Hæstiréttur íslands

Mál nr. 109/2013


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur


                                              

Fimmtudaginn 26. september  2013.

Nr. 109/2013.

Óðinn Freyr Valgeirsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hr.)

og gagnsök

Gæsluvarðhald. Skaðabætur.

Ó krafði íslenska ríkið um skaðabætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju, en Ó var sýknaður af ákæru um stórfellda líkamsárás með dómi Hæstaréttar 29. september 2011 í máli nr. 435/2007. Í málinu lá fyrir að Ó hafði játað á sig verknaðinn í upphafi rannsóknar lögreglu en síðar dregið hana til baka. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eins og játning Ó hjá lögreglu lá fyrir og í ljósi annarra rannsóknargagna, hefði hún ekki verið því marki brennd að rétt hefði verið að hafa hana að engu. Hefði Ó því sjálfur stuðlað að gæsluvarðhaldinu sem honum var gert að sæta með svo veigamiklum hætti að honum yrði ekki dæmdar bætur fyrir að hafa í öndverðu setið í gæsluvarðhaldi. Hins vegar voru honum dæmdar bætur að fjárhæð 300.000 kr. af þeim sökum að dómur hefði ekki verið lagður á málið tímanlega eftir áfrýjun þess, en á því bar hann ekki ábyrgð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 2013. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 40.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. nóvember 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 4. mars 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

I

Hinn 11. október 2010 barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í Laugardal í Reykjavík skammt frá Suðurlandsbraut. Brotaþoli var stúlka 15 ára að aldri, en hún hafði fengið stóran skurð á höfuðið sem blæddi mikið úr. Lýsti stúlkan atvikum þannig að skyndilega hefði komið maður aftan að henni og barið hana með grjóti í höfuðið. Við það hefði hún vankast og fallið til jarðar en þá hefði árásarmaðurinn stokkið á hana og tekið kverkartaki og hert að. Stúlkan kvaðst ekki hafa þekkt manninn og gat gefið mjög takmarkaða lýsingu á honum. Lögregla hóf þegar leit að árásarmanninum en hún bar ekki árangur.

Rannsókn lögreglu fór ekki að miða áfram fyrr en A [...] og kærasti hennar gáfu skýrslu hjá lögreglu 9. nóvember 2010. Kom fram hjá þeim að í samtölum þeirra við aðaláfrýjanda hefði hann greint frá því að hann hefði ráðist á stúlkuna í umrætt sinn í Laugardal. Næsta dag var gerð húsleit á heimili [...] þar sem hann bjó og var meðal annars lagt hald á buxur með blóðbletti og skó sem taldir voru líkjast skóm árásarmannsins eftir frásögn stúlkunnar. Hinn 11. nóvember 2010 var aðaláfrýjandi handtekinn og við yfirheyrslu þann dag neitaði hann sök. Eftir að hafa dvalið um stund í fangaklefa gaf hann aftur skýrslu síðar um daginn og játaði þá að hafa ráðist á stúlku í Laugardal. Næsta dag var aðaláfrýjandi færður fyrir dómara vegna kröfu um að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi en þá dró aðaláfrýjandi játningu sína til baka.

Aðaláfrýjanda var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2010 gert að sæta gæsluvarðhaldi til 10. desember það ár. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar og var hann staðfestur með dómi 15. nóvember 2010 í máli nr. 636/2010. Í dómi réttarins sagði að nægjanlega sterkur grunur væri fyrir hendi um að aðaláfrýjandi hefði framið brotið að virtri játningu hans, skýrslugjöf brotaþola og vitna um frásögn aðaláfrýjanda af því atviki sem væri til rannsóknar, sem og rannsóknargögnum öðrum. Aðaláfrýjanda var síðan áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 4. júlí 2011 eða samtals í 234 daga.

Hinn 24. janúar 2011 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur aðaláfrýjanda þar sem honum var gefið að sök að hafa í umrætt sinn á göngustíg í Laugardal í Reykjavík ráðist með ofbeldi að brotaþola og slegið hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuðið og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund. Var þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2011 var aðaláfrýjandi sakfelldur fyrir brotið og dæmdur í 3 ára fangelsi. Dómurinn var fjölskipaður héraðsdómurum og stóðu tveir dómarar að þessari niðurstöðu. Einn dómari vildi hins vegar sýkna aðaláfrýjanda. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og með dómi 29. september 2011 í máli nr. 280/2011 var aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins þar sem ekki var talið að færðar hefðu verið viðhlítandi sönnur á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að aðaláfrýjandi hefði framið brotið.

Svo sem áður greinir hlaut aðaláfrýjandi dóm í héraði 16. mars 2011. Daginn eftir lýsti hann yfir áfrýjun á dóminum og var áfrýjunarstefna gefin út 28. sama mánaðar. Hinn 23. maí 2011 bárust Hæstarétti málsgögn vegna áfrýjunar málsins. Í kjölfarið var veittur frestur til að skila greinargerðum, en verjandi fékk frest til 8. júní 2011, sækjandi til 15. sama mánaðar og foreldri brotaþola til 22. þess mánaðar. Sækjandi fékk síðar viðbótarfrest og barst réttinum greinargerð ákæruvaldsins 28. júní 2011. Þann dag var málið tilbúið til flutnings fyrir réttinum.

Með úrskurði héraðsdóms 29. júní 2011 var aðaláfrýjanda gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar gengi í máli hans, þó ekki lengur en til 12. september sama ár. Þessum úrskurði var skotið til réttarins og með dómi 4. júlí það ár í máli nr. 409/2011 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Í þeim dómi réttarins var tekið fram að gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri bundið því skilyrði að mál væri rekið með fullnægjandi hraða, þar með talið við áfrýjun, sbr. 2. mgr. 97. gr. sömu laga.

II

Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 á maður sem borinn er sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Í 2. mgr. sömu greinar segir að dæma skuli bætur vegna þvingunarráðstafanna, þar með talið gæsluvarðhalds, ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Af þessu leiðir að bætur vegna sakamáls verða ákveðnar á hlutlægum grundvelli og skiptir þá ekki máli þótt fullt tilefni hafi verið til ráðstafana gagnvart sakborningi eins og málið horfði við lögreglu þegar gripið var til aðgerða. Þó getur sakborningur vegna eign sakar fyrirgert bótarétti sínum eða þurft að sæta því að bætur verði lækkaðar.

Eins og áður er rakið játaði aðaláfrýjandi í skýrslutöku hjá lögreglu 11. nóvember 2010 að hafa ráðist á stúlku í Laugardal. Svo sem rakið er í fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 280/2011 kom sú skýrsla að nokkru leyti heim og saman við framburð brotaþola. Þannig kvaðst hann hafa stokkið á hana og gefið henni nokkur högg, auk þess sem árásin hefði staðið stutt yfir. Jafnframt kom fram hjá honum að hann hefði tekið brotaþola hálstaki. Þá er þess að gæta að A og kærasti hennar höfðu í skýrslutöku hjá lögreglu sagt að aðaláfrýjandi hefði greint þeim frá því að hann hefði ráðist á stúlkuna í umrætt sinn. Að öllu þessu virtu verður ekki talið að játning aðaláfrýjanda hjá lögreglu, eins og hún lá fyrir og í ljósi annarra rannsóknargagna, hafi verið því marki brennd að rétt hefði verið að hafa hana að engu. Aðaláfrýjandi stuðlaði því sjálfur að gæsluvarðhaldinu sem honum var gert að sæta með svo veigamiklum hætti að honum verða ekki dæmdar bætur fyrir að hafa í öndverðu setið í gæsluvarðhaldi.

Svo sem áður er rakið lýsti aðaláfrýjandi yfir áfrýjun 17. mars 2011 á dómi þeim sem hann hlaut 16. sama mánaðar. Í ljósi þess að aðaláfrýjandi sat í gæsluvarðhaldi bar eftir föngum að hraða meðferð málsins. Af þeim sökum var dómur ekki lagður á málið tímanlega, en hann hefði að réttu lagi átt að geta fallið í lok júní 2011. Aðaláfrýjandi sat því nokkru lengur í gæsluvarðhaldi en efni voru til, en hann var látinn laus 4. júlí sama ár, eins og áður er komið fram. Á því bar hann enga ábyrgð og á hann því rétt til bóta vegna þeirrar skerðingar á frelsi sem af því leiddi. Í ljósi allra atvika og þegar tillit hefur verið tekið til þess að aðaláfrýjandi var sjálfur valdur af því að hann sat lengst af í gæsluvarðhaldi þykja bætur til hans hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Af þeirri fjárhæð ber gagnáfrýjanda að greiða dráttarvexti eins og í dómsorði greinir, en upphafsdagur þeirra er miðaður við það tímamark þegar mánuður var liðinn frá því aðaláfrýjandi krafðist skaðabóta með bréfi 16. október 2011.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest en áfrýjun málsins tók ekki til gjafsóknarkostnaðar. Kemst því ekki að krafa um endurskoðun dómsins að því leyti, en hún var fyrst höfð uppi við munnlegan flutning málsins. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.  

Dómsorð:

            Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Óðni Frey Valgeirssyni, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2011 til greiðsludags.

            Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

            Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember síðastliðinn, var höfðað 29. febrúar sl. af Óðni Frey Valgeirssyni, Kleppsvegi 54, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til greiðslu miskabóta að fjárhæð 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2011 til greiðsludags og að málskostnaður verði dæmdur stefnanda að skaðlausu úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 3. maí 2011.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi var handtekinn 11. nóvember 2010 vegna gruns um að hann hefði beitt unga stúlku alvarlegri líkamsárás þar sem hún var á gangi um miðjan dag í Laugardal 11. október sama ár. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember s.á., sem stað­festur var í Hæstarétti 15. sama mánaðar, var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 10. desember s.á. Í dómi Hæstaréttar er því lýst að fram væri kominn nægilega sterkur grunur um að varnaraðili (stefnandi) hefði gerst sekur um líkamsárás sem varðað gæti við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og voru því talin uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að hann sætti gæsluvarðhaldi eins og krafist var af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember s.á. var stefnanda gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 7. janúar 2011 og var sá úrskurður staðfestur með vísan til forsendna með dómi Hæstaréttar 13. sama mánaðar. Stefnandi sætti áfram gæslu­varðhaldi samkvæmt úrskurðum héraðsdóms til 16. mars 2011 en þá var kveðinn upp dómur í ákærumáli sem höfðað hafði verið á hendur honum með ákæru 24. janúar s.á. Samkvæmt dóminum skyldi stefnandi sæta þriggja ára fangelsi að frádregnum gæsluvarðhaldstímanum frá 12. nóvember 2010. Úrskurður var kveðinn upp sama dag, 16. mars 2011, í héraðsdómi en með honum var stefnanda gert að kröfu ríkissaksóknara að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði í máli hans, þó eigi lengur en til 13. apríl s.á. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 18. mars s.á. með vísan til forsendna hans. Stefnanda var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 30. júní 2011 með úrskurði dómsins 13. apríl s.á.

Með úrskurði héraðsdóms 29. júní 2011 var stefnanda gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur félli í máli hans í Hæstarétti en þó eigi lengur en til 12. september s.á. Úrskurðurinn var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 4. júlí s.á. og var stefnandi þá laus en hann hafði þá sætt gæsluvarðahaldi samfellt frá 12. nóvember 2010. Var talið að skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi væri ekki fullnægt og var úrskurðurinn því felldur úr gildi. Stefnandi var sýknaður af hinu meinta broti með dómi Hæstaréttar 29. september 2011.

Stefnandi hefur höfðað málið með vísan til þess að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna gruns um brot sem hann hafi verið sýknaður af með dómi Hæstaréttar. Hann vísar til 228. gr. laga um meðferð sakamála þar sem mælt er fyrir um rétt einstaklings til bóta ef hann hefur sætt aðgerðum vegna rannsóknar sakamáls en er svo sýknaður með endanlegum dómi. Stefnandi hefði setið í gæsluvarðahaldi í allt of langan tíma, samtals í 234 daga. Allan þann tíma hafi frelsi hans verið skert og því eigi hann rétt á bótum.  

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi sjálfur komið því til leiðar að honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hann eigi af þeim sökum ekki rétt á bótum og beri því að sýkna stefnda af kröfum hans í málinu. Tíminn sem stefnandi sætti gæsluvarð­haldi hafi alls ekki verið langur og hafi málið verið rekið með eðlilegum hraða. Varakrafa stefnda um lækkun bóta kom fram við munnlegan málflutning en hún var af hálfu stefnanda talin rúmast innan upphaflegrar kröfu og því voru engar athugasemdir gerðar varðandi það hvenær hún kom fram. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að 11. október 2010 hafi ung stúlka orðið fyrir alvarlegri líkamsárás þar sem hún var á gangi í Laugardalnum um miðjan dag. Árásin hafi verið með þeim hætti að einhver hafi komið aftan að henni og barið hana í höfuðið með grjóti svo hún féll við og hlaut áverka á höfði. Málið hafi sætt mikilli umfjöllun í öllum fjölmiðlum í nokkra daga. Háttsemin hafi verið talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en refsinæmi þeirrar greinar sé allt að 16 ára fangelsi.

Stefnandi hafi verið handtekinn 11. nóvember s.á. vegna gruns um árásina. Það hafi verið í kjölfar ábendingar um að hann kynni að eiga aðild að henni. Hann hafi neitað við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa átt hlut að máli og hefði hann þá verið færður í fangaklefa.

Stefnandi hafi átt við fíkniefnavanda að stríða í langan tíma og hafði áður komist í kast við lögin, m.a. fyrir ránstilraun. Þá hefði hann játað fyrir lögreglu ránsbrot og hafi honum verið sleppt við svo búið.

Í þeirri trú að honum yrði sleppt og þar sem hann hafi átt afmæli þennan dag þá hafi hann gengist við brotinu hjá lögreglu. Út frá þeirri játningu og ekki síður vegna lýsingar brotaþola hafi lögreglu mátt vera ljóst að stefnandi gat ekki verið árásarmaðurinn, a.m.k. hefðu lögreglumennirnir átt að hafa um það verulegar efa­semdir.

Að kröfu lögreglu hafi stefnandi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 12. nóvember 2010 til 10. desember s.á. Stefnandi hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar sem hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms. Stefnandi hafi síðan verið úrskurðaður að nýju í gæsluvarðhald 10. desember til 7. janúar 2011, frá þeim degi til 4. febrúar sama ár, frá þeim degi til 4. mars s.á. og frá þeim degi til 25. mars s.á. Stefnandi hafi kært úrskurðina til Hæstaréttar er ávallt hafi staðfest niðurstöður héraðsdóms.

Hinn 16. mars 2011 hafi dómur fallið í máli stefnanda og hafi hann verið dæmdur til þriggja ára óskilorðsbundinnar fangelsisvistar. Dómurinn var fjölskipaður og hafi dómsformaður skilað séráliti um sýknu. Í kjölfar dómsins hafi þess verið krafist að stefnandi sætti áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði eða til 13. apríl 2011. Stefnandi hafi áfrýjað dóminum 17. mars og kært úrskurðinn en Hæstiréttur hafi staðfest hann. Aftur hafi verið krafist gæsluvarðhalds yfir stefnanda til 13. apríl s.á. og að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur Hæstaréttar gengi í máli hans en þó eigi lengur en til 30. júní s.á.

Hinn 29. júní s.á. hafði málið enn ekki fengið meðferð í Hæstarétti þar sem ríkis­saksóknari hefði ekki skilað greinargerð fyrr en 22. júní og því hafi verið krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir stefnanda allt til 12. september s.á. Héraðsdómur hafi samþykkt gæsluvarðhald en Hæstiréttur hafi fellt það úr gildi með dómi 4. júlí 2011 í máli nr. 409/2011 en þar segi:

   „ ... Talið verður að skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi á þessum grundvelli sé að mál sé rekið með fullnægjandi hraða, þar með talið við áfrýjun, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Er það mat Hæstaréttar að þessu skilyrði sé ekki fullnægt í málinu og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.“

Stefnandi hafi áfrýjað héraðsdómsmálinu 17. mars 2011 en embætti Ríkissaksóknara hafi skilað greinargerð í málinu 22. júní s.á. Óheyrilegur dráttur hafi orðið á málinu öllu sökum þessa. Það hafi ekki verið flutt í Hæstarétti fyrr en 16. september 2011 eða sex mánuðum eftir að stefnandi áfrýjaði því og tæpu ári eftir að hann var settur í gæsluvarðhald.

Þegar stefnandi var leystur úr haldi 4. júlí 2011 hafði hann setið í gæsluvarðhaldi sam­fellt í 234 daga.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 280/2011, sem kveðinn var upp 29. september 2011, hafi stefnandi verið sýknaður. Í dóminum hafi verið fundið að ýmsu er varðaði rannsókn lögreglu, þ.m.t. hvernig staðið var að yfirheyrslu yfir systur stefnanda, að ekki hefði farið fram rannsókn á erfðaefni á blóðsýnum sem tekin voru á vettvangi, myndir af áverkum hafi ekki fylgt og skort hafi á lýsingar brotaþola annars vegar og stefnanda hins vegar. Þá sé ekki að sjá að hagsmuna stefnanda hafi verið gætt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála.

Af hálfu stefnanda hafi verið sett fram krafa um miskabætur með bréfi til ríkislögmanns 16. október 2011 fyrir handtöku að ósekju og síðan setu í gæsluvarð­haldi frá þeim tíma til 4. júlí 2011 er hann var leystur úr haldi. Bótaskyldu hafi verið hafnað með svarbréfi embættisins 28. nóvember s.á.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í bréfi lögreglustjóra 8. nóvember 2011 sé gefin ástæða fyrir handtöku stefnanda. Hafi hún verið framkvæmd vegna framburðar tveggja einstaklinga, A og kærasta hennar. Þau hefðu borið um að hann hefði sagt þeim að hann hefði ráðist að stúlkunni í Laugardal. Stefnandi hafi alltaf mótmælt þeim framburði. A hafi neitað að bera vitni í dómi og kærasti hennar hafi verið uppvís að því að segja lögreglu rangt til.

Í dómi Hæstaréttar segi:

„Ákærði hefur staðfastlega neitað sök fyrir dómi allt frá því að hann var fyrst leiddur fyrir dómara 12. nóvember 2010 þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Þótt hann hafi játað í skýrslu, sem hann gaf daginn áður hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum, að hafa ráðist á brotaþola verður sakfelling ekki reist á þeirri skýrslu, einni sér. Frásögn ákærða var að auki óljós og ruglingsleg og ekki nema að hluta í samræmi við annað það, sem fyrir liggur í málinu, eins og rakið er í IV. kafla hér að framan. Þrátt fyrir að framburður þeirra vitna, sem þar er lýst, kunni að styðja það að ákærði hafi verið að verki umrætt sinn nægir sá vitnisburður ekki til sakfellis gegn eindreginni neitun hans fyrir dómi. Við mat á því hvort ákærði sé sannur að sök verður einnig að líta til þess að við rannsókn á vettvangi og fatnaði hans, þar á meðal skófatnaði, sem hald var lagt á við húsleit á heimili [...], hefur ekkert komið fram er veitir vísbendingu um að hann hafi framið verknað þann sem hann er ákærður fyrir.

Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður ekki talið, með vísan til 108. gr. laga nr. 88/2008, að færðar hafi verið viðhlítandi sönnur á, svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök. Verður hann því sýknaður af sakargiftum í máli þessu.“

Þá segi í dómi Hæstaréttar:

„Áberandi er, ekki síst þegar horft er á myndband af skýrslutökunni, að ákærði spurði í sífellu, meðan hún varði, hvort það, sem hann bar, væri ekki í samræmi við eitthvað annað án þess að fram kæmi hjá honum hvað hann ætti við með því. Undir lok skýrslutökunnar lét hann þessi orð falla „ ... ég geri mitt besta hérna bara svo ég geti eytt kvöldinu með fjölskyldunni minni“.

Hæstiréttur segi í dóminum:

„ ... Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að hann var upplýstur um ýmis atvik málsins þegar hann gaf fyrri skýrslu sína hjá lögreglu þann 11. nóvember, auk þess sem mikið hafði verið fjallað um árásina á brotaþola opinberlega, þar á meðal í fjölmiðlum. Kann ýmislegt af því, sem hann greindi frá í síðari skýrslunni, að stafa af vitneskju um málsatvik sem hann hafði áður fengið með þessum hætti. Sú skýring ákærða á játningunni að hann hafi með því móti viljað losna úr haldi er fjarstæðukennd í ljósi þeirra alvarlegu sakargifta, sem hann var borinn, og þess að honum gafst kostur á að ræða við verjanda sinn áður en skýrslutaka hófst.“

Undir rekstri sakamálsins hafi C unnið [...]­mat á stefnanda og D hafi skilað [...]­skýrslu. Báðir hafi þeir vísað til þess að veikleikar stefnanda tengdust [...] og [...] en þeir þættir hafi reynst [...]. Skýringar stefnanda á játningunni, þ.e. að hann ætti afmæli daginn sem hann var handtekinn og hann vildi eyða deginum með fjölskyldu sinni, beri að skoða með tilliti til þessa. Játning stefnanda standist ekki þegar hún sé skoðuð og hafi það verið grundvöllur fyrir sýknu Hæstaréttar. Stefnda hafi verið fullkunnugt um aðstæður stefnanda og persónulega erfiðleika.

Stefndi haldi því fram að stefnandi hafi með játningu sinni stuðlað að því að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ástæður játningarinnar hafi verið raktar hér að framan. Í 2. mgr. 228. gr. segi að fella megi bætur niður eða lækka þær ef maður hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisi kröfu sína á, meðan hann var borinn sökum í sakamálinu.

Stefnandi beri ekki ábyrgð á því að hann var handtekinn í tengslum við málið heldur hafi handtaka hans verið grundvölluð á framburði tveggja einstaklinga. Þegar hafi verið fjallað um ástæður þess að stefnandi gaf rangan framburð hjá lögreglu sem hún hefði strax átt að sjá í gegnum.   

Bætur séu lækkaðar eða felldar niður þegar maður valdi eða stuðli að aðgerðum. Það geti gerst í tilfellum þegar einstaklingur neiti að veita atbeina sinn við rannsókn máls og torveldi þannig rannsókn, þegar hann stuðli að handtöku með hegðun sinni og í tilfellum þegar einstaklingur greini lögreglu vísvitandi rangt frá í þeim tilgangi að torvelda rannsókn eða til að tryggja stöðu sína í skaðabótamáli.

Í tilfelli stefnanda sé þessu ekki til að dreifa. Játning hans hafi verið sett fram í þeirri trú að með henni myndi hann losna úr haldi lögreglu enda hafði hann áður notið þess. Játning stefnanda hafi að auki verið óljós og ruglingsleg.

Um fjárhæð bótakröfu sé af hálfu stefnanda vísað til þess að hann hafi setið í gæslu­varðhaldi í 234 daga. Árið 2000 hafi íslenska ríkið samið við konu sem setið hafði í gæsluvarðhaldi í rúman mánuð árið 1989 vegna fíkniefnamáls, sem hún var síðan sýknuð af. Með samkomulaginu hafi hún fengi greiddar 1,5 milljónir króna í skaða­bætur og 1,8 milljónir króna í málskostnað auk formlegrar afsökunarbeiðni frá ríkinu. Krafa stefnanda taki mið af þessu samkomulagi og vísitölu neysluverðs eins og hún hafi verið árið 1989 er konan var handtekin og af vísitölu neysluverðs í september 2011 er krafa stefnanda var sett fram.

Varðandi lagarök sé vísað til meginreglna í XXXVII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 228. og 230. gr. þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 230. gr. laganna eigi stefnandi lögboðinn rétt til gjafsóknar. Krafa um málskostnað sé enn fremur reist á  ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagrök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að dómsmál þetta fjalli um rannsókn á hættulegri líkamsárás í Laugardalnum í Reykjavík 11. október 2010. Ráðist hafði verið tilefnis­laust á unga stúlku á göngustíg í dalnum. Hún hafi verið slegin ítrekað í höfuðið með hörðu áhaldi og tekin kverkataki þar til hún missti meðvitund. Afleiðingar árásarinnar hefðu verið þær að stúlkan hlaut skurði á hnakka og enni, brot á fingri og maráverka. Í kjölfar árásarinnar hafi hafist umfangsmikil rannsókn máls þessa af hálfu lögregl­unnar.

Þann 8. nóvember 2010 hafi lögreglunni borist upplýsingar um að tvö vitni byggju yfir upplýsingum um hugsanlegan árásarmann. Skýrsla hafi verið tekin af þeim sama dag og daginn eftir. Í framburði þeirra hafi komið fram að stefnandi hefði játað fyrir vitnunum, eða gefið sterklega í skyn, að hafa ráðist á stúlkuna í Laugardalnum 11. október 2010. Stefnandi hafi síðan verið handtekinn 11. nóvember og færður til skýrslu­töku. Við fyrstu yfirheyrslu hafi hann neitað sök í málinu en við aðra skýrslutöku síðar sama dag hafi hann játað að hafa ráðist á stúlkuna og veitt henni áverka.

Gæsluvarðhaldskrafa lögreglunnar hafi verið lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. nóvember 2010. Stefnandi hafi mótmælt kröfunni og jafnframt hafi hann dregið fyrri játningu til baka. Hann hafi sagst hafa játað til þess að losna úr haldi þar sem hann hefði átt afmæli og viljað hitta fjölskyldu sína. Þrátt fyrir þessa afstöðu stefnanda hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. desember. Sú niðurstaða hafi verið staðfest af Hæstarétti. Gæsluvarðhald hafi síðan verið framlengt með úrskurðum Héraðs­dóms Reykjavíkur að kröfu lögreglunnar allt þar til 4. júlí 2011.

Stefnandi hafi verið dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar 16. mars s.á. vegna árásarinnar af Héraðsdómi Reykjavíkur en Hæstiréttur hafi sýknað hann af kröfum ákæruvaldsins 29. september s.á. Stefnandi krefjist nú bóta fyrir þann tíma sem hann hafi setið í gæsluvarðhaldi eins og lýst sé í kröfugerð hans í málinu.

Stefndi krefjist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi telji að ekki séu lagalegar forsendur til að dæma stefnanda bætur eins og hér standi á.

Bótaréttur á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé háður því að mál hafi verið fellt niður eða sýknað af ákæruatriðum þeim sem við eigi og tengist þeim úrræðum í þágu sakamáls sem fyrir sé mælt. Skuli dæma bætur vegna aðgerða á grundvelli IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þá segi í greininni að fella megi niður bætur eða lækka hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á.

Stefndi telji sterk rök fyrir því að stefnandi hafi einmitt stuðlað að að­gerðum gegn sér í skilningi 228. gr. laga nr. 88/2008. Tvö vitni hafi talið að stefnandi hefði játað verkn­aðinn í Laugardalnum í áheyrn þeirra. Í ljósi frásagna vitnanna hafi verið nauðsynlegt að handtaka stefnanda því rökstuddur grunur hefði leikið á að hann hefði framið alvarlegt hegningarlagabrot. Skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga um með­ferð sakamála nr. 88/2008 hafi því verið uppfyllt. Við handtökuna hafi margvísleg atriði í gögnum málsins bent til sektar stefnanda þótt síðar hafi þau ekki þótt nægja til sakfellis. Handtakan hafi því verið bæði réttlætanleg og lögmæt.

Stefnandi hafi auk þess játað við skýrslutöku 11. nóvember 2010 að hafa ráðist á stúlkuna umræddan dag, þótt hann hafi síðar dregið játningu sína til baka. Stefnandi hafi þar með stuðlað sjálfur að þeirri ákvörðun dómstóla að úrskurða hann í gæsluvarðhald allt til 4. júlí 2011. Ákvörðun dómstóla hafi fyrst og fremst verið byggð á játningu stefnanda sjálfs, með hliðsjón af framburði fyrrgreindra vitna auk annarra gagna málsins. Stefnandi hafi sjálfur beint afdráttarlausum grun­semdum að sjálfum sér sem ekki verði horft fram hjá í skaðabótamáli þessu. Gæsluvarðhaldstími stefnanda hafi því alfarið verið á ábyrgð stefnanda sjálfs. Lagafyrirmæli 228. gr. laga nr. 88/2008 heimili stefnanda þar af leiðandi ekki að krefjast bóta vegna handtökunnar og þess tímabils sem hann sat í gæsluvarðhaldi.

Dómsmál þetta sé skaðabótamál sem byggi á tilteknum lagafyrirmælum um rétt sakaðra manna til bóta að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Rétturinn til bóta sé hlutlægur en þó að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Skilyrðin séu þau að fella megi niður eða lækka bætur hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Sýknudómur í opinberu máli skipti ekki öllu máli ef fyrrgreind skilyrði leiði til niðurfellingar eða lækkunar bóta. Stefndi líti svo á að viðurkenning stefnanda á broti sínu í áheyrn tveggja vitna og játning stefnanda við skýrslugjöf hjá lögreglunni taki af öll tvímæli um réttarstöðu hans í bótamáli þessu. Stefnandi uppfylli því ekki skilyrði 228. gr. laga nr. 88/2008 um réttinn til þess að krefjast bóta á grund­velli sama lagaákvæðis. Beri því að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda. Stefnufjárhæð stefnanda sé sérstaklega mótmælt sem of hárri og órök­studdri. Varakrafa um lækkun sé sett fram í tilefni af því að krafa stefnanda sé allt of há og ekki í samræmi við réttarframkvæmd.

Niðurstaða

Krafa stefnanda er reist á því að hann eigi rétt á bótum samkvæmt 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 en honum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í 234 daga, frá 15. nóvember 2010 til 4. júlí 2011, vegna sakamáls sem lokið hafi verið með sýknudómi Hæstaréttar 29. september 2011.

Í málinu er deilt um það hvort skilyrði séu fyrir bótarétti stefnanda. Verði svo talið vera er deilt um það hvort lækka skuli bætur til stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Í 2. mgr. segir að dæma skuli bætur vegna aðgerða samkvæmt IX. – XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.

Með því að viðurkenna við skýrslutöku hjá lögreglu 11. nóvember 2010 að hafa framið verknaðinn, sem stefnandi var síðar ákærður fyrir, stuðlaði stefnandi að því í skilningi annars málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála að gæslu­varðhaldi var beitt. Þetta sést af því sem fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur 12. sama mánaðar, en þar er vísað til þess að stefnandi hafi viðurkennt verknaðinn við skýrslutöku hjá lögreglu, og í dómi Hæstaréttar 15. sama mánaðar segir að fram væri kominn nægilega sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um líkamsárás, meðal annars að virtri játningu hans hjá lögreglu. Af úrskurðum dómsins 16. mars og 13. apríl 2011 og dómi Hæstaréttar 18. mars s.á., þar sem stefnanda var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, má ráða að þessar forsendur höfðu ekkert breyst til þess tíma. Skýringar stefnanda á því að um hafi verið að ræða falska játningu eru ótrúverðugar og staðhæfingar hans um að lögregla hefði átt að vita að þær gætu ekki verið réttar þykja ekki studdar viðhlítandi rökum.

Af dómi Hæstaréttar 4. júlí s.á. verður hins vegar ráðið að málið hafði ekki verið rekið með fullnægjandi hraða, þar með talið við áfrýjun, en því var áfrýjað 17. mars 2011. Stefnandi hefur hvorki valdið því eða stuðlað að því að tafir urðu á rekstri málins eftir að því var áfrýjað sem leiddi til þess að gæsluvarðhald var framlengt með úrskurðum dómsins þar til Hæstiréttur felldi síðasta gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi 4. júlí 2011.

Með vísan til þessa verður að telja skilyrði fyrir því að stefnda verði gert að greiða stefnanda bætur samkvæmt 1. og 2. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála vegna gæsluvarðahaldsins sem stefnanda var gert að sæta eftir 17. mars 2011 þar til því lauk 4. júlí s.á., í samtals 108 daga. Bætur vegna gæsluvarðhaldsins fyrir þann tíma falla niður með vísan til annars málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála og þess sem að framan greinir um að stefndi hafi sjálfur stuðlað að því að gæsluvarðhaldi var beitt. Þá þykir málatilbúnaður stefnanda ekki gefa tilefni til að líta svo á að handtaka stefnanda eða tilefni handtökunnar skipti máli við úrlausn á bótakröfu hans í málinu. Að öllu þessu virtu þykja bætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur sem stefnda ber að greiða stefnanda ásamt dráttarvöxtum, eins og krafist er.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 350.000 krónur án tillits til virðisaukaskatts.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Óðni Frey Valgeirssyni, 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. nóvember 2011 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 350.000 krónur án virðisaukaskatts.