Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. nóvember 2004.

Nr. 426/2004.

Byggðastofnun

(Garðar Garðarsson hrl.)

gegn

Suðutækni ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

B brast heimild til kæru á úrskurði héraðsdóms þar sem S ehf. var heimilað að leggja fram tíu tilgreind skjöl í máli aðila. Var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. október 2004, þar sem fallist var kröfu varnaraðila um að honum væri heimilt að leggja fram tíu tilgreind skjöl í máli aðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til grunnraka b., c. og q. liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði ekki heimilað að leggja fram umrædd skjöl.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með dómi Hæstaréttar 5. febrúar 2004 í máli nr. 307/2003 var dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli aðila ómerktur og því vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Suðurlands 5. maí 2004 óskaði lögmaður varnaraðila eftir því að fá að leggja fram gögn sem hann hafði sent Hæstarétti vegna áfrýjunar málsins og höfðu ekki áður komið fram í héraði. Vegna mótmæla sóknaraðila var málinu frestað til munnlegs málflutnings um þetta atriði. Var hinn kærði úrskurður kveðinn upp í framhaldi af því.

Heimildir til að kæra til Hæstaréttar úrskurð, sem héraðsdómari kveður upp í einkamáli, eru tæmandi taldar í 143. gr. laga nr. 91/1991. Fyrrnefndur úrskurður varðar hvorki skýrslugjöf aðila og vitna fyrir dómi né matsgerðir í máli aðila eða hvort dæmt mál verði endurupptekið. Verður kæra því ekki reist á b., c. eða q. liðum 1. mgr. 143. gr. laganna eins og sóknaraðili krefst. Í þeirri grein verður heldur ekki fundin önnur stoð fyrir heimild til kæru í máli þessu. Brestur þannig heimild fyrir kæru sóknaraðila og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Mál þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Byggðstofnun, greiði varnaraðila, Suðutækni ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. október 2004.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 23. september sl.

Stefnandi er Suðutækni ehf., Hringbraut 97, Reykjavík.

Stefndi er Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki.

Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að fá að leggja fram tíu skjöl, sbr. lista á dskj. nr. 39.

Stefndi krefst þess að hafnað verði framlagningu tilgreindra skjala.

Mál þetta var upphaflega höfðað 2. apríl 2002 og dæmt 9. maí 2003. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 5. febrúar sl var málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju, þar sem ekki hafði verið gætt formsatriða samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (eml.). Þegar málið var tekið fyrir í héraði 5. maí sl. óskaði lögmaður stefnanda eftir því að fá að leggja fram gögn sem hann hafði sent Hæstarétti vegna áfrýjunar málsins, en sem ekki höfðu áður komið fram í héraði. Af hálfu stefnda var því mótmælt að ný gögn kæmust að í héraði. Var málinu frestað til munnlegs málflutnings um þetta atriði, en er að honum kom varð að fresta málinu óákveðið vegna veikinda á lögmannsstofu stefnda.

 

Málsástæður og lagarök aðila.

Stefnandi rökstyður kröfu sína með vísan til þess að gögnin hafi verið lögð fyrir Hæstarétt í samræmi við d lið 2. mgr. 156. gr. eml. innan tilskilins frests, sbr. 160. gr. eml. Hann kveður gögn þau sem óskað er framlagningar á öll vera til frekari upplýsingar og skýringar málsins og vera hluti af því. Hæstiréttur myndi hafa haft hliðsjón af þessum gögnum. Telur hann héraðsdóm ekki geta lagt dóm á málið nú án þess að taka mið af öllum þeim gögnum sem málið varði. Verði málinu áfrýjað að nýju til Hæstaréttar, megi vænta að þess gögnin komist þar að, jafnvel þótt því yrði mótmælt af hálfu stefnda, sbr. niðurstöðu í hæstaréttarmálum nr. 443/2003 og nr. 98/2001. Með gögnum þessum sé ekki verið að setja fram nýjar málsástæður, heldur sé verið að mæta athugasemdum í greinargerð stefnda til Hæstaréttar og auka á skýrleika málsins. Framangreind lagaákvæði auk 76. gr. eml. styðji að heimild sé til framlagningar gagnanna.

Stefndi mótmælir framlagningu skjalanna. Hann kveður gagnaöflun hafa verið lokið í héraði, málið þar munnlega flutt og dómur uppkveðinn. Dóminum hafi síðan verið áfrýjað til Hæstaréttar. Stefnandi hafi skilað til Hæstaréttar greinargerð ásamt þremur nýjum skjölum, en daginn fyrir ætlaðan málflutning hafi hann sent inn lista yfir tilvísanir og sjö gögn til viðbótar og óskað eftir því að þau kæmust að. Hæstiréttur hafi ekki verið búinn að taka afstöðu til þessa. Það sé Hæstaréttar að taka afstöðu til framlagningar skjalanna, og ekki skipti máli hér hvaða afstöðu rétturinn kunni síðar að taka. Málinu hafi verið vísað heim í hérað til málflutnings að nýju og dómsuppsögu, en ekki til frekari gagnaöflunar. Samkvæmt 5. mgr. 102. gr. eml. sé skýrt, að aðalmeðferð máls sé ákveðin þegar gagnaöflun sé lokið og að öflun sýnilegra gagna eftir það sé að jafnaði óheimil. Stefnandi sé hér að reyna að lagfæra málatilbúnað sinn. Öll þau gögn sem stefnandi vilji fá að leggja fram byggi á atvikum eða séu tilkomin eftir að héraðsdómur var kveðinn upp. Geti héraðsdómur ekki tekið til umfjöllunar atriði sem verði til eftir fyrri dómsuppsögu. Vísar stefndi til hæstaréttarmála nr. 136/2201 og 212/2003 til stuðnings afstöðu sinni. Fara beri eftir einkamálalögum og hafna framlagningu skjalanna, það sé síðan Hæstaréttar að taka afsöðu til þess hvort eðlilegt sé að gögnin komist þar að. Meðal þeirra gagna sem stefnandi hafi lagt fram daginn fyrir ætlaðan málflutning í Hæstarétti sé skriflegur málflutningur matsmanna, sem áður hafi komið fyrir dóm sem vitni. Hafi athugasemdir þær sem gerðar séu í greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti áður komið fram við málflutning í héraði. Verði framlagning skjalanna leyfð breyti þau grundvelli málsins og nauðsynlegt verði að taka allt málið upp, en það sé ekki í samræmi við fyrirmæli Hæstaréttar í dómi hans frá 5. febrúar sl.

 

Niðurstaða.

Dómur var kveðinn upp í máli þessu í héraði hinn 9. maí 2003 að lokinni aðalmeðferð, var dóminum áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu stefnanda. Að jafnaði skal öflun sýnilegra sönnunargagna lokið þegar þinghald til aðalmeðferðar er ákveðið, sbr. 5. mgr. 102. gr. eml., og er aðila að jafnaði óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn eftir þann tíma. Þessi regla er þó ekki án undantekninga og getur dómari leyft framlagningu gagna valdi það ekki töfum á málinu, ef ekki hefur áður verið unnt að afla tiltekinna gagna eða skort hefur á leiðbeiningar dómara eða ábendingar, sbr. sömu málsgrein i.f., sbr. og 2. mgr. 46. gr. eml. Eftir dómtöku máls getur og komið til þess að dómari telji nauðsynlegt að aflað verið frekari gagna til upplýsingar um málsatvik og endurupptekur hann þá málið og beinir því til aðila að hlutast til um gagnaöflun, sbr. 104. gr. eml. Verði dómi áfrýjað leggja aðilar fyrir Hæstarétt þau gögn sem þeir hyggjast byggja mál sitt á og áður hafa verið lögð fram í héraði, en jafnframt er gert ráð fyrir að þeir hafi möguleika á að afla frekari gagna, sbr. d lið 2. mgr. 156. gr. og 160. gr. og 76. gr. eml. Aðilar fara með forræði á sakarefni og afla gagna. Ber þeim við það að gæta þeirrar meginreglu að mál sé nægilega upplýst, enda er það forsenda þess að réttlát niðurstaða fáist. Þau lagaákvæði sem hér hefur verið vísað til hafa þann tilgang að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar komi fram um málsástæður aðila.

Þau gögn sem stefnandi gerir kröfu um að leggja fram fyrir dóminum eru öll tilkomin eftir að dómur var kveðinn upp í héraði, eðli málsins samkvæmt urðu þau því ekki lögð fram fyrir aðalmeðferð. Tilefni framlagningar hinna nýju skjala eru athugasemdir stefnda framkomnar eftir að öflun sýnilegra sönnunargagna lauk í héraði. Stefnandi var búinn að kynna gögnin Hæstarétti þegar málinu var heimvísað. Dómara í héraði hefði verið heimilt að endurupptaka málið eftir dómtöku og fyrir dómsuppsögu og heimila framlagningu gagna. Þar sem héraðsdómur var ómerktur í Hæstarétti og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju er héraðsdómari ekki bundinn af þeim dómi sem upp var kveðinn í héraði 9. maí 2003. Er ekki fallist á það með stefnda að dómur Hæstaréttar feli það í sér að héraðsdómara beri einungis að láta fara fram munnlegan málflutning og geti ekki heimilað framlagningu nýrra gagna. Slík niðurstaða kynni að leiða til þess að staðreyndir sem málið varða kæmu ekki fram. Það er niðurstaða dómsins að heimila skuli stefnanda að leggja fram í málinu umdeild skjöl.

Hjördís Hákonardóttir, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

             Stefnanda, Suðutækni ehf., er heimilt að leggja fram í málinu tíu skjöl sem tilgreind eru á dómskjali nr. 39.