Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/2006
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2007. |
|
Nr. 493/2006. |
Árni Eðvaldsson (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Húsvirki hf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Málsástæður.
Á var sagt upp störfum hjá H hf. með þriggja mánaða fyrirvara 27. nóvember 2003. Skömmu síðar, 4. desember sama ár, veitti byggingastjóri hjá félaginu honum áminningu vegna nánar tilgreindra atvika. Á hélt því fram að í tengslum við þá áminningu hefði hann verið leystur undan vinnuskyldu sinni hjá H hf. og krafðist fullra launa út uppsagnarfrestinn. Ekki var talið að Á hefði fært í málinu sönnur á að hann hefði verið leystur undan vinnuskyldu hjá H hf. á uppsagnarfresti og þar sem hann mætti ekki til vinnu sinnar var H hf. talið óskylt að greiða honum laun á þessu tímabili. Fyrir Hæstarétti byggði Á kröfu sína jafnframt á því að með bréfi lögmanns H hf. til lögmanns hans 25. febrúar 2004 hefði verið viðurkennt af hálfu félagsins að því bæri að greiða Á laun á uppsagnarfresti. Talið var að ekki væru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að Á gæti byggt kröfu sína á þessari málsástæðu fyrir Hæstarétti. Kom hún því ekki til efnislegrar meðferðar fyrir réttinum. Samkvæmt þessu var H hf. sýknað af kröfu Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 834.307 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjandi hafi ekki fært í málinu sönnur á að hann hafi verið leystur undan vinnuskyldu sinni hjá stefnda á uppsagnarfresti, eftir að honum hafði verið sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara 27. nóvember 2003. Þess vegna hafi stefnda verið óskylt að greiða honum laun á þessu tímabili, er hann mætti ekki til vinnunnar.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi byggt kröfu sína á því, að stefndi hafi viðurkennt skyldu sína til að greiða honum laun á uppsagnarfresti með bréfi sem lögmaður stefnda sendi fyrrverandi lögmanni áfrýjanda 25. febrúar 2004. Segir meðal annars í bréfi þessu, að stefndi hafi aldrei haft annað í hyggju en að greiða laun út uppsagnarfrestinn. Þau laun sem greidd hafi verið fyrir desember og janúar hafi verið í samræmi við skyldur félagsins eftir því sem stefndi best viti. Laun fyrir febrúar verði greidd á sama grundvelli.
Þegar mál þetta var höfðað hafði áfrýjandi réttmæta ástæðu til að ætla, að ágreiningur málsaðila snerist einungis um fjárhæð þeirra launa sem hann taldi sig eiga rétt á meðan þriggja mánaða uppsagnarfrestur stóð yfir mánuðina desember 2003 og janúar og febrúar 2004. Stefndi hafði gert upp við hann laun samkvæmt tímataxta en áfrýjandi taldi sig eiga rétt á launum samkvæmt viðmiðun við uppmælingu sem voru allmiklu hærri. Hafði hann þá ekki fengið sérstakt tilefni til að byggja kröfu sína einnig á því að stefndi hefði viðurkennt rétt sinn til launa á uppsagnarfresti með fyrrgreindu bréfi.
Stefndi skilaði greinargerð í héraði 7. júní 2005. Í henni kom fram, að hann taldi áfrýjanda ekki hafa átt rétt á neinum launum á uppsagnarfresti, þar sem hann hefði hætt sjálfur að mæta til vinnu eftir uppsögnina án þess að stefndi hefði gefið honum tilefni til þeirrar breytni. Þegar þessar varnir komu fram fékk áfrýjandi tilefni til að leggja fram bréfið, sem fyrr var nefnt, og láta færa til bókar að hann byggði kröfu sína á þeirri viðurkenningu sem hann telur að í því felist. Bar honum samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að bera þessa málsástæðu fram í beinu framhaldi af þessu. Þetta var meðal annars nauðsynlegt svo stefnda gæfist færi á að svara henni til dæmis með sönnunarfærslu um samskipti milli aðila í tengslum við bréfaskipti þeirra eða röksemdum sem varða efni umboðs sem lögmenn hafa til að skuldbinda umbjóðendur sína með yfirlýsingum áður en mál er höfðað. Áfrýjandi lagði bréfið ekki fram fyrr en við upphaf aðalmeðferðar 6. júní 2006 og ekki verður séð að í gögnum um meðferð málsins í héraði sé að finna athugasemd af hans hálfu um að byggt sé á viðurkenningunni í bréfinu. Ekkert er að þessu vikið í hinum áfrýjaða dómi. Ekki eru heldur uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 til að áfrýjandi geti nú við meðferð málsins fyrir Hæstarétti byggt kröfu sína á þessari málsástæðu. Kemur hún samkvæmt þessu ekki til efnislegrar meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, en rétt þykir að málskostnaður fyrir báðum dómstigum falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Húsvirkis hf., af kröfu áfrýjanda, Árna Eðvaldssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2006.
Mál þetta sem dómtekið var 6. júní sl,. er höfðað með stefnu birtri 11. apríl 2005.
Stefnandi er Árni Eðvaldsson, Spóaási 7, Hafnarfirði.
Stefndi er Húsvirki hf., Lágmúla 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 834.307 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2004 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, auk þess krefst hann málskostnaðar. Til vara krefst stefndi að honum verði gert að greiða stefnanda 607.749 krónur með dráttarvöxtum frá 19. apríl 2005.
MÁLSATVIK
Stefnandi, sem er húsasmíðameistari að mennt, réðst til starfa hjá stefnda í apríl 2002. Með bréfi dags. 27. nóvember 2003 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda. Í greinargerð stefnda kemur fram að verkefnastaða fyrirtækisins hafi verið óviss og því hafi fyrirtækið neyðst til að segja upp þremur af fimm smiðum í byggingarhópi stefnanda. Hafi verið ákveðið að segja upp þeim smiðum sem hafi haft skemmstan starfsaldur hjá fyrirtækinu. Í uppsagnarbréfinu hafi komið fram að uppsögnin tæki gildi 1. mars 2004 í samræmi við kjarasamning Samiðnar. Hafi þess verið krafist að þeir starfsmenn sem sagt var upp ynnu út uppsagnarfrestinn.
Óumdeilt er að hinn 4. desember 2005 hafi stefnandi kallað á yfirmann sinn, Gunnar Dagbjartsson byggingarstjóra, þar sem þeir voru við störf við Hrafnistu á Brúnavegi. Kom þar til orðaskipta sem undu upp á sig og virðist báðum aðilum hafa orðið heitt í hamsi. Af hálfu stefnda er umræddu atviki lýst þannig að úr hafi orðið mikið rifrildi þar sem stefnandi hafi vanvirt algjörlega boðvald yfirmanns síns. Hafi Gunnari þótt framkoma stefnanda vera ólíðandi og strax eftir atvikið hafi hann því ákveðið eftir ráðleggingu frá lögfræðingi Samtaka atvinnulífsins að veita stefnanda áminningu vegna atburðarins. Síðar þann dag hafi Gunnar farið með skriflega áminningu til stefnanda. Hafi stefnandi brugðist hinn versti við, neitað að skrifa undir áminninguna og ausið svívirðingum yfir Gunnar og strunsað svo burt af vinnustaðnum, þrátt fyrir að vinnudeginum væri ólokið. Hafi þetta verið í síðasta skiptið sem stefnandi sást á vinnustaðnum. Sé því alrangt sem greini í stefnu að stefnanda hafi verið sagt upp störfum þann 4. desember 2003.
Stefndi taldi að þar sem stefnandi hafi hætt sjálfur störfum hjá stefnda án nokkurs fyrirvara hafi hann engan rétt átt á launum út uppsagnarfrestinn. Hins vegar hafi Gunnari og stefnda fundist mál þetta vera afar leiðinlegt. Vegna þessa og þeirrar staðreyndar að jólin voru á næsta leiti og stefnandi hafði fyrir fjölskyldu að sjá ákvað stefndi að greiða stefnanda laun þrátt fyrir að honum væri það ekki skylt. Voru stefnanda greidd laun sem samsvöruðu þriggja mánaða launum á tímakaupi. Taldi stefndi að með þessari greiðslu væri málið úr sögunni. Um ári eftir að stefndi hafi talið málinu að fullu lokið hafi stefnandi hins vegar krafið hann um enn frekari greiðslur sem stefndi geti ekki fallist á að verða við.
Stefnandi heldur því fram í stefnu að hann eigi rétt til fullra launa í uppsagnarfresti á þeim samningsbundnu kjörum sem hann naut fram að uppsögn hans.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNANDA
Stefnandi vísar til þess í stefnu að hann sé húsasmíðameistari að mennt og hafi ráðist til starfa hjá stefnda í apríl 2002 og starfað hjá stefnda samfellt til 4. desember 2003 er honum var sagt upp störfum og þess var ekki óskað að hann ynni uppsagnarfrestinn hjá félaginu. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda. Uppsagnarbréfið sé dagsett 27. nóvember 2003 og miðað við 1. desember 2003 og skyldi uppsögnin taka gildi 1. mars 2004. Stefnandi hafi verið atvinnulaus til 15. febrúar 2004. Stefnandi hafi unnið á uppmælingarkjörum allan starfstíma sinn hjá stefnda svo sem framlagðir launaseðlar og launamiðar bera með sér, en hann hafi fengið eftir uppsögnina einungis greitt sem svari tímakaupi og þar með lítinn hluta þeirra launa sem hann hafi notið og hafi samið um sem starfsmaður fyrir uppsögn. Með þessu hafi stefndi kúvent og þverbrotið á rétti stefnanda til launa á uppsagnarfresti. Stefnandi hafi á uppsagnartímanum ekki fengið greidd rétt laun miðað við uppmælingu samkvæmt launakjörum stefnanda og teljist greiðsla stefnanda miðað við tímakaup einungis innborgun á laun stefnanda. Auk þess vanti til viðbótar uppmælingu, viðbót vegna orlofs, greiðslu í lífeyrissjóð og séreignalífeyrissjóð og helgidagaálag.
Stefnandi telji sig eiga rétt til fullra launa í uppsagnarfresti þannig að hann njóti allra samningsbundinna kjara á uppsagnartíma í stað þess að fá greitt sem svari tímakaupi en krafa stefnanda sé um full laun og að hann verði eins settur og hann hefði verið við störf á óbreyttum kjörum út uppsagnartímann. Stefnandi telji uppmælingarkjörin órjúfanlegan hluta af starfskjörum sínum og þeim verði ekki breytt án undangenginnar uppsagnar. Stefnandi hafi aldrei unnið á þeim kjörum sem stefndi miði við í uppsagnarfresti. Allir trésmiðir sem hafi starfað hjá stefnda hafi unnið í svokallaðri uppmælingu, þetta hafi verið regla hjá fyrirtæki stefnda. Mælingu hafi annast mælingastofa Trésmiðafélags Reykjavíkur og einnig Meistarafélag trésmiða.
Trésmiðafélag Reykjavíkur hafi reiknað út þau laun sem stefnandi eigi eftir að fá greidd og sé útreikningur byggður á launaðseðlum stefnanda sem ná yfir tímabilið 8. september 2003 til 14. desember 2003. Stefnukrafan sé reist á útreikningi Trésmiðafélags Reykjavíkur.
Stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda í apríl 2002 eins og áður segi og hafi verið ráðinn upp á uppmælingarkjör og hafi ekki unnið á öðrum kjörum en uppmælingarkjörum hjá stefnda samkvæmt gildandi kjarasamningum milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar og gildi frá 26. apríl 2004. Í 15. kafla samningsins séu nánari reglur um ákvæðisvinnu í byggingariðnaði, grein 15.1.1. sé svofelld: „Þar sem unnin er ákvæðisvinna samkvæmt ákvæðisvinnuverðskrám skulu allar reglur þar að lútandi fylgja öllum þeim ákvæðum sem gilda í Reykjavík eins og þau er hverju sinni, nema samningar aðila kveði á um annað.” Í grein 15.1.2. séu reiknitölur ákvæðisvinnu með kostnaðarliðum frá og með 26. apríl 2004 og sé fyrir trésmiði 392,26 krónur. Gefin sé út verðskrá yfir ákvæðisvinnu húsasmiða og mælingarstofur smiða og meistara annist mælingu á verkum sem félagsmenn vinni hjá einstökum fyrirtækjum sem mæli til eininga vinnuafköst, og launaseðlar og þar með laun hvers starfsmanns séu reiknuð út og greidd af hverjum vinnuveitanda. Mælingar séu unnar af mælingastofu trésmiða og séu endurskoðaðar af Meistarafélagi trésmiða.
Stefndi sé svokallað ákvæðisvinnufyrirtæki að því er varði trésmiði sem hjá félaginu starfi þannig að meginreglan um kjör starfsmanna félagsins sé að greiða með þessum uppmælingarkjörum.
Uppsögn stefnanda virðist hafa verið persónuleg og ekki hafa verið nauðsynlega eða vegna þarfa eða aðstæðna stefnda.
Heildarlaun sem stefnandi hefði haft ef ekki hefði komið til uppsagnar nemi 1.130.133 krónum og sé þá miðað við laun stefnanda 3 síðustu mánuði sem hann starfaði hjá stefnda. Stefndi greiddi stefnanda 396.215 krónur eftir 4. desember 2003 og mismunur nemi 733.898 krónum auk lífeyrisgreiðslu til lífeyrissjóðs 6% 67.807 krónum og 2% séreignasjóð 22.602 krónum alls 824.307 krónum sem sé stefnukrafan.
Stefnandi byggi kröfur sínar á þeim meginreglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega verði ekki breytt á uppsagnarfresti eins og stefndi hafi gert gagnvart stefnanda.
Mál þetta sé höfðað á grundvelli meginreglna vinnuréttar um kjarasamninga, kröfuréttarreglna og grunnreglna samningsréttar. Vísað sé til framlagðra kjarasamninga. Vísað sé til laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, laga nr. 16/1943 um orlof og laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Vísað sé til reglna um lífeyrissjóði og að aðild að lífeyrissjóðum sé lögbundin, samanber lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrissjóða nr. 55/1980. Sömu lög séu með ákvæði um orlof og sjúkrasjóði.
Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við l. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., einkum l. tl. e, laga nr. 91/1991. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og geri kröfu um greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun af skaðleysisjónarmiðum.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA
Stefndi byggir á því í greinargerð sinni að stefnandi eigi engan rétt á launum í uppsagnarfresti þar sem hann hafi ekki uppfyllt þá skyldu sína að vinna út uppsagnarfrestinn. Honum hafi verið sagt upp störfum 27. nóvember 2003 og segi í uppsagnarbréfinu að uppsögnin taki gildi 1. mars 2004. Hafi uppsögnin því uppfyllt að fullu ákvæði kjarasamnings um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hins vegar hafi sú skylda hvílt á stefnanda að vinna út uppsagnarfrestinn. Hann hafi hins vegar ekki uppfyllt þá skyldu heldur kosið að hætta án nokkurs fyrirvara þann 4. desember 2003.
Enginn vafi leiki á því að stefndi hafi verið í fullum rétti til að veita stefnanda áminningu þar sem stefnandi hafi hellt sér yfir yfirmann sinn með svívirðingum og gagnrýnt marga samstarfsmenn sína og fyrirtækið sjálft fyrir óvönduð og hroðvirknisleg vinnubrögð. Veiting áminningar jafngildi hins vegar ekki uppsögn og hafi það því verið ákvörðun stefnanda sjálfs að hætta í vinnunni samstundis í kjölfar áminningarinnar. Með því hafi hann brotið gegn vinnusamningi sínum við stefnda og geti því ekki krafist þriggja mánaða launa í uppsagnarfresti.
Einnig vísi stefndi til meginreglu vinnuréttar um að ef starfsmaður er rekinn sökum brota í starfi missi hann rétt til launa í uppsagnarfresti. Þessi meginregla á þó ekki með beinum hætti við í þessu máli þar sem stefnandi hafi ekki verið rekinn heldur hafi ákveðið sjálfur að hætta samstundis í vinnunni.
Til vara sé byggt á því að stefnandi eigi einungis rétt á launum á grundvelli tímakaups en ekki á grundvelli uppmælinga. Hafi stefnandi enda ekki bent á neina réttarheimild því til stuðnings að stefnandi eigi rétt á launum fyrir yfirvinnu, og ákvæðisvinnu, á uppsagnarfresti sem hann ekki vinni. Leiði slík aukin réttindi ekki heldur af kjarasamningi á milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, sem stefnandi falli undir. Þar sem stefndi hafi þegar greitt stefnanda þriggja mánaða laun á grundvelli tímakaups eigi stefnandi engar frekari kröfur á hendur stefnda.
Ef svo ólíklega vildi til að ekki yrði fallist á aðalkröfu stefnda krefjist hann þess að sér verði einungis gert að greiða stefnanda 607.749 krónur. Meðaltalslaun þeirra smiða sem hafi verið í sama byggingarhópi og stefnandi á umræddu tímabili hafi verið 980.267 krónur. Telji stefndi af og frá að stefnandi geti átt rétt á hærri launum en meðaltalslaun fyrrverandi samstarfsmanna stefnanda hafi verið á umræddu tímabili. Stefndi hafi þegar borgað stefnanda 372.518 krónur og það sem eftir standi séu því 607.749 krónur.
Í gögnum málsins sé ítarlega búið að reikna út hvaða laun starfsmennirnir hafi haft á tímabilinu 5. desember 2003 til 15. febrúar 2004. Einnig hafi launaseðlar starfsmannanna verið lagðir fram en þeir gefi ekki rétta mynd af launum á umræddu tímabili þar sem þeir fái laun vegna mælinga ávallt borgaða eftir á. Með launaseðli dags. 14. desember 2003 sé því t.d. verið að borga fyrir mælingar sem unnar hafi verið í nóvember 2003 o.s.frv.
Um kröfu sína vísi stefndi til meginreglu vinnuréttar, meginreglu samningaréttar og samnings milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar, dags. 15. apríl 2000.
Um málskostnaðarkröfu sína vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu er óumdeilt að með bréfi dags. 27. nóvember 2003 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda með þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfinu kemur fram að ástæða uppsagnarinnar sé sú að verkefnastaða fyrirtækisins sé óviss og óvíst sé með ný verkefni. Þar segir enn fremur að uppsögnin taki gildi 1. mars 2004 og ef verkefnastaða fyrirtækisins breytist geti orðið um endurráðningu að ræða innan þess tíma.
Fyrir liggur að stuttu síðar, hinn 4. desember 2003, urðu hörð orðaskipti milli stefnanda og yfirmanns hans, Gunnars Dagbjartssonar. Í skýrslutöku fyrir dómi viðurkenndi stefnandi að hafa látið hörð orð falla og að honum og Gunnari hafi báðum orðið heitt í hamsi. Í framhaldi af því ákvað Gunnar að veita stefnanda áminningu sem hann ritaði og afhenti stefnanda í bréfi sama dag. Í bréfinu segir að komi aftur til svipaðrar uppákomu verði stefnandi látinn hætta án frekari fyrirvara.
Daginn eftir, 5. desember 2003, skrifaði stefnandi framkvæmdastjóra stefnda bréf þar sem hann segist hafa neitað að taka við hinni meintu áminningu en Gunnar hafi þá vikið honum frá störfum. Hafi hann mótmælt og sagt að ekkert gæfi tilefni til þess og að hann færi hvergi. Hafi hann klárað daginn en tekið þá ákvörðun að mæta ekki til vinnu daginn eftir enda séð fyrir að sér yrði með einhverjum ráðum bolað burt. Segist hann þó hafa talið farsælast að hann kláraði uppsögn sína hjá Húsvirkja.
Samkvæmt reglum vinnuréttar breytir uppsögn starfsmanns ekki ein og sér efni ráðningarsamnings. Á uppsagnarfresti ber því að fara eftir ákvæðum samningsins, starfsmanni beri að vinna störf sín og atvinnurekanda að greiða laun. Umræddar skyldur eru gagnkvæmar, þ.e. ef annar aðilinn uppfyllir ekki sína skyldu samkvæmt ráðningarsamningi fellur jafnframt niður skylda gagnaðilans til efnda af sinni hálfu.
Fyrir liggur í málinu að stefnandi mætti ekki til vinnu hjá stefnda á uppsagnarfresti eins og honum bar samkvæmt ráðningarsamningi en sönnunarbyrðin um að hann hafi verið leystur undan vinnuskyldu hvílir á stefnanda. Í bréfi stefnanda frá 5. desember 2003 tók hann fram að hann hafi sjálfur ákveðið að mæta ekki til vinnu daginn áður. Vitnið Gunnar Dagbjartsson hafnaði því alfarið fyrir dómi að hafa gefið stefnanda til kynna að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans út uppsagnarfrest. Hafi stefnandi aldrei verið leystur undan vinnuskyldu þrátt fyrir að hafa fengið áminningu þar sem honum var gert ljóst að hann yrði látinn fara fyrirvaralaust kæmi aftur til svipaðra uppákomu. Stefnandi fékk útgefið starfslokavottorð þar sem kemur fram að hann hafi hætt störfum hjá stefnanda vegna ágreinings við byggingastjóra á vinnusvæði. Hefur stefnandi ritað nafn sitt á skjalið vegna móttöku þess.
Vitnið Halldór Jónasson, starfsmaður Trésmiðafélags Reykjavíkur, bar fyrir dómi að hafa rætt bæði við stefnanda og Gunnar, yfirmann stefnanda, á skrifstofu sinni hinn 4. desember eftir að ágreiningur hefði orðið með þeim á vinnustað. Sagði vitnið að sér hefði skilist að Gunnari hafi þótt mælirinn vera fullur þegar hann hefði reynt að afhenda stefnanda áminningarbréfið og ályktaði vitnið að Gunnar hefði vikið stefnanda á staðnum fyrirvaralaust. Við mat á framburði vitnis þessa er til þess að líta að hann var ekki vitni að orðaskiptum stefnanda og Gunnars og þegar litið er til þess að Gunnar hefur þverneitað að hafa rekið stefnanda fyrirvaralaust í kjölfar orðaskipta þeirra, er hann hugðist afhenda stefnanda áminningarbréfið, þykir framburður vitnisins ekki veita sönnun um hið gagnstæða. Þá telur dómari að eins og atvikum er háttað hér hefði stefnanda borið að ganga eftir því við stefnda með ótvíræðari hætti en hann gerði með bréfi sínu hvort honum bæri að sinna vinnuskyldu sinni eða ekki.
Stefnandi hefur því ekki sýnt fram á að honum hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi sínu hjá stefnda og verður því fallist á það með stefnda að stefnandi hafi ekki uppfyllt þá skyldu sína að vinna út uppsagnarfrestinn. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Húsvirki hf., skal sýkn af kröfu stefnanda, Árna Eðvaldssonar.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.