Hæstiréttur íslands
Mál nr. 803/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Gáleysi
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2014. |
|
Nr. 803/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Stefáni Þór Jansen (Gizur Bergsteinsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Gáleysi.
S var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa fengið A til að hitta sig í kynferðislegum tilgangi, sótt hana í bifreið og ekið á heimili sitt þar sem hann sleikti kynfæri hennar gegn 25.000 króna greiðslu. A var ekki orðin 14 ára þegar samskipti hennar og S áttu sér stað en í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að S hefði verið í gáleysi um aldur A. S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. sbr. 204. gr. og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. S hafði leitað sér aðstoðar sálfræðings fyrir og eftir uppkvaðningu héraðsdóms og greitt S skaðabætur og bætur vegna kostnaðar lögmanns við að hafa kröfuna uppi. Þá hafði orðið dráttur á meðferð málsins. Með hliðsjón af þessu var refsing S ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en fullnustu 8 mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í 3 ár.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Eins og greinir í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa fengið brotaþola til að hitta sig í kynferðislegum tilgangi, sótt hana í bifreið og ekið á heimili sitt þar sem hann sleikti kynfæri hennar gegn 25.000 króna greiðslu.
Ákærði og brotaþoli munu hafa kynnst á samskiptavef á netinu er ber heitið „The Purple Rabbit“ og fram kom hjá þeim báðum að skráðir notendur vefsins þyrftu að vera orðnir 18 ára gamlir samkvæmt skilmálum hans. Á síðu brotaþola á vefnum gaf hún þær upplýsingar að vera fædd 1. mars 1993, en atvik gerðust 24. febrúar 2011. Í tölvusamskiptum ákærða og brotaþola kvaðst brotaþoli líta út fyrir að vera yngri en hún í raun væri og er þau hittust og ákærði spurði hana um aldur gaf hún honum enn svar í samræmi við fyrri upplýsingar. Með vísan til gagna málsins, þar á meðal til myndbandsupptöku af skýrslugjöf brotaþola, var það niðurstaða héraðsdóms að ákærði hafi verið í gáleysi um aldur brotaþola er hann framdi brot sitt.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 202. gr., sbr. 204. gr., og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður refsing hans því ákveðin að virtum ákvæðum 77. gr. laganna. Samkvæmt 204. gr. laganna skal beita vægari refsingu að tiltölu, en þeirri sem kveðið er á um í framangreindri 1. mgr. 202. gr., hafi brot gegn 202. gr. verið framið í gáleysi um aldur þess er fyrir broti varð. Er þó tiltekið í ákvæðinu að refsing megi ekki fara niður fyrir lágmark fangelsisrefsingar. Þá varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að greiða fyrir vændi barns undir 18 ára, sbr. 2. mgr. 206. gr. laganna.
Eins og greinir í héraðsdómi leitaði ákærði, sem játaði brot sitt við meðferð málsins þar, aðstoðar sálfræðings bæði fyrir og eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Þá hefur ákærði greitt brotaþola skaðabætur og bætur vegna kostnaðar lögmanns við að hafa kröfuna uppi.
Skýrsla var tekin af brotaþola fyrir dómi 24. október 2011 og ákærði var yfirheyrður 21. nóvember og 16 desember það ár, auk þess sem þá fór fram sakbending. Ekki er fram komið hvenær gögn málsins voru send ríkissaksóknara til meðferðar, en það var fyrst með bréfi 28. nóvember 2012 sem ríkissaksóknari sendi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu beiðni um frekari rannsókn á nánar tilteknum atriðum. Þeirri rannsókn lauk skömmu síðar og var ákæra gefin út 10. maí 2013. Sá dráttur sem varð á meðferð málsins stærstan hluta ársins 2012 hefur ekki verið skýrður.
Að öllu framanrituðu virtu og með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum, sbr. einkum dóm réttarins 6. mars 2014 í máli nr. 329/2013, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tíu mánuði sem verður bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Stefán Þór Jansen, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu átta mánaða af refsingunni og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 518.385 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gizurar Bergsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur. Helmingur kostnaðarins greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 10. maí síðastliðinn, á hendur Stefáni Þór Jansen, [...], „fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], með því að hafa þann 24. febrúar 2011, í samskiptum við stúlkuna á netinu, fengið hana til að hitta sig í kynferðislegum tilgangi gegn greiðslu, sótt hana á bifreið sinni og farið með hana á heimili sitt að [...], og þar sleikt kynfæri hennar og greitt henni 25.000 kr. fyrir.
Telst þetta aðallega varða við 1. mgr. 202. gr., sbr. 204. gr. og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 3. mgr. 202. gr. og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Brotaþoli gerði bótakröfu á hendur ákærða og var henni skipaður réttargæslumaður. Í þinghaldi 31. október féll þingsókn niður af hennar hálfu en réttargæslumaðurinn hafði áður upplýst dóminn um að ákærði hefði greitt bætur og þóknun réttargæslumanns.
Við þingfestingu neitaði ákærði sök og eins gerði hann við upphaf aðalmeðferðar. Í framangreindu þinghaldi upplýsti verjandi ákærða, en ákærði sótti ekki þing, að ákærði hygðist játa sök að hluta til eins og rakið verður hér á eftir. Ákærði krefst vægustu refsingar og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Í þinghaldi 21. nóvember viðurkenndi ákærði ákæruefnið rétt, nema hvað varðaði aldur brotaþola. Hann kvaðst hafa haldið að hún væri tæpra 18 ára gömul. Hann hefði spurt hana um aldur í tölvusamskiptunum og hún þá sagst vera á þessum aldri og eins hefði hann spurt hana um aldur þegar hann sótti hana og fengið sama svar. Brotaþoli hefði sagst vera 17 ára að verða 18. Hann kvaðst hafa spurt hana aftur til að vera viss um aldur hennar. Hann kvað aldrei hafa hvarflað að sér að hún væri yngri. Þá hefði komið fram hjá henni að hún hefði gert þetta áður.
Með játningu ákærða sem styðst við önnur gögn málsins er sannað að hann var í samskiptum við brotaþola og hafði við hana kynmök sem hann greiddi henni fyrir, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Ákærði heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki vitað um raunverulegan aldur brotaþola. Meðal gagna málsins er endurrit af tölvupóstsamskiptum ákærða við brotaþola. Þar kemur fram að hann spyr hana hversu gömul hún sé og hún svarar að hún sé 17 ára. Fyrir dómi bar hún að ákærði hefði spurt sig um aldur og hún hefði svarað að hún væri að verða 18 ára. Þegar ákærði átti þessi samskipti við brotaþola var hún ekki orðin 14 ára. Dómsformaður tók af henni skýrslu fyrir dómi 24. október 2011 og var hún tekin upp á myndband sem dómarar hafa skoðað. Það er álit dómsins að á þeim tíma hafi ekki verið hægt að slá því föstu, svo óyggjandi væri, að brotaþoli væri yngri en 15 ára. Með vísun til þessa og þess, sem að framan var rakið um samskipti ákærða og brotaþola, verður hins vegar að meta ákærða það til gáleysis að hafa ekki gengið úr skugga um aldur brotaþola. Svar hennar um aldur sinn og útlit hennar gaf tilefni til þess. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákærunni og varðar brot hans við 1. mgr. 202. gr., sbr. 204. gr. og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Við ákvörðun refsingar ber að taka tillit til að hann játaði sakir samkvæmt ákæru að hluta til, að vísu ekki fyrr en eftir að fyrri hluta aðalmeðferðar lauk, og hann hefur greitt brotaþola skaðabætur og kostnað lögmanns hennar. Samkvæmt þessu verður refsing hans ákveðin 15 mánaða fangelsi.
Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir svo og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Ragnheiður Harðardóttir og Símon Sigvaldason.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Stefán Þór Jansen, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Eiríkssonar hdl., 500.000 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Brynjars Níelssonar hrl., 125.500 krónur.