Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 10. júlí 2007. |
|
Nr. 362/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. júlí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. júlí nk. kl. 16:00.
Krafan er reist á ákvæðum a og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Fyrir dóminum mótmælti kærði kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 345/2007 frá 2. júlí sl. hafi úrskurður héraðsdóms Reykjaness 27. júní sl. verið felldur úr gildi, en með þeim úrskurði hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Kærði hafði þá sætt síbrotagæslu frá 30. janúar sl.
Jafnskjótt og kærði hafi losnað úr ofangreindri gæslu hafi hann haldið brotum sínum áfram.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar eftirfarandi mál sem rökstuddur grunur leikur á að kærði hafi átt aðild að:
„Að hafa þann 4. júlí sl. um kl. 08:56, brotist inn í bifreiðina IY-380, fyrir utan Landspítalann við Hringbraut og tekið þaðan veski. Vitni báru fyrir lögreglu að hafa séð grannan hávaxinn mann með stutt dökkt hár og í dökkum fötum sem hefði brotist inn í bifreiðina, gripið veskið og hlaupið vestur eftir gömlu Hringbraut inn á milli trjána. Við leit lögreglu á vettvangi mættu þeir kærða á Bragagötu og átti lýsing vitnisins við kærða. Kærði var á þeim tíma með sjáanlegt blóð á hnúum litlafingurs og baugfingurs vinstri handar og kvaðst aðspurður hafa verið á gangi með tveimur öðrum stúlkum.(007-2007-50701)
Að hafa þann 4. júlí sl., um kl. 09:35, í félagi með tveimur öðrum stúlkum, brotist inn í bifreiðar við Njarðargötu í Reykjavík. (007-2007-50714)
Að hafa þann 5. júlí sl., brotist inn í íbúð við Hrísarima 7 í Reykjavík. Um kl. 16:18 barst lögreglu tilkynning um að einhver hafi verið að reyna að brjótast inn í íbúð við Hrísarima 7 í Reykjavík. Vitni sáu bifreiðina RY-088 sem er skráð á rauða Toytou fara af vettvangi en þeim skráningarnúmerum hafði áður verið stolið. (007-2007-51155)
Að hafa þann 5. júlí sl., í blekkingarskyni, notað skráningarnúmerið RY-088 á bifreið sem bera átti skráningarnúmerið NX-966 og ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. (007-2007-51221). “
Ljóst sé að brýn hætta sé á að kærði haldi áfram afbrotum sínum gangi hann laus. Brotaferill kærða hafi verið samfelldur síðustu mánuði en jafnskjótt og kærði hafi losnað úr gæsluvarðhaldi 2. júlí sl. hafi hann haldið áfram uppteknum hætti. Þá sé kærði í fíniefnaneyslu og mun hafa fjármagnað neyslu sína með auðgunarbrotum.
Rannsókn ofangreindra brota sé á frumstigi. Í þágu rannsóknar málanna sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi, ella kunni hann að hafa áhrif á vitni og /eða samseka. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með dómi Hæstaréttar 2. júlí sl. í máli nr. 345/2007 var felldur úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjaness um að skilyrði væru til að kærði sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sem hann hafði sætt frá 30. janúar sl. Var þá vísað til þess að uppkvaðning dóms í því máli hefði dregist um of. Með vísan til rannsóknargagna þessa máls liggur fyrir að kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið fjögur brot sem teljast brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga og varða fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð. Kærði var handtekinn í gærkvöldi. Ljóst er að rannsókn málanna er á frumstigi og á enn eftir að taka skýrslur af vitnum og hugsanlega samsekum. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en að svo stöddu verður hún grundvölluð á ákvæðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 16. júlí 2007 kl. 16:00.