Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-101
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Frelsissvipting
- Hótanir
- Ólögmæt nauðung
- Rán
- Tilraun til fjárkúgunar
- Vopnalagabrot
- Áfengislagabrot
- Fíkniefnalagabrot
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 11. júlí 2023 leitar Þórður Már Sigurjónsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní 2023 í máli nr. 458/2022: Ákæruvaldið gegn Ý og Þórði Má Sigurjónssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og hótanir samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 226. gr., 2. mgr. 218. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa í félagi við aðra svipt nafngreindan mann frelsi sínu í um fjórar klukkustundir við ógnvekjandi aðstæður, hótað honum og beitt hann alvarlegu ofbeldi. Jafnframt var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir nánar tilgreind brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, áfengislagabrot og vopnalagabrot. Þá var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir ólögmæta nauðung, frelsissviptingu, tilraun til fjárkúgunar og rán gagnvart öðrum brotaþola, sbr. 1. mgr. 255. gr., 1., sbr. 2. mgr. 226. gr., 251. gr., sbr. 20. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa í félagi við annan mann svipt sama brotaþola frelsi sínu í um tvær klukkustundir, hótað honum og beitt hann ofbeldi. Leyfisbeiðanda var gert að sæta fangelsi í fjögur ár og greiða brotaþolum miskabætur.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Héraðsdómur og Landsréttur hafi lesið ranglega úr ákæru og metið sönnunargögn málsins með röngum hætti. Hann hafi verið sakfelldur fyrir háttsemi sem hann hafi engan þátt átt í og meðákærði í héraði verið sýknaður af. Dómur Landsréttar sé því bersýnilega rangur. Þá telur hann niðurstöðu Landsréttar um skaðabætur ekki standast. Loks telur hann dóm Landsréttar ekki uppfylla skilyrði 183. gr. laga nr. 88/2008. Vísar hann til þess að hvergi sé þar vikið að vörnum sínum eða þeim svarað heldur látið við það sitja að vísa til forsendna héraðsdóms.
5. Að virtum gögnum málsins eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.