Hæstiréttur íslands

Mál nr. 816/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 8. janúar 2014.

Nr. 816/2013.

Flóki ehf.

(Jón Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(enginn)

Kærumál. Flýtimeðferð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F ehf. um að mál sem hann hugðist höfða á hendur Í sætti flýtimeðferð.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 19. desember 2013 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2013 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð á máli sem hann hyggst höfða gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um flýtimeðferð málsins.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Tilefni fyrirhugaðrar málsóknar sóknaraðila á hendur varnaraðila er augljóslega frumvarp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi um breyting á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í málinu hyggst sóknaraðili krefjast þess að viðurkennt verði fyrir dómi að varnaraðila „sé óheimilt að halda skrá um aflahlutdeild í úthafsrækju sem nær til tímabila eftir 1. september 2010 og hvílir að grunni til á stöðu aflahlutdeildar í Heru ÞH 60 í lok fiskveiðiársins 2009/2010.“ Eins og þessi krafa er úr garði gerð og þar sem óvíst er hver verða afdrif áðurgreinds frumvarps verður ekki séð að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um kröfuna, en ekki verður fullyrt að málatilbúnaður hans miði að því að dómstólar hlutist til um starfsemi löggjafans. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að málið sæti flýtimeðferð. Verður úrskurðurinn því staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2013.

Með bréfi Jóns Jónssonar hrl., dagsettu 4. desember sl., fór lögmaðurinn þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Flóki ehf., Árholti 16, Húsavík, hugðist höfða á hendur Fiskistofu og íslenska ríkinu sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Í bréfi lögmannsins kemur fram að í upphafi nóvember sl. hafi umbjóðanda hans orðið ljóst að stjórnvöld hafi haldið skrá um aflahlutdeild í úthafsrækju frá fiskveiðiárinu 2010/2011, sem hófst 1. september 2010, og allt til þessa dags. Upplýsingar þessar hafi komið fram í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á veiðistjórnun tegundarinnar, en lagafrumvarpi þessa efnis hafi verið útbýtt á Alþingi 6. nóvember sl., sbr. þingskjal nr. 178, mál 153. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verði úthlutun aflahlutdeildar miðuð við stöðu skráningar aflahlutdeildar í úthafsrækju hvers fiskiskips við lok fiskveiðiársins 2012/2013. Umbjóðandi lögmannsins hafi hins vegar allt frá árinu 2010 talið að aflahlutdeild í úthafsrækju væri fallin niður og hafi hlutdeildin, þ.m.t. vegna skips Flóka ehf., Heru ÞH, heldur ekki komið fram í aðgengilegum skrám stjórnvalda. Sem rök fyrir beiðninni benti lögmaðurinn á að hagsmunir umbjóðanda hans væru stórfelldir og varði skip félagsins, Heru ÞH, sem hafi gilt veiðileyfi og stundi nú veiðar á úthafsrækju á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Skráning aflahlutdeildar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. takmarki þýðingu núverandi atvinnuréttinda Flóka ehf., um leið og slík skráning varði eignarréttindi félagsins. Skráningin hafi áhrif á verðmæti skipsins og útgerðarinnar. Þá sé aflahlutdeild í eðli sínu hlutdeild í heild og skráning hlutdeildar á önnur skip varði því réttarstöðu Flóka ehf. Miklu varði að hrinda rangri skráningu stjórnvalda varðandi skip og atvinnuréttindi félagsins, enda geti röng skráning aflahlutdeildar orðið grundvöllur að rangri ákvarðanatöku stjórnvalda og/eða falið í sér að ákvarðanir byggi á röngum forsendum. Í fyrrnefndu bréfi lögmannsins segir einnig: „Þá birtast brýnir hagsmunir Flóka ehf. í því að upplýsingar um skráningu aflahlutdeildar í úthafsrækju, koma fram í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á veiðistjórnun tegundarinnar. Ekki verður útilokað að stjórnvöld hafi beinlínis staðið að skráningunni og skráarhaldinu til að vera grundvöllur að ákvörðunum um breytingar. Fram komið lagafrumvarp gerir beinlínis ráð fyrir því að svo verði, þótt eðli máls samkvæmt takmarki fyrirhugðu málshöfðun ekki starfsemi löggjafans. Óháð framgangi lagafrumvarpsins er brýnt að niðurstaða um réttmæti umdeildrar skráningar fáist sem fyrst.“

Samkvæmt stefnu, er fylgdi beiðni lögmannsins, eru dómkröfur þær „að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að að halda skrá um aflahlutdeild í úthafsrækju sem nær til tímabila eftir 1. september 2010 og hvílir að grunni til á stöðu aflahlutdeildar í Heru ÞH 60 í lok fiskveiðiársins 2009/2010.“ Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

Dómurinn hafnaði beiðni um flýtimeðferð málsins og útgáfu stefnu með bréfi 9. desember sl. Með bréfi 10. desember sl., en mótteknu í dag, var krafist úrskurðar dómsins um synjunina, og vísað í því efni til 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila.

Af málatilbúnaði stefnanda í fyrirhuguðu dómsmáli þykir ljóst að málið er höfðað í tilefni af því að nýlega hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Frumvarpið er merkt sem þingskjal nr. 178, 153. mál. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, er feli í sér að sett verði aflahlutdeild í úthafsrækju, sem taki að stórum hluta mið af  skráðum aflahlutdeildum hvers fiskiskips í úthafsrækju við lok fiskveiðiársins 20102/2013. Byggir stefnandi á því að stjórnvöldum hafi verið óheimilt að halda skrá um aflahlutdeild í úthafsrækju frá 1. september 2010, sem og að slík skráning kunni að vera röng og leiða til rangrar ákvarðanatöku stjórnvalda um veiðar. Geti það valdið stefnanda tjóni sem felist í takmörkuðum atvinnuréttindum og skerðingu eignarréttinda.

Umrætt lagafrumvarp er til meðferðar á Alþingi og því allsendis óvíst um örlög þess. Með engu móti er því unnt að slá því föstu að aflahlutdeild í úthafsrækju muni taka mið af þeirri skráningu aflahlutdeildar, sem stefnandi, umbjóðandi lögmannsins, heldur fram að stjórnvöldum hafi verið óheimil. Fyrir vikið verður ekkert fullyrt um að fyrirhuguð lagasetning komi til með að hafa áhrif á hagsmuni stefnanda. Að áliti dómsins verður því hvorki séð að brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómsins, né að slík úrlausn hafi almenna þýðingu í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Auk ofanritaðs telur dómurinn að málatilbúnaður stefnanda miði að því að dómstólar hafi bein afskipti af starfi löggjafans, enda fer ekki á milli mála að markmið málsóknarinnar er að koma í veg fyrir að skráning stjórnvalda á aflahlutdeild, sem stefnandi telur óheimila, geti orðið grundvöllur að ákvarðanatöku stjórnvalda samkvæmt áðurnefndu lagafrumvarpi. Slík afskipti dómstóla af starfi löggjafans fara í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sem mælir fyrir um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Með vísan til ofanritaðs er ekki fullnægt skilyrðum fyrir því að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu dómsmáli Flóka ehf. gegn Fiskistofu og íslenska ríkinu.