Hæstiréttur íslands

Mál nr. 303/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. júní 2007.

Nr. 303/2007.

Sigurður Ingi Halldórsson

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Fons Eignarhaldsfélagi hf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

S stefndi F hf. til greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar en krafan var á því reist að skilyrði væru til að breyta umsömdu verði á hlut S í Í ehf. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi þar sem talið var að annmarkar væru á stefnunni og að aðrir aðilar að samningi um verð á hlutum í Í ehf. hefðu átt að eiga aðild að því, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki var á það fallist slíkir annmarkar væru á stefnunni að það varðaði frávísun málsins. Þá var til þess vísað að krafa S væri einungis til hækkunar á umsömdu verði á hlut hans í Í ehf., en þau réttindi hefði hann ekki átt óskipt með öðrum hluthöfum. Yrði því ekki fallist á að samaðildar væri þörf til sóknar í málinu. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili var eigandi að 2,35% hlut í Ísland Express ehf. þegar hann, ásamt tíu öðrum hluthöfum í félaginu, rituðu 16. september 2005 undir samning við Iceland Express Investment S.A. Í samningnum var komist að samkomulagi um verð fyrir hlut hvers og eins fyrrgreindra hluthafa, en Iceland Express Investment S.A. var þá orðinn eigandi að meira en 90% hlutfjár í Ísland Express ehf. og hafði tilkynnt um innlausn á hlutum annarra hluthafa. Tók verðlagning hlutanna mið af því að heildarmat á Íslandi Express ehf. væri 1.100.000.000 krónur og skyldi sóknaraðili fá 25.850.000 krónur fyrir sinn hlut. Í málinu krefst sóknaraðili að varnaraðili greiði sér 21.150.000 krónur til viðbótar við umsamið verð, en aðilar komust að samkomulagi 5. mars 2007 um að varnaraðili kæmi í stað Iceland Express Investment S.A., sem skuldari að hugsanlegum kröfum í tilefni af ofangreindum viðskiptum.

Varnaraðili reisir kröfu sína um frávísun málsins meðal annars á því að stefna sóknaraðila samrýmist ekki kröfum 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglu réttarfars um munnlegan málflutning. Í stefnunni eru málavextir raktir ítarlega í sérstökum kafla og því næst gerð grein fyrir málsástæðum sóknaraðila. Þar er tekinn upp orðréttur texti úr fyrirliggjandi gögnum málsins, sem ekki verður séð að þörf hafi verið á í stefnu, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Af henni verður hins vegar skýrlega ráðið að kröfugerð sóknaraðila er á því reist að skilyrði séu til að breyta umsömdu verði fyrir hlut sóknaraðila í Íslandi Express ehf. til hækkunar er nemi stefnufjárhæð á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að slíkir annmarkar séu á stefnunni að það varði frávísun málsins.

Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína ennfremur á því að þörf sé á samaðild allra þeirra, sem áttu aðild að samningnum 16. september 2005 við Iceland Express Investment S.A, til sóknar í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Eins og rakið hefur verið gerir sóknaraðili aðeins kröfu um hækkun á umsömdu verði á sínum hlut í Íslandi Express ehf., en þau réttindi átti hann ekki óskipt með öðrum hluthöfum. Verður ekki fallist á að samaðildar sé þörf til sóknar í málinu og breytir engu í því sambandi þótt umsamið verð til hvers hluthafa hafi verið reist á almennri forsendu um verðmat einkahlutafélagsins. Með hliðsjón af framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Fons Eignarhaldsfélag hf., greiði sóknaraðila, Sigurði Inga Halldórssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2007.

             Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 14. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Inga Halldórssyni, Langagerði 62, Reykjavík á hendur Fons Eignarhaldsfélagi hf., Suðurgötu 22, Reykjavík, með stefnu birtri  6. mars 2007.

             Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

             Aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 21.150.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. september 2005 til greiðsludags.

             Til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 16.450.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. september 2005 til greiðsludags.

             Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu skv. mati dómsins.

Stefndi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Aðallega að málinu verði vísað frá dómi og stefnda dæmdur málskostnaður.

Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins.

             Í þessum þætti málsins verður krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi krefst þess að þeirri kröfu verði hrundið og honum tildæmdur málskostnaður að skaðalausu að mati dómsins.

Málavextir.

             Með bréfi lögmans Iceland Express Investment hinn 6. júní 2005 var stefnanda tilkynnt um innlausn félagsins á hlutum stefnanda og annarra hluthafa á grundvelli 16. gr. laga nr. 138/1994.

Með bréfi stefnanda 1. júlí 2005 tilkynni hann, að hann myndi ekki sætta sig við innlausnarverðið en óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna af hálfu félagsins sbr. 16. gr. laga nr. 138/1994. Matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir 20. júlí 2005. 

Með bréfi, dags. 16. ágúst 2005, bauð stefnandi, ásamt hluthöfunum, Guðmundi Þór Guðmundssyni og Aðalsteini J. Magnússyni, til lausnar ágreiningi um innlausnarverðið, að Ísland Express yrði í heild metið á 2,2 milljarða.

Með bréfi 29. ágúst 2005 hafnaði lögmaður Iceland Express Investment þessari nálgun varðandi verðmat Ísland Express og ítrekaði fyrri rökstuðning sinn fyrir þegar boðnu innlausnarverði.  Sama dag tilkynnti lögmaður Iceland Express Investment  stefnanda um geymslugreiðslu innlausnarverðs hluta stefnanda. 

Hinn 16. september 2005 var gengið frá samningi milli  Iceland Express Investment, nefndur kaupandi, og þeirra Jóns Bjarna Þórðarsonar, Hákonar Sigurðssonar, Ráðhúss ehf., Guðríðar Einarsdóttur, Helga Baldvinssonar, Guðmundar Þórs Guðmundssonar, Aðalsteins J. Magnússonar, Sigurðar I. Halldórssonar, Gísla V. Halldórssonar, Guðnýjar Eiríksdóttur og Ólafs Haukssonar, nefndir seljendur.  Í samningi þessum var lagt til grundvallar að heildarverðmæti Ísland Express væri 1.100 milljónir króna. Samtals voru greiðslur til allra kaupenda 81.400.000 kr. og kaupverðið skyldi inna af hendi eigi síðar en í lok dags mánudaginn 19. september 2005. Gekk það eftir.

                Hinn 23. mars 2006 lagði stefnandi, ásamt Aðalsteini J. Magnússyni og Guðmundi Þór Guðmundssyni, fram matsbeiðni í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem óskað var eftir að matsmenn létu í té ítarlega, rökstudda og skriflega álitsgerð um hvað mætti ætla að hefði „verið sanngjarnt og eðlilegt verðmæti einkahlutafélagsins Ísland Express ehf. ..... hinn 16. sept. 2005“. Til að framkvæma matið voru kvaddir Heimir Haraldsson, löggiltur endurskoðandi, og Þorsteinn Siglaugsson, fjármálaráðgjafi. Matsgerðin er frá 3. nóvember 2006 og var það niðurstaða matsmanna „að verðmæti allra hluta í einkahlutafélaginu Ísland Express ehf. hafi verið 1.800 milljónir króna á matsdegi, þann 16. september 2005“.

                Í kjölfar niðurstöðu matsgerðarinnar óskaði lögmaður stefnanda eftir samningaviðræðum um leiðréttingu söluverðs í samræmi við fyrirliggjandi mat. Þar sem slíkar umleitanir báru ekki árangur var mál þetta höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun málsins.

Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda samrýmist hvorki 18. né 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

Í fyrsta lagi telur stefndi að stefnandi geti ekki einn höfðað mál til heimtu hærra verðs fyrir þá hluti, sem Iceland Express Investment leysti til sín með samningi við hluthafa Ísland Express hinn 16. september 2005.

Stefnandi hafi ásamt fimm öðrum hluthöfum sameiginlega krafist innlausnar hluta sinna á grundvelli ákvæða laga um einkahlutafélög. Þeir hafi jafnframt óskað eftir því að samið yrði um innlausnarverðið. Næðist ekki samkomulag áskildu þeir sér rétt til að krefjast mats á verðmæti hluta sinna. Beðið var um dómkvaðningu matsmanna. Áður en til mats kom kusu allir hluthafar Ísland Express, sem innlausnarrétt höfðu öðlast á hendur Iceland Express Investment, að semja sameiginlega um verð og aðra skilmála innlausnarinnar og framsals hluta þeirra í Ísland Express til Iceland Express Investment. Verðákvörðunin var ein og óskipt gagnvart öllum innlausnarréttar hluthöfunum, sem jafnframt féllu sameiginlega frá þeim lögboðna rétti sínum að krefjast mats á verðmæti hluta sinna og lýstu því jafnframt yfir sameiginlega að allur ágreiningur aðila um verðmæti hlutaeignar í Ísland Express væri fallinn niður. Af þessu leiðir að einstakir aðilar samningsins frá 16. september 2005 geta ekki síðar krafist annarra og hærri greiðslna sér til handa fyrir innlausnarhlutina.  Stefndi heldur því fram að til breytinga á samningum frá 16. september 2005 þurfi aðild allra þeirra sem hann bindur. Með innlausnarsamningnum frá 16. september 2005 var bundinn endi á allan ágreining milli hlutahafa í Ísland Express um verðmæti innlausnar hlutanna. Eigi að breyta samningi að hluta til eða öllu leyti með atbeina dómstóla þarf samaðild þeirra að viðkomandi dómsmáli, sem samningurinn bindur. Á það skortir í þessu máli og ber því að vísa málinu frá dómi á grundvelli 1. sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Í annan stað byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því, að stefna málsins sé ekki í samræmi við ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefnan sé 16 tölusettar blaðsíður. Af þeim fari 13 blaðsíður í lýsingu málavaxta, málsástæðna og lagaraka. Að stærstum hluta sé þessum 13 blaðsíðum varið í lýsingu málsatvika og málsástæðna, sem feli því í sér skriflegan málflutning. Skriflegur málflutningur er andstæður e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæði þetta býður að lýsing málsatvika og málsástæðna í stefnu skuli vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. 

Stefndi bendir á að þrátt fyrir allt þetta skrifæði í stefnu, eða kannski vegna þessa, sé með öllu óljóst af stefnunni hvert sakarefni máls þessa sé í raun og veru. Þannig lýtur kröfugerð stefnanda að því að fá stefnda dæmdan til að greiða aðallega 21.150.000 kr. en til vara 16.450.000 kr. Ekkert er vikið að því í kröfugerðinni  að stefnandi vilji fá vikið til hliðar að nokkru eða öllu samningi hans og Iceland Express Investment frá 16. september 2005. Allar málsástæður og lagarök stefnanda ganga hins vegar út á að samningnum verði að hluta vikið til hliðar, en stefnandi byggir málssókn sína á því að samningurinn frá 16. september 2005 hafi verið ósanngjarn og/eða andstæður góðri viðskiptavenju. Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefnandi svo einkum til 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Kröfur stefnanda lúta, eins og fyrr segir, ekki að því að víkja samningnum frá 16. september 2005 til hliðar að nokkru eða öllu leyti, heldur að greiðslu tiltekinna fjárhæða byggðum á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Ekki kemur fram í stefnu hvort hér er um skaðabætur innan samninga að ræða eða gjaldfallna skuld. Sé mið tekið af kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta mætti ætla að stefnandi teldi kröfu sína samningsbundna kröfu með fyrir fram ákveðnum gjalddaga, sem hún er ekki.

Stefndi hafnar því að úr þessum ágöllum á málatilbúnaði stefnanda verði bætt með breyttri kröfugerð. Stefndi telur að vísa eigi máli þessu frá dómi, sbr. 80. gr. laga nr. 91/ 1991, fari svo ólíklega að dómur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé nauðsyn samaðildar.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.

                Af hálfu stefnanda er frávísunarkröfu stefnda hafnað. Stefnandi telur að ekki sé nauðsynlegt að allir seljendur félagsins séu aðilar að dómsmáli þessu.  Hann leggur áherslu á það að samningurinn frá 16. september 2005 sé kaupsamningur, en ekki samningur um innlausn. Stefnandi heldur því fram að honum sé heimilt að selja sinn eignarhluta í félaginu og einnig að höfða dómsmál út af þeirri sölu án þess að aðrir seljendur þurfi að vera aðilar að dómsmálinu. Með kröfugerðinni sé stefnandi að krefjast leiðréttingar á samningnum í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar. Stefnandi hafnar því að um óskipt réttindi allra seljenda samkvæmt samningnum sé að ræða.  Þvert á móti liggi fyrir í 8. tl. 1. mgr. 2. gr. samningsins frá 16. september 2005 að réttindin séu skipt en stefnandi sé að selja sinn eignarhluta í félaginu, þ.e. 2.35% á 25.850.000 kr.  Þeim eignarhluta var stefnandi að afsala til viðsemjanda síns.

                Þá hafnar stefnandi því að málatilbúnaður hans fari í bága við 80. gr. laga um meðferð einkamála.  Varðandi grundvöll dómkröfunnar segir stefnandi að hann sé að gera kröfu um leiðréttingu á samningi og fordæmi sé að finna í Hrd. 1995:1175.  

Forsendur og niðurstaða.

                Stefnandi gerir kröfu um greiðslu á tiltekinni fjárhæð og byggir hana á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Ekki kemur fram í stefnu hvort um skaðabætur innan samninga sé að ræða eða skuld stefnda við stefnanda, eða hvers eðlis yfir höfuð krafa stefnanda sé.  Sú skýring í munnlegum málflutningi að stefnandi væri að krefjast leiðréttingar á samningi breytir hér engu. Að mati dómsins er grundvöllur málsins, svo sem hann er lagður í stefnunni, ekki svo skýr sem skyldi og fullnægir stefnan ekki skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 segir að nú eiga fleiri en einn óskipt réttindi eða bera óskipta skyldu, og eiga þeir þá óskipta aðild. Vísa skuli máli frá „ef þeir sem eiga óskipt réttindi sækja ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem á ekki aðild að því“.  Er því dómsins að meta hvort um óskipt réttindi sé að ræða og ef svo er hvort krafa sú sem höfð er uppi í málinu hafi áhrif á hagsmuni annarra seljenda í félaginu. Samkvæmt samningum frá 16. september 2005 er stefnandi einn af ellefu aðilum sem nefndir eru seljendur.  Þá hafa tveir aðrir seljendur höfðað samkynja mál. Í upphafi er rétt að líta til þess, að samningur aðila frá 16. september 2005 á rætur að rekja til þess, að stefnandi ásamt fleiri hluthöfum í Ísland Express ehf. kröfðust innlausnar hjá Iceland Express Investment S.A., en það félag átti meira en 90% hluta í Iceland Express ehf. Var það gert með bréfi 19. maí 2005. Vísuðu bréfritarar til 18. gr. laga nr. 138/1994. Þá kemur fram í bréfinu að ef ekki náist samkomulag um verðmæti félagsins vísist til 16. gr. og 4. mgr. 14. gr. sömu laga. Með samningnum frá 16. september var verið að semja um verðmæti félagsins en ágreiningur er með málsaðilum hvort um innlausnarsamning hafi verið að ræða eða kaupsamning.  Samkvæmt 2. gr. samningsins er samkomulag um að heildarmat Iceland Express skuli verða 1.100 milljónir króna og samkvæmt 5. gr. samningsins er kveðið á um að allur ágreiningur aðila um verðmæti hlutareignar seljenda sé fallinn niður. Þegar litið er til orðalags samningsins telur dómurinn að til að breyta einstökum atriðum hans þurfi aðild allra samningsaðila hans að máli þessu. Krafa stefnanda hefur áhrif á verðmat félagsins og þar með á hagsmuni annarra seljenda. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi. 

                Með vísan til framangreindrar niðurstöðu, sem og 2. tl. 130. gr. laga um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 120.000 kr.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán A. Svensson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl.

Úrskurðinn kveður upp Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

             Málinu er vísað frá dómi. 

Stefnandi, Sigurður Ingi Halldórsson, greiði stefnda, Fons Eignarhaldsfélagi hf. 120.000 kr., í málskostnað.