hafi verið undir stöðugu eftirliti lögreglu síðustu daga og hún fylgdist grannt með þeim átta sem hefði verið hleypt inn í landið. Í fréttinni var haft eftir nafngreindum talsmanni Fáfnis að vítisenglarnir sem hingað komu tilheyrðu klúbbi Vítisengla í Kaupmannahöfn og væri um vinaklúbb Fáfnis að ræða. Það væri opinbert markmið Fáfnis að gerast meðlimir í Vítisenglum og búið væri að sækja um inngöngu. Heimsókn dönsku vítisenglanna hafi ekki verið formlegur liður í innlimun Fáfnis í samtökin ytra en vissulega væru öll samskipti liður í því.

Á vefmiðlinum vísir.is. birtist 11. apríl 2008 frétt undir fyrirsögninni „Fáfnismenn formlega teknir inn í Hells Angels fjölskylduna.“ Sagði í fréttinni að Fáfnir hafi fengið nafnbótina „áhangendur“ hjá alþjóðlegu mótorhjólasamtökunum Hells Angels. Nafngreindur félagsmaður í Fáfni staðfesti þetta og sagði fyrsta skrefið af þremur en með því væru þeir „komnir inn í fjölskylduna.“ Þá sagði að næsta skrefið í ferlinu væri að fá nafnbótina „tilvonandi“ og að síðustu yrðu menn fullgildir meðlimir í Hells Angels. Þegar að því kæmi myndu Fáfnismenn leggja niður Fáfnis nafnið og væntanlega taka upp „Hells Angles Iceland“. Sami vefmiðill birti 1. júlí 2008 frétt undir fyrirsögninni „Fáfnir í formlegum tengslum við alþjóðleg glæpasamtök.“ Þar var vitnað til nýrrar skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi þar sem fram kæmi að Fáfnir hefði stofnað til formlegra tengsla við skipulögð alþjóðleg glæpasamtök með því að gerast stuðningsklúbbur Hells Angels. Hafi samtökin um langt skeið haft áhuga á að ná fótfestu á Íslandi og væri sá áhugi gagnkvæmur því leiðtogar Fáfnis hafi á síðustu árum sótt fast að fá aðild að Hells Angels. Stór vélhjólagengi á borð við Hells Angels og Bandidos, sem haldi uppi skipulagðri glæpastarfsemi, væru alþjóðlegt vandamál og leitist þau við að auka umsvif sín og stækka áhrifasvæði. Mörg samtakanna tengist fjárkúgunum, ofbeldi, fíkniefnaviðskiptum, vopnasmygli, skipulagningu vændis og mansali. Með því að Fáfnir hafi gerst stuðningsklúbbur Hells Angels hafi hópur manna sem ítrekað hafi komist í kast við lögin hér á landi stofnað til formlegra tengsla við skipulögð alþjóðleg glæpasamtök.

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá febrúar 2009 var fjallað um vélhjólagengi og sagt að Fáfnir hafi hlotið viðurkenningu sem stuðningsklúbbur Hells Angels hér á landi. Þar með hefði hópur manna á Íslandi stofnað til formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök og fyrir lægi að félagar í Fáfni stefndu að fullri aðild að Hells Angels. Alls staðar þar sem þau samtök hafi náð að skjóta rótum hafi aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið.

Vefmiðillinn visir.is birti 12. ágúst 2009 frétt undir fyrirsögninni „Lánasjóðssvikarar vildu komast í Fáfni.“ Þar sagði að mennirnir „sem sviku út fjörutíu milljónir króna úr Íbúðalánasjóði eru allir tengdir vélhjólaklúbbnum Fáfni. Þeir tilheyra svokölluðum „wannabe´s“ hópi sem leysir verkefni fyrir klúbbinn með það að markmiði að verða meðlimir í honum. Mennirnir komu sér í stjórn tveggja eignarhaldsfélaga án vitneskju stjórnenda þeirra og seldu svo tvær íbúðir í miðbæ Reykjavíkur sem voru í eigu félaganna. Þeir fölsuðu kaupsamninga og notuðu nöfn tveggja einstaklinga við kaupin en svo virðist sem þeir hafi verið valdir af handahófi.“ Aðferðum þeirra við svikin var nánar lýst og fréttinni lauk með því að sagt var að þeir fjórir „sem þetta framkvæmdu eru allir rétt um tvítugt. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir allir tengdir vélhjólaklúbbnum Fáfni og tilheyra svokölluðum „wannabe´s“ hópi. Sá hópur fær verkefni til að sanna sig fyrir klúbbnum með það að markmiði að verða meðlimir í honum. Mennirnir hafa nú allir verið látnir lausir úr gæsluvarðhaldi.“ Vefmiðillinn pressan.is birti sama dag frétt undir fyrirsögninni „Tvítugir svikarar sem fengu 40 milljóna lán hjá Íbúðalánasjóði eru tengdir Fáfni“ og var hún sama efnis og síðastgreind frétt á visir.is.

Fréttablaðið birti 1. september 2009 forsíðufrétt undir fyrirsögninni „Sviku sig inn í Vítisenglana.“ Í undirfyrirsögn sagði að „Tugmilljónasvik út úr Íbúðalánasjóði eru talin hafa verið síðasta prófraunin sem vélhjólaklúbburinn Fáfnir þurfti að standast til að fá aðild að alþjóðasamtökum Hells Angles. Ríkislögreglustjóri vill banna klúbbinn.“ Í fréttinni sagði meðal annars að fjórir „menn um tvítugt, sem allir tengjast Fáfni, sátu um skeið í gæsluvarðhaldi vegna svikanna sem voru afar flókin. Fimmti maðurinn var síðan handtekinn á dögunum, grunaður um að hafa stýrt fjórmenningunum. Sá er eldri bróðir eins þeirra og einnig tengdur Fáfni. Það er alþekkt að Vítisenglar láti umsækjendur sanna sig með því að fremja afbrot af þessu tagi ... Fáfnisliðar sóttu nýverið fund Vítisengla í Englandi og sneru aftur þaðan sem aðilar að samtökunum. Í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra er fullyrt að Fáfnir muni að óbreyttu geta sótt um fulla aðild að Vítisenglum á seinni hluta næsta árs.“

Vefmiðillinn visir.is birti 1. september 2009 frétt undir fyrirsögninni „Sviku sig inn í Vítisenglana.“ Þar sagði að Fáfnir hafi „verið lagður niður og hefur hlotið formlega stöðu sem stuðningsklúbbur Vítisengla. Hann hefur nú tekið upp nafn Vítisenglanna, eða Hells Angels.“ Í framhaldinu var vitnað til fyrrgreindrar fréttar 12. ágúst 2009 um svik úr Íbúðalánasjóði og sagt að samkvæmt „heimildum Fréttablaðsins innan úr lögreglunni er talið að tugmilljónasvik nokkurra ungra manna út úr Íbúðalánasjóði og tveimur hlutafélögum ... hafi verið lokaprófið sem samtökin alþjóðlegu lögðu fyrir Fáfnisliða áður en þeim var veitt aðild. Fjórir menn um tvítugt, sem allir tengjast Fáfni, sátu um skeið í gæsluvarðhaldi vegna svikanna, sem voru afar flókin ... ríkislögreglustjóri segir lögreglu líta málið alvarlegum augum í ljósi þess að fyrir liggur að Vítisenglar eru skilgreindir sem skipulögð glæpasamtök.“ Vefmiðillinn pressan.is birti einnig þennan dag frétt um sama efni undir fyrirsögninni „Talið að ungu fjársvikararnir séu aðeins peð fyrir hærra setta glæpamenn.“ Þá birti pressan.is einnig tvær aðrar fréttir þennan dag þar sem umfjöllunarefnið var hið sama. Fyrirsögn annarrar var „Fáfnismenn grunaðir um milljóna svik úr Íbúðalánasjóði fyrir aðild að Vítisenglum“. Þar var vitnað til fréttar Fréttablaðsins þennan sama dag og sagt að fjórir menn um tvítugt, tengdir Fáfni, hafi setið í gæsluvarðhaldi um tíma vegna svikanna sem hafi verið mjög flókin. Fimmti maðurinn sem væri eldri bróðir eins hinna fjögurra hafi verið handtekinn síðar, grunaður um að hafa stýrt Fáfnismönnunum, en hann tengdist einnig vélhjólaklúbbnum. Fyrirsögn hinnar fréttarinnar var „50 milljóna svik hjá Íbúðalánasjóði voru inntökupróf í Vítisenglana“ og var hún efnislega samhljóða fyrri fréttinni.

Í Fréttablaðinu 12. september 2009 birtist frétt undir fyrirsögninni „Bræðralag eða bófagengi?“ Var þar meðal annars greint frá því að Fáfnir hefði hlotið stöðuhækkun í Hells Angels samtökunum og kallist nú Hells Angels Prospect. Af því tilefni hafi ríkislögreglustjóri gefið út „heljarinnar yfirlýsingu um ógnirnar sem að þjóðfélaginu steðjuðu vegna þessa og lagði til að klúbbar af þessu tagi yrðu hreinlega bannaðir með lögum.“ Í greininni sagði að getur hafi verið að því leiddar „að tugmilljónasvik nokkurra ungra manna úr Íbúðalánasjóði hafi verið að undirlagi Fáfnisliða, jafnvel til að liðka fyrir stöðuhækkun klúbbsins hjá Vítisenglunum. Samkvæmt heimildum blaðsins hefur lögreglan nú horfið frá þessari skoðun og lítur svo á að svikin hafi líklega verið verk áhangenda Fáfnis, sem vildu ganga til liðs við klúbbinn.“

Vefmiðillinn dv.is birti 4. mars 2011 frétt undir fyrirsögninni „Hells Angels MC Iceland: Við erum orðnir fullgildir meðlimir“. Í upphafi fréttarinnar var haft eftir nafngreindum forsvarsmanni mótorhjólaklúbbsins MC Iceland að þeir væru „orðnir fullgildir meðlimir. Hells Angels MC Iceland!“ Síðar í fréttinni sagði að í upphafi árs 2008 „stofnaði MC Iceland (sem áður hét Fáfnir) til formlegra tengsla við Hells Angels með því að gerast stuðningsklúbbur samtakanna, sem skilgreind eru sem alþjóðleg glæpasamtök ... Árið 2009 lagði klúbburinn á Íslandi formlega niður nafnið Fáfnir og tók upp opinbera nafnið MC Prospect of Hells Angels Iceland.“

III

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2012 var stefndi dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna peningaþvættis í tengslum við fjársvikamál það sem tengdist Íbúðalánasjóði og skírskotað var til í grein DV 3. til 7. ágúst 2012, en ákæra í því máli var gefin út 9. mars sama ár. Í forsendum dómsins sagði um þátt stefnda í málinu að í „ljósi þess að um verulegar fjárhæðir var að ræða, frá mönnum sem ákærði vissi að stóðu illa fjárhagslega og voru í fíkniefnaneyslu, er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærða hlaut að vera ljóst að um ólögmætt fé var að ræða. Þar sem ekki verður fullyrt um það hvort ákærða hafi verið ljóst að um ávinning af auðgunarbroti var að ræða en ekki einhverri annarri ólögmætri háttsemi, s.s. fíkniefnaviðskiptum, verður brot hans heimfært undir ákvæði um peningaþvætti, sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 10/1997.“ Dómi þessum var ekki áfrýjað.

Stefndi var með dómi Héraðsdóms Vestfjarða 28. október 2009 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og fyrir umferðarlagabrot með því að hafa í tvö skipti ekið bifreiðum á of miklum hraða og ófær um að stjórna þeim örugglega vegna áhrifa fíkniefna. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2013 í máli nr. S-314/2012 var stefndi dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en ákæra í því máli var gefin út 16. apríl 2012.

 Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf stefndi skýrslu við aðalmeðferð þessa máls. Þar kom fram að hann væri í vinnu, hefði starfað hjá sama fyrirtækinu síðustu þrjú árin og hvorki verið meðlimur í vélhjólaklúbbnum Fáfni né Hells Angels. Hefði honum verið brugðið þegar hann sá umfjöllun DV um sig. Hefði hann verið lengi að útskýra fyrir foreldrum sínum, vinum og vinnuveitendum að hann væri ekki tengdur fyrrgreindum samtökum. Ekkert samband hefði verið haft við hann af hálfu DV fyrir ritun fréttarinnar. Þá tók hann fram að hann hefði aldrei tengst skipulagðri glæpastarfsemi og aldrei komið í hús Fáfnis en aðspurður kvað hann bróður sinn hafa verið félagsmann í Fáfni.

IV

Við úrlausn málsins verður að virða greinina sem dómkröfur stefnda snúa að sem eina heild og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli sem hann telur fela í sér meiðyrði í sinn garð.

Stefndi var ekki nefndur á nafn í fyrirsögn greinarinnar eða undirfyrirsögn þar sem rætt var um láglaunamenn í undirheimum og opinbera meðlimi í íslenskum undirheimasamtökum. Svo var heldur ekki gert í upphafi meginmáls greinarinnar þar sem sagði að liðsmenn félaga sem lögregla hafi sett á lista yfir samtök sem stundi skipulagða glæpastarfsemi væru ekki með há laun samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra, en blaðið hafi kannað laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafi verið kenndir við slík samtök eða kenndu sig við þau sjálfir, meðal annars liðsmanna Hells Angels. Stefndi var á hinn bóginn nafngreindur síðar í greininni, rætt var um að hann tengdist Hells Angels og tiltekið hverjar mánaðarlegar tekjur hans hafi verið á árinu 2011 miðað við álagningu opinberra gjalda. Mátti stefndi því líta svo á að hann væri meðal þeirra sem fyrrgreindum ummælum var beint að.

Af upphafsorðum í meginmáli greinarinnar er ljóst að með „undirheimasamtökum“ sem svo voru nefnd í undirfyrirsögn hennar hafi verið átt við félög sem íslensk lögregluyfirvöld hafi sett á athugunarlista yfir samtök sem stunduðu „skipulagða glæpastarfsemi“ eða tengdust henni, en til þeirra teldust meðal annarra Hells Angels auk „stuðningsklúbba þessara félaga“. Af því sem áður hefur verið rakið er sýnt að vélhjólaklúbburinn Fáfnir hafði að mati lögreglu allt frá árinu 2002 verið í tengslum við samtökin Hells Angels og var að auki á þeim tíma viðurkennt af hendi vélhjólaklúbbsins að hann hafi sótt um inngöngu í þau. Í apríl 2008 staðfesti forráðamaður klúbbsins opinberlega að hann hafi fengið inngöngu „í Hells Angels fjölskylduna“ og í september 2009 voru fluttar af því fréttir að heiti hans hafi verið breytt því til samræmis. Í fyrrnefndum skýrslum ríkislögreglustjóra frá júní 2008 og febrúar 2009 var lagt til grundvallar að samtökin Hells Angels legðu stund á skipulagða brotastarfsemi. Að þessu virtu mátti að ósekju ræða í greininni um vélhjólaklúbbinn Fáfni, hvort sem er undir því nafni eða öðru heiti sem hann kann síðar að hafa tekið upp, sem undirheimasamtök og samtök, sem stundi skipulagða glæpastarfsemi eða tengist henni.

Stefndi lýsti því sem áður segir fyrir dómi að hann hafi hvorki verið félagsmaður í vélhjólaklúbbnum Fáfni né Hells Angels en sagði bróður sinn hafa verið félagsmann í Fáfni. Ekki getur ráðið úrslitum hvort stefndi var formlega séð meðlimur í umræddum samtökum því í greininni sagði að DV hefði kannað laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hefðu verið kenndir við eða kenndu sig sjálfir við samtök sem sögð væru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt því sem áður er rakið var ítrekað fjallað í fjölmiðlum í ágúst og september 2009 um fjársvikamál sem varðaði Íbúðalánasjóð og rætt um að þeir sem hafi átt þar í hlut væru tengdir vélhjólaklúbbnum Fáfni. Kom einnig fram að þetta ætlaða brot hafi tengst viðleitni klúbbsins til að fá inngöngu í samtökin Hells Angels. Áður en greinin sem mál þetta varðar var birt í DV hafði stefndi verið borinn sökum um hlut að þessu broti með ákæru sem var gefin út 9. mars 2012 og var hann síðan sem áður segir sakfelldur fyrir það. Í tengslum við sakamálið var stefndi nafngreindur í fjölmiðlum. Af þessu er ljóst að á engan hátt var rangt með farið í greininni þegar sagt var að stefndi væri meðal manna sem opinberlega höfðu verið kenndir við samtök sem tengdust skipulagðri glæpastarfsemi. Stefndi hefur ekki andmælt því sérstaklega að ályktun í greininni um fjárhæð tekna hans á árinu 2011 hafi verið rétt ef miðað var við álagningarskrá. Því fer fjarri að skilja megi umfjöllun í greininni um tekjur hans á þann veg að þar hafi verið átt við ábata af brotastarfsemi, svo sem hann heldur fram í málinu, enda var að auki tekið fram í niðurlagi hennar að ekki væri hægt að fullyrða að allir sem á listanum væru hafi gerst brotlegir við lög. Ummælin sem hér hefur verið fjallað um voru þannig réttmæt í því samhengi sem þau voru sett fram.

Samkvæmt öllu framangreindu verða áfrýjendur sýknaðir af kröfum stefnda. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, eru sýknir af kröfum stefnda, Hans Aðalsteins Helgasonar.

Stefndi greiði áfrýjendum hvorum fyrir sig samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2013.

I.

Mál þetta var höfðað 11. desember 2012 og dómtekið 25. nóvember 2013 að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er Hans Aðalsteinn Helgason, til heimilis að Suðurgötu 80, Hafnarfirði, en stefndu eru Reynir Traustason, til heimilis að Aðaltúni 20, Mosfellsbæ og Jón Trausti Reynisson, til heimilis að Vesturgötu 79, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til G, sem birt voru á blaðsíðu 18 í helgarblaði DV, 3.-7. ágúst 2012, verði dæmd dauð og ómerk á grundvelli 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga:

                 „A. Láglaunamenn í undirheimum.

                B. Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há.

                C. Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra.

                D. DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi.

                E. Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels ...

                F. Laun í undirheimum.

                G. Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277.

                Til vara er byggt á því að ofangreind ummæli varði við 234. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á þeim grundvelli verði ummælin dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

                2. Þess er krafist að stefndu verði dæmdir til refsingar fyrir ofangreindar ærumeiðandi aðdróttanir sem tilgreindar eru í stafliðum A til og með G í kröfulið 1 í stefnu, og birtar voru á bls. 18 í helgarblaði DV, 3.-7. ágúst 2012, en stefndu bera refsiábyrgð á ummælunum að lögum sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, sbr., 235. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til vara er byggt á því að hin tilvitnuðu ummæli séu ærumeiðandi móðganir og varði við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.

                3. Þess er krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð krónur 1.000.000,-, með vöxtum skv. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. águst 2012 til 19. nóvember 2012, en með  dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

                4. Þess er krafist að forsendur og dómsorð verði birt í DV eigi síðar en 7 dögum eftir að dómur gengur í málinu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð krónur 50.000,-, fyrir hvern dag sem líður án þess að birting dómsins fari fram.

                5. Þess er krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti. Krafist er 25,5% virðisaukaskatts ofan á dæmdan málskostnað, en stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur.

                6. Sú krafa er gerð að ábyrgð DV ehf., kt. 590310-0420, Tryggvagötu 11, Reykjavík, á greiðslu skaðabóta stefndu til stefnanda, verði viðurkennd.“

                Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu.

II.

Málavextir eru þeir að á bls. 18 í helgarblaði DV, 3.-7. ágúst 2012, var umfjöllun með fyrirsögninni Láglaunamenn í undirheimum – Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há. Í blaðinu voru einnig eftirfarandi ummæli látin falla, sem krafist er ómerkingar á: Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra. DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels [...] Í blaðinu er birtur listi yfir laun 17 einstaklinga með fyrirsögninni Laun í undirheimum – þúsundir króna á mánuði [...]Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277 [...]

                Í umræddri blaðagrein er fjallað um laun tilgreindra einstaklinga sem ætlað er að hafi tengsl við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Er gerð grein fyrir launum viðkomandi einstaklinga samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra og síðan rakin tengsl þeirra við einstök mál sem eru til meðferðar í réttarkerfinu, svo sem vegna þess að gefin hafi verið út ákæra á hendur viðkomandi eða þeir hlotið refsidóma.

                Um stefnanda sérstaklega segir eftirfarandi í blaðagreininni: Næstur á listanum er rúmlega tvítugur karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir fjársvik eftir að hafa svikið um það bil 20 milljónir út úr Íbúðalánasjóði ásamt fjórum öðrum karlmönnum. Hann var með 277 þúsund krónur í mánaðarlaun á síðasta ári samkvæmt álagningarskrá. [...] Hans Aðalsteinn Helgason var tekjuhæstur af fimmmenningunum sem ákærðir eru fyrir að svíkja milljónatugi út úr Íbúðalánasjóði. Laun Hans voru 276.656 krónur á mánuði í fyrra samkvæmt skattstjóra. [...]Fjársvikamál fimmmenninganna er talið hafa verið síðasta prófraun Fáfnis til að fá inngöngu í samtökin Vítisengla. Málarekstri er ekki lokið en málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

                Fram kemur í blaðagreininni að upplýsingar um laun byggi á útreikningum út frá útsvarsstofni einstaklinganna miðað við upplýsingar sem fram koma í álagningarskrá ríkisskattstjóra. Er tekið fram að fjármagns- og verktakatekjur komi ekki fram í upplýsingunum. Þá segir að við gerð listans hafi verið farið yfir þau nöfn sem komið hafi fram opinberlega og tengist einhverjum af þeim hópum sem lögreglan hafi fjallað um í skýrslu sem gerð var um skipulega glæpastarfsemi á Íslandi. Að öðru leyti hafi engin sérstök regla verið á því hverjir hafi farið inn á listann. Þá var tekið fram í niðurlagi greinarinnar að ekki væri hægt að fullyrða að allir þeir sem væru á listanum hefðu gerst brotlegir við lög þó að þeir tengdust umræddum hópum.

                Þann 19. október 2012 sendi lögmaður stefnanda bréf til DV ehf., þar sem krafist var afsökunarbeiðni og leiðréttingar á efni greinarinnar, auk greiðslu miskabóta. Þá var krafist upplýsinga um hver væri ábyrgur fyrir fréttinni með vísan til 3. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011. Kom fram í bréfinu að stefnandi væri starfsmaður Promens þar sem hann starfaði sem verkamaður á næturvöktum og að þau laun sem gerð væru að umtalsefni í umræddri blaðagrein væru laun hans fyrir þau störf. Var DV ehf. veittur frestur til 23. október 2012 til þess að verða við kröfum stefnanda. Engin svör bárust frá stefndu við bréfi stefnanda.

                Með dómi Héraðsdóms Reykjaness, dags. 30. október 2012, í málinu S-211/2012, var stefnandi dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna peningaþvættis, í tengslum við svonefnt Íbúðalánasjóðsmál. Kom fram í dóminum að stefnandi hefði ekki haft neinn ávinning af brotinu.

                Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kom þar fram að hann væri í vinnu og hefði starfað hjá sama fyrirtæki sl. þrjú ár. Hann kvaðst aldrei hafa verið meðlimur í Fáfni eða Hells Angels. Honum hefði verið brugðið þegar hann sá umfjöllun um sig í DV. Hann hafi verið lengi að útskýra fyrir foreldrum, vinum og vinnuveitanda að hann væri ekki tengdur þessum samtökum. Ekkert samband hefði verið haft við hann fyrir ritun fréttarinnar af hálfu DV. Tók stefnandi fram að hann hefði aldrei tengst skipulagðri glæpastarfsemi. Hann hefði aldrei komið í félagshús Fáfnis, en aðspurður kvað stefnandi bróður sinn hafa verið í Fáfni.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndu hafi vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda með ummælum og umfjöllun um hann í DV, 3.-7. ágúst 2012. Í umfjöllun DV í heild, einstökum ummælum, fyrirsögnum, millifyrirsögnum og framsetningu efnis felist ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda. Í frétt DV sé því ítrekað haldið fram að stefnandi sé meðlimur í skipulögðum glæpasamtökum og hafi framfleytt sér með háttsemi sem varði við lög, sbr. 175. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Umrædd ummæli verði ekki skilin með öðrum hætti en að stefnandi sé liðsmaður Hells Angels, og laun hans fyrir störf hans í undirheimunum nemi 277.000 krónum á mánuði.

                Ljóst sé að með fyrirsögninni Láglaunamenn í undirheimum og undirfyrirsögninni Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há sé meðal annars átt við stefnanda.

                Verði ekki fallist á að með hinum umstefndu ummælum sé verið að ásaka stefnanda um háttsemi sem varði við 175. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sé engu að síður byggt á því að um refsiverðar ærumeiðandi aðdróttanir sé að ræða enda sé stefnandi berum orðum sakaður um að vera glæpamaður og meðlimur í skipulögðum glæpasamtökum sem og að framfleyta sér með glæpum.

                Öll hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Ummælin séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda, en stefnandi hafi aldrei verið liðsmaður í Hells Angels eða öðrum skipulögðum glæpasamtökum eða haft nokkur tengsl við slík samtök. Á árunum 2008 og 2009 hafi stefnandi í tvígang gerst sekur um hegningarlagabrot sem hann hafi nú hlotið dóm fyrir, en hann hafi verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Stefnandi hafi ekki verið  orðinn tvítugur þegar brotin voru framin og verið í óreglu á þeim tíma. Stefnandi hafi nú bætt ráð sitt og verið í fastri vinnu frá árinu 2010. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Verði ekki fallist á að ummælin varði 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 byggir stefnandi á því til vara, að ummælin varði við 234., sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga og að á þeim grundvelli verði þau dæmd dauð og ómerk.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til refsingar, fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þess sem þau hafi verið birt og borin út opinberlega, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Til vara byggir stefnandi á því að um ærumeiðandi móðganir hafi verið að ræða í skilningi 234. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.

                Kröfu um miskabætur byggir stefnandi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og kröfu um birtingu dóms á 59. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla.

                Krafa stefnanda um viðurkenningu á ábyrgð DV ehf. á greiðslu skaðabóta sem stefndu kann að vera gert að greiða stefnanda er byggð á 2. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011. Ábyrgðin sé lögboðin og taki með hliðsjón af kröfugerð stefnanda í málinu til skaðabóta vegna miska og málskostnaðar.

                Kröfu sína um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á IV. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1. málsl. 4. gr., sbr. 8. gr. laganna, þar sem segi að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Hin umdeilda birting hafi átt sér stað 3. ágúst 2012. Krafa um dráttarvexti er byggð á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, en þar komi fram að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn er mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræðir er miðað við kröfubréf stefnanda til stefndu, dags. 19. október 2012, og er því krafist dráttarvaxta frá 19. nóvember 2012 til greiðsludags.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu telja enga ástæða til að ómerkja ummælin Láglaunamenn í undirheimum.

Krafan sé auk þess of víðtæk því aðeins sé hægt að ómerkja ummæli hvað stefnanda sjálfan varðar. 

                Stefndu telja ummælin Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há ekki beinast sérstaklega að stefnanda og séu þau auk þess almenns eðlis. Stefnandi hafi engin rök fært fyrir kröfu sinni önnur en rangar staðhæfingar um efni ummælanna. Þau fjalli ekki um opinberar launagreiðslur skipulagðra glæpasamtaka, enda tíðkast ekki að þau séu á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra. 

                Íslensk lögregluyfirvöld hafi haft Fáfni, nú Hells Angels, á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi og hafi fullyrðingunni Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra ekki verið hnekkt eða sýnt fram á hvernig hún geti verið með ólögmætum hætti meiðandi í garð stefnanda eða hvernig hann eigi aðild að þessari kröfu.

                Fáfnir hefur verið kennt við skipulagða glæpastarfsemi í umræðunni og stefnandi hefur bæði kennt sig sjálfur við Fáfni og verið kenndur við það félag. DV kannaði laun nokkurra slíkra einstaklinga, það liggi fyrir í greininni og því sannleikanum samkvæmt. Með öllu er útilokað að sjá hvernig hægt er að ómerkja ummælin DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi eða hvernig þau beinast að stefnanda sérstaklega. 

                Ekki verði séð hvernig hægt sé að ómerkja ummæli um að DV hafi kannað tekjur liðsmanna Hells Angels og ekki verði séð hvernig ummæli af þessu tagi vegi sérstaklega að æru stefnanda, hvað þá með ólögmætum hætti. Setningin í heild hljóði eftirfarandi „Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna“. Engin skýring hafi komið fram á því hvernig hægt sé að ómerkja hálfa setningu sem ekki lýsi öðru en réttum staðhæfingum um það sem einhver gerði. 

                Þá verði ekki séð hvernig hægt sé að ómerkja fyrirsögnina Laun í undirheimum. Þetta sé almenn fyrirsögn og hvorki ærumeiðandi né ólögmæt eða beinist sérstaklega að stefnanda.   

                Að lokum telja stefndu að útskýrt hafi verið að stefnandi tengdist Hells Angels m.a. í gegnum Fáfni og hugsanlega á fleiri vegu og verði reynt að afla upplýsinga um það og lögð fram gögn þess efnis jafnskjótt og slíkt komi í ljós.

                Stefndu telja kröfur stefnanda um ómerkingu ummæla verulega vanreifaðar. Stefndu krefjist ekki frávísunar af þeim sökum og dómari verði að skoða það að sjálfsdáðum. Stefndu benda á að ef málsástæður í stefnu til ómerkingar ummæla duga ekki, geti stefnandi ekki á síðari stigum komið með nýjar málsástæður. Verði því jafnharðan mótmælt. 

                Stefndu telja að ekkert í umræddri blaðagrein ætti að valda stefnanda miska a.m.k. sé þar ekkert sem gæti leitt til réttar um miskabætur. Þótt réttur til að leita til dómstóla sé stjórnarskrárbundinn megi ekki misnota hann með því að snúa út úr blaðagreinum og krefjast síðan refsingar og miskabóta á grundvelli þess útúrsnúnings.

Þá sé í stefnu ekki minnst á það sem raunverulega standi í greininni og því refsikrafan með öllu vanreifuð. 

                Engin skilyrði séu til að beita 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda skorti öll huglæg skilyrði til þess. Að því er varði 235. gr., sömu laga hafi engu verið dróttað að stefnanda. Allt sem sagt er sé rétt og réttlætanlegt. Í engum þessara ummæla felist ærumeiðing í skilningi 234. gr. almennra hegningarlaga. Í öllum tilvikum beri að fella niður refsingu á grundvelli 239. gr. almennra hegningarlaga, enda hátterni stefnanda með þeim hætti.  

                Stefndu telja með vísan til framangreinds að engin skilyrði séu til að fallast á kröfu stefnanda um birtingu dóms.

                Stefndu byggja á því að fjölmiðlar hafa víðtækum skyldum að gegna og að  efni af því tagi sem hér um ræðir eigi erindi við almenning. Á slíka umfjöllun verði ekki lagðir fjötrar. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að farið hafi verið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins.

                Stefndu mótmæla kröfu um málskostnað, svo og vaxtakröfu. Krafa um viðurkenningu á ábyrgð DV sé óskiljanleg því DV hafi ekki verið stefnt í málinu. Af þeim sökum sé ekki tilefni til að fjalla um þá kröfu.

IV.

Stefnandi krefst í fyrsta lagi ómerkingar ummæla. Er sú krafa reist á 235. gr. og 2. mgr. 236. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, en til vara á 234. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr., og 1. mgr. 241. sömu laga. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til refsingar. Byggir sú krafa á c-lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, sbr., 235. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara á því að hin tilvitnuðu ummæli séu ærumeiðandi móðganir og varði við 234. gr. sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Í þriðja krefst stefnandi greiðslu miskabóta. Í fjórða lagi krefst stefnandi þess að forsendur og dómsorð verði birt í DV. Að lokum er krafist viðurkenningar á ábyrgð DV ehf. til greiðslu skaðabóta.

                Svo sem að framan greinir birti DV grein þann 3. ágúst 2012 með yfirskriftinni „Láglaunamenn í undirheimum“ og með yfirskriftinni „Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há“. Er krafist ómerkingar á greindum ummælum auk eftirtalinna ummæla í greininni: „Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra.“, „DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi.“, „Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels ...“, „Laun í undirheimum.“ og „ Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277.“

                Stefnandi telur að með ummælunum hafi verið vegið að æru stefnanda, þar sem því sé haldið fram að stefnandi sé meðlimur í skipulögðum glæpasamtökum og hafi framfleytt sér með háttsemi er fari í bága við 175. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Byggir stefnandi á því að öll hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi aðdróttanir er feli í sér brot gegn 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. laga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga, en til vara að ummælin varði við 234. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.

                Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en að hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðanir og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þá er mælt fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem mælir fyrir um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.

                Samkvæmt 234. gr. laga nr. 19/1940 skal hver sá sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

                Í 235. gr. laga nr. 19/1940 er mælt fyrir um að ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári.

                Þá segir í 236. gr. laga nr. 19/1940 að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að tveimur árum og sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

                Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess sem misgert var við. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins má dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim, sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. 

                Við mat á því hvar draga skuli mörkin milli tjáningarfrelsis sem nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr. hennar, skiptir máli hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings. Hafa fjölmiðlar mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni. Á almenningur rétt á að fá upplýsingar sem slík málefni varða og þurfa sérstaklega ríkar ástæður að vera fyrir því að skerðing á frelsi fjölmiðla geti talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi eins og nánar kemur fram í dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. dómi frá 15. nóvember 2012 í máli nr. 69/2012. Slíkar skerðingar geta eftir atvikum átt við séu ósönn ummæli birt eða borin út opinberlega gegn betri vitund.

                Hvort sem efni þeirrar fréttar, sem hér er fjallað um, er metið í heild eða sérstaklega þykir ekki hafa verið sýnt fram á að stefnandi hafi beinlínis verið sakaður um tiltekinn refsiverðan eða ósiðlegan verknað. Er í ljósi þess hafnað aðalkröfu stefnanda um ómerkingu ummæla á grundvelli 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

                Hins vegar er ekki unnt að skilja yfirskriftina ,,Láglaunamenn í undirheimum“ og yfirskriftina „Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há“ og ummælin „Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra“, „DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi“, „Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels ...“, „Laun í undirheimum“ og „ Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277“  sem birtust á bls. 18 í helgarblaði DV, 3.-7. ágúst 2012, öðru vísi en svo að stefnandi sé ýmist tengdur eða þátttakandi með einum eða öðrum hætti í samtökum sem eru víða orðuð við skipulagða glæpastarfsemi. Samkvæmt gögnum málsins og skýringum lögmanns stefnanda fyrir dóminum við munnlegan flutning þess liggja engin haldbær gögn fyrir um að stefnandi hafi verið meðlimur í eða hafi tengst samtökum sem stundi skipulagða glæpastarfsemi eins og látið er í veðri vaka í umræddri blaðagrein. Umfjöllun blaðsins um stefnanda um fyrrgreind atriði var því ósönn og átti ekki við nein rök að styðjast. Teljast fyrrgreind ummælin vera til þess fallin að meiða æru stefnanda með þeim hætti að varði við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Samkvæmt ofanrituðu ber að líta svo á að fyrrgreind ummæli beinist að stefnanda og séu óviðurkvæmileg. Ber að ómerkja þau, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

                Samkvæmt varakröfu stefnanda er þess krafist að stefndu verði látnir sæta refsingu fyrir ærumeiðandi móðganir í garð stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga og fyrir að hafa birt þau og borið út opinberlega, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.

                Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga er verknaður, sem refsing er lögð við í almennum hegningarlögum, ekki saknæmur, nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skal því aðeins refsa, að sérstök heimild sé til þess í lögunum. Fyrir liggur að stefndu höfðu engin haldbær gögn til grundvallar fullyrðingum sínum um tengsl stefnanda við Hells Angels eða önnur samtök sem tengjast skipulögðum glæpasamtökum. Þá leituðust stefndu ekki við að afla upplýsinga hjá stefnanda um réttmæti umfjöllunar þeirra um hann áður en greinin var birt, auk þess sem bréfi lögmanns stefnanda, dags. 19. október 2012, var ekki svarað af þeirra hálfu. Þó að ekki verði fullyrt að það hafi verið beinn ásetningur stefndu að skýra ranglega frá eða að hafa uppi móðganir sem yrðu stefnanda til álitshnekkis, telur dómurinn að stefndu hafi mátt vera ljóst að grundvöllur umfjöllunar þeirra og ályktanir um stefnanda sem þar komu fram voru einungis ályktanir stefndu sem áttu sér enga stoð í gögnum eða öðrum upplýsingum eins og reyndar var staðfest af lögmanni stefndu fyrir dómi. Samkvæmt framangreindu þykja skilyrði til þess að stefndu verði látnir sæta refsingu samkvæmt ákvæði 234. gr. almennra hegningarlaga vera fullnægt. Þykir refsing þeirra hæfilega ákveðin 100.000 krónur.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna. Byggir stefnandi þessa kröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt greindu ákvæði er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Hér að framan hefur dómurinn fallist á að í ummælum í stefnu felist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda. Í ljósi þess er fallist á kröfu hans um greiðslu miskabóta. Eftir atvikum þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Vextir dæmast eins og greinir í dómsorði.

                Dómkröfur stefnanda samkvæmt 4. og 6. kröfulið eru á hendur DV ehf. Þeim aðila hefur ekki verið stefnt í málinu og hann hefur ekki heldur mætt óstefndur og ber því að vísa þessum kröfuliðum frá dómi.

                Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 500.000 krónur.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, hrl.

                Af hálfu stefndu fluttu málið Katrín Smári Ólafsdóttir, hdl.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

                Dómkröfum stefnanda samkvæmt liðum 4. og 6 í stefnu er vísað frá dómi.

Eftirfarandi ummæli, sem birt voru á blaðsíðu 18 í helgarblaði DV ehf., 3-7. ágúst 2012, eru dæmd ómerk að því er stefnanda varðar:

                 „Láglaunamenn í undirheimum“ og

                 „Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há“ og

                 „Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra“ og

                 „DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi“og

                 „Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels ... “ og

                 „Laun í undirheimum“ og

                 „Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277“.

                Stefndu, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson skulu greiða 100.000 krónur í sekt í ríkissjóð.

                Stefndu, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, skulu greiða stefnanda, Hans Aðalsteini Helgasyni, 200.000 krónur í miskabætur, með vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. ágúst 2012 til 19. nóvember 2012, en með  dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

                Stefndu, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.