Hæstiréttur íslands
Mál nr. 635/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 1. október 2015. |
|
Nr. 635/2015.
|
A (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Fjölskyldunefnd B (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Vistun barns. Gjafsókn
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Fjölskyldunefndar B um að dóttir A skyldi vistuð utan heimilis í þrjá mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 10. september 2015 og Hæstarétti 23. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að úrskurður Fjölskyldunefndar B 9. júlí 2015 yrði felldur úr gildi en jafnframt fallist á kröfu varnaraðila um að barnið C yrði vistuð utan heimilis síns í þrjá mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður héraðsdóms og að kröfu varnaraðila um vistun barnsins utan heimilis verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að kröfu sóknaraðila um málskostnað verði hafnað.
Haldlaus er sú viðbára sóknaraðila að fella beri úr gildi hinn kærða úrskurð þar sem í úrskurðarorði hans sé vísað til dóms en ekki úrskurðar eins og rétt hefði verið.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðila, Fjölskyldunefnd B, er heimilt að vista dóttur sóknaraðila, A, C utan heimilis í þrjá mánuði frá 7. september 2015 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2015.
Þetta mál var tekið til úrskurðar 31. ágúst sl. Forsaga þess er að fjölskyldunefnd B ákvað á fundi sínum 9. júlí sl. að krefjast þess fyrir dómi að systkinin D og C yrðu vistuð utan heimilis í allt að sex mánuði. Á sama fundi kvað nefndin upp þá úrskurði að börnin skyldu áfram vistast utan heimilis í tvo mánuði en þau höfðu verið tekin af heimilinu 29. júní sl. á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dóminum barst, 5. ágúst sl., kæra móður barnanna, A. Í henni krafðist hún þess að felldir yrðu úr gildi þeir úrskurðir fjölskyldunefndar B 9. júlí 2015 að börn hennar, D og C, skyldu vistuð utan heimilis í tvo mánuði.
Eins og ákveðið hafði verið á fundinum 9. júlí og er heimilt samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 80/2002 krafðist fjölskyldunefnd B þess í greinargerð sinni til dómsins að börnin skyldu vistuð utan heimilis í sex mánuði. Sú krafa sneri hins vegar ekki einvörðungu að móður barnanna heldur einnig föður þeirra, E, enda njóta börnin forsjár beggja foreldra sinna. Báðir foreldrarnir afhentu dóminum greinargerðir til varnar gegn kröfu fjölskyldunefndarinnar um vistun barnanna utan heimilis í sex mánuði.
Í XI. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um meðferð mála samkvæmt 27. og 28. gr. laganna fyrir dómi. Í 1. mgr. 62. gr. segir að í málum samkvæmt þeim kafla sé barnaverndarnefnd sóknaraðili krefjist hún úrlausnar héraðsdóms en foreldrar og barn, sem náð hafi 15 ára aldri, séu varnaraðilar. Sé staðan hins vegar sú að foreldrar eða barn leiti úrlausnar dómstóls teljast þau, samkvæmt 2. mgr. 62. gr., sóknaraðilar en barnaverndarnefnd varnaraðili. Eins og áður er greint segir í 3. mgr. að þegar barnaverndarnefnd teljist varnaraðili sé henni heimilt að gera í greinargerð sjálfstæða kröfu um úrskurð skv. 28. gr.
Samkvæmt fyrirmælum þessa kafla laganna ætti móðir barnsins að vera sóknaraðili í þessu dómsmáli þar eð hún bar réttmæti úrskurðar nefndarinnar um vistun barnanna utan heimilis í tvo mánuði undir dóm með kæru 5. ágúst sl. Fjölskyldunefndin ætti að vera varnaraðili því að hún krafðist þess í greinargerð sinni 19. ágúst að vistunin stæði í sex mánuði. Vegna þess að sú krafa beindist einnig að föður barnanna er hann nú orðinn varnaraðili gegn þeirri kröfu nefndarinnar ásamt með móður þeirra.
Dóminum þykir ekki rétt að líta svo á að í málinu séu kröfur í aðalsök og gagnsök enda ákvað fjölskyldunefndin, þegar 9. júlí sl., að krefjast þess fyrir dómi, með heimild í 28. gr., að börnin yrðu vistuð utan heimilis í sex mánuði en hafði einungis heimild samkvæmt 27. gr. til þess að úrskurða um vistun þerra utan heimilis í tvo mánuði. Þrátt fyrir ákvæði 62. gr. um aðild þykir dóminum verða, til einföldunar í þessu máli, að nefna fjölskyldunefndina sóknaraðila og foreldra barnanna varnaraðila.
Sóknaraðili, fjölskyldunefnd B, krefst þess að úrskurðað verði að C, kt. [...], sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, A og E, skuli vistuð utan heimilis þeirra í sex mánuði talið frá þeim degi þegar dómsúrskurður verður kveðinn upp.
Varnaraðili, A, kt. [...], krefst þess að felldur verði úr gildi sá úrskurður fjölskyldunefndar B, 9. júlí 2015, að dóttir hennar C skyldi vistuð utan heimilis í tvo mánuði.
Hún krefst þess jafnframt að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að barnið skuli vistast utan heimilis í sex mánuði frá því héraðsdómur kveður upp úrskurð sinn.
Hún krefst enn fremur málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili, E, kt. [...], krefst þess aðallega að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að telpan C verði vistuð utan heimilis foreldra sinna í sex mánuði talið frá uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms.
Hann krefst þess til vara að vistun drengsins utan heimilis verði markaður skemmri tími.
Hann krefst að auki málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Málsatvik
Að sögn sóknaraðila, fjölskyldunefndar B, má rekja upphaf afskipta nefndarinnar af varnaraðilum og börnum þeirra til tilkynningar sem barst barnaverndaryfirvöldum í september 2013 þegar A var þunguð af D. Tilkynnendur, ljósmæður á Landspítalanum, höfðu áhyggjur af lífi og heilsu ófædds barnsins vegna sjúkdóma móður sem hún hefði ekki fjárhagslega burði til að fá meðhöndlaða. Með eiginmanni sínum átti hún fyrir barnið C, fædda [...] og hafi fjölskyldunefndin haft afskipti af foreldrunum vegna beggja barnanna. Barnaverndarafskipti hafi staðið nánast samfleytt frá september 2013 að undanskildum rúmum tveimur mánuðum árið 2014. Lögregla hafi ítrekað komið að vegna heimilisófriðar. Einkum hafi varnaraðili, E, og sonur hans af fyrra hjónabandi beitt sér gegn varnaraðila A.
Fjölskyldunefndin stofnaði mál hjá sér vegna C 28. október 2013 á grundvelli 21. gr. barnaverndarlaga vegna uppeldisaðstæðna og síðar annað vegna bróður hennar.
Þann 13. janúar 2014 hringdi A á lögreglu og sagði eiginmann sinn hafa veist að sér og barni þeirra með barsmíðum og taldi hann undir áhrifum fíkniefna. A kvaðst hafa komið að E og F, syni hans, fyrr um kvöldið þar sem þeir voru að lemja C fyrir að hafa hellt á sig sápu og þeir hafi síðan ráðist á sig. A fór, 25. janúar 2014, ásamt börnum sínum tveimur til dvalar í Kvennaathvarfinu. Athvarfið tilkynnti fjölskyldunefndinni, 3. mars 2014, að starfskonur þar hefðu áhyggjur af getu móðurinnar til að annast börn sín á fullnægjandi hátt við þær aðstæður sem fjölskyldan bjó þá við. Lögregla tilkynnti nefndinni, 2. júní 2014, að A hefði ekið viljandi á íbúðarhús fjölskyldunnar vegna ósættis við eiginmann sinn.
Barnavernd Reykjavíkur barst, 12. nóvember 2014, tilkynning undir nafnleynd. Tilkynnandi hafði miklar áhyggjur af aðstæðum barnanna, stúlkan væri ekki í leikskóla og grunur væri um að A beitti hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Sama dag fóru starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur á heimilið og viðurkenndi A að hafa rassskellt dóttur sína en tók fram að samkvæmt hennar trú væri heimilt að rassskella börn ef þau hlýddu ekki.
C fékk pláss á leikskóla 1. nóvember 2014 og var A sent bréf þess efnis í október 2014. Hún svaraði þó ekki pósti eða símhringingum frá leikskólanum þrátt fyrir að hún hefði oft hringt sjálf á leikskólann og ýtt á eftir því að stúlkan kæmist að. Barnavernd Reykjavíkur náði, 1. desember 2014, sambandi við A og fór í kjölfarið að heimili hennar og ræddu starfsmenn við hana. Í því samtali sagðist hún hafa verið heróínfíkill í mörg ár en hefði hætt þeirri neyslu árið 2004 og farið að misnota verkjalyf. Hins vegar hefði hún hætt allri neyslu þegar hún hætti notkun verkjalyfja í febrúar 2013. Hún sagði dóttur sína þurfa að fara á leikskóla en hún hefði ekki efni á að greiða fyrir hann. Við þetta tilefni kom einnig fram að A hefði ekki farið með D í reglubundið ungbarnaeftirlit.
Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur lagði til, 8. desember 2014, að gerð yrði áætlun um meðferð málsins þar sem kæmi fram að sótt yrði um greiningu og ráðgjöf heim fyrir fjölskylduna. Áætlunin var kynnt A en hún kom því á framfæri að hún hefði ekki áhuga á aðstoð frá Barnavernd Reykjavíkur ef hún fælist í því sem fram kom í áætluninni.
Þann 18. mars 2015 barst Barnavernd Reykjavíkur tilkynning undir nafnleynd þar sem fram komu áhyggjur af aðstæðum barnanna í umsjá móður en tilkynnandi taldi A vera í vafasömum félagsskap og að neysla væri á heimilinu. Ekki náðist samband við A af því tilefni.
Barnavernd barst 7. apríl 2015 tilkynning undir nafnleynd. Tilkynnandi hafði áhyggjur af börnunum á heimilinu því að öskrað væri á þau um miðjar nætur.
Þann 17. apríl 2015 sendi A Barnavernd Reykjavíkur tölvupóst. Þar kom fram að foreldrarnir hefðu ákveðið að neita allri samvinnu við barnavernd og óskuðu eftir öðrum fundi með starfsmönnum til þess að fara yfir málin.
Málið var tekið fyrir á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 30. apríl 2015. Það var mat starfsmanna að reynt hefði verið að vinna með foreldrum að bættum aðstæðum en þau hefðu slegið í og úr hvort þau þæðu og vildu aðstoð með börnin og heimilishagi. Niðurstaða fundarins var sú að leggja til að börnin yrðu vistuð utan heimils, þau skoðuð af lækni og þroskastaða þeirra könnuð. Lagt var til að þau yrðu vistuð í allt að fjóra mánuði utan heimilis.
Málið var formlega flutt til barnaverndaryfirvalda í [...] með bréfi dagsettu 20. maí 2015.
Þann 3. júní 2015 komu foreldrar til viðtals hjá fjölskyldunefnd B. Þar var bókað að foreldrar hefðu lýst sig reiðubúin að þiggja stuðning eins og aðstoð við heimilisþrif, sálfræðiþjónustu, tilsjón og stuðning við sjúkraþjálfun og læknisaðstoð. Samvinna foreldra leiddi til þess að starfsmenn barnaverndar [...] töldu unnt að láta reyna á vægari úrræði en vistun utan heimilis með því skilyrði að samvinna yrði góð og varnaraðilar myndu nýta sér þá þjónustu og úrræði sem stæðu til boða.
Þann 24. júní 2015 barst tilkynning frá lögreglunni vegna ofbeldis og ágreinings á heimili varnaraðila. Starfsmenn fjölskyldunefndar fóru þangað og ræddi A við starfsmenn um að hún hefði eldri bróður barnanna, F, grunaðan um að hafa beitt C kynferðislegu ofbeldi og út frá því hafi brotist átök.
Þann 26. júní 2015 var haldinn meðferðarfundur fjölskyldunefndar B vegna málsins. Starfsmennirnir mátu stöðuna þannig að foreldrarnir hefðu litla innsýn í eigin vanda. Þau hefðu ekki undirritað áætlun um meðferð máls, dags. 11. júní 2015, og því væri ekki unnt að segja að þau hefðu verið til fullrar samvinnu. Þeim hefði ítrekað verið boðinn stuðningur og aðstoð, meðal annars stuðning sem þau óskuðu sjálf eftir, en þau hefðu ekki nýtt sér þann stuðning og af þeim sökum hefðu aðstæður barnanna lítið breyst. Það varð því niðurstaða fundarins að gerð yrði ný áætlun um meðferð málsins skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í henni yrði miðað við að faðir færi í vímuefnameðferð, móðir færi í regluleg sálfræðiviðtöl og leitaði sér alhliða læknisþjónustu, með aðstoð barnaverndar óskaði hún þess, eldri bróðir færi í meðferð eða flytti út af heimilinu, foreldrar gengjust undir forsjárhæfnimat og boðað og óboðað eftirlit yrði með heimilinu. Þá skyldu foreldrar taka á móti félagslegri heimaþjónustu sem fælist í heimilisþrifum.
Starfsmenn sóknaraðila fóru á heimili varnaraðila 29. júní sl. Þau svöruðu ekki og í annað sinn er starfsmenn komu á staðinn heyrðist í A segja C að fara inn í herbergi og hafa hljótt. Í kjölfarið var farið inn á heimilið með lögreglu. A var ítrekað gefið tækifæri til að afhenda starfsmönnum börnin en hún neitaði og hélt fast í þau bæði og eftir að hafa verið gefið lokatækifæri til þess að afhenda þau, sem hún neitaði, varð úr að lögregla tók börnin af heimilinu.
Það var mat starfsmanna sóknaraðila að öryggi og aðbúnaður barnanna yrðu ekki tryggð af foreldrum á heimilinu og voru börnin því kyrrsett, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga, á heimili á vegum fjölskyldunefndar B í allt að 14 daga.
Þann 1. júlí birti vinkona varnaraðila á veraldarvefnum myndband sem A hafði tekið upp meðan á aðgerðum fjölskyldunefndar og lögreglu stóð 29. júní. Í myndbandinu var lýst eftir börnunum og persónuupplýsingar um þau og þeirra mál voru birtar opinberlega.
Varnaraðili, E, kveðst hafa neytt kannabisefna daglega frá 2010. Þau hjálpi honum að takast á við kvíða og þunglyndi. Sonur hans, F, sem býr á heimilinu tekur þátt í þessari neyslu. A hefur lýst því að hún glími við þunglyndi og kvíða og virðist eiga erfitt með að þiggja þá aðstoð sem henni hafi verið boðin.
Í kæru lýsir varnaraðili A því að hún hafi verið í ofbeldisfullu og erfiðu hjónabandi með varnaraðila E. Hún hafi skilið við hann um tíma en þau hafi tekið saman aftur. Ýmislegt hafi gengið á í samskiptum þeirra og hafi A orðið að kalla til lögreglu vegna ofbeldis eiginmanns hennar og sonar hans af fyrra hjónabandi. Hún hafi af þessum sökum orðið að flýja í Kvennaathvarfið og dvelja þar mánuðum saman.
Hún hafi nú ákveðið að segja að fullu skilið við eiginmanninn og hafi í því skyni pantað tíma hjá sýslumanni. Vegna fjárhagserfiðleika sé ekki hlaupið að því fyrir hana að flytja út af heimilinu enda sé hún atvinnulaus og erlendur ríkisborgari. Enn fremur glími hún við ýmis veikindi og hafi átt erfitt með að fá læknishjálp við þeim þar sem hún sé ekki sjúkratryggð.
Þessu til viðbótar hafi sonur eiginmanns hennar beitt hana ofbeldi og hafi varnaraðili sjálf tilkynnt lögreglu að hana grunaði að sonurinn hefði beitt dóttur hennar kynferðisofbeldi.
Varnaraðili E hafnar með öllu málsatvikalýsingu sóknaraðila og telur nefndina að ósekju draga upp verulega ýkta mynd af aðstæðum á heimilinu. Varnaraðili geri ekki sérstakar athugasemdir við persónulega lýsingu á aðstæðum hans.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að ítrekað hafi verið reynt að styðja fjölskylduna og koma til móts við þarfir hennar en varnaraðilar hafi ekki nýtt sér þann stuðning. Foreldrarnir hafi litla innsýn í eigin vanda. Það sé mat starfsmanna fjölskyldunefndar B að fullreynt hafi verið að ná samvinnu við varnaraðila um gerð áætlunar um meðferð málsins. Vegna þess að foreldrar slái í og úr um samvinnu sína við barnaverndaryfirvöld telji starfsmenn að ekki sé hægt að láta reyna á frekari samvinnu á meðan aðstæður barnanna séu eins og verið hafi.
Fjölskyldunefnd B telji börnin búa við óviðunandi aðstæður vegna innsæisleysis og vanrækslu foreldra, samskiptaerfiðleika og ofbeldis þeirra í milli ásamt vímuefnaneyslu föður og eldri bróður sem búsettur er á heimilinu og að aðbúnaður barnanna verði ekki tryggður nema með tímabundinni vistun utan heimilis meðan foreldrarnir taki á vanda sínum.
Nefndin telji nauðsynlegt að vistun barnanna utan heimilis standi lengur en í tvo mánuði og krefst þess að úrskurðað verði um framlengingu á vistun barnanna í allt að sex mánuði, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Fjölskyldunefnd B byggir aðild sína að málinu á 1. mgr. 62. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kröfu um vistun barnanna utan heimilis í sex mánuði byggi hún á 27. gr. og 28. gr. laganna. Leitast hafi verið við að beita eins vægum úrræðum gagnvart foreldrunum og unnt hafi verið hverju sinni. Þau hafi ekki nýtt sér stuðningsúrræðin og því hafi ekki verið hægt að skapa börnunum aðstæður sem tryggi þeim viðunandi aðbúnað og heilbrigt uppeldi.
Það sé skilyrði fyrir beitingu b-liðar 1. mgr. 27. gr. laganna að brýnir hagsmunir barnanna mæli með því svo og að úrræði skv. 24. og 25. gr. hafi ekki skilað árangri eða að þau séu ófullnægjandi. Öll lagaleg skilyrði fyrir beitingu 27. gr. laganna séu uppfyllt.
Sú krafa að börnin verði vistuð utan heimilis í sex mánuði byggist á 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga enda þyki nauðsynlegt að vistun barnanna standi lengur en í tvo mánuði því að ekki sé hægt að ætla að varnaraðilar breyti aðstæðum sínum og aðbúnaði barnanna á skömmum tíma. Sóknaraðili byggi einnig á því að hann hafi í hvívetna gætt meðalhófsreglunnar við meðferð málsins og hafi ekki gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist.
Málsástæður og lagarök varnaraðila A
Varnaraðili furðar sig á því að það sé notað gegn henni að hún hafi kallað til lögreglu vegna ofbeldis sem eiginmaður hennar og sonur hans hafi beitt hana. Samfélaginu beri að hjálpa og liðsinna þolanda heimilisofbeldis en ekki fordæma hann. Móður, sem sæti slíku ofbeldi, verði að hjálpa út af heimilinu sé ekki unnt að fjarlægja ofbeldismanninn. Það sé ekki unnt í þessu tilviki því að foreldrar hans eigi húsnæðið. Grun um ofbeldi gegn barni eigi ekki heldur að nota gegn móður þess sem hafi kallað eftir hjálp um leið og grunur hafi vaknað.
Samkvæmt barnaverndarlögum beri að liðsinna móður sem verði fyrir slíku ofbeldi á heimili sínu og koma henni og börnum hennar í skjól frá ofbeldinu í stað þess að taka þau frá henni og sundra fjölskyldunni. Ekki hafi verið reynt að koma móður og börnum í skjól undan ofbeldinu og hafi barnaverndarnefnd þannig brotið bæði gegn mannréttindum hennar og þeirra.
Það áhlaup sem hafi verið gert á heimilið í lok júní sl. þegar börnin voru tekin frá foreldrum sínum geti ekki verið börnunum fyrir bestu. Þvert á móti hljóti það að vera börnunum skaðlegt vegna þess hversu ung þau eru, tengd móður sinni og vegna þess að þau tali ekki íslensku.
Varnaraðili A hafi verið í samvinnu við fjölskyldunefndina við að bæta uppeldisaðstæður barnanna og vilji áfram vinna með nefndinni en henni hafi ekki verið boðið samstarf á fullnægjandi hátt þar sem meðferðaráætlun hafi ekki verið afhent henni á íslensku. Þar sem hún skilji ekki málið sé slíkt ámælisvert.
Fyrir því að úrskurður fjölskyldunefndar B 9. júlí verði felldur úr gildi færir varnaraðili A þau rök að með úrskurðinum sé brotið gegn 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem segi að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og því aðeins skuli grípa til íþyngjandi ráðstafana að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Ákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 styðji þetta einnig.
Þar sem vægari úrræði, sem mælt er fyrir um í 23. og 24. gr. barnaverndarlaga, hafi ekki verið fullreynd hafi ekki verið lagaskilyrði fyrir úrskurðinum og þar af leiðandi ekki skilyrði fyrir vistun barnanna utan heimilis.
Málsástæður og lagarök varnaraðila E
Varnaraðili kveðst hafa neytt kannabisefna. Það eitt og sér telji hann að geri hann ekki vanhæfan til þess að annast börn sín. Í ljósi hugleiðinga löggjafans um vægari afstöðu til kannabisreykinga, sem og vegna lögleiðingar kannabisefna í nágrannalöndum, telji varnaraðili það sérstakt skoðunarefni hvort fyrir fram mótaðar hugmyndir manna vegi of þungt í mati á hæfi.
Varnaraðili E er verulega ósáttur við framgang fjölskyldunefndarinnar í málinu og hyggst leggja fram kæru vegna þeirra aðgerða. Honum sé þó ljóst að samvinna verði að vera með þeim aðilum sem vinni að hagsmunum barna hans. Hann beri lítið traust til þeirra yfirvalda sem unnið hafi að hans málum og æskir þess að eftirleiðis vinni aðrir starfsmenn að málefnum fjölskyldunnar.
Varnaraðili telur vandamál fjölskyldu sinnar að verulegu leyti fjárhagsleg og fjölskyldunefndina ekki hafa veitt þeim fullnægjandi liðsinni.
Varnaraðili telur sóknaraðila reisa úrskurð sinn 9. júlí sl. á röngum forsendum. Því til frekari stuðnings bendir hann á að þegar fjölskyldunefndin hafi gripið til aðgerða á heimili fjölskyldunnar 29. júní 2015 hafi ekki verið nein neyð og aðstæður fjölskyldunnar verið viðunandi.
Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli barnaverndaryfirvöld leita allra annarra leiða til þess að aðstoða fjölskyldu áður en gripið sé til veigameiri úrræða. Þessa hafi ekki verið gætt enda fjárhagslegur stuðningur bæjarins við fjölskylduna verið verulega skertur. Hann vísar einnig 2. mgr. 18. gr. sáttamála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Ekkert bendi til þess að hagur barnanna D og C sé ekki tryggður. Þau tengist foreldrum sínum vel, þeim líði vel á heimilinu og þroski þeirra samsvari að öllu leyti þroska jafnaldra. Leikskóli hafi staðfest góð samskipti við móður þeirra og að aðbúnaður barnanna á leikskóla frá heimili hafi verið fullnægjandi.
Varnaraðili bendir á að fjölskyldunefndin hafi ítrekað í lausnum sínum ýtt að eiginkonu hans að slíta sambandi sínu við hann. Þetta telji hann óeðlileg og óheimil afskipti af friðhelgi einkalífs fjölskyldu hans.
Hann telur málið ekki hafa hlotið vandaða stjórnsýslumeðferð og þess hafi ekki verið gætt að rannsaka það til hlítar eins og kveðið sé á um með rannsóknarreglu barnaverndarlaga sem og stjórnsýslulaga.
Varnaraðili E byggir á því að ekki hafi verið reynt til þrautar að leita annarra úrræða. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli barnaverndaryfirvöld ávallt beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og því aðeins gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Það sé vilji löggjafans að ávallt skuli kanna önnur og vægari úrræði og beita þeim áður en gripið sé til þess að fjarlægja börn af heimili.
Varakrafa byggist á sömu röksemdum og aðalkrafa. Varnaraðili vísar til ákvæða barnaverndarlaga, ákvæða sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins svo og til stjórnsýslulaga.
Niðurstaða
Í þessu máli þarf dómurinn að svara tvennu. Annars vegar því hvort skilyrði hafi verið til þess að vista börn varnaraðila, A og E, utan heimilis, sbr. 27. gr. og hins vegar því hvort rök séu fyrir því að sú vistun standi lengur en tvo mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Eftir 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, meðal annars þegar félagsmálastofnanir og dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga getur barnaverndarnefnd, ef brýnir hagsmunir barns mæla með því, kveðið á um töku þess af heimili í allt að tvo mánuði til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í 1. mgr. 28. gr. laganna segir að telji barnaverndarnefnd nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt b-lið 27. gr. þeirra standi lengur en þar er kveðið á um skuli hún gera kröfu um það fyrir héraðsdómi.
Með skírskotun til framangreindrar meginreglu 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 1. mgr. 3. gr. samningsins um réttindi barnsins skulu stjórnvöld og dómstólar ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi þegar málefnum þess er ráðið til lykta. Þótt mikilvægt sé að varðveita tengsl barnsins við foreldra og nánustu vandamenn, eins og ráðið verður af ákvæðum laganna og samningsins, verða þeir hagsmunir að víkja fyrir brýnum hagsmunum barnsins sjálfs ef þetta tvennt fer ekki saman. Þó ber að líta til tengsla barnsins við fjölskyldu sína þegar tekin er ákvörðun um málefni þess eftir því sem unnt er.
Eins og rakið hefur verið hafa barnaverndaryfirvöld í [...] og Reykjavík haft afskipti og áhyggjur af varnaraðilum í tvö ár en ekki hvað síst börnum þeirra tveimur. Það stafar meðal annars af stöðugum átökum í sambúð varnaraðila. Þrátt fyrir þessi stöðugu átök gengur þeim erfiðlega að ákveða hvort þau eigi að búa saman eða skilja. Hjúskaparstaða þeirra hefur áhrif á þá þjónustu sem félagsþjónustunni og barnaverndaryfirvöldum er fært að veita þeim, einkum A. Hún er erlendur ríkisborgari og hefur einungis búið hér á landi í tvö ár.
Í lok október 2013 töldu báðir varnaraðilar sambandið fullreynt. Þau treystu sér ekki til að umgangast hvort annað lengur og fór A af þeim sökum í Kvennaathvarfið. Á meðan hún dvaldi þar eignaðist hún drenginn D. Í samtali við ljósmóður óskaði hún eftir því að flytja út á land. Hún flutti þó aftur á sameiginlegt heimili varnaraðila fyrir jólin 2013.
Þremur vikum síðar, 13. janúar 2014, tilkynnti hún lögreglu um ofbeldi eiginmanns síns og daginn eftir óskaði hún eftir því að komast á geðdeild og jafnframt að fá aðstoð við að flytjast til heimalands síns, [...].
Eftir skamma viðkomu á geðdeild flutti A aftur í Kvennaathvarfið. Eiginmaður hennar dvaldi erlendis nokkrar vikur og óskaði Kvennaathvarfið þá eftir því að hún flytti aftur í hús þeirra. Til þess treysti hún sér þó ekki vegna kattahlands og skíts í húsinu. Taldi hún bæði sig og drenginn nýfædda hafa kattaofnæmi. Henni var því heimilað að dveljast áfram í athvarfinu. Þá sóttu kvíði og þunglyndi á hana að nýju og dvaldi hún löngum stundum á herbergi sínu með börnum sínum. Þau fóru því ekki út nema þegar tilsjónarkona A fór með eldra barnið, C, á leikskólann.
Um miðjan mars 2014 flutti A, þrátt fyrir kattahland og skít á heimilinu, aftur til eiginmanns síns. Í tilefni af því gerði hún starfsmanni fjölskyldunefndarinnar grein fyrir því að það væri andstætt trúarskoðunum hennar og siðferðilegri afstöðu að skilja við eiginmann sinn. Af þeirri ástæðu hefði hún ekki farið til sýslumanns til þess að sækja um skilnað.
Í lok mars var lögreglan kölluð á heimilið vegna heimilisófriðar. Þegar lögreglan kom að hafði A flúið út í bíl með börnin en allt var á hvolfi innandyra. Í framhaldi af þessu fór A aftur í Kvennaathvarfið. Hún varð þó að flytja þaðan og bjó á [...] í maímánuði.
Í byrjun júní 2014 hringdi A á lögregluna en hún hafði þá ekið bifreið í gegnum útvegg hússins á sameiginlegu heimili þeirra og inn í stofu. Það hafði hún gert vegna óánægju með að eiginmaður hennar gæti ekki greitt meðlag með börnunum þar sem allt hans fé færi í neyslu kannabisefna.
Í kjölfar þessa pantaði A tíma hjá sýslumanni til þess að sækja um skilnað.
Í júní eða júlí flutti A með börnin upp á [...]. Til átaka kom milli hennar og sonar og stjúpsonar eiginmanns hennar örfáum dögum síðar þegar þau voru öll stödd á heimili tengdaforeldra hennar. Af þeim sökum lagði hún fram kæru vegna áverka sem sonur og stjúpsonur eiginmanns hennar hefðu veitt henni.
Þar sem henni og börnunum virtist líða betur eftir að þau voru flutt á [...] ákvað fjölskyldunefnd B að loka barnaverndarmálunum sem stofnuð höfðu verið vegna barna hennar enda var A þá flutt til Reykjavíkur og bar Barnavernd Reykjavíkur að liðsinna henni og börnunum væri þess þörf. Fjölskyldunefndin lokaði málunum um miðjan september 2014.
Um miðjan nóvember 2014 barst nafnlaus tilkynning um að A beitti dóttur sína C líkamlegu ofbeldi. Í samtali við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur af því tilefni kom í ljós að A hafði ekki heldur í þetta sinn nýtt pantaðan tíma hjá sýslumanni og sótt um skilnað þar sem það væri andstætt trúarskoðunum hennar.
Í heimsókn starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur 31. mars 2015 kom í ljós að E væri fluttur inn til A á [...]. Að hans sögn var ekki búandi í húsinu í [...] þar eð þar væru 20 kettir. Varnaraðilum var ráðlagt að verja fé sínu betur en að greiða fyrir tvær íbúðir þar af aðra sem hýsti einungis ketti. Byggju þau í einni íbúð gætu þau rekið bifreið sem myndi létta þeim lífið. Í byrjun maí 2015 fluttu varnaraðilar og börnin aftur í húsið í [...].
Lögregla var kölluð að heimili varnaraðila í [...] 24. júní sl. A hafði þá greint E frá þeim grun sínum að F, elsti sonur hans, hefði beitt C kynferðisofbeldi. Hefðu þau rifist út af þessu og A klórað E þannig að hann sá ástæðu til að hringja á lögreglu.
Í greinargerðum lögmanns A til dómsins kemur fram að hún hyggist skilja við eiginmann sinn. Fyrir dómi bar hún að hún elskaði eiginmann sinn og vildi ekki skilja við hann en hún teldi sig þurfa að gera það vegna barnanna. Mun hún eiga tíma hjá sýslumanni í lok september til þess að sækja um skilnað.
Foreldrarnir hafa einnig átt erfitt með að ákveða hvort þau vildu eða vildu ekki þiggja aðstoð félagsmálayfirvalda. Eftir fund með varnaraðila A í nóvember 2014 lagði starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur til að gerð yrði meðferðaráætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga, sótt yrði um greiningu og ráðgjöf fyrir fjölskylduna, reynt yrði að útvega A annað húsnæði, leikskólagjöld yrðu greidd fyrir eldra barnið og fylgst með líðan þess í leikskóla og móður útveguð læknisaðstoð. Þessi meðferðaráætlun var kynnt varnaraðilum báðum föstudaginn 2. janúar 2015 á ensku. A kvaðst þá samþykk áætluninni en vildi fá að hugsa um hana yfir helgina. Með tölvupósti 12. janúar afþakkaði A alla aðstoð Barnaverndar Reykjavíkur. Það stafaði meðal annars af því að hún taldi starfsmenn nefndarinnar hafa notað upplýsingar um fortíð hennar gegn henni.
Barnavernd barst tilkynning 18. mars 2015 um áhyggjur af aðstæðum barnanna. Í framhaldi af þessu ákváðu starfsmenn Barnaverndar að boða varnaraðila báða til fundar enda virtist faðir barnanna taka virkan þátt í uppeldi þeirra þótt hann og móðirin byggju ekki saman. Mjög erfitt reyndist hins vegar að koma fundinum á og varð ekki af honum fyrr en 31. mars. Á þeim fundi sögðust þau vilja aðstoð, bæði vildu komast í viðtöl við sálfræðinga og koma börnunum til læknis. A vildi einnig ná að taka á heilsufarsvanda sínum og óskaði eftir úrræðum í því sambandi.
Vegna tilkynningar 7. apríl sl. um að öskrað væri á börnin um nætur var aftur haft samband við varnaraðila. A hafði þá ekki enn pantað tíma hjá lækni og hvorugt hafði valið sér sálfræðing sem þau höfðu þó óskað eftir að fá að velja sjálf en Barnavernd útvegaði E lögfræðing til þess að fara yfir fjármál fjölskyldunnar.
Með tölvupósti 17. apríl sl. höfnuðu varnaraðilar allri samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur en óskuðu engu að síður eftir fundi til að fara yfir málin. Á þann fund komu þau ekki og afboðuðu sig ekki heldur.
Starfsmaður Barnaverndar ræddi við A 29. apríl og kvaðst hún þá vilja þiggja stuðning. Á meðferðarfundi Barnaverndar þann dag var ákveðið að leggja málið fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur því að nauðsynlegt væri að börnin yrðu vistuð utan heimilis á meðan faðir færi í meðferð vegna vímuefnavanda og móðir í meðferð vegna heilsufarsvanda og vegna erfiðleika við að sjá um börnin. Sótt yrði um forgang í leikskóla fyrir börnin og að þau færu í læknisskoðun.
Daginn eftir, 30. apríl, boðaði starfsmaður að hann kæmi á heimilið og næði í móður og börn til þess að fara með þau í læknisskoðun. Ekki varð af henni vegna heilsufars A.
Áður en beiðni um vistun barnanna utan heimilis var lögð fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur fluttu varnaraðilar eins og áður segir aftur í [...]. Engu að síður fóru starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur með börnin í læknisskoðun 19. maí sl. Í samtali starfsmannanna við varnaraðila eftir þá læknisheimsókn greindi A frá því að hún færi ekki frá börnum sínum til þess að sinna eigin heilsu. Hún hygðist sinna börnum sínum og takast á við sjúkdóma sína heima hjá sér.
Í stað þess að fylgja eftir ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur og úrskurða að vista skyldi börnin utan heimilis ákvað fjölskyldunefnd B 4. júní sl. að gera meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002. Í því fólst að [...] myndi útvega varnaraðilum sálfræðiviðtöl og greiða fyrir þau, aðstoða A við að fá viðeigandi læknisþjónustu og koma henni í aðra heilbrigðisþjónustu svo sem í sjúkraþjálfun og á Reykjalund, aðstoða foreldra við að sækja um heimilisþrif hjá [...], aðstoða foreldra við að sækja um leikskóla fyrir börnin, styðja foreldra við uppeldi barna sinna, hafa boðað og óboðað eftirlit á heimilinu, vera í samstarfi við þá sem sjá myndu um heimilisþrifin og bjóða foreldrunum regluleg viðtöl við félagsráðgjafa. Jafnframt stóð til að keypt yrðu þrif í fyrsta sinn hjá fyrirtæki sem annast þrif til þess að koma heimilinu í mjög gott horf og auðvelda þeim sem tækju við reglubundnum heimilisþrifum að viðhalda hreinlæti á heimilinu.
Framlag varnaraðila í þessari meðferðaráætlun var að vinna með fjölskyldunefndinni á þessum sviðum, sækja sálfræðiviðtölin, taka á móti þeim sem kæmu að sinna heimilisþrifunum, sækja um leikskóla fyrir börnin og fara reglulega með þau þangað, taka á móti boðuðu og óboðuðu eftirliti og jafnframt átti A að sinna þeirri heilbrigðisþjónustu og -úrræðum sem henni stæðu til boða.
Á fundi á heimilinu 11. júní sl. var farið yfir þessa meðferðaráætlun með A á ensku en þó var ekki ritað undir neina áætlun. Fram til 25. júní ræddu starfsmenn fjölskyldunefndar oft við A í síma en ekki varð úr að varnaraðilar undirrituðu meðferðaráætlunina.
Starfsmaður nefndarinnar ítrekaði boð um alþrif á heimilinu 25. júní sl. en það afþakkaði A og kvaðst geta séð um þrifin sjálf. Þá var ítrekað við hana að varnaraðilar þyrftu að þrífa húsið um helgina þar sem starfsmenn myndu líta inn mánudaginn 29. júní til þess að taka út aðstæður á heimilinu.
Þrátt fyrir að foreldrarnir hefðu ekki undirritað þá meðferðaráætlun sem A var kynnt 11. júní og þrátt fyrir að lögregla hefði verið kölluð að heimilinu 24. júní sl. vegna enn eins heimilisófriðarins og þrátt fyrir að nefndinni hefði enn á ný verið tilkynnt undir nafnleynd um óviðunandi uppeldisaðstæður barnanna 25. júní var nefndin reiðubúin á fundi sínum 26. júní að leggja enn nýja meðferðaráætlun fyrir foreldrana. Ekki varð þó af því þar sem börnin voru tekin af heimilinu mánudaginn 29. júní sl.
Til stuðnings því að fella beri úrskurð sóknaraðila 9. júlí sl. úr gildi byggir varnaraðili A einkum á því að meðalhófs hafi ekki verið gætt áður en ákvörðunin var tekin.
Dómurinn telur að fram lögð gögn og framburður fyrir dómi sýni að börn málsaðila, D og C, hafi um langa hríð búið við óviðunandi uppeldisaðstæður. Hvort foreldra þeirra um sig hefur margoft hringt á lögreglu til þess að kæra ofbeldi hins gegn sér og hafa börnin verið viðstödd átök milli þeirra. Eldra barnið hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi, þótt hugsanlega kunni að hafa dregið úr því eftir að foreldrum var bent á að slíkt væri refsivert. Varnaraðili E hefur borið að hann verji um 7.000 kr. á dag til kaupa á kannabisefnum og neytir þeirra daglega á heimilinu oft með elsta syni sínum sem er þar tíður gestur. Af þessum sökum eru fjármunir til framfærslu fjölskyldunnar af skornum skammti þótt þau fái fjármuni frá sveitarfélaginu samkvæmt svonefndum hjónakvarða. Þetta hefur oft vakið illdeilur meðal varnaraðila en E telur það ekki vera hann sem vanræki forsjárskyldur sínar með því að verja svo miklu fé í fíkniefni heldur sé það sóknaraðili sem svelti fjölskylduna fjárhagslega.
Umfangsmikið kattahald er á heimilinu og hefur komið fyrir að kettir hafa fjölgað sér svo óstjórnlega að þeir hafa hreinlega hertekið húsið þannig að þar hefur fólki ekki verið vært. Þrátt fyrir að köttum hafi fækkað svo að búandi sé í húsinu eru enn mikil ummerki um kettina bæði sterk lykt og mikil óhreinindi.
Jafnframt liggur fyrir að börnin hafa ekki farið í reglubundið ungbarnaeftirlit. Þegar starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fóru með þau til læknis 19. maí sl. kom í ljós að glerungur í tönnum drengsins væri farinn að eyðast og sjón stúlkunnar skert á báðum augum. Eldra barnið, C, gekk í leikskóla í [...] um nokkurra mánaða skeið áður en hún fluttist með móður sinni á [...]. Eftir það hefur hún ekki sótt leikskóla. Fallist er á það með varnaraðilum að það sé ekki lögbrot að setja barn sitt ekki á leikskóla. Börnin léku sér hins vegar ekki við nein önnur börn heldur dvöldust langdvölum innandyra með foreldrum sínum, þar sem faðir þeirra og eldri bróðir reyktu daglega kannabis. Þykir dóminum augljóst að foreldrarnir hafi ekki áttað sig á þörf barna sinna fyrir að leika við önnur börn og nauðsyn þess að þau kæmust í hollara umhverfi þótt ekki væri nema hluta dags.
Að mati dómsins lögðu barnaverndaryfirvöld, bæði Barnavernd Reykjavíkur og fjölskyldunefnd B, sig í framkróka við að fá varnaraðila til samstarfs en höfðu ekki erindi sem erfiði. Meðalhófs var því fyllilega gætt við meðferð málsins og vægustu úrræði ítrekað reynd áður en börnin voru vistuð utan heimilis. Málið var jafnframt rannsakað nægilega áður en úrskurðurinn var kveðinn upp.
Að mati dómsins voru því uppfyllt skilyrði til þess að úrskurða að vista skyldi börnin utan heimilis í tvo mánuði á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga. Áður en sá úrskurður var kveðinn upp hafði fjölskyldunefndin ákveðið að taka börnin af heimilinu með vísan til 31. gr. barnaverndarlaga en sú ákvörðun er ekki hér til meðferðar.
Þar sem dómurinn telur skilyrði 27. gr. laganna hafa verið uppfyllt 9. júlí sl. verður ekki fallist á þá kröfu varnaraðila A að felldur skuli úr gildi sá úrskurður sem fjölskyldunefndin kvað upp þann dag að börnin skyldu kyrr á þeim stað þar sem þau dveldust í allt að tvo mánuði.
Þá þarf að svara því hvort uppfyllt séu skilyrði til þess að vista börnin áfram utan heimilis í allt að sex mánuði. Til stuðnings því að vistun barnanna utan heimilis skuli ekki standa lengur en í tvo mánuði vísa varnaraðilar báðir til sjónarmiða um meðalhóf og þess að stuðningsúrræði samkvæmt 23. og 24. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fullreynd. Þau byggja jafnframt á því að svo íþyngjandi úrræði sem vistun barns utan heimilis sé skuli aldrei beita í lengri tíma en brýna nauðsyn beri til.
Frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp 9. júlí sl. verða innan skamms liðnir tveir mánuðir. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram við meðferð málsins fyrir dómi er aðstaða foreldranna óbreytt og væri vistunin ekki framlengd biði barnanna óbreytt ástand á heimili þeirra. Nauðsynlegt þykir því að framlengja vistunina.
Með því að börnin verði vistuð utan heimilis í sex mánuði enn vonast sóknaraðili til þess að varnaraðilar nýti tækifærið, nái tökum á fjölþættum vanda sínum, faðirinn á fíkn sinni og móðirin meðal annars betri tökum á heilsu sinni en heilsa hennar er mikilvæg forsenda þess að hún geti sinnt börnum sínum vel.
Á fundi með sóknaraðila 10. ágúst sl. samþykkti varnaraðili A að fara í forsjárhæfnimat. Gert er ráð fyrir að það mat verði tilbúið í lok septembermánaðar. Á sama tíma á hún pantaðan tíma hjá sýslumanni til þess að óska skilnaðar að borði og sæng.
Ekki liggja fyrir nein læknisvottorð en A hefur ítrekað borið að hún glími við sjúkdóminn lupus, bakverki vegna slyss, háan blóðþrýsting og sykursýki 2. Í því skyni að leggja góðan grunn að því að börnin geti snúið aftur til móður sinnar, meðal annars með því að móðirin hefji meðferð við þeim fjölþættu sjúkdómum sem hún glímir við, og móti lífi sínu einhverja stefnu sem hún treystir sér til þess að halda sig við þannig að stuðningur barnaverndaryfirvalda geti verið markviss og festa náist í líf barnanna þykir, eins og áður segir, nauðsynlegt að vista börnin utan heimilis nokkuð enn. Með hliðsjón af sjónarmiðum um meðalhóf samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir ekki rétt að vistunin vari lengur en þrjá mánuði talið frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.
Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Varnaraðilar krefjast málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og vísa til ákvæða 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því til stuðnings.
Varnaraðili, A, fékk gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 29. júlí 2015. Málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þuríðar Kristínar Halldórsdóttur hdl., þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal hún greidd úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til þess að milli sömu málsaðila er rekið nákvæmlega eins mál sem varðar son varnaraðila, D.
Varnaraðili, E, fékk gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 7. september 2015. Málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal hún greidd úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til þess að milli sömu málsaðila er rekið nákvæmlega eins mál sem varðar son varnaraðila, E.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er þeirri kröfu varnaraðila, A, að felldur verði úr gildi sá úrskurður sóknaraðila, fjölskyldunefndar B, að C dóttir varnaraðila og eiginmanns hennar E, skuli vistuð á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, talið frá 9. júlí 2015.
Sóknaraðila er heimilt að vista telpuna utan heimilis varnaraðila beggja í þrjá mánuði talið frá uppkvaðningu þessa dóms.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, A, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þuríðar Kristínar Halldórsdóttur hdl., 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, E, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.