Hæstiréttur íslands
Mál nr. 417/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Aðflutningsgjald
|
|
Þriðjudaginn 2. september 2008. |
|
Nr. 417/2008. |
Halldór Þorlákur Sigurðsson(Karl Ó. Karlsson hrl.) gegn tollstjóranum í Reykjavík (enginn) |
Kærumál. Fjárnám. Aðflutningsgjöld.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu HS um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum til tryggingar skuld vegna aðflutningsgjalda. Var í málinu deilt um hvort óheimilt hafi verið að endurákvarða aðflutningsgjöld af bifreið í eigu HS, hvort endurákvörðun hafi byggt á breyttri túlkun og verklagi tollyfirvalda og ennfremur hvort aðfararbeiðnin hafi verið lögmæt. Fallist var á með héraðsdómara að endurákvörðun tollstjóra á aðflutningsgjöldunum hafi verið efnislega rétt. Með vísan til 99. gr. tollalaga nr. 55/1987 hafnaði héraðsdómari því að brotið hafi verið gegn 40. gr., 72. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt hafnaði héraðsdómari að stjórnsýslulög nr. 37/1993 eða jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með umræddri ákvörðun sem dómari taldi hafa verið tekna á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Ennfremur hafnaði héraðsdómari að gallar hafi verið á aðfararbeiðni sem studd var við 9. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 128. gr. tollalaga nr. 88/2005. Að lokum taldi héraðsdómari dráttarvexti réttilega lagða á aðflutningsgjöld frá tollafgreiðslu, sbr. 2. og 3. mgr. 108 gr. tollalaga nr. 55/1987 og 2. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 16. nóvember 2007 fyrir kröfur varnaraðila að höfuðstól 858.019 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Halldórs Þorláks Sigurðssonar, um að fellt verði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 16. nóvember 2007 að kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2008.
I.
Mál þetta sem lagt var fyrir dóminn með bréfi sóknaraðila frá 7. janúar 2008, var þingfest þann 7. febrúar 2008 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 18. júní sl. Sóknaraðili, Halldór Þorlákur Sigurðsson, flugstjóri, Strandvegi 5, Garðabæ, krefst þess að krafa varnaraðila um fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði nr. 036-2007-02426 í bifreiðina OR-723 þann 16. nóvember 2007, vegna kröfu að fjárhæð kr. 1.731.114, verði ógilt með úrskurði héraðsdóms Reykjaness. Að auki er þess krafist að varnaraðili verði dæmdur til þess að greiða sóknaraðila málskostnað.
Varnaraðili, tollstjóraembættið, Tryggvagötu 19, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði nr. 036-2007-02426, sem fram fór að kröfu varnaraðila þann 16. nóvember 2007 verði staðfest. Að auki er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
II.
Mál þetta varðar endurákvörðun tollstjórans í Hafnarfirði á aðflutningsgjöldum á bifreið, fastanúmer OR-723, nánar tiltekið bifreiðin Chevrolet Avalance, árgerð 2003, sem sóknaraðili flutti inn til landsins í sendingu nr. E-SKO-25-02-03-CA-U-W810. Bifreið þessi var upphaflega tollafgreidd 31. mars 2003. Með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 24. mars 2004, var þess farið á leit við sóknaraðila að hann leiðrétti fyrri aðflutningsskýrslu vegna athugasemda tollstjórans í Reykjavík við tollafgreiðsluna. Eftir bréfaskriftir milli sóknaraðila og sýslumannsins voru aðflutningsgjöldin endurákvörðuð, sbr. bréf dags. 1. september 2004, og bifreiðin þannig tollflokkuð í tollskrárnúmer 8703-2499 í stað tollskrárnúmersins 8704-2121. Sóknaraðili sætti sig ekki við endurákvörðun aðflutningsgjaldanna og kærði hana til tollstjórans í Reykjavík með bréfi til ríkistollanefndar, dags. 26. október 2004. Þann 16. nóvember 2004 lá umsögn tollstjórans í Reykjavík fyrir vegna kærunnar þar sem þess var krafist að úrskurður sýslumannsins í Hafnarfirði yrði staðfestur. Þann 14. desember 2004 sendi sóknaraðili ríkistollanefnd bréf vegna umsagnar tollstjórans í Reykjavík. Þann 26. janúar 2005 staðfesti ríkistollanefnd endurákvörðun tollstjórans í Hafnarfirði með úrskurði sínum nr. 14/2004. Niðurstaða nefndarinnar var í aðalatriðum sú að þegar litið væri til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði tollamála væri bifreið sóknaraðila best lýst í tollskrárnúmeri 8703-2499. Hafnaði ríkistollanefnd öllum kröfum sóknaraðila og úrskurðaði að hann skyldi greiða dráttarvexti frá tollafgreiðslu bifreiðarinnar þann 31. mars 2003. Sóknaraðili sætti sig ekki við úrskurð ríkistollanefndar, hvorki að því er varðaði toll flokkunina né dráttarvexti, sbr. bréf sóknaraðila, dags 22. febrúar 2005. Þann 23. maí 2006 var sóknaraðili krafinn um greiðslu vangreiddra gjalda og dráttarvaxta alls að fjárhæð kr. 1.391.868. Með bréfi sóknaraðila, dags. 6. júní 2006, var tollstjóranum í Reykjavík tilkynnt að tekið yrði til varna vegna innheimtunnar. Einnig ítrekaði sóknaraðili í bréfi til sýslumannsins í Hafnafirði, dags. 12. júlí, að hann sætti sig ekki við úrskurð ríkistollanefndar. Þann 4. júní 2007 var aðfarabeiðni gefin út þar sem þess var óskað að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar skuldinni vegna vangoldinna aðflutningsgjalda. Þann 16. nóvember 2007 var aðfararbeiðnin tekin fyrir öðru sinni og fjárnám gert í bifreið sóknaraðila. Lögð var fram greinargerð af hálfu sóknaraðila við fjárnámsgerðina með kröfu um að beiðninni yrði synjað og með ósk um að sýslumaður kvæði upp rökstuddan úrskurð. Því var hafnað, sbr. endurrit úr gerðabók dags. 16. nóvember 2007.
III.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að umrædd bifreið hafi verið tollafgreidd í samræmi við þágildandi reglur er giltu í mars árið 2003 eftir skoðun tollstjóra og samkvæmt leiðbeiningum og fyrirframgefnum upplýsingum frá honum. Voru þær upplýsingar og leiðbeiningar ákvörðunarástæða sóknaraðila fyrir kaupunum. Honum hafi alveg eins verið kleift að kaupa svipaða bifreið sem vitað sé að tollafgreidd hefði verið með sama hætti án athugasemda eftir á. Eftir umrædda tollafgreiðslu tók tollstjóri hins vegar upp nýja túlkun um tollflokkun bifreiðarinnar. Bifreiðin hafi verið afgreidd í fullu samræmi við lög og túlkanir þegar afgreiðslan átti sér stað og fyrir tollstjóra lágu öll gögn og upplýsingar til réttrar ákvörðunar. Enginn ágreiningur var uppi um tollflokkunina. Vísar sóknaraðili jafnframt til úrskurðar ríkistollanefndar í máli nr. 2/2004 uppkveðnum þann 13. júlí 2004.
Tollafgreiðslan og endurskoðun hennar á grundvelli innsendra upplýsinga og skjala hafi í einu og öllu farið fram í samræmi við gildandi reglur, verklag tollstjóra og leiðbeiningar hans. Er á því byggt að óheimilt hafi verið að endurákvarða aðflutningsgjöld af bifreiðinni, hvað þá einu og hálfu ári eftir tollafgreiðslu hennar og samtíma endurskoðun á grundvelli allra tilskilinna gagna sem voru metin fullnægjandi. Verði ekki byggt á 99. gr. tollalaga nr. 55/1987 í því sambandi, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 858/2000 um SMT tollafgreiðslu.
Sóknaraðili byggir og á því að endurákvörðun gjaldanna brjóti í bága við 40., 1. mgr. 65. gr., 72. gr. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (stjskr.) og feli auk þess í sér ólögmæta afturvirka álagningu opinberra gjalda. Sóknaraðili hafi verið í góðri trú um að upphafleg tollafgreiðsla væri rétt. Hin kærða ákvörðun byggist þannig á nýjum túlkunum en ekki á breyttum lagaákvæðum. Lagaheimild skortir fyrir endurákvörðuninni og hún verður ekki byggð á afar rúmum skýringum á túlkunarreglum auglýsinga. Stjórnvöldum sé óheimilt að breyta ákvörðunum um álagningu skatta eins og hér um ræðir.
Sóknaraðili telur að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við stjórnsýslulög og góða stjórnsýsluhætti. Vísar hann hér til leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr., málshraðareglu skv. 9. gr., rannsóknarreglu skv. 10. gr., jafnræðisreglu skv. 11. gr. og meðalhófsreglu skv. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er tollstjórinn þannig bundinn af meginreglum stjórnsýslulaganna. Það verður ekki talið samrýmast góðum stjórnsýsluháttum að endurákvarða aðflutningsgjöld 18 mánuðum eftir tollafgreiðsluna og gera jafnframt kröfu um dráttarvexti þvert á ákvæði vaxtalaga. Sóknaraðili telur því að ákvörðun sýslumanns feli í sér brot á 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 72. gr. stjskr. Telur hann þannig að út frá þeim lagaákvæðum sem vísað hefur verið til, einkum ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, beri að túlka allan vafa í málinu honum í vil. Stjórnsýslan verði ávallt að vera gegnsæ og öllum fyrirfram ljós. Upphafleg tollagreiðsla hafi byggst á fyrirfram gefnum upplýsingum um tollflokkun, áður en kaup á bifreiðinn voru afráðin, allt í samræmi við tollflokkun sambærilegra bifreiða.
Byggir sóknaraðili einnig á því að sýslumaðurinn í Hafnarfirði hafi verið vanhæfur til að fara með umrætt mál. Vísar hann hér einkum til 1., 4. og 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. og 4. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í þessu sambandi skal bent á að sýslumaðurinn hafði fyrst afskipti af málinu með bréfi sínu til sóknaraðila, dags. 24. mars 2004. Þann 5. október 2004 hafi sóknaraðila borist bréf frá sýslumanninum með upplýsingum um grundvöll endurákvörðunar. Þá hafði sýslumaður einnig afskipti af málinu er hann sendi sóknaraðila greiðsluáskorun þann 26. júní 2006. Þannig hafi sýslumaðurinn komið fram sem kröfueigandi og gætt hagsmuna hans og geti þar með ekki talist óhlutdrægur.
Byggt er á því að krafa sýslumannsins í Hafnarfirði sé fyrnd. Krafan hafi stofnast þann 31. mars 2003 og fjögura ára fyrningarfresti var því lokið þann 31. mars 2007. Fjárnám hafi því verið gert eftir að fyrningarfresti lauk. Ljóst er að krafan hefur hvorki verið viðurkennd né lögsókn hafin til innheimtu hennar innan fjögurra ára frá því að hún varð gjaldkræf, sbr. 1., 3. og 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Þessu til frekari rökstuðnings bendir sóknaraðili á að varnaraðili gerir kröfu um dráttarvexti frá 31. mars 2003.
Sérstaklega er á því byggt að úrskurðurinn sem aðfararbeiðnin er byggð á sé rangur að formi og efni til. Ákvæði 4. mgr. 128. gr. tollalaga nr. 88/2005 eiga ekki við í máli þessu þar sem að umrædd bifreið er til og unnt var að fullnusta kröfuna skv. 1.-3. mgr. 128. gr. nefndra laga. Auk þess verði ákvæðum laganna ekki beitt með afturvirkum hætti á kröfuna sem stofnaðist fyrir gildistöku þeirra. Skilyrðum málsgreinarinnar fyrir fjárnámi sé því engan veginn fullnægt. Jafnframt heimili 9. tl. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför ekki fjárnám fyrir kröfunni. Byggt er á því að aðflutningsgjöld samkvæmt tollalögum falli ekki undir þessa skilgreiningu. Því til viðbótar heimili 3. mgr. 108. gr. tollalaga nr. 55/1987, sem vísað er til í aðfararbeiðni, hvorki dráttarvaxtakröfu skv. aðfararbeiðninni né aðför fyrir henni. Í nefndri lagagrein er aðeins vísað í vaxtalög nr. 25/1987 sem voru úr gildi fallin þegar umrædd krafa stofnaðist. Auk þess hafi tollalög nr. 55/1987 verið felld úr gildi. Sýslumaður vísi í aðfararbeiðni ýmist til þágildandi eða núgildandi tollalaga um aðfararheimild sína. Það standist ekki og ætti slíkur óskýrleiki að útiloka aðför. Þá taki hin almenna greiðsluáskorun, sem vísað er til í aðfararbeiðni, birt 16. maí 2007, ekki til kröfu gerðarbeiðanda. Þá er á því byggt að aðfararbeiðnin hafi ekki verið birt með lögfullum hætti, sbr. einnig 5. og 7. gr. aðfararlaga. Samkvæmt 7. gr. laganna skal senda gerðarþola greiðsluáskorun með minnst 15 daga fyrirvara sem fullnægja þarf ákveðnum skilyrðum. Slík greiðsluáskorun skal send með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða birt af stefnuvotti. Greiðsluáskorun hafi ekki verið send sóknaraðila vegna þeirrar aðfarar sem hér er til úrlausnar. Þann 4. júní 2007 fór varnaraðili fram á að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila án þess að skilyrðum 7. gr. laganna væri fullnægt enda hafði hann enga greiðsluáskorun fengið. Einnig er vísað til 10., 12., 13., 17. og 27. gr. laganna. Aðfararbeiðnin skorti alla formlega og efnislegar heimildir og sé ólögmæt hvernig sem á hana er litið.
Krafa varnaraðila um dráttarvextir stenst ekki vaxtalög. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknast vextir frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um greiðslu. Þannig verður að líta svo á að sá dagur er sýslumaður krafði sóknaraðila um greiðslu hafi verið 1. september 2004 sbr. bréf sýslumanns þann dag. Þannig verður sóknaraðili ekki krafinn um greiðslu dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi þann 1. október 2004, sbr. fyrrgreint lagaákvæði. Kröfugerð tollstjóra um dráttarvexti staðfestir þó að krafa hans hafi fyrnst 31. mars 2007.
IV.
Varnaraðili mótmælir því að upprunaleg tollafreiðsla bifreiðarinnar, fastanúmer OR-723, hafi verið í samræmi við þágildandi reglur, eftir skoðun tollstjóra og samkvæmt leiðbeiningum og upplýsingum frá honum. Ekkert liggur fyrir í málinu því til staðfestingar enda hafi sóknaraðili ekki lagt fram gögn sem styðja þessar fullyrðingar. Hafi tollstjóri veitt leiðbeiningar í þessu máli þá hafi þær einungis verið byggðar á þeim upplýsingum sem innflytjandi veitir enda hafi starfsmaður tollstjóra ekki haft umrædda vöru undir höndunum. Ef vafi leikur á um tollflokkun vöru eða óski innflytjandi eftir staðfestingu tollsjóra á tollflokkun þá getur hann leitað eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun vörunnar skv. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Sambærileg heimild var í 142. gr. tollalaga nr. 55/1987 sem voru í gildi við innflutning bifreiðarinnar. Bindandi álit byggir tollstjóri á þeim gögnum sem hann telur nauðsynleg. Sóknaraðili hafi ekki leitað bindandi álits um tollflokkun áður en bifreiðin var tollafgreidd.
Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um að tollstjóri hafi ekki einungis móttekið rafræna aðflutningsskýrslu heldur hafi einnig verið lögð fram skrifleg gögn þar sem fram hafi komið tegund bifreiðarinnar og útbúnaður. Bifreiðin var tollafgreidd með SMT-afgreiðslu sem er rafræn tollafgreiðsla. Engin gögn eða upplýsingar eru þá lögð fram við afgreiðsluna heldur sendir innflytjandi upplýsingar rafrænt í tölvukerfi tollstjóra. Tollstjóri hafi síðan heimild til þess að kalla eftir þeim skjölum sem liggja að baki afgreiðslunni og endurákvarða gjöld allt að sex ár aftur í tímann komi í ljós að aðflutningsgjöld hafi ekki verið rétt ákvörðuð við tollafgreiðsluna, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2006, áður 99. gr. tollalaga nr. 55/1987. Það liggi ekkert fyrir um að innflytjandi hafi skilað inn skriflegum gögnum við tollafgreiðsluna þar sem upplýsingar um tegund og útbúnað hafi komið fram, enda kæmi slíkt ekki til skoðunar við rafræna tollafgreiðslu. Þvert á móti hafi afhendingarheimildin verið veitt sjálfkrafa og aðflutningsgjöldin skuldfærð strax eftir að rafrænar upplýsingar lágu fyrir í þessu tilviki svo og öðrum.
Þá mótmælir varnaraðili því að endurákvörðun aðflutningsgjalda á bifreiðinni hafi verið byggð á breyttri túlkun og verklagi tollstjóra. Þvert á móti hafi sú túlkun sem kemur fram í endurákvörðuninni tíðkast í fjölda ára, sbr. úrskurðir ríkistollanefndar nr. 9/1992 og nr. 2/1993. Í umsögninni kemur einnig fram að þau mál sem upp hafa komið hjá tollstjóranum í Reykjavík, þar sem Chevrolet Avalance hefur verið tollflokkuð í vörulið 8704, hafa sætt eða sæti endurskoðun hjá embættinu enda sé í flestum tilfellum um bifreiðar að ræða sem hlotið hafa SMT-tollafgreiðslu, þ.e. eftirlit með afgreiðslunni fer að mestu fram eftir á .
Sóknaraðili virðist byggja á því að ákvörðun um tollaflokkun hafi ekki verið efnislega rétt þar sem að vafi hafi ekki verið túlkaður innflytjanda í hag. Þá heldur sóknaraðili því fram að við endurákvörðun hafi verið byggt á órökstuddri tilgátu um það hvernig bifreiðin væri. Þessu mótmælir varnaraðili. Tollflokkun vörunnar, sem var staðfest af ríkistollanefnd með úrskurði nefndarinnar nr. 14/2004, var byggð á túlkunarreglum tollskrár, en tollskránni og túlkunarreglum hennar hefur verið veitt lagagildi og voru birt sem viðauki I. við tollalög nr. 55/1987. Við matið var einnig litið til úrskurða Alþjóðatollsamvinnuráðsins.
Sóknaraðili heldur því fram að tollflokkun umræddrar bifreiðar sé byggð á skýrum lagaheimildum og viðurkenndum lögskýringargaögnum. Tollayfirvöldum beri skylda til þess að tollflokka vörur í tollskrárnúmer í samræmi við texta tollskrár, túlkunarreglur tollskrár og önnur viðurkennd lögskýringargögn, eins og gert hafi verið í máli þessu.
Varnaraðili mótmælir því að endurákvörðun gjaldanna brjóti í bága við ákvæði stjskr., endurákvörðunin hafi ekki falið í sér brot á 1. mgr. 40. gr. hennar. Hlutverk tollayfirvalda sé einungis að framfylgja því að rétt gjöld séu greidd af innfluttum vörum. Lagaheimildin sem endurákvörðunin byggir á, þ.e. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987 er skýr. Því er mótmælt að brotið hafi verið gegn 40., 72. gr. og 77. gr. stjskr. Einnig er því mótmælt að brotið sé gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Varnaraðili getur ekki fallist á að meðferð málsins og efni endurákvörðunarinnar hafi brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á skort á leiðbeiningskyldu af hálfu tollstjórans, að málshraða hafi verið ábótavant né að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Tollstjóri geti endurákvarðað aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann þegar um rafræna afgreiðslu sé um að ræða. Tollstjóri hafi ekki gripið til hinnar íþyngjandi aðgerðar sem fjárnámið er án þess að hafa reynt til þrautar að fá kröfuna greidda með því að senda ítrekunarbréf. Tími sá sem leið frá því að tollstjóri endurákvarðaði og þar til að fjárnámið var gert brýtur ekki gegn 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda njóti krafa þessi réttarverndar í 4. ár frá gjalddaga hennar, sbr. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905.
Varnaraðili mótmælir því að sýslumaðurinn í Hafnarfirði sé vanhæfur til þess að fara með þetta mál. Samkvæmt 2. málsl. 4. gr. aðfaralaga nr. 1989/90 veldur það ekki vanhæfi sýslumanns að hann fari með innheimtu kröfu samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í þessu tilviki fór sýslumaðurinn, sem einnig var tollstjóri, með innheimtu kröfunnar samkvæmt 3. mgr. 31. gr. tollalaga nr. 55/1987, nú 1. tölul. 1. mgr. 42. gr. tollalaga nr. 88/2005.
Þá mótmælir varnaraðili því að krafan sé fyrnd, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905, þar sem fram kemur að krafa vegna vangreiddra aðflutningsgjalda fyrnist á 4 árum.
Ekki er á það fallist að aðfararbeiðnin sé ólögmæt. Í aðfararbeiðninni er vísað til 128. gr. tollalaga nr. 88/2005 en 4. mgr. 128. gr. nefndra laga er efnislega samhljóða 5. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987. Bæði ákvæðin hafi að geyma aðfararheimild fyrir vangreiddum aðflutningsgjöldum og dráttarvöxtum. Þá er í aðfararbeiðninni einnig vísað til aðfararheimildar skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Varnaraðili getur ekki verið sammála því að vangreidd aðflutningsgjöld teljist ekki skattar í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt 1. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 1. gr. tollalaga nr. 88/2005 eru aðflutningsgjöld skilgreind sem tollur og aðrir skattar og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru við innflutning. Ætti því tilvísun í 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga ein og sér að duga.
Varnaraðili hefur mótmælt því að greiðsluáskorun, sem birt var í Morgunblaðinu þann 16. maí 2007, taki ekki til hinnar umþrættu kröfu enda tekið sérstaklega fram að hún nái til aðflutningsgjalda.
Varnaraðili mótmælir að lokum þeirri staðhæfingu sóknaraðila að krafa um dráttarvexti standist ekki vaxtalög. Ákvæði 2. og 3. mgr. 108 gr. tollalaga nr. 55/1987 hafa að geyma sérákvæði um greiðslu dráttarvaxta af kröfum um vangoldin aðflutningsgjöld. Í ljósi þessa eru dráttarvextir réttilega lagðir á frá tollafgreiðsludegi þann 31. mars 2003.
Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Niðurstaða.
Ekki verður annað séð en að sóknaraðili byggi á því að óheimilt hafi verið að endurákvarða aðflutningsgjöld af umræddri bifreið, eins og gert var með bréfi þann 1. september 2004, þar sem að fullnægjandi tollafgreiðsla í mars 2003, samkvæmt þágildandi reglum, hafi áður farið fram. Af þessum sökum verði endurákvörðunarheimild 99. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987 ekki beitt. Þá hefur sóknaraðili staðhæft að upphafleg tollafgreiðsla hafi farið fram samkvæmt leiðbeiningum og upplýsingum frá tollyfirvöldum og að endurákvörðunin byggi á breyttri túlkun og verklagi tollyfirvalda. Hafi leiðbeiningar tollstjóra og upplýsingar frá honum verið ákvörðunarástæða sóknaraðila fyrir kaupunum á umræddri bifreið. Þá hefur sóknaraðili haldið því fram að við upphaflega tollafgreiðslu hafi öll gögn og nauðsynlegar upplýsingar legið fyrir.
Þann 24. mars 2004 sendi sýslumaðurinn í Hafnarfirði sóknaraðila bréf þar sem honum er tilkynnt athugasemd tollstjórans í Reykjavík við tollafgreiðslu á vörusendingu sem hafði verið tollafgreidd rafrænt (SMT afgreiðsla) þann 31. mars 2003. Samkvæmt meðfylgjandi athugasemd nr. 04-004, dagsettri 1. mars 2004, má sjá að um er að ræða bifreið sóknaraðilja af gerðinni Chevrolet Avalanche, árgerð 2003, með sendingarnúmerið E SKO 25 02 3 C SBU W810. Segir þar m.a. að þótt bifreiðin hafi lítinn vörupall sambyggðan farþegahúsi þá sé hún þó fyrst og fremst fólksbifreið og að hæfni hennar til vöruflutninga, sem er til þess að auka notagildi hennar, breyti ekki eðli hennar sem fólkbifreiðar. Þá lýsir tollstjórinn því áliti sínu að téð bifreið hafi ranglega verið tollflokkuð við tollafgreiðslu og eigi að tollflokkast í tollskrárnúmer 8703-2499. Í bréfi sínu vitnar sýslumaður til túlkunarreglna tollskrár og fer þess á leit við sóknaraðila að hann sendi leiðrétta aðflutningsskýrslu til tollskrifstofu.
Að mati dómara virðist ljóst af málsgögnum að umrædd bifreið hafi verið tollafgreidd þann 31. mars 2003 með SMT-afgreiðslu sem er rafræn tollafgreiðsla. Engin gögn eða upplýsingar munu vera lagðar fram við slíka afgreiðslu heldur sendir innflytjandi upplýsingar rafrænt í tölvukerfi tollstjóra. Tollstjóri hafi síðan heimild til þess að kalla eftir þeim skjölum sem liggja að baki afgreiðslunni og endurákvarða gjöld allt að sex ár aftur í tímann komi í ljós að aðflutningsgjöld hafi ekki verið rétt ákvörðuð við tollafgreiðsluna, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2006, áður 99. gr. tollalaga nr. 55/1987. Ósannað er að innflytjandi hafi skilað inn skriflegum gögnum við tollafgreiðsluna þar sem upplýsingar um tegund og útbúnað hafi komið fram. Þá kemur fram í greinargerð sóknaraðila að tollstjóri hafi ekki skoðað umrædda bifreið fyrir tollafgreiðsluna. Telur dómari einsýnt að tollstjóra hafi verið heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöldin eins og hann gerði og í því sambandi breytir engu um niðurstöðu þessa máls hvort sú ákvörðun sé byggð á breyttri túlkun eða verklagi tollstjóra.
Við endurákvörðunina reyndi á mat á því hvort umrædd bifreið væri við komu til landsins þannig úr garði gerð að auðvelt væri að fjarlægja milliþil milli farþegarýmis og vörupalls. Heldur sóknaraðili því m.a. fram að tollstjóri hafi rökstutt endurákvörðunina ranglega með órökstuddri tilgátu um að auðvelt sé að fjarlægja milliþil. Þegar skoðaðar eru myndir þær sem sóknaraðili hefur lagt fram af þeirri gerð bifreiða sem hér um ræðir og af Toyota Hilux bifreið til samanburðar má ljóst vera að niðurstaða ríkistollanefndar, um að málefnaleg sjónarmið tollayfirvalda ráði því að gerður er greinarmunur á tollflokkun á bifreiðum eins og Chevrolet Avalanche annars vegar og svokölluðum Double Cab bifreiðum hins vegar, stenst öll rök. Fyrrnefnda bifreiðin er fyrst og fremst ætluð til fólksflutninga, auk nokkurrar flutningsgetu farms á palli sem er sambyggður farþegarýminu, en sú síðarnefnda er ætluð bæði til vöru- og farþegaflutninga og er með tvískipta yfirbyggingu þannig að vörupallurinn er aðskilinn frá farþegarýminu og burðargetan meiri. Við rétta tollflokkun lendir því bifreið sóknaraðila í vörulið 8703 en ekki í 8704 eins og sóknaraðili hefur viljað meina. Í þessu sambandi hefur dómari litið til almennra reglna um túlkun tollskrárinnar, sem áður er vitnað til, en tollskránni og túlkunarreglum hennar hefur verið veitt lagagildi og voru birt sem viðauki I. við tollalögin nr. 55/1987 en úr þeim má lesa af orðalagi 4. reglu að þær vörur sem ekki verða flokkaðar samkvæmt skýrum reglum undir tiltekinn vörulið skulu taldar til þess sama vöruliðar og þær vörur sem þeim eru líkastar. Í dreifibréfi tollstjórans í Reykjavík, sbr. dómskj. nr. 31., kemur fram að mistök hafi í mörgum tilfellum átt sér stað þegar vafi var uppi við tollflokkun hliðstæðra bifreiða. Við úrlausn máls þessa er áherslan lögð á það að ganga úr skugga um að umrædd bifreið hafi fengið rétta tollflokkun og að viðeigandi og réttmætum aðferðum hafi verið beitt til þess að ná því markmiði.
Þá skal einnig tekið fram að hafi einhver annar hugsanlega fengið tollafgreiðslu í samræmi við óskir sóknaraðila í málinu þá breytti það engu um niðurstöðu þessa máls.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið er það álit dómsins að endurákvörðun tollstjóra á umræddum aðflutningsgjöldum sé efnislega rétt. Væntingar sóknaraðila um aðra niðurstöðu skipta í því samhengi engu máli.
Sóknaraðili hefur haldið því á lofti að tollstjóri hafi með endurákvörðuninni brotið gegn 40. 72. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 auk þess sem hún feli í sér ólögmæta afturvirka álagningu opinberra gjalda.
Að mati dómara er það fráleitt að endurákvörðunin feli í sér brot á 1. mgr. 40. gr. stjskr. um að engan skatt megi hvorki leggja á, breyta né taka af nema með lögum. Hlutverk tollyfirvalda er einungis að framfylgja því að rétt gjöld séu greidd af innfluttum vörum. Lagaheimildin sem endurákvörðunin byggir á, þ.e. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987 er skýr og var í gildi þegar ákvörðunin var tekin. Hafnar dómurinn því að brotið hafi verið gegn 40.,72. gr. og 77. gr. stjskr. eins og skýrir sig sjálft af því sem að framan segir.
Sóknaraðili telur að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við stjórnsýslulög og góða stjórnsýsluhætti. Vísað er hér til leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr., málshraðareglu skv. 9. gr., rannsóknarreglu skv. 10. gr., jafnræðisreglu skv. 11. gr. og meðalhófsreglu skv. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 Telur sóknaraðili að það geti ekki talist samrýmast góðum stjórnsýsluháttum að endurákvarða aðflutningsgjöld 18 mánuðum eftir tollafgreiðsluna og gera jafnframt kröfu um dráttarvexti þvert á ákvæði vaxtalaga. Sóknaraðili telur að ákvörðun sýslumanns feli í sér brot á 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 72. gr. stjskr. Telur hann þannig að út frá þeim lagaákvæðum sem vísað hefur verið til, einkum ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, beri að túlka allan vafa í málinu honum í vil.
Dómari fellst ekki fullyrðingar sóknaraðila um að stjórnsýslulög nr. 37/1993 eða jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með umþrættri ákvörðun sem dómari telur hafa verið tekna á grundvelli skýrrar lagaheimildar, eins og áður er rakið, enda mælir lagaheimildin fyrir um rétt tollstjóra til þess að endurákvarða aðflutningssgjöld sex ár aftur í tímann hafi áður verið um rafræna tollafgreiðslu um að ræða óháð sjónarmiðum um grandsemi innflytjanda.
Um vanhæfisviðbáru sóknaraðila er það að segja að samkvæmt 2. málsl. 4. gr. aðfaralaga nr. 1989/90 veldur það ekki vanhæfi sýslumanns að hann fari með innheimtu kröfu samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í þessu tilviki fór sýslumaðurinn, sem einnig var tollstjóri, með innheimtu kröfunnar samkvæmt 3. mgr. 31. gr. tollalaga nr. 55/1987, nú 1. tölul. 1. mgr. 42. gr. tollalga nr. 88/2005. Telst sýslumaðurinn því hafa verið hæfur til þess að fara með umþrætta aðfarargerð.
Sóknaraðili hefur borið því við að krafa sýslumannsins í Hafnarfirði hafi verið fyrnd. Krafan hafi stofnaðist þann 31. mars 2003 og fjögurra ára fyrningarfresti hennar hafi því lokið 31. mars 2007 og fjárnámið því gert eftir að fyrningarfresti lauk.
Samkvæmt 3. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 kemur fram að krafa vegna vangreiddra aðflutningsgjalda fyrnist á 4 árum. Krafan sem um ræðir stofnaðist við endurákvörðun aðflutningsgjaldanna þann 1. september 2004 en samkvæmt málsgögnum var aðfararbeiðni vegna gjaldanna móttekin hjá sýslumanni í Hafnarfirði þann 7. júní 2007 og með því var lögbundin 4 ára fyrning rofin í tæka tíð, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989.
Dómari er ósammála sóknaraðila um að aðfararbeiðnin sé ólögmæt. Í aðfararbeiðninni er vísað til 128. gr. tollalaga nr. 88/2005 en 4. mgr. 128. gr. nefndra laga er efnislega samhljóða 5. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987. Bæði ákvæðin hafa að geyma aðfararheimild fyrir vangreiddum aðflutningsgjöldum og dráttarvöxtum. Þá er í aðfararbeiðninni einnig vísað til aðfararheimildar skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Vangreidd aðflutningsgjöld eiga tvímælalaust undir nefndan lið aðfararlaganna. Samkvæmt 1. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 1. gr. tollalaga nr. 88/2005 eru aðflutningsgjöld skilgreind sem tollur og aðrir skattar og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru við innflutning. Tilvísun í 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 dugir því ein og sér. Þá veitir 4. mgr. 128. gr. tollalaga nr. 88/2005 heimild til fjárnáms verði ekki af nauðungarsölu.
Sóknaraðili hefur borið brigður á að ákvæðum laga um aðför nr. 90/1989 hafi verið fullnægt varðandi kröfuna.
Í greiðsluáskorun sem birt var m.a. í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu 16. maí 2007 er tekið tekið sérstaklega fram að hún nái til aðflutningsgjalda. Eru því uppfyllt þau skilyrði sem mælt er fyrir um í 8. gr. laga um aðför nr. 90/1989 um almenna greiðsluáskorun svo réttilega megi krefjast aðfarar fyrir kröfu samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 1. gr. sömu laga.
Því er haldið fram af sóknaraðila að krafa varnaraðila um dráttarvextir standist ekki vaxtalög. Ákvæði 2. og 3. mgr. 108 gr. tollalaga nr. 55/1987 hafa að geyma sérákvæði sem gildir um greiðslu dráttarvaxta af kröfum um vangoldin aðflutningsgjöld, sbr. 2. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Í ljósi þessa eru dráttarvextir réttilega lagðir á frá tollafgreiðsludegi þann 31. mars 2003.
Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið er fallist á kröfu varnaraðila um að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði nr. 036-2007-02426, sem fram fór að kröfu varnaraðila þann 16. nóvember verði staðfest.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri kostnað af rekstri málsins.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði nr. 036-2007-02426, sem fram fór að kröfu varnaraðila, tollstjóraembættisins, hjá sóknaraðila, Halldóri Þorláki Sigurðssyni, þann 16. nóvember 2007, er staðfest.
Málskostnaður fellur niður.