Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/2015


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Galli
  • Skaðabætur
  • Skuldajöfnuður


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 3. desember 2015.

Nr. 271/2015.

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir og

Bára Kristín Kristinsdóttir

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

gegn

Guðmundi Má Ástþórssyni

Mótamönnum ehf. og

(Marteinn Másson hrl.)

Verði tryggingum hf.

(Magnús Hrafn Magnússon hrl.)

Verksamningur. Galli. Skaðabætur. Skuldajöfnuður.

A og B kröfðu G, M ehf. og V hf. um skaðabætur vegna galla á verki sem unnið var samkvæmt samningi þeirra við M ehf. um meðal annars jarðvinnu, byggingu bílskúrs, stoðveggi, innkeyrslu og verönd. Talið var að A og B ættu rétt á bótum vegna nánar tilgreindra verkliða og var við mat á tjóni þeirra lögð til grundvallar fyrirliggjandi matsgerð dómkvadds matsmanns. Á hinn bóginn var talið að draga bæri frá kröfunni kröfu M ehf. vegna aukaverka í þágu A og B. Var sú fjárhæð hærri en sem nam viðurkenndri kröfu A og B vegna vanefndanna, að frádreginni greiðslu sem V hf. hafði þegar inn af hendi til þeirra. Voru G, M ehf. og V hf. því þegar af þeirri ástæðu sýknaðir af kröfu A og B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2015. Þær krefjast þess að stefndu verði óskipt gert að greiða þeim 9.178.312 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. apríl 2013 til greiðsludags, að frádreginni innborgun stefnda Varðar trygginga hf. 8. maí 2013 að fjárhæð 2.456.992 krónur. Þá krefjast þær málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu Guðmundur Már Ástþórsson og Mótamenn ehf. krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.

Stefndi Vörður tryggingar hf. krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjenda verði lækkuð og málskostnaðar látinn niður falla.

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi Mótamenn ehf. hafi vanefnt verksamning þann sem hann gerði við áfrýjendur 19. maí 2011 og fallist á að áfrýjendur ættu rétt á bótum vegna nánar tilgreindra verkliða. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að um vanefndir stefnda Mótamanna ehf. hafi verið að ræða og í hverju vanefndirnar hafi falist. Ekki er ágreiningur um útreikning héraðsdóms á fjárhæð bóta en niðurstaða dómsins var að tjón áfrýjenda, að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á verkstað, væri 2.816.108 krónur.

Samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var tjón áfrýjenda metið á grundvelli fyrirliggjandi matsgerðar dómkvadds manns að öllu leyti nema hvað snertir lagfæringu á handriði ofan á bílskúr, en kostnaður við það mat dómurinn að álitum 40.000 krónur. Á hinn bóginn var niðurstaða matsmanns sú að kostnaður við lagfæringar samkvæmt þeim lið næmi 170.000 krónum, þar af kostnaður við vinnu 75.000 krónur. Verður niðurstaða matsgerðar lögð til grundvallar við mat á kostnaði við að lagfæra handriðið þannig að viðurkennd krafa áfrýjenda að þessu leyti hækkar um 130.000 krónur. Að teknu tilliti til þess að áfrýjendur eiga þess kost að fá 60% af virðisaukaskatti vegna vinnu á verkstað endurgreiddan, eða 8.710 krónur samkvæmt þessum lið, hækkar krafa þeirra samtals um 121.290 krónur og verður 2.937.398 krónur.

Stefndi Vörður tryggingar hf. hefur greitt áfrýjendum 1.912.000 krónur og stendur því eftir krafa að fjárhæð 1.025.398 krónur. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að draga beri frá kröfunni kröfu stefnda Mótamanna ehf. samkvæmt reikningi 30. maí 2012 vegna aukaverka stefnda Mótamanna ehf. í þágu áfrýjenda að fjárhæð 1.035.375 krónur en engin rök eru til þess að lækka þá fjárhæð vegna virðisaukaskatts. Sú fjárhæð er hærri en nemur viðurkenndri kröfu áfrýjenda vegna vanefnda á verksamningi að frádreginni greiðslu Varðar trygginga hf. og verða stefndu því þegar af þeirri ástæðu sýknaðir. Að því virtu sem nú hefur verið rakið eru ekki efni til að taka afstöðu til bótaskyldu annarra stefndu á grundvelli ábyrgðar stefnda Guðmundar Más Ástþórssonar sem húsasmíðameistara og byggingarstjóra og stefnda Varðar trygginga hf. á grundvelli starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjendum verður óskipt gert að greiða stefndu hverjum fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

            Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

            Áfrýjendur, Arndís Björg Sigurgeirsdóttir og Bára Kristín Kristinsdóttir, greiði óskipt stefndu, Guðmundi Má Ástþórssyni, Mótamönnum ehf. og Verði tryggingum hf. hverjum fyrir sig 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2015.

Mál þetta var höfðað 10. mars 2014 og dómtekið 8. desember 2014. Stefnendur eru Arndís B. Sigurgeirsdóttir og Bára Kristjánsdóttir, báðar til heimilis að Sunnubraut 46, Kópavogi. Stefndu eru Guðmundur Már Ástþórsson, Þúfuseli 2, Reykjavík, Mótamenn ehf., Skútuvogi 11a, Reykjavík, og Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík.

Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu, Guðmundur Már, Mótamenn ehf. og Vörður tryggingar hf., verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 9.178.312 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. apríl 2013 til greiðsludags.  Allt að frádreginni innborgun af hálfu stefnda Varðar trygginga hf., að fjárhæð 2.456.992 kr., þann 8. maí 2013. Þá er krafist málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti, að óskiptu úr hendi stefndu.

Stefndu Guðmundur Már og Mótamenn ehf. krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti eða álagi sem því nemur. Til vara krefjast stefndu þess að dómkrafa stefnenda verði lækkuð verulega og skuldajöfnuð við kröfu stefnda Mótamanna ehf. að fjárhæð 1.035.375 kr., samkvæmt reikningi, dags. 30. maí 2012, vegna aukaverka, og að málskostnaður verði látinn niður falla. Til þrautavara krefjast stefndu þess að dómkrafa stefnenda verði lækkuð verulega og málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefndi Vörður tryggingar hf. krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að stefnendur veðri dæmdir til greiðslu málskostnaðar. Til vara er þess krafist að dómkrafa stefnenda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði látinn niður falla.                

I.

Málsatvik eru þau að hinn 19. maí 2011 gerðu stefnendur samkomulag við Mótamenn ehf. um verkkaup að Sunnubraut 46, Kópavogi, hvað varðar jarðvinnu, byggingu bílskúrs, innkeyrslu, verönd, stéttir, trépall, stoðveggi og fleira í kringum húsið að Sunnubraut 46, Kópavogi. Samkvæmt 1. gr. samkomulagsins voru verkliðirnir fjórir.

Í fyrsta lagi bílskúr og var innifalið í tilboði: Sökklar, botnplata, járn, steypa, gólfgeisli, veggir bílskúrs, þakplata, einangra sökkla og botnplötu, einangra útveggi, einangra undir þakplötu, rafmagnslagnir sem komi í steypu, steyptar tröppur upp á bílskúr norðan megin, drenlögn, fylling í grunn (100 mm pvc), niðurfall, steypumót/uppsláttur, fylling innan í sökkla, glöttun þakplötu og gólfplötu, skólplagnir, steinsögun fyrir bílskúrshurð, borun fyrir járnum í hús, vélslípun plötu, með vatnslögn tengda. Bílskúrnum átti að skila fullbúnum samkvæmt teikningu, tilbúnum til pússningar.

Í öðru lagi stoðveggir samkvæmt teikningu. Steypa átti í alla veggina, setja drenmöl að stoðveggjum, járn, sökkul/fótament, frágangur út í götu. Öllum stoðveggjum átti skila tilbúnum til pússningar.

Í þriðja lagi innkeyrsla, verönd, stéttar o.fl. Um var ræða innkeyrslu, verönd sunnan megin, tröppur í garði, stétt norðan megin, stétt vestan megin, aðkomustétt með þrem þrepum, steyptar tröppur vestan megin, U-stál, niðurföll (2 stk.), lagnir frá niðurföllum, steyptar tröppur norðan megin frá dyrum, „ruslajúnit“, snjóbræðsla í bílastæði og aðkomustétt, snjóbræðsla í verönd sunnan megin, snjóbræðsla í stétt norðan megin (án tengingar – átti við um alla snjóbræðsluna), dósir og lagnir fyrir lýsingu í veggi, slípa stéttir, saga sprunguraufar í stéttir/fugusögun. Þá átti fella skorstein.

Í fjórða lagi var um ræða jarðvinnu. Innifalið var brottflutningur á öllu efni, þ.m.t. skorsteini og sögun fyrir bílskúrshurð, fleygun og tilflutningur innan lóðar, fjarlægja hellur og hraunkant, aðflutt burðarfylling – frostfrítt (grús/fylling), gröftur og jöfnun undir veggi, perlumöl undir tröppur, gröftur fyrir frárennsli og drenlögn, drenmöl stoðveggjum, drenlögn, og 100 mm pvc í grunn. 

Í samkomulaginu var tekið fram til viðmiðunar væri tilboð verktaka, merkt fylgiskjal I, fjárhæð 6.941.000 kr. Einnig var tekið fram í samkomulaginu magntölur gætu breyst og það myndi þá hafa áhrif á endanlegt verð. Verklok voru áætluð 15. júlí 2011.

Þær teikningar sem liggja fyrir í málinu eru teikningar unnar af Halli Kristvinssyni byggingarfræðingi, dags. 27. júlí 2011, samþykktum af byggingarfulltrúa Kópavogs 16. ágúst 2011, og lóðateikning Aðalheiðar E. Kristjánsdóttur landslagsarkitekts, dags. 18. maí 2010, sem var breytt 29. ágúst 2011.  

Stefndi Guðmundur Már Ástþórsson, fyrirsvarsmaður stefnda Mótamanna ehf., var skráður sem byggingarstjóri á verkinu hinn 2. ágúst 2011, auk þess sem hann var skráður húsasmíðameistari verksins. Stefndi Mótamenn ehf. voru með starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda Verði tryggingum hf. sem gilti frá 1. september 2010 til 31. ágúst 2011 og aftur frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi vátryggingarskírteini voru Mótamenn ehf. vátryggingartaki en stefndi Guðmundur Már hið vátryggða. Í lýsingu tryggingar segir: „Starfsábyrgð byggingarstjóra.“ Um vátrygginguna giltu skilmálar félagsins númer SA-4, um starfsábyrgðartryggingu bygginarstjóra.

Stefnendur segja á verktímanum hafi stefnendur og byggingarstjóri orðið ásáttir um gera tvær smávægilegar breytingar á verkinu. Breytingarnar hafi falist í því veggur við bílastæði var færður beiðni stefnenda og breyting gerð á ruslatunnum, tillögu byggingarstjóra. Þá hafi stefnendur fallið frá tveim verkliðum, fleygun og niðurbroti á skorstein, fjárhæð 90.000 kr., þannig tilboðið hafi lækkað í 6.851.000 kr. Þegar farið hafi verið vinna verkið hafi komið í ljós viðbótarliðir, vegna breytinga á magntölum, fjárhæð 2.141.830 kr., og verðið fyrir verkið því numið samtals 8.992.830 kr. Af þeirri fjárhæð hafi stefnendur greitt 8.705.720 kr., og því séu einungis ógreiddar 287.110 kr. af heildarverkinu.

Stefndu Guðmundur Már og Mótamenn ehf. mótmæla því einu breytingarnar sem stefnendur fóru fram á hafi verið tvær smávægilegar breytingar. Í gegnum allt ferlið hafi stefnendur verið mikið inni í framkvæmdum og reglulega fundað um framvindu verksins og þær breytingar sem hafi þurft að gera. Verk hafi hafist um mánaðamótin maí/júní 2011 en fljótlega hafi þurft að breyta hæð á bílskúr þar sem í ljós hafi komið við jarðvinnu að lagnir lágu í áætlaðri hæð grunnplötu bílskúrs. Við þær breytingar hafi einnig þurft að breyta hæð á bílaplani fyrir sunnan bílskúr og á tröppum að norðanverðu. Þá hafi verið gerðar breytingar á handriði ofan á bílskúr samkvæmt teikningu, en upphaflegar teikningar hafi gert ráð fyrir að hluti handriðs væri úr gleri. Þá hafi hæð handriðs við uppsteypu jafnframt verið breytt frá teikningum í samráði við stefnendur. Lóðarteikningum hafi verið breytt og lóð lækkuð að sunnanverðu, aukaþrepi hafi verið bætt við steypta verönd að sunnanverðu, hæðarbreytingar gerðar á verönd undir tröppu vestan megin og þrepi bætt við fyrrgreinda tröppu. Umrædd breyting hafi verið gerð 29. ágúst 2011, sbr. lóðarteikningar sem stefnendur hafi sjálfar lagt fram í málinu. Þetta sé í samræmi við þær lóðarteikningar sem stefndi hafi fyrst fengið afhentar við tilboðsgerð og hafið vinnu eftir. Þá hafi stefnendur jafnframt beðið um að tröppur við steypta verönd á suðurhlið hússins yrðu framlengdar út að steyptum lóðarvegg vestan megin þar sem hæðarmismunur lóðar og verandar undir stiga vestan megin hafi verið óþarflega mikill. Enn fremur hafi verið gerðar breytingar á hæð og lögun stoðveggja eftir fyrirmælum stefnanda. Ætlunin hafi verið að hafa stoðveggi með þríkantlistum, en stefnendur hætt við það þegar búið hafi verið að steypa upp hluta af veggjum. Við lagningu bílaplans og stétta við austurhlið hafi fjölda niðurfalla í bílaplani verið fækkað úr tveimur í eitt og þegar framkvæmd hafi verið lokið hafi stefnendur farið fram á að hluti veggja, stiga og stétta yrði rifinn og staðsetningu breytt og endurbyggt. Við lagningu stéttar við norðurhlið hússins og niður með vesturhlið hafi verið ákveðið að hækka stéttina vegna hæðar aðliggjandi lóðar, í samráði við stefnendur og jarðvegsverktaka, vegna áhyggja af vatni sem gæti flætt af lóðinni fyrir ofan inn á stétt. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að breikka stétt fyrir vestan húsið þar sem útbyggðir gluggar á húsinu þrengdu að stéttinni eins og hún var teiknuð.

Stefndu Guðmundur Már og Mótamenn ehf. segja í greinargerð sinni að steypuvinnu hafi verið lokið um miðjan september en þá hafi verkið tafist talsvert, m.a. út af fyrrgreindum breytingum. Stefnendur hafi ætlað að láta ganga frá ytra byrði stoðveggja og bílskúrs með filtun/pússningu með sömu áferð og á húsi. Rætt hafi verið um að múrarameistari tæki að sér verkið og kostnaður vegna þess átt að vera 3.500 kr. á fermetra. Ljóst hafi verið að ekki væru forsendur fyrir því að fara í þessa vinnu fyrr en vorið 2012.

Stefnendur kveða að á verktímanum hafi fljótlega komið í ljós að verkið væri ekki unnið samkvæmt teikningum. Meðal annars hafi stefnendur séð að lokinni steypuvinnu að stétt norðan við húsið hafi verið steypt allt of hátt, tröppur á suðurhlið hafi verið misbreiðar, handrið ofan á bílskúr hafi verið of lágt og vatnshalli rangur á stéttum. Stefnendur hafi ítrekað reynt að fá stefnda Mótamenn ehf. og byggingarstjóra til að lagfæra gallana, en án árangurs. Stefnendur hafi farið fram á aðstoð verkfræði­stofunnar VERKÍS hf. við að taka út verkið og hafi niðurstaðan verið sú að veruleg frávik væru frá samþykktum teikningum á nokkrum stöðum, auk þess sem frágangur vegna annarra verkþátta væri ekki forsvaranlegur. Gerð hafi verið tilraun af hálfu VERKÍS til að leita sátta með stefndu Mótamönnum ehf. og byggingarstjóra, en þeirri málaleitan hafi verið hafnað. Þá hafi stefndi Vörður tryggingar hf. hafnað bótaskyldu.

Stefnendur létu dómkveðja matsmann, Björn Gústafsson bygginga­verkfræðing, og liggur fyrir matsgerð hans, dags. 12. febrúar 2013, þar sem kostnaður við úrbætur var metinn á 6.808.000 kr.

Með bréfi 4. mars 2013 gerðu stefnendur kröfu á hendur stefnda Verði tryggingum hf. í samræmi við matsgerðina. Hinn 8. maí 2013 bauð stefndi Vörður tryggingar hf. stefnendum svokallaðar samkomulagsbætur, að fjárhæð 1.912.000 kr., auk kostnaðar, samtals 2.456.992 kr. Með bréfi 28. maí 2013 tóku stefnendur við greiðslunni sem innborgun og áskildu sér rétt til að hafa uppi frekari kröfur vegna málsins. Stefndu hafa hafnað frekari greiðslum og hafa stefnendur því höfðað mál þetta.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu stefnandi Arndís og stefndi Guðmundur Már. Þá kom Björn Gústafsson matsmaður fyrir dóm og staðfesti fyrirliggjandi matsgerð. Einnig gáfu skýrslu vitnin Aðalheiður Kristjánsdóttir landslagsarkitekt og Guðlaugur Valgeirsson jarðvegsverktaki. Verður vísað til framburðar þeirra síðar eftir því sem ástæða er til.

II.

Í matsgerð dómkvadds matsmanns, Björns Gústafssonar byggingar­verkfræðings, dags. 12. febrúar 2013, svarar matsmaður neitandi þeirri matsspurningu hvort hið umsamda verk hafi verið unnið í samræmi við samþykktar teikningar og hvort verkinu væri að fullu lokið. Matsmaður fjallar um hvern matslið með eftirfarandi hætti.

1.        Bílskúr inni:

a) Endar á gólfhitalögnum komi upp utan við vegg kyndiklefa í bílskúr í stað þess að ganga inn í gegnum hann og inn í kyndiklefann, en allir ættu að vera sammála um að eðlilegt og sjálfsagt sé að þessar lagnir komi upp úr gólfi í kyndiklefanum þar sem þar eru þær tengdar við lagnagrindina. Þetta þurfi að leiðrétta með því að brjóta niður í gólf bílageymslunnar og undir vegginn milli skúrs og kyndiklefa, endurtengja og steypa yfir lagnir.

b) Þá telur matsmaður ólíklegt að vesturhlið bílskúrs hafi verið einangruð að utan þar sem þess sjást ekki merki undir tröppum sem liggja upp á skúrinn né heldur í botni gasskýlis við hlið þeirra. Einangra þurfi á þessa hlið að innan til þess að tryggt sé að hún verði einangruð.

c) Loft bílskúrs er pússað með örþunnri pússningu. Það þurfi að múra eina umferð neðan á loft bílskúrs því ljóst sé að sú þykkt sem talað sé um í verklýsingum við múrkerfi sé ekki til staðar.

d) Rakavarnarlag vanti undir gipsklæðningu á suðurgafli bílskúrs. Um rakavarnarlag sé fjallað í byggingarreglugerð nr. 441/1998, grein 181. Rakavarnarlag hafi þann tilgang að hindra rakaflæði frá innilofti út í einangrunarlagið og skuli vanda öll samskeyti á rakavarnarlaginu þannig að ekki verði loftleki frá innilofti út í vegginn sem geti valdið skaðlegri rakaþéttingu eða miklum loftraka inni í veggnum. Þessari rakavörn sé ekki hægt að ná nema með rakavarnarlagi þar sem gengið sé sérstaklega vandlega frá samskeytum og kverkfrágangi með límingu og listum.

e) Loftræsing bílskúrs sé ekki samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998, en þar segi að bílageymslur skuli loftræsa og gólf skuli steypt með vatnshalla að niðurfalli. Hins vegar sé ekki getið nánar um það hvernig það skuli gert. Ef ekki er um opnanlegan glugga að ræða þarf að koma fyrir loftopum sem er þá gert með einu opi inn og öðru út þannig að gegnumöndun sé til staðar. Koma þurfi fyrir einu loftræsiopi neðarlega á innaksturshurð og öðru ofarlega á vesturhlið. Stærð opa verði að lágmarki 125 mm að þvermáli. Ganga eigi frá opum með tilheyrandi ristum.

2. Bílskúr utanhúss:

a) Pollar sitji á þaki bílskúrs. Samkvæmt mælingu sé halli á bílskúrsþaki um 10‰, en það sé of lítill halli til að þakið afvatni sig örugglega. Það þýði að pollamyndum verði, sem frjósi síðan og skemmi plötuna. Samkvæmt aðalteikningum arkitekta eigi halli á þaki að vera frá 8,82 niður í 8,74 eða 80 mm, en hins vegar sé hallinn samkvæmt mælingunni frá 8,96 niður í 8,87 eða 90 mm. Samkvæmt því sé raunhalli í góðu samræmi við það sem um hafi verið beðið þó svo að hann sé of lítill að mati matsmanns. Þar sem platan reynist vera með halla eins og teikning geri ráð fyrir sé ekki reiknað með neinum kostnaði í þessum lið í kostnaðarmati.

b) Eftir eigi að ganga frá einangrun utan á bílskúr, einangra þar veggi minnst 50 cm upp fyrir loftplötu hans til að koma í veg fyrir kuldabrú. Samkvæmt mælingu matsmanns sé hæð útveggja á bilinu 670 til 730 mm upp fyrir efri brún loftplötu, en einangrun utan á veggjum hans nái upp að efri brún loftplötunnar. Á bílskúr utanhúss vanti 270 til 330 mm upp á að hæð útveggja bílskúrs sé í samræmi við teikningar. Eðlilegasta lausnin á einangruninni sé að hún nái upp alla vegghæðina frekar en að búa til stall ofan á einangrun ca. 0,5 til 1,0 m frá efstu brún veggjar sem myndi þýða að útlit veggjanna breytist en þeir eiga að vera í sama plani samkvæmt teikningum arkitekts. Hæð á einangrun sé tekin frá því sem hún endar núna og upp á brún handriðs eftir hækkun þess.

c) Eftir sé að pússa utan á einangrun. Enginn ágreiningur sé um að þessi verkliður sé eftir. Kostnaður við að múrhúða yfir einangrun verði metinn í kostnaðarmati.

d) Nauðsyn sé að múra a.m.k. 20 cm niður fyrir yfirborð næst bílskúr. Til að ekki sé hætta á að einangrun sjáist upp fyrir jarðvegsyfirborð sé nauðsynlegt að múra yfir einangrun niður fyrir jarðvegsyfirborð og hafi sú venja skapast að miða við u.þ.b. 200 mm.

e) Eftir sé að ganga frá yfirborði á útveggjum bílskúrs. Það eigi eftir að ganga frá yfirborði þessara veggja eins og allra stoðveggja á lóðinni og sé þá átt við bæði hliðar veggja og ofan á veggjum. Um þetta sé enginn ágreiningur milli matsbeiðanda og matsþola.

f) Gat sé undir tröppum sem liggja upp á bílskúrsþak. Samkvæmt arkitektateikningum hafi átt að vera veggur sunnan við tröppurnar upp á bílskúr, en þessi veggur sé ekki til staðar og þess vegna sé opið undir tröppurnar. Steypa skuli þennan vegg við hlið trappanna til að loka gatinu undir þær.

g) Yfirborð trappa á stiga sem liggi upp á bílskúrsþak sé ófrágengið. Enginn ágreiningur sé um að þessi verkliður sé eftir.

h) Handrið ofan á bílskúr sé allt of lágt. Samkvæmt mælingu matsmanns á staðnum sé hæð útveggja bílageymslu á bilinu 670 til 730 mm upp fyrir efri brún loftplötu. Samkvæmt teikningu arkitekts eigi þessi hæð að vera 1.000 mm, en það sé sú hæð sem þurfi að uppfylla samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998. Það þurfi að hækka þessa veggi þannig að þeir verði í samræmi við teikningar arkitekts og kröfur byggingarreglugerðar og eðlilegt að gera það með því að steypa ofan á vegginn. Bora þurfi ofan í vegginn sem fyrir er og líma niður tengiteina. Einnig þurfi að bæta við einni nýrri tröppu upp á bílskúrinn þar sem stéttin norðan hússins verði lækkuð samkvæmt því sem fram kemur í næsta lið.

3. Stétt að inngangi á norðurhlið ásamt vesturhlið

a) Nýr lóðarveggur norðan við steypta aðkomu að bakinngangi hússins sé ófrágenginn. Eftir eigi að laga misþykkt á veggnum. Einnig eigi eftir að gera við og ganga frá yfirborði steypta veggjarins. Laga þurfi yfirborð veggja, bæði hliðar og eins ofan á veggjum. Þegar veggir voru steyptir upp hafi víða verið settir þríhyrningslistar á veggbrúnir en þó alls ekki alls staðar. Á lóðarteikningu landslagsarkitekts, þar sem gerð sé grein fyrir þessum veggjum, sé ekki minnst á að taka skuli þessa 45° skáa efst á veggi. Þess vegna telur matsmaður að í frágangi veggja skuli þessi skái tekinn af og horn veggja gerð hvöss.

b) Eina tröppu vanti framan við bakinngang hússins að norðanverðu þar sem stétt norðan við húsið sé steypt um 14 cm hærri en teikningar geri ráð fyrir. Útivatnskranar sem komi út úr norðurhliðinni liggi því niður stéttaryfirborðið í stað þess að vera 20 cm ofan við planið. Einnig hafi verið steypt fyrir um 1/3 hluta af viftugati og það átt að vera 10 cm ofan við stéttina. Samkvæmt teikningu eigi að vera þrjár tröppur að bakinngangi á norðurhlið hússins, en þær séu tvær. Samkvæmt hönnun landslagsarkitekts átti kvóti neðan neðstu tröppu að vera 7,88, en mælist 8,00, eða 120 mm ofar en samkvæmt teikningu. Það sé ekki hægt að laga þetta nema með því að brjóta stéttina og fjarlægja, taka ofan af fyllingu og endurþjappa, steypa síðan nýja stétt og saga síðan í hana sprunguraufar, eins og áformað hafi verið og teikning landslagsarkitekts sýni. Tröppunni sem vanti við bakinngang verði þá bætt við og einni viðbótartröppu upp á bílskúrinn.

c) Göt séu sitt hvorum megin undir tröppum við inngang að norðanverðu. Í samkomulagi um verkkaup segi: „Steyptar tröppur norðan megin frá dyrum.“ Á teikningu landslagsarkitekts sé sýnd stétt alveg upp að húsi og hefði þess vegna verið eðlilegt að mati matsmanns að loka alveg undir tröppurnar sitt hvorum megin. Þessum götum skuli loka með múr og falli frágangur á lokun gata að aðliggjandi flötum.

d) Gaslagnir sem liggja frá eldhúsi hafi átt að vera fræstar inn í húsvegginn og liggja síðan undir stéttinni í gaskút þannig að þær sæjust ekki, en standi nú 3 cm frá húsinu ofan í stétt þ.e. þær standi út úr vegg og niður í stétt. Það eigi eftir að ganga frá og fræsa lögn inn í vegginn og ganga frá sárinu. Búið sé að fræsa í vegginn sem nemi þvermáli slöngunnar, en eftir sé að fræsa um 20 mm lengra inn í vegginn og niður í stéttina þannig að hægt sé að ganga frá sárinu utan við slönguna þegar henni hafi verið komið fyrir og hún fest tryggilega í rásarbotninn. Matsmaður leggur til að stéttin verði brotin og fjarlægð og ný steypt í réttri hæð. Það þýðir nýja gaslögn úr eldhúsi og út í gasskáp við hlið bílskúrs. Matsmaður telur að þarna hafi verið farið frá verki í miðjum klíðum. Í kostnaðarmati sé metinn kostnaður við að ganga frá nýrri gasslöngu frá eldhúsi og út í gasskáp.

e) Niðurföll frá þaki séu ófrágengin. Það eigi eftir að tengja niðurfallsrör við þakrennu á aðalþaki hússins. Matsmaður telur að ganga skuli frá niðurfallsröri frá þakrennu og niður í niðurfallsstút í samræmi við mat VERKÍS.

f) Tvö niðurföll sem setja átti í steyptu stéttina vanti. Vatn flæði því frá bílskúrsþakinu í dag og öllu svæðinu norðan við húsið og út í götu. Hafi matsþoli ekkert séð hvar þessi niðurföll ættu að vera er eðlilegt að hann hefði rætt það við matsbeiðanda. Matsmaður telur að koma eigi fyrir tveimur niðurföllum í stéttina norðan hússins.

g) Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) norðan hússins í samræmi við teikningu af lóð, en þar komi fram hvert munstrið eigi að vera. Þegar séu komnar sprungur í stéttirnar. Matsmaður leggur til að stéttin norðan hússins verði brotin upp og steypt neðar með minni halla, raufarnar verði þá gerðar í þá nýju stétt, en sögun sprunguraufa í stéttina norðan hússins verði metin undir þessum lið.

4. Steypt stétt og girðing vestan við húsið

a) Mjög mikill hliðarhalli sé á steyptu stéttinni vestan við húsið, sbr. hér að ofan vegna vöntunar á tröppu. Á stéttinni þarna sé mikill hliðarhalli sem sé sá sami og langhalli stéttarinnar norðan við húsið þar sem þær mætast við norðvesturhorn hússins.  Samkvæmt mælingu á staðnum komi í ljós að þverhalli á stéttinni vestan við húsið sé um 60‰, eða 60 mm á hvern metra. Þetta sé mjög mikill halli á stétt upp við hús og meiri en forsvaranlegt er. Neðan trappanna vestan við húsið sé langhalli rúmlega 50‰. Af þessum sökum þurfi að brjóta þessa stétt upp bæði ofan og neðan trappa, alveg frá húshorni og niður að garði. Þjappa skuli undir nýja stétt í samræmi við teikningar og með halla í samræmi við nauðsynlegan afrennslishalla, og steypa síðan nýja stétt. Þarna sé átt við stéttir bæði ofan og neðan trappa.

b) Eftir eigi að gera við og ganga frá yfirborði steypta veggjarins, eins og á öðrum veggjum, ofan og á báðum hliðum.

c) Einnig eigi eftir að ganga frá malbiki næst girðingunni en á stéttinni vestan við vesturvegginn sé sár. Samkvæmt mælingu á staðnum þurfi að brjóta þarna upp um 200 mm ræmu meðfram veggnum og malbika í sárið til að útlitið verði sem næst því sama og á stéttinni.

d) Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun), sbr. teikningu. Á lóðarteikningu arkitekts séu sýndar sögunarlínur í stéttina vestan húss norðan við tröppur, en sögun hafi ekki farið fram.

5. Verönd á suðurhlið húss og tröppur milli svala og garðs.

a) Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun), sbr. teikningu.

b) Vatnspollar myndist á yfirborði verandar, t.d. nálægt inngangi. Það sjáist á stéttinni að á henni myndist staðbundnir pollar, sá stærsti nálægt inngangi. Samkvæmt mælingu sem matsmaður framkvæmdi með 1,8 m löngu hallamáli sé hvilft í veröndinni framan hurða úr stofu. Samkvæmt teikningu hafi átt að vera 50 mm halli frá hurð út úr stofu og fram á verandarbrún eða um 12‰ halli. Samkvæmt hallamælingu sé veröndin lárétt, þ.e. enginn halli á henni. Matsmaður telur að ekki sé um annað að ræða en brjóta upp alla veröndina til að búa til 12‰ halla eins og teikning landslagsarkitekts sýni, þar sem alveg hallalaus stétt bjóði upp á að frjósi á henni pollar og sprengi út frá sér. Þá þurfi að járnbinda saman verönd og tröppur til að koma í veg fyrir að tröppur losni frá veröndinni og gap myndist milli efri tröppu og neðri brúnar verandar. Ekki sé hægt að laga þessa stétt með því að brjóta ofan af henni þar sem hún sé svo þunn að næg þykkt fengist ekki við tröppur auk þess sem laga þurfi í leiðinni tengingu við tröppur og frágang við neðstu tröppu niður í jörð svo að ekki sjáist undir neðstu tröppu.

c) Stærðar malarrauf sé milli efstu tröppu og neðri brúnar á verönd. Svo sé að sjá sem tröppur séu ekki tengdar veröndinni, þar sem umrædd malarrauf sé milli efri tröppu og verandar. Auk þess séu tröppur undnar. Ekki sé annar kostur í stöðunni en að brjóta þessar tröppur niður og fjarlægja steypubrotin. Síðan þurfi að ganga úr skugga um að þjöppuð fylling sér undir tröppum og endurgera þær þar og járnbenda þær saman við veröndina sem endurgera þurfi eins og fram kemur í næsta lið hér að framan. Niðurstaða matsmanns er að brjóta þurfi tröppur og fjarlægja brotin og endurgera í samfellu við veröndina sem líka þurfi að endurgera.

d) Tröppur milli verandar og grasflatar séu misbreiðar og virðist auk þess ganga í öldum. Samkvæmt mælingu sé uppstig frá efri tröppu upp á verönd 135 til 150 mm og frá neðri tröppu upp á efri tröppu 110 til 135 mm og breiddin líka rokkandi. Með berum augum sjáist að tröppur gangi í bylgjum. Brjóta þurfi tröppur niður og fjarlægja brotin og endurgera í samfellu við veröndina sem líka þarf að endurgera.

e) Veruleg hækkun sé á neðri tröppu vestast við lóðamörk. Neðri trappan gangi umtalsvert upp í vesturendann við lóðamarkavegginn. Þarna hafi bara átt að vera eitt uppstig frá garði og upp á stéttina þannig að tveimur tröppum sé ofaukið frá vegg við verönd að vegg á vesturlóðarmörkum. Hins vegar hafi átt að vera níu uppstig í tröppunum vestan hússins en í raun séu þau bara sex og of mikill halli sé á stéttinni þarna á milli. Það er niðurstaða matsmanns að brjóta skuli þessar tröppur upp og endurgera stéttina, en á henni eigi að vera um 30‰ halli og þá þurfi að bæta þrem tröppum við þessar sex sem fyrir eru vestan við húsið.

f) Víða séu stórar rifur undir neðstu tröppuna að framanverðu. Enginn kantur hafi verið steyptur undir neðri tröppuna að framan og sé hún sums staðar á lofti, þ.e. opið undir hana. Þessar tröppur verði að endurgera, steypa þurfi kant undir neðri tröppuna þannig að alveg verði lokað undir hana.

g) Þökur hafi verið lagðar þétt að steyptum veggjum og tröppu í stað þess að setja helluröð eða U-stál til að auðvelda slátt á lóð. Á teikningu landslagsarkitekts standi: „U-stál meðfram grassvæði og steyptum vegg á lóðarmörkum 21m eða þrifahella 20x20x6.“ Ekki sé tekið fram að þetta gildi líka um tröppur, en líklegt sé að það sé hugsunin. Matsmaður telur að annaðhvort skuli koma fyrir U-stáli eða hellum 20x20x6 til samræmis við teikningu af grunnmynd lóðar. Eðlilegt sé að svona frágangur sé líka við tröppur, en það sé þá viðbótarverk þar sem hönnuður hafi ekki gert ráð fyrir því.

6. Veggur meðfram suðurlóðarmörkum.

a) Eftir eigi að ganga frá yfirborði veggjar með suðurlóðarmörkum, þ.e. múrverki veggjar með tilheyrandi lagfæringum. Ganga þurfi frá yfirborði veggjarins að ofan og á báðum hliðum.

b) Eftir eigi að laga malbik gangstéttar utan við vegginn. Eftir að veggur var steyptur hafi ekki verið gengið frá malbiki við vegginn götumegin. Enn sé eftir að ganga frá sárinu á stéttinni sunnan við vesturvegginn. Samkvæmt mælingu á staðnum þurfi að brjóta þarna upp um 400 mm ræmu meðfram veggnum og malbika í sárið til að útlitið verði sem næst því sama og á götunni. Hreinsa skuli burt steypuhröngl og klepra meðfram veggnum, þjappa undir nýtt malbik og malbika í sárið þannig að útlit verði sem líkast aðliggjandi götumalbiki.

c) Eftir eigi að helluleggja eða setja U-stál með vegg milli veggjar og grasflatar. Teikning landslagsarkitekts geri ráð fyrir skilum milli veggjar og grass meðfram vegg á suðurlóðarmörkum að væntanlegri timburverönd. Koma eigi fyrir við vegg U-stáli eða steyptum hellum 20x20x6cm.

7. Innkeyrsla.

a) Eftir eigi að ganga frá yfirborði veggja sem eru til hliðar við innkeyrslu, þ.e. lagfæringar undir múrverk og múrverkið sjálft sé eftir á þessum veggjum. Saga þurfi fyrir og ganga frá innfelldum rafmagnsrörum, brjóta misfellur af veggjum, steypa í göt og hreiður og múra síðan vegginn. Í leiðinni skuli fylla í 45° úrtök efst á veggjum og slétta að ofan.

b) Eftir eigi að ganga frá köntum á upphækkaðri stétt framan við inngang. Kantur sé hrjúfur og götóttur og það eigi eftir að hreinsa hann, holufylla og múra yfir. Ganga skuli frá köntum upphækkaðrar stéttar við inngang.

c) Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) í samræmi við teikningu landslagsarkitekts.

8. Annað.

a) Pollar myndist á stétt framan við aðalinngang. Að sögn matsbeiðanda afvatni stéttin framan aðalinngangs sig ekki, þ.e. pollar myndist á henni. Samkvæmt mælingu sé nánast enginn þverhalli á þessari stétt en langhalli 3,5‰. Miðað sé við að halli á steyptum gangstéttum skuli vera 25-30‰, en hins vegar miði hönnuður þessarar lóðar við 12‰ halla á steyptri verönd sunnan hússins. Matsmaður miði við sama halla á stétt framan aðalinngangs. Þessu megi ná með því brjóta t.d. 60 mm ofan af stéttinni og forma síða á hana 40 mm langhalla eða 12‰ með viðgerðarmúr.

b) Eftir eigi að ljúka við að leggja raflagnir og dósir fyrir lýsingu sem eigi að vera inni í steyptum veggjum. Á tveimur stöðum á lóðarteikningu séu veggir sem eigi að vera með innfelldri lýsingu og samkomulag um verkkaup taki til dósa og lagna fyrir lýsingu í veggi. Þá sé í tilboði verktaka liðurinn „saga í vegg í lengdarmetrum“. Í samræmi við þetta skuli ljúka við að saga rásir fyrir raflagnir og múra þær inn í veggi. Niðurstaða matsmanns er að ljúka skuli við gerð rása fyrir raflagnir og úrtök fyrir dósir og múra yfir þannig að veggirnir verði tilbúnir fyrir múrverk.

c) Ruslatunnueiningu vanti norðan megin við húsið. Á teikningu sé sýnt að sorp skuli vera í horni milli húss og bílskúrs norðan við húsið, en ákveðið hafi verið að staðsetja það í norðvesturhorni lóðar og færa veggstubbinn sem þar er sýndur á norðurlóðarmörkunum til að koma því fyrir. Það er niðurstaða matsmanns að svokölluðu „ruslajúniti“ skuli koma fyrir samkvæmt samkomulagi. Í kostnaðarmati áætli matsmaður verð á dæmigerðri ruslatunnueiningu, sem rúmar tvær tunnur.

d) U-stál eða hellur vantar alls staðar meðfram grasi og veggjum og tröppum. Eins og fram hafi komið hafi gras hvergi verið slitið frá steyptum veggjum eða tröppum, en þessum verklið séu gerð skil annars staðar.

e) Eftir eigi að ganga frá viftum á austur- og norðurhlið. Um sé að ræða eina loftrás ofan við bílskúr og eina á norðurhlið, en við hana sé vifta sem standi á stéttinni fyrir utan vegna þess að nýja stéttin hafi verið steypt ofar en hún átti að vera, þannig að ekki sé hægt lengur að hengja viftuna á vegginn eins og hún var áður. Það eigi eftir að koma fyrir rist á loftrásina ofan við bílskúrinn. Þegar stétt norðan hússins hafi verið endurgerð skuli hengja viftuna á vegginn yfir viftugatinu og einnig skuli setja rist yfir loftræsiopið ofan bílskúrs.

f) Mikið sé eftir í viðgerð á veggjum áður en að pússningu kemur. Það eigi eftir að undirbúa alla veggi undir múrverk með því að laga steypuhreiður, jafna misbrúnir, fjarlægja tengijárn, tréflísar, nagla og fleira.

Matsmaður metur kostnað við úrbætur eins og fram kemur í töflu hér á eftir. Metinn kostnaður innifelur allan kostnað verktaka við að vinna viðkomandi verklið og innifelur virðisaukaskatt. Miðað er við að verkið sé unnið í einum áfanga og sé unnið af faglærðum mönnum með aðstoðarmönnum. Tekið er tillit til umfangs verkliða og aðstæðna á verkstað. Metinn kostnaður er á verðlagi í samræmi við dagsetningu matsgerðar.

 

@ efni, tækjaleiga

@ vinna

Upphæð

Matsliður 3- Kostnaðarmat

 

 

 

Bílskúr inni

 

 

 

Endar á gólfhitalögnum koma upp utan við kyndiklefa

24.000

37.000

61.000

Hluti af vesturhlið bílskúrs er óeinangruð

34.000

49.000

83.000

Loft bílskúrs er pússað með örþunnri pússningu

37.000

78.000

115.000

Rakavarnarlag vantar undir gipsklæðningu á suðurg. bílskúrs

8.000

11.000

19.000

Loftræsing bílskúrs er ekki samkvæmt byggingarreglugerð

15.000

22.000

37.000

 

118.000

197.000

315.000

Bílskúr utanhúss

 

 

 

Pollar sitja á þaki bílskúrs  -  Ekki metinn kostnaður í þessum lið

 

 

 

Eftir er að ganga frá einangrun utan á bílskúr

54.000

42.000

96.000

Eftir er að pússa utan á einangrun

30.000

107.000

137.000

Nauðsyn er að múra a.m.k. 20 cm niður f. jarðvegsyfirborð

Með

fyrir

ofan

Eftir er að ganga frá yfirborði á útveggjum bílskúrs

25.000

87.000

112.000

Múrfrágangur innan á handrið og framan á handrið á skúr

31.000

110.000

141.000

Gat er undir tröppum sem liggja upp á bílskúrsþak

11.000

46.000

57.000

Yfirborð trappa sem liggja upp á bílskúrsþak er ófrágengið

9.000

16.000

25.000

Handrið ofan á bílskúr allt of lágt

95.000

75.000

170.000

Ein ný trappa upp á bílskúr

8.000

16.000

24.000

 

263.000

499.000

762.000

Stétt að inngangi á norðurhlið ásamt vesturhlið

 

 

Nýr lóðarveggur norðan við steypta aðkomu að bakinngangi er ófrágenginn

26.000

93.000

119.000

Frágangur lóðarveggs að ofan

3.000

58.000

61.000

Eina tröppu vantar framan við bakinngang að norðanverðu

12.000

12.000

24.000

Göt eru sitt hvorum megin undir tröppum við inngang,

að norðan

4.000

6.000

10.000

Gaslagnir frá eldhúsi

29.000

24.000

53.000

Niðurföll frá þaki eru ófrágengin

36.000

17.000

53.000

Tvö niðurföll sem setja átti í steyptu stéttina vantar

9.000

153.000

162.000

Eftir er að saga sprunguraufar í stétt

63.000

148.000

211.000

Brot á stétt og brottflutningur steypubrota

106.000

110.000

216.000

Skafa ofan af fyllingu og þjappa undir stétt

84.000

19.000

103.000

Steypt ný stétt í samræmi við teikningar

418.000

124.000

542.000

 

790.000

764.000

1.554.000

Steypt stétt og girðing vestan við húsið

 

 

 

Frágangur lóðarveggs að ofan

6.000

108.000

114.000

Eftir er að gera við og ganga frá yfirborði steypta veggjarins

93.000

330.000

423.000

Einnig er eftir að ganga frá malbiki á stétt næst girðingunni

25.000

27.000

52.000

Eftir er að saga sprunguraufar í stétt(fúgusögun) sbr. teikningu

16.000

37.000

53.000

Brot á stétt og brottflutningur steypubrota

90.000

93.000

183.000

Lagfæra fyllingu og þjappa undir stétt

71.000

16.000

87.000

Steypt ný stétt í samræmi við teikningar

354.000

105.000

459.000

Þrjár tröppur vantar vestan við húsið

37.000

36.000

73.000

Fleygun ofan af klöpp neðan trappa

32.000

23.000

55.000

 

724.000

775.000

1.499.000

 

 

 

 

Verönd á suðurh. húss og tröppur milli svala og garðs

 

 

 

Eftir er að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) sbr. teikningu

48.000

113.000

161.000

Vatnspollar myndast á yfirb. verandar t.d. nálægt inngangi

Endurgerð

 sjá hér að

neðan

Stærðar malarrauf er milli efstu tröppu og neðribrúnar á verönd

Endurgerð

 sjá hér að

neðan

Tröppur milli grasflatar og verandar eru misbreiðar

Endurgerðar

 sjá hér að

neðan

Veruleg hækkun er að neðstu tröppu vestast við lóðamörk

Endurgert

 sjá hér að

neðan

Víða eru stórar rifur undir neðstu tröppuna að framanverðu

Endurgerðar

 sjá hér að

neðan

Þökur eru lagðar þétt að steyptum veggjum og tröppu í stað þess að setja helluröð/U stál til að auðvelda slátt á lóð o.fl.

42.000

62.000

104.000

Brot á stétt og tröppum/brottflutningur steypubrota

73.000

75.000

148.000

Lagfæra fyllingu og þjappa undir stétt

58.000

13.000

71.000

Steypt ný stétt í samræmi við teikningar

252.000

75.000

327.000

Steyptar nýjar tröppur

70.000

68.000

138.000

 

543.000

406.000

949.000

 

 

 

 

Veggur meðfram suðurlóðarmörkum

 

 

 

Eftir er að ganga frá yfirborði veggjar að suðurlóðarmörkum

65.000

229.000

294.000

Frágangur lóðarveggs að ofan

41.000

85.000

126.000

Eftir er að laga malbik gangstéttar við vegginn

33.000

36.000

69.000

Eftir er að helluleggja/U-stál með vegg milli veggjar og grass

Þessi liður

er með  í  ver-

önd á suðurhlið

 

139.000

350.000

489.000

Innkeyrsla

 

 

 

Eftir er að ganga frá yfirborði veggja sem eru til hliðar við innkeyrslu

79.000

281.000

360.000

Eftir er að ganga frá köntum á upphækkaðri stétt framan við inngang

13.000

27.000

40.000

Eftir er að saga sprungur í stétt (fúgusögun) sbr. teikningu

105.000

246.000

351.000

 

197.000

554.000

751.000

Annað

 

 

 

Pollar myndast á stétt framan við aðalinngang

49.000

42.000

91.000

Eftir er að ljúka við að leggja raflagnir og dósir fyrir lýsingu sem eiga að vera inni í steyptum veggjum

23.000

38.000

61.000

Ruslatunnueiningu vantar norðan megin við húsið

220.000

72.000

292.000

U-stál/hellur vantar alls staðar meðfram grasi og veggjum og tröppum

Þessi liður

er tekinn með

verönd á suðurhl.

Eftir er að gagna frá viftum á austur- og norðurhlið

15.000

30.000

45.000

Mikið er eftir í viðgerð á veggjum áður en að pússningu kemur

Tekið með í

hverjum lið

 

 

307.000

182.000

489.000

 

 

 

 

Heildarmat                                Samtals kr.

3.081.000

3.727.000

6.808.000

Þá fjallar matsmaður í matsgerðinni um þá matsspurningu hvort byggingarstjóri, sem jafnframt er húsasmíðameistari að verkinu, hafi mátt gera sér grein fyrir þeim frávikum sem á umræddum verkliðum væri að finna. Matsmaður segir að með því að bera saman mannvirkin eins og þau hafi verið á staðnum og teikningu landslagsarkitekts sjáist strax að tröppur bæði vestan og norðan hússins séu færri en teikning sýni og einnig eigi að vera eitt uppstig upp á stéttina úr garðinum vestan hússins en þau séu í raun þrjú. Mjög óeðlilegt sé að hafa vatnskrana alveg niður í stéttinni, auk þess sem loftræsigat sé komið að hálfu leyti niður í stéttina þannig að vifta sem þar var komist ekki fyrir lengur, auk lekahættu sem því fylgi. Halli á stéttum séu með þeim hætti að allir sjái að það sé ekki eðlilegt. Ef byggingarstjórinn hefði síðan mælt hæðarpunkta á nokkrum stöðum hefði hann séð að ekki hafi verið farið eftir teikningu með hæðarsetningu. Matsmaður telur að byggingarstjórinn/húsasmíða­meistarinn hefði mátt gera sér grein fyrir að ekki hafi verið farið eftir teikningu með hæðarsetningar sem hafi leitt af sér annmarka sem sjáist greinilega.

Að lokum tekur matsmaður fram að kostnaðarmat hans sé fyrir efni og vinnu með virðisaukaskatti, 6.808.000 kr., eða 5.424.701 kr. án/VSK. Efnisliðurinn nemi 3.081.000 kr. m/VSK, eða 2.454.980 kr. án/VSK og vinnuliðurinn nemi 3.727.000 kr. m/VSK eða 2.969.721 kr. án VSK.

III.

Stefnendur byggja á því að samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð dómkvadds matsmanns sé staðfest að verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við samþykktar teikningar. Stefndi Guðmundur Már sem byggingarstjóri fasteignarinnar beri skaðabótaábyrgð samkvæmt 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998, grein 32.2, sbr. reglugerð nr. 112/2012.

Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð dómkvadds matsmanns sé staðfest að verulegir ágallar hafi komið í ljós á verkinu sem rekja megi til stórfelldrar vanrækslu á verksmíði einstakra iðnmeistara eða hönnuða. Beri stefndu Mótamenn ehf. og stefndi Guðmundur Már sem húsasmíðameistari ábyrgð á þeim ágöllum og byggingarstjóri, stefndi Guðmundur Már, beri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda verksins, samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga nr. 160/2010, enda hefðu ágallarnir ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit. Þetta sé staðfest í matsgerð dómkvadds matsmanns, en á bls. 25 í matsgerð komi fram að matsmaður telji að byggingarstjórinn/húsasmíða­meistarinn hefði mátt gera sér grein fyrir því að ekki hafi verið farið eftir teikningu með hæðarsetningar sem hafi leitt af sér annmarka sem sjáist greinilega á staðnum.

Stefndu Mótamenn ehf. og Guðmundur Már sem húsasmíðameistari beri ábyrgð á faglegri framkvæmd einstakra verkþátta. Fagleg ábyrgð sé byggð á 2. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978 og byggingarreglugerð nr. 441/1998, 118. gr. Stefndi Guðmundur Már beri sömuleiðis ábyrgð sem byggingarstjóri á faglegri framkvæmd verksins, þar sem hann hafi bæði verið húsasmíðameistari og byggingarstjóri verksins og geti því ekki skotið sér undan skyldum byggingarstjóra, verandi einnig með faglega ábyrgð verksins sem húsasmíðameistari. 

Stefnda Verði tryggingum hf. sé stefnt á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, en stefndi Guðmundur Már hafi verið með gilda ábyrgðartryggingu hjá félaginu þegar tjónið varð. Hafi félagið nú þegar viðurkennt tjón stefnenda að hluta. Samkvæmt fyrirliggjandi vátryggingarskilmálum, grein 2.2, sé stefndi Guðmundur Már vátryggður gegn bótaskyldu er fellur á vátryggðan sem byggingarstjóra þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártjóni vegna vanrækslu byggingarstjóra á skyldum sínum samkvæmt 29. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Engar frekari takmarkanir séu á bótasviðinu, að undanskildum áhættum í 3. gr. skilmála félagsins. Ábyrgð félagsins hvíli því alfarið á 29. gr. laga nr. 160/2010.  Bótaskylda samkvæmt 29. gr. laga nr. 160/2010 felist í því að byggingarstjóri skuli hafa virkt eftirlit með því að þeir sem koma að byggingu mannvirkis fylgi samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga nr. 160/2010.  Þessu eftirliti hafi byggingarstjóri verksins, stefndi Guðmundur Már, ekki sinnt og látið verkið halda áfram þrátt fyrir að honum hafi ekki dulist að ekki væri byggt í samræmi við fyrirliggjandi teikningar. Þá beri byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllum verksins, enda hefðu ágallar þessir ekki átt að dyljast byggingarstjóra.  Í matsgerð komi fram að matsmaður hafi framkvæmt hæðarmælingar á stétt, tröppum, bílskúrsþaki o.fl. og veruleg frávik hafi verið í mælingum frá fyrirliggjandi teikningum. Þá taki matsmaður fram í matsgerð að ef byggingarstjóri hefði mælt hæðarpunkta á nokkrum stöðum hefði hann séð að ekki hafi verið farið eftir teikningu með hæðarsetningu.  Byggingarstjóri hefði þannig mátt gera sér grein fyrir því að ekki hafi verið farið eftir teikningu með hæðarsetningar sem leitt hafi af sér annmarka sem sjáist greinilega á staðnum. 

Stefnendur vísa að öðru leyti til þess að í dómaframkvæmd hafi verið staðfest að bótaábyrgð byggingarstjóra liggi ekki einvörðungu í því að sjá til þess að byggt sé í samræmi við fyrirliggjandi uppdrætti, lög og reglugerðir, heldur beri byggingarstjóra einnig skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingaframkvæmdum sem hann stýrir, þ. á m. að iðnmeistarar sem koma að verki fyrir hans atbeina sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega fullnægjandi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 239/2012, og þá dóma sem þar sé vísað til.

Allt ofangreint leiði til þess að stefndu beri bótaábyrgð á göllum verksins sem staðfestir hafa verið í fyrirliggjandi matsgerð dómkvadds matsmanns. Stefndu sé stefnt in solidum á grundvelli samaðildar, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991, og sömuleiðis samlagsaðildar, sbr. 19. gr. sömu laga, enda eigi dómkröfur rætur að rekja til sama atviks.    

Um sundurliðun á tjóni sínu vísa stefnendur til fyrirliggjandi matsgerðar. Krafan sundurliðist þannig:

1. Bílskúr innanhúss: Endar á gólfhitalögnum komi upp utan við vegg kyndiklefa í bílskúr í stað þess að ganga inn í gegn um hann og inn í kyndiklefann. Hluti af vesturhlið bílskúrs sé óeinangraður. Loftið í bílskúrnum sé pússað með örþunnri pússningu, sem geri það að verkum að ekki sé hægt að hengja upp ýmis tól og tæki, s.s. hjól og annað og setja upp bílskúrðshurðaropnara. Þá vanti rakavarnarlag undir gifsklæðningu á suðurgafli bílskúrs. Þá sé loftræsting bílskúrs ekki samkvæmt byggingarreglugerð. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 315.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

2. Bílskúr utanhúss: Pollar sitji á þaki bílskúrs. Eftir eigi að ganga frá einangrun utan á bílskúr. Einangra þurfi veggi minnst 50 cm upp fyrir loftplötu til að koma í veg fyrir kuldabrú. Eftir eigi að pússa utan á einangrun. Nauðsynlegt sé að múra a.m.k. 20 cm niður fyrir yfirborð næst bílskúr í samræmi við teikningu. Eftir eigi að ganga frá yfirborði á útveggjum bílskúrs, en öll múrvinna á yfirborði útveggja sé eftir. Gat sé undir tröppum sem liggi upp á bílskúrsþak, en samkvæmt teikningu arkitekts sé sýndur kantur sem loki fyrir op undir tröppur á bílskúr. Yfirborð trappa á stiga sem liggi upp á bílskúrsþak sé ófrágengið, en þrepin séu óslétt og mótin á framhlið þrepanna hafi gengið niður í þrepin. Handrið ofan á bílskúr sé of lágt, eða 60-70 cm á hæð en eigi að vera 1 m samkvæmt teikningu arkitekts. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 762.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

3. Stétt að inngangi á norðurhlið ásamt vesturhlið: Nýr lóðarveggur norðan við steypta aðkomu að bakinngangi hússins sé ófrágenginn, en eftir sé að laga misþykkt á vegg, höggva burt steypuhreiður, jafna út misbrýningu á steypuskilum, fjarlægja tengijárn, nagla o.fl. Eina tröppu vanti framan við bakinngang hússins að norðanverðu, þar sem stétt norðan við húsið sé steypt um 14 cm hærri en teikningar geri ráð fyrir. Útivatnskranar sem komi út úr norðurhliðinni liggi því niður stéttar­yfirborðið í stað þess að vera 20 cm ofan við planið. Einnig sé steypt fyrir um 1/3 hluta af viftugati á veggnum en það hafi átt að vera 10 cm ofan við stéttina. Göt séu sitt hvorum megin undir tröppum við inngang að norðanverðu. Gaslagnir sem liggi frá eldhúsi hafi átt að vera fræstar inn í húsvegginn og liggja síðan undir í gaskút þannig að þær sæjust ekki, en standi nú 3 cm frá húsinu ofan í stétt. Niðurföll frá þaki séu ófrágengin. Tvö niðurföll, sem hafi átt að setja í steyptu stéttina, vanti. Vatn flæði því frá bílskúrsþakinu og öllu svæðinu norðan við húsið og út á götu. Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) í samræmi við teikningu af lóð, en þar komi fram hvernig munstrið eigi að vera. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 1.554.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

4. Steypt stétt og girðing vestan við húsið: Mjög mikill hliðarhalli sé á steyptu stéttinni vestan við húsið vegna vöntunar á tröppu. Á stéttinni sé mikill hliðarhalli sem sé sá sami og langhalli stéttarinnar þar sem þær mætast við norðvesturhorn hússins. Eftir eigi að gera við og ganga frá yfirborði steypta veggjarins. Einnig eigi eftir að ganga frá malbiki á gangstétt næst girðingunni. Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) í samræmi við teikningu af lóð, en þar komi fram hvernig munstrið eigi að vera. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 1.499.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

5. Verönd á suðurhlið húss og tröppur milli svala og garðs: Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) í samræmi við teikningu af lóð, en þar komi fram hvernig munstrið eigi að vera. Vatnspollar myndist á yfirborði verandar, t.d. nálægt inngangi. Stærðar malarrauf sé milli efstu tröppu og neðri brúnar á verönd. Tröppur milli grasflatar og verandar séu misbreiðar og gangi í öldum. Veruleg hækkun sé á neðri tröppu vestast við lóðamörk. Víða séu stórar rifur undir neðstu tröppunni að framanverðu, en enginn kantur hafi verið steyptur undir neðri tröppuna að framan og sé sums staðar opið undir hana. Þökur séu lagðar þétt að steyptum veggjum og tröppu í stað þess að setja helluröð/U-stál, til að auðvelda slátt á lóð o.fl., eins og komi fram á teikningu landslagsarkitekts. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 949.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

6. Veggur meðfram suðurlóðarmörkum: Eftir eigi að ganga frá yfirborði veggjar með suðurlóðarmörkum. Eftir eigi að laga malbik gangstéttar utan við vegginn.  Eftir sé að helluleggja/U-stál með vegg milli veggjar og grass, eins og teikning landslagsarkitekts geri ráð fyrir. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 489.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

7. Innkeyrsla: Eftir eigi að ganga frá yfirborði veggja sem eru til hliðar við innkeyrslu. Eftir eigi að ganga frá köntum á upphækkaðri stétt framan við inngang.  Eftir eigi að saga sprunguraufar í stétt (fúgusögun) í samræmi við teikningu af lóð, en þar komi fram hvernig munstrið eigi að vera. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 751.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

8. Annað: Pollar myndist á stétt framan við aðalinngang. Eftir sé að ljúka við að leggja raflagnir og dósir fyrir lýsingu sem eiga að vera inni í steyptum veggjum samkvæmt lóðarteikningu. Ruslatunnueiningu vanti norðan megin við húsið. U-stál/hellur vanti alls staðar meðfram grasi og veggjum og tröppum. Eftir eigi að ganga frá viftum á austur- og norðurhlið hússins. Mikið sé eftir í viðgerð á veggjum áður en að pússningu komi. Að mati matsmanns sé áætlaður kostnaður 489.000 kr. við að koma umræddum verklið í það horf að hann svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.

Stefnendur segja að verulegt tjón hafi nú þegar orðið á öllum stéttum sem steyptar hafi verið, þar sem sprungusögun hafi ekki verið gerð. Allar stéttir séu orðnar sprungnar og illa farnar og sé það sannarlega galli á verkinu. Tjón vegna þessa sé ekki metið í matsgerðinni, en ljóst að tjónið sé verulegt þar og standi stefnendur frammi fyrir því að láta brjóta upp stéttirnar og steypa þær aftur og bera allt tjón vegna þessa sjálfir og nemi tjónið mun meira en sem nemur kostnaði við að sprungusaga stéttirnar.

Krafa stefnenda sé byggð á niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerðar þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að 6.808.000 kr. kosti að bæta úr við að koma þeim verkliðum sem metnir voru í matsgerðinni í það horf að þeir svari til þeirrar lýsingar sem er sett fram á hinum samþykktu teikningum og verksamningi aðila.  Matskostnaður vegna matsgerðar nemi 789.069 kr., kostnaður vegna VERKÍS nemi 583.666 kr. og áfallinn lögfræðikostnaður við gerð bótakröfu hinn 4. mars 2013 hafi numið 997.577 kr., eða samtals 9.178.312 kr., en það sé stefnufjárhæðin.

Hinn 28. maí 2013 hafi stefndi Vörður tryggingar hf. greitt 2.456.992 kr. upp í tjón stefnenda. Samkvæmt sundurliðun með greiðslunni hafi verið greitt fyrir viðgerð vegna enda á gólfhitalögnum, 61.000 kr., og vegna rakavarnarlags, 19.000 kr., hvort tveggja í samræmi við matsgerð. Greiddar hafi verið 200.000 kr. að álitum vegna norðurstéttar og sú greiðsla hafi átt að innifela brot á stétt, lagfæringu fyllingar og steypu á nýrri stétt í samræmi við teikningar, en samkvæmt matsgerð hafi þessi liður numið 1.554.000 kr. Þá hafi verið greiddar 857.000 kr. vegna uppbrots og steypu á stétt vestan við hús, en samkvæmt matsgerð hafi þessi liður numið 1.499.000 kr. Þá hafi verið greiddar 684.000 kr. vegna verandar á suðurhlið og trappa milli svala og garðs, en samkvæmt matsgerð hafi þessi liður numið 949.000 kr. Þá hafi verið greiddar 91.000 kr. vegna pollamyndunar á stétt fyrir framan inngang. Samtals hafi stefndi Vörður tryggingar hf. greitt stefnendum 1.912.000 kr., eða um 28% af heildarkostnaði þeim sem matsmaður hafi metið nauðsynlegan. Þá hafi félagið greitt hlutfallslegan kostnað stefnenda vegna matsgerðar, kostnaðar VERKÍS og lögfræðivinnu. Alls hafi greiðslan numið 2.456.992 kr., að teknu tilliti til endurgreidds virðisaukaskatts.

Dráttarvaxtakrafa stefnenda byggist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga, svo og 6. mgr. 50. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Kröfubréf stefnenda sé dagsett 4. mars 2013 og beri því krafan dráttarvexti frá og með 4. apríl 2014.

Stefnendur hafna sjónarmiðum stefnda Varðar tryggingar hf. sem koma fram í gögnum málsins, um að óþarfi sé að brjóta upp stétt norðan megin við húsið þar sem ekki sé um galla að ræða, þótt stéttin sé í rangri hæð. Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að röng hæðarstaðsetning stéttar sé galli, sem sé á ábyrgð byggingarstjóra.  Stéttin hallist til vesturs sem geri það að verkum að í frostveðri myndist ísing í hallanum og skapi slysahættu fyrir gangandi vegfarendur. Þessi hæðarmismunur sjáist með berum augum og ljóst að brjóta þurfi stéttina upp og steypa nýja. Þá hafna stefnendur þeirri fullyrðingu um að ef stéttin hefði ekki verið hækkuð þá gæti framburður frá aðliggjandi lóð valdið tjóni á eign stefnenda. Stéttin sé í rangri hæð þar sem eina af þremur tröppum vanti. Frágang við aðliggjandi lóð hafi átt að leysa með öðrum hætti.  Jafnframt mótmæla stefnendur því að hæðarbreyting á stétt hafi verið gerð með samkomulagi stefnenda og stefnda Mótamanna ehf. Vegna viðbáru stefnda Varðar tryggingar hf. um að teikningar hafi verið rangar, sem leitt hafi til þessara mistaka, taka stefnendur fram að eitt af meginhlutverkum byggingarstjóra sé að fara yfir uppdrætti og hönnunargögn með tilliti til þess hvort ágallar kunni að vera á þeim. Samkvæmt þessu liggi fyrir að svo hafi ekki verið gert og hafi byggingarstjóri því vanrækt skyldur sínar, sem leitt hafi til tjóns á verkinu.

Stefnendur mótmæla alfarið staðhæfingum stefndu um að ekki sé búið að greiða fyrir verkið og að um ókláruð verk sé að ræða sem ekki falli undir byggingarstjóratrygginguna. Upphaflegt tilboð hafi numið 6.941.000 kr., en fallið hafi verið frá tveimur liðum, fleygun og niðurbroti á skorstein, þannig að tilboðið hafi lækkað í 6.851.000 kr. Tveir viðbótarliðir hafi komið í ljós, vegna breytinga á magntölum, að fjárhæð 2.141.830 kr., eða samtals 8.992.830 kr. Stefnendur hafi greitt 8.705.720 kr. og því séu einungis ógreiddar 287.110 kr. af verkinu, sem í ljósi aðstæðna geti harla talist vanefndir af hálfu stefnenda í ljósi niðurstöðu matsgerðar.  Stefnendur hafi þannig að fullu greitt fyrir verkið.

Þá mótmæla stefnendur því að handrið ofan á bílskúr sé óklárað verk. Fyrir liggi að handriðið hafi verið of lágt og ekki í samræmi við byggingarreglugerð og það staðfest í matsgerð. Hafi stefnendur látið brjóta niður handriðið og steypa nýtt, í réttri hæð. Þá gæti misskilnings hjá stefnda Verði tryggingum hf. um að handrið yrði sett ofan á vegginn, en handriðið eigi að vera steypt eins og fram komi í verksamningi og matsgerð.

Að öllu ofangreindu telja stefnendur ljóst að stefndu beri bótaábyrgð á tjóni því sem staðfest hefur verið í fyrirliggjandi matsgerð, sem ekki hefur verið hrakin af stefndu.

Um lagarök vísa stefnendur til laga um mannvirki nr. 160/2010, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. rgj. nr. 160/2010. Stefnendur vísa einnig til iðnaðarlaga nr. 42/1978.  Þá er vísað til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Einnig er vísað til almennu sakarreglunnar og reglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Jafnframt vísa stefnendur til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Þá vísa stefnendur til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV.

Stefndu Guðmundur Már og Mótamenn ehf. byggja á því að í tilboði stefnda Mótamanna hafi ekki verið innifalið að múra eða filta bílskúr að utan eða innan, né að múra eða filta stoðveggi. Umsamið verð fyrir verkið hafi verið samkvæmt tilboði Mótamanna ehf., 6.941.000 kr., með fyrirvara um magntölur. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins hafi tilboð verktaka, merkt fylgiskjal I, verið til viðmiðunar. Þar sjáist að inn í fyrrgreinda upphæð vanti ýmsa liði sem tilgreindir séu í samkomulaginu. Ekki séu tilgreind U-stál, niðurföll, lagnir frá niðurföllum, „ruslajúnit“, dósir og lagnir fyrir lýsingu í veggi. Þá sé tilgreindur sérstaklega á annarri blaðsíðu fylgiskjalsins kostnaður vegna moldarfyllingar og þökulagnar sem og kostnaður vegna múrunar og pússningar. Þá sé jafnframt gefið upp verð fyrir snjóbræðslu í stéttum, verönd og innkeyrslu. Þessir liðir hafi verið tilgreindir sérstaklega af verktaka þar sem þeir hafi ekki verið hluti af upphaflegri kostnaðaráætlun.

Allir reikningar sem gefnir hafi verið út vegna verksins hafi verið gerðir í samráði við stefnanda Arndísi samkvæmt sundurliðun hennar. Þar sé m.a. tilgreindur undir liðnum „ekki í tilboði“ kostnaður vegna grass og gróðurmoldar/moldarfyllingar. Neðst í hægra horni skjalsins séu tilgreindir verkþættir sem þannig falli utan tilboðsins og sé þar að finna liðinn „múrun, pússning“.  Þannig sé ljóst að múrverk og pússning  hafi ekki verið innifalin í verksamningi.

Þá segja stefndu að margir kröfuliðir stefnenda hafi verið bættir af stefnda Verði tryggingum hf. og því sé mótmælt að byggt sé á þeim þáttum. Þá er því mótmælt að einstakir verkþættir sem ekki hafi verið framkvæmdir og ekki hafi verið greitt fyrir geti orðið grundvöllur bótakröfu. Þá tilgreina stefnendur m.a. polla á þaki bílskúrs sem tjón, en það sé í ósamræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar. Þar sem múrverk og pússning sé ekki innifalin í verksamningi aðila mótmæla stefndu að í matsbeiðni stefnenda sé verið að fella þann frágang á stefndu. Að mati stefndu hefur stoðveggjum og ytra og innra byrði bílskúrsins verið skilað í samræmi við verksamning. Þá hafi stöðvun stefnenda á verkinu og uppsögn orsakað það að ekki hafi verið lokið við einstaka verkliði og ekki verið hafist handa við aðra. Meint tjón stefnenda er að mati stefndu stórlega ofmetið.

Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu stefnenda að samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé staðfest að verulegir ágallar hafi komið í ljós á verkinu og rekja megi til stórfelldrar vanrækslu á verksmíði einstakra iðnmeistara eða hönnuða. Það sé niðurstaða matsmanns að verkinu sé ekki að fullu lokið og að verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við teikningar að ýmsu leyti. Í þessu felist ekki viðurkenning á stórfelldri vanrækslu á verksmíði einstakra iðnmeistara eða hönnuða. Í þessu felist ekki heldur að verkið sé gallað.

Útgáfa reikninga hafi verið í nánu samstarfi við stefnendur og stefnendur haldið utan um útgáfu reikninga í excel-skjali. Sé horft til sundurliðunar greiðslna í skjalinu sjáist að ekki hafi verið greitt fyrir snjóbræðslu, sögun fyrir bílskúrshurð og gönguhurð úr bílskúr í kyndiklefa. Þá hafi ekki verið greitt fyrir það múrverk sem hafi verið unnið á innra byrði bílskúrs. Eins hafi ekki verið greitt fyrir umbeðið aukaverk stefnanda um niðurbrot og tilfærslu stétta, stiga og veggja við innkeyrslu.

Þá vísa stefndu til þess að um ábyrgð iðnmeistara á verkum sé fjallað í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. 32. gr. laga nr. 160/2010. Um ábyrgð húsasmíðameistara sé fjallað í 38. gr. reglugerðarinnar, en um ábyrgð múrarameistara í 39. gr. reglugerðarinnar. Ljóst sé að öll steinsteypa, niðurlögn hennar og eftirmeðhöndlun sé á ábyrgð múrarameistara. Stefndi Guðmundur Már hafni því bótaábyrgð á grundvelli stöðu sinnar sem húsasmíðameistara hvað varðar meinta galla í niðurlögn steypu í stéttir, stoðveggi og önnur steypuverk, hvort sem það sé vegna hæðar eða frágangs.

Um varakröfu sína um skuldajöfnuð byggja stefndu á því að stefndi Mótamenn ehf. eigi kröfu á stefnendur að fjárhæð 1.035.375 kr., sbr. reikning, dags. 30. maí 2012. Sú krafa sé gjaldfallin og hæf til þess að mæta kröfum stefnenda fyrir skuldajöfnuð. Sé hún því höfð uppi til skuldajafnaðar gegn kröfu stefnenda. Skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þannig séu kröfur aðila hæfar til að mætast, þær séu milli sömu aðila, samkynja, samrættar, lögvarðar og fallnar í gjalddaga. Krafan sé vegna umbeðins aukaverks stefnenda um niðurbrot og tilfærslu stétta, stiga og veggja við innkeyrslu.

Varakröfu og þrautavarakröfu um lækkun dómkröfu stefnenda byggja stefndu m.a. á því að matskostnaður sé tilgreindur sem hluti fjártjóns. Slíkur kostnaður tilheyri málskostnaði, sbr. e-lið 1. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála. Þá er mótmælt kröfu stefnenda um að stefndu eigi að bera kostnað vegna vinnu VERKÍS. Því er mótmælt að lögfræðikostnaði stefnenda sé bætt við bótakröfu þar sem um málskostnað sé að ræða, sem skuli ákveðinn af dóminum komi til þess. Stefndu gera einnig kröfu um að virðisaukaskattur sem tilgreindur er hluti af bótakröfu verði dreginn frá að því marki sem rakið er í greinargerð stefnda Varðar trygginga hf. Stefndu vísa jafnframt til málatilbúnaðar stefnda Varðar trygginga hf. að því leyti sem hún styður málatilbúnað stefndu.

Um lagarök vísa stefndu til laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 441/1998. Einnig er vísað til almennu sakarreglunnar og reglna skaðabótaréttar. Þá er vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. 

Vegna kröfu um málskostnað er sérstaklega vísað til 1. mgr. 131. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafist er álags á málskostnað er nemur virðisaukaskatti hvað varðar stefnda Guðmund Má. Hvað varðar virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V.

Stefndi Vörður tryggingar hf. byggir á því að stefndi, sem ábyrgðartryggjandi meðstefnda Guðmundar Más, geti eingöngu borið ábyrgð á því tjóni sem falli undir skilmála þeirrar tryggingar sem hafi verið í gildi á tjónsdegi. Af orðalagi skilmálanna, og 29. gr. laga nr. 160/2010, dómaframkvæmd og eðli máls leiði að stefndi beri ekki ábyrgð á meiri hluta þeirra verkþátta sem taldir eru upp í matsgerð.

Nánar tiltekið byggir stefndi á því að ábyrgð hans samkvæmt byggingarstjóra­tryggingu nái ekki yfir verkþætti sem ekki hafi verið unnir eða ólokið þegar matið fór fram. Ábyrgðartrygging byggingarstjóra sé ekki verk- og/eða efndatrygging. Það sé stefnenda að sækja til saka aðra  eftir atvikum vegna slíkra vanefnda samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Skilmálar stefnda takmarkist við skyldur byggingar­stjóra skv. 29. gr. laga nr. 160/2010. Af því leiði, sbr. 7. mgr. 29. gr., að bótaábyrgðin afmarkist við almennar skaðabótareglur utan samninga. Samkvæmt því verði stefndi ekki krafinn um greiðslu vegna ólokinna verkþátta enda ekki á ábyrgð byggingarstjóra. Það að verki hafi ekki verið lokið sé ekki á ábyrgð byggingarstjóra, enda ráði hann ekki yfir verkum og hafi hvorki mannaforráð né fjárráð þannig að það sé í hans valdi að setja menn til verka. Slíkt sé ekki hlutverk byggingarstjóra og því hafi verið slegið föstu í dómaframkvæmd, enda verkstjórn ekki meðal hugtakaskilyrða 29. gr. laga nr. 160/2010.

Umtalsverður hluti bótakröfu stefnenda sé tilkominn vegna ólokinna verkþátta, eða að lágmarki eftirfarandi: 

Bílskúr inni kr. 198.000

Bílskúr utanhúss  kr. 511.000

Stétt að inngangi á norðurhlið ásamt vesturhlið kr. 659.000

Steypt stétt og girðing vestan við húsið kr. 715.000

Verönd á suðurh. og tröppur m. svala og garðs kr. 161.000

Veggur meðfram suðurlóðarmörkum kr. 489.000

Innkeyrsla kr. 751.000

Annað kr. 428.000

Samtals kr. 3.912.000

Stefndi telur að undir engum kringumstæðum geti ábyrgð stefnda skv. byggingarstjóratryggingu tekið til verkþátta sem ekki sé lokið. Fyrirliggjandi trygging taki eingöngu til þess sem byggingarstjóri beri ábyrgð á samkvæmt lögum nr. 160/2010. Hafi verktaki ákveðið, hvort sem það sé vegna vanefnda verkkaupa eða af öðrum ástæðum, að ljúka ekki hluta af verkþætti eða verkþættinum í heild, verði bætur vegna þeirra vanefnda ekki sóttar úr byggingarstjóra­tryggingu hjá stefnda. Auk þess geti verk sem ekki hefur verið unnið ekki verið gallað.

Þá byggir stefndi á því að ekki verði krafist bóta fyrir verkþætti sem séu ógreiddir af stefnendum. Jafnvel þótt fallist yrði á að allir þættir matsgerðar væru réttmætir og bótaskyldir samkvæmt tryggingunni hjá stefnda sé ljóst að undir engum kringumstæðum verði stefnda gert að greiða stefnendum virðisaukaskatt á þá kröfuliði sem eru vegna vinnu við úrbætur. Stefnendur, sem einstaklingar, geti fengið þann þátt fjárkröfu sinnar endurgreiddan í gegnum átak ríkisskattstjóra sem nefnist „allir vinna“. Engin tilraun sé gerð til að reifa meint tjón stefnenda með hliðsjón af þessu. Í öllu falli verði að lækka dómkröfu stefnenda sem þessu nemi og því megi velta upp hvort krafa sé vanreifuð hvað þetta varði og málið varði frávísun ex officio. Sá hluti kostnaðarmats sem teljist vinna nemi 3.727.000 kr. Virðisaukaskattur (25,5%) af þeirri fjárhæð sé 950.385 kr. Þegar tekið hafi verið tillit til þessa, sem og þátta sem sé ólokið, standi því eftir 1.945.615 kr. af áætluðum kostnaði samkvæmt matsniðurstöðu. Stefndi hafi þegar greitt stefnendum 2.456.992 kr.

Stefndi segir að stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að tjón þeirra verði rakið til þess atviks sem þeir reisi kröfu sína um skaðabætur á. Stefnendur hafi forræði á sönnunarfærslu sinni. Beiðni um dómkvaðningu matsmanns sé á ábyrgð stefnenda og hann beri áhættuna af því ef matsgerð telst hafa takmarkað sönnunargildi. Þannig sé það á ábyrgð stefnenda hvernig þær hafa kosið að leggja matsefni fyrir matsmann. Gildi fyrirliggjandi matsgerðar afmarkist þannig að því hvernig matsefni séu borin undir matsmann. Stefndi telur að ábyrgð byggingarstjóratryggingar sé bundin við vinnu byggingarstjóra við leyfisskyld mannvirki, sbr. 9., 29. og einnig 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010, sem og grein 2.2 í skilmálum tryggingarinnar. Af því leiði að ábyrgð stefnda nái ekki til verka sem stefndi Guðmundur Már hafi unnið fyrir stefnendur og eru ekki leyfisskyld og ekki var skylt að skrá byggingarstjóra á. Enga sundurgreiningu sé að finna á þessu í matsbeiðni eða matsgerð. Á hluta þess  verks sem krafist er bóta fyrir sé ekki skylt að hafa byggingarstjóra. Meintum ágöllum/vanefndum stefndu á slíkum þáttum geti stefndi ekki borið ábyrgð á. Án sundurgreiningar á verkþáttum og kostnaðarliðum sem eru leyfisskyldir sé meint tjón stefnenda ósannað og í raun vanreifað.

Af byggingarsögu eignarinnar megi ráða að einu breytingarnar sem samþykktar voru á árinu 2010 tengist bílskúrnum og að stefndi Guðmundur Már hafi verið skráður sem byggingarstjóri vegna framkvæmda við hann. Stór hluti framkvæmdanna hafi hins vegar ekki verið leyfisskyldur og meint mistök eða gallar við þann hluta séu stefnda því óviðkomandi.

Sem dæmi nefnir stefndi að „lóðarveggur“ eða „steyptur veggur“ teljist ekki leyfisskyld framkvæmd. Stefndi vísar í þessu sambandi m.a. til 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. einnig f-lið greinar 2.3.5 í núgildandi byggingarreglugerð. Þá hafi ekki verið gerð krafa um að burðarþolsteikningum væri skilað vegna þessa liðar. Stefndi telur að svo virðist sem samanlagður kostnaður vegna þess sem ólokið eða ábótavant sé að lágmarki 1.521.000 kr. Stefndi telur að þessi kostnaður falli utan byggingarstjóratryggingarinnar.

Sama gildi um vinnu við grasþökur og „U-stál“, samtals 104.000 kr., sem og aðra þætti, t.d. þá sem tengist frágangi lóðar og stéttar við húsið. Stefndi heldur því fram að það sé stefnenda að afmarka og sanna gagnvart stefnda hvaða hluti verksins krefjist byggingarstjóra. Slík sönnun hafi ekki verið reynd eða reifað á hverju hún sé byggð. Þar til slíkt liggi fyrir sé bótakrafa stefnenda bæði ósönnuð og vanreifuð.

Jafnframt byggir stefndi á því að framkvæmdir sem ekki voru í samræmi við teikningar en breytt í samræmi við óskir stefnenda geti ekki talist á ábyrgð byggingarstjóra. Af skjölum málsins megi ráða að hækkun stéttar norðanmegin við húsið, sem og lækkun handriðs, hafi verið framkvæmt með vitund og vilja stefnenda. Því geti þessir þættir ekki komið til skoðunar við mat á ábyrgð stefnda. Sama gildi um einangrun vesturhliðar bílskúrs, sem hafi verið unnin utan á með vitund og vilja stefnenda til að auka rými innan bílskúrsins.

Einnig byggir stefndi á því að verk sem hafi verið framkvæmd af stefnda Mótamönnum ehf. áður en stefndi Guðmundur Már var skráður á verkið, hinn 2. ágúst 2011, falli ekki undir byggingarstjóratryggingu stefnda. Ljóst sé af gögnum málsins að fyrir þann tíma hafi stefndi Guðmundur Már þegar unnið hluta verksins. M.a. virðist öll steypuvinna við verönd sunnan eignarinnar þá þegar hafa verið unnin. Ekkert liggi fyrir um að stefndi Guðmundur Már hafi sérstaklega verið ráðinn sem byggingarstjóri til verksins fyrir þann tíma. Verði að auki ekki við aðra tímasetningu miðað í þessum efnum en dagsetningu opinberrar skráningar.              

Stefndi telur að í raun hafi stefnendur ekki fært sönnun á fjárkröfu sína gagnvart stefnda, jafnvel þótt talið yrði að allir kröfuliðir væru réttmætir. Slík sönnun liggi ekki fyrir en afmarkað hafi verið hvaða hluti verksins hafi verið unninn fyrir 2. ágúst 2011 og andvirði þess tjóns sem þar væri talið yrði dregið frá bótakröfunni á hendur stefnda. Fjárkrafa stefnenda sé því vanreifuð gagnvart stefnda og í andstöðu við e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá heldur stefndi því fram að stefnendur hafi ranglega krafist matskostnaðar sem hluta fjártjóns. Slíkur kostnaður tilheyri málskostnaði, sbr. e-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og geti fyrst orðið gjaldkræfur að dómi uppkveðnum og beri ekki dráttarvexti fyrr en 15 dögum eftir dómsuppkvaðningu, sbr. 4. mgr. 129. gr. sömu laga.

Því er sérstaklega mótmælt að stefndi beri kostnað af matsgerðum sem unnar hafi verið án vitneskju eða aðkomu stefnda, eins og skýrsla VERKÍS. Einnig er því mótmælt að lögfræðikostnaður sé hluti af höfuðstól bótakröfu, samtals 997.577 kr., og kröfu um dráttarvexti. Hér sé um að ræða hluta af málskostnaði sem ákveðinn sé af dóminum komi til þess.

Að lokum er þess krafist að dráttarvextir verði fyrst dæmdir frá dómsuppsögu, enda hafi enn ekki verið gerð viðhlítandi grein fyrir sundurliðun meints tjóns stefnenda.

Krafa stefnda um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafist er álags á málskostnað sem nemur virðisaukaskatti.

VI.

Í máli þessu er deilt um meinta galla á verki sem unnið var samkvæmt samningi stefnenda við stefnda Mótamenn ehf., dags. 19. maí 2011, um byggingu bílskúrs, stoðveggi, innkeyrslu, verönd, stéttir og jarðvinnu. Með samningnum fylgdi skjal, sem er hluti af samningnum, þar sem kostnaður er sundurliðaður og byggt er á magntölum og einingaverðum.

Stefnendur halda því fram að samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, Björns Gústafssonar byggingarverkfræðings, dags. 12. febrúar 2013, sé staðfest að verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við samþykktar teikningar og að ágallar séu á verkinu. Stefnendur byggja á því að stefndu Mótamenn ehf. og stefndi Guðmundur Már sem húsasmíða­meistari beri ábyrgð á ágöllunum. Þá beri stefndi Guðmundur Már meðábyrgð á göllunum sem byggingarstjóri. Verði tryggingum hf. er stefnt á grundvelli starfsábyrgðar­tryggingar byggingarstjóra sem stefndi Guðmundur Már var með.

Inni í bílskúrnum koma endar á gólfhitalögnum upp utan við vegg kyndiklefa í stað þess að ganga inn í gegnum hann og inn í kyndiklefann. Ekki hefur verið sýnt fram á að teikningum hafi ekki verið fylgt hvað þetta varðar og er þessum kröfulið því hafnað. Fallist er á kröfulið að fjárhæð 19.000 kr. vegna vöntunar á rakavarnarlagi undir gipsklæðningu á suðurgafli bílskúrs. Hins vegar er hafnað kröfu vegna pússningar á lofti bílskúrsins, enda bar að skila bílskúrnum tilbúnum til pússningar, en ekki með pússningu. Stoðveggjum í kringum húsið átti einnig aðeins að skila tilbúnum til pússningar. Jafnframt ber að hafna kröfulið vegna loftræstingar í bílskúr, þar sem hún kemur ekki fram á teikningu og ekki var gert ráð fyrir henni í fylgiskjalinu með samningnum, þar sem kostnaður var greindur og sundurliðaður. Jafnframt verður að hafna kröfu hvað varðar það að hluti af vesturhlið hafi ekki verið einangraður. Matsmaður virðist byggja þetta á skoðun undir tröppum á þeim hluta sem nær upp fyrir bílskúrinn og myndar handrið og telur „ólíklegt“ að hliðin sé einangruð. Stefndi Guðmundur Már fullyrðir hins vegar að útveggur bílskúrsins hafi verið einangraður. Að þessu virtu og þar sem ekki hefur verið sannreynt að vesturhliðin sé óeinangruð ber að hafna þessum kröfulið. 

Hvað varðar meinta galla utan á bílskúrnum verður að hafna öllum kröfuliðum sem snúa að múrun og pússningu, með vísan til þess að aðeins átti að skila bílskúrnum tilbúnum til pússningar. Í fylgiskjalinu með samningnum var gert ráð fyrir að múrun og pússun væri unnin aukalega og kostaði 3.500 kr. fermetrinn með virðisaukaskatti. Þá verður að hafna kröfu vegna gats undir tröppum sem liggja upp á bílskúrsþak þar sem það verður ekki séð af teikningum að það eigi að vera lokað. Einnig verður að hafna kröfulið vegna einangrunar utan á bílskúr. Matsmaður telur eðlilegt að einangrun nái upp alla vegghæðina en teikningar sýna aðeins einangrun innan á útveggjum bílskúrs og þannig ekki gert ráð fyrir því á teikningum og í tilboði stefnda Mótamanna ehf. að veggur fyrir ofan bílskúr væri einangraður. Auk þess skiptir það engu máli varðandi kuldabrú. Í kostnaðarmati matsmanns er liðurinn ein ný trappa upp á bílskúr en það er hluti af stétt að norðanverðu, sbr. umfjöllun hér á eftir. Fallist er á að handrið ofan á bílskúrnum hafi verið of lágt og ekki í samræmi við teikningar. Stefndi Guðmundur Már gat ekki gefið skýringu á því fyrir dómi af hverju handriðið var steypt of lágt. Þar sem í fylgiskjali með samningnum var byggt á magntölum og uppgjör fór fram í samræmi við það er ekki unnt að byggja á kostnaðaráætlun matsmanns. Stefnendur hafa ekki lagt fram gögn um það hver kostnaðurinn var við að láta hækka handriðið. Verður þessi kostnaðarliður metinn að álitum 40.000 kr.

Í matsgerð segir um stétt að inngangi á norðurhlið að nýr lóðarveggur norðan við húsið sé ófrágenginn. Um er að ræða hluta af múrverki sem var, eins og áður segir, ekki innifalið í samningnum og það að rétta hafi þurft af kanta í múrverki og 45° skáa efst á vegg breytir engu þar um. Matsmaður telur eðlilegt að loka tröppunum við inngang að norðan en það sést ekki á teikningu að svo eigi að vera og er gert ráð fyrir léttum tröppum á teikningum. Er þessum kröfulið því hafnað. Einnig er hafnað kröfulið vegna tveggja niðurfalla í stéttina þar sem þau koma ekki fram á teikningum og ekki hefur verið greitt fyrir þau. Jafnframt ber að hafna kröfu vegna gaslagna frá eldhúsi og niðurfalla frá þaki þar sem þessi verk voru ekki innifalin í samningi aðila og kostnaðaráætlun. Hvað varðar sögun sprunguraufa í stétt þá er um að ræða ólokið verk sem ekki hefur verið greitt fyrir og ber því að hafna þeirri kröfu. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð var stéttin að norðan steypt um 14 cm hærri en teikningar gerðu ráð fyrir, og á henni er hliðarhalli. Gegn mótmælum stefnenda er ósannað að stéttin hafi verið hækkuð með vitund og vilja þeirra. Hægt hefði verið að leysa hugsanleg vandamál vegna vatns frá lóðinni að ofan með öðrum hætti en að hækka stéttina. Með vísan til framangreinds er fallist á kostnaðarliðina brot á stétt og brottflutningur steypubrota, 216.000 kr., skafa ofan af fyllingu og þjappa undir stétt, 103.000 kr., og steypa nýja stétt í samræmi við teikningar, 542.000 kr. Trappa, þ.e. þrep, sem matsmaður telur vanta framan við bakinngang að norðanverðu, er hluti af stétt, sbr. umfjöllun hér á eftir.

Þá er í matsgerð fjallað um steypta stétt og girðingu vestan við húsið. Kröfuliðum varðandi frágang lóðarveggs að ofan og frágang á yfirborði steypts veggjar er hafnað, með vísan til þess sem áður segir um að múrun og pússning var ekki hluti af samningnum. Fallist er á kröfuliðinn malbikun á stétt við girðingu, að fjárhæð 52.000 kr., þar sem stefnda Mótamönnum ehf. bar að ljúka frágangi út í götu samkvæmt fyrirliggjandi samningi. Sögun á sprungurauf er ólokið verk sem ekki hefur verið greitt fyrir og er þeirri kröfu hafnað. Fallist er á kröfuliðinn fleygun ofan af klöpp, 55.000 kr., þar sem fleygun var innifalin í samningnum. Eins og fram kemur í matsgerð, og sást við vettvangsgöngu, er mikill hliðarhalli á stéttinni vestan við húsið, sem er sá sami og langhalli stéttarinnar norðan við húsið þar sem þær mætast við norðvesturhorn hússins. Í matsgerð kemur fram að samkvæmt mælingu matsmanns sé þverhalli á stéttinni vestan við húsið um 60‰, eða 60 mm á hvern metra. Þetta teljist mjög mikill halli á stétt upp við hús og meiri en forsvaranlegt er. Samkvæmt matsgerð er langhalli neðan trappanna vestan við húsið rúmlega 50‰. Með vísan til framangreinds er fallist á kröfuliðina brot á stétt og brottflutningur steypubrota, 183.000 kr., lagfæra fyllingu og þjappa undir stétt, 87.000 kr., og steypa nýja stétt í samræmi við teikningar, 459.000 kr. Af þessu leiðir að fallast ber á kostnaðarlið við þrjú þrep vestan við húsið, 73.000 kr., eitt þrep upp á bílskúr, 24.000 kr. og eitt þrep framan við bakinngang norðanmegin, 24.000 kr. 

Af þessu leiðir jafnframt að fallast ber á kröfuliði hvað varðar verönd á suðurhlið húss og tröppur milli svala og garðs. Nánar tiltekið brot á stétt og tröppum/brott­flutning steypubrota, 148.000 kr., lagfæra fyllingu og þjappa undir stétt, 71.000 kr., steypa nýja stétt, 327.000 kr., og steypa nýjar tröppur, 138.000 kr. Þökur eru lagðar þétt að steyptum veggjum og tröppu í stað þess að setja hellur eða U-stál og er fallist á kröfulið vegna þessa, að fjárhæð 104.000 kr., þar sem þetta var innifalið í samningi. Sögun sprunguraufa á verönd á suðurhlið hússins er ólokið verk sem ekki hefur verið greitt fyrir. Þeim kröfulið er því hafnað.

Kröfuliðir sem varða frágang á vegg meðfram suðurlóðarmörkum og köntum á stétt framan við inngang snúa að múrun og er þeim hafnað. Með vísan til þess sem áður segir um malbikun er fallist á þann kröfulið stefnenda, 69.000 kr.

Atriði sem snúa að innkeyrslu varða múrun og er því hafnað. Það sama á við um sögun á sprunguraufum í stétt, enda ólokið verk sem hefur ekki verið greitt fyrir. 

Í matsgerð er fjallað um pollamyndun á stétt framan við aðalinngang. Um er að ræða hluta af múrverki sem ekki er innifalið í samningi eins og áður segir og er því ekki fallist á þennan kröfulið stefnenda. Í matsgerð segir að það eigi eftir að ljúka við að leggja raflagnir og dósir fyrir lýsingu sem eigi að vera inni í stétt. Lagning raflagna er ekki hluti af samningnum og dósir ekki tilgreindar í fylgiskjalinu með samningnum. Um er að ræða ólokið verk sem ekki hefur verið greitt fyrir. Það sama á við um frágang á viftum. Ruslatunnueiningin var hluti af samningnum og er því fallist á kröfu vegna þess, 292.000 kr. Hluti af bótakröfu stefnenda er vegna matsgerðar dómkvadds matsmanns, en sá kostnaður telst málskostnaður samkvæmt 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það sama á við um áfallinn lögfræðikostnað. Þá ber að hafna kröfu stefnenda vegna kostnaðar við álit VERKÍS sem stefnendur öfluðu einhliða.  

Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á kröfuliði stefnenda samtals að fjárhæð 3.026.000 kr. En að teknu tilliti til þess að stefnendur geta fengið virðisaukaskatt vegna vinnu endurgreiddan að upphæð 209.892 kr. þá verður fjárhæð kröfuliða sem fallist er á 2.816.108 kr. Stefnendur hafa þegar fengið greiddar 1.912.000 kr. í samkomulagsbætur frá stefnda Verði tryggingum hf. Mismunurinn er 904.108 kr. Óumdeilt er að stefndi Mótamenn ehf. vann aukaverk sem ekki hefur verið greitt fyrir. Fyrir liggur reikningur stefnda Mótamanna vegna aukaverka, dags. 30. maí 2012, að fjárhæð 1.035.375 kr. Stefnendur mótmæla þeirri fjárhæð en ekki hefur verið sýnt fram á að hann sé ósanngjarn. Ber því að fallast á varakröfu stefndu Guðmundar Más og Mótamanna ehf. að fjárhæð 910.680 kr., en þá hefur verið tekið tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnuliðar. Sú fjárhæð er hærri en framangreindur mismunur, að fjárhæð 904.108 kr., og verða stefndu því sýknaðir af frekari kröfum stefnenda.  

Eftir þessum úrslitum og atvikum máls verða stefnendur dæmdir til að greiða stefndu Guðmundi Má og Mótamönnum ehf. hvorum um sig 200.000 kr. og stefnda Verði tryggingum hf. 400.000 kr.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingarverkfræðingi og Jóni Ágústi Péturssyni, byggingartæknifræðingi og húsasmíðameistara. Dómsuppkvaðning hefur dregist en gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Guðmundur Már Ástþórsson, Mótamenn ehf. og Vörður tryggingar hf., eru sýkn af kröfum stefnenda, Arndísar Bjargar Sigurgeirsdóttur og Báru Kristínar Kristinsdóttur.

Stefnendur greiði stefndu Guðmundi Má og Mótamönnum ehf. hvorum um sig 200.000 krónur og stefnda Verði tryggingum hf. 400.000 kr.