Hæstiréttur íslands
Mál nr. 405/2016
Lykilorð
- Líkamstjón
- Örorka
- Slysatrygging
- Kjarasamningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.712.081 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningur málsaðila sprottinn af slysi sem áfrýjandi varð fyrir 7. ágúst 2011 þegar hann missti stjórn á bifhjóli sem hann ók. Hlaut hann ýmsa áverka, þar á meðal samfallsbrot á VI. brjósklið. Ökutækið var tryggt lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Öfluðu félagið og áfrýjandi sameiginlega mats á afleiðingum slyssins og var það niðurstaða tveggja manna í örorkumati 20. september 2013 að varanleg örorka hans vegna þess væri 25% og varanlegur miski 25 stig.
Áfrýjandi starfaði sem flugstjóri hjá stefnda, en þegar slysið varð fór um kjör hans samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi 19. júlí 2011 milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna annars vegar og Icelandair Group hf. og stefnda hins vegar. Í kjarasamningnum var svohljóðandi ákvæði um slysatryggingu: „Flugleiðir skulu á sinn kostnað tryggja hvern flugmann fyrir kr. 14.161.323 miðað við dauða eða fulla örorku. Bætur fyrir varanlega örorku skulu verðtryggðar frá slysadegi til uppgjörsdags á sama hátt og tryggingarupphæð. Tryggingin skal vera skv. skilmálum Sambands slysatryggjenda og skal örorkumat framkvæmt af tryggingaryfirlækni, eða í forföllum hans tryggingalækni. Greiðslur örorkubóta skv. almannatryggingalögum skulu ekki koma til frádráttar ofangreindum örorkubótum.“ Samkvæmt gögnum málsins var samhljóða ákvæði, en þó með lægri viðmiðunarfjárhæð, einnig í kjarasamningi 19. apríl 1997. Í almennum skilmálum Sambands slysatryggjenda um slysatryggingu launþega, sem þá var stuðst við, var enginn fyrirvari gerður að því er tekur til greiðslu bóta fyrir varanlega örorku vegna umferðarslysa sem lögboðnar vátryggingar næðu til. Það var hins vegar gert í almennum skilmálum sambandsins frá 5. júní 2000 þar sem mælt var fyrir um að bætur fyrir varanlega örorku greiddust ekki væri „bótaréttur vegna slyssins fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ökutækjatryggingu, þ.e. hvort heldur er úr ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns og eiganda, nema annað leiði af kjarasamningi.“ Samband slysatryggjenda var lagt niður árið 2004 í kjölfar ákvörðunar samkeppnisyfirvalda. Er ekki annað komið fram í málinu en að framangreindir skilmálar frá 5. júní 2000 séu þeir síðustu sem það gaf út fyrir slysatryggingu launþega. Þá hefur sami fyrirvari verið gerður í slysatryggingarskilmálum IceCap Insurance Ltd. allt frá því að stefndi hóf árið 2007 að kaupa slysatryggingu fyrir flugmenn sína af því félagi, en fram að því mun hafa verið í gildi samningur hans við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um hana.
II
Til samræmis við yfirlýsingar aðilanna við flutning málsins fyrir Hæstarétti er til úrlausnar í því krafa áfrýjanda um skaðabætur úr hendi stefnda sem hann reisir á því að félagið hafi ekki fullnægt þeirri skyldu sinni að kaupa slysatryggingu sem samrýmist skuldbindingum þess samkvæmt framangreindu kjarasamningsákvæði. Fær það nánar tiltekið ekki staðist að mati áfrýjanda að réttur hans til bóta, sem þar er mælt fyrir um, stofnist ekki þegar fyrir hendi er bótaréttur vegna slyss samkvæmt lögboðinni ökutækjatryggingu, en á því hefur stefndi byggt. Heldur áfrýjandi því fram að hafi þetta verið ætlun samningsaðila hefði þurft að taka það sérstaklega fram í kjarasamningi. Hafi stefndi samkvæmt þessu ekki veitt áfrýjanda þá tryggingarvernd sem felist í ákvæðinu og þar með bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum.
Samkvæmt orðalagi umrædds ákvæðis, sem eins og áður greinir hefur verið í kjarasamningi að minnsta kosti frá árinu 1997, fól tilvísun til skilmála Sambands slysatryggjenda það ótvírætt í sér að um rétt flugmanna hjá stefnda til bóta vegna varanlegrar örorku færi samkvæmt skilmálum sambandsins eins og þeir kæmu til með að hljóða á hverjum tíma. Enda þótt það hafi verið lagt niður árið 2004 var ekkert sem stóð því í vegi að áfram yrði stuðst við síðustu gerð þeirra með þeim hætti sem gert var í kjarasamningnum 19. júlí 2011 og að tilvísun til þeirra stæði þar með óhögguð. Af þessu leiðir að líta verður svo á að samningsaðilar hafi sammælst um að bótaréttur samkvæmt kjarasamningsákvæðinu skyldi ráðast af þeim skilmálum Sambands slysatryggjenda sem gefnir voru út í júní 2000. Þá er þess að gæta að sá fyrirvari um greiðslu bóta sem þar er gerður er í fullu samræmi við vátryggingarskilmála íslenskra tryggingafélaga um slysatryggingu launþega, sem liggja frammi í málinu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að fallast á það með áfrýjanda að honum hafi borið réttur til bóta vegna varanlegrar örorku úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu óháð því hvort bótaréttur vegna slyss úr lögboðinni ökutækjatryggingu væri fyrir hendi. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 10. febrúar sl., var höfðað 5. júní 2015.
Stefnandi er A, […].
Stefndi er Icelandair ehf., Reykjavíkurflugvelli í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum slysabætur að fjárhæð 7.712.081 króna með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
I
Stefnandi hóf störf hjá stefnda í […], fyrst sem flugmaður og síðar flugstjóri. Þann 7. ágúst 2011 lenti hann í alvarlegu umferðarslysi á bifhjóli sínu við […]. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi missti stjórn á bifhjólinu með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og fékk hjólið yfir sig. Stefnandi var fluttur á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar en hann fékk skurð á bæði efri og neðri vör, samfallsbrot á VI. brjósklið og fleiri sár. Þá brotnaði hægri þumall og tunga hans fór næstum því í sundur. Stefnandi var frá vinnu um nokkurra mánaða skeið vegna slyssins.
Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda fór um kaup hans og kjör samkvæmt gildandi kjarasamningum milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugleiða. Þegar stefnandi slasaðist var í gildi kjarasamningur FÍA og Icelandair Group hf./Icelandair ehf. frá 19. júlí 2011 og fór um kjör hans samkvæmt honum. Samkvæmt grein 8.1 í kjarasamningnum skal stefndi á sinn kostnað tryggja hvern flugmann fyrir 14.161.323 krónur miðað vegna dauða eða fulla örorku sem flugmaður verður fyrir í starfi eða utan starfs og skulu bætur vera verðtryggðar frá slysdegi til uppgjörsdags eins og nánar er kveðið á um í ákvæðinu. Flugleiðir hf. gerðu vátryggingarsamning við Sjóvá-Almennar tryggingar vegna skyldu sinnar til að kaupa slysatryggingu fyrir flugmenn, sem gilti á árunum 1997-2007. Árið 2007 voru slysatryggingar flugmanna færðar yfir í félagið Icecap Insurance Pcc Limited sem staðsett er á Guernsey og er í eigu móðurfélags stefnda.
Stefnandi gerði starfslokasamkomulag við stefnda 6. maí 2013 en samkvæmt því skyldi hann fá greidd laun í sex mánuði frá undirritun og í níu mánuði frá síðasta starfsdegi og skyldi hvorugur aðila eiga frekari kröfu á hinn. Í samkomulaginu var gerður fyrirvari um að það skerti ekki rétt stefnanda til tryggingarfjár samkvæmt grein 8.5 í kjarasamningi FÍA og Icelandair Group/Icelandair, sbr. grein 8.1, 8.2, 8.3, 8.4, 8.9 og 7.2, vegna veikinda og slysa er yrðu áður en starfstíma hans lyki.
Bifhjól stefnanda var tryggt lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Stefnandi og Tryggingamiðstöðin hf. öfluðu mats B bæklunarlæknis og C hæstaréttarlögmanns á varanlegum afleiðingum vegna slyssins og skiluðu þeir matsgerð, dagsettri 20. september 2013. Niðurstaða matsgerðarinnar var m.a. sú að varanlegur miski stefnanda skv. 4. gr. skaðabótalaga væri 25 stig og varanleg örorka hans skv. 5. gr. sömu laga væri 25%.
Þann 2. október 2014 krafðist stefnandi slysabóta frá stefnda samkvæmt kjarasamningi að fjárhæð 7.712.081 króna í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda 9. október 2014 með vísan til tyggingarskilmála Icecap Insurance Pcc Limited um akstursíþróttir. Stefnandi krafðist endurskoðunar á afstöðu stefnda þar sem viðkomandi ákvæði ættu ekki við. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda aftur næsta dag þar sem umferðarslys væru undanþegin tryggingunni samkvæmt grein 18.3 í viðkomandi tryggingarskilmálum. Stefnandi benti stefnda þá á að samkvæmt kjarasamningi skyldi tryggingin vera samkvæmt skilmálum Sambands slysatryggjenda og óskaði þess að viðkomandi skilmálar væru sendir sér. Í svari stefnda, dags. 15. október 2014, kom fram að þessir skilmálar væru ekki til þar sem Sambandið hefði verið lagt niður fyrir 10 árum. Þá vísaði stefndi til þess að skilmálar Icecap væru algerlega samanburðarhæfir við skilmála slysatrygginga launþega hjá öðrum félögum. Stefnandi ítrekaði kröfu sína þar sem umferðarslys væru ekki undanskilin bótaábyrgð slysatryggingarinnar samkvæmt kjarasamningi. Stefndi hafnaði kröfunni á ný 2. nóvember 2014.
II
Stefnandi reisir kröfu sína á því að stefnda beri að greiða honum fullar og óskertar slysabætur samkvæmt grein 8.1, sbr. grein 8.10, í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna & Icelandair Group hf./Icelandair ehf. um kaup og kjör frá 19. júlí 2011. Óumdeilt sé að sá kjarasamningur hafi gilt um kaup og kjör stefnanda hjá stefnda þegar stefnandi slasaðist, 7. ágúst 2011.
Stefnandi bendir á að samkvæmt grein 8.7 í kjarasamningnum gildi slysatryggingin allan sólarhringinn með þeirri takmörkun að hún gildi ekki þegar starfsmaður er við launuð flugstörf hjá öðrum en þeim sem beina aðild eiga að samningnum, nema með skriflegu leyfi. Samkvæmt kafla 8.0 í kjarasamningnum séu umferðarslys ekki undanskilin bótarétti. Ef ætlunin hefði verið að gera það ætti það að koma skýrt fram í kjarasamningnum, líkt og í öðrum kjarasamningum þar sem slík slys séu undanskilin bótarétti. Þar sem það sé ekki gert sé ljóst að umferðarslys verði ekki undanskilin bótarétti stefnanda.
Stefnandi kveður stefnda ekki geta undanþegið sig ábyrgð á greiðslu slysabóta með því að vísa til greinar 18.3 í skilmálum Icecap Insurance Pcc Limited frá árinu 2011 þar sem fram komi að sú trygging nái ekki yfir umferðarslys. Tryggingin sé ekki í samræmi við slysatryggingakafla kjarasamningsins þar sem bótasvið hennar sé mun þrengra en kjarasamningurinn kveði á um. Ekki sé tiltekið í kjarasamningnum að umferðarslys séu undanskilin bótarétti launþega sem starfi samkvæmt honum. Annars væri stefnda í sjálfsvald sett í hvaða tilvikum tjónþolar ættu bótarétt og hvaða takmarkanir væru á bótarétti launþega. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að skilmálar Icecap Insurance Pcc Limited frá árinu 2011 samræmist kjarasamningsbundnum rétti hans.
Í tölvuskeyti frá starfsmanni stefnda, dags 15. október 2014, komi fram að þeir skilmálar Sambands slysatryggjenda sem tilgreindir séu í kjarasamningnum séu ekki til. Stefnandi kveður því að skýra verði bótarétt hans í samræmi við ákvæði kjarasamningsins þar sem umferðarslys séu ekki sérstaklega undanskilin. Stefndi geti ekki undanþegið sig greiðslu bóta með því að vísa til þess að skilmálar Icecap Insurance Pcc Limited séu skilmálar slysatryggingar launþega hjá íslenskum tryggingafélögum.
Stefnandi krefjist bóta samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna & Icelandair Group hf./Icelandair ehf. um kaup og kjör frá 19. júlí 2011, sem voru í gildi þegar hann slasaðist 7. ágúst 2011. Samkvæmt grein 8.1 í kjarasamningnum sé höfuðstóll slysatryggingarinnar 14.161.323 krónur, miðað við vísitölu neysluverðs í janúar 2000 sem hafi verið 194, og samkvæmt grein 8.10 breytist upphæðin mánaðarlega. Þegar stefnandi hafi sett fram kröfu sína 2. október 2014 hafi uppreiknaður höfuðstóll tryggingarinnar verið 30.848.325 krónur, miðað við vísitölu neysluverðs í september 2014 sem hafi verið 422,6.
Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins hafi verið metinn 25 stig með matsgerð B bæklunarlæknis og C hæstaréttarlögmanns. Dómkrafa stefnanda, vegna bóta úr slysatryggingu hans samkvæmt kjarasamningi þegar krafan var gerð, 2. október 2014, reiknaðar út frá miskastigi samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, sé því 7.712.081 króna (25% af 30.848.325).
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi ekki kröfu um greiðslu slysabóta vegna fullnaðaruppgjörs í starfslokasamkomulagi aðila frá 6. maí 2013. Með samkomulaginu hafi stefnandi afsalað sér rétti til þess að halda uppi hvers konar kröfum á hendur stefnda, utan kröfu um greiðslu launa og ótekins orlofs. Engar undantekningar séu á þessu kröfuafsali aðrar en þær að það gildi ekki um viðskiptaskuldir. Fyrirvari samkomulagsins um rétt stefnanda til greiðslu tryggingarfjár geti engu breytt um ofangreint af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi gildi fyrirvarinn einungis um greiðslu tryggingafjár frá félaginu Icecap Insurance Pcc Limited. Það geti því einungis verið um að ræða greiðslur samkvæmt tryggingaskilmálum Icecap Insurance Pcc Limited, enda sjái það félag um þær tryggingar sem tilgreindar séu í þeim ákvæðum kjarasamnings FÍA og stefnda sem vísað er til í starfslokasamkomulaginu. Verði talið að stefndi beri ábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli þess að hann hafi ekki verið slysatryggður vegna umferðarslysa sé ljóst að sú krafa hafi stofnast á tjónsdegi 7. ágúst 2011. Stefnandi hafi afsalað sér þeirri kröfu við undirritun starfslokasamkomulagsins 6. maí 2013. Í öðru lagi sé í fyrirvaranum vísað til slysa sem „verða“ á starfstíma stefnanda. Þar með sé vísað til þess að umræddar tryggingar séu enn í gildi á þeim tíma sem stefnandi fái greidd laun frá stefnda en hvergi komi fram að réttur til greiðslu tryggingarfjár geti átt við um slys sem þegar hafi orðið. Það hafi því verið um að ræða áréttingu á því að stefnandi myndi viðhalda tryggingum sínum á gildistíma starfslokasamkomulagsins.
Stefndi byggi á því að hann hafi ekki verið skuldbundinn til þess að kaupa vátryggingu sem myndi bæta örorku í tilviki umferðarslysa. Slys sem hafi hlotist af notkun skráningarskyldra ökutækja séu undanþegin slysatryggingu flugmanna stefnda samkvæmt grein 18.3 í skilmálum Icecap Insurance Pcc Limited frá árinu 2011. Í ákvæðinu komi skýrt fram að ekki séu greiddar bætur vegna varanlegrar örorku ef þegar er réttur til bóta vegna lögboðinnar ökutækjatryggingar, hvort heldur er ábyrgðar- eða slysatryggingar ökumanns eða eigenda, nema annað sé sérstaklega tekið fram í ráðningarsamningi. Ekki sé ágreiningur um merkingu þessa ákvæðis skilmálanna. Bifhjól stefnanda hafi verið tryggt lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi ekki átt rétt til slysabóta vegna slysatryggingar flugmanna enda fái hann tjón sitt væntanlega að fullu bætt úr framangreindri slysatryggingu ökumanns.
Framangreint ákvæði hafi verið í skilmálum slysatryggingar Icecap Insurance Pcc Limited frá árinu 2007 þegar slysatrygging flugmanna hafi fyrst verið keypt frá því félagi. FÍA hafi aldrei gert athugasemdir við að bætur vegna varanlegrar örorku yrðu ekki greiddar vegna slysa við notkun skráningarskyldra ökutækja en þeim hafi verið fullkunnugt um efni skilmálanna. Stefndi hafi því fullnægt skyldum sínum samkvæmt kjarasamningi með því að kaupa slysatryggingu flugmanna hjá Icecap Insurance Pcc Limited. Þá hafi stefnandi átt þess kost að mótmæla skilmálunum en í grein 8.6 í kjarasamningi Icelandair Group og FÍA komi fram að stefndi skuli senda hverjum þeim flugmanni sem þess óski afrit af skírteini slysa- og skírteinistryggingar. Stefnandi hafi ekki óskað eftir slíkum upplýsingum um trygginguna fyrr en eftir umferðarslysið.
Í grein 8.1 í kjarasamningi FÍA og stefnda komi fram að slysatrygging flugmanna skuli vera samkvæmt skilmálum Sambands slysatryggjenda. Samband slysatryggjenda hafi verið samstarfsverkefni á vegum íslenskra vátryggingafélaga sem heyrði undir Samband íslenskra tryggingafélaga á árum áður, en samstarfið hafi m.a. lotið að samræmdri skilmálagerð tryggingafélaganna vegna slysatrygginga. Í kjölfar rannsóknar og athugasemda samkeppnisyfirvalda á íslenska vátryggingamarkaðinum hafi því samstarfi verið hætt. Ekki sé því rétt að túlka grein 8.1 í kjarasamningnum með svo þröngum hætti að þar sem Samband slysatryggjenda hafi verið lagt niður gildi engir skilmálar eða undanþágur um slysatryggingu flugmanna FÍA. Stefndi mótmæli túlkun stefnanda á ákvæðinu en af henni myndi leiða að engir skilmálar giltu um slysatryggingar flugmanna. Stefndi telji rétt að líta til þeirra samræmdu skilmála slysatryggingar launþega hjá Samtökum íslenskra tryggingafélaga sem hafi verið í gildi áður en hinni samræmdu skilmálagerð var hætt.
Af fyrirmynd Sambands íslenskra tryggingafélaga að skilmálum slysatryggingar launþega megi sjá að í skilmálum útgefnum árið 1997 hafi slys sem orðið hafi við notkun skráningarskyldra ökutækja ekki verið undanþegin tryggingarsviði. Slík undanþága hafi hins vegar verið komin inn í skilmála frá 5. júní árið 2000. Þar segi í 2. málslið greinar 12.1 að ekki greiðist bætur vegna varanlegrar örorku sé bótaréttur vegna slyssins fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ökutækjatryggingu, þ.e. hvort heldur er úr ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns og eiganda, nema annað leiði af kjarasamningi. Sama gildi eigi sá sem tryggður er rétt til bóta vegna varanlegrar örorku skv. reglum umferðarlaga um tjón af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja.
Engin breyting var gerð á orðalagi varðandi slysatryggingu í kjarasamningi FÍA og Flugleiða hf. milli áranna 2000 og 2003 þrátt fyrir að þessari undanþágu hafi verið bætt inn í hina samræmdu tryggingaskilmála 5. júní 2000. Fjárhæð slysatryggingarinnar hafi hins vegar verið hækkuð úr 12.978.780 krónum í 14.161.323 krónur árið 2000, eða um svipað leyti og fyrirmynd Sambands íslenskra tryggingafélaga að skilmálum slysatryggingar launþega hafi verið breytt. Hefði vilji FÍA staðið til þess að umferðarslys féllu undir slysatryggingu flugmanna hafi félaginu mátt vera ljóst að taka þyrfti það fram í kjarasamningi árið 2000 eða í síðasta lagi árið 2003. Það hafi ekki verið gert og grein 8.1 í kjarasamningi FÍA og stefnda hafi staðið óbreytt frá árinu 1997 þrátt fyrir að skilmálar slysatryggingar launþega hjá hinum íslensku tryggingafélögum hafi breyst.
Verði ekki fallist á ofangreint telji stefndi að túlka beri ákvæði 8.1 í kjarasamningnum með þeim hætti að skilmálar slysatryggingar launþega hjá hinum íslensku vátryggingafélögum, að því leyti sem þeir séu efnislega samhljóða, skuli gilda um slysatryggingu flugmanna. Þar sem vísað sé til slysatryggjenda í kjarasamningnum sé eðlilegt að líta til skilmála þeirra íslensku vátryggingafélaga sem bjóði upp á slysatryggingar launþega. Tryggingin sæti því þeim takmörkunum og undanþágum sem almennt gilda samkvæmt skilmálum íslenskra vátryggingafélaga. Séu skilmálar slysatryggingar launþega skoðaðir hjá hinum íslensku vátryggingafélögum sem bjóða upp á slysatryggingar launþega, þ.e. Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Tryggingamiðstöðinni hf., Vátryggingafélagi Íslands hf. og Verði tryggingum hf., megi sjá að tjón sem verði við notkun skráningarskyldra ökutækja séu enn ávallt undanþegin tryggingarskyldu. Það sé því ljóst að ef Samband slysatryggjenda væri enn til og þar með enn gerð fyrirmynd að skilmálum fyrir íslenska slysatryggjendur þá væri slys stefnanda undanþegið tryggingarsviði samkvæmt skilmálum sambandsins. Af þessu megi leiða að viðskiptavenja hafi myndast fyrir því hér á landi að slys sem verði við notkun skráningarskyldra ökutækja séu undanþegin slysatryggingu launþega. Augljós ástæða sé fyrir þessu enda fengi tjónþoli tjón sitt bætt tvisvar ef þetta væri ekki raunin. Bifhjól stefnanda hafi verið tryggt lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og stefnandi eigi því rétt til slysabóta þaðan.
Stefndi byggi jafnframt á því að réttur stefnanda til slysabóta sé fallinn niður þar sem hann hafi ekki gert kröfu um bætur innan árs frá tjónsatburði, sbr. 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Verði ekki talið að frestur samkvæmt ákvæðinu hafi tekið að líða við tjónsatburð byggi stefndi á því að hann hafi í síðasta lagi byrjað að líða þegar matsgerð B læknis og C hrl. hafi legið fyrir 20. september 2013. Stefnandi hafi fyrst krafist bóta vegna slyssins 2. október 2014 en þá hafi verið liðið meira en ár frá því að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið metnar og meira en þrjú ár frá tjónsdegi. Stefnanda hefði verið í lófa lagt að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár fyrr og hann verði því að bera hallann af því að hafa ekki gert það.
Þá telji stefndi að tjón stefnanda hafi orðið vegna stórkostlegs gáleysis hans sjálfs. Þar með beri að fella niður ábyrgð slysatryggjanda á tjóni hans samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í lögregluskýrslu, dags. 7. ágúst 2011, komi fram að umferðarslysið hafi átt sér stað á vegkafla á […] þar sem vegaframkvæmdir hafi staðið og hámarkshraði hafi verið 50 km á klst. Gróf möl hafi verið á veginum og hjólför farin að myndast á honum svo sérstök ástæða hafi verið til fyllstu varúðar. Samkvæmt framburði stefnanda sjálfs hafi hann ekið á hraðanum 60 km á klst. þegar slysið varð. Sjónarvottur að slysinu hafi ekið á um 50 km hraða á klst. en talið stefnanda hafa ekið nokkru hraðar. Stefnandi hafi því ekki miðað hraða bifhjólsins við ástand vegar og umferðaraðstæður að öðru leyti, líkt og honum hafi borið að gera samkvæmt 1. mgr. 36. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá hafi hann ekki tryggt að hraði bifhjólsins yrði aldrei meiri en svo að hann hefði fullt vald á því og gæti stöðvað það á þeim hluta vegar fram undan sem hann sæi yfir og áður en kæmi að hindrun sem gera mætti ráð fyrir, líkt og skylt sé samkvæmt sama ákvæði.
Stefndi krefjist til vara lækkunar á kröfu stefnanda vegna stórkostlegs gáleysis hans sjálfs. Þá mótmæli stefndi því að miðað sé við vísitölu neysluverðs í septembermánuði árið 2014 (422,6 stig) í kröfu stefnanda. Rétt sé að miða við vísitölu neysluverðs í janúarmánuði árið 2012 (387,1 stig), þ.e. þegar heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt eftir umferðarslysið.
Þá byggi stefndi á því að til frádráttar kröfu stefnanda eigi að koma greiðslur sem hann hafi fengið úr lögboðinni slysatryggingu ökumanns frá Tryggingamiðstöðinni hf. vegna umferðarslyssins. Það sé hvorki sanngjarnt né í samræmi við tilgang slysatryggingar flugmanna samkvæmt kjarasamningi stefnda og FÍA eða almennar skaðabótareglur að stefnandi fái tjón sitt tvíbætt. Þá sé rétt að launagreiðslur stefnda til stefnanda á grundvelli starfslokasamkomulagsins, umfram þrjá almanaksmánuði frá síðasta starfsdegi, skuli jafnframt koma til frádráttar kröfu stefnanda þar sem forsenda þeirra greiðslna hafi verið sú að stefnandi gæti ekki átt frekari kröfur á hendur stefnda.
IV
Stefnandi, sem starfaði sem flugstjóri hjá stefnda, krefst í máli þessu bóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi 7. ágúst 2011. Stefnandi byggir kröfu sína á kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna & Icelandair Group hf./Icelandair ehf. um kaup og kjör frá 19. júlí 2011. Samkvæmt grein 8.1 í kjarasamningnum skal hver flugmaður vera tryggður fyrir 14.161.323 krónur miðað við dauða eða fulla örorku. Samkvæmt ákvæðinu skal tryggingin vera samkvæmt skilmálum Sambands slysatryggjenda.
Stefndi hafnar bótaskyldu og byggir í fyrsta lagi á því að aðilar hafi gert með sér fullnaðaruppgjör með starfslokasamkomulagi frá 6. maí 2013. Samkvæmt samkomulaginu hætti stefnandi störfum 29. janúar 2013 en fékk greidd laun til 31. október 2013. Fram kemur að þessar greiðslur teljist fullnaðaruppgjör og skuli hvorugur aðila eiga frekari kröfur á hinn. Samkomulagið nái þó ekki til viðskiptaskulda. Þá kemur fram að samkomulagið skerði á engan hátt rétt stefnanda til tryggingarfjár samkvæmt greinum 8.1, 8.2, 8.3, 8.4, 8.9 og 7.2 í kjarasamningi vegna veikinda eða slysa er verða áður en starfstíma hans lýkur, í samræmi við grein 8.5 í kjarasamningnum. Í framburði stefnanda og vitnisins D, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs stefnda, kom fram að ákvæðið var sett í starfslokasamninginn að frumkvæði stefnanda. Stefnandi taldi það hafa verið vegna tveggja slysa sem átti eftir að gera upp við hann, en vitnið kannaðist ekki við það og taldi það hafa átt að tryggja rétt stefnanda það sem eftir væri tímans sem hann væri á launum.
Þegar framangreint samkomulag var gert átti eftir að greiða stefnanda bætur vegna slyss sem hann varð fyrir árið 2010 en ekki virðist hafa verið ágreiningur um bótaskyldu stefnda vegna þess og voru bæturnar greiddar í júní 2013. Er augljóst að fyrirvaranum í samkomulaginu var ætlað að ná til þeirra slysa sem urðu á starfstíma stefnanda hjá stefnda. Þá er ekki sérstaklega tilgreint að einungis sé um að ræða tryggingarfé frá Icecap Insurance Pcc Limited í samræmi við skilmála þess. Starfslokasamkomulagið stendur því ekki í vegi greiðslu bóta til stefnanda.
Stefndi byggir í öðru lagi á því að slys við notkun skráningarskyldra ökutækja séu undanþegin slysatryggingu samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna & Icelandair Group hf./Icelandair ehf. Samkvæmt kjarasamningnum skyldi tryggingin vera samkvæmt skilmálum Sambands slysatryggjenda. Samband slysatryggjenda var lagt niður í kjölfar ákvörðunar samkeppnisráðs nr. 17/2004. Um var að ræða samstarf íslenskra tryggingafélaga, m.a. um samræmda skilmálagerð vegna slysatrygginga. Þrátt fyrir að samstarfinu hafi verið hætt var ekki gerð breyting á ákvæði kjarasamningsins. Stefndi hefur lagt fram skilmála slysatryggingar launþega sem merktir eru þannig að um sé að ræða fyrirmynd að almennum vátryggingarskilmála sem sé ekki bindandi, annars vegar vegna 1. janúar 1997 til 5. júní 2000 og hins vegar frá þeim tíma. Samkvæmt þeim kom nýtt ákvæði inn í skilmálana 5. júní 2000 sem undanskilur slys sem verða við notkun skráningarskyldra ökutækja, en þar kemur fram að bætur vegna varanlegrar örorku greiðist ekki sé bótaréttur vegna slyssins fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ökutækjatryggingu. Óumdeilt er að bifhjól stefnanda var tryggt lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá Tryggingamiðstöðinni hf.
Af gögnum málsins þykir sýnt að báðir samningsaðilar voru meðvitaðir um framangreinda breytingu á skilmálunum en gerðu enga athugasemd við hana þótt önnur atriði varðandi trygginguna væru tekin til endurskoðunar. Verður því ekki annað séð en að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila að umferðarslys sem bætast úr lögboðinni ökutækjatryggingu skyldu vera undanskilin slysatryggingunni.
Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt til bóta þar sem trygging hans samkvæmt kjarasamningnum undanskilji ekki slys sem verði við notkun skráningarskyldra ökutækja. Slíkt verði að koma skýrt fram í kjarasamningnum sjálfum. Í kjarasamningnum er skýrt vísað til þess að um trygginguna gildi ákveðnir skilmálar. Verður ekki fallist á að undanþágur verði að vera tilgreindar sérstaklega í kjarasamningnum sjálfum. Þá er ekki hægt að fallast á það með stefnanda að þar sem Samband slysatryggjenda hafi verið lagt niður gildi engir skilmálar um trygginguna.
Stefnandi hafnaði því við aðalmeðferð málsins að þær fyrirmyndir skilmála slysatryggingar launþega sem stefndi lagði fram væru þeir skilmálar sem vísað er til í kjarasamningi. Eins og að framan er greint var um að ræða samstarf íslenskra tryggingafélaga sem laut m.a. að gerð samræmdra skilmála vegna slysatrygginga. Liggur ekkert fyrir um að samræmdir skilmálar hafi verið gerðir í öðru formi og verður því að líta svo á að um þessar fyrirmyndir hafi verið að ræða.
Stefndi kaupir nú tryggingu hjá Icecap Insurance Pcc Limited en skilmálar þess félags eru sambærilegir þeim sem koma fram í fyrirmynd Sambands slysatryggjenda að því er lýtur að slysum sem verða við notkun skráningarskyldra ökutækja. Þá liggur fyrir að sambærileg takmörkun gildir almennt um slysatryggingar launþega hjá íslenskum vátryggingafélögum.
Með hliðsjón af framangreindu þykir verða að túlka ákvæði kjarasamningsins svo að ákvæði hans um slysatryggingu launþega sæti takmörkunum og undanþágum sem almennt gilda samkvæmt skilmálum slysatrygginga hjá vátryggingafélögum. Þar sem stefnandi var tryggður vegna slyssins lögboðinni slysatryggingu ökumanns verður ekki talið að stefnda hafi verið skylt að bæta tjón stefnanda samkvæmt kjarasamningi og verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.
Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Icelandair ehf., er sýkn af kröfu stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.