Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-217
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vörumerki
- Lögbann
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.
Með beiðni 27. júní 2019 leitar Kjörís ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í málinu nr. 622/2018: Kjörís ehf. gegn Emmessís ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Emmessís ehf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um staðfestingu á lögbanni sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 14. desember 2016 við því að gagnaðili héldi áfram framleiðslu, markaðssetningu og sölu á ís til matar undir vörumerkinu „TOPPÍS“. Leyfisbeiðandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að nota vörumerkið, svo og að honum verði gert að fjarlægja allar vörur sínar sem auðkenndar séu með vörumerkinu og farga þeim. Á hinn bóginn hefur gagnaðili krafist þess í málinu að skráning leyfisbeiðanda á áðurgreindu vörumerki í vörumerkjaskrá verði ógilt. Með dómi 6. júlí 2018 sýknaði héraðsdómur gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda en tók á hinn bóginn kröfu gagnaðila til greina. Staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi, en þar var talið að leyfisbeiðandi hafi ekki notað orðið „toppís“ sem vörumerki eins og tilskilið sé í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki til að það héldi skráningarhæfi sínu.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi á sviði vörumerkja- og einkaleyfisréttar, einkum um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við mat á skráningarhæfni vörumerkis samkvæmt 13. gr. laga nr. 45/1997 og notkun til að halda við vörumerki samkvæmt 25. gr. sömu laga. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins geti haft verulega almenna þýðingu á sviði réttarfars um tímamark réttaráhrifa dóms, útilokunarregluna og málsforræðisregluna. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til og efni þar sem rétturinn hafi ranglega metið gögn og staðreyndir málsins, byggt á rangri túlkun á lögum nr. 45/1997 og ekki tekið rökstudda afstöðu til kröfu leyfisbeiðanda um staðfestingu lögbanns. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni sína.
Á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. var lögbannið sem málið varðar fallið úr gildi þegar leyfisbeiðandi leitaði leyfis Hæstaréttar til áfrýjunar og getur hann því ekki lengur krafist staðfestingar þess. Að öðru leyti reynir í málinu á álitaefni á sviði vörumerkja- og einkaleyfisréttar sem gætu haft fordæmisgildi. Að þessu gættu er beiðni um áfrýjunarleyfi tekin til greina.