Hæstiréttur íslands
Mál nr. 206/2001
Lykilorð
- Skuldabréf
- Ábyrgð
- Sjálfskuldarábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2001. |
|
Nr. 206/2001. |
Ásgeir Halldórsson Haglind hf. Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Sæmundur Sigmundsson (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Sparisjóði Mýrasýslu (Karl Axelsson hrl.) |
Skuldabréf. Ábyrgð. Sjálfskuldarábyrgð. Hámarksábyrgð.
Í málinu var deilt um túlkun á ábyrgðaryfirlýsingu í skuldabréfi, að fjárhæð 8.100.000 kr., sem kvað á um „sjálfskuldarábyrgð pro rata“ fimm aðila á samtals 4.000.000 kr. Í skuldabréfinu kom fram að H hf. ábyrgdist 500.000 kr., SI 1.000.000 kr., Á 500.000 kr., SS 1.000.000 kr. og X, sem var látinn, 1.000.000 kr. H hf., SI, Á og SS töldu að skýra bæri ákvæðið á þann veg að þau hefðu tekið á sig skipta sjálfskuldarábyrgð að hámarki 4.000.000 kr. og að allar greiðslur aðalskuldara ættu að lækka hlutfallslega þá ábyrgð sem hvert þeirra væri í ábyrgð fyrir. Hæstiréttur taldi að ákvæði skuldabréfsins yrði ekki skilið á annan veg en þann að ábyrgðarmenn hefðu gengist undir skipta hámarksábyrgð, þannig að hvert um sig hefði ekki ábyrgst hærri fjárhæð en þá sem tiltekin væri við nafn hvers þeirra á skuldabréfinu. Ekkert lægi fyrir um að samið hefði verið fyrirfram um að greiðslur aðalskuldara inn á skuldina skyldu ganga til tiltekins hluta hennar. Í skuldabréfinu væri þess heldur ekki getið að ábyrgðin tæki aðeins til tilgreins hluta skuldarinnar og önnur gögn málsins bæru það heldur ekki með sér. Samkvæmt því yrði að telja að greiðslur inn á skuldina lækkuðu ekki ábyrgðina meðan enn væri ógreidd af skuldinni sú fjárhæð sem ábyrgðarmennirnir hefðu ábyrgst samtals. Engu breytti þótt skuldin hefði verið tryggð með veði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. júní 2001. Þau krefjast sýknu af kröfum stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með skuldabréfi útgefnu 7. febrúar 1995 tókst Norræna skólasetrið hf. á hendur að greiða Hrafnakletti hf. skuld að fjárhæð 8.100.000 krónur. Lánið var bundið lánskjaravísitölu og skyldi bera nánar tiltekna vexti og greiðast með 18 afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. nóvember 1995. Það var tryggt með fjórða veðrétti í fasteign skuldarans, Norræna skólasetrinu á Hvalfjarðarströnd. Í skuldabréfinu segir, að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól, verðbótum, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði, sem af vanskilum kunni að leiða, takist eftirgreindir á hendur „sjálfskuldarábyrgð pro rata á framangreindri skuld og að hver okkar ábyrgist greiðslu fjárhæða að upphæðum þeim sem að neðan greinir.” Sjálfskuldarábyrgðin skyldi gilda uns skuldin yrði greidd að fullu þótt skipt yrði um ábyrgðarmenn eða greiðslufrestur yrði veittur á láninu. Áfrýjendur rituðu undir þennan texta skuldabréfsins sem sjálfskuldarábyrgðarmenn á eftirfarandi veg: Haglind hf. ábyrgist 500.000 krónur, Sigurlín Sveinbjarnardóttir ábyrgist 1.000.000 krónur, Ásgeir Halldórsson ábyrgist 500.000 krónur og Sæmundur Sigmundsson ábyrgist 1.000.000 krónur. Auk stefndu ábyrgðist maður, sem nú er látinn, 1.000.000 krónur með sams konar áritun. Hlutafélagið Loftorka Borgarnesi, sem þá virðist hafa eignast bréfið, framseldi stefnda það 8. febrúar 1995 með öllum réttindum þess og tókst jafnframt á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni ásamt kostnaði í samræmi við ákvæði bréfsins. Fram er komið að nafni aðalskuldara var síðar breytt í Heimar hf. Skuldin fór síðan í vanskil í ágúst 1998. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 31. ágúst 1999. Í greinargerð áfrýjenda fyrir héraðsdómi kemur fram að félagið hafi fram að gjaldþroti þess greitt inn á skuldina 4.950.000 krónur auk verðbóta og vaxta. Samkvæmt yfirliti stefnda 22. október sama ár voru eftirstöðvar skuldarinnar þá 4.058.382 krónur með áföllnum verðbótum og vöxtum. Upplýst er að við skiptin fékkst ekkert upp í eftirstöðvar skuldarinnar. Áfrýjendum var sent samhljóða innheimtubréf 27. október 1999 þar sem þau voru krafin um greiðslu eftirstöðva skuldarinnar, sem þá nam 4.287.448 krónum. Með bréfi lögmanns áfrýjandans Ásgeirs Halldórssonar 16. desember sama ár var þeirri skoðun lýst að honum bæri aðeins að greiða sem svaraði 6.173% af eftirstöðvum skuldarinnar eins og þær væru þennan dag, 4.383.211 krónum, enda hefði hann tekið að sér skipta ábyrgð á samtals 4.000.000 krónum ásamt meðáfrýjendum og ábyrgðarmanninum sem nú er látinn. Í bréfinu segir meðal annars „að eins og ábyrgðaryfirlýsingunum sé háttað, hljóti ábyrgð hvers ábyrgðarmanns að lækka í hlutfalli við þá fjárhæð sem greiðist af skuld þeirri sem þeir ábyrgðust enda fái ekki staðist að inngreiðslur á skuldina gangi einungis inn á þann hluta sem ábyrgð stóð ekki fyrir. Þá myndi önnur túlkun ábyrgðaryfirlýsinganna leiða til þess að ábyrgð yrði í raun að óskiptu að öllu leyti eða hluta þegar eftirstöðvar skuldarinnar væru orðnar lægri en kr. 4.000.000,00.” Í samræmi við þennan skilning sinn greiddi þessi áfrýjandi sama dag inn á skuldina þann hluta hennar er hann taldi sig bera ábyrgð á, eða 270.576 krónur. Sömu skoðun og fram kom í bréfinu 16. desember 1999, var lýst í bréfum lögmannsins 17. og 20. mars 2000 að því er varðar ábyrgð annarra áfrýjenda á skuldinni. Samkvæmt því greiddu áfrýjendurnir Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Sæmundur Sigmundsson 20. mars 2000 hvort um sig 570.540 krónur og áfrýjandinn Haglind hf. greiddi sama dag 285.039 krónur.
II.
Aðilar máls þessa deila um túlkun á ofangreindri ábyrgðaryfirlýsingu áfrýjenda. Byggja áfrýjendur á því því að skýra beri hana á þann veg, að skipt sjálfskuldarábyrgð þeirra og fimmta ábyrgðarmannsins hafi staðið að hámarki fyrir 4.000.000 krónum af skuldinni. Þau hafi því tekið að sér að greiða samtals 49,384% skuldarinnar, sem skiptist þannig að áfrýjendurnir Ásgeir og Haglind hf. hafi hvor um sig tekið að sér að greiða 6.173% skuldarinnar, en áfrýjendurnir Sigurlín, Sæmundur og fimmti ábyrgðarmaðurinn hver um sig 12,346% hennar. Telja áfrýjendur að þannig sé um hlutfallslega ábyrgð að tefla, sem takmarkist að auki af því hámarki, sem tilgreint er við yfirlýsingar hvers þeirra á skuldabréfinu. Mótmæla þeir því að stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa þeim greiðslum sem bárust frá aðalskuldara að fullu inn á þann hluta skuldarinnar sem féll utan ábyrgðar þeirra, enda verði skuldinni ekki skipt í ótryggðan hluta og tryggðan. Hafi því innborganir aðalskuldara átt að lækka hlutfallslega þá fjárhæð, sem hver og einn þeirra var í ábyrgð fyrir. Samkvæmt þessu telja áfrýjendur að þeir hafi með innborgunum sínum, sem greint er frá hér að framan, efnt að fullu greiðsluskyldu sína samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingum sínum.
Stefndi reisir málatilbúnað sinn hins vegar á því að áfrýjendur hafi tekið að sér skipta hámarksábyrgð, hvert fyrir þeirri fjárhæð á höfuðstól, sem hvert og eitt ritaði á bréfið, auk verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Þegar um hámarksábyrgð sé að tefla hafi ábyrgðarmaður skuldbundið sig til tryggingar fyrir kröfu í heild sinni, þó þannig að hann verði ekki krafinn um frekari greiðslu en nemur hámarksfjárhæð ábyrgðar hans. Reynist krafa hærri en hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar, eins og hér standi á, hafi greiðsla aðalskuldara inn á kröfuna engin áhrif á skuldbindingu ábyrgðarmanns, nema hún leiði til þess að eftirstöðvar skuldarinna verði lægri en ábyrgðarhámarki nemur. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi numið 4.058.382 krónum og hafi því verið hærri en samanlögð ábyrgð áfrýjenda. Geti hann því krafið áfrýjendur um fjárhæðirnar, sem hvert um sig gekkst í ábyrgð fyrir að hámarki, svo lengi sem eftirstöðvar skuldarinnar séu hærri en samanlagðri ábyrgðarskuldbindingu þeirra nemur.
III.
Hin umdeilda skuld var, eins og að framan greinir, bæði tryggð með veði í fasteign og með sjálfskuldarábyrgð. Í þeim hluta skuldabréfsins, sem fjallað var um sjálfskuldarábyrgðina, kom fram að áfrýjendur tækju að sér sjálfskuldarábyrgð á greiðslu höfuðstóls, verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar „pro rata”. Í beinu framhaldi þessa texta segir síðan að hver ábyrgðarmannanna gangist í ábyrgð fyrir greiðslu „að upphæðum þeim“ sem síðan eru nánar tilgreindar og fjallað hefur verið um hér að framan. Þessi orð verða ekki skilin á annan veg en þann að áfrýjendur hafi gengist undir skipta hámarksábyrgð, þannig að hvert um sig hafi ekki ábyrgst hærri fjárhæð en þá sem tiltekin er við nafn hvers þeirra um sig á skuldabréfinu.
Ekkert liggur fyrir um að samið hafi verið fyrirfram um það að greiðslur aðalskuldara inn á skuldina skyldu ganga til tiltekins hluta hennar. Í skuldabréfinu var þess heldur ekki getið að ábyrgð áfrýjenda tæki aðeins til tilgreinds hluta skuldarinnar og önnur gögn málsins bera það heldur ekki með sér. Verður því að telja að greiðslur inn á skuldina lækkuðu ekki ábyrgðina meðan enn væri ógreidd af skuldinni sú fjárhæð sem ábyrgðarmennirnir ábyrgðust samtals. Breytir hér engu þótt skuldin hafi einnig verið tryggð með veði. Gat stefndi því krafið áfrýjendur hvert um sig um þá fjárhæð sem þau höfðu að hámarki gengist í ábyrgð fyrir. Eins og lýst er hér að framan greiddu áfrýjendur 16. desember 1999 og 17. mars 2000 tilteknar fjárhæðir inn á skuldina. Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfur stefnda eins og þær eru þegar tillit hefur verið tekið til þessara innborgana.
Áfrýjendur hafa byggt á því, að verði ekki fallist á sýknu geti stefndi ekki krafið þá um dráttarvexti af sjálfum ábyrgðarkröfunum. Það er viðurkennt í kröfurétti að ábyrgðarkröfur beri dráttarvexti í tilefni greiðslufalls aðalskuldara. Óumdeilt er að þegar stefndi krafði áfrýjendur um greiðslu í samræmi við ábyrgðarskuldbindingar þeirra með framangreindum innheimtubréfum 27. október 1999 voru kröfurnar á hendur þeim fallnar í gjalddaga. Stefndi byggir kröfur sínar um dráttarvexti á ákvæðum III. kafla þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Verða áfrýjendur því dæmdir samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna til að greiða dráttarvexti af kröfum stefnda mánuði eftir að hann krafði þá um greiðslu.
Rétt þykir að áfrýjendur greiði stefnda óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að upphaf dráttarvaxta skal miðast við 27. nóvember 1999 og um þá fer frá 1. júlí 2001 til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjendur, Ásgeir Halldórsson, Haglind hf., Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Sæmundur Sigmundsson, greiði stefnda óskipt í málskostnað 300.000 krónur samtals í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. maí 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 8. maí 2001, hefur Sparisjóður Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14 Borgarnesi, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 14. febrúar 2001 á hendur Ásgeiri Halldórssyni, kt. 300746-2259, Mávahlíð 41 Reykjavík, Haglind hf., kt. 410777-0299, Reykjavíkurvegi 66 Hafnarfirði, Sigurlín Sveinbjarnardóttur, kt. 030747-2329, Ögurási 4 Garðabæ, og Sæmundi Sigmundssyni, kt. 140135-2249, Kveldúlfsgötu 17 Borgarnesi.
Stefnandi lýsir dómkröfum sínum svo:
1) Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi Ásgeir Halldórsson verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 229.424 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 500.000 frá 27. október 1999 til 16. desember 1999, en frá 16. desember 1999 af kr. 229.424 til greiðsludags.
2) Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda Haglind hf. verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 214.961 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 500.000 frá 27. október 1999 til 20. mars 2000, en frá 20. mars 2000 af kr. 214.961 til greiðsludags.
3) Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda Sigurlín Sveinbjarnardóttir verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 429.460 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 1.000.000 frá 27. október 1999 til 20. mars 2000, en frá 20. mars 2000 af kr. 429.460 til greiðsludags.
4) Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi Sæmundur Sigmundsson verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 429.460 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 1.000.000 frá 27. október 1999 til 20. mars 2000, en frá 20. mars 2000 af kr. 429.460 til greiðsludags.
Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 27. október 2000.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins og við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða 24,5% virðisaukaskatt af þjónustu lögmanns.
Af hálfu allra stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða hverjum stefnda málskostnað samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi, þ.m.t. 24,5% virðisaukaskatt.
II
Í máli þessu krefur eigandi skuldabréfs ábyrgðarmenn þess. Upphafleg fjárhæð skuldabréfsins var kr. 8.100.000 og öll fjárhæðin tryggð með 4. veðrétti í fasteigninni Norræna skólasetrinu, Hvalfjarðarströnd. Útgefandi bréfsins var eigandi hennar, Norræna skólasetrið hf. Bakábyrgðir voru fyrir kr. 4.000.000 og skiptust þannig: Stefndu ábyrgðust samtals kr. 3.000.000 pro rata af skuld skv. skuldabréfinu þannig: Haglind hf. ábyrgðist kr. 500.000, Sigurlín Sveinbjarnardóttir ábyrgðist kr. 1.000.000, Ásgeir Halldórsson ábyrgðist kr. 500.000 og Sæmundur Sigmundsson ábyrgðist kr. 1.000.000. Að auki ábyrgðist Jón Einarsson, sem er látinn, kr. 1.000.000, en ekki eru gerðar kröfur á hendur dánarbúi hans eða erfingjum. Í yfirlýsingum ábyrgðarmanna, árituðum á bréfið, er eingöngu skráð fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar þeirra hvers og eins, en ekki hvert sé hlutfall hverrar ábyrgðar af heildarskuldinni.
Við gjaldþrot útgefanda og greiðanda bréfsins hafði hann greitt kr. 4.950.000 af höfuðstól bréfsins auk verðbóta og vaxta, en eftir stóðu þá kr. 4.058.382 að meðtöldum áföllnum verðbótum og vöxtum.
Deilan í málinu snýst í aðalatriðum um það, að stefnandi vill við það miða, að svo lengi sem eftirstöðvar bréfsins séu hærri fjárhæð en ábyrgðarskuldbindingu nemur, þá geti hann krafið ábyrgðarmann um fulla fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar hans. Stefndu á hinn bóginn vilja líta svo á að um hlutfallslegar ábyrgðir hafi verið að ræða, þ. e. að ábyrgðir þeirra eigi að lækka í hlutfalli við það sem greitt hefur verið inn á bréfið. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Verður nú málavöxtum og málsástæðum nánar lýst.
III
Með skuldabréfi útgefnu 7. febrúar 1995 viðurkenndi Norræna skólasetrið hf. Hvalfjarðarströnd, kt. 590593-3899, að skulda Hrafnakletti hf., kt. 490882-0499 kr. 8.100.000. Skuldabréfið var bundið lánskjaravísitölu með grunnvísitölu 3396 stig, og skyldu vextir af láninu vera vegið meðaltal vaxta banka og sparisjóða af verðtryggðum skuldabréfum, eins og þeir væru á hverjum tíma samkvæmt útreikningum Seðlabanka Íslands. Lánið skyldi endurgreiða að fullu með 18 afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta skipti 1. nóvember 1995.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða og skuldara ber að greiða var fasteignin Norræna skólasetrið, Hvalfjarðarströnd, sett að veði, upphaflega með 4. veðrétti. Hrafnaklettur hf. og Loftorka Borgarnesi hf., eigendur skuldabréfsins, framseldu stefnanda skuldabréfið 8. febrúar 1995. Stefnandi heimilaði síðan aðalskuldara að veðsetja fasteignina vegna lántöku hjá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda allt að fjárhæð 38.969.847 og skyldi veðréttur þess láns ganga framar veðrétti stefnanda og hann vera áfram 4. veðréttur.
Auk fyrrgreindrar veðsetningar tókust stefndu á hendur sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á greiðslu hluta skuldar samkvæmt skuldabréfinu. Um sjálfskuldarábyrgðina segir orðrétt í skuldabréfinu: ,,Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól, verðbótum, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði, ef vanskil verða, tökumst við undirritaðir á hendur sjálfskuldarábyrgð pro rata á framangreindri skuld og að hver okkar ábyrgist greiðslu fjárhæða að upphæðum þeim sem að neðan greinir. Sjálfskuldarábyrgðin gildir jafnt þótt skipt verði um ábyrgðarmenn eða greiðslufrestur verði veittur á láninu, einu sinni eða oftar, uns skuldin er að fullu greidd. Öll önnur ákvæði skuldabréfs þessa gilda einnig gagnvart okkur, þ.m.t. ákvæði um aðför án dóms eða réttarsáttar.”
Undir texta skuldabréfsins um sjálfskuldarábyrgðina rita síðan stefndu þannig:
1) Haglind hf. ábyrgist kr. 500.000.
2) Sigurlín Sveinbjarnardóttir ábyrgist kr. 1.000.000.
3) Ásgeir Halldórsson ábyrgist 500.000.
4) Sæmundur Sigmundsson ábyrgist 1.000.000.
Að auki ábyrgðist Jón Einarsson, sem nú er látinn, kr. 1.000.000, en ekki eru gerðar kröfur á hendur dánarbúi hans eða erfingjum.
Nafni aðalskuldara, Norræna skólasetursins hf., var síðar breytt í Heima hf. Bú Heima hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands uppkveðnum 31. ágúst 1999. Við skiptin hefur komið í ljós, að ekkert fékkst upp í eftirstöðvar skuldarinnar samkvæmt umræddu skuldabréfi.
Skuldabréfið var sett í innheimtu í október 1999, en þá hafði skuldabréfið verið í vanskilum síðan 1. ágúst 1998. Skuldabréfið var þá gjaldfellt í samræmi við ákvæði bréfsins en skuldin hafði í raun öll fallið í gjalddaga þegar bú aðalskuldara var tekið til gjaldþrotaskipta eins og fyrr greinir.
Stefndu var sent innheimtubréf 27. október 1999. Með bréfi lögmanns stefnda Ásgeirs Halldórssonar 16. desember 1999 kom fram sú afstaða stefnda Ásgeirs að hann bæri aðeins ábyrgð á sama hlutfalli af eftirstöðvum skuldarinnar og hann hefði borið af upphaflegum höfuðstól skuldabréfsins eða 6,173%. Sama skoðun kemur síðan fram í bréfum lögmannsins dags. 17. og 20. mars 2000 hvað varðaði aðra stefndu. Þannig að stefndi Haglind hf. bæri ábyrgð á 6,173% af eftirstöðvum skuldarinnar en stefndu Sigurlín og Sæmundur bæru hvort ábyrgð á 12,346% af eftirstöðvum skuldarinnar. Þessi afstaða stefndu byggir á því ,,að eins og ábyrgðaryfirlýsingum sé háttað, hljóti ábyrgð hvers ábyrgðarmanns að lækka í hlutfalli við þá fjárhæð sem greiðist af skuld þeirri sem þeir ábyrgðust enda fái ekki staðist að inngreiðslur á skuldina gangi einungis inn á þann hluta sem ábyrgð stóð ekki fyrir. Þá myndi önnur túlkun ábyrgðaryfirlýsinganna leiða til þess að ábyrgð yrði í raun að óskiptu að öllu leyti eða hluta þegar eftirstöðvar skuldarinnar væru orðnar lægri en kr. 4.000.000.”
Í samræmi við ofangreinda afstöðu stefndu greiddu stefndu inn á skuldina:
1) Stefndi Ásgeir Halldórsson greiddi kr. 270.576 hinn 16. desember 1999.
2) Stefndi Haglind hf. greiddi kr. 285.039 hinn 20. mars 2000.
3) Stefnda Sigurlín Sveinbjarnardóttir greiddi kr. 570.540 hinn 20. mars 1999.
4) Stefndi Sæmundur Sigmundsson greiddi kr. 570.540 hinn 20. mars 1999.
Stefnandi kveður stefnukröfur byggjast á því, að stefndu hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð pro rata, hver fyrir þeirri fjárhæð af höfuðstól sem hver og einn hefur ritað á bréfið auk vaxta og kostnaðar eins og nánar greinir í bréfinu. Síðan sé tekið tillit til þeirra innborgana sem stefndu hafa greitt.
IV
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu á því, að stefndu hafi tekist á hendur ábyrgð á greiðslu hluta höfuðstóls samkvæmt umræddu skuldabréfi auk verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða og skuldara bæri að greiða að skaðlausu. Við nöfn sín á skuldabréfið hafi stefndu ritað þá fjárhæð sem hver og einn gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir af höfuðstól skuldarinnar auk vaxta og kostnaðar. Þegar greitt var inn á skuldabréfið áður en það fór í vanskil hafi stefnandi ráðstafað þeim innborgunum inn á ótryggða hluta skuldarinnar sem af hálfu stefnanda er talið að honum hafi verið heimilt.
Þegar bréfið fór í vanskil hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið kr. 4.058.382, eða hærri fjárhæð en stefndu höfðu samtals gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Sé þeim því stefnt til greiðslu á fjárhæðum í samræmi við undirritun þeirra sem sjálfskuldarábyrgðaraðila á skuldabréfið.
Stefnandi telur að skilningur stefndu á sjálfskuldarábyrgð þeirra fái ekki staðist. Það hafi verið á valdi stefnanda að ákveða inn á hvaða hluta skuldarinnar hann ráðstafaði greiðslum af skuldabréfinu áður en það fór í vanskil. Hann hafi að sjálfsögðu ákveðið að ráðstafa greiðslum af skuldabréfinu frá aðalskuldara fyrst til lækkunar á þeim hluta kröfunnar sem ábyrgðir stefndu tóku ekki til, en ekki inn á þann hluta skuldarinnar sem stefndu höfðu gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Þessa ráðstöfun verði stefndu að þola, enda hafi þau ekki gert það að skilyrði ábyrgðar sinnar að greiðslur frá aðalskuldara skyldu fyrst ganga inn á þann hluta skuldarinnar sem stefndu höfðu gengist í ábyrgð fyrir.
Þegar skuldabréfið var gjaldfellt hafi eftirstöðvar þess, þ.e. höfuðstóls auk vaxta og dráttarvaxta, numið hærri fjárhæð en sem nam sjálfskuldarábyrgð stefndu. Af þeim sökum sé stefndu stefnt til greiðslu í samræmi við sjálfskuldarábyrgð hvers og eins á umræddu skuldabréfi.
Stefnandi kveðst reka málið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ákvæði þar að lútandi sé í umræddu skuldabréfi. Kröfu um dráttarvexti þ.m.t. vaxtavexti byggi stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggist á lögum nr. 50/1988. Lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991. Loks er vísað til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.
V
Á því er byggt af hálfu stefndu að skuld samkvæmt skuldabréfi því er hér um ræðir sé ein og hin sama. Ekki sé unnt að skipta henni í ótryggðan hluta annars og vegar tryggðan hins vegar með þeim hætti sem stefnandi vilji gera.
Samkvæmt því hafi innborganir aðalskuldara á heildarskuldina lækkað hlutfallslega þá fjárhæð sem ábyrgð hvers og eins stefndu stóð fyrir.
Upphafleg fjárhæð skuldabréfs þess sem ábyrgð stefndu varðar hafi verið kr. 8.100.000 og öll fjárhæðin tryggð með 4. veðrétti í fasteigninni Norræna skólasetrið, Hvalfjarðarströnd.
Stefndu hafi ábyrgst samtals pro rata af skuld Norræna skólasetursins hf skv. skuldabréfinu kr. 3.000.000,00. Að auki hafi Jón Einarsson, sem látinn er, ábyrgst kr. 1.000.000, en ekki séu gerðar kröfur á hendur dánarbúi hans eða erfingjum.
Þannig hafi verið skipt sjálfskuldarábyrgð fyrir kr. 4.000.000 af skuldinni og sjálfskuldarábyrgðarmenn hafi því ábyrgst samtals 49,384% af skuldinni og sú ábyrgð skipst þannig að stefndu Ásgeir Halldórsson og Haglind hf. hafi ábyrgst 6,173% hvor um sig, og stefndu Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Sæmundur Sigmundsson 12,346% hvort um sig og Jón heitinn Einarsson sömu hlutfallstölu, 12,346%.
Við gjaldþrot greiðanda bréfsins hafi hann verið búinn að greiða kr. 4.950.000 af höfuðstól bréfsins auk verðbóta og vaxta en eftir hafi þá staðið kr. 4.058.382,20 að meðtöldum áföllnum verðbótum og vöxtum.
Fyrir liggi í máli þessu að engir samningar eða fyrirvarar hafi verið gerðir af hálfu aðila um það hvernig ráðstafa skyldi greiðslum frá aðalskuldara með tilliti til ábyrgðar sjálfskuldarábyrgðarmanna. Á því sé byggt af hálfu stefnanda í máli þessu að honum sé það í sjálfs vald sett að ráðstafa innborgunum aðalskuldara að fullu inn á þann hluta skuldarinnar sem fellur utan ábyrgðar stefndu. Af hálfu stefnanda sé því haldið fram að stefndu verði að þola að innborgunum frá skuldara verði að öllu leyti ráðstafað inn á þann hluta skuldarinnar sem sjálfskuldarábyrgð stóð ekki fyrir, þar sem þeir hefðu ekki skilyrt ábyrgð sína þannig að greiðslur frá aðalskuldara skyldu fyrst ganga inn á þann hluta skuldarinnar sem stefndu höfðu gengist í ábyrgð fyrir.
Því sé ekki haldið fram af stefndu að innborganir aðalskuldara eigi fyrst að ganga inn á þann hluta skuldarinnar sem nemur ábyrgð þeirra, heldur einungis að þeir eigi til jafns við stefnanda að njóta þeirra til lækkunar ábyrgða sinna.
Stefndu í máli þessu hafi verið fyrirsvarsmenn í Norræna skólasetrinu hf., og því megi ætla að takmörkuðum fjármunum félagsins hafi einmitt helst verið ráðstafað til greiðslu inn á skuldabréf það sem mál þetta varðar vegna þeirra ábyrgða sem hér um ræðir.
Þá er á því byggt að um hámarksábyrgð hvers ábyrgðarmanns sé að ræða þannig að ekki sé unnt að krefjast dráttarvaxta ofan á þá fjárhæð sem stefndu ábyrgðust hver og einn, með þeim hætti sem gert sé í kröfugerð stefnanda.
Sýknukröfur stefndu eru þannig reistar á því að með greiðslum þeim sem þeir hafi þegar innt af hendi til stefnanda hafi þeir efnt að fullu greiðsluskyldu sína á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga sinna
Stefndu byggja á almennum reglum kröfuréttar um skuldabréf og ábyrgðir. Málskostnaðarkröfur stefndu eru byggðar á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Mál þetta tengist ekki virðisaukaskattsskyldri starfsemi stefndu skv. lögum nr. 50/ 1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Álit dómsins
Í yfirlýsingum ábyrgðarmanna stefndu, árituðum á bréfið, er eingöngu skráð fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar þeirra hvers og eins, en ekki hvert hlutfall heildarskuldarinnar hver og einn ábyrgist. Því er ekki haldið fram að aðalskuldarinn, útgefandi og greiðandi bréfsins, hafi gefið nein fyrirmæli um það er hann greiddi af bréfinu, hvernig þeim innborgunum skyldi ráðstafað.
Það er almenn réttarregla, sem byggist á viðskipta- og dómvenju, að gangi maður í ábyrgð fyrir skuld er nemur tilgreindri fjárhæð, þá nái ábyrgðin einnig til vaxta og kostnaðar, nema um annað sé ótvírætt samið.
Af þessu leiðir að fallast ber á dómkröfur stefnanda.
Rétt er að stefndu greiði stefnanda málskostnað, og ákveðst hann kr. 210.000, og greiði stefnda Sigurlín og stefndi Sæmundur þriðjung hans hvort um sig, en stefnda Haglind hf. og stefndi Ásgeir 1/6 hluta hvort, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Málið flutti af hálfu stefnanda Ingi Tryggvason hdl, en Kristinn Bjarnason hrl. hélt uppi vörnum fyrir stefnda.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi Ásgeir Halldórsson greiði stefnanda Sparisjóði Mýrasýslu kr. 229.424 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 500.000 frá 27. október 1999 til 16. desember 1999, en frá 16. desember 1999 af kr. 229.424 til greiðsludags og kr. 35.000 í málskostnað.
Stefnda Haglind hf. greiði stefnanda kr. 214.961 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 500.000 frá 27. október 1999 til 20. mars 2000, en frá 20. mars 2000 af kr. 214.961 til greiðsludags og kr. 35.000 í málskostnað.
Stefnda Sigurlín Sveinbjarnardóttir greiði stefnanda kr. 429.460 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 1.000.000 frá 27. október 1999 til 20. mars 2000, en frá 20. mars 2000 af kr. 429.460 til greiðsludags og kr. 70.000 í málskostnað.
Stefndi Sæmundur Sigmundsson greiði stefnanda kr. 429.460 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 1.000.000 frá 27. október 1999 til 20. mars 2000, en frá 20. mars 2000 af kr. 429.460 til greiðsludags og kr. 70.000 í málskostnað.
Dráttarvexti má leggja við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 27. október 2000.